Mál 19 2010

Mál 19 2010

Ár 2011, föstudaginn 16. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 19/2010:

Slitastjórn Xbanka hf

gegn

D hrl.

 og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi slitastjórnar Xbanka hf. til úrskurðarnefndar lögmanna, sem barst nefndinni þann 17. nóvember 2010, var kvartað yfir háttsemi D hrl., kærða, vegna yfirlýsingar sem hann hafði gefið út og lögð var fram í dómsmáli í Bandaríkjunum.

Kærði sendi nefndinni greinargerð um málið þann 25. maí 2011 og var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Athugasemdir kæranda við greinargerð kærða bárust 16. júní, en lokaathugasemdir kærða vegna málsins bárust 8. júlí

Málsatvik og málsástæður.

I.

Eftir því sem fram kemur í kvörtun kæranda, greinargerð kærðu og gögnum málsins eru málsatvik þau að um miðjan febrúar 2010 leitaði kærandi til kærða eftir lögfræðilegri ráðgjöf. Í kæru er fullyrt að ráðgjöfin hafi snúið að hugsanlegum málshöfðunum slitastjórnarinnar, m.a. gegn fyrrverandi hluthöfum, stjórnendum eða starfsmönnum Xbanka, en kærði staðhæfir að ráðgjöfin hafi eingöngu snúið að athugun á hugsanlegri refsiverðri háttsemi stjórnenda og starfsmanna bankans sem bæri að tilkynna til lögreglu samkvæmt. 84. gr. gjaldþrotalaga.

Það er einnig umdeilt hvenær störfum kærða fyrir kæranda lauk. Kærði kveður þeim hafa lokið löngu áður en yfirlýsingin var gefin út og hafi hann skilað af sér öllum gögnum vegna þessarar ráðgjafar snemmsumars 2010, sennilega í maí eða júní. Kærandi fullyrðir á hinn bóginn í greinargerð með kærunni að kærði hafi sinnt ráðgjafarstörfum fyrir kæranda allt fram í júlí 2010. Séu drög að kærum til sérstaks saksóknara sem hann vann dagsett í júlí en síðasti reikningur kærða dagsettur í 31. ágúst 2010.

Kærandi höfðaði mál gegn endurskoðunarstofu Xbanka ásamt sjö einstaklingum sem tengdust bankanum fyrir dómstól í New York í maí 2010. Gerðu stefndu frávísunarkröfu og lögðu m.a. fram yfirlýsingu frá P, forseta lagadeildar [...] sem fjallaði um getu íslenskra dómstóla til að fjalla um dómsmál af því tagi og af þeirri stærðargráðu sem um var að ræða í dómsmálinu í New York

Þann 6. október 2010 gaf kærði út yfirlýsingu, sem lögð var fyrir dómstólinn í New York af hálfu fimm stefndu tveimur dögum síðar. Í yfirlýsingunni, sem er í sjö liðum, tekur kærði fram í fyrsta lið að hann starfi á eigin lögmannsstofu á Íslandi og sé nú formaður Nfélags. Í öðrum lið kemur fram að hann hafi verið beðinn af fimm stefndu í umræddu dómsmáli að gefa álit á nokkrum liðum í yfirlýsingu P. Kveðst kærði vera ósammála því mati P að íslenskir dómstólar ráði ekki við slík mál. Í hinum liðunum fimm lýsir kærði m.a. fullu trausti á íslenskum dómstólum, bendir á að íslenskir dómstólar hafi aldrei talið nauðsynlegt að leita aðstoðar erlendra dómstóla og víkur að þeim ráðstöfunum sem þegar voru í undirbúningi til að bregðast við auknu álagi á dómstólana.

Kærendur rituðu kærða bréf 21. október 2010 þar sem skorað var á kærða að draga yfirlýsinguna til baka. Var í bréfinu vísað til starfa kærða fyrir kærendur og þess trúnaðar sem af því sambandi leiddi. Var m.a. vísað til aðgangs kærða að gögnum hjá kærendum og þess að hann hefði jafnvel haft slík gögn undir höndum þegar yfirlýsingin var gefin. Auk þess var gerð athugasemd við að kærði tæki fram í yfirlýsingunni að hann gegndi starfi formanns Nfélags, en með því hefði kærði notað formannstitilinn í máli ótengdu félaginu og beitt honum til hagsmunagæslu fyrir skjólstæðinga sína.

Kærði svaraði bréfinu þann 1. nóvember og hafnaði því að draga yfirlýsingu sína til baka. Benti hann m.a. á að yfirlýsingin væri ekki gefin í nafni Nfélags heldur sínu eigin og kvaðst ekki hafa komið fram fyrir hönd stefndu í málinu heldur aðeins látið uppi það álit sitt að framlögð yfirlýsing P um vangetu íslenskra dómstóla til að takast á við stór skaðabótamál væri röng. Væri yfirlýsingin til þess fallin að rýra trúverðugleika íslenskra dómstóla að ófyrirsynju. Þá reifaði kærði þá afstöðu sína að ráðgjöf hans fyrir slitastjórnina hefði enga þýðingu hvað varðaði hina umdeildu yfirlýsingu, enda hafi störf hans snúið að öðrum þáttum en hugsanlegum málshöfðunum.

Daginn eftir, 2. nóvember 2010 kröfðust kærendur þess að yfirlýsingu kærða yrði vísað frá dómnum og 8. nóvember tilkynntu verjendur stefndu í málinu að yfirlýsing kærða yrði dregin til baka. Sem fyrr greinir var kæra lögð fyrir kærunefndina þann 17. nóvember 2010.

II.

Í kvörtun kæranda til úrskurðarnefndar kemur fram að kvörtunin lýtur eingöngu að yfirlýsingu kærða frá 6. október 2010 og byggir á sömu sjónarmiðum og fram komu í bréfi hans til kærða.

Annars vegar lýtur kæran að því að kærði hafi með yfirlýsingunni brotið gegn trúnaðarsambandi sínu við kæranda, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, 2. mgr. 6. gr. siðareglna lögmanna og 11. gr. siðareglnanna. Benda kærendur á að mjög skammur tími hafi liðið frá því að störfum kærða fyrir kærendur lauk og er byggt á því að kærði hafi fengið lánuð gögn til afritunar vegna starfa sinna, en vegna þess traust sem þá ríkti milli aðila hafi kærendur ekki yfirlit yfir þessi gögn. Sé því hugsanlegt að kærði hafi haft trúnaðargögn frá kærendum undir höndum þegar hann gaf hina umræddu yfirlýsingu.

Hins vegar lýtur kæran að því að með því að taka sérstaklega fram í yfirlýsingunni að hann sinni starfi formanns Nfélags hafi kærði í raun gefið yfirlýsinguna í nafni Nfélags í heild [...]. Þetta brjóti gegn samþykktum Nfélags, sérstaklega 11. gr.,  því með þessu hafi hann ekki gætt að þeim greinarmun sem hann þurfi að gera á því að gefa yfirlýsingar í nafni félagsins og því að sinna hagsmunagæslu fyrir skjólstæðinga sína eða aðra. Skipti í því samhengi engu hvort hann hafi þegið laun fyrir yfirlýsinguna eða ekki og ekki skipti heldur máli þótt kærði telji sig með henni hafa verið að verja íslenska dómstóla. Yfirlýsingin hafi verið gerð að beiðni aðila í dómsmáli og lögð fram í því, en íslenskir dómstólar voru ekki aðilar að því máli. Með útgáfu yfirlýsingarinnar hafi kærði gengið erinda stefndu í umræddu dómsmáli í New York en notað formannstitillinn til að gefa henni aukið vægi. Hafi hann verið í hlutverki lögmanns stefndu hvað varðaði yfirlýsinguna og hafi því orðið misbrestur á aðskilnaði starfs hans sem lögmaður og sem formaður Nfélags. Benda kærendur á að skylduaðild [...] að Nfélagi leggi sérstaklega ríkar skyldur á þá sem eru í fyrirsvari fyrir félagið til að gæta þess að nafn þess sé ekki notað með þeim hætti sem hér um ræðir. Vísa kærendur í þessu samhengi m.a til ályktunar aðalfundar félagsins frá 1995 þar sem segir að það samræmist ekki reglum um skylduaðild að félaginu að gefnar séu út álitsgerðir umsagnir eða ályktanir þar sem pólitísk afstaða er tekin í nafni félagsins í umdeildum þjóðfélagsmálum.

Kröfur kærenda eru að gripið verði til viðeigandi viðurlaga í samræmi við 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga, VII. kafla siðareglna LMFÍ og 15. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndar lögmanna

III.

Kærði leggur í greinargerð sinni áherslu á að störfum hans fyrir kærendur hafi verið löngu lokið þegar yfirlýsingin var gefin út og hann búinn að skila öllum gögnum. Hafi störf hans fyrir slitastjórnina ekki varðað málshöfðanir á hendur þeim aðilum sem stefnt var í New York og hann enga hugmynd haft um að slík málshöfðun stæði til.  Hann hafi alls ekki komið fram sem lögmaður f.h. stefndu í málinu í New York og engar upplýsingar hafi verið í yfirlýsingunni sem snertu vinnu hans fyrir slitastjórnina. Hann hafi eingöngu verið að bregðast við þeirri tilhæfulausu málsástæðu kærenda í dómsmálinu að íslenskir dómstólar gætu ekki ráðið við að leysa úr ágreiningi aðila. Hafi hann talið þetta rangt og til þess fallið að grafa undan íslenskum dómstólum. 

Kærði áréttar að yfirlýsingin sé ekki gefin f.h. Nfélags og beri þess enda engin merki. Hafi hann talið eðlilegt að það kæmi fram í yfirlýsingunni hvaða störfum hann gegndi en það sé ekki á meðal starfsskyldna formanns Nfélags að geta þess ekki við hvað hann starfar þegar hann gefur yfirlýsingar. Bendir kærði á að hann hafi lagt áherslu á að verja íslenska dómstóla í almennri umræðu og fari ákafi hans í þeim efnum ágætlega saman við formennsku í Nfélagi. Séu vissulega ákveðin tenging á milli þess að hann sé formaður Nfélags og hins að hann hafi nokkra yfirsýn yfir stöðu dómstóla á Íslandi.

Telur kærði að óheppilegt hafi verið að kærendur hafi aflað yfirlýsingar um vangetu íslenskra dómstóla að þessu leyti hjá manni sem ekki starfaði á þeim vettvangi og bendir á að yfirlýsing P hafi ekki leitt til þess að hann hafi síðar talið sig vanhæfan vegna tengsla við kærendur og hafi kærendur ekki gert athugasemd við það. Hafi sú niðurstaða verið staðfest í Hæstarétti og gefi það leiðbeiningu um að vart geti verið um hagsmunaárekstur að ræða í þessu máli.

Kærði hefur ekki gert sérstakar kröfur fyrir nefndinni en greinargerð hans verður skilin svo að þess sé krafist að öllum kröfum um viðurlög verði hafnað.

Niðurstaða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Verður hér fyrst vikið að þeirri umkvörtun kærenda að kærði hafi með hinni umdeildu yfirlýsingu brotið gegn trúnaðarsambandi sínu við kærendur í ljósi fyrri starfa sinna fyrir þá, en síðan fjallað um hvort kærði hafi gerst brotlegur við lög eða siðareglur með því að tengja nafn Nfélags við yfirlýsinguna.

II.

Samkvæmt 22. gr.  lögmannalaga ber lögmaður þagnarskyldu um hvaðeina sem honum er trúað fyrir í starfi sínu. Áður en lögmaður tekur að sér verk ber honum að vekja athygli þess sem til hans leitar ef hann telur einhverja hættu á að hagsmunirnir sem í húfi eru kunni að rekast á hagsmuni hans sjálfs, venslamanna sinna eða annars umbjóðanda, eða að samsvarandi tormerki geti risið við rækslu starfans.

Í 6. gr. siðareglna lögmanna segir m.a. að upplýsingum, sem lögmaður fær í starfi, skal haldið frá óviðkomandi, þótt lögboðin þagnarskylda banni ekki. Ekki má lögmaður nota sér upplýsingar, sem honum hefur verið trúað fyrir í starfi, til hagsbóta fyrir gagnaðila. Einnig kemur fram í 11. gr. siðareglnanna að lögmaður má ekki fara með hagsmuni tveggja eða fleiri skjólstæðinga í sama máli, þegar hagsmunir þeirra eru andstæðir eða veruleg hætta er á slíku. Lögmaður skal jafnframt varast að taka að sér nýjan skjólstæðing, ef hagsmunir hans og þeirra skjólstæðinga lögmannsins, sem fyrir eru, fá ekki samrýmst eða hætta getur verið á slíku.

Kærendur hafa lagt fram reikninga frá kærða, dags. 30. mars og 31. ágúst 2010, en í þeim kemur ekki fram á hvaða tíma kærði innti af hendi þá vinnu sem innheimt er fyrir. Á hinn bóginn kemur fram að innheimt er fyrir „gagnaöflun og ritun kæru auk samskipta við lögreglu" og „beiðni um opinbera rannsókn og ýmis ráðgjafarstörf".

Í málavaxtalýsingu í greinargerð með kærunni kemur fram að kærði hafi sinnt trúnaðarráðgjöf í tengslum við hugsanlegar málshöfðanir slitastjórnarinnar, m.a. gegn fyrrverandi hluthöfum stjórnendum eða starfsmönnum Xbanka. Í lýsingu á meintri brotlegri háttsemi kærða kemur þó fram að störf kærða hafi ekki verið með beinum hætti í tengslum við málaferlin í New York. Gegn andmælum kærða verður ekki byggt á því að störf hans hafi lotið að öðru en athugun á hugsanlegri refsiverðri háttsemi stjórnenda og starfmanna bankans sem bæri að tilkynna til lögreglu skv. ákvæðum gjaldþrotalaga.

Í framlögðu bréfi kærenda til kærða, dagsett 21. október 2010, þar sem athugasemdir eru gerðar við hina umdeildu yfirlýsingu, er staðhæft að „starfstími þinn mun hafa verið frá því um miðjan febrúar á þessu ári og fram til mánaðamóta apríl / maí." Að þessu virtu verður ekki byggt á því gegn andmælum kærða að hann hafi starfað fyrir kæranda lengur en að þessu tímamarki. Þá þykir verða að ganga út frá því í máli þessu að kærði hafi skilað kærendum öllum gögnum vegna starfa sinna í maí eða júní 2010, enda engum gögnum til að dreifa sem kynnu að hrekja staðhæfingar kærða í þá veru.

Af þessu leiðir að kærði var ekki í þess háttar trúnaðarsambandi við kærendur í október 2010 að það girti eitt og sér fyrir að hann tæki að sér störf fyrir skjólstæðinga sem hefðu gagnstæða hagsmuni við þá.

Að því er varðar þagnarskylduna, sem kærendur vísa til, er til þess að líta að ekkert í hinni framlögðu yfirlýsingu vísar með neinum hætti til trúnaðarupplýsinga sem kærði hafði aðgang að vegna starfa sinna fyrir kærendur. Eingöngu er um að ræða mat á því hvort íslenskir dómstólar ráði við að fjalla um mál af því tagi sem yfirlýsingin snýr að.

Að þessu athuguðu verður ekki fallist á að kærði hafi brotið gegn trúnaðarsambandi sínu við kærendur eða þagnarskyldu með útgáfu hinnar umdeildu yfirlýsingar.

III.

Sem fyrr greinir fjallar úrskurðarnefnd lögmanna um háttsemi þeirra á þeim grunni að einhver telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Samkvæmt þessu hlýtur skoðun nefndarinnar á því hvort formaður Nfélagsins hafi misfarið með formannsstöðu sína eða titil að takmarkast við það hvort hann hafi brotið gegn lögum eða siðareglunum. Það er hins vegar á forræði félagsins sjálfs, stjórnar þess eða aðalfundar að leggja línurnar að þessu leyti umfram það sem leiðir af lögum og siðareglunum. Samþykktir Nfélags [...] og hvort eftir þeim er farið fellur þannig utan þess sem úrskurðarnefnd lögmanna tekur afstöðu til.

Yfirlýsing kærða stafar samkvæmt efni sínu ekki frá Nfélagi og er ekki gefin út fyrir þess hönd eða félagsmanna þess. Ekki verður séð að efni hennar stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Verða ekki gerðar aðfinnslur við störf kærða vegna hennar í máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, D hrl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kærenda, slitastjórnar Xbanka hf., með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.