Framundan

Arðgreiðslur frá A til Ö – 14. febrúar 2023

Fjallað verður um arðgreiðslur og samspil hlutafélagalaga, skattalaga og ársreikningalaga. Farið verður yfir ýmis álitamál í tengslum við formreglurnar samkvæmt hlutafélagalöggjöfinni og svo skattalega meðferð hvers kyns úttekta úr félögum, með vísan til fjölda úrskurða- og dóma.

  • Prófnefnd verðbréfaviðskipta hefur metið námskeiðið til tveggja klst. fyrir þátttakendur sem eru með verðbréfaréttindi.
Nánari upplýsingar og skráning

Nýmæli í barnalögum – 21. febrúar 2023

Barnalög nr. 76/2003 hafa tekið nokkuð örum breytingum og reglulega blossar upp umræða í samfélaginu um lögin og túlkun þeirra. Með lögum nr. 28/2021 (skipt búseta barns o.fl.) og lögum nr. 49/2021 (kynrænt sjálfræði) voru gerðar ýmsar mikilvægar breytingar á barnalögum sem snerta réttarstöðu barna og foreldra. Á námskeiðinu verður farið yfir helstu breytingar á lögunum og rædd ýmis álitaefni sem reynt hefur á fyrir dómstólum.

Nánari upplýsingar og skráning

Samkeppnishluti nýrra fjarskiptalaga – 28. febrúar 2023

Farið verður yfir tiltekna þætti nýrra fjarskiptalaga sem tóku gildi á síðasta ári en með þeim voru innleiddar tilskipanir Evrópuþingsins og ESB 2018/1972 og fjallað um þær sérstöku samkeppnisreglur sem gilda á sviði fjarskiptaréttar.

Nánari upplýsingar og skráning

Ný skipan barnaverndarmála - 2. mars 2023

Fjallað verður um þær breytingar sem orðið hafa á skipan barnaverndarmála undanfarin misseri, annars vegar á stjórnsýslu ríkisins með tilkomu  Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála og Barna- og fjölskyldustofu og hins vegar breytingar á stjórnsýslu sveitarfélaga með nýtilkomnum umdæmisráðum barnaverndar og barnaverndarþjónustu sveitarfélaga.

Þá verður fjallað um helstu álitaefni tengd vistunum barna utan heimilis og umgengni kynforeldra við börn í fóstri sem og um dóma Mannréttindadómstóls Evrópu og áhrif á íslenskan rétt.

Nánari upplýsingar og skráning

Netöryggi fjarskipta og mikilvægra innviða – 9. mars 2023

Farið verður yfir lagaumgjörð fyrir netöryggi fjarskipta og annarra mikilvægra innviða sem tekið hafa miklum breytingum á síðustu árum sem og kynntar verða breytingar sem eru í vændum.

Nánari upplýsingar og skráning

Sjálfbærni í opinberum innkaupum – 14. mars 2023

Auknar áherslur eru á sjálfbærni í innkaupum opinberra kaupanda og er fyrirséð að í náinni framtíð verði í auknum mæli lögfestar umhverfislegar skorður sem ber að huga að við framkvæmd innkaupa.

Á námskeiðinu verður farið yfir helstu leiðir til að tryggja sjálfbærni í innkaupum eins og val á innkaupaaðaferðum, hæfiskröfum og valforsendum. Skoðuð verða dæmi um ákvæði útboðs- og samningsskilmála sem hönnuð eru til að ná fram markmiðum um sjálfbærni við val á tilboði sem og á samningstíma. Einnig verður rýnt í fyrirséðar breytingar á löggjöf er varðar kröfur sem gerðar verða til opinberra kaupenda á sviði sjálfbærni.

Aukalega 10% afsláttur til þeirra sem sækja einnig námskeiðið Lagaumgjörð ESB um umhverfismál og sjálfbærni 2. febrúar 2023.

Nánari upplýsingar og skráning

Samkeppnisréttur: Samstarf fyrirtækja og sjálfsmat – 30. mars 2023

Árið 2020 var samkeppnislögum breytt, m.a. á þann veg að fyrirtæki sem vilja nýta sér heimildir 15. gr. samkeppnislaga til samstarfs þurfa sjálf að meta hvort skilyrði fyrir slíku samstarfi séu fyrir hendi, í stað þess að sækja um fyrirfram heimild Samkeppniseftirlitsins. Á námskeiðinu verður farið yfir leiðbeiningar Samkeppniseftirlitsins um beitingu 15. gr. samkeppnislaga sem og praktísk atriði varðandi vinnslu sjálfsmats af þessu tagi og almennt um samstarf milli fyrirtækja.

Nánari upplýsingar og skráning

Andlegur stuðningur við skjólstæðinga í gæsluvarðhaldi – 18. apríl 2023

Þótt lögmenn sinni almennt ekki sálgæslu þá kemur fyrir að skjólstæðingar þeirra þurfi sárlega á henni að halda, til dæmis í gæsluvarðhaldi. Á námskeiðinu verður farið yfir áhrif einangrunarvistar á einstaklinga og hvernig lögmenn geta stutt við skjólstæðinga sem sæta einangrunarvist. Hvernig á að aðstoða skjólstæðing sem er í áfalli?

Námskeiðinu er ætlað að setja í verkfærakistu lögmanna tól sem geta gagnast skjólstæðingum á þeirra erfiðustu stundum.

Nánari upplýsingar og skráning

Markaðsþreifingar - 25. apríl 2023

Við innleiðingu á Markaðssvikareglugerð ESB (MAR) í íslenskan rétt í september 2021 voru kynntar til sögunnar reglur um svokallaðir markaðsþreifingar (e. market sounding). Í markaðsþreifingum er verið að kanna áhuga mögulegra fjárfesta á hugsanlegum viðskiptum með skráða fjármálagerninga, ræða verðhugmyndir, umfang viðskipta o.fl. Í Bandaríkjunum er þetta oft nefnt „testing the waters“. Við slíkar aðstæður er möguleiki að innherjaupplýsingum sé miðlað til þessara fjárfesta. Miðlun innherjaupplýsinga er að meginstefnu óheimil en telst lögmæt ef hún er í eðlilegu sambandi við starf, stöðu og skyldu viðkomandi. Fara þarf því varlega í að miðla innherjaupplýsingum við slíkar aðstæður.

Til að veita aðilum í markaðsþreifingum ákveðið öryggi og vissu um að miðlun innherjaupplýsinga sé í samræmi við lög hafa reglur MAR um markaðsþreifingar verið kynntar til sögunnar. Reglurnar fela í sér verndarsvæði (e. safe harbour) fyrir aðila í markaðsþreifingum. Það þýðir að ...

Nánari upplýsingar og skráning

Einkahlutafélög og hlutafélög – 27. apríl 2023

Farið verður yfir samruna- og skiptingar ehf. og hf., útfrá félaga- og skattarétti og komið inn á praktísk dæmi úr framkvæmdinni.  Að auki verður farið yfir sérstakar reglur og álitaefni út frá skattaréttinum sem getur reynt á í tengslum við samruna eða skiptingar. Tekin verða ýmis dæmi úr úrskurða- og dómaframkvæmd þar sem reynt hefur á ákvæði hlutafélagalöggjafarinnar og tekjuskattslaga.

  •  Prófnefnd verðbréfaviðskipta hefur metið námskeiðið til tveggja klst. fyrir þátttakendur sem eru með verðbréfaréttindi.
Nánari upplýsingar og skráning