Mál 9 2008

Ár 2011, fimmtudaginn 2. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 9/2008:

G

gegn

H hdl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi G, kæranda, til úrskurðarnefndar lögmanna, mótt. 15. maí 2008, var kvartað yfir vinnubrögðum af hendi H, hdl., kærða,við innheimtu á kröfu Dbanka á hendur kæranda, sérstaklega skilum kærða á 460.000 kr. greiðslu kæranda til kröfuhafans.

Með bréfi, dags. 23. júní 2008 var óskað eftir greinargerð kærða vegna málsins. Kærði sendi nefndinni útskriftir úr innheimtukerfi þann 24. júní 2008 og greinargerð 2. júlí. Urðu þetta upphaf að töluverðum samskiptum kæranda, kærða og úrskurðarnefndarinnar, sem höfðu það markmið að átta sig á því hvert umkvörtunarefnið væri í raun og veru og hver atvik væru að baki kvörtuninni. Í ljós kom að málið snýst um kröfu á grundvelli skuldabréfs. Áhöld voru framan af um eignarhaldið á þessari kröfu, en Dbanki var upphaflega skráður eigandi kröfunnar hjá lögmanninum, en síðar Xbanki. Loks hafði [...]hf. leyst kröfuna til sín, en krafan var á þeim tíma til innheimtu hjá lögmannsstofu kærða.

Kærandi taldi að vanhöld hefðu verið á því að kærði hefði staðið Dbanka skil á þeim greiðslum sem hann innheimti hjá sér. Kærði hefur hins vegar byggt á því að hann hafi staðið kröfueigendum skil á öllum greiðslum, en 75.000 króna greiðsla hafi þó ekki borist kröfuhafanum strax. Þar hafi verið um mistök að ræða sem hafi verið leiðrétt um leið og þau komu fram. Greiðslan hafi verið réttilega skráð í innheimtukerfið og hafi aldrei haft nein áhrif á stöðu kæranda.

Báðir aðilar málsins hafa ítrekað fengið fresti, en nefndinni virtist hugsanlegt að fremur væri um að ræða flækju sem greiða þyrfti úr ellegar misskilning, en að um það væri að ræða að greiðslur hefðu ekki skilað sér til kröfuhafa.

Úrskurðarnefndin hélt fund með kæranda og kærða þann 18. mars 2011. Að mati nefndarinnar kom skýrlega fram á fundinum að kærði hefur staðið kröfuhöfum skil á öllum greiðslum sem hann hefur innheimt hjá kæranda vegna umrædds innheimtumáls. Hefur hann lagt fram gögn þar að lútandi.  Kærandi taldi hins vegar á fundinum að vera kynni að kröfuhafarnir sem að málinu koma hefðu ekki dregið allar þessar greiðslur réttilega frá kröfunni til lækkunar hennar.

Kærandinn hefur, þrátt fyrir þetta, ekki afturkallað kærumál sitt hjá nefndinni og er því óhjákvæmilegt að kveða upp í því úrskurð. Hann hefur ekki heldur breytt upphaflegri kröfu sinni, sem er sú að kærði geri grein fyrir ráðstöfun þeirra fjármuna sem kærandi taldi að ekki hefðu skilað sér til kröfuhafa. Kærði hefur ekki gert sérstakar kröfur í málinu.

Niðurstaða.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 28. gr. lögmannalaga.

Í máli þessu er ekkert fram komið um að kærði hafi látið undir höfuð leggjast með ámælisverðum hætti að standa kröfuhöfum skil á innheimtufé, en eins og fyrr er rakið skipti krafan um hendur á meðan hún var til innheimtu hjá kærða. Verða engar athugasemdir gerðar við störf hans.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, H hdl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, G, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.