Umsögn Laganefndar LMFÍ um frumvarp til laga um breyt­ingu á lögum um dómstóla,

Laganefnd Lögmannafélags Íslands hefur haft ofangreint frumvarp til skoðunar og lætur í té eftirfarandi umsögn:

Með frumvarpinu eru lagðar til þær breytingar að í stað þess að hæstaréttardómari sé skipaður samkvæmt tillögu dómsmálaráðherra, tilnefni forsætisráðherra dómara að fengnu samþykki 2/3 hluta atkvæða á Alþingi. Er lagt til að tillögu ráðherra verði vís­að til sérnefndar í þinginu sem fjalla skuli um hæfni þess sem tillaga er gerð um og að nefndin skuli einnig leita umsagnar Hæstaréttar um hæfi og hæfni umsækjanda til að gegna embættinu. Samþykki Alþingi tillögu ráðherra, að fengnum ofangreindum um­sögnum, skal tillagan lögð fyrir forseta Íslands sem skipar viðkomandi í embætti hæstaréttardómara.

Dómstólar hafa m.a. því mikilvæga hlutverki að gegna í stjórnskipaninni að hafa eftir­lit með beitingu framkvæmdavalds og löggjafarvalds og endurskoða gerðir þeirra. Laganefnd Lögmannafélags Íslands tekur undir þau sjónarmið sem sett eru fram í greinargerð með frumvarpi þessu að mikilvægt sé að tryggja skýra þrígreiningu ríkis­valdsins og sjálfstæði dómstólanna. Laganefnd minnir á að á síðustu misserum hefur komið fram gagnrýni á núgildandi fyrirkomulag um skipun hæstaréttardómara. 

Meðal annars hefur verið gagnrýnt að Hæstiréttur veiti umsögn um umsækjendur um hæstaréttardómaraembætti og deilt hefur verið um efni og vægi umsagnar Hæstaréttar.  Rökstuðningur dómsmálaráðherra fyrir ákvörðunum um skipun hæstaréttardómara hefur jafnframt sætt gagnrýni, meðal annars af Umboðsmanni Alþingis.  Dómsmálaráðherra hefur á móti borið því við að hann beri pólitíska ábyrgð á ákvörðunum sínum hverju sinni. Aðrir, þ.m.t. Umboðsmaður Alþingis, hafa bent á að jafnvel þó hið formlega skipunarvald sé í höndum dómsmálaráðherra þá séu valdi hans eigi að síður sett ákveðin mörk, meðal annars af reglum stjórnsýsluréttarins.

Laganefnd telur mikilvægt að friður ríki um það fyrir­komulag sem viðhaft er við skipun hæstaréttardómara og að það tryggi að hæfasti ein­staklingurinn verði fyrir valinu hverju sinni. Það er þekkt fræðikenning að ekki sé nóg að dómstólar séu sjálfstæðir og óháðir í raun, heldur verði allur ytri umbúnaðar þeirra einnig að vera með þeim hætti að þeir líti hlutlægt séð út fyrir að vera sjálfstæðir og óháðir. Þannig megi ekki eftir ytri hlutlægum mælikvarða vera ástæða til að draga sjálfstæði dómstóla í efa.

Ljóst er að núgildandi fyrirkomulag og framkvæmd um skipun hæstaréttardómara getur hlutlægt séð gefið tilefni til efasemda um að ytri umbúnaður skipunar standist að fullu þessi viðmið. Laganefnd bendir á að það sé óheppilegt að skipun hæstaréttardómara sé ekki skýrt hafin yfir efasemdir um sjálfstæði. Telur laganefnd Lögmannafélags Íslands því sjálfsagt og eðlilegt að fyrirkomulag um skipan hæstaréttardómara sé tekið til endurskoðunar, með það að markmiði að tryggja sem best fyrrgreind viðmið. Laganefnd telur hins vegar brýnt að allir þeir kostir sem til álita kunna að koma til að tryggja sjálfstæði dómstóla verði kannaðir, áður en ákvörðun verður tekin um skipan þeirra mála til framtíðar litið.

Laganefnd minnir á að þau atriði sem fyrirliggjandi frumvarp fjallar um varða grund­vallarþætti í stjórnskipaninni. Veigamikil rök eru fyrir því að slíkum grundvallaratrið­um sé ekki breytt nema að vel athuguðu máli, enda liggi fyrir fullvissa um að slíkar breytingar feli í sér betri lausn á þeim málum er um ræðir. Tillaga frumvarpsins um að samþykki aukins meirihluta alþingismanna þurfi fyrir skipun hæstaréttardómara er  mjög róttæk og felur í raun í sér að ákvörðunarvald við skipun hæstaréttardómara færist frá framkvæmdarvaldinu til löggjafarvaldsins. Laganefnd telur það ekki endilega til bóta, enda er jafn nauðsynlegt að tryggja sjálfstæði dómstólanna gagnvart löggjafarvaldinu eins og framkvæmdavaldinu.

Laganefnd Lögmannafélags Íslands leggur áherslu á að vand­að sé til verka við endurskoðun dómstólalaga að þessu leyti.  Fyrirliggjandi frumvarp hefur  ekki hlotið þann undirbúning, sem nauðsynlegur er áður en ráðist er í jafn veigamikla breytingu á skipan dómsvaldsins og hér um ræðir.  Í ársbyrjun 2005 var skipuð 9 manna nefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar og 4 manna sérfræðinganefnd henni til aðstoðar sem að einhverju leyti kunna að taka þau álitaefni sem frumvarpið snertir til meðferðar.  Ástæða er til að bíða niðurstöðu þeirrar nefndar.

Rétt er að undirstrika að laganefnd tekur ekki efnislega afstöðu til þeirrar leiðar, sem lögð er til í fyrirliggjandi frumvarpi, en af þeim ástæðum sem að framan eru raktar leggst nefndin gegn því að frumvarpið verði að lögum.

Virðingarfyllst,

f.h. Laganefndar Lögmannafélags Íslands

___________________________________

Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hrl., formaður.