Mál 4 2010

 

Ár 2011, fimmtudaginn 23. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið málið nr. 4/2010:

A

gegn

B, hdl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi A, kæranda, til úrskurðarnefndar lögmanna, mótteknu þann 3. mars 2010, var kvartað yfir vinnubrögðum B, hdl., kærðu, vegna aðkomu hennar að fjárskiptamáli kæranda og eiginkonu hans, X. Kærða sendi nefndinni greinargerð um málið 15. júní 2010 og var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana með bréfi nefndarinnar, dags. 27. ágúst 2010. Með bréfi, dags. 13. maí 2011, var tveimur spurningum úrskurðarnefndarinnar beint til kærðu og svaraði hún þeim með bréfi, sem barst nefndinni 24. maí s.á. Kærandi hefur ekki tjáð sig frekar um málið.

I.

Samkvæmt lýsingu kæranda naut hann leiðsagnar og ráðlegginga frá kærðu á vegum félagsins F, en hann er félagsmaður í því félagi. Kveðst kærandi hafa átt trúnaðarsamband við kærðu vegna skilnaðarmáls síns og eiginkonu sinnar. Fjárskipti vegna skilnaðarins hafi svo farið í opinber skipti og hafi kærða tekið að sér að gæta hagsmuna konunnar við skiptin. Telur kærandi að kærða sé vanhæf til reksturs málsins og brotleg við siðareglur lögmanna. Krefst hann þess að kærða sæti áminningu og að hún segi sig frá málinu.

II.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar rekur kærða hvernig afskiptum sínum af umræddu skilnaðarmáli hafi verið háttað. Eiginkona kæranda, X, hafi leitað eftir ráðgjöf til félagsins F veturinn 2009. Félagið veiti endurgjaldslausa lögfræði- og félagsráðgjöf til félagsmannna tvo klukkutíma á viku og sjái kærða um ráðgjöfina.

Erindi X hafi verið að biðja um upplýsingar um réttarstöðu sína við fjárskipti vegna hjónaskilnaðar. Hafi kærða litið svo á, að hún hefði það hlutverk að gæta hagsmuna hennar. Hafi kærða lýst þeirri afstöðu sinni, að eina eign búsins, þinglesinn eignarhluti kæranda í fasteign í Kbæ, kæmi til skipta. Viku síðar hafi svo kærandi leitað til lögfræðiaðstoðar félagsins í sömu erindagjörðum. Hafi kærða kannast við málavexti úr símtalinu viku áður og upplýst kæranda um að konan hefði leitað til sín eftir upplýsingum. Hafi hún upplýsti kæranda um að hún teldi einsýnt að umrædd fasteign kæmi til skipta, en kærandi hafi véfengt þá afstöðu kærðu og borið fyrir sig álit föður síns, sem er starfandi lögmaður.

Næsta skref í málinu hafi verið að kærða hafi hitt báða aðila saman ásamt föður kæranda, sem er lögmaður. Hafi hún á þessum fundi gætt hagsmuna eiginkonunnar, en markmið fundarins hafi verið að ná sáttum um skiptin. Eignaskiptin hafi þó að lokum farið í opinber skipti. Undir þeim hafi kærandi ákveðið að krefjast úrskurðar héraðsdóms um þá niðurstöðu skiptastjórans í búinu að eina eign búsins, eignarhlutinn í fasteign,  kæmi til skipta.

Kærða kveðst ávallt hafa lýst sömu afstöðu til deilunnar um þessa einu eign búsins, þ.e. að hún kæmi til skipta samkvæmt hjúskaparlögum.

Kærða leggur áherslu á kæranda hafi frá upphafi verið ljóst að hún hefði veitt konunni ráðgjöf áður en hann leitaði til hennar. Hefur kærandi lagt fram tölvupóst kæranda til gagnaðila hans í málinu, X, dags. 11. maí 2009, þar sem fram kemur m.a.  „Ég hringdi þarna inn einn daginn og fékk að tala við þessa B í síma og sagði okkar sögu í mjög stuttu máli. Ástæðan fyrir því að ég vissi að þú hefðir komið var að hún var ekki að heyra söguna í fyrsta skipti. Hún greip stundum frammí fyrir mér og vissi hluti sem ég hafði ekki sagt henni án þess að segja mér að þú hefðir talað við hana"

Kærða kveðst hafa upplýst kæranda um það þegar í upphafi að konan hefði leitað til sín vegna málsins. Hún hafi ekki nýtt neinar upplýsingar frá honum konunni til framdráttar og ekki hafi verið sýnt fram á neitt slíkt. Málið sé enda einfalt og ráðist alfarið af reglum hjúskaparlaga.

III.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 28. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 11. gr. siðareglna lögmanna má lögmaður má ekki fara með hagsmuni tveggja eða fleiri skjólstæðinga í sama máli, þegar hagsmunir þeirra eru andstæðir eða veruleg hætta er á slíku. Ákvæðið hindrar þó ekki að lögmaður leiti sátta með deiluaðilum, með samþykki beggja. Þá skal lögmaður jafnframt varast að taka að sér nýjan skjólstæðing, ef hagsmunir hans og þeirra skjólstæðinga lögmannsins, sem fyrir eru, fá ekki samrýmst eða hætta getur verið á slíku.

Það fellur utan lögbundins valdsviðs nefndarinnar að mæla fyrir um að lögmenn segi sig frá afskiptum einstakra mála. Er þessum þætti í kröfugerð kæranda því vísað frá.

Eins og fram kemur í tilvitnuðum tölvupósti kæranda, dags. 11. maí 2009, virðist liggja fyrir að kærandi vissi eða taldi sig vita frá upphafi að kærða væri búin að ræða við konuna um málið. Virðist útilokað að byggja á því að kærða hafi í upphafi með nokkrum hætti fengið trúnaðarupplýsingar frá kæranda sem hún hafi síðan nýtt með óeðlilegum hætti. Miklu nærtækara virðist að líta svo á að hún hafi í störfum sínum fyrir félagið veitt þeim báðum lágmarksupplýsingar um réttarstöðu sína m.t.t. ákvæða hjúskaparlaga. Gegn neitun kærðu og með vísan til þess tölvupósts sem kærandi sendi sjálfur frá sér, verður ekki byggt á því að kærða hafi dulið kæranda þess, að hún hafði þegar tekið að sér að leiðbeina eiginkonu hans vegna skiptanna, þegar hann leitaði til hennar.

Að virtum öllum gögnum málsins er það mat úrskurðarnefndar að kærða hafi ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærða, B hdl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.