Hvernig vel ég lögmann?

Sérhæfing lögmanna er talsverð enda er ógjörningur fyrir þá að vera vel að sér á öllum sviðum lögfræðinnar. Mikilvægt er því fyrir þann sem leita þarf lögmannsaðstoðar að finna lögmann sem tekur að sér mál á því réttarsviði sem um ræðir.

Til hvers þarf ég lögmann?

Því miður er staðreyndin sú að fæstir leita sér aðstoðar lögmanns fyrr en í óefni er komið. Þegar mál eru komin í slíkan farveg getur verið bæði tímafrekt og kostnaðarsamt fyrir aðila að ná fram rétti sínum og stundum reynist það ómögulegt. Til þess að forðast slíkar uppákomur er mælt með því að fólk leiti sér aðstoðar lögmanns áður en framkvæmt er eða gengist undir skuldbindingar. Að fá viðeigandi ráðgjöf fyrirfram getur sparað umtalsverða fyrirhöfn svo ekki sé talað um fjármuni.

Hvort sem þú hyggst ganga í hjúskap, kaupa þér fasteign, taka lán, stofna fyrirtæki, kaupa tryggingar eða skuldbinda þig með öðrum hætti, skaltu ráðfæra þig við lögmann, sem er sérfræðingur á viðkomandi sviði. Slíkt margborgar sig!  

Hvað kostar þjónusta lögmanns?

Engin samræmd gjaldskrá er til fyrir þjónustu lögmanna og getur kostnaður vegna þjónustu þeirra því verið afar mismunandi eftir lögmannsstofum og ekki síður eftir tegundum mála. Í flestum tilvikum er þjónusta lögmanna verðlögð á grundvelli tímagjalds, þ.e. hver klukkustund kostar þá X þúsund krónur, auk virðisaukaskatts. Einnig getur þóknun lögmanns verið hagsmunatengd, þ.e. reiknuð sem hlutfall af fjárhæð sem deilt er um, t.d. í slysamálum, innheimtumálum o.fl.

Til þess að fá sem gleggsta mynd af kostnaði af þjónustu lögmanns er mælt með því að fólk nálgist eintak af gjaldskrá viðkomandi lögmanns eða lögmannsstofu eða fái sendar upplýsingar um áætlaðan kostnað vegna málsins.

Rétt er einnig að benda á að taki lögmaður að sér verk, ber honum að láta skjólstæðingi sínum í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í málinu. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Þá skal upplýst að lögmanni ber ávallt að vekja athygli skjólstæðings síns á möguleika á gjafsóknarheimild eða annarri opinberri réttaraðstoð þar sem það á við.

Rétt er að hafa í huga við skoðun á lögmannskostnaði að aðeins hluti fjárhæðarinnar er laun fyrir lögmanninn en kostnaður af rekstri lögmannsstofunnar kemur þar einnig inn í. Einnig er rétt að geta þess að vinnist mál fyrir dómi, og dómari ákvarðar málsaðila tiltekna fjárhæð í málskostnað úr hendi gagnaðila, getur sú staða komið upp að sú fjárhæð sé lægri en sú sem lögmaður þinn hefur áskilið sér í þóknun fyrir verkið og krefur þig um.

Ef þig vantar ráðleggingar hjá lögmanni þá býður Lögmannafélag Íslands upp á Lögmannavaktina - ókeypis lögfræðiráðgjöf

Hvaða skyldur hefur lögmaður gagnvart mér?

Lögmaður sem tekur að sér að gæta hagsmuna aðila í máli, ber ríkar skyldur gagnvart skjólstæðingi sínum, bæði samkvæmt landslögum og siðareglum lögmanna. Hér að neðan er að finna þær helstu:

  • Lögmaður ber þagnarskyldu um hvaðeina sem honum er trúað fyrir í starfi sínu og starfsmenn lögmanns eru einnig bundnir þagnarskyldu um slík trúnaðarmál sem þeir kunna að komast að vegna starfa sinna.
  • Áður en lögmaður tekur að sér verk ber honum að vekja athygli þess sem til hans leitar ef hann telur einhverja hættu á að hagsmunirnir sem í húfi eru kunni að rekast á hagsmuni hans sjálfs, venslamanna sinna eða annars umbjóðanda, eða að samsvarandi tormerki geti risið við rækslu starfans.
  • Lögmaður skal ekki taka að sér verkefni, sem hann veit eða má vita að hann er ekki fær um að sinna af kunnáttu og fagmennsku, nema verkið sé unnið í samstarfi við hæfan lögmann á viðkomandi sviði.
  • Lögmaður skal ætíð gefa skjólstæðingi hlutlægt álit á málum hans.
  • Lögmanni ber að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum og vekja athygli hans ef ætla má að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni sem í húfi eru. Lögmanni ber að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknuð.
  • Lögmanni ber að leita samþykkis skjólstæðings, ef fela þarf mál hans öðrum lögmanni. Sama gildir að jafnaði, ef leita þarf annarrar sérfræðiaðstoðar, svo sem mats‑ eða skoðunarmanna, ef verulegur kostnaður er því samfara.
  • Lögmanni ber að vekja athygli skjólstæðings á möguleika á gjafsóknarheimild eða annarri opinberri réttaraðstoð þar sem það á við.
  • Lögmanni, sem tekur að sér verkefni, ber að reka það áfram með hæfilegum hraða. Skal hann tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist.
  • Lögmaður skal halda fjármunum skjólstæðings aðgreindum frá eigin fé í samræmi við ákvæði  reglna um fjárvörslureikninga lögmanna.
  • Lögmaður skal ávallt vera fær um að standa skil á þeim fjármunum, er hann varðveitir fyrir skjólstæðing sinn.
  • Lögmanni ber án ástæðulauss dráttar að gera skjólstæðingi skil á innheimtufé og öðrum fjármunum, er lögmaður hefur móttekið fyrir hönd skjólstæðings síns.
  • Uppgjör og skil lögmanns til skjólstæðings skulu vera greinargóð.
  • Lögmanni ber að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Smelltu hér til að fá nánari upplýsingar um lög og reglur um lögmenn. 

Ef þú telur að lögmaður þinn hafi ekki sinnt skyldum sínum gagnvart þér getur þú lagt fram kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna sem þá metur hvort lögmaðurinn hefur gerst brotlegur við landslög eða siðareglur lögmanna. Sama gildir um ágreining vegna þóknunar sem lögmaður krefst fyrir þjónustu sína.

Hvernig undirbý ég mig fyrir viðtal við lögmann?

Mikilvægt er að undirbúa fund með lögmanni vel. Hér að neðan er að finna nokkur atriði rétt er að hafa í huga við slíkan undirbúning:

  • Best er að skrifa niður á blað allar spurningar sem þú hefur hug á að fá svör við og taka spurningalistann með á fund lögmannsins.
  • Safnaðu saman öllum gögnum, þ.e. skjölum og öðrum upplýsingum, sem þú telur að haft geti þýðingu í málinu. Mikilvægt er að raða þessum gögnum skipulega, t.d. eftir dagsetningu, þannig að auðveldara verði fyrir lögmanninn að gera sér grein fyrir stöðu málsins og veita þá ráðgjöf sem leitað er eftir.
  • Fáðu upplýsingar um það strax í upphafi hvað fundurinn kemur til með að standa lengi, þannig að tryggt sé að þú komir öllum spurningum þínum á framfæri við lögmanninn á þeim tíma sem þú hefur.
  • Notaðu listann sem þú skrifaðir spurningarnar á og gaktu úr skugga um þú skiljir rétt þau svör sem lögmaðurinn veitir þér. Ef einhver atriði eru óljós eða þú telur þig ekki hafa skilið þau til fulls, þá skaltu fá lögmanninn til að útskýra þau nánar.
  • Búðu þig undir að lögmaðurinn spyrji þig fjölmargra spurninga um málið og reyndu að svara þeim eins skýrt og skilmerkilega og þú getur.
  • Sýndu lögmanninum öll þau gögn sem þú telur að geti komið að gagni í málinu.
  • Ef þú hefur í hyggju að taka einhvern með þér á fund lögmannsins skaltu upplýsa um slíkt um leið og tími hjá lögmanninum er pantaður.
  • Fáðu upplýsingar um það hjá lögmanninum hvað hann áætlar að verkið taki langan tíma og hvað það gæti kostað.
  • Hafðu í huga að því betur sem þú undirbýrð þig fyrir viðtal við lögmann, þeim mun árangursríkari verður fundurinn.

Hvert get ég kvartað yfir þjónustu lögmanns?

Ef þú telur að lögmaður þinn hafi ekki sinnt skyldum sínum gagnvart þér, getur þú lagt fram kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sem metur hvort um brot hafi verið að ræða eða ekki af hálfu lögmannsins. Sama gildir um ágreining vegna þóknunar sem lögmaður krefst fyrir þjónustu sína. Hægt er að fá mat úrskurðarnefndarinnar á því hvort um “hæfilegt endurgjald” sé að ræða eða ekki. Hægt er að nálgast fyrri úrskurði úrskurðarnefndar hér. Einnig er hægt að nota hinn öfluga leitarstreng, uppi í hægra horni heimasíðunnar, til að finna fyrri úrskurði sem varða ákveðin málefni.

Nánari upplýsingar