Lögmenn og þjónusta
Lögmenn eru órjúfanlegur þáttur af réttarkerfi landsins og þeir gegna lykilhlutverki í þeirri starfsemi sem fer fram fyrir dómstólunum.
Hlutverk lögmanna í þjóðfélaginu er m.a. að veita einstaklingum, fyrirtækjum, félagasamtökum og stofnunum lögfræðilega ráðgjöf og aðstoð, bæði utan og innan réttar. Lögmenn gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna og sækja og verja rétt þeirra fyrir stjórnvöldum og dómstólum, í innbyrðis deilum þeirra og deilum við ríkisvaldið að einkarétti.
Í opinberum málum, sakamálum, gegna lögmenn sérstaklega mikilvægu hlutverki, þ.e. sem réttargæslumenn sakborninga og verjendur þeirra. Hlutverk lögmanna í þessum málaflokki er meðal annars að halda uppi vörnum fyrir sakborningana, veita þeim upplýsingar og ráð um réttarstöðu þeirra og sjá til þess að grundvallarreglum um málsmeðferð í sakamálum sé fylgt og að skjólstæðingar þeirra, sakborningarnir, fái réttláta og skjóta málsmeðferð, í samræmi við innlend lög og alþjóðlega mannréttindasáttmála.
Í öllum störfum sínum eru lögmenn bundnir ýmsum grundvallarskyldum, en ein sú veigamesta og mikilvægasta er trúnaðarskyldan, þar með talin þagnarskyldan, gagnvart skjólstæðingum þeirra (sbr. 22. gr. lögmannalaga)
Um stöðu lögmanna
Lögmaður skal vera óháður í starfi. Hann má ekki taka sér starf eða vinna nokkuð það, sem heftir hlutverk hans sem sjálfstæðs og óháðs lögmanns.
Á lögmanni hvílir rík þagnarskylda og trúnaðarskylda gagnvart skjólstæðingum sínum. Lögmanni er skylt að gera skjólstæðingi sínum kunnugt um allt það sem kann að gera hann háðan gagnaðila eða gera tortryggilega afstöðu hans til gagnaðila, svo sem frændsemi, samstarf, fjárhagslega hagsmuni eða önnur slík tengsl.
Lögmanni ber að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna, án tillits til eigin hagsmuna, persónulegra skoðana, stjórnmála, þjóðernis, trúarbragða, kynþátta eða annarra utanaðkomandi atriða, sem ekki snerta beinlínis málefnið sjálft.
Lögmanni ber að forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum og á kröfu til þess að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn.