Mál 34 2017

Ár 2018, 28. febrúar 2018, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2017:

A ehf., B, C ehf., D, E ehf. og F,

gegn

G

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 6. nóvember 2017 erindi kærenda, A ehf., B, C ehf., D, E ehf., og F, en í því er kvartað yfir því að kærði, G, lögmaður með leyfi til að flytja mál fyrir Hæstarétti, hafi brotið annars vegar gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn hvað varðar rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess og hins vegar gegn ákvæði 27. gr. laganna.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 7. nóvember 2017 og barst hún þann 22. sama mánaðar. Var umboðsmanni kærenda send greinargerð kærða til athugasemda með bréfi dags. 24. nóvember 2017. Hinn 10. desember 2017 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kærenda og voru þær sendar kærða þann 11. sama mánaðar. Svar kærða barst 4. janúar 2018 og var það sent til umboðsmanns kærenda með bréfi dags. 5. sama mánaðar með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Engar frekari athugasemdir voru gerðar og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt gögnum málsins og málsatvikalýsingu aðila mun hluti kærenda hafa leitað til kærða í marsmánuði 2015 vegna rammasamnings, sem þeir voru aðilar að, um tilfallandi akstur fyrir fatlaða og fötluð skólabörn á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt samningskaupaútboði og vegna ágreinings þeirra við S og H um meint brot í kjölfar útboðsins, þ. á m. vegna forgangsröðunar. Mun kærði hafa tekið málið að sér og rekið fyrir hönd hluta kærenda þrjú mál fyrir kærunefnd útboðsmála á árunum 2015 og 2016.

Í úrskurði kærunefndar útboðsmála x. ágúst 2015 í máli nr. x/2015, sem kærendur A ehf. og C ehf. áttu meðal annars aðild að, en kæra vegna málsins mun jafnframt hafa verið lögð fram í nafni kærenda B og E ehf., var því áliti kærunefndar lýst að S bæri skaðabótaskyldu gagnvart kærendum vegna samnings við nánar tilgreint félag um tilfallandi akstursþjónustu fatlaðs fólks og fatlaðra skólabarna en kröfum kærendanna var að öðru leyti hafnað. Með úrskurðinum var S gert að greiða kærendunum sameiginlega 800.000 krónur í málskostnað.

Með úrskurði kærunefndar útboðsmála x. júní 2016 í máli nr. x/2016, sem kærendur A ehf. og B áttu meðal annars aðild að sem og fyrirsvarsmenn kærendanna C ehf. og E ehf., var ákvörðun H, um að gera samning við leigubílastöð til að sjá um akstur fyrir fatlað fólk sem sannanlega gæti nýtt sér leigubíla til ferðaþjónustu, felld úr gildi. Var H gert að greiða kærendum málsins 600.000 krónur í málskostnað.

Þá var í úrskurði kærunefndar útboðsmála x. júní 2016 í máli nr. x/2015, sem kærendur A ehf. og B áttu meðal annars aðild að sem og fyrirsvarsmenn kærendanna C ehf. og E ehf., lagt til grundvallar að S væri skaðabótaskylt gagnvart kærendum málsins vegna framkvæmdar á rammasamningi um tilfallandi akstursþjónustu fatlaðs fólks og fatlaðra skólabarna. Að öðrum leyti var kröfum kærenda vísað frá kærunefnd útboðsmála en S gert að greiða kærendum sameiginlega 800.000 krónur í málskostnað.

Í kjölfar tilgreindra mála mun hafa verið tekið ákvörðun um það að óska dómkvaðningar matsmanns til að meta ætlað tjón kærenda, sem rammasamningshafa, vegna þeirra brota sem lýst hafði verið í úrskurðum kærunefndar útboðsmála.

Þann 9. september 2016 sendi kærði eftirfarandi tölvubréf til kærenda A ehf. og C ehf.:

Sælir. Varðandi áætlaðan lögmannskostnað við málaferli gegn S, þá vill undirritaður gera svofellda áætlun:

Þær greiðslur sem þegar hafa verið inntar af hendi duga til að greiða lögmannskostnað vegna matsbeiðni og reksturs matsmáls.

Komi til þess að kröfu verði stefnt fyrir héraðsdóm í kjölfar niðurstöðu matsmanns, þá greiðist eftirfarandi:

  • Til að setja dómsmál af stað 1.000.000
  • Þegar niðurstaða er komin í héraði ef stefndi er ekki dæmdur til greiðslu málkostnaðar       1.000.000
  • Við þessar tölur bætist vsk.

Stefndi verður að sjálfsögðu krafinn um málskostnað skv. málskostnaðaryfirliti, þar á meðal um kostnað vegna matsmanns. Þess er þá vænst að allt ofangreint og meira til greiðist af S í kostnað. Verði málskostnaður felldur alfarið á stefndu þar sem mál tapaðist verða rammasamningshafar ekki krafðir um frekari kostnað. Verði málskostnaður felldur niður eða dæmdur málskostnaður dekkar ekki málskostnað skv tímaskýrslu þrátt fyrir að dæmdar væru skaðabætur til handa rammasamningshöfum mun málskostnaður skv tímaskýrslu dragast frá dæmdum bótum.“

Fyrir úrskurðarnefnd liggur beiðni um dómkvaðningu matsmanna, dags. x. október 2016, sem kærði undirritaði en þar eru kærendur A ehf., B, C ehf., D og E ehf. tilgreindir sem matsbeiðendur en S sem matsþoli.

Í tölvubréfi kærða til kæranda F frá 5. október 2016 var því lýst að ekki væri of seint að taka þátt í hinni fyrirhuguðu málssókn á hendur S. Varðandi kostnað vegna málarekstursins var eftirfarandi tiltekið í tölvubréfinu:

Ég var búinn að senda út áætlun um heildarverð á annars vegar matsbeiðninni og hins vegar málsókninni í kjölfarið. Matsmaðurinn áætlaði ef ég man rétt að hámarki 5 mkr. En ég tel mig vera búinn að fá greitt vegna lögmannshluta matsbeiðninnar. Ég sló síðan á 2 mkr lögmannskostnað við að stefna málinu áfram. En að sjálfsögðu væri stefnt að því að láta S borga allan málskostnað.

Matsmaður mun hafa verið dómkvaddur á dómþingi Héraðsdóms Y þann x. nóvember 2016. Fyrir úrskurðarnefnd liggur matsgerð hins dómkvadda matsmanns, dags. x. júní 2017. Þá liggur fyrir að matsmaður gaf út reikning, dags. 23. júní 2017, að fjárhæð 6.200.000 krónur með virðisaukaskatti vegna starfa sinna sem stílaður var á lögmannsstofu kærða. Er ágreiningslaust að kærendur greiddu tilgreindan reikning.

Í tölvubréfi fyrirsvarsmanns kærandans A ehf. til kærða þann 16. júlí 2017, sem hinn dómkvaddi matsmaður fékk jafnframt sent afrit af, voru gerðar ýmsar athugasemdir við efni matsgerðarinnar. Gerði kærandinn meðal annars athugasemdir við að hafa ekki fengið aðgang að svonefndu gagnaherbergi við vinnslu matsgerðarinnar.

Kærði sendi kærendum matsgerð í endanlegu horfi í tölvubréfi þann 23. ágúst 2017. Kvaðst kærði vita að ekki yrðu allir sáttir en benti á að hinum dómkvadda matsmanni hefði borið að leggja hlutlægt mat á matsspurningarnar og vinna eftir bestu samvisku. Þá tiltók kærði að áréttað hefði verið á matsfundum að gagnaherbergið væri öllum opið en að hann hefði sjálfur ekki verið með neitt lykilorð auk þess sem honum hefði ekki verið falið að koma því til kærenda. Hefðu matsbeiðendur og matsþoli haft allan aðgang að gagnaherberginu í gegnum matsmanninn. Varðandi næstu skref var því lýst í tölvubréfinu að þau fælust í því að kynna matsgerðina fyrir lögmanni matsþola og setja fram kröfugerð en eftir væri að reikna tjón hvers og eins sem og skaðabótavexti fyrir viðkomandi tímabil. Óskaði kærði eftir að kærendur færu yfir þau atriði sem lýst var í tölvubréfinu og tiltók að aðilar þyrftu síðan að funda um næstu skref.

Í tölvubréfi kærenda til kærða, dags. 20. september 2017, var því lýst að ákveðin óánægja væri með matið og að áður en lengra yrði haldið þyrfti að liggja fyrir hver heildarkostnaður vegna starfa kærða væri orðinn. Var óskað eftir greinargerð kærða um það efni. Var sú beiðni ítrekuð í tölvubréfi kærenda til kærða þann 25. sama mánaðar.

Kærði svaraði ofangreindu erindi með tölvubréfi þann 26. september 2017, sbr. eftirfarandi:

Mér sýnist þetta í fljótu bragði standa í 75 klst frá útgáfu síðasta reiknings. 52,75 klst 2016 en þá var tímagjaldið 35.000 = 1.828.750. 22,75 klst 2017 en nú er tímagjaldið 40.000 = 910.000. Samtals stendur verkið í kr. 2.738.750 + vsk = 3.396.050.

Hvað viljið þið gera? Ekkert mál af minni hálfu að loka þessu verki og gefa út reikning í samræmi við ofangreint. Ég vona að nýtt mat sem þið fáið eða yfirmat hækki fjárhæð tjónsins. Ég tel ekki vera tilefni til bjartsýni varðandi það.

Þann 29. september 2017 sendu kærendur á ný tölvubréf til kærða. Í tölvubréfinu tilkynntu kærendur um að nýr lögmaður hefði tekið við störfum fyrir hönd kærenda. Þá óskuðu kærendur eftir að fá sundurliðaðan reikning vegna allra starfa kærða, þ. á m. vegna vinnu kærða við þrjár kærur til kærunefndar útboðsmála sem og vegna vinnu vegna matsbeiðninnar. Þá óskuðu kærendur jafnframt eftir útlistun á því hvað hver og einn aðili hefði greitt kærða á fyrri stigum vegna vinnu kærða sem og upplýsingum um fjárhæð sem kærunefnd útboðsmála hefði úrskurðað um.

Kærði svaraði tilgreindu tölvubréfi samdægurs. Varðandi þá reikninga sem þegar hefðu verið gefnir út og greiddir vegna vinnu við kvartanir til kærunefndar útboðsmála, sem hluti matsbeiðenda hefði staðið að, tiltók kærði að ekki væri nein ástæða til að sundurliða þá eitthvað frekar eða vinnu þar á bak við. Þeir reikningar hefðu verið gefnir út og greiddir í samræmi við tímaskýrslur og að teknu tilliti til málskostnaðar sem fallið hefði á gagnaðila að greiða. Hvað hver og einn hefði greitt gæti sá hinn sami svarað þar sem reikningar hefðu verið gefnir út á hvern og einn aðila að málunum þremur fyrir kærunefndinni. Þá tiltók kærði að reikningur í samræmi við efni fyrra tölvubréfs yrði gefinn út. Var því jafnframt lýst að tímaskráning kærða væri þeim annmarka háð að kærði gleymdi oft að skrá tölvupósta og símtöl þannig að iðulega væri um vantalningu að ræða. Væri það vandamál kærða. Þá tiltók kærði að störfum hans væri ekki lokið fyrr en sá reikningur sem gefinn yrði út væri greiddur.

Í tölvubréfi kærða til kærenda þennan sama dag tiltók kærði að um reikninga en ekki reikning væri að ræða. Kvaðst kærði gera ráð fyrir því að gefa út jafn háan reikning á hvern og einn matsbeiðanda nema hann fengi beiðni um einhverja aðra skiptingu sem aðilar væru ásáttir um.

Með tölvubréfi kærenda til kærða, dags. 1. október 2017, var gagna- og upplýsingabeiðni kærenda ítrekuð. Var meðal annars tiltekið að ástæða beiðninnar væri sú að engir sundurliðaðir reikningar hefðu fundist. Þá var því lýst að upplýsingar um þetta efni ættu að liggja fyrir hjá kærða og vera aðgengilegar með auðveldum hætti auk þess sem fjárhæðir sem kærunefnd útboðsmála hefði úrskurðað um ættu að hvíla á fjárvörslureikningi kærða. Þá bentu kærendur á að með tölvubréfum kærða, dags. 9. september 2016 og 5. október 2016, hefði því verið lýst að þegar greiddar greiðslur ættu að duga til greiðslu lögmannskostnaðar vegna matsbeiðninnar og reksturs matsmáls. Samkvæmt því væri núgildandi áætlun kærða um kostnað úr öllu samræmi við fyrri samskipti aðila.

Kærendur ítrekuðu fyrri erindi með tölvubréfi til kærða þann 22. október 2017. Var í tölvubréfinu meðal annars vísað til 14. og 15. gr. siðareglna lögmanna.

Kærði lýsti því í tölvubréfi til kærenda, dags. 23. október 2017, að hann áttaði sig ekki á fyrirspurninni. Kvaðst kærði ekki geta annað en ítrekað að reikningar frá lögmannsstofu hans hefðu verið stílaðir á hvern og einn kærenda. Samkvæmt því lægi fyrir í bókhaldi viðkomandi hvað hver og einn hefði greitt. Þá vísaði kærði á úrskurði kærunefndar útboðsmála um hvaða málskostnaður hefði verið ákveðinn.

Af þeim gögnum sem liggja fyrir úrskurðarnefnd verður ráðið að aðilar hafi ekki átt í frekari samskiptum eftir þennan tíma og að kærði hafi ekki sinnt frekari lögmannsstörfum fyrir kærendur.

Kærði hefur fyrir úrskurðarnefnd lagt fram afrit af tímaskýrslu sinni vegna vinnu í þágu kærenda á tímabilinu frá 10. mars 2015 til og með 5. september 2017. Er þar tiltekið að tímafjöldi vegna lögmannsstarfa kærða í þágu kærenda hafi alls verið 237,5 klukkustundir. Samkvæmt yfirliti, sem fylgdi með tímaskýrslunni, kveðst kærði hafa unnið alls 107,5 klukkustundir í þágu kærenda á árinu 2015, 104,5 klukkustundir á árinu 2016 og 25,5 klukkustundir á árinu 2017. Þar af hafi 152,5 klukkustundum verið varið í kærumál á hendur S fyrir kærunefnd útboðsmála, 26,75 klukkustundum vegna kærumáls á hendur H fyrir sömu nefnd og 58 klukkustundum vegna reksturs viðkomandi matsmáls. Er því lýst í yfirlitinu að tímagjald kærða hafi verið 35.000 krónur auk virðisaukaskatts á árunum 2015 og 2016 en 40.000 krónur auk virðisaukaskatts á árinu 2017. Þá er því lýst að tímagjald kærða með afslætti hafi verið að fjárhæð 30.000 krónur auk virðisaukaskatts á nefndu tímabili. Samkvæmt því hafi kostnaður vegna starfa kærða í þágu kærenda miðað við tímagjald verið að fjárhæð 8.440.000 krónur án virðisaukaskatts en 7.125.000 krónur án virðisaukaskatts að teknu tilliti til afsláttar.

Kærði hefur vísað til þess fyrir nefndinni að ákveðið hafi verið í upphafi málarekstursins að kærði myndi skipta reikningagerð sinni á þrjá af rammasamningshöfunum, þ.e. kærendur A ehf. og C ehf. annars vegar og J ehf. hins vegar. Liggja fyrir nefndinni útprent úr hreyfingaryfirliti viðkomandi viðskiptamanna kærða úr bókhaldi aðilans sem og útgefnir reikningar.

Í fyrsta lagi liggja þannig fyrir reikningar sem lögmannsstofa kærða gaf út á kærandann A ehf. Nánar tiltekið er þar um að ræða reikning nr. 270, dags. 14. apríl 2015, að fjárhæð 299.253 krónur með virðisaukaskatti og útlögðum kostnaði, reikning nr. 279, dags. 30. apríl 2015, að fjárhæð 409.200 krónur með virðisaukaskatti, reikning nr. 298, dags. 25. júní 2015, að fjárhæð 99.200 krónur með virðisaukaskatti og reikning nr. 386, dags. 31. mars 2016, að fjárhæð 714.240 krónur með virðisaukaskatti.

Í öðru lagi liggja fyrir reikningar sem lögmannsstofa kærða gaf út á kærandann C ehf. Nánar tiltekið er þar um að ræða reikning nr. 269, dags. 14. apríl 2015, að fjárhæð 299.253 krónur með virðisaukaskatti og útlögðum kostnaði, reikning nr. 280, dags. 30. apríl 2015, að fjárhæð 409.200 krónur með virðisaukaskatti, reikning nr. 299, dags. 25. júní 2015, að fjárhæð 99.200 krónur með virðisaukaskatti og reikning nr. 387, dags. 31. mars 2016, að fjárhæð 714.240 krónur með virðisaukaskatti.

Í þriðja lagi liggja fyrir reikningar sem lögmannsstofa kærða gaf út á rammasamningshafann J ehf., sem á ekki aðild að máli þessu. Nánar tiltekið er þar um að ræða reikning nr. 271, dags. 14. apríl 2015, að fjárhæð 299.253 krónur með virðisaukaskatti og útlögðum kostnaði, reikning nr. 281, dags. 30. apríl 2015, að fjárhæð 409.200 krónur með virðisaukaskatti, reikning nr. 300, dags. 25. júní 2015, að fjárhæð 99.200 krónur með virðisaukaskatti og reikning nr. 388, dags. 31. mars 2016, að fjárhæð 714.240 krónur með virðisaukaskatti.

Áður er lýst úrskurðum kærunefndar útboðsmála í málum nr. x/2015, xx/2015 og x/2016 en þar var hluta kærenda í máli þessu úrskurðaður sameiginlegur málskostnaður úr hendi gagnaðila, þ.e. 800.000 krónur í málum nr. x/2015 og xx/2015 og 600.000 krónur í máli nr. x/2016. Ágreiningslaust er að málskostnaður samkvæmt úrskurðarorði var greiddur til kærða sem móttók fjármunina samkvæmt því fyrir hönd viðkomandi kærenda.

Í málatilbúnaði kærða er vísað til þess að málskostnaður vegna máls nr. x/2015, að fjárhæð 800.000 krónur, hafi verið greiddur beint inn á rekstrarreikning lögmannsstofu kærða og að greiðslunni hafi verið ráðstafað inn á reikninga sem lögmannsstofan hafi gefið út á árinu 2015 á hendur kærendum A ehf., C ehf. og J ehf. Málskostnaður vegna mála nr. xx/2015 og x/2016, að fjárhæð 800.000 krónur og 600.000 krónur, hafi hins vegar verið greiddur inn á fjárvörslureikning lögmannsstofu kærða. Hafi hluti af greiddum málskostnaði frá H, sem úrskurðaður hafði verið 600.000 krónur, farið í að gera upp ógreiddar eftirstöðvar á reikningi útgefnum á hendur J ehf. að fjárhæð 223.790 krónur. Samkomulag hafi verið um það milli aðila að áfram yrði unnið að málinu og að hafinn yrði undirbúningur að dómkvaðningu matsmanns og að innborgaður málskostnaður yrði notaður til að tryggja greiðslur fyrir áframhaldandi lögmannsvinnu. Kveður kærði að það sem eftir hefði staðið, þ.e. 376.210 krónur og 800.000 krónur, hefði verið fært inn á rekstrarreikning lögmannsstofu kærða sem óreikningsfærð innborgun, en tekinn til hliðar „vsk-hluti“ fjárhæðarinnar. Hafi nú verið gerðir reikningar vegna þessa, sem uppgjör á hluta af lögmannsþóknun kærða vegna matsmáls, sem stílaðir hafi verið á hina upphaflegu þrjá viðskiptamenn, að fjárhæð 1.176.210 krónur með virðisaukaskatti.

II.

Í málatilbúnaði kærenda er vísað til þess að kvörtun aðilanna beinist að kærða vegna vinnu hans við kærur fyrir kærunefnd útboðsmála og matsbeiðni. Lýtur kvörtunin jafnframt að því að kærði hafi ekki veitt afrit af áður útgefnum reikningum, sundurliðuðum reikningum og upplýsingum um greiðslur kærenda inn á reikning lögmannsstofu kærða. Þá lýtur kvörtunin að því að kærði hafi ekki geymt fjármuni sem kærendur hafi fengið úrskurðaða fyrir kærunefnd útboðsmála á fjárvörslureikningi sínum.

Í kvörtun kærenda er þess annars vegar krafist að kærða verði gert að veita þeim sundurliðaða reikninga frá árinu 2015. Er vísað til þess að sjá megi af útgefnum reikningum kærða að ekki sé um sundurliðaða reikninga að ræða. Vísa kærendur til þess að þeir vilji gera upp innbyrðis sín í milli enda hafi sumir komið að málinu á síðari stigum þess en til þess að svo megi verða þurfi kærendur að fá sundurliðaða reikninga frá kærða frá árinu 2015 til dagsins í dag ásamt upplýsingum um þær fjárhæðir sem kærendur hafi lagt inn á reikning lögmannstofu kærða. Þá telja kærendur mögulegt að þeir eigi inni fjárhæðir hjá lögmannsstofu kærða, sér í lagi ef litið er til þess að kærði hafi áður fullyrt að hann hefði fengið greitt fyrir lögmannshluta matsbeiðninnar í októbermánuði 2016.

Hins vegar er þess krafist í kvörtun kærenda að nefndin leggi mat á það hvort kærða hafi verið heimilt að gefa út reikning vegna starfa hans við matsbeiðnina, að teknu tilliti til fullyrðinga kærða um að hann hefði þegar fengið greitt fyrir lögmannshluta matsbeiðninnar og að hann héldi ekki rétta skráningu yfir tímafjölda.

Varðandi forsögu málsins er því lýst í kvörtuninni að hluti kærenda hafi leitað til kærða á árinu 2015 í kjölfar þess að kærendur gerðu rammasamning á akstri fatlaðra og fatlaðra skólabarna við S eftir opinbert útboð. Munu kærendur hafa talið að á þeim hefði verið brotið í kjölfar útboðsins, m.a. vegna forgangsröðunar. Vísa kærendur til þess að kærði hafi tekið málið að sér og annast kæru til kærunefndar útboðsmála. Hafi kærendur greitt kostnaðinn fyrir kærunefndinni, alls 160.000 krónur. Hafi kærði gefið út nokkra reikninga vegna málsins sem kærendur hefðu unnið fyrir kærunefndinni. Þá hafi S verið gert að greiða viðkomandi kærendum 800.000 krónur í málskostnað samkvæmt úrskurðarorði.

Vísa kærendur til þess að hluti þeirra hafi fengið kærða til að leggja fram tvær kærur til viðbótar fyrir kærunefnd útboðsmála og hafi kærendum verið úrskurðað í vil í báðum málunum. Hafi viðkomandi kærendum verið úrskurðaður málskostnaður úr hendi gagnaðila fyrir nefndinni, annars vegar að fjárhæð 800.000 krónur og hins vegar að fjárhæð 600.000 krónur. Er jafnframt tiltekið í kvörtuninni að kærendur hafi ávallt greitt sjálfir kostnað við kærurnar, alls 480.000 krónur. Þá hafi kærendur greitt lögmannskostnað kærða vegna framangreindra kæra og málareksturs fyrir kærunefnd útboðsmála.

Í kvörtuninni er vísað til þess að á árinu 2016 hafi kærendur óskað eftir mati dómkvadds matsmanns. Benda þeir á að í tölvubréfasamskiptum við kærða hafi komið fram að kærði hefði þegar fengið greitt fyrir lögmannshluta matsbeiðninnar og að því væri ekki þörf á greiðslum til hans nema málið færi fyrir dóm. Hafi kærði áætlað kostnað vegna slíks dómsmáls að fjárhæð 2.480.000 krónur.

Kærendur vísa til þess að í kjölfar matsgerðar hafi þeir ákveðið að leita til annars lögmanns þar sem erfitt hafi reynst að ná sambandi við kærða auk þess sem hann hafi ekki virst hafa mikla þekkingu á útboðsrétti. Benda kærendur á að þeir hafi í tvígang óskað eftir upplýsingum frá kærða um lögmannskostnað vegna matsbeiðninnar vegna áforma um að skipta um lögmann. Hafi kærði loks svarað eftir ítrekaðar fyrirspurnir að hann teldi sig hafa unnið 75 klukkustundir við matsbeiðnina, alls að fjárhæð 3.396.050 krónur með virðisaukaskatti. Vísa kærendur til þess að þeim hafi þótt þetta vægast sagt sérstök fjárhæð en að þeir hafi talið að kærði hafi á þessum tímapunkti gert sér grein fyrir að kærendur væru mjög óánægðir með störf hans.

Benda kærendur á að í kjölfar þessa hafi þeir sent kærða tölvubréf þar sem honum hafi verið tilkynnt um nýjan lögmann ásamt því að óskað hafi verið eftir sundurliðuðum reikningum frá árinu 2015, upplýsingum um hve háa fjárhæð hver og einn kærenda hefði greitt kærða frá árinu 2015 ásamt upplýsingum um fjárhæðir sem kærunefnd útboðsmála hefði úrskurðað um. Hafi kærði hafnað því að láta upplýsingarnar í té þar sem hann hafi talið að um óskyld mál væri að ræða auk þess að tiltaka að hver og einn kærenda yrði að skoða áður útgefna reikninga og finna til upplýsingar um fjárhæðir sem þeir hefðu lagt inn á reikning lögmannsstofu kærða.

Er vísað til þess í kvörtun kærenda að þeir hafi sent kærða á ný tölvubréf þar sem beiðni þeirra hafi verið útskýrð nánar ásamt afritum af tölvubréfum þar sem kærði hefði tekið skýrt fram að hann hefði þegar fengið greitt fyrir lögmannshluta matsbeiðninnar. Þar sem engin svör hafi borist frá kærða hafi efni tölvubréfsins verið ítrekað þann 22. október 2017. Kærði hafi loks svarað því erindi þann 23. sama mánaðar þar sem hann hafi vísað til fyrri svara.

Kærendur benda á að samkvæmt útgefnum reikningi notist kærði við svokallað DK bókhaldskerfi. Samkvæmt því ætti ekki að vera vandkvæðum bundið fyrir kærða að nálgast alla útgefna reikninga til handa kærendum. Þá ættu þeir fjármunir sem kærunefnd útboðsmála hefði úrskurðað til handa kærendum að hvíla inni á fjárvörslureikningi kærða.

Þá benda kærendur á að á reikningi kærða nr. 269, dags. 14. apríl 2015, sem stílaður er á C ehf., komi hvergi fram fyrir hvaða tímabil reikningurinn taki til auk þess sem ekki sé unnt að sjá um hvaða kæru ræði. Byggja kærendur á að ekki sé um sundurliðaðan reikning að ræða.

Að endingu er í kvörtun kærenda vísað til millifærslukvittunar, dags. 9. maí 2016, sem tilgreinir millifærslu C ehf. að fjárhæð 447.573 krónur inn á reikning lögmannsstofu kærða. Vísa kærendur til þess að enginn reikningur hafi fundist vegna millifærslunnar og að það hafi ekki verið einsdæmi í lögskiptum aðila.

Í viðbótarathugasemdum kærenda vegna greinargerðar og málatilbúnaðar kærða er í fyrsta lagi vísað til þess að kærendum hafi á engum tímapunkti á meðan störfum kærða stóð verið kynnt tímagjald hans. Þannig hafi kærði fyrst upplýst kærendur um tímagjald sitt í tölvubréfi þann 26. september 2017. Benda kærendur á að hvorki sé að finna verðskrá kærða á vefsíðu kærða né „fésbókarsíðu“ aðilans. Þá hafi ekki verið hægt að sjá útselt tímagjald á áður útgefnum reikningum. Telja kærendur að kærði hafi með þessu brotið reglur um góða lögmannshætti í samskiptum sínum við skjólstæðinga sína.

Í öðru lagi benda kærendur á að M hafi verið annar eigenda kærandans A ehf. en að hann hafi hvorki setið í stjórn félagsins né haft umboð til þess að skuldbinda félagið. Samkvæmt því sé það óforsvaranlegt af hálfu kærða að byggja á að viðkomandi aðili hafi verið í forsvari fyrir kærendur. Sé slíkt til marks um hve kærði hafi unnið illa að málinu. Er jafnframt á það bent að kærði hafi starfað við ýmis mál fyrir viðkomandi aðila í gegnum árin sem séu óskyld því máli sem kærði hafi rekið fyrir kærendur. Þá hafi kærði beint smáskilaboðum til aðilans, með nánar tilgreindu efni, eftir að kvörtun hafi verið lögð inn til úrskurðarnefndar í máli þessu.

Þá mótmæla kærendur þeim málatilbúnaði kærða um að hann hafi verið búinn að finna til upplýsingar í kjölfar fyrirspurnar kærenda á þeim tíma sem málinu hafi verið beint til úrskurðarnefndar. Benda kærendur í því samhengi á að samkvæmt fylgiskjölum með greinargerð kærða hafi hreyfingarlistar verið teknir út þann 22. nóvember 2017, þ.e. rúmum tveimur vikum eftir að kvörtun hafði verið beint til nefndarinnar.

Byggja kærendur á að hegðun kærða að þessu leyti sé ekki sæmandi lögmanni, sér í lagi ef litið sé til þess að nefndur M hafi hvorki setið í stjórn viðkomandi kæranda né farið með framkvæmdastjórn eða prókúru. Auk þess hafi hann ekki verið í forsvari fyrir kærendur.

Í þriðja lagi mótmæla kærendur þeirri staðhæfingu kærða að aðilinn hafi ekki gert ráð fyrir miklum samskiptum við kærendur og matsmann undir rekstri matsmálsins. Benda kærendur á að lögmaður hljóti að gera ráð fyrir samskiptum við hlutaðeigandi aðila við rekstur matsmáls.

Þá mótmæla kærendur málatilbúnaði kærða um að það hafi verið gagnkvæmur skilningur aðila að allur kostnaður við matið, þ.e. kostnaður matsmanns og lögmannskostnaður kærða, yrði hluti af málskostnaðarkröfu þegar farið yrði með kröfugerðina fyrir dóm. Vísa kærendur um þetta efni til tölvubréfa kærða til nánar tilgreindra kærenda frá 9. september 2016 og 5. október 2016 og benda á að af þeim verði hvergi ráðið að gagnkvæmur skilningur hafi verið um að stefna ætti málinu fyrir dóm og síður að kærði yrði sá lögmaður sem myndi reka slíkt mál. Hafi málið einvörðungu snúið að viðkomandi matsgerð á umræddum tíma.

Með vísan til þess telja kærendur að málatilbúnaður kærða fái ekki staðist um að forsendur fyrir áætluðum kostnaði hafi brostið við það að kærendur hafi leitað til annars lögmanns. Bendi sá tímafjöldi sem kærði byggi á að sé óreikningsfærður til þess að um hegningu hans gagnvart kærendum sé að ræða fyrir það eitt að vilja færa sig til lögmanns sem hefði sérþekkingu á útboðsrétti. Það hafi verið gert þegar kærendur hafi komist að því að kærði hefði ekki látið kærendur hafa aðgang að hinu svonefnda gagnaherbergi undir rekstri matsmálsins sem og þegar niðurstaða matsgerðarinnar hefði ekki verið í samræmi við það sem aðrir sérfróðir aðilar hefðu tjáð kærendum.

Í fjórða lagi mótmæla kærendur þeim óreikningsfærðu tímum sem tilgreindir eru í málatilbúnaði kærða sem og tímaskýrslu aðilans. Er á það bent að samkvæmt málatilbúnaði kærða séu óreikningsfærðir tímar frá 31. mars 2016 alls 91,75 klukkustundir. Sé sú tilgreining í engu samræmi við áður lýst tölvubréf kærða til nánar tilgreindra kærenda frá 9. september 2016 og 5. október sama ár þar sem því hafi verið lýst að kærði hefði þegar fengið greitt fyrir lögmannshluta matsbeiðninnar og vegna reksturs matsmáls og að viðbótarkostnaður yrði einungis lagður á kærendur ef málinu yrði stefnt fyrir dóm. Byggja kærendur á að málatilbúnaður kærða að þessu leyti geti ekki samrýmst góðum lögmannsháttum.

Vísa kærendur til þess að tímaskýrsla kærða beri þess merki að hafa verið skrifuð eftir að málinu hafi verið beint til úrskurðarnefndar í því skyni að láta hana samræmast efni tölvubréfs kærða frá 26. september 2017.

Benda kærendur á að kærði hafi tiltekið í tölvubréfi til kærenda þann 23. ágúst 2017 að hann hefði aldrei fengið aðgang að gagnaherbergi hins dómkvadda matsmanns. Fari þau orð í bága við skráningu í tímaskýrslu kærða frá 8. júní 2017. Auk þess gera kærendur athugasemdir við færslu í tímaskýrslu kærða frá 5. október 2016. Þá gera kærendur athugasemdir við tímaskýrsluna að því leyti að kærði hafi fært alls 6 klukkustundir í það eitt að fara yfir matsgerð sem hafi verið 15 blaðsíður að lengd sem og að kærði hafi á árinu 2015 unnið í alls 28 klukkustundir við að skrifa greinargerð vegna kæru til kærunefndar útboðsmála.

Þá vísa kærendur til þess að óútskýrt sé hvernig hinn óreikningsfærði tímafjöldi hafi farið úr alls 75 klukkustundum samkvæmt tölvubréfi kærða frá 26. september 2017 í 91,75 klukkustundir samkvæmt málatilbúnaði aðilans fyrir nefndinni. Benda kærendur á að kærði hafi sjálfur viðurkennt að tímaskráning hans sé annmörkum háð.

Byggja kærendur á að taka verði mið af því að kærði hafi ítrekað farið með fleipur varðandi tímaskráningu. Þá hafi kærði viðurkennt að hafa gleymt að halda löglega tímaskýrslu auk þess sem hann hafi ekki getað veitt upplýsingar úr henni þegar eftir því hafi verið leitað af hálfu kærenda.

Í fimmta laga mótmæla kærendur því að kærði hafi samið matsbeiðni að miklu leyti með matsbeiðendum. Benda kærendur á að þeir séu ekki löglærðir og því ekki á þeirra færi að koma að samningu matsspurninga eða skilja innihald slíkrar matsbeiðni.

Í sjötta lagi er á því byggt að kærði hafi ekki stundað góða lögmannshætti í störfum sínum fyrir kærendur. Er á það bent að framferði kærða í samskiptum við M annars vegar og í svörum hans við kærendur hins vegar þegar reynt hafi verið að fá upplýsingar um tímafærslur og sundurliðaða reikninga geti vart verið lögmannsstéttinni til heiðurs, sbr. 2. gr. siðareglna lögmanna.

Benda kærendur jafnframt á að ef kærði hafi ekki haft þekkingu eða kunnáttu á útboðsrétti hafi honum borið að koma málinu fyrir hjá öðrum lögmanni, sbr. 3. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna.

Þá vísa kærendur til 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna og benda á að kærði hafi gert áætlun um verkkostnað fyrir kærendur þar sem fram hefði komið að hann hefði fengið greitt fyrir lögmannshluta matsmálsins og að því kæmi ekki til frekari kostnaðar nema málinu yrði stefnt fyrir dóm. Byggja kærendur á að kærði hafi með háttsemi sinni jafnframt brotið gegn 3. mgr. 14. gr. og 15. gr. siðareglnanna.

III.

Skilja verður málatilbúnað kærða fyrir nefndinni þannig að hann krefjist þess að kröfum kærenda verði hafnað í málinu.

Kærði vísar til þess að málið snúist um kærendur sem séu rammasamningshafar um tilfallandi akstur fyrir fatlaða og fötluð skólabörn á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt samningskaupaútboði og ágreining þeirra við S og H. Tvö mál hafi verið rekin gegn S og eitt gegn H fyrir kærunefnd útboðsmála. Í öllum tilvikum hafi kærunefndin fallist í höfuðdráttum á kæruatriðin, þar sem S og H hafi verið talin hafa brotið gegn skilmálum samningskaupanna og/eða rammasamningum við rammasamningshafana. Hafi gagnaðilar tekið til fullra varna í umræddum málum en rammasamningshafar náð fram sínu hjá kærunefndinni að mestu leyti.

Vísar kærði til þess að í kjölfar tilgreindra mála hafi verið tekin ákvörðun um að óska dómkvaðningar matsmanns til að meta tjón rammasamningshafa vegna ofangreindra brota. Hafi hinn dómkvaddi matsmaður skilað niðurstöðu sinni 25. júní 2017. Kveður kærði að kærendur, sem matsbeiðendur, hafi verið ósáttir við niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns og að leiðir málsaðila hafi skilið í kjölfar þess þó vandlega hafi verið upplýst að niðurstaða matsmannsins væri ekki á forræði kærenda.

Kærði kveður að málið hafi komið til sín í gegnum M, annan eigenda kærandans A ehf. Fljótlega hafi kærandinn C ehf. bæst í hópinn ásamt J ehf. Talsvert hafi verið fundað með öðrum rammasamningshöfum á minni og stærri fundum. Hafi fleiri bæst í hópinn á sama tíma og aðrir hafi haldið sig til hlés. Vegna mismunandi aðildar að málum hafi verið ákveðið að hafa það fyrirkomulag að nefndur M yrði tengiliður hópsins við kærða og að reikningar yrðu gefnir út á þrjá af rammasamningshöfunum, þ.e. kærendur A ehf. og C ehf. sem og rammasamningshafann J ehf., en að hópurinn myndi gera upp sín á milli þennan kostnað, m.a. á grundvelli mismunandi bílafjölda. Vísar kærði til þess að kærandinn A ehf. hafi lagt út fyrir kærugjöldum til kærunefndar útboðsmála. Í eitt skiptið hafi verið greitt beint til nefndarinnar en í tvö önnur skipti inn á fjárvörslu kærða sem síðan hafi gert gjaldið upp.

Vísar kærði til þess að vinna við málin hafi verið tímafrek, en frá 10. mars 2015 til loka hafi heildartímafjöldi verið 237,5 klukkustundir. Hafi kærumálin gegn S verið rekin undir einu málanúmeri, xxxx/2015, en málið gegn H undir sér númeri, xxxx/2015. Kveðst kærði hafa talið útilokað að flokka þetta frekar upp þar sem skráð vinna hefði oft og iðulega verið vegna ýmissa mála gegn S.

Varðandi kvörtun vegna lögmannsstarfa kærða við kærur til kærunefndar útboðsmála vísar aðilinn til þess að erfitt sé að gerast dómari í eigin sök en lætur við það sitja að vísa til úrskurða nefndarinnar.

Um vinnu kærða við matsbeiðni bendir aðilinn á að það geti verið vandasamt verkefni að semja matsspurningar og að oft sýnist sitt hverjum. Bendir kærði á að matsbeiðnin hafi verið samin að miklu leyti í samráði við matsbeiðendur og að ekki verði séð að matsspurningarnar hafi þvælst fyrir hinum dómkvadda matsmanni.

Um það efni að kærði hafi hvorki veitt afrit af útgefnum og/eða sundurliðuðum reikningum né upplýsingar um greiðslur þeirra vísar kærði til þess að M hafi verið tengiliður rammasamningshafa við kærða. Hafi sá háttur verið hafður á meðan kærumál hefðu verið í gangi sem og þegar unnið hefði verið í matsmáli. Þá hafi reglulegir fundir verið haldnir með kærendum. Frá upphafi hafi verið ákveðið að skipta reikningagerð í samræmi við það sem áður sé lýst. Reikningar hafi verið gefnir út sem hafi ekki sætt nokkrum athugasemdum. Þá hafi málskostnaður vegna máls nr. x/2015 fyrir kærunefnd útboðsmála, að fjárhæð 800.000 krónur, verið greiddur beint inn á rekstrarreikning lögmannsstofu kærða og hafi þeirri greiðslu verið ráðstafað inn á reikninga sem gefnir höfðu verið út á árinu 2015. Málskostnaður vegna mála nr. xx/2015 og x/2016, að fjárhæð 800.000 krónur annars vegar og 600.000 krónur hins vegar, hafi hins vegar verið greiddur inn á fjárvörslureikning lögmannsstofu kærða. Hafi hluta af greiðslu málskostnaðar vegna máls nr. x/2016 verið ráðstafað til að gera upp ógreiddar eftirstöðvar á reikningi J ehf., þ.e. 223.790 krónur. Samkomulag hafi verið um það milli aðila að áfram yrði unnið að málinu og að hafinn yrði undirbúningur að dómkvaðningu matsmanns og að innborgaður málskostnaður yrði notaður til að tryggja greiðslur fyrir áframhaldandi lögmannsvinnu. Kveður kærði að það sem eftir hefði staðið, þ.e. 376.210 krónur og 800.000 krónur, hafi verið fært inn á rekstrarreikning lögmannsstofu kærða sem óreikningsfærð innborgun, en tekinn til hliðar „vsk-hluti“ fjárhæðarinnar. Hafi nú verið gerðir reikningar vegna þessa, sem uppgjör á hluta af lögmannsþóknun kærða vegna matsmáls, sem stílaðir hafi verið á hina upphaflegu þrjá viðskiptamenn, að fjárhæð 1.176.210 krónur með virðisaukaskatti.

Vísar kærði til þess að ekki hefði verið reikningsfært vegna vinnu kærða frá 31. mars 2016, alls 91,75 klukkustundir. Hin óreikningsfærða vinna hefði skipst í 58 klukkustundir við matsmál og 33,75 klukkustundir við önnur verkefni. Bendir kærði á að ofangreindur reikningur komi inn á vinnu við matsmálið og að hann verði ef til vill að súpa seyðið af því að hafa vanmetið vinnuna við matsgerðina. Á það beri hins vegar að líta að þegar vinna hafi verið áætluð við matsmálið hafi ekki verið gert ráð fyrir þeim gríðarlegu samskiptum sem átt hefðu sér stað við bæði matsmann og matsbeiðendur. Þá hafi það ávallt verið gagnkvæmur skilningur að allur kostnaður við matið, bæði frá matsmanni og tímaskýrslu kærða, yrði hluti af málskostnaðarkröfu þegar farið yrði með kröfugerðina fyrir dóm. Hafi kærði talið að forsendur hefðu brostið fyrir þeirri áætlun sem lagt hafi verið upp með þegar kærendur hafi tekið ákvörðun um að skipta yfir á annan lögmann. Hafi kærði því gert kærendum grein fyrir því hversu mikill tími væri óreikningsfærður en að það hafi verið gert með snöggu yfirliti á þann tímafjölda sem skráður hefði verið á málanúmerið frá útgáfu síðasta reiknings, en við nánari skoðun hefði þessu verið skipt upp.

Bendir kærði á að önnur tímavinna frá 1. apríl 2016 en sú sem tengist matsgerðinni verði síðar reikningsfærð, þ.e. 1.012.500 krónur án virðisaukaskatts.

Kærði kveður það rétt að kærendur hafi óskað eftir afriti af útgefnum reikningum, sundurliðun eftir einstökum kærumálum, upplýsingum um greiðslur á útgefnum reikningum og um meðferð á greiddum málskostnaði. Vísar kærði til þess að hann hafi svarað þeirri fyrirspurn með þeim hætti að allt um þetta efni ætti að liggja fyrir í bókhaldi fyrirtækjanna þriggja, þ.e. bæði afrit reikninga og greiðslur. Þá hafi kærða þótt óviðeigandi að senda þriðja aðila upplýsingar úr hreyfingalista, sérstaklega þar sem nærtækara hefði verið fyrir fyrirspyrjanda að afla tilgreindra gagna og upplýsinga hjá viðkomandi aðilum.

Vísar kærði til þess að í svörum sínum til kærenda hafi verið tiltekið að viðkomandi reikningar, sem hefðu borið með sér tímafjölda á bak við reikningsfjárhæðina og til hvaða tímabils þeir næðu, hefðu verið gerðir upp án athugasemda og án þess að óskað hefði verið eftir nákvæmari sundurliðun eða tímaskýrsla. Bendir kærði á að hann hafi lagt tímaskýrslu sína fram fyrir úrskurðarnefnd og að af henni megi ráða að greiðslur inn á verkið séu miklum mun lægri en sem nemur tímunum. Vísar aðilinn til þess að nákvæmari sundurliðun en þar sé að finna sé býsna örðug á köflum þar sem unnið hafi verið í verkunum á kross. Það eina sem hægt sé að afmarka efnislega sé kæran gegn H og matsferlið. Annað lúti einungis tímaröð.

Kærði kveður að eftir tölvubréfasamskipti við kærendur hafi hann farið í gegnum tímaskráningu, viðskiptamannabókhald og greiðslu málskostnaðar til að svara fyrirspurn þeirra að öðru leyti. Hafi hann verið búinn að taka til allar nauðsynlegar upplýsingar þegar kærendur hefðu beint málinu til úrskurðarnefndar lögmanna. Byggir kærði á að ekki hafi verið um óeðlilegar tafir að ræða í þessu efni.

Þá vísar kærði á bug málatilbúnaði kærenda um að fjármunir þeirra hafi ekki verið geymdir á fjárvörslu kærða. Vísar kærði til þess sem áður er lýst um þetta efni, þ. á m. um að málskostnaðargreiðslan 2015 hafi verið greidd beint inn á rekstrarreikning og að henni hafi síðan verið ráðstafað inn á útgefna reikninga og að málskostnaðargreiðslur 2016 hafi verið greiddar inn á fjárvörslureikning og þeim síðan ráðstafað inn á vinnu kærða samkvæmt samkomulagi hans við viðkomandi greiðendur.

Í viðbótarathugasemdum kærða vísar aðilinn til þess að málatilbúnaður kærenda sé rangur um það efni að tímagjald hafi aldrei verið kynnt. Hafi tímagjald kærða verið rætt á fundum með þeim aðilum sem hafi upphaflega staðið að kærum til kærunefndar útboðsmála. Byggir kærði á að sjá megi af reikningum, sem útgefnir hafi verið á árinu 2015, að tímagjald með afslætti hafi verið að fjárhæð 30.000 krónur án virðisaukaskatts og að hvorki hafi verið gerðar athugasemdir við það né óskað eftir tímaskýrslum þar að baki.

Um það efni að M hafi verið tengiliður kærenda vegna málarekstursins vísar kærði til ítrekaðra tölvubréfasamskipta frá ágústmánuði 2015 til júlímánaðar 2017 sem liggja fyrir í gögnum málsins fyrir nefndinni. Byggir kærði á að allt tal um meint umboðsleysi hans sé fráleitt og þegar höfð sé hliðsjón af því að í mörgum tilgreindra tölvubréfa séu aðrir kærendur móttakendur sé ljóst að reynt sé að blekkja úrskurðarnefndina. Skipti engu í þessu samhengi hvort viðkomandi aðili sé eða hafi verið í stjórn eða með prókúru, hann hafi verið tengiliður og að um það þurfi ekki að deila. Þá bendir kærði á að milli kærða og viðkomandi aðila hafi verið 15 ára viðskiptatengsl og vinátta. Hafi smáskilaboð sem vísað hafi verið til í málatilbúnaði kærenda verið persónuleg á milli aldagamalla vina sem ættu ekkert erindi í málið.

Varðandi rekstur matsmálsins bendir kærði á að slík mál gangi almennt þannig fyrir sig að matsbeiðni sé rituð og lögð fram, matsmaður eða menn dómkvaddir, þeim sé séð fyrir nauðsynlegum gögnum, matsfundur haldinn og síðan matsgerð skilað. Standi kærði við það að samskipti við matsmanninn í tilgreindu máli hafi verið óvenjulega mikil. Þá hafi alltaf verið gert ráð fyrir því, færi málið fyrir dóm, að vinna vegna matsmálsins yrði inni í málskostnaðaryfirliti.

Kærði ítrekar jafnframt efni tímaskýrslu sinnar og að um hafi verið að ræða verk sem unnin hafi verið undir tveimur málsnúmerum.

Varðandi það sem fram hafi komið um gagnaherbergið þá byggir kærði á að sú fullyrðing kærenda um að kærði hafi ekki komið áleiðis upplýsingum um gagnaherbergi matsmanns til þeirra fái ekki staðist. Hafi kærði ekki munað eftir því að hafa fengið upplýsingar um aðgangsorð að gagnaherberginu en að við nánari yfirferð á tölvubréfasamskiptum hafi komið í ljós að þær upplýsingar hafi verið áframsendar. Þá hafi gagnaherbergi á vegum matsmanns einnig verið skýrt dæmi um óvenjuleg samskipti aðila matsmáls við dómkvaddan matsmann.

Um matsgerðina vísar kærði til þess að rétt sé að matsmaður hafi áætlað kostnað vegna hennar. Þá hafi hann skilað af sér matsgerð og gert reikning á einn matsbeiðanda, kæranda A ehf., að ósk kærenda. Sem lögmaður geti kærði ekki gefið ábyrgð fyrir niðurstöðu dómkvadds matsmanns. Telur kærði þó að matið hafi verið ágætlega unnið þó að niðurstaðan hafi ekki verið í samræmi við væntingar kærenda.

Þá bendir kærði á að niðurstöður kærunefndar útboðsmála hafi að langmestu leyti verið í samræmi við kröfur kærenda og að úrskurðir í viðkomandi málum hefðu verið lagðir til grundvallar við gerð matsspurninga. Hafnar kærði málatilbúnaði kærenda um að kærði hafi ekki vit á útboðsrétti.

Niðurstaða

                                                                          I.

Í kvörtun kærenda er þess annars vegar krafist að kærða verði gert að veita þeim sundurliðaða reikninga frá árinu 2015. Er vísað til þess að sjá megi af útgefnum reikningum kærða að ekki sé um sundurliðaða reikninga að ræða. Vísa kærendur til þess að þeir vilji gera upp innbyrðis sín í milli enda hafi sumir komið að málinu á síðari stigum þess en til þess að svo megi verða þurfi kærendur að fá sundurliðaða reikninga frá kærða frá árinu 2015 til dagsins í dag ásamt upplýsingum um þær fjárhæðir sem kærendur hafi lagt inn á reikning lögmannstofu kærða. Þá telja kærendur mögulegt að þeir eigi inni fjárhæðir hjá lögmannsstofu kærða, sér í lagi ef litið sé til þess að kærði hafi áður fullyrt að hann hefði fengið greitt fyrir lögmannshluta matsbeiðninnar í októbermánuði 2016.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er unnt að leggja fyrir úrskurðarnefnd lögmanna ágreining um rétt lögmanns til endurgjalds eða fjárhæð þess. Þá er tiltekið að nefndin vísi frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá.

Ofangreind ákvæði eru afdráttarlaus um skyldu nefndarinnar til að vísa málum frá ef þau berast meira en ári eftir að kostur var að koma ágreiningi á framfæri.

Fyrir liggur að þeir reikningar kærða sem tilgreind krafa kærenda lýtur að voru gefnir út á hendur kærendunum A ehf. og C ehf. annars vegar og rammasamningshafanum J ehf. hins vegar dagana 14. og 30. apríl 2015, 25. júní 2015 og 31. mars 2016. Þá verður ekki annað ráðið af gögnum málsins og málatilbúnaði aðila en að viðkomandi aðilar hafi greitt tilgreinda reikninga án nokkurra athugasemda, en fyrir liggur að málskostnaði samkvæmt úrskurði kærunefndar útboðsmála í máli nr. x/2015 var ráðstafað til greiðslu hluta af reikningunum sem og hluta af málskostnaði samkvæmt úrskurði tilgreindrar nefndar í máli nr. x/2016. 

Að áliti nefndarinnar verður í þessu tilviki ekki miðað við annað tímamark en útgáfudag þeirra reikninga sem um ræðir við mat á því hvenær kærendur áttu þess kost að koma ágreiningsmáli um rétt til þess endurgjalds sem reikningarnir tóku til á framfæri við nefndina í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Kvörtun kærenda í máli þessu var móttekin af úrskurðarnefnd lögmana þann 6. nóvember 2017 en þá þegar voru tímafrestir samkvæmt ofangreindum heimildum liðnir. Á slíkt hið sama við um málsástæður kærenda sem lúta að vinnu kærða í þágu kærenda fyrir kærunefnd útboðsmála en úrskurðir í þeim málum voru kveðnir upp af hálfu nefndarinnar x. ágúst 2015, x. júní 2016 og x. júní 2016, eins og nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan.

Um þetta efni er þess jafnframt að gæta að undir rekstri málsins fyrir úrskurðarnefndinni hefur kærði veitt skýringar og lagt fram gögn um það efni sem hér um ræðir, þ.e. tímaskýrslu frá 10. mars 2015 til og með 5. september 2017, yfirlit yfir hreyfingar á fjárvörslureikningi lögmannsstofu kærða annars vegar og viðkomandi viðskiptamanna hins vegar úr bókhaldskerfi kærða sem og hina útgefnu reikninga sem áður er lýst. Verður ekki annað ráðið en að kærendum sé í lófa lagið að ganga til innbyrðis uppgjörs sín í milli á grundvelli tilgreindra gagna í samræmi við tilgang kröfugerðar þeirra að þessu leyti.

Að öllu þessu gættu er óhjákvæmilegt að vísa ofangreindri kröfu kærenda frá úrskurðarnefnd lögmanna.

II.

Í kvörtun kærenda er þess hins vegar krafist að nefndin leggi mat á hvort kærða hafi verið heimilt að gefa út reikning vegna starfa hans við matsbeiðnina, að teknu tilliti til fullyrðinga kærða um að hann hefði þegar fengið greitt fyrir lögmannshluta matsbeiðninnar og að hann héldi ekki rétta skráningu yfir tímafjölda.

Áður hefur verið gerð grein fyrir ákvæði 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 en í 24. gr. laganna er mælt svo fyrir að lögmanni sé rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skuli umbjóðanda hans gert það ljóst eftir því sem unnt er hver fjárhæð þess gæti orðið.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknuð.

Í 1. mgr. 14. gr. siðareglnanna er tiltekið að lögmanni beri án ástæðulauss dráttar að gera skjólstæðingi skil á innheimtufé og öðrum fjármunum, er lögmaður hefur móttekið fyrir hönd skjólstæðings síns. Ávallt er þó lögmanni rétt að halda eftir nægu fé til tryggingar greiðslu áfallins verkkostnaðar þeirra mála, sem lögmaður hefur til meðferðar fyrir skjólstæðing á hverjum tíma, enda geri lögmaður skjólstæðingi viðhlítandi grein fyrir þeim kostnaði, sbr. 2. mgr. 14. gr. siðareglnanna. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins skulu uppgjör og skil lögmanns til skjólstæðings vera greinargóð.

Þá er kveðið á um í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Fyrir liggur að í kjölfar þess að kærunefnd útboðsmála kvað upp úrskurði í júnímánuði 2016 var tekin ákvörðun um að óska dómkvaðningar matsmanns til að meta ætlað tjón kærenda vegna þeirra atvika sem úrskurðirnir tóku til. Að sama skapi er ágreiningslaust að kærði annaðist þann málarekstur fyrir hönd kærenda.

Í málsatvikalýsingu að framan er lýst tölvubréfi sem kærði sendi til kærenda A ehf. og C ehf. þann 9. september 2016. Var þar að finna áætlun kærða vegna málarekstursins þar sem tiltekið var að þær greiðslur sem þegar hefðu verið inntar af hendi myndu duga til að greiða lögmannskostnað vegna matsbeiðni og reksturs matsmáls. Þá var því lýst að ef til þess kæmi að málinu yrði stefnt fyrir héraðsdóm í kjölfar niðurstöðu matsmanns þá myndu 1.000.000 krónur auk virðisaukaskatts koma til greiðslu við það að setja dómsmál af stað og sama fjárhæð að fenginni niðurstöðu héraðsdóms ef stefndi yrði ekki dæmdur til greiðslu málskostnaðar. Verður ekki séð að tilgreind áætlun kærða hafi sætt andmælum af hálfu kærendanna.

Frá 4. október 2016 liggur fyrir matsbeiðni vegna málsins undirrituð af kærða þar sem kærendur eru tilgreindir sem matsbeiðendur, að kæranda F undanskildum en hann mun hafa komið inn í matsmálið á síðari stigum. Mun matsbeiðni þessari hafa verið beint til Héraðsdóms Y. Var matsmaður dómkvaddur á dómþingi þann x. nóvember 2016 en matsgerð mun hafa verið afhent í júnímánuði 2017.

Þá liggur fyrir að kærði sendi tölvubréf til kæranda F þann 5. október 2016 þar sem því var lýst að ekki væri of seint að taka þátt í hinu fyrirhugaða matsferli. Þá tiltók kærði í tölvubréfinu að hann hefði sent út áætlun um heildarverð á annars vegar matsbeiðninni og hins vegar málsókninni í kjölfarið og lýsti því sérstaklega að hann teldi sig þegar hafa fengið greitt vegna lögmannshluta matsbeiðninnar.

Að áliti nefndarinnar eru þau tölvubréf sem kærði sendi til hluta kærenda 9. september 2016 og 5. október 2016, sem hér hefur verið lýst, afdráttarlaus um það efni að þær greiðslur sem þá höfðu verið inntar af hendi til kærða myndu duga til að greiða lögmannskostnað kærða vegna vinnu við matsbeiðni og reksturs matsmálsins að öllu leyti. Með vísan til afdráttarlauss efnis tölvubréfa kærða um þetta efni verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að kærði hafi ekki átt rétt til frekari greiðslna úr hendi kærenda vegna þeirra lögmannsstarfa sem hann sinnti í þágu kærenda við rekstur matsmálsins. Er um þetta efni jafnframt litið til þess að rekstur matsmálsins fór fram á tímabilinu frá októbermánuði 2016 til júnímánaðar 2017. Af gögnum málsins verður ekki séð að kærði hafi upplýst kærendur á því tímabili um hinn aukna verkkostnað sem kærði byggir á að hafi fallið til. Þá verður með engu móti fallist á með kærða að forsendur fyrir þeirri kostnaðaráætlun sem lagt hafi verið upp með hafi brostið við það eitt að kærendur hafi leitað til annars lögmanns eftir að matsmálið hafði verið til lykta leitt. Er þá annars vegar litið til þess að engar slíkar forsendur voru tilgreindar í kostnaðaráætlun kærða og hins vegar til þess að alls óvíst var við upphaf og undir rekstri matsmálsins hvort af frekari málarekstri fyrir dómstólum yrði í kjölfar matsgerðarinnar, eins og áður lýst tölvubréf kærða bera með sér.

Í samræmi við allt framangreint er það mat nefndarinnar að kærði hafi ekki átt rétt til frekari greiðslna úr hendi kærenda vegna þeirra lögmannsstarfa sem hann sinnti í þágu kærenda við rekstur nefnds matsmáls en hann hafði þegar móttekið frá kærendum og/eða fyrir þeirra hönd, sbr. úrskurðaðan málskostnað fyrir kærunefnd útboðsmála í málum nr. x/2015, xx/2015 og x/2016, þann x. september 2016. Samkvæmt því hafi kærða verið heimilt að reikningsfæra greiðslur og innborganir sem hann hafði þá móttekið frá og fyrir hönd kærenda vegna verkkostnaðar við matsmálið, sbr. m.a. 2. mgr. 14. gr. siðareglna lögmanna. Er það álit nefndarinnar að kærði eigi hins vegar ekki rétt til frekari lögmannsþóknunar úr hendi kærenda vegna þess matsmáls sem rekið var og lauk með matsgerð hins dómkvadda matsmanns í júnímánuði 2017.

Eins og málið hefur verið lagt fyrir nefndina eru ekki efni til að leggja mat á vinnu vegna annarra verkþátta sem kærði kveðst hafa unnið í þágu kærenda frá 1. apríl 2016.

III.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Áður hefur verið gerð grein fyrir tilraunum kærenda til að fá gögn og upplýsingar frá kærða um áður útgefna reikninga vegna lögmannsstarfa kærða, sundurliðaðan verkkostnað, greiðslur kærenda inn á reikning lögmannsstofu kærða og úrskurðaðan málskostnað samkvæmt úrskurðum kærunefndar útboðsmála sem kærði móttók fyrir hönd nánar tilgreindra kærenda. Eins og greinir í málsatvikalýsingu að framan beindu kærendur beiðni um ofangreint efni til kærða í lok septembermánaðar 2017 en ágreiningi aðila um hvort kærða bæri að veita kærendum umbeðin gögn er þar jafnframt lýst, sbr. fyrirliggjandi tölvubréfasamskipti frá september- og októbermánuði 2017. Þá liggur fyrir að kærði veitti skýringar og lagði fram gögn um það efni sem hér um ræðir undir rekstri málsins fyrir úrskurðarnefndinni, nánar tiltekið þann 22. nóvember 2017, sbr. tímaskýrslu kærða frá 10. mars 2015 til og með 5. september 2017, yfirlit yfir hreyfingar á fjárvörslureikningi lögmannsstofu kærða annars vegar og viðkomandi viðskiptamanna hins vegar úr bókhaldskerfi aðilans sem og hina útgefnu reikninga sem áður er lýst.

Að mati nefndarinnar fól ágreiningur aðila um þetta efni, þ.e. hvort kærða bæri að veita kærendum umbeðin gögn og/eða upplýsingar, í sér sjálfstætt ágreiningsefni í skilningi V. kafla laga nr. 77/1998 en fyrir liggur að því var beint til úrskurðarnefndar lögmanna innan lögmælts frests, sbr. 1. mgr. 27. gr. laganna.

Áður er lýst ákvæðum 14. og 15. gr. siðareglna lögmanna. Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. siðareglnanna skulu uppgjör og skil lögmanns til skjólstæðings vera greinargóð en í 1. málsl. 15. gr. reglnanna er tiltekið að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Þá er kveðið á um í 13. gr. siðareglnanna að lögmaður skuli halda fjármunum skjólstæðings aðgreindum frá eigin fé í samræmi við ákvæði reglna um fjárvörslureikninga lögmanna og að lögmaður skuli ávallt vera fær um að standa skil á þeim fjármunum, er hann varðveitir fyrir skjólstæðing sinn.

Á grundvelli ofangreindra ákvæða siðareglna lögmanna bar kærða, sem jafnframt er bókhaldsskyldur samkvæmt lögum nr. 145/1994, að gera kærendum, sem lögvarða hagsmuni höfðu af gagna- og upplýsingabeiðninni, skýra grein fyrir meðferð þeirra fjármuna sem hann hafði móttekið fyrir þeirra hönd og greiðslum til sín. Þá bar honum að að veita kærendum sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað vegna málarekstursins og upplýsingar úr tímaskýrslu enda eftir þeim leitað. Að áliti nefndarinnar fól synjun kærða á að veita kærendum upplýsingar um þetta efni í september- og októbermánuði 2017 í sér brot á tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna og var sú háttsemi kærða aðfinnsluverð. Horfir það kærða hins vegar til málsbóta það sem áður greinir um að strax í nóvembermánuði 2017, þ.e. undir rekstri málsins fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, veitti kærði skýringar og lagði fram bókhaldsgögn um það efni sem hér ræðir.

Auk þeirra atvika sem áður er lýst og tekin hefur verið afstaða til af hálfu nefndarinnar hafa kærendur í málatilbúnaði sínum byggt á því að kærði hafi ekki stundað góða lögmannshætti í störfum sínum fyrir kærendur. Er um það efni meðal annars vísað til framferðis kærða í samskiptum við M, en ágreiningur er um hvort hann hafi verið tengiliður kærenda við kærða við málareksturinn, sem og til framferðis kærða gagnvart kærendum þegar óskað hafi verið eftir upplýsingum frá kærða um tímaskráningu og sundurliðaða reikninga. Er á því byggt að kærði hafi ekki gætt heiðurs lögmannsstéttarinnar í þessum efnum, sbr. 2. gr. siðareglna lögmanna.

Um þetta efni er þess að gæta að fyrir úrskurðarnefnd hafa verið lögð fram fjölmörg tölvubréfasamskipti sem kærði átti við nefndan M sem og aðra kærendur á tímabilinu frá 18. ágúst 2015 til og með 16. júlí 2017. Af þeim samskiptum verður ekki annað ráðið en að viðkomandi aðili hafi annast samskipti við kærða vegna málarekstursins, í öllu falli að hluta, og að kærendur hafi verið meðvitaðir um það. Breytir engu í því tilliti að mati nefndarinnar hvort aðilinn hafi haft formlega heimild til að skuldbinda kærandann A ehf. og/eða aðra kærendur við rekstur málsins. Þá verður ekki talið að kærði hafi að öðru leyti viðhaft háttsemi gagnvart kærendum sem sé í andstöðu við 2. gr. siðreglna lögmanna.

Í kvörtun kærenda er jafnframt vísað til þess að hún lúti að vinnu kærða við matsbeiðni og rekstur áður lýsts matsmáls. Er á því byggt að hafi kærði ekki haft þekkingu eða kunnáttu á útboðsrétti hafi honum borið að koma málinu fyrir hjá öðrum lögmanni.

Að áliti nefndarinnar verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að kærði hafi lagt sig fram um að gæta hagsmuna kærenda í málinu, sbr. 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Þá liggur ekki annað fyrir en að kærði hafi verið fær um að sinna af kunnáttu og fagmennsku því verkefni sem hann tók að sér fyrir kærendur, sbr. 3. mgr. 8. gr. siðareglnanna. Samkvæmt því er málatilbúnaði kærenda um þetta efni hafnað.

Þá er ekki efni til að mati nefndarinnar að fjalla um aðrar málsástæður sem kærendur hafa teflt fram í málatilbúnaði sínum þar sem um sé að ræða meinta háttsemi sem geti hvorki talist brot gegn lögum né siðareglum lögmanna í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu kærenda, A ehf., B, C ehf., D, E ehf. og F, um að kærða, G, lögmanni, verði gert að veita þeim sundurliðaða reikninga frá árinu 2015 er vísað frá nefndinni.

Kærði á ekki rétt til frekara endurgjalds úr hendi kærenda vegna þeirra lögmannsstarfa sem hann sinnti í þágu kærenda við rekstur matsmálsins nr. M-xxx/2016 en hann hafði þegar móttekið frá kærendum og/eða fyrir þeirra hönd þann 9. september 2016.

Sú háttsemi kærða að synja því að veita kærendum gögn og upplýsingar samkvæmt beiðnum 29. september 2017, 1. október 2017 og 22. október 2017 er aðfinnsluverð.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður, formaður.

Kristinn Bjarnason lögmaður.

Valborg Þ. Snævarr lögmaður.

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson