Framundan

Störf lögmanna í lögræðismálum

Farið verður yfir L-málin og hlutverk lögmanna við sviptingu sjálfræðis og fjárræðis. Hvernig er hagmunum skjólstæðinga best borgið? Hver eru mannréttindi fólks sem svipt er frelsi og þvingað til að þola nauðuga lyfjameðferð? Þá verður fjallað um hinar ýmsu greiningar og einkenni í geðlæknisfræðinni, störf réttindagæslumanna kynnt og í lokin mun verða rætt um nauðung og þvingun í geðheilbrigðisþjónustunni.

Nánari upplýsingar og skráning

Skiptastjórn þrotabúa – ný tímasetning 9. feb. og 2. mars

Fjallað verður starf og meginskyldur skiptastjóra frá skipun til skiptaloka. Lögð verður áhersla á þau praktísku álitaefni sem koma upp við skipti þrotabúa, meðferð og ráðstöfun veðsettra og óveðsettra eigna  og aðkomu kröfuhafa að málefnum þrotabús.  Þá verður fjallað um meðferð krafna og ágreiningsmála,  riftun ráðstafana, úthlutun og lok gjaldþrotaskipta. 

Ákveðið hefur verið að bjóða eingöngu upp á námskeiðið í Teams fjarfundi.

Nánari upplýsingar og skráning

Munnlegur málflutningur

Farið verður yfir hvað einkennir góðan málflutning í dómsal sem og skipulag og uppsetningu góðrar málflutningsræðu. Hvað einkennir slæma ræðumennsku og hvað telja dómarar vera góðan málflutning? Þá verður einnig farið yfir framkomu gagnvart vitnum og dómurum.

Nánari upplýsingar og skráning

Kærur í einkamálum til Landsréttar og Hæstaréttar - ný dagsetning námskeiðs

Fjallað verður með hagnýtum hætti um kærumál fyrir Landsrétti og Hæstarétti, t.d. um kæruheimildir og önnur skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að aðili megi bera kærumál undir æðri dóm. Þá verður vikið að framlagningu nýrra skjala og atriði sem snerta meðferð kærumála að öðru leyti. Einnig verður stuttlega vikið að frágangi og útbúningi kærumálsgagna.

Athugið nýja dagsetningu námskeiðs: 8. mars

Nánari upplýsingar og skráning

Fjöleignarhúsalögin – reglur og framkvæmd

Á þessu tveggja eftirmiðdaga námskeiði verður fjallað um fjöleignarhúsaformið frá hinum ýmsu hliðum með  fjöleignarhúsalögin nr. 26/1994 í forgrunni. Við sögu koma ófrávíkjanleiki laganna, hugtakið hús og hið sérstaka fasteignarhugtak. Ítarleg grein verður gerð fyrir stöðu húsfélags að lögum og hvað felist í skylduaðild að því. Þá verður fjallað um skiptinguna í séreign, sameign og sameign sumra og þýðingu hlutfallstölu og eignaskiptayfirlýsinga. Ennfremur verður fjallað um svigrúm einstakra eigenda til athafna, hvort sem er í sameign eða séreign. Þess verður jafnframt freistað að draga upp sem gleggsta mynd af því sígilda álitaefni hvað sé sameiginlegur kostnaður og hvernig hann skiptist. Loks verður fjallað um það hvaða reglur gilda um ábyrgð húsfélags og einstakra eigenda og hina sérstæðu reglu 55. gr. laganna um búsetubann og söluskyldu. Til hliðsjónar verða dómar Hæstaréttar og einstök álit kærunefndar húsamála.

Nánari upplýsingar og skráning

Breyting á lögum um vörumerki

Með gildistöku laga nr. 71/2020 voru ákvæði vörumerkjatilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2436 innleidd í lög nr. 45/1997 um vörumerki. Breytingarnar tóku gildi 1. september sl. ásamt nýrri reglugerð nr. 850/2020 um málsmeðferð. Með þessum breytingum hafa ný sóknarfæri skapast fyrir notendur á markaði bæði hér á landi sem erlendis þar sem unnt er nú að sækja um vernd fyrir allar tegundir merkja. Þá er málsmeðferð skýrari og gagnsærri en áður, þ.e. umsóknar- og skráningarferli, sem og leiðir þriðju aðila til að sækja rétt sinn t.d. með andmælum eða kröfum um ógildingu eða niðurfellingu skráninga. Þá eru ákvæði um tengd réttindi, þ.e. félaga-, ábyrgðar- og gæðamerki útfærð nánar. Farið verður yfir helstu breytingar og sjónarmið við túlkun á nýjum/breyttum ákvæðum.

Nánari upplýsingar og skráning

Störf verjenda og réttargæslumanna

Fjallað verður um störf verjenda og réttargæslumanna í sakamálum og áhersla lögð á raunhæf álitaefni. Hvert er hlutverk verjanda sakbornings og réttargæslumanns brotaþola á rannsóknarstigi og fyrir dómi?  Fjallað verður um störf verjenda og réttargæslumanna út frá réttarreglum, dómum og framkvæmd. Í hvaða tilvikum er lögreglu skylt/heimilt að tilnefna réttargæslumann og hvenær á að skipa réttargæslumann fyrir Landsrétti og Hæstarétti? Hvenær er rétt/heimilt að fá dómkvadda matsmenn til að framkvæma ákveðnar athuganir í sakamálum? Rætt verður um ólíkar heimildir til að bera undir dómstóla ákvarðanir lögreglu við rannsókn máls og mismunandi stöðu og heimildir réttargæslumanns og verjanda. 

 

Nánari upplýsingar og skráning

Slysatryggingar – 15. og 16. apríl í Reykjavík

Fjallað verður um bæði skyldubundnar og frjálsar slysatryggingar. Fyrst verður fjallað um sameiginleg einkenni slysatrygginga, þar með talið hugtök sem hafa sérstaka merkingu í þeim öllum, en að því búnu vikið að einstökum tegundum slysatrygginga. Meðal annars verður fjallað um lögmæltar slysatryggingar ökumanns samkvæmt lögum nr. 30/2019 um ökutækjatryggingar og sérstöðu þeirra, kjarasamningsbundnar slysatryggingar sjómanna, kjarasamningsbundnar slysatryggingar annarra launþega, slysatryggingar ríkisstarfsmanna samkvæmt reglum nr. 30/1990 og 31/1990. Þá verður fjallað um frjálsar slysatryggingar, einkum þær sem eru í flestum tegundum heimilis- og fjölskyldutrygginga.

Í lokin verður fjallað stuttlega um tengsl slysatrygginga við skaðabótareglur og almennt um áhrif þeirra á uppgjör.

Nánari upplýsingar og skráning

Slysatryggingar – 20. og 21. apríl 2021 á Akureyri

Fjallað verður um bæði skyldubundnar og frjálsar slysatryggingar. Fyrst verður fjallað um sameiginleg einkenni slysatrygginga, þar með talið hugtök sem hafa sérstaka merkingu í þeim öllum, en að því búnu vikið að einstökum tegundum slysatrygginga. Meðal annars verður fjallað um lögmæltar slysatryggingar ökumanns samkvæmt lögum nr. 30/2019 um ökutækjatryggingar og sérstöðu þeirra, kjarasamningsbundnar slysatryggingar sjómanna, kjarasamningsbundnar slysatryggingar annarra launþega, slysatryggingar ríkisstarfsmanna samkvæmt reglum nr. 30/1990 og 31/1990. Þá verður fjallað um frjálsar slysatryggingar, einkum þær sem eru í flestum tegundum heimilis- og fjölskyldutrygginga.

Nánari upplýsingar og skráning

Möt á afleiðingum líkamstjóna (örorkumöt) – læknisfræði vs lögfræði

Annars vegar verður fjallað um gagnaöflun og læknisfræðileg orsakatengsl við möt á afleiðingum líkamstjóna, um meginreglur matsfræðanna varðandi mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku og varanlegum miska. Hins vegar verður fjallað um gagnaöflun og lögfræðileg orsakatengsl svo og um mat á varanlegri örorku.

Nánari upplýsingar og skráning