Mál 21 2008

Ár 2009, mánudaginn 9. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 21/2008:

 

S

gegn

B, hrl.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 19. desember 2008 frá S, kæranda, þar sem kvartað er yfir háttsemi og framkomu B, hrl., kærðu, við rekstur skilnaðarmáls fyrir kæranda. Einnig var kvartað yfir gjaldtöku kærðu. Greinargerð barst frá kærðu þann 17. apríl 2009, sem kærandi gerði athugasemdir við í bréfi til nefndarinnar, dags. 12. maí 2009. Kærða tjáði sig ekki frekar um málið að öðru leyti en því, aðspurð, að hún hafi afhent kæranda öll gögn sem hann bað um þegar hann afturkallaði umboð sitt til hennar.

Málsatvik og málsástæður.

 

I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að í júlí 2007 leitaði kærandi til kærðu og fól henni að taka að sér skilnaðarmál fyrir sig, sem annar lögmaður hafði unnið að og sem rekið var fyrir Héraðsdómi X. Í dómsmálinu krafðist kærandi þess, sem stefnandi, að honum yrði veitt með dómi lögskilnaðarleyfi vegna skilnaðar við eiginkonu sína. Aðilar áttu með sér fund þann 19. júlí 2007, þar sem kærandi afhenti kærðu meðal annars skriflegt yfirlit um málið. Afráðið var á fundinum að kærða tæki málið að sér fyrir kæranda.

Aðalmeðferð málsins var háð þann x. nóvember 200x og dómur uppkveðinn viku síðar, x. nóvember. Niðurstaðan varð sú að kærandi tapaði málinu og var dæmdur til þess að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Ákveðið var að áfrýja dóminum til Hæstaréttar Íslands og freista þess að fá niðurstöðunni breytt. Áfrýjunarstefna var gefin út x. janúar 200x og greinargerð til Hæstaréttar rituð x. mars 200x.

Af hálfu kærðu var gefinn út reikningur 31. desember 2007 fyrir vinnu í þágu kæranda á tímabilinu júní (svo) til desember 2007, að fjárhæð 432.762 krónur. Tilgreindur var tímafjöldi, 27,5 klst., og tímagjald, 15.800 krónur auk virðisaukaskatts. Veittur var 20% afsláttur. Kærandi greiddi 180.000 krónur inn á reikningsskuldina þann 18. janúar 2008, 120.000 krónur þann 1. febrúar og 132.762 krónur þann 14. febrúar.

Annar reikningur var gefinn út 31. mars 2008, fyrir vinnu við hæstaréttarmálið. Áskilin þóknun miðaðist við 12,5 klst. vinnu og tímagjaldið var 16.500 krónur auk virðisaukaskatts. Jafnframt fólst í reikningsfjárhæðinni kostnaður vegna ágripsgerðar og annar útlagður kostnaður. Reikningsfjárhæðin nam 410.885 krónum, þar af virðisaukaskattur 68.171 krónu, ágripsgerð 72.000 krónum og annar útlagður kostnaður 64.464 krónum.

Þriðji reikningurinn, að fjárhæð 24.277 krónur, var gefinn út 30. maí 2008, vegna útlagðs kostnaðar. Sá reikningur var síðar felldur niður, þar sem búið var að krefja áður um greiðslu þessa kostnaðar.

Lítilsháttar samskipti urðu milli málsaðila í tengslum við útgáfu á fyrsta reikningi kærðu, en í tölvupóstum hennar til kæranda 1., 12. og 13. febrúar 2008 var farið fram á greiðslu reikningsins. Þá var kæranda gefinn kostur á að lesa yfir greinargerð til Hæstaréttar vegna áfrýjunarinnar. Skilaði hann afriti greinargerðarinnar til kærðu með nokkrum leiðréttingum en kveðst hafa komist að raun um að þá hafi verið búið að senda greinargerðina til Hæstaréttar.

Kærandi greiddi reikning kærðu nr. 2 á gjalddaga, með fyrirvara. Hann ákvað að óska ekki eftir frekari þjónustu kærðu og sendi henni tölvupóst þar að lútandi 5. maí 2008.

II.

Kærandi óskar eftir því að úrskurðarnefnd lögmanna komist að niðurstöðu um eftirfarandi atriði:

1. að úrskurðað verði um hvort háttsemi kærðu sé í samræmi við siðareglur Lögmannafélags Íslands;

2. að úrskurðað verði hvort ásættanlegt sé að lögmaður skili greinargerð til Hæstaréttar Íslands án samráðs við umbjóðanda sinn, með 15 meinlegum villum;

3. að úrskurðað verði um hvort það sé samkvæmt viðmiðunarreglum Lögmannafélags Íslands að engin tímaskráning fylgi með reikningum;

4. að úrskurðað verði um hvort það samræmist viðmiðunarreglum Lögmannafélags Íslands að afsláttur af vinnu lögmanns frá hæsta mögulega taxta sé boðinn í upphafi en sé síðan afnuminn einhliða, án tilkynningar eða skýringa;

5. að úrskurðað verði um þá heildarupphæð sem fram kemur á síðari reikningi kærðu, með það að markmiði að kærandi fái endurgreiddan réttmætan hluta þeirrar heildarfjárhæðar.

Að því er þóknun varðar kveður kærandi ekkert hafa verið rætt í upphafi um áætlað umfang verksins, gjaldtöku og greiðsluskilmála. Á öðrum eða þriðja fundi þeirra kærðu hafi hann gert að umtalsefni að búast mætti við að reikningur fyrir verk af þessu tagi yrði talsvert fjall að klífa fyrir venjulegan launamann eins og sig. Kærða hafi þá haft á orði að víst væri taxti lögmannsstofu sinnar óheyrilega hár, en hún skyldi gefa kæranda góðan afslátt. Þá skyldi kærandi ekki hafa áhyggjur af lokauppgjöri. Það sem skipti máli væri að greiða inn á reikninga.

Kærandi bendir á að á fyrsta reikningi kærðu hafi verið veittur 20% afsláttur á vinnutaxta. Kærandi kveðst, með þessa afstöðu kærðu í huga, hafa greitt strax um 75% upphæðarinnar og talið sig geta greitt afganginn næstu 1-2 mánuðina. Kærandi kveður það hafa komið sér mjög á óvart að fá tölvupóst frá kærðu nokkrum dögum síðar með nokkurs konar hótun sem hann hafi ekki getað skilið öðru vísi en svo að hún myndi segja sig frá málinu í miðjum klíðum yrði reikningurinn ekki greiddur upp. Kærandi telur þessa framkomu ekki hafa verið í samræmi við samtal sitt og kærðu um reikninga og greiðsluskilmála.

Kærandi bendir einnig á að á öðrum reikningi kærðu hafi ekki verið veittur 20% afsláttur af útseldri vinnu, eins og verið hafði á fyrsta reikningnum.

Auk athugasemda við áskilin verklaun kærðu gerir kærandi nokkrar athugasemdir við framkomu hennar gagnvart sér. Athugasemdir hans beinast meðal annars að því að hann hafi fengið greinargerðina til Hæstaréttar til yfirlestrar í þeirri trú að um drög væri að ræða. Hann kveðst hafa verið bærilega sáttur við efnislega framsetningu og áherslur. Hann hafi hins vegar komist að raun um það, eftir að hafa skilað til kærðu leiðréttingum vegna 15 meira eða minna bagalegra stafsetningarvillna og setningarbrengla, að búið var að senda greinargerðina til Hæstaréttar. Telur kærandi að um óskiljanlega hroðvirkni sé að ræða og að skil á greinargerð til Hæstaréttar með 15 villum sé hneyksli og smán fyrir kærðu og þá stofu sem hún tengist. Telur kærandi slík vinnubrögð ekki geta annað en veikt stöðu umbjóðanda gagnvart Hæstarétti.

Kærandi gerir athugasemd við það að í þriðja reikningi kærðu hafi hann verið tvírukkaður um útlagðan kostnað. Gjaldkeri lögmannsstofunnar hafi beðist innilegrar afsökunar en kærða ekki.

Loks gerir kærandi athugasemd við það að þegar lögmaður gagnaðila hafi skilað greinargerð til Hæstaréttar þann x. apríl 200x hafi afrit hennar verið sent til kærðu. Hún hafi látið undir höfuð leggjast að senda kæranda afrit greinargerðarinnar. Kveðst kærandi ekki hafa séð skjalið fyrr en seinni part júlí mánaðar, eftir að hafa fengið það sent beint frá lögmanni gagnaðila. Telur kærandi þetta vera stórlega ámælisvert í háttsemi kærðu.

III.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar bendir kærða meðal annars á að þótt búið hafi verið að gefa út stefnu í héraðsdómsmálinu þegar leitað var til hennar um að taka skilnaðarmálið að sér hafi málavaxtalýsing í stefnunni verið einungis 6 línur og ýmis gögn hafi vantað inn í málið. Kveðst kærða hafa farið yfir málið með kæranda og gert grein fyrir lögfræðilegum þáttum þess. Ítrekað hafi verið bent á að það sem væri til úrlausnar í málinu væru samskipti hjónanna eftir skilnað að borði og sæng, en samskipti þeirra fyrir þann tíma væri ekki úrlausnaratriði í dómsmálinu.

Í ljós hafi komið að samskipti hjónanna hafi verið mun meiri en upplýst hafi verið á fyrsta fundi kæranda og kærðu. Þá hafi borist gögn frá lögmanni konunnar skömmu fyrir aðalmeðferð málsins um samskipti hjónanna. Kveðst kærða hafa verið ósátt við að hafa þá fengið vitneskju um að samskipti hjónanna hefðu staðið þetta lengi og hafi hún tjáð kæranda að þetta myndi þyngja róðurinn. Kveðst kærða hafa reynt að sætta málið en því hafi verið hafnað af gagnaðila nema gegn að minnsta kosti 8 milljón króna greiðslu.

Kærða kveður kæranda aldrei hafa beðið um tímaskýrslur vegna útgáfu reikninga, enda hafi hann hvorki véfengt tímafjölda né útgefinn reikning. Tímafjöldinn frá júlí-desember hafi verið 30,75 klst. en að á reikninginn hafi verið færðar 27,5 klst. og gefinn 20% afsláttur. Aldrei hafi verið boðinn afsláttur af vinnu vegna áfrýjunar málsins.

Kærða kveður að á reikningnum vegna áfrýjunarmálsins hafi verið færðar 12,5 klst. vegna vinnu sinnar við áfrýjun og greinargerð til Hæstaréttar og samskipti við kæranda og lögmenn. Að auki hafi þar verið útlagður kostnaður vegna gerðar ágrips og ljósritunar. Mistök hafi verið gerð hjá bókara þegar reikningur vegna hluta útlagðs kostnaðar var sendur til kæranda en bókarinn hafi beðist velvirðingar á þeim leiðu mistökum.

Kærða kveður kæranda vita vel hvaða tími hafi farið í málið og hafi hann engar tilraunir gert til að takmarka tíma sinn í því. Hafi kærandi til dæmis í sex skipti sent samskiptasögu málsaðila upp á 8 blaðsíður, og lagt mikla áherslu á að kærða færi yfir hana í hvert sinn.

Kærða kveðst hafa farið yfir það með kæranda hvernig leggja ætti málið upp við áfrýjun þess. Hafi kærandi verið sáttur við það, en hann telji svo að greinargerðin hafi verið send til Hæstaréttar án samráðs við sig. Það sé ekki rétt, eins og tölvupóstur frá kæranda sýni.

Kærða vísar því á bug að hún hafi sagt kæranda að hann þyrfti engar áhyggjur að hafa af þessu máli. Kærða hafnar því einnig að hún hafi á nokkurn hátt hvatt kæranda til að áfrýja málinu.

IV.

Kærandi gerði, í síðara bréfi sínu til úrskurðarnefndar, nokkrar athugasemdir við greinargerð kærðu. Verður ekki gerð sérstök grein fyrir þeim athugasemdum hér. Í niðurlagi bréfsins bendir kærandi á að í greinargerð kærðu séu 11 ritvillur en hún sé ekki fær um að koma með viðhlítandi skýringar eða málefnaleg andsvör við tveimur grundvallaratriðum í umkvörtun sinni: 1) hvers vegna geti kærða ekki lagt fram tímaskýrslur? og 2) hvernig það geti gerst að rúmlega 4 blaðsíðna greinargerð fari til Hæstaréttar Íslands með 15 villum, án þess að nokkur leiðrétting eða afsökunarbeiðni komi fram?

Niðurstaða.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar lögmanna leitar kærandi úrlausnar og úrskurðar um nokkrar athugasemdir sínar er varða reikningsgerð og háttsemi kærðu. Er farið eftir sömu röð og spurningum er stillt upp í erindi kæranda.

1.         Er háttsemi kærðu í samræmi við siðareglur Lögmannafélags Íslands.

Í framsetningu kæranda undir þessum lið eru ekki tilgreind nein afmörkuð atvik, sem hann gerir athugasemdir við, en látið nægja að vísa til málsatvikalýsingar í erindinu.

Svo sem fram kemur í gögnum málsins baðst starfsmaður lögmannsstofu kærðu kæranda afsökunar á því að sendur var reikningur til hans vegna útlagðs kostnaðar, sem hann hafði áður verið rukkaður um. Afrit afsökunarbeiðninnar var sent kærðu. Nefndin gerir ekki athugasemdir við þann hátt sem hér var á hafður við leiðréttingu mistakanna.

Kærandi tók verkefnið frá kærðu með tölvupósti þann 5. maí 2008. Hann kveðst ekki hafa fengið greinargerð lögmanns gagnaðila, sem skilað hafi verið til Hæstaréttar Íslands x. apríl 200x, fyrr en seinni hluta júlímánaðar og þá beint frá lögmanni gagnaðila. Greinargerðin hafi hins vegar áður verið send kærðu, um leið og hún var send til Hæstaréttar. Kærða kveðst hins vegar hafa afhent kæranda öll gögn sem hann hafi beðið um. Hér stendur orð gegn orði, staðhæfing gegn staðhæfingu. Að mati nefndarinnar er ekki unnt af þeim sökum að taka afstöðu til eða útkljá þetta umkvörtunaratriði í erindi kæranda.

2.         Er ásættanlegt að lögmaður skili greinargerð til Hæstaréttar Íslands án samráðs við umbjóðanda sinn, með 15 meinlegum villum.

Eitt þeirra atriða sem kærandi gerir athugasemdir við var fjöldi stafsetningarvillna og setningarbrengl í greinargerð kærðu til Hæstaréttar. Um réttritun og skjalafrágang eru í sjálfu sér engin sérstök ákvæði í siðareglum lögmanna, en fram kemur þó í 22. gr. siðareglnanna að lögmaður skuli kappkosta að vanda málatilbúnað sinn fyrir dómstólum og stuðla á annan hátt að greiðri og góðri málsmeðferð af sinni hálfu. Þótt vel og rétt ritaður texti, er ber með sér skýra hugsun, sé til prýði hjá lögmönnum er hins vegar enginn sérstakur mælikvarði fyrir réttritun til sem hægt er að leggja á ritað mál lögmanna. Ekki verður séð að efni greinargerðarinnar til Hæstaréttar hafi brenglast eða orðið öðru vísi en til stóð vegna stafsetningarvillna sem kærandi bendir á í erindi sínu. Það er því mat úrskurðarnefndar að ekki sé tilefni sérstakra viðbragða gagnvart kærðu vegna þessara athugasemda kæranda.

3.         Er það í samræmi við viðmiðunarreglur Lögmannafélags Íslands að engin tímaskráning fylgi með reikningum.

Samkvæmt 15. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Tilgreint ákvæði siðareglnanna svarar fyrirspurn kæranda undir þessum lið. Því má bæta við að upplýsingagjöf lögmanna getur verið með ýmsu móti. Hægt er að prenta út tímaskýrslu og afhenda hana. Einnig er hægt að taka saman yfirlit eða upplýsingar úr tímaskýrslu til afhendingar eða lýsa á annan hátt vinnuframlagi því, sem er grundvöllur gjaldtöku lögmannsins.

4.         Er það í samræmi við viðmiðunarreglur Lögmannafélags Íslands að afsláttur af vinnu lögmanns frá hæsta mögulega taxta sé boðinn í upphafi en sé síðan afnuminn einhliða, án tilkynningar eða skýringa.

Nefndin hefur í fyrri úrskurðum sínum, til dæmis í málinu nr. 15/2008, komist að þeirri niðurstöðu að lögmanni sé rétt að fá verklaun sín uppgerð við dómsuppkvaðningu í héraðsdómi, enda verða þá ákveðin kaflaskil. Segja má að ákvörðun um áfrýjun máls feli í sér nýtt verkefni. Fyrsti reikningur kærðu fól í sér uppgjör á því verki er laut að rekstri héraðsdómsmálsins. Kærða ákvað að veita kæranda afslátt frá verklaunum og því var eðlilegt að sá afsláttur kæmi fram við reikningsgerðina. Ekkert virðist hafa verið rætt frekar um verklaun kærðu. Vegna náinna og beinna tengsla milli þessara tveggja verkefna, þ.e. reksturs málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, telur nefndin að kærandi hafi af þeim sökum getað haft réttmætar væntingar um að fá að njóta þess afsláttar, sem hann naut í héraðsdómsmálinu, við rekstur hæstaréttarmálsins. Það er því mat nefndarinnar að kærandi hafi mátt búast við að njóta afsláttarins þegar reikningur eða reikningar yrðu gefnir út vegna reksturs Hæstaréttarmálsins.

Nefndin tekur sérstaklega fram undir þessum lið að Lögmannafélag Íslands hefur engar samræmdar viðmiðunarreglur um gjaldtöku lögmanna, enda brytu slíkar reglur gegn ákvæðum samkeppnislaga nr. 44/2005.

5.         Krafist er úrskurðar um þá heildarupphæð sem fram kemur á síðari reikningi kærðu, með það að markmiði að kærandi fái endurgreiddan réttmætan hluta þeirrar heildarfjárhæðar.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem unnt er, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni.

Svo sem fram kemur á reikningi kærðu frá 31. mars 2008, snerist hann um verklaun fyrir áfrýjun málsins til Hæstaréttar Íslands, nánar tiltekið fram að því þegar búið var að gefa út áfrýjunarstefnu og skila greinargerð til Hæstaréttar. Samkvæmt lýsingu kærðu í greinargerð sinni til nefndarinnar voru tilgreindir 12,5 tímar vegna vinnu hennar við áfrýjunina, ritun greinargerðar til Hæstaréttar og samskipti við kæranda og lögmenn. Það er mat nefndarinnar að hinn tilgreindi tími, 12,5 klst., endurspegli vel umfang verks af þessu tagi. Ekki eru gerðar athugasemdir við útlagðan kostnað vegna Hæstaréttarmálsins, þ.e. vegna ágripsgerðar og ljósritunar. Hins vegar, og með vísan til 4. töluliðar hér að framan, telur nefndin að kærandi hafi átt rétt á að njóta 20% afsláttar frá þessum reikningi, á sama hátt og hann naut afsláttarins í héraðsdómsmálinu. Hæfilegt endurgjald kærðu sé því 165.000 krónur auk útlagðs kostnaðar og virðisaukaskatts, eða alls 359.529 krónur. Kærandi var búinn að greiða kærðu samkvæmt seinni reikningi hennar, með fyrirvara um endurgreiðslu. Samkvæmt þessari niðurstöðu ber kærðu að endurgreiða kæranda 51.356 krónur.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærða, B, hrl., hefur í störfum sínum fyrir kæranda, S, ekki gert á hlut hans með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Kærða endurgreiði kæranda 51.356 krónur.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA