Mál 20 2013

Ár 2013, föstudaginn 6. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 20/2013:

X

gegn

G hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi X, kæranda, til úrskurðarnefndar lögmanna, sem barst nefndinni þann 25. september 2013, var kvartað yfir framburði G hrl., kærða, er hannkom fram sem vitni fyrir dóm.

Með bréfi, dags. 30. september 2013 var óskað eftir greinargerð kærða um málið og barst hún nefndinni 23. október 2013 Var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana 24. október 2013 og bárust þær 11. nóvember 2013. Með bréfi nefndarinnar til kærða, dags. 14. nóvember 2013 var kærða gefinn kostur á að koma að lokaathugasemdum vegna málsins en hann kaus að gera það ekki.

I.

Málsatvik eru þau að kærandi var framkvæmdastjóri og eigandi að 1/3 hlut fyrirtækisins S ehf. Þann 30. september 2010 var bú S ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og var kærði skipaður skiptastjóri. Vegna tilkynningar kærða þann 17. febrúar 2011 til embættis sérstaks saksóknara fór rannsókn fram á háttsemi fyrirsvarsmanna S ehf., þar á meðal kæranda. Sérstakur saksóknari tók ákvörðun 31. maí 2013 og taldi í ljósi þeirra gagna og skýringa sem fram höfðu komið í málinu að sakarefnið væri ekki nægjanlegt eða líklegt til sakfellis við meðferð refsimáls. Þessi ákvörðun var síðar staðfest af ríkissaksóknara þann 26. júlí 2013. Kærandi fór maí 2012 í meiðyrðamál gegn R vegna ummæla sem hann hafði uppi og voru birt á netsíðu 11. apríl 2012, ummælin voru eftirfarandi: „aðkoman að S ehf. eftir fyrri eigendur sem ráku fyrirtækið áður en bankinn tók yfir það hafa verið slæma. Áður en reksturinn fór í þrot hafi þeir flutt umboð frá erlendum birgjum yfir í annað félag og skilið bókhaldið eftir í henglum."Kærði bar vitni í málinu sem skiptastjóri þrotabús S ehf. Niðurstaða dómsins var sú að R var sýknaður af kröfum sóknaraðila í héraðsdómi [...].Aðila greinir hér á um framgöngu kærða sem vitnis í umræddu meiðyrðamáli.

II.

Kærandi telur að vitnisburður kærða í dómsmáli sem hann höfðaði á hendur R hafi haft veigamikil áhrif á niðurstöðu héraðsdóms. Hafi það verið vegna starfa hans fyrir þrotabúið sem skiptastjóri þar sem gera mátti ráð fyrir því að hann hafi aflað sér þeirra þekkingar og metið stöðu þrotabúsins út frá staðreyndum. Þannig hefði hann getaðgefið réttar upplýsingar um það ágreiningsefni sem var tekið fyrir í dómnum. Kærandi telur enn fremur að í ljósi þess að rannsókn á hendur honum var látinn niður falla hjá sérstökum saksóknara og ríkissaksóknara sé vitnisburður kærða í skjön við þá niðurstöðu.

Kærði hafi vegna stöðu sinnar haft tvö ár til þess að kynna sér allar aðstæður hjá S. ehf og hafi því vitað vel að ekkert var aðfinnsluvert við bókhald fyrirtækisins. Enginn tölvubúnaður hafi verið fjarlægður né gögnum eytt, auk þess sem engin umboð hefðu verið flutt frá erlendum birgjum yfir í annað félag. Engu að síður hafi kærði vitnað um annað fyrir dómi sem eiðsvarið vitni og hafi þar með framburði sínum haft úrslitaáhrif á niðurstöðu dómsins. Kærandi vitnar beint í forsendur dómsins því til stuðnings, þar sem segir: „Í þessu sambandi verður að leggja til grundvallar frásögn skiptastjóra þrotabúsins"

Kærandi krefst þess að kærði verði áminntur fyrir brot á siðareglum lögmanna og fyrir að hafa brotið gegn lögum og velsæmi.

III.

Kærði hafnar kröfum kæranda og krefst þess í fyrsta lagi að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að nefndin komist að þeirri niðurstöðu að hann hafi í stöfum sínum ekki gert á hlut kæranda með þeim hætti að það stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Krafa kæranda sé reist á því að hann hafi borið rangt fyrir dómi. Slík háttsemi sé refsiverð sbr. 142. gr. almennra hegningarlega nr. 19/1940. Úrskurðarnefnd sé því að meta hvort kærði hafi framið refsiverðan verknað . Það falli utan verk- og valdsviðs nefndarinnar að fjalla um þetta sakarefni og beri því að vísa málinu frá. Kærði kveður í öðru lagi á um að hann hafi verið kvaddur fyrir héraðsdóm sem vitni og að á honum hafi hvílt vitnaskylda sbr. 1. mgr. 51. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Því hafi honum verið skylt að mæta fyrir dóm og svara þeim spurningum sem beint var til hans. Framburður kærða fyrir dómi hafi því ekkert að gera með störf hans sem lögmaður enda hafi hann einungis komið fram sem vitni en ekki lögmaður. Beri því að vísa málinu frá nefndinni. Kærði vísar í þriðja lagi til þess að úrskurðarnefnd hafi áður komist að þeirri niðurstöðu að hún leysi ekki úr kvörtunum sem lúta að störfum skiptastjóra. Beri kæranda að beina slíkum kvörtunum til Héraðsdóms Reykjavíkur sem skipaði kærða sem skiptastjóri í umræddu máli. Vegna alls framangreinds telur kærði að vísa beri kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Kærði fjallar næst um varakröfu sína og fjallar um störf sín sem skiptastjóri S ehf. Hann vísar til þess að sem skiptastjóri hafi hann nýtt sér heimild 1. mgr. 77. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. og falið endurskoðunarfyrirtækinu E að semja skýrslu um bókhald og rekstur félagsins. Skýrslunni hafi verið  skilað 31. janúar 2011 og í henni hafi m.a. verið upplýsingar um að við skoðun á netþjóni S ehf. hafi verið greinilegt að hann hafi verið tengdur við annan tölvubúnað sem ekki væri lengur til staðar, ásamt því að búið væri að eyða út ákveðnum gögnum af hörðum diskum og keyra inn á þá grunnuppsetningu stýrikerfis. Með þessum aðgerðum hafi því verið búið að eyðileggja þá uppsetningu og þau gögn sem hefðu verið á vélunum. Þá kom fram í skýrslunni að reynt hafi verið að eyða ákveðnum gögnum sem þó fundust, ásamt því að að ekki hafi fengist aðgangur að öllum  bókhaldsgögnum S ehf. Hafi til að mynda vantað öll fylgiskjöl vegna erlendra vörukaupa ársins 2009, sem og viðskiptasamninga við erlenda birgja og viðskiptavini.

Eftir að hafa fengið þessar upplýsingar kveðst kærði hafa tilkynnt félagið S ehf. til embættis sérstaks saksóknara þann 17. febrúar 2011. Kærði greinir frá því að hann hafi verið boðaður í skýrslutöku vegna umrædds meiðyrðamáls 17. janúar 2013 og hafi ummæli hans þar lotið að ástandi bókhalds S ehf.,og hafi hann byggt á þeirri vitnesku sem fyrir honum lá.

Kærði bendir á að í dómi héraðsdóms í umræddu meiðyrðamáli kæranda hafi framburði sínum verið slegið samanvið það sem vitnið Hbar fyrir dómi, en hann starfaði sem framkvæmdastjóri í rekstri þess fyrirtækis sem keypti S ehf. af þrotabúinu. Sé fjallað í einu lagi og án aðgreiningar um það sem fram kom í vitnisburðum þeirra. Þurfi því að greina á milli þess sem kærði bar fram við skýrslutöku og þess sem H bar fram.

Kærði telur framburð sinni hafa byggt á skýrslu endurskoðunarfyrirtækis E, skýrslu kæranda daginn eftir gjaldþrot og þeirri staðreynd að bókhald félagsins hafði verið fjarlægt af starfsstöð fyrirtækisins. Kærði greinir frá því að ekkert í skýrslu sinni fyrir dóm lúti að flutningi viðskiptasambanda við erlenda birgja yfir í annað félag í eigu kæranda og hvergi hafi hann fullyrt að öllum gögnum um erlenda birgja hafi verið eytt úr bókhaldi félagsins. Enn fremur hafi kærði lýst í skýrslu sinni að gögn um erlenda viðskiptamenn hafi ekki fundist í bókhaldi félagsins og það líti út fyrir að gögnum hafi verið eytt úr bókhaldinu.

Kærði telur því að skýrslugjöf sín fyrir dómi hafi verið í einu og öllu í samræmi við þá vitneskju sem hann hafi haft um bókhald hins gjaldþrota félags. Kærði tekur fram að þegar hann hafi gefið skýrslu í meiðyrðamálinu hafi hvorki embætti sérstaks saksóknara né ríkissaksóknara tekið ákvörðun á grundvelli tilkynningar hans en málatilbúnaður kæranda sé alfarið reistur á niðurstöðum þeirra.

Kærði greinir frá því að í niðurstöðum sérstaks saksóknara og ríkissaksóknara felist að rannsókn gefi til kynna að ekki séu skilyrði til að höfða refsimál. Í því sambandi þurfi að taka fram að rannsókn skiptastjóra á bókhaldi og fjárreiðum gjaldþrota félags lúti allt öðrum tilgangi og lagareglum en rannsókn lögreglu. Tilkynningarskylda skiptastjóra sé því bundinn við atvik sem hann telur geta gefið tilefni til rökstudds gruns um að refsivert athæfi hafi átt sér stað en skilyrði ákæruvalds til saksóknar séu allt önnur, nánar tiltekið að rannsóknargögn séu nægjanleg eða líkleg til sakfellis. Þá séu rannsóknarheimildir lögreglu og ákæruvalds mun rýmri en skiptastjóra og sé það því rangt sé að kærði  hafi haft aðgang að sömu gögnum í tvö ár líkt og komi fram í greinargerð kæranda.

Með hliðsjón af öllu framangreindu telur kærði það fjarstæðukennt að halda því fram að hann hafi mátt vita að framburður hans fyrir dómi væri í andstöðu við það sem hann hafði orðið áskynja í störfum sínum. Þá sé það einnig fráleitt að halda því fram að sá framburður hafi haft úrslitaáhrif á niðurstöðu héraðsdóms. Þá bendir kærðiá að í niðurstöðu héraðsdóms er sérstaklega tekið fram að framburðinum hafi hvorki verið mótmælt að hálfu kæranda né gerð tilraun til að hnekkja honum.

Kærði kveður kæranda hafa verið viðstaddan skýrslutöku yfir honum fyrir Héraðsdóm Reykjanes og hafi hann mátt vita að stór hluti þeirra ummæla sem höfð voru eftir honum og H í sameiningu séu ekki frá honum kominn. Af þeirri ástæðu krefst kærði þess að honum verði greiddur málskostnaður í þessu máli samkvæmt reikningi, sem taki annars vegar til greinargerðar og hins vegar til þess kostnaður sem hann hefur haft af uppritun skýrslu sinnar fyrir héraðsdómi, samtals 12.550 kr.

Niðurstaða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 28. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna, ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti.

Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

II.

Skiptastjórar í þrotabúum hafa opinberu hlutverki að gegna í samræmi við ákvæði GÞL og mótast samskipti þeirra við þrotamann, kröfuhafa og aðra sem tengjast skiptunum af því hlutverki. Það er ekki skilyrði fyrir skipun skiptastjóra að hann sé lögmaður, en í framkvæmd eru það nær eingöngu lögmenn sem sinna skiptastjórn. Samkvæmt 76. gr. GÞL er þeim sem á kröfu á hendur búinu heimilt að bera upp skriflegar aðfinnslur um störf skiptastjóra við héraðsdómara meðan á gjaldþrotaskiptum stendur. Úrskurðarnefnd lögmanna hefur í fjölmörgum úrskurðum hafnað því að fjalla um störf skiptastjóra á þeirri forsendu að löggjafinn hafi fellt ágreining um störf þeirra í ákveðinn farveg. Geti ekki komið til greina að opna fyrir að um störf skiptastjóra sé fjallað annars vegar fyrir héraðsdómi en jafnframt með sjálfstæðum hætti fyrir úrskurðarnefndinni. Eins og hér stendur á verður málinu ekki vísað frá með þessum rökum. Skiptum búsins er lokið og því útilokað að beina kvörtun til héraðsdóms. Þá lúta umkvartanir kæranda ekki fyrst og fremst að skiptastjórninni sjálfri, heldur að framgöngu kærða sem vitnis.

Úrskurðarnefndin telur að sú framganga kærða, sem kæran er reist á, sé í svo nánum tengslum við lögmannsstörf kærða að hann sé bundinn af ýmsum ákvæðum siðareglna lögmanna, einkum I., III. og V. kafla. Verði þó að taka fullt tillit til þeirra skyldna sem á kærða hvíldu sem skiptastjóra og vitni.

Að öllu samanlögðu verður því að hafna frávísunarkröfu kærða.

III.

Kærandi byggir á því að niðurstaða sérstaks saksóknara 31. maí 2013, sem staðfest var af Ríkissaksóknara 26. júlí 2013, feli í sér að ekki hafi verið framin bókhaldsbrot í rekstri S ehf. í aðdraganda gjaldþrots félagsins eða önnur skyld brot. Án þess að fjallað sé sérstaklega um sönnunarbyrði í kærunni, virðist á því byggt að kærði eigi sönnunarbyrði um þau ummæli sem hann lét falla sem vitni í meiðyrðamálinu. Sú sönnun hafi augljóslega ekki tekist, þegar litið sé til niðurstöðu ákæruvaldsins.

Vegna þessa er nauðsynlegt að benda á að í niðurstöðu ákæruvaldsins felst sú afstaða að um þessi meintu brot liggi ekki fyrir sönnun og að ekki sé nægilega líklegt að unnt sé að sanna þau fyrir dómi. Af orðalagi í niðurstöðum ákæruvaldsins virðist raunar mega draga þá ályktun að varðandi ákveðin meginatriði því þyki ekki mjög sennilegtað brot hafi verið framin. Allur vafi að þessu leyti er á þessum vettvangi túlkaður þeim í hag sem sakaður er um að hafa brotið af sér.

Það mál sem hér er til umfjöllunar horfir við með öðrum hætti. Í þessu máli er kærða gefið að sök að hafa gegn betri vitund borið ranglega um að bókhaldsbrot og önnur skyld brot hefðu verið framin í rekstri S ehf. Aðfinnslur verða ekki gerðar við framgöngu kærða í þessu máli nema að því marki sem sannað er að hún hafi verið aðfinnsluverð.

Þegar litið er til gagna málsins, sérstaklega skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins E um rannsókn þess á bókhaldi S ehf. frá 2007 - 2010 og þau borin saman við framburð kærða fyrir dómi í meiðyrðamálinu, fæst ekki séð að kærði hafi orðið ber að því að bera ranglega gegn betri vitund um það sem hann komst að í starfi sínu sem skiptastjóri. Virðist hann einungishafa svarað þeim spurningum sem til hans var beint, eftir því sem hann vissi gerst. Breytir fyrrnefnd niðurstaða ákæruvaldsins engu í því efni. Verður því hafnað að gera aðfinnslur við störf kærða.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, G hrl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, X, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Kristinn Bjarnason, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________