Engin samræmd gjaldskrá er til fyrir þjónustu lögmanna og getur kostnaður vegna þjónustu þeirra því verið afar mismunandi eftir lögmannsstofum og ekki síður eftir tegundum mála. Í flestum tilvikum er þjónusta lögmanna verðlögð á grundvelli tímagjalds, þ.e. hver klukkustund kostar þá X þúsund krónur, auk virðisaukaskatts. Einnig getur þóknun lögmanns verið hagsmunatengd, þ.e. reiknuð sem hlutfall af fjárhæð sem deilt er um, t.d. í slysamálum, innheimtumálum o.fl.
Til þess að fá sem gleggsta mynd af kostnaði af þjónustu lögmanns er mælt með því að fólk nálgist eintak af gjaldskrá viðkomandi lögmanns eða lögmannsstofu eða fái sendar upplýsingar um áætlaðan kostnað vegna málsins.
Rétt er einnig að benda á að taki lögmaður að sér verk, ber honum að láta skjólstæðingi sínum í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í málinu. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.
Þá skal upplýst að lögmanni ber ávallt að vekja athygli skjólstæðings síns á möguleika á gjafsóknarheimild eða annarri opinberri réttaraðstoð þar sem það á við.
- Smelltu hér til að sjá reglur um gjafsókn: Gjafsókn
Rétt er að hafa í huga við skoðun á lögmannskostnaði að aðeins hluti fjárhæðarinnar er laun fyrir lögmanninn en kostnaður af rekstri lögmannsstofunnar kemur þar einnig inn í. Einnig er rétt að geta þess að vinnist mál fyrir dómi, og dómari ákvarðar málsaðila tiltekna fjárhæð í málskostnað úr hendi gagnaðila, getur sú staða komið upp að sú fjárhæð sé lægri en sú sem lögmaður þinn hefur áskilið sér í þóknun fyrir verkið og krefur þig um.
Ef þig vantar ráðleggingar hjá lögmanni þá býður Lögmannafélag Íslands upp á Lögmannavaktina - ókeypis lögfræðiráðgjöf