ÁLYKTUN
Í nýlegu svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi varðandi réttarstöðu sakborninga í ljósi tímalengdar rannsóknar samkvæmt 1. gr. laga nr. 135/2008 um embætti sérstaks saksóknara, kom m.a. fram að fjölmargir einstaklingar hafi haft réttarstöðu sakbornings 48 til 63 mánuði, eða í allt að 5 ár og þrjá mánuði.
Samkvæmt 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 6. gr. laga nr. 62/1994, sbr. og 70. gr. stjórnarskrárinnar, skal aðili sem borinn er sökum um refsivert brot eiga rétt til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli. Þessi regla um réttláta málsmeðferð, sem gildir jafnt um málsmeðferð fyrir dómi og á rannsóknarstigi, telst ein af grundvallar reglum réttarríkisins. Einnig er rétt að benda á c-lið 3. mgr. 14. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979, þar sem kveðið er á um að mál skuli rannsökuð án óhæfilegrar tafar. Í ljósi þeirra upplýsinga sem fram koma í framangreindu svari dómsmálaráðherra, sér Lögmannafélag Íslands sérstaka ástæðu til að vekja athygli opinberra rannsóknaraðila á mannréttindum sakaðra manna og hvetur þá sem koma að rannsókna mála til að virða þær grundvallarreglur sem lögfestar hafa verið hér á landi.
Reykjavík 24. nóvember 2014.
Stjórn Lögmannafélags Íslands.