Um skattameðferð við gjaldþrotaskipti

Um skattameðferð við gjaldþrotaskipti - nokkur minnisatriði

Nokkrar almennar upphafsaðgerðir.

  1. Við upphaf skiptameðferðar tilkynnir skiptastjóri skattstjóra í viðkomandi umdæmi um gjaldþrotaskiptin og hver sé skipaður skiptastjóri.
  2. Skiptastjórinn óskar eftir að gjaldþrota einstaklingur verði tekinn af launagreiðendaskrá, ef það á við.
  3. Beðið er um afrit skattframtala síðustu 2-3 árin (ef þau liggja ekki fyrir þá afrit síðustu framtala, sem skilað hefur verið). Jafnframt óska þess að öll fylgigögn, svo sem ársreikningar, samanburðarskýrslur virðisaukaskatts o.þ.h. fylgi, ef um það er að ræða (sjá sýnishorn af bréfi til skattstjóra).

Gjaldþrotabú eru framtalsskyld vegna tekju- og eignarskatts eftir almennum reglum. Vanræksla á framtalsskilum leiðir til áætlunar skattstjóra á sköttum búsins.

Sérstaklega um virðisaukaskatt.

1. Almennar reglur.

Almennar reglur virðisaukaskattslaga, nr. 50/1988, sbr. 24. gr. þeirra, gilda um skil þrotabús á virðisaukaskattsskýrslum, svo sem um uppgjörstímabil, gjalddaga, álag og dráttarvexti. Fyrsti dagur í starfsemi þrotabús er dagsetning úrskurðar um gjaldþrot.

2. Ábyrgð skiptastjóra.

Skiptastjóri hefur umsjón með málefnum þrotabús og ber ábyrgð á að það efni þær skyldur, sem á það leggjast, þ. á m. um virðisaukaskatt. Skiptastjóri ber ekki ábyrgð á meðferð virðisaukaskatts fyrir uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar. Hins vegar varðar það kröfuhafa miklu við skiptin að skiptastjóri afli sem gleggstra upplýsinga um viðkomandi aðila og skili skýrslum vegna eldri tímabila, ef hann telur sér það fært. Þetta á sérstaklega við þegar skattstjóri hefur áætlað á fyrri tímabilum og skattkrafa ríkissjóðs í búinu er hærri en efni standa til.

3. Tilkynningarskylda.

Samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 5. gr. virðisaukaskattslaganna skal tilkynna skattstjóra um breytingar, sem verða á virðisaukaskattsskyldri starfsemi, eftir að skráning hefur farið fram. Tilkynningu skal senda eigi síðar en 8 dögum eftir að breyting hefur orðið á starfseminni. Samkvæmt þessu ákvæði ber skiptastjóra að tilkynna skattstjóra ef skráður aðili er tekinn til gjaldþrotaskipta. Í tilkynningu þarf einnig að koma fram dagsetning úrskurðar um gjaldþrotaskipti og nafn og kennitala þess, sem fer með stjórn búsins. Almenn tilkynning í Lögbirtingablaðinu er ekki nægjanleg.

4. Innskattur.

Almennar reglur virðisaukaskattslaga gilda um innskatt þrotabúa, þ.e. aðeins má telja til innskatts aðföng sem varða hina skattskyldu starfsemi þrotabúsins.

5. Skiptalok.

Skattskyldu lýkur þegar gjaldþrotaskiptum er lokið og ber skiptastjóra að tilkynna skattstjóra um það eigi síðar en átta dögum eftir að breyting á sér stað, sbr. 2. málslið 1. mgr. 5. gr. virðisaukaskattslaganna.

6. Flæðirit.

Meðfylgjandi er flæðirit ásamt útskýringum um aðgerðir skattstjóra um virðisaukaskattsmeðferð þrotabús.


Sýnishorn af bréfi til skattstjóra.


Skattstjórinn í Reykjavík
Tryggvagötu 19
150 Reykjavík
Reykjavík, 8. janúar 1999

Efni: Afrit skattframtala, launagreiðendaskrá, vsk.-númer v/þrotabúa.


Undirritaður lögmaður hefur verið skipaður skiptastjóri í þrotabúum eftirtalinna einstaklinga og fyrirtækja:

a) Jón Sigurðsson, kt. 120305-9898, Reykjavík.
b) Sigurður Jónsson, kt. 050312-9889, Reykjavík.
c) PPPPa ehf., kt. 020194-9999, Reykjavík.
d) AAAp ehf., kt. 030493-9799, Reykjavík.

Þess er hér með farið á leit við yður að ofangreindir einstaklingar verði teknir af launagreiðendaskrá og virðisaukaskattsnúmerum þeirra lokað, þar sem það á við, frá og með úrskurðardegi, 5. janúar s.l. Einnig er sótt um ný virðisaukaskattsnúmer fyrir þá aðila, sem verið hafa í virðisaukaskattsskyldum rekstri.

Jafnframt er farið fram á að fá afrit af skattframtölum þeirra árin 1997 og 1998 vegna eigna og tekna árin 1996 og 1997, en ef þau liggja ekki fyrir þá afrit af síðustu framtölum þeirra, sem skilað hefur verið. Mikilvægt er að öll fylgigögn, svo sem ársreikningar, samanburðarskýrslur virðisaukaskatts o.þ.h. fylgi, ef um það er að ræða. Það athugist að ekki er þörf á að gögnin séu stimpluð.

Vinsamlegast sendið undirrituðum gögnin með póstkröfu.

Virðingarfyllst

________________________
Ari Arason, hdl., skiptastjóri

 

Vefkökur

Við notum vefkökur til að bæta vefinn.