Mál 5 2009

Ár 2009, föstudaginn 19. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2009:

 

R

gegn

S, hrl.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi R, kæranda, mótteknu á skrifstofu Lögmannafélags Íslands þann 1. mars 2009, er kvartað yfir vinnubrögðum S, hrl., kærða, vegna starfa hans við innheimtu slysabóta fyrir kæranda á árinu 2005.

 

Í tilefni af erindi kæranda var af hálfu úrskurðarnefndar lögmanna ritað bréf til hans þann 28. apríl 2009, þar sem gerð var grein fyrir lögbundnu hlutverki nefndarinnar samkvæmt lögum nr. 77/1998, um lögmenn, og jafnframt að nefndin vísaði kvörtun frá ef lengri tími en eitt ár væri liðinn frá því kostur var á að koma henni á framfæri.

Bent var á að samkvæmt erindinu ætti kæruefnið rætur sínar að rekja til atvika er gerðust á árinu 2005, þegar kærði rak dómsmál fyrir kæranda til innheimtu slysabóta eftir umferðarslys. Niðurstaða málsins hafi verið sú að gagnaðilinn, stefndi, hafi verið sýknaður af öllum dómkröfum kæranda. Muni niðurstaða málsins hafa verið kynnt kæranda á fundi á skrifstofu kærða í september 2005. Ekki yrði sé af fyrirliggjandi gögnum hvort einhver samskipti hefðu verið við kærða síðar vegna málsins. Af þessu yrði ekki annað ráðið en að tæplega þrjú og hálft ár hafi liðið frá því ástæða gat verið fyrir því að að kvarta yfir vinnubrögðum kærðu og þar til erindi kæranda barst nefndinni. Af því tilefni og þar sem það gæti varðað frávísun málsins samkvæmt 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga væri kæranda gefinn kostur á að upplýsa nefndina um hvort einhver sérstök atvik hefðu valdið því að kvörtuninni hefði ekki verið komið á framfæri við nefndina fyrr en með bréfi kæranda til hennar.

Kærandi sendi úrskurðarnefndinni bréf þann 22. maí 2009. Þar er staðfest að engin samskipti hafi verið við kærða síðan í september 2005. Kærandi kveður aðal ástæðu þess að erindið hafi verið sent svo seint hafa verið þá að hann, sem væri alls ófróður um lög, hafi ekki vitað um tilvist nefndarinnar og þann möguleika að kæra til hennar, fyrr en fyrir skömmu síðan, þrátt fyrir að hafa rætt málið við nokkra lögmenn.

Kærandi telur að ef einhver hefði átt að benda sér á þessa leið, þá hefði það átt að vera kærði sjálfur. Hann hafi jú verið ráðinn til þess að gæta hagsmuna kæranda.

Kærandi kveður það taka tíma að átta sig á því hvernig eigi að snúa sér í málum af þessu tagi.  Kærandi kveðst hafa verið illa haldinn af veikindum sínum þegar kærði kynnti sér niðurstöðu dómsmálsins. Kveðst kærandi alltaf hafa verið ósáttur við hvernig þetta gekk fyrir sig og hvernig þetta mál hafi virst ætla að enda.

Kærandi kveðst hafa ákveðið að málið gæti ekki enda á þennan hátt. Leitað hafi verið til B, hrl., og fleiri nafngreindra lögmanna, en enginn hafi viljað taka að sér mál gegn kærða. Það hafi loks í febrúar 2009 sem T, hrl., hafi bent sér á að leita til úrskurðarnefndar lögmanna með málið.

Kærandi telur eitt ár vera undarlega stuttan tíma, þegar mál fyrntust yfirleitt á 3-5 árum. Kærandi kveðst hafa verið mjög veikur eftir umferðarslysið og síðan hefði kærði farið illa með sig. Það þyrfti mikið hugrekki til þess að reyna að leita fyrir sér um réttindi gagnvart mönnum sem ættu að vera sérfróðir og ætti að vera hægt að treysta. Svo mikið hugrekki að það hefði tekið sig langan tíma að finna réttan farveg fyrir málið. Því finnist sér það vera réttlætismál að lögmannastéttin skoðaði efnisatriði málsins en hengdi sig ekki í formsatriði sem kærða sjálfum hafi borið skylda til að benda sér á en hafi ekki gert.

Niðurstaða.

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt ákvæðum lögmannalaga, nr. 77/1998. Um valdsvið nefndarinnar er nánar kveðið í 5. kafla laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga getur sá sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi, sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri, sbr. 2. málsliður 1. mgr. 27. greinar.

Samkvæmt erindi kæranda áttu þau atvik, sem kæra hans laut að, sér stað á árinu 2005. Sem fyrr greinir munu síðustu samskipti kæranda og kærða hafa verið í september 2005, þegar kærði gerði kæranda grein fyrir niðurstöðu dómsmálsins. Kærandi hefur staðfest að um frekari samskipti við kærða hafi ekki verið að ræða frá þeim tíma.

Þegar kærandi sendi nefndinni erindi sitt voru liðin um þrjú og hálft ár frá því samskiptum kæranda og kærða lauk. Að mati úrskurðarnefndar eru þau rök, sem kærandi hefur sett fram fyrir því að taka skuli erindið til efnismeðferðar, ekki þess eðlis að þau réttlæti hversu seint erindi þessu er komið á framfæri við nefndina.

Þegar af þeirri ástæðu, að meira en eitt ár var liðið frá því kærandi átti þess kost að koma erindi sínu á framfæri við úrskurðarnefndina, og með vísan til 2. málsliðar 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998, ber að vísa kvörtun þessari frá nefndinni.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Erindi kæranda, R, er vísað frá.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA