Mál 23 2004

Ár 2006, miðvikudaginn 1. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 23/2004:

 

B

gegn

T, hdl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Í erindi B, sóknaraðila, til úrskurðarnefndar lögmanna, dags. 26. október 2004, er kvartað yfir háum innheimtukostnaði T, hdl., varnaraðila, við innheimtu slysabóta.

 Varnaraðili sendi úrskurðarnefndinni greinargerð um erindið þann 20. desember 2004. Sóknaraðili gerði athugasemdir við greinargerðina í bréfi, dags. 3. febrúar 2005. Varnaraðili hefur ekki tjáð sig frekar um málið.

 I.

Málsatvik eru þau helst að sóknaraðili lenti í vinnuslysi um borð í togara í desember 2000. Fyrir milligöngu verkalýðsfélags var leitað til varnaraðila um innheimtu slysabóta af þessu tilefni. Skriflegt umboð sóknaraðila til varnaraðila var veitt þann 2. apríl 2001.

 Að undangengnum sjóprófum, örorkumati og ýmissi gagnaöflun fengust greiddar bætur á árinu 2003 úr ábyrgðartryggingu útgerðarfélagsins vegna atvinnurekstrar og úr slysatryggingu sjómanna. Samkvæmt örorkumati var sóknaraðili metinn til 15% varanlegrar örorku og 15% varanlegs miska.

 Innheimtuþóknun varnaraðila, er greiddist af tryggingafélagi, nam 420.430 krónum auk virðisaukaskatts, eða alls 523.435 krónum. Til viðbótar áskildi varnaraðili sér þóknun úr hendi sóknaraðila að fjárhæð 610.227 krónur auk virðisaukaskatts, eða alls 759.745 krónur. Dró varnaraðili þá fjárhæð frá bótum sóknaraðila í uppgjöri sínu við hann.

 Sóknaraðili taldi þóknun varnaraðila vera of háa og bar erindi sitt þar að lútandi undir úrskurðarnefnd lögmanna.

 II.

Sóknaraðili krefst þess að þóknun varnaraðila verði lækkuð og að lögð verði fram sundurliðun á vinnutíma varnaraðila vegna málsins. Telur sóknaraðili þóknunina vera of háa og jafnframt að engar skýringar hafi fylgt greiðslum til sín. Hann kveður verkalýðsfélag sitt hafa fengið varnaraðila til að annast verkið og þá hafi verið tekið fram að tryggingafélag útgerðarfélagsins greiddi kostnað vegna innheimtu slysabótanna. Sóknaraðili kveður ekki felast sjálftökuheimild fyrir innheimtuþóknun í umboði sínu til varnaraðila. Þá kveður hann vinnuframlag hafa verið í lágmarki. Til dæmis hafi varnaraðili ekki mætt í sjópróf sem haldið var á K.

 III.

Varnaraðili hafnar því að á þeim tíma, er innheimta slysabótanna hófst, hafi verið í gildi samningur milli sín og stéttarfélags sóknaraðila er kvæði á um þóknun sína í þess háttar verkefnum. Varnaraðili kveðst hafa kynnt sóknaraðila það í upphafi, í símtali þeirra, að tekin yrðu 10% í þóknun af skaðabótum, að frádreginni þóknun sem fengist greidd frá tryggingafélaginu. Varnaraðili kveður þóknun sína vera hagsmunatengda og því séu vinnutímar sínir ekki sérstaklega tilgreindir. Varnaraðili kveðst hafna því að hafa verið með sjálftökuheimild fyrir þóknun sína eða að hafa oftekið þóknun af sóknaraðila. Varnaraðili telur að vísa beri málinu frá þar sem erindið byggist á því að samningssamband hafi verið milli sín og stéttarfélags sóknaraðila sem leiða ætti til þess að vinna sín yrði honum að kostnaðarlausu.

 Niðurstaða.

 I.

Erindi sóknaraðila varðar ágreining við varnaraðila um áskilda þóknun vegna innheimtu slysabóta. Varðar ágreiningurinn fyrst og fremst þann hluta þóknunarinnar sem ekki fékkst greiddur af tryggingafélagi, en var haldið eftir í bótauppgjöri varnaraðila við sóknaraðila. Sóknaraðila er heimilt að bera slíkan ágreining undir úrskurðarnefnd lögmanna samkvæmt 26. gr. lögmannalaga nr. 77/1998. Er frávísunarkröfu varnaraðila því hafnað.

 II.

Meðal þeirra gagna, er varnaraðili hefur lagt fyrir úrskurðarnefndina, eru drög að lokauppgjöri á tjóni sóknaraðila úr ábyrgðartryggingu vinnuveitanda hans. Eru þar reiknaðar út bætur til handa sóknaraðila, miðaðar við örorkumat tveggja lækna. Að frádregnum bótum úr slysatryggingu sjómanna (978.840 krónur), áætluðum bótum frá Tryggingastofnun ríksins (2.000.000 krónum) og innborgun til sóknaraðila, námu útreiknaðar bætur ásamt vöxtum 8.880.114 krónum auk innheimtuþóknunar lögmanns að fjárhæð 326.744 krónur auk virðisaukaskatts, eða alls 406.796 krónur. Undir þessi drög ritaði varnaraðili þann 10. júlí 2003 um samþykki, með fyrirvara um greiðslu slysabóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Bætur voru greiddar í samræmi við uppgjörsdrögin frá tryggingafélaginu sama dag. Þá voru einnig greiddar bætur úr slysatryggingu sjómanna þann dag, að fjárhæð 973.892 krónur.

 Varnaraðili innheimti að auki örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins, að fjárhæð 591.044 krónur. Að fengnum þeim bótum innheimti varnaraðili mismun þeirrar fjárhæðar og þess, sem áætlað hafði verið og dregið frá í uppgjörinu við tryggingafélagið, eða 1.408.956 krónur auk vaxta, eða alls 1.531.621 krónu. Þá greiddi tryggingafélagið viðbótarlögmannsþóknun við það tækifæri, 93.686 krónur auk virðisaukaskatts, eða alls 116.684 krónur.

 Alls greiddi tryggingafélagið samkvæmt framangreindu 420.430 krónur í lögmannsþóknun vegna innheimtu slysabótanna, auk virðisaukaskatts, eða alls 523.480 krónur.

 III.

Í hinu skriflega umboði sóknaraðila til varnaraðila, dags. 2. apríl 2001, er ekki nefnt á hvaða hátt þóknun varnaraðila skyldi reiknuð eða greidd. Hins vegar kveðst varnaraðili hafa upplýst sóknaraðila um það í símtali á hvaða hátt þóknunin yrði reiknuð. Sóknaraðili hafnar því að rætt hafi verið við varnaraðila um þóknunina og bendir á að ekki komi fram í umboði að tekin yrði aukagreiðsla vegna málsins eða nefnd prósentutala vegna þóknunarinnar.

 Úrskurðarnefnd telur ekki hafa verið í ljós leitt að samið hafi verið í upphafi um þóknun varnaraðila er næmi 10% af innheimtum skaðabótum. Þá verður ekki séð af gögnum málsins að varnaraðili hafi kynnt sérstaklega fyrir sóknaraðila tilboð tryggingafélagsins um greiðslu lögmannsþóknunar eða að varnaraðili hafi á því stigi, þegar uppgjör fór fram, áskilið sér hærri þóknun úr hendi sóknaraðila.

 Í samræmi við fyrri úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna telur hún að varnaraðila sé ekki heimilt af þessum sökum að krefja sóknaraðila um hærri þóknun en varnaraðili móttók fyrir hans hönd hjá tryggingarfélaginu.

 Samkvæmt framangreindu er niðurstaða nefndarinnar sú að varnaraðila beri að endurgreiða sóknaraðila þann hluta áskilinnar þóknunar, sem var umfram greiðsluna frá tryggingafélaginu, þ.e. 610.227 krónur auk virðisaukaskatts, eða alls 759.733 krónur.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Varnaraðili, T, hdl., endurgreiði sóknaraðila, B, 759.733 krónur.

  ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA