Mál 4 2013

Ár 2013, fimmtudaginn18. apríl, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 4/2013:

V

gegn

B hdl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmannabarst þann 29. janúar 2013 erindi Vþar semkvartað er yfir vinnu og framgöngu B við dómsmál sem hún flutti fyrir héraðdómi f.h. kæranda.

Kærða sendi nefndinni greinargerð um málið þann16. febrúar2013og var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Bárust athugasemdir kæranda 4. mars 2013, en lokaathugasemdir kærðu vegna þeirra bárust 22. mars 2013.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Hvorugur málsaðila hefur lagt fram heilsteypta málsatvikalýsingu. Af gögnum málsins og dómi héraðsdóms í máli því sem varnaraðili flutti fyrir sóknaraðila má þó ráða að þau eru í grófum dráttum sem hér greinir.

Kærandi gaf út bók í 5.000 eintökum árið 2003. Hún taldi sig þá hafa munnlegan samning við framkvæmdastjóra samtakanna E um sölu á 4.178 eintökum á verðinu 850 krónur. Hún afhenti hluta upplagsins en fékk síðan þau svör að ekkert yrði af umræddum kaupum.

Kærandi freistaði þess að ganga frá viðskiptunum með því að ræða við einstaka stjórnarmenn samtakanna, en án árangurs. Var kærandi í slíkum samskiptum, m.a. í tölvupósti a.m.k. fram í ágúst 2004.

Tilraunir kæranda til að fá samtök þessi til að efna meintan munnlegan samning eða ganga frá málinu virðast hafa legið í láginni um sinn, en fyrir liggja gögn um að í ágúst 2008 voru þessar tilraunir kæranda hafnar á ný. Bera fram lögð gögn kæranda því vitni að hún hafi þá enn ekki fengið skýr svör frá þáverandi fyrirsvarsmönnum samtakanna. Virðist engin breyting hafa orðið á því fram á árið 2010, þótt leitað væri leiða til að koma bókunum í verð.

Svo fór að kærandi hafði samband við lögmannsstofu þar sem kærða starfar og óskaði liðsinnis við innheimtu þess fjár sem hún taldi sig eiga kröfu á. Stefndi kærða umræddum samtökum f.h. kæranda til greiðslu um 3,4 milljóna króna og var málið þingfest 11. janúar 2012.

Málið var flutt og tekið til dóms í nóvember 2012.

Í framhaldi af flutningi málsins var kærandi í einhverjum samskiptum við kærðu. Kom þar fram gagnrýni á hvernig kærða hafði staðið að framlagningu gagna og umfjöllun um þau í málflutningsræðu, auk fleiri atriða.

Dómur héraðsdóms var kveðinn upp í nóvember 2012. Í forsendum dómsins kemur fram að enginn hafi við meðferð málsins kannast við fullyrðingar stefnanda (kæranda í máli þessu) um munnlegt loforð samtakanna um kaup á bókunum. Þá er vikið að því að fyrningarfrestur sé fjögur ár og verði fyrningarfrestur ekki rofinn nema með viðurkenningu skuldarinnar, en engin slík viðurkenning liggi fyrir og hafi málið heldur ekki verið reifað á þeim grunni. Teljist krafa stefnanda því fallin niður fyrir fyrningu og eru stefndu sýknuð af dómkröfum þegar af þeirri ástæðu. Þá var kærandi dæmd til að greiða stefndu í málinu kr. 650.000 kr. í málskostnað.

Eftir þetta kvartaði kærandi enn við kærðu og þann lögmann sem hún starfar sem fulltrúi fyrir vegna þess hvernig haldið hafði verið á héraðsdómsmálinu. Barst nefndinni svo kvörtun hennar sem fyrr greinir þann 29. janúar 2013.

II.

Kærandi krefst þess að fá endurgreiðslu eða niðurfellingu málskostnaðar að hluta eða öllu leyti og/eða ókeypis áfrýjunar héraðsdómsmálsins til Hæstaréttar. Þá krefst hún þess að endurflutningur málsins í héraði verði sér að kostnaðarlausu, ákveði Hæstiréttur að vísa málinu aftur heim í hérað, auk afsláttar af kostnaði sem hún hafi þegar orðið fyrir.

Kærandi kveður sér hafa verði kunnugt þegar hún leitaði til kærðu að hætta væri á að umrædd skuld yrði talin fyrnd. Hafi kærða enda beðið sig að afla allra gagna um innheimtu kröfunnar frá því hún stofnaðist. Hafi kærandi aflað gagna um þessa innheimtu sem náð hafi allt fram á síðari hluta árs 2004 og svo aftur frá ágúst 2008.

Kærandi telur að í tölvupóstum og fleiri gögnum sem hún hefur lagt fyrir nefndina komi fram skuldaviðurkenning f.h. stefndu í héraðsdómsmálinu. Telur hún að kærða hafi hvorki sinnt því að leggja þessi gögn fram, né að fjalla um þennan þátt málsins, sbr. þau ummæli héraðsdóms að málið hafi ekki verið reifað á þeim grunni að skuldaviðurkenning lægi fyrir. Þá vísar kærandi til annarra gagna, m.a. um sölu bókarinnar hjá [...] og með húsasölu, sem hún telur að styrkt hefðu málstað sinn ef þau hefðu verið lögð fram.

Einnig gerir kærandi athugasemdir við að kærða hafi í málflutningsræðu sinni aðeins einu sinni getið um að í bæklingi sem samtökin gáfu út, hafi verið fjallað um útgáfu bókarinnar. Þá hafi í málflutningsræðu ekki verið hnykkt nægilega á því að stefndu hafi ekki orðið við áskorum um framlagningu fundargerðabóka, sem sýnt hefðu hvernig fjallað var um bókaútgáfuna innan samtakanna.

Kærandi telur að kærðu hafi láðst að fara í málflutningsræðu sinni yfir dagsetningar í tölvupóstum, sem sýnt hafi að „aldrei hafi full fjögur ár liðið".

Í upphaflegu erindi sínu finnur kærandi auk þessa að því að kærðu hafi verið fengið málið, en kærandi hafi ætlað sér að ráða til verksins þann lögmann sem kærða er fulltrúi hjá. Verður síðari málatilbúnaður hennar skilinn svo að þótt hún hafi upphaflega ætlað sér að fá eiganda lögmannsstofunnar til verksins, hafi hún sætt sig við að kærða tæki við því, eða a.m.k. gefið til kynna að svo væri.Verður því ekki fjallað frekar um þennan þátt kvörtunarinnar.

III.

Kærða hafnar ásökunum kæranda og krefst þess að kærunni verði hrundið.

Kærða kveðst hafa tekið ákvarðanir um það hvaða gögn ætti að leggja fram í málinu og hver ekki. Hafi hún að nokkru haft samráð um þetta við yfirmann sinn. Þau gögn sem kærandi vísi til hafi að sínu mati ekki haft sönnunargildi í málinu. Á hinn bóginn hafi umræddir tölvupóstar sem kærða teli fela í sér skuldaviðurkenningu verið lagðir fram.

Kærða telur að málflutningsræða sín hafi verið hefðbundin og uppfyllt allar þær kröfur sem gerðar eru til munnlegs málflutnings og hafa farið yfir málavexti, málsástæður o.fl. Hafi hún gert grein fyrir sjónarmiðum, bæði um tilurð samkomulags á milli aðila og rof á fyrningu.

Kærða undirstrikar að niðurstaða málsins hafi oltið á því að ef samkomulag hefði komist á, væri krafa um efndir þess fyrnd. Þetta hafi ekkert haft að gera með frammistöðu sína við málflutninginn. Hafi kæranda frá upphafi verið gert ljóst að á brattan yrði að sækja varðandi bæði þessi atriði.

Niðurstaða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.

Úrskurðarnefnd lögmanna hefur ekki valdheimildir til að mæla fyrir um áfrýjanir héraðsdóma til Hæstaréttar eða um niðurfall gjaldtöku fyrir dómsmál sem kunna að verða rekin fyrir Hæstarétti eða í héraði. Hið sama gildir um málskostnaðarákvarðanir héraðsdóms, en nefndin hefur ekki á valdi sínu að endurskoða þær.

Er óhjákvæmilegt að vísa kröfum kæranda um þessi efni frá nefndinni.

Krafa kæranda um endurgreiðslu/niðurfellingu málskostnaðar verður skilin svo að með henni sé m.a. átt við þær greiðslur sem kærandi hefur innt af hendi til kærðu.

Engin gögn hafa verið lögð fyrir nefndina um gjaldtöku kærðu vegna vinnu í þágu stefndu og lítið liggur fyrir um þessi störf eða umfang þeirra. Þrátt fyrir það telur nefndin að lög eða málsmeðferðarreglur standi því ekki í vegi að krafa kæranda um endurgreiðslu þessa komist að, en hún virðist reist á þeim grunni eingöngu, að mistök og óvandvirkni kærðu leiði til þess að hún eigi ekki að fá greitt fyrir störf sín í þágu kæranda.

II.

Kærandi reisir málatilbúnað sinn á því að það hafi valdið henni réttarspjöllum að kærða lagði ekki fram öll þau gögn sem hún taldi sýna fram á að krafa sín væri ófyrnd. Þessu verður að hafna. Skoðun á umræddum gögnum og tilgreindum áhersluatriðum leiða til þeirrar niðurstöðu að ekkert í þeim gögnum sem kærandi hefur lagt fyrir nefndina sýni fram á að gagnaðili hennar í málinu hafi viðurkennt kröfuna. Tilskrif einstakra stjórnarmanna og fleiri gögn sýna vilja þeirra til að hafa milligöngu um að reyna sættir og að leysa úr málinu, en ekki verður úr þeim lesin viðurkenning á stefnukröfunni.

Kærandi telur að málflutningur kærðu fyrir dómnum hafi ekki fjallað af nægum þunga um ákveðin atriði sem kærandi telur að hafi skipt sköpum. Um flutning ræðunnar eða efni hennar verður ekkert fullyrt af nefndinni, en fyrir liggur að héraðsdómur staðhæfir að málið hafi ekki verið reifað á þeim grunni að fyrningu hafi verið slitið. Þessi athugasemd héraðsdóms getur ekki leitt til aðfinnslna við störf kærðu þegar litið er til þess að gögn málsins virðast enga stoð hafa veitt undir slíkan málflutning.

Önnur atriði sem kærandi byggir á fyrir nefndinni eru þess eðlis að þar er um að ræða matsatriði við meðferð máls, sem ekki hefur verið sýnt fram á að kærða hafi metið ranglega. Þannig virðist sala [...] á bókinni eða húsgöngusala á henni ekki hafa snert kjarna málsins með þeim hætti að rétt væri að leggja áherslu á hana.

Málsgögn, og þó einkum umræddur héraðsdómur, bera með sér að um var að ræða mál þar sem hvorki lá fyrirfram fyrir nein sönnun á því að samkomulag hefði náðst um bókakaupin, né að fyrningu hefði verið slitið. Möguleikar á að ná fram dómi um kröfuna virðast því fyrst og fremst hafa legið í því að vitnisburðir fyrrum starfsmanna og stjórnarmanna stefnda fyrir dómi myndu styðja við fullyrðingar kæranda að þessu leyti. Kæranda hefur ekki tekist að sýna fram á það í máli þessu að það hafi verið á ábyrgð kærðu að svo fór ekki, en fyrir liggur að henni var frá upphafi ljóst að málið væri ekki auðunnið. Verður kærða því ekki beitt viðurlögum á grundvelli 27. gr. lögmannalaga, né verður talið að hún eigi ekki rétt til endurgjalds fyrir störf sín.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfum kæranda um að fá endurgreiðslu eða niðurfellingu tildæmds málskostnaðar að hluta eða öllu leyti og/eða ókeypis áfrýjunar héraðsdómsmálsins til Hæstaréttar er vísað frá nefndinni ásamt kröfu um að frekari meðferð máls hennar fyrir héraðsdómi verði henni að kostnaðarlausu.

Kærða, B hdl. hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda. Kröfu kæranda um niðurfellingu og endurgreiðslu málskostnaðar úr hendi kærðu er hafnað.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Kristinn Bjarnason, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson