Mál 19 2009

Ár 2009, þriðjudaginn 6. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2009:

 

M

gegn

N hf. og

O, hdl.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi M, kæranda, mótteknu á skrifstofu Lögmannafélags Íslands þann 24. ágúst 2009, er farið fram á úrskurð úrskurðarnefndar lögmanna um að N hf. beri að greiða málskostnaðarreikning lögmanns kæranda að fjárhæð 1.108.375 krónur þar sem kærandi hafi málskostnaðartryggingu fyrir allri þeirri upphæð hjá tryggingafélaginu. Kveður kærandi lögmann N hf., O, hdl., hafa neitað að greiða reikninginn á þeirri forsendu að hann væri of hár miðað við hagsmuni.

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt ákvæðum lögmannalaga, nr. 77/1998. Um valdsvið nefndarinnar er nánar kveðið í 5. kafla laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. lögmannalaga getur lögmaður og/eða umbjóðandi hans lagt ágreining um rétt lögmannsins til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Erindi kæranda varðar kröfu hans um greiðslu málskostnaðarreiknings úr málskostnaðartryggingu hjá N hf. Ekki er um ágreining kæranda og lögmanns hans að ræða um rétt lögmannsins til endurgjalds eða fjárhæð þess. Það fellur því utan lögbundins valdsviðs úrskurðarnefndar lögmanna að úrskurða um kröfu kæranda. Ber því að vísa máli þessu frá nefndinni.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Erindi kæranda, M, er vísað frá.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA