Mál 8 2013

Ár 2013, fimmtudaginn16. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 8/2013:

A ehf., B hrl., C hrl. og D hrl.

gegn

Ö hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 18. mars 2013 erindi A ehf., B hrl., C hrl. og D hrl., þar sem kvartað er yfir broti Ö gegn reglum í I. og IV. kafla siðareglna lögmanna, þ.e. bæði reglum sem gilda um innbyrðis háttsemi lögmanna og reglum um góða lögmannshætti. Lýtur kæran að því að kærði hafi hótað því að gera atlögu að orðspori lögmannsstofunnar A og nafngreindra lögmanna sem þar starfa og þannig freistað þess að fá þá til að leggja til hliðar hagsmuni umbjóðenda sinna til að vernda eigin æru.

Óskað var eftir greinargerð frá kærða og barst nefndinni svarbréf hans 15. apríl 2013. Þar kemur fram að kærði hyggist ekki svara kærunni efnislega, en geri þó ákveðnar athugasemdir vegna hennar. Var aðilum málsins í framhaldi af því kynnt að nefndin teldi gagnaöflun í málinu lokið og að umfjöllun um það hæfist um miðjan maí. Frekari athugasemdir hafa ekki borist vegna málsins.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Málavaxtalýsingu kæranda hefur ekki verið mótmælt af kærða og verður hún lögð til grundvallar. Málsatvik eru þau að kærendurnir B hrl., C hrl. og D hrl. eru öll starfandi lögmenn á lögmannsstofunni A. Í júní 2012 þingfesti D hrl. fyrir hönd slitastjórnar Æ hf. skaðabótamál á hendur fimm einstaklingum vegna meintrar saknæmrar og ólögmætrar háttsemi þeirra í tengslum við einkahlutafélagið Y og lánveitingar frá Æ. Kærði gætir hagsmuna eins stefndu í málinu og hafði hann frest til 14. mars 2013 til að skila greinargerð fyrir hans hönd.

Kærði hafði lýst því við D að hann áttaði sig ekki á því hvers vegna umbjóðanda hans var stefnt í málinu. Varð úr að þau funduðu ásamt öðrum starfsmanniA. Á þeim fundi fór kærði fram á að málssóknin gegn umbjóðanda hans yrði felld niður, enda teldi hann grundvöll hennar veikan. Stefnandi í málinu hafnaði þessari beiðni í framhaldi fundarins.

Þann 21. febrúar 2013 ritaði kærði tölvupóst til D þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að umbjóðandi sinn hefði við lánveitingar til Y, verið í svipaðri aðstöðu og B hrl. og C hrl., meðeigendur D að A, sem ætla mætti að hefðu engu ráðið um lánveitingar til félagsins X, þar sem þau sátu í stjórn. Um þetta segir kærði m.a. í þessum tölvupósti:

" Mér finnst það heldur ekki til framdráttar jafn ágætum lögmönnum eins og B og C að þvælast inn í þessi málaferli eða hugsanlega önnur, sem af þeim kunna að spretta."

Þá rekur kærði í póstinum hvernig þessi tvö félög og lánveitingar Æ til þeirra tengist saman, þannig að þær hafi verið á ábyrgð hluthafa og stjórnenda X fremur en umbjóðanda síns.

Þann 25. febrúar 2013 svaraði D bréfi kærða og tilkynnti honum að ekki yrði fallið frá málsókn á hendur umbjóðanda hans. Urðu frekari tölvupóstsamskipti í framhaldi af því. Þar á meðal sendi kærði 13. mars 2013 tölvupóst til A, og var hann sendur fimm lögmönnum stofunnar, þeim D hrl., B hrl., C hrl., [...] stjórnarformanni A og [...], faglegs framkvæmdastjóra stofunnar. Er þar enn farið fram á að málsókn á hendur umbj. hans, verði felld niður.

Á meðal þess sem greinir í þessum síðasttalda tölvupósta kærða eru neðangreind ummæli:

„Haldi slitastjórn Æ hf. uppi kröfum á hendur umbjóðanda mínum með atbeina A mun hann byrja á því að réttargæslustefna B og C. Áskilnaður er jafnframt hafður uppi um bótakröfur á hendur þeim reynist ekki fótur fyrir því að X ehf. hafi lagt Y ehf. til hlutafé en umbjóðandi minn mun óska eftir því við skiptastjóra Y ehf. að gengið verði úr skugga um hvort og með hvaða hætti Eignarhaldsfélagið X ehf. greiddi hlutafé sitt til Y ehf.

[...]

 Umbjóðandi minn hefur falið mér að rita embætti [sérstaks saksóknara] bréf og vekja sérstaka athygli þess á þátttöku lögmanna A lögmannsstofu í þessu Yrugli, sem var hugarfóstur og afkvæmi starfsmanna Æ banka hf.

[...]

Með vísan til framangreinds fæ ég ekki séð að það geti þjónað hagsmunum Æ hf. hvað þá A lögmannsstofu og þeim gildum, sem stofan segist standa fyrir, hvað þá hagsmunum þeirra lögmanna sem þar starfa, að A reki mál áfram á hendur [umbjóðanda mínum].

[...]

Ég heyri vonandi frá lögmannsstofunni fyrir kl. 16:00 í dag því á morgun á ég að skila greinargerð í máli Y ehf. gegn [...]. Þá mun jafnframt gefin út réttargæslustefna á hendur B og C og gögn um afskipti lögmannanna af Y á árinu 2008 send embætti sérstaks saksóknara, sem virðist ekki hafa þau undir höndum, ef marka má endurrit yfirheyrslna í málinu og þau gögn sem sakborningar hafa aðgang að.

Við úrlausn þessa máls innan A hljóta stjórnendur stofunnar að hafa í huga gildi hennar „Heiðarleiki, Trúnaður og Fagmennska" og það grundvallarviðhorf að áratugi þurfi til að skapa sér gott orðspor en einungis augnablik að glata því."

Tölvupósti kærða var ekki svarað. Síðar sama dag sendi hann D enn tölvupóst þar sem sagði: „Þar sem ég hef ekki fengið neitt svar við tölvupósti mínum frá því fyrr í dag mun ég skila greinargerð á morgun."

Á reglulegu þinghaldi Héraðsdóms Reykjavíkur daginn eftir, þann 14. mars 2013, fékk kærði svo þriggja vikna frest til viðbótar, líkt og öðrum stefndu í málinu hafði verið veittur.

II.

Kærendur krefjast þess að úrskurðarnefnd lögmanna beiti kærða viðeigandi viðurlögum í samræmi við 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, um lögmenn, VII. kafla siðareglna LMFÍ og 15. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndar lögmanna, vegna þeirrra ávirðinga sem þeir hafa uppi.

Telja kærendur að í háttseminni felist tvíþætt brot, annars vegar sé háttsemin brot á þeim hátternisreglum sem gildi um samskipti lögmanna innbyrðis, sbr. IV. kafla siðareglna lögmanna og hins vegar sé háttsemin í andstöðu við góða lögmannshætti, sbr. I. kafla siðareglnanna

Kærendur byggja á því að í tölvupóstum kærða, dags. 21. febrúar og 13. mars 2013, komi fram hótanir í garð tiltekinna starfsmanna A. Í tölvupóstinum, dags. 13. mars 2013 veiti kærði A tæplega tveggja tíma frest til þess að falla frá málarekstri á hendur umbjóðanda kærða, að öðrum kosti verði gerð atlaga að orðspori þessara tilteknu starfsmanna A. Þess konar hótanir telja kærendur fordæmalausar í samskiptum lögmanna hér á landi og fela í sér vinnubrögð sem ekki sé unnt að láta óátalin.

Kærendur telja að með háttsemi þeirri sem fólst í ritun og sendingu tölvupóstanna, dags. 21. febrúar og 13. mars 2013, hafi kærði gerst brotlegur gegn 27. og 30. gr. siðareglna LMFÍ.

Kærendur telja að sú gagnrýni sem fram komi í tölvupóstum kærða, dags. 21. febrúar og 13. mars 2013, sé ómálefnaleg og sett fram með þeim hætti að kærði muni leitast við að valda viðkomandi lögmönnum álitsspjöllum umfram það sem málefnið gefur tilefni til. Þannig hafi kærði í hótunum í þeim tilgangi einum að fá málsókn Æ hf. á hendur umbj. sínum fellda niður. Tölvupóstarnir séu bæði misvísandi og uppfullir af rangfærslum.

Kærendur rekja í greinargerð sinni hvernig umrætt skaðabótamál þeirra gegn umbjóðanda kærða horfir við þeim. Telja kærendur að sumir þeirra lögmanna A sem kærði nefnir í tölvupóstum sínum hafi enga raunverulega aðkomu haft að málefnum umræddra félaga  eða lánveitingum til þeirra. Séu nöfn þeirrra dregin fram af kærða án nokkurs tilefnis. Þá hafi aðrir lögmenn stofunnar sem setið hafi í stjórn dótturfélags hans sinnt störfum sínum í samræmi við lög og góða starfshætti að öllu leyti. Deila kærenda og kærða um þessi atriði verður annars ekki rakin frekar, enda fæst ekki séð að hún hafi þýðingu fyrir sakarefnið.

Að því er varðar brot gegn I. kafla siðareglna lögmanna um góða lögmannshætti byggja kærendur á því að með háttsemi sinni hafi kærði reynt að hindra A og lögmenn stofunnar í að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna.

Aðdróttanir og hótanir um að atlaga verði gerð að orðspori lögmanna vegna starfa þeirra í öðrum málum séu vinnubrögð sem séu ólíðandi og eins fjarri góðum lögmannsháttum sem frekast megi vera.

Þá sé sú vanvirðing sem kærði sýni fagmennsku og heilindum D hrl. og þeirra lögmanna sem starfa á A með ólíkindum. Láti kærði sér koma til hugar að hagsmunagæsla A gagnvart umbjóðanda sínum nái ekki lengra en svo að þeim hagsmunum verði kastað fyrir róða til þess eins að forðast opinbera umfjöllun um störf þeirra, en slíkt sé fásinna. Felist raunar í háttsemi kærða tilraun til þess að fá lögmenn A til þess að brjóta vísvitandi gegn 2. mgr. 3. gr. siðareglna LMFÍ.

III.

Nefndinni hefur ekki borist heildstæð greinargerð vegna málsins frá kærða þar sem fjallað er um þá háttsemi sem honum eru bornar á brýn í kærunni. Á hinn bóginn gerir kærandi í svarbréfi sínu til nefndarinnar þrjár athugasemdir vegna kærunnar sem einkum varða kærendur.

Í fyrsta lagi telur kærði að kærendur séu á glapstigum þegar þeir haldi því fram að B hrl. hafi sinnt störfum sínum í samræmi við lög og góða starfshætti, þó svo að hann sem stjórnarmaður Eignarhaldsfélagsins X ehf. hafi hvorki séð til þess að bókhald félagsins væri fært, ársreikningur saminn, né aðalfundur haldinn.

Í öðru lagi telur kærði að ef ósiðlegt teljist að benda eigendum A á að slíkt kunni að skerða orðspor hennar þá verði svo að vera.

Í þriðja lagi telur kærði að það sannist á aðkomu A að málefnum Æ banka fyrir bankahrun og Æ hf. eftir hrun, að lögfræðin á stofunni snúist einkum um viðskipti en minna sé þar rætt um mögulega hagsmunaárekstra. Að slíkum árekstrum sé þó einnig vikið í siðareglum lögmanna.

Niðurstaða.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í 1. gr.  siðareglna lögmanna kemur fram að lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Samkvæmt 2. gr. siðareglna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Í 27. gr. reglnanna segir að lögmaður megi einungis hafa uppi gagnrýni á störf annars lögmanns á málefnalegum grundvelli, og skuli forðast að valda honum álitsspjöllum umfram það, sem málefnið gefur ástæðu til.

Þá segir í 30. gr. siðareglnanna að lögmaður megi ekki hóta lögmanni gagnaðila kæru eða lögsókn í því skyni að fá hann til að aðhafast eitthvað eða láta eitthvað ógert í máli gagnaðila.

Það er mat nefndarinnar að þegar hin tilvitnuðu ummæli í tölvupósti kærða eru virt heildstætt, sé útilokað að draga af þeim aðra ályktun en þá, að kærði hafi freistað þess að fá kærendur til að fella niður málssókn gegn umbjóðanda sínum, með því að hóta þeim álitshnekki.

Engin afstaða verður hér tekin til þess hvort raunhæf efni standi til þess að réttargæslustefna tilgreindum einstaklingum í dómsmáli því sem hér um ræðir. Hins vegar hefur kærði í skrifum sínum slegið í og úr að þessu leyti. Hefur hann í aðra röndina jafnað sakleysi eigin umbjóðanda í málum varðandi meintar ólögmætar lánveitingar, við sakleysi þeirra B og C sem kærði telur að ætla megi að hafi engu ráðið um málefni X. Í hina röndina hefur hann hótað að réttargæslustefna þeim og kæra þau til sérstaks saksóknara verði skaðabótamálið ekki fellt niður. Þá hefur hann sérstaklega bent á að það þjóni ekki hagsmunum A og þeirra lögmanna sem þar starfa að stofan reki áfram mál á hendur umbjóðanda hans.

Ekki er unnt að fallast á með kærða að í þessum ummælum felist aðeins ábending um að tiltekin háttsemi eigenda hennar kunni að skerða orðspor hennar.  Þá verður þessi háttsemi hvorki réttlætt með ásökunum um að kærendur hafi ekki gætt að hagsmunaárekstrum né með öðrum aðfinnslum kærða um störf og rekstur kærenda.

Hefur kærði með framgöngu sinni brotið gróflega gegn 30. gr. siðareglna lögmanna.  Þá telur nefndin að framkoma kærða í garð kærenda samræmist ekki 2. gr. siðareglna, en við mat á því horfir nefndin til þess að framganga kærða hafði það að markmiði að fá kærendur til að taka eigin hagsmuni fram yfir hagsmuni umbjóðenda sinna í beinni andstöðu við m.a. II. kafla siðareglna lögmanna um skyldur þeirra gagnvart skjólstæðingum sínum.

Var brot kærða gegn siðareglunum samkvæmt þessu alvarlegtog er óhjákvæmilegt að hann sæti áminningu vegna þess.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, Ö hrl., sætir áminningu

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Kristinn Bjarnason, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson