Mál 1 2007

Ár 2008, miðvikudaginn 12. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 1/2007:

 F

gegn

P, hrl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 11. janúar 2007 frá G, fyrir hönd sonar síns, F, kæranda, þar sem kvartað var yfir störfum P, hrl., kærðu, í forsjár- og umgengnisréttarmáli.

 Kærða sendi nefndinni greinargerð um erindið þann 19. febrúar 2007. Hún dró í efa umboð G til að reka málið fyrir nefndinni, en ekkert umboð fylgdi erindinu. Af þessu tilefni var kæranda gefinn kostur á að eyða óvissu um heimild til málareksturs fyrir nefndinni og var umboð hans til G móttekið 2. maí 2007. Kærandi tjáði sig um greinargerð kærðu í bréfi, dags. 30. júní 2007. Kærða tjáði sig ekki frekar um málið, en í tölvupósti til nefndarinnar þann 13. júlí 2007 upplýsti hún um það sem gerst hafði í forsjármálinu og hvernig umgengni væri háttað.

 Undir rekstri málsins, eftir lok gagnaöflunar, taldi einn nefndarmanna rétt að hann viki sæti vegna vanhæfis. Varamaður hans tók þátt í afgreiðslu málsins.

 Málsatvik og málsástæður

  I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að í apríl 2006 eignuðust kærandi og þáverandi sambýliskona hans, S, son sem skírður var B. Á þeim tíma bjuggu þau í Danmörku og áttu þar lögheimili. Þau fóru saman með forsjá barnsins. Um miðjan ágúst 2006 fór móðirin með son sinn til Íslands, að kæranda forspurðum. Hann fór nokkrum dögum síðar til Íslands og freistaði þess að fá drenginn í sína umsjá, meðal annars með málsókn fyrir Héraðsdómi V á grundvelli laga nr. 160/1995, um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl.

  Kröfu hans var hafnað í dómsúrskurði, sem hann kærði til Hæstaréttar Íslands. Áður en niðurstaða fékkst í málinu fyrir Hæstarétti tók kærandi son sinn í sína umsjá, að óvilja móðurinnar. Hugðist hann fara með drenginn heim til Danmerkur, en var stöðvaður skömmu fyrir brottför. Barnaverndaryfirvöld mátu það svo að forsendur fyrir neyðarráðstöfun samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga væru fyrir hendi og að ætla mætti að barnið væri í bráðri hættu. Var drengurinn því kyrrsettur á vistheimili barna en skömmu síðar fékk móðirin umsjá drengsins.

 Málið fékk meðferð hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur og við fyrirtöku þess þann x. nóvember 200x mættu aðilar ásamt lögmönnum sínum til að gera grein fyrir kröfum sínum og sjónarmiðum. Fyrst mætti kærandi ásamt lögmanni sínum en síðar móðirin og lögmaður hennar, kærða. Upplýsingar sem bókaðar voru á fundi nefndarinnar urðu kæranda tilefni erindis þessa, sem hér er til úrlausnar fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

 II.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar lögmanna telur kærandi kærðu hafa farið offari gegn sér með því annars vegar að hafa beitt vísvitandi ósannindum í málflutningi fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur og hins vegar með því að hafa í bréfi, dags. 3. janúar 2007, gefið vísvitandi rangar lýsingar á umgengni kæranda við son sinn þann 19. desember 2006.

 Kærandi telur barnarverndarnefnd Reykjavíkur hafa tekið ákvörðun um að sonur sinn skyldi afhentur móður, þrátt fyrir að hún hefði gerst brotleg gagnvart Haag-samningnum með brottnámi barnsins frá lögheimili sínu í Danmörku, án vitneskju kæranda.

 Kærandi telur að kærða hafi í málflutningi fyrir barnaverndarnefndinni beitt vísvitandi ósannindum, annars vegar um blóðflokk sinn en hins vegar að því er umgengni sína við son sinn varðaði. Kærandi telur þannig að kærða hafi fyrir nefndinni fullyrt að hann væri í blóðflokki O og gæti því ekki verið faðir drengsins, en hið rétta sé að hann er í blóðflokki AB+. Þá telur kærandi að kærða hafi fullyrt að hann hafi ekki hitt son sinn frá því í ágúst og fram í nóvember 2006, en hið rétta sé að hann hafi hitt son sinn nær daglega á þessu tímabili, með örfáum hléum. Kærandi telur að ósannindi kærðu hafi haft úrslitaáhrif á ákvörðun barnaverndarnefndar, sem tekin var í málinu þann 28. nóvember 2006, um að afhenda móðurinni drenginn.

 Þá hafi kærða ritað bréf þann 3. janúar 2007 þar sem lýst hafi verið háttsemi kæranda í umgengni við son sinn þann 19. desember 2006. Kærða hafi engar upplýsingar haft um hvernig umgengninni var háttað og enn og aftur hafi hún beitt ósannindum og farið offari í málinu.

 Kærandi krefst þess að kærða leiðrétti ósannindin og sjái til þess að barnaverndarnefnd Reykjavíkur fjalli um málið með réttum og sönnum upplýsingum. Þá krefst kærandi þess að kærða sjái til þess að eðlileg umgengni kæranda við son sinn verði strax komið aftur á. Kærandi telur það eiga að vera lágmarkskröfu að lögmaður starfi og sýni af sér þá háttsemi sem kveðið er á um í siðareglum lögmanna og vísar í því sambandi til 5. kafla siðareglnanna, einkum 34. og 35. gr. þeirra.

 III.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar lögmanna krefst kærða þess að málinu verði vísað frá nefndinni með þeim rökum að ekki sé heimilt að veita öðrum fullorðnum einstaklingi en lögmanni umboð til að reka mál fyrir nefndinni.

 Að því er efnisatriði í erindi kæranda varðar kveðst kærða ekki kannast við að hafa beitt vísvitandi ósannindum. Hún kveðst raunar fullyrða að hún gæti þess vandlega að halda sig réttu megin við sannleikann, bæði í persónulegu lífi og í störfum fyrir aðra. Kærða kveðst ekki hafa fullyrt neitt um blóðflokk kæranda, heldur hafi komið fram á fundi barnaverndarnefndar að umbjóðandi sinn hafi talið að kærandi gæti ekki verið faðir barnsins því hún hafi ekki vitað betur en að hann væri í tilteknum blóðflokki. Væri það rétt gæti hann ekki verið faðirinn. Kærða kveðst geta fullyrt að engu hafi verið slegið föstu um blóðflokk kæranda, enda hefði það ekki verið hægt. Þvert á móti hefði verið bent á það að hér væri um vísbendingu að ræða.  

 Kærða bendir á að þess hafi verið óskað að barnaverndarnefnd hefði milligöngu um að kærandi færi í blóðrannsókn svo skera mætti úr um hvort hann væri í raun faðir barnsins. Af óskiljanlegum ástæðum vildi kærandi að blóðrannsókn færi fram í Danmörku af þeirri einu ástæðu að aðilarnir ættu þar lögheimili. Fyrir lægi þó að kærandi hefði verið meira og minna hér á landi frá því að móðirin kom til Íslands.

 Kærða telur að helst megi ráða af bókun barnaverndarnefndar að það hafi haft úrslitaáhrif á ákvörðun nefndarinnar að Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði kröfu kæranda um afhendingu, Hæstiréttur hefði vísað málinu frá og því hafi staðið úrskurður héraðsdóms um að barnið skyldi ekki afhent til Danmerkur. Meint ummæli sín um umgengni eða vangaveltur um blóðflokka hafi þar skipt litlu máli ef nokkru. Til viðbótar hafi komið að nefndin hafi talið að óvissa um faðernið og forsjá barnsins hefði þau áhrif að eðlilegt væri að móðirin fengi barnið.

 Kærða kveðst hafa fengið lýsingar á umgengni kæranda við barnið þann 19. desember 2006 frá umbjóðanda sínum og fjölskyldu hennar, sem öll hafi verið fyrir utan húsakynni barnaverndarnefndar vegna hættu sem þau töldu vera á því að kærandi tæki barnið aftur. Vísar kærða til meðfylgjandi skriflegra yfirlýsinga umbjóðanda síns og annarra í fjölskyldu hennar. Telur kærða að lögmenn verði í bréfaskrifum sínum oftar en ekki að reiða sig á það sem umbjóðendur þeirra segja þeim. Bréfin séu skrifuð fyrir hönd umbjóðendanna. Kveðst kærða enga ástæðu hafa haft til þess að ætla annað en að lýsingar umbjóðanda síns og fjölskyldumeðlima væru réttar.

 IV.

Í athugasemdum sínum við greinargerð kærðu bendir kærandi á röksemdir barnaverndarnefndar í lokakafla bókunar sinnar. Þar komi röksemdir nefndarinnar mjög skýrt fram, þ.e. að engin umgengni hafi verið milli feðganna frá ágúst til nóvember 2006 og að óvissa ríki um faðerni drengsins. Kærandi vísar einnig til bls. 2 í bókuninni, þar sem vitnað sé beint í orð kærðu um að kærandi sé í ákveðnum blóðflokki sem útiloki hann sem föður drengsins. Þar sé hvergi talað um að einhver telji eitthvað. Fleiri athugasemdir komu fram af hálfu kæranda, en ekki er þörf á að rekja þær allar hér.

 Niðurstaða

I.

Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Um skyldur lögmanna gagnvart umbjóðendum sínum eru nánari fyrirmæli í siðareglum lögmanna, einkum 2. kafla þeirra. Í 5. kafla reglnanna eru ákvæði um skyldur lögmanna gagnvart gagnaðila, en 34. og 35. gr. reglnanna eru í þeim kafla.

 Samkvæmt 34. gr. siðareglnanna skal lögmaður sýna gagnaðila skjólstæðings síns fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðingsins. Samkvæmt 35. gr. siðareglnanna má lögmaður ekki til framdráttar málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum, en það telst m.a. ótilhlýðilegt samkvæmt ákvæðinu að kæra eða hóta gagnaðila kæru um atferli sem óviðkomandi er máli skjólstæðings, að ljóstra upp eða hóta gagnaðila uppljóstrun um atferli er valdið getur gagnaðila hneykslisspjöllum og loks að leita án sérstaks tilefnis til óviðkomandi venslamanna gagnaðila með mál skjólstæðings síns eða hóta gagnaðila slíku.

 II.

Í erindi kæranda til úrskurðarnefndar lögmanna felst m.a. krafa um að kærða leiðrétti strax tiltekin ósannindi og að hún sjái til þess að barnaverndarnefnd Reykjavíkur fjalli um málið með réttum og sönnum upplýsingum. Þá felst í erindinu krafa um að kærða sjái til þess að eðlilegri umgengni föður við son sinn verði strax komið á aftur.

 Hvoru tveggja kröfugerðin fellur utan lögbundins valdsviðs úrskurðarnefndar lögmanna, eins og það er skilgreint í lögmannalögum nr. 77/1998, sbr. m.a. 26., 27. og 28. gr. laganna. Brestur hana þannig að lögum vald til að knýja kærðu til þeirra athafna sem nánar var lýst hér að framan. Ber því að vísa þessum kröfuliðum frá nefndinni.

 III.

Með erindi sínu lagði kærandi fram afrit fundargerðar barnaverndarnefndar frá fundi þann x. nóvember 200x, en fundargerðina ritaði starfsmaður nefndarinnar. Í fundargerðinni er greint frá mætingu aðila ásamt lögmönnum sínum, fyrst kæranda og svo barnsmóður hans. Bókaðar eru eftir aðilum og lögmönnum þeirra ýmsar athugasemdir sem þeir vildu koma á framfæri við nefndina og svör þeirra við spurningum nefndarmanna. Á blaðsíðu 2, rétt fyrir neðan miðja síðu, er eftirfarandi bókað:

 „Lögmaður bendir á að tveir aðrir komi til greina sem feður barnsins og sé móðir í raun sannfærð um að F sé ekki faðir barnsins. Hún sé í blóðflokki AB og drengurinn líka, en F sé í blóðflokki O, sem útiloki að hann sé faðir barnsins.”

 Kærða hafnar því að í orðalaginu felist fullyrðing af sinni hálfu um blóðflokk kæranda, heldur sé um að ræða upplýsingar frá umbjóðanda hennar. Skrifleg yfirlýsing umbjóðanda kærðu, sem fylgdi greinargerð hennar til úrskurðarnefndar, styður þessa frásögn hennar. Að mati úrskurðarnefndar er ekki unnt að ráða, svo óyggjandi sé, að framangreint orðalag úr fundargerð barnaverndarnefndar Reykjavíkur feli í sér fullyrðingu af hálfu kærðu um hið umdeilda atriði er varðar blóðflokk kæranda. Virðist allt eins koma til greina að bókunin beri með sér að kærða sé að endursegja frásögn umbjóðanda síns um þetta atriði. Að þessu virtu telur nefndin að kærða hafi að þessu leyti ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 Í forsendum barnaverndarnefndar fyrir ákvörðun sinni í málinu er m.a. vikið að því að drengurinn hafi ekki verið í umgengni við föður sinn frá 16. ágúst og þar til um miðjan nóvember 2006. Ekki er unnt að greina af fundargerð nefndarinnar hvaðan hún hafði þessar upplýsingar. Úrskurðarnefnd lögmanna telur ekki hafa verið sýnt fram á að þessar upplýsingar hafi verið frá kærðu komnar. Telur nefndin því að einnig að þessu leyti hafi kærða ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 Bréf kærðu, dags. 3. janúar 2007, er ritað fyrir hönd umbjóðanda hennar og er því beint til lögmanns kæranda, O, hrl., en afrit þess er sent barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Í bréfinu er lýst sjónarmiðum umbjóðanda kærðu er varða umgengni kæranda við son sinn þann 19. desember 2006 og ákvörðun umbjóðanda kærðu að því er umgengnina varðar framvegis. Að mati úrskurðarnefndar lögmanna var kærðu heimilt að kynna sjónarmið og ákvörðun umbjóðanda síns á þann hátt sem gert var. Telst kærða með bréfritun sinni ekki hafa gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar lögmanna að kærða hafi ekki í störfum sínum fyrir barnsmóður kæranda, vegna ágreinings um forsjá og umgengni, gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða ákvæðum 34. og 35. gr. siðareglna lögmanna.

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Kærða, P, hrl., hefur í störfum sínum fyrir S að forsjár- og umgengnisréttarmáli ekki gert á hlut kæranda, F, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA