Hverjir eru lögmenn?

Lögmenn eru lögfræðingar sem hafa aflað sér réttinda til að flytja mál fyrir dómstólum landsins. 

Hver er munurinn á lögfræðingi og lögmanni?

Allir lögmenn eru lögfræðingar, þ.e. þeir hafa lokið BA/BS prófi og meistaragráðu í lögfræði við lagadeild háskóla sem er viðurkenndur hér á landi. Þeir lögfræðingar sem hafa aflað sér réttinda til að flytja mál fyrir dómstólum landsins mega einir kalla sig lögmenn.

Héraðsdómur

Til þess að öðlast málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum þarf lögfræðingur að sækja sérstakt námskeið og standast bóklega og verklega prófraun, sem nær til þeirra þátta sem snúa að störfum lögmanna, þar á meðal til siðareglna lögmanna.

Landsréttur

Til þess að öðlast málflutningsréttindi fyrir Landsrétti þarf lögmaður að hafa haft málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum í fimm ár og hafa flutt minnst 25 mál fyrir héraðsdómi eða sérdómstóli.

Hæstiréttur

Til þess að öðlast málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti, þarf lögmaður að hafa haft málflutningsréttindi fyrir Landsrétti í þrjú ár og hafa flutt minnst 15 mál munnlega fyrir Landsrétti

Þeir sem vilja afla sér lögmannsréttinda, þurfa að vera lögráða, vera svo á sig komnir andlega að þeir séu færir um að gegna störfum lögmanns, hafa aldrei orðið að sæta því að bú þeirra hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta, auk þess sem þeir þurfa að hafa óflekkað mannorð.

Sjá nánar