Mál 4 2007

Ár 2008, miðvikudaginn 12. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2007:

A

gegn

B, hrl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 13. mars 2007 frá A, kæranda, þar sem kvartað var yfir vinnubrögðum og framkomu B, hrl., kærðu, gagnvart kæranda í umgengnisréttarmáli og dagsektarmáli í tengslum við það. Af hálfu kærðu var gerð grein fyrir afstöðu hennar til erindisins í bréfi C, hrl., dags. 18. maí 2007. Kærandi tjáði sig um greinargerð kærðu í bréfi, dags. 27. júní 2007. Athugasemdir frá kærðu bárust í bréfi lögmanns hennar, dags. 3. september 2007.

 Undir rekstri málsins, eftir lok gagnaöflunar, taldi einn nefndarmanna rétt að hann viki sæti vegna vanhæfis. Varamaður hans tók þátt í afgreiðslu málsins.

 Málsatvik og málsástæður.

  I.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar lögmanna beinir kærandi kvörtun til nefndarinnar um störf kærðu í þágu fyrrverandi sambýliskonu og barnsmóður kæranda vegna ágreinings þeirra í millum um forsjá dóttur þeirra og umgengnisrétt.

 Málsatvik eru í stuttu máli þau að í mars 2003 eignuðust kærandi og þáverandi sambýliskona hans dóttur. Þau slitu samvistum í mars 2005. Kærandi höfðaði forsjármál gegn barnsmóður sinni og lauk því máli með dómsátt í júní 2005 þar sem kærandi afsalaði sér forsjá barnsins en hann skyldi fá nánar tilgreindan umgengnisrétt við barnið. Vegna umgengnistálmana leitaði kærandi til sýslumannsins í T í september 200x og krafðist úrskurðar um umgengni sína við barnið. Vegna frekari tregðu barnsmóður sinnar um að leyfa sér að njóta umgengni við dóttur sína leitaði kærandi á ný til sýslumannsembættisins og krafðist þess að henni yrði gert að greiða dagsektir þar til hún léti af tálmunum.

 Í dagsektarmálinu gætti kærða hagsmuna barnsmóður kæranda. Kærða ritaði fyrir hönd umbjóðanda síns sýslumannsembættinu bréf þann 30. nóvember 2006 þar sem gerð var grein fyrir kröfum og sjónarmiðum móðurinnar. Í bréfinu kom m.a. fram að dóttir kæranda hefði farið í viðtal í Barnahúsi og boðað var að hún færi í frekari viðtöl við fagaðila.

 Orðalag í bréfi kærðu til sýslumanns varð kæranda tilefni að erindi því sem hér er til úrlausnar. Þá varð orðalag kærðu í bréfi til lögmanns kæranda í forsjármálinu, dags. 26. maí 2005, einnig tilefni erindis þessa.

 II.

Í bréfi kærðu til sýslumanns, dags. 30. nóvember 2006, er eftirfarandi texti, sem kærandi tilgreinir sérstaklega í erindi sínu og auðkennir hluta hans:

 „Vegna kröfu mannsins um aukna umgengni við dótturina [....] skal upplýst að umbj. minn hefur tímabundið fellt niður umgengni hans við barnið vegna viðbragða sem barnið hefur sýnt í tengslum við umgengnina. Hafði umbj. minn samband við Barnavernd T vegna þessa og var málið sent Barnahúsi til vinnslu. Kemur fram í viðtölum við barnið neikvæð ummæli í garð föður sem gefa tilefni til frekari rannsókna. [....].

  Barnið mun fara í frekari viðtöl við fagaðila á næstunni til að hægt sé að komast að því hvað valid henni vanlíðun sem og hvort eitthvað sé hæft í þeim ásökunum sem fram koma í máli hennar á hendur manninum.”

 Kærandi tilgreinir í erindi sínu eftirgreindan texta í bréfi kærðu til lögmanns kæranda í forsjármálinu, dags. 26. maí 2005:

 „Sýndi umbj. þinn barninu [....] fádæma vanvirðingu.”

 „Sýndi umbj. þinn alvarlegan skort á innsýn í þarfir barnsins og tók eigin hagi og langanir fram yfir barnsins.”

III.

Kærandi telur að draga hafi mátt þá ályktun af bréfi kærðu til sýslumanns að starfsmenn Barnaverndar og/eða Barnahúss hafi séð ástæðu til þess að rannsaka málið frekar og jafnvel að málinu hafi verið vísað til lögreglu til rannsóknar. Í skýrslu Barnahúss segi hins vegar berum orðum um framhald málsins að því sé lokið af hálfu Barnahúss, ekki hafi verið óskað læknisskoðunar eða frekari greiningar og meðferðar. Kærandi telur kærðu því vísvitandi hafa farið með rangt mál í bréfinu, í þeim tilgangi einum að styrkja málstað umbjóðanda síns.

 Kærandi telur kærðu hafa vísvitandi gerst brotlega við siðareglur lögmanna og vísar í því sambandi sérstaklega til 1. og 34. gr. reglnanna. Kærandi telur það ekki hafa getað dulist kærðu af skýrslu Barnahúss að máli dóttur sinnar hafi verið lokið af þeirra hálfu. Kærða hafi því farið vísvitandi með ósannindi þegar hún í bréfi sínu til sýslumanns hafi sagt að ummæli barnsins hafi gefið tilefni til frekari rannsókna. Kærandi telur sér hafa verið sýnd mikil lítilsvirðing með þessari framkomu kærðu.

 Kærandi telur einnig að kærða hafi, í bréfi sínu til lögmanns kæranda, vísvitandi brotið gegn sömu ákvæðum siðareglna lögmanna, enda hefði hún sýnt sér mikla lítilsvirðingu í skrifum sínum. Kærðu hafi verið það fullljóst að skjólstæðingur hennar hefði beitt barnið og kæranda miklum umgengnistálmunum, enda hefði kærða gengið fram af miklu offorsi í því skyni að koma í veg fyrir að barnið fengi notið umgengninnar. Hafi kærða ekki einu sinni svarað fyrirspurnum sem lögmaður kæranda hafi komið á framfæri við hana, þótt augljóst hefði verið að þær skiptu miklu máli fyrir barnið og framtíð þess.

 Kærandi telur kærðu í skrifum sínum hafa vísvitandi ráðist að sinni persónu og lítilsvirt hana. Framkoma kærðu hafi verið sérstaklega ámælisverð þegar haft sé í huga að kærða hafi ráðist að persónu sinni sem föður barnsins. Þá hafi störf kærðu verið sérstaklega ámælisverð vegna áhrifa sem málið hafði á samskipti barnsins og sonar kæranda frá fyrra sambandi, en þau hafi verið mjög náin.

 Kærandi krefst þess að kærðu verði veitt áminning og jafnframt, vegna alvarleika málsins, að nafn kærðu verði birt í úrskurði nefndarinnar.

 IV.

Af hálfu kærðu er þess krafist að úrskurðarnefnd lögmanna staðfesti að hún, kærða, hafi í málum þeim sem hún vann að fyrir fyrrverandi sambýliskonu kæranda farið að öllu leyti fram í samræmi við góða lögmannshætti og sýnt bæði umbjóðanda sínum og kæranda fulla virðingu. Þá krefst kærða þess að seinni kærulið í erindi kæranda verði vísað frá nefndinni þar sem ársfyrningarfrestur samkvæmt 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 hafi verið löngu liðinn þegar erindið barst úrskurðarnefnd lögmanna. Loks krefst kærða málskostnaðar að mati nefndarinnar.

 Að því er fyrri kæruliðinn í erindi kæranda varðar kveður kærða það hafa verið mat umbjóðanda síns á þessum tíma að barnið hafi þurft að fara í frekari viðtöl við fagaðila. Hafi umbjóðandinn leitað til tveggja sálfræðinga og Barnaverndar T. Barnið hafi farið í frekari viðtöl eftir að bréfið til sýslumanns var ritað þann 30. nóvember 2006, enda hafi það verið mat umbjóðanda síns að þess væri þörf. Annað hafi ekki verið sagt í tilvitnuðu bréfi og þar hafi hvergi komið fram að niðurstaða Barnahúss væri samhljóða áliti umbjóðanda kærðu.

 Kærða telur það vera ljóst að bæði hún og lögmaður kæranda hafi á þessu tímamarki haft undir höndum skýrslu Barnahúss. Kærða kveðst enga hagsmuni hafa haft af því að fara með rangt mál og hefði hún ekki lagt það í vana sinn hingað til. Tilgangur bréfsins hafi verið sá að tilkynna fyrir hönd móðurinnar að barnið færi í frekari viðtöl við fagaðila, í kjölfar viðtals í Barnahúsi, en ekki á vegum hvers.

 Kærða vísar til minnispunkta Barnahúss, sem kærandi lagði fram, en hún kveður umbjóðanda sinn hafa metið það svo að þar hafi barnið sagt hlut sem augljóslega þurfti að kanna nánar.

 Að því er síðari kæruliðinn í erindi kæranda varðar telur kærða rétt að fjalla efnislega um hann, verði ekki fallist á frávísunarkröfu sína. Kærða telur setningar þær, sem kærandi tilgreinir í erindi sínu, hafa verið gróflega slitnar úr samhengi. Lesa beri textann í heild sinni, en umrætt bréf hafi verið í tengslum við bráðabirgðaforsjármál sem var rekið fyrir héraðsdómi. Í bréfinu segi m.a. svo:

 „F.h. umbj. míns er harðlega mótmælt aðferð umbj. þíns um að halda barninu án samþykkis umbj. míns yfir síðustu helgi, enda þótt ekki lægi fyrir nokkurt samþykki fyrir að umgengni fari fram með þeim hætti. Sýndi umbj. þinn barninu og umbj. mínum fádæma vanvirðingu. Vanvirðing gagnvart barninu felst í því að ekki var með neinum hætti hægt að undirbúa barnið fyrir að vera fjarri móður sinni næturlangt í fyrsta skipti á ævinni. Sýndi umbj. þinn alvarlegan skort á innsýn í þarfir barnsins og tók eigin hagi og langanir fram yfir barnsins”.

 Kærða kveður barnið hafa verið tveggja ára gamalt þegar umrætt atvik átti sér stað. Þarna hafi verið um að ræða mat umbjóðanda síns á framkomul kæranda og sér hafi verið skylt að koma því mati og mótmælum á framfæri við lögmann kæranda.

 Kærða telur kæranda hafa í erindi sínu dregið sig inn í málið persónulega og reynt að lítilsvirða sig og æru sína með því, sérstaklega sem nefndarmanns í y-nefnd. Sýni það best tilgang kæranda með kærunni. Kærða dregur fram og tilgreinir fleiri kæru- og ágreiningsmál sem tengdust umgengnisréttarmálinu. Telur hún að skoða beri kæru kæranda í ljósi þessarar stöðu mála og augljósrar reiði kæranda í garð umbjóðanda síns. Kærða kveðst eiga rétt á því að vera ekki samsömuð umbjóðanda sínum með þeim hætti sem gert sé í kærunni, en hún kveðst enga persónulega hagsmuni hafa af málaferlum aðilanna og sé enginn gerandi í þeim málum. Hljóti kærandi, sem hafi lögmannsréttindi, að gera sér grein fyrir þessu.

 Kærða mótmælir sérstaklega kröfu kæranda um nafnbirtingu, færi svo ólíklega að úrskurðarnefndin teldi sig hafa brotið gegn siðareglum.

V.

Í athugasemdum sínum við greinargerð kærðu kveður hann það vera hrein ósannindi sem þar komi fram um tilgang bréfsins til sýslumanns þann 30. nóvember 2006. Bréfið hafi verið lokatilraun kærðu til að fá sýslumann til þess að falla frá þeirri ákvörðun sinni, sem hann hafði þegar tilkynnt kærðu og kæranda, um að barnið skyldi fá umgengni við föður sinn, kæranda. Þessi tilgangur með bréfaskrifunum skýri orðaval og uppsetningu í bréfinu. Kærandi telur augljóst að kærða hafi sett upp bréf sitt með þeim hætti sem gert var til þess að sverta kæranda og að tilgangurinn hafi verið augljós, sá að hafa með því áhrif á sýslumann.

 Kærandi kveður það vera helber ósannindi að lögmaður sinn hafi haft skýrslu Barnahúss undir höndum, þegar kærða ritaði bréf sitt til sýslumanns 30. nóvember 2006. Kærandi kveðst hafa fengið skýrsluna afhenta frá sýslumanni eftir að kærða hafði sent hana með bréfi sínu þangað. Kærandi kveður sig og lögmann sinn enga vitneskju hafa haft um það sem dóttir sín hefði þurft að þola að ástæðulausu í Barnahúsi í október 2006 fyrr en skýrslan var afhent í byrjun desember 2006.

 Kærandi kveðst hafa komið kvörtun sinni vegna bréfs kærðu frá 26. maí 2005 á framfæri við nefndina um leið og kostur var á. Fyrir liggi að bréfið hafi verið sent lögmanni sínum en ekki sér sjálfum. Því geti nefndin ekki miðað upphaf ársfrestsins samkvæmt 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga við þann tíma sem bréfið var sent lögmanninum.

 Kærandi bendir einnig á að bréf kærðu sé liður í störfum hennar sem hún hafi sinnt fyrir umbjóðanda sinn frá að minnsta kosti febrúar 2005 en þeim störfum sé enn ekki lokið. Kærandi telur það leiða til ósanngjarnrar niðurstöðu fyrir einstaklinga sem standa í málum af þessu tagi ef þeir geta ekki komið kvörtun á framfæri við nefndina vegna bréfa sem send eru lögmönnum þeirra, um leið og þeir eiga þess kost. Skýra verði lagagreinina einstaklingunum í hag, senda séu gerðar ríkar kröfur til lögmanna í störfum þeirra og að þeim beri að fara að lögum og reglum í störfum sínum.

 Kærandi kveðst vísa því á bug að þær setningar, sem vísað sé til í erindinu til nefndarinnar, séu slitnar úr samhengi, enda sé það ekki rökstutt frekar.

VI.

Í athugasemdum kærðu við síðara bréf kæranda kemur m.a. fram að frestur samkvæmt 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga hafi verið löngu liðinn að því er varðaði kvörtun vegna bréfs kærðu frá 26. maí 2005. Telja verði bréf kærðu hafa komið til kæranda þegar það barst lögmanni hans, enda megi vera ljóst að lögmaðurinn hljóti að framsenda tölvupóst jafnóðum til umbjóðanda síns.

 Kærða mótmælir því að vera samkennd sjónarmiðum umbjóðanda síns, sbr. 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna.

                                                            Niðurstaða.

  I.

Sá sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur lagt kvörtun fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.

 Síðari kæruliðurinn í erindi kæranda til nefndarinnar varðar orðalag í bréf kærðu, sem hún sendi lögmanni kæranda þann 26. maí 2005. Krefst kærða frávísunar þessa kæruliðar, eins og áður greinir.

 Samkvæmt 1. mgr. 26. siðareglna lögmanna má lögmaður ekki snúa sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis, nema brýn nauðsyn krefji. Ávallt skal þá viðkomandi lögmanni þegar um það tilkynnt. Telja verður að í máli því, sem hér er fjallað um, hafi kærðu verið rétt og skylt að beina bréfum og öðrum upplýsingum til lögmanns kæranda og að sá lögmaður hafi haft umboð kæranda til móttöku slíkra gagna, enda liggur ekkert fyrir um að umboð lögmanns kæranda hafi verið takmarkað á nokkurn hátt að því er móttöku gagna varðaði. Telur nefndin að í þessu ljósi verði að leggja að jöfnu móttöku lögmanns kæranda á bréfi kærðu við það að kærandi sjálfur hefði fengið bréfið sent frá kærðu.

 Kvörtun kæranda barst til skrifstofu Lögmannafélags Íslands þann 14. mars 2007. Samkvæmt þessu liðu tæplega 2 ár frá því kærandi átti kost á að senda nefndinni kvörtun vegna þeirra ummæla í bréfinu, sem kvörtun hans lýtur að. Með vísan til 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga ber að vísa þessum kærulið frá nefndinni.

II.

Kærða gætti hagsmuna fyrrverandi sambýliskonu og barnsmóður kæranda vegna deilu þeirra um umgengni og tilrauna kæranda til að knýja fram umgengni við dóttur sína. Bar kærðu að rækja af alúð hlutverk sitt og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðanda síns í deilumálinu, sbr. 18. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Kærðu bar jafnframt að sýna kæranda fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg var hagsmunum umbjóðanda síns, sbr. 34. gr. siðareglna lögmanna.

 Kærða kveður tilgang bréfsins til sýslumannsins í T þann 30. nóvember 2006 hafa verið þann að tilkynna sýslumanni ætlun umbjóðanda síns að senda dóttur sína í frekari viðtöl fagaðila, í kjölfar viðtals í Barnahúsi, en ekki á vegum hvers. Fram kemur í bréfinu að umbjóðandi kærðu hafi haft áhyggjur af líðan dóttur sinnar. Bréfið felur ekki í sér kröfugerð en þess er óskað að málið verði sent Barnaverndarnefnd T til umsagnar og könnunar hið allra fyrsta.

 Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum. Lögmaður hefur jafnframt kröfu til þess að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn. Að mati nefndarinnar verður að skoða efni bréfsins í því ljósi að þar er kærða að kynna atriði er varða málstað umbjóðanda síns í afar erfiðu og viðkvæmu deilumáli. Nefndin telur ekki einsýnt að draga megi þá ályktun sem kærandi gerir, að með bréfinu sé verið að ráðast að eða lítilsvirða persónu hans.

 Að mati nefndarinnar verður ekki séð, eins og atvikum er háttað, að framsetning eða efni bréfsins til sýslumanns feli í sér brot gegn 1. og 34. gr. siðareglna lögmanna.

 Að öllu framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd lögmanna kærðu ekki hafa í störfum sínum, með ritun bréfs til sýslumannsins í T þann 30. nóvember 2006, gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Kvörtun kæranda, A, vegna bréfaskrifa kærðu, B, hrl., þann 26. maí 2005, er vísað frá.

 Kærða hefur við hagsmunagæslu í máli umbjóðanda síns gegn kæranda, með ritun bréfs til sýslumannsins í T þann 30. nóvember 2006, ekki gert á hlut hans með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 Málskostnaður fellur niður.

 ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA