Mál 12 2008

 

Ár 2009, fimmtudaginn 31. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Lágmúla 7, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið málið nr. 12/2008:

            A ehf.

            gegn

            L, hdl.

og kveðinn upp svohljóðandi

                                              Ú R S K U R Ð U R:

Í erindi A ehf., kæranda, mótteknu á skrifstofu Lögmannafélags Íslands þann 2. júlí 2008, er kvartað yfir reikningi kærðu, L hdl., og krafist endurgreiðslu 319.965 króna auk málskostnaðar að mati úrskurðarnefndar.

Þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir og ítrekuð fyrirheit kærðu hefur úrskurðarnefnd ekki borist greinargerð frá henni.

Málsatvik og málsástæður

I.

Málsatvik eru þau að bú A ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms S þann x. júní 200x og var kærða skipuð skiptastjóri. Skiptum lauk þann x. febrúar 200x á grundvelli 2. mgr. 154. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. með því að allar kröfur voru afturkallaðar og skiptakostnaður greiddur. Skiptalok þessi voru auglýst í Lögbirtingablaðinu þann x. mars 200x. Samkvæmt yfirliti skiptastjóra, dags. x. mars 200x, var skiptakostnaður 579.787 krónur og þar af þóknun skiptastjóra 464.837 krónur. Reikningur kærðu fyrir tilgreindri fjárhæð er dagsettur sama dag en á hann er handritað „Gr. 19/2 ´xx".

Með bréfi, dags. 18. apríl 200x, sendi lögmaður kæranda kærðu yfirlit um greiðslur frá Valitor og hélt því fram að þær stemmdu ekki við yfirlit kærðu. Í tölvupósti, dags.x. apríl 200x, frá lögmanni kæranda til kærðu, er vísað til samtals og óskað eftir að kærða greiddi fjárhæð vegna þess sem vantaði upp á greiðslu Valitors á 578.897 krónum inn á fjárvörslureikning lögmannsins. Í tölvupósti kærðu sama dag til lögmanns kæranda kemur fram að í fljótu bragðist virtist vera um reikningsvillu í uppgjöri kærðu að ræða vegna þrotabúsins og baðst kærða velvirðingar á skekkjunni en kvaðst hafa verið of fljót á sér að ætla að endurgreiða 578.897 krónur samdægurs þar sem hún vildi láta endurskoðanda stofunnar fara betur yfir reikningsyfirlitin og bera saman við þau gögn sem bárust frá kæranda. Kvaðst kærða telja að lokið yrði við að finna út úr þessu mánudaginn 21. apríl 200x. Kærða sendi tölvupóst þann dag og kvað að fyrirhugaðri vinnu við yfirferð gagna yrði lokið næsta miðvikudag þ.e. 23. apríl 200x. Lögmaður kæranda og kærða áttu áfram samskipti um gögn og uppgjör í lok apríl og byrjun maí 200x. Í tölvupósti lögmanns kæranda til kærðu, dags. 6. maí 200x, var vísað til þess að kærandi teldi að það vantaði umræddar kreditkortafærslur frá Valitor inn í uppgjörið og að kærandi þrýsti á um uppgjör. Þann 10. júní 200x sendi lögmaður kæranda kærðu tölvupóst þar sem áréttað var að það vantaði 578.897 krónur í upptalningu eigna í uppgjöri sem kærða gerði vegna skiptaloka á búi kæranda.

Fyrir liggur yfirlit kærðu, dags. 12. júní 200x, um uppgjör. Samkvæmt yfirlitinu var innistæðu vegna greiðslna inn á svokallaðan ráðstöfunarreikning að fjárhæð 578.897 krónur ráðstafað þannig að 319.965 krónur fóru til greiðslu reiknings kærðu á hendur kæranda nr. 53 og 258.952 krónur voru greiddar inn á bankareikning kæranda. Kærandi hefur lagt fram afrit af reikningi kærðu nr. 53, dags. 13. júní 200x, að fjárhæð 319.965 krónur og afrit reiknings V, viðskiptafræðings, dags. 10. maí 200x, til kærðu. Í lýsingu í tilgreindum reikningi kærðu á hendur kæranda segir:

„Vinna í tengslum við stjórnun rekstrar og ábyrgð Ástorgs þb.,v. veitingahúsareksturs á tímabilinu 30.08.xx - 7.3.xx yfirferð bókhaldsgagna, reikningshalds og bankareikninga þ.m.t. debet og kreditkortafærslna við rekstur búsins á ábyrgð skiptastjóra og leiðréttingar."

Reikningsfærðar eru 10 klst. á 15.500 krónur eða samtals 155.500 krónur auk virðisaukaskatts. Þá er reikningsfærður útlagður kostnaður að fjárhæð 126.990 krónur vegna reiknings frá V. Samkvæmt lýsingu í þeim reikningi var um að ræða ýmsa sérfræðiaðstoð vegna kæranda frá 28. júní 200x til maí 200x. Reikningsfjárhæðin er 102.000 krónur auk virðisaukaskatts en ekki kemur fram á hvaða grunni hún er reiknuð.

Ekki verður séð af gögnum málsins að kærandi og kærða hafi átt samskipti um málið eftir þetta en kvörtun kæranda til úrskurðarnefndar er dagsett 27. júní 200x.

II.

Kærðu var með bréfi, dags. 10. september 200x, veittur frestur til 24. september 200x til að skila greinargerð til úrskurðarnefndar vegna erindis kæranda. Að beiðni lögmanns kærðu var frestur framlengdur til 14. nóvember 200x. Með tölvupósti dags. 4. desember 200x var óskað eftir að veittur yrði lokafrestur til 12. desember 200x, sem síðar var óskað eftir að framlengdur yrði til 19. janúar 200x. Þann 6. maí 200x var lögmanni kærðu sendur tölvupóstur þar sem krafist var að greinargerð yrði send án frekari dráttar og eigi síðar en 12. maí 200x. Þann 2. október 200x var kærðu enn á ný gefið færi á að senda greinargerð áður en málið yrði tekið til úrskurðar. Í tölvupósti kærðu, dags. 18. október 200x, var boðað að greinargerð ásamt læknisvottorði er skýrði tafir yrðu sendar í næstu viku þar á eftir.

Niðurstaða

I.

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt ákvæðum lögmannalaga, nr. 77/1998. Um valdsvið nefndarinnar er nánar kveðið í 4. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laganna getur sá sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi, sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. getur nefndin fundið að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns eða veitt honum áminningu.

Eins og lýst er hér að framan hefur kærðu verið veittur rúmur frestur af hálfu úrskurðarnefndar til að gera grein fyrir máli sínu, svo sem kærðu er skylt samkvæmt 4. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna. Kærða hefur ekki sinnt þessari skyldu sinni sem lögmaður og felur framferði kærðu í sér brot á skyldum hennar gagnvart nefndinni, sbr. 4. mgr. 43. gr. siðareglnanna. Hefur kærða þannig sýnt af sér hegðun sem telja verður lögmannastéttinni ósamboðna.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísun til 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, veitir úrskurðarnefnd lögmanna kærðu, L, hdl., áminningu.

IV.

Í erindi kæranda er óskað eftir mati úrskurðarnefndar um hvað teljist vera hæfileg þóknun varnaraðila vegna leiðréttingar á uppgjöri við lok gjaldþrotaskipta og jafnframt er þess krafist að kærða endurgreiði kæranda 319.965 krónur auk málskostnaðar að mati nefndarinnar.

Eins og rakið hefur verið var kærða skipuð skiptastjóri í þrotabúi kæranda. Gjaldþrotaskiptunum lauk þann x. febrúar 200x samkvæmt 2. mgr. 154. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. með því að allar lýstar kröfur voru afturkallaðar. Ljúki skiptum með þessum hætti skal skiptastjóri samkvæmt 3. mgr. 154. gr. afhenda þrotamanni eignir þrotabúsins enda sé skiptakostnaður greiddur. Þá skal skiptastjóri gera skriflegt yfirlit um þær greiðslur sem hann hefur tekið við og innt af hendi vegna þrotabúsins og láta þrotamanninum í té ef hann leitar eftir. Gögn málsins bera ekki annað með sér en að umræddum gjaldþrotaskiptum hafi verið lokið í samræmi við tilgreind lagafyrirmæli enda framvísaði kærða sem skiptastjóri yfirlit um ráðstöfun fjármuna og setti fram reikning vegna skiptakostnaðar og lauk skiptum á þeim grunni.

Af gögnum verður ekki annað ráðið en að í ljós hafi komið eftir skiptalok að í vörslum kærðu var enn peningaeign í eigu kæranda að fjárhæð 578.897 krónur vegna mistaka kærðu. Af þeirri fjárhæð ráðstafaði kærða 319.965 krónum þann 12. júní 2008 til greiðslu reiknings, sem ber með sér að sé tilkominn vegna vinnu og ábyrgðar kærðu auk útlagðs kostnaðar í gjaldþrotaskiptum kæranda, svo sem nánar greinir í reikningi kærðu.

Kærða hefur ekki gert úrskurðarnefndinni grein fyrir því á hvaða grundvelli hún taldi sér heimilt að krefja kæranda um skiptakostnað af gjaldþrotaskiptum á búi kæranda eftir að þeim skiptum hafði verið lokið með þeim hætti sem að framan greinir. Af 2. og 3. mgr. 154. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. verður ráðið að skilyrði þess að skiptum sé lokið með þeim hætti sem þar greinir sé að skiptakostnaður sé greiddur. Kærandi greiddi þann skiptakostnað sem kærða krafðist við skiptalokin og verður ekki séð að fyrir hendi sé lagagrundvöllur til handa kærðu til að krefja kæranda síðar um viðbótarkostnað með þeim hætti sem gert var.

Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að ástæða þess að upp á uppgjör kærðu hafi vantað við lok gjaldþrotaskiptanna hafi verið mistök kærðu sjálfrar eða aðila sem hún bar ábyrgð á. Þann 18. apríl 200x sendi lögmaður kæranda kærðu gögn sem báru með sér að 578.897 krónur af peningaeign kæranda væru enn í vörslum kærðu. Af uppgjöri 12. júní 200x má ráða að útreikningar kæranda hafi verið réttir hvaða þetta varðar. Vinna kærðu frá skiptalokum fram til þessa uppgjörsdags virðist einungis hafa lotið að því að yfirfara hvort inneign kæranda hjá kærðu væri sú sem kærandi taldi. Eins og málið liggur fyrir verður ekki talið að kærða eigi rétt til þóknunar vegna leiðréttingar á uppgjöri vegna gjaldþrotaskipta á búi kæranda.

Samkvæmt framangreindu ber kærðu, L, hdl., að endurgreiða kæranda, A ehf., 319.965 krónur.

Eftir atvikum þykir rétt að kærða greiði kæranda 50.000 krónur í málskostnað.

ÚRSKURÐARORÐ

Kærða, L, hdl., sætir áminningu.

Kærða skal greiða kæranda, A ehf., 319.965 krónur.

Kærða skal greiða kæranda málskostnað að fjárhæð 50.000 krónur.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA