Mál 13 2014

Ár 2014, föstudaginn 10. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 13/2014:

A,

B og

C

gegn

R hrl.

 og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 6. apríl 2014 erindi kærenda, A, B og C, þar sem kvartað var yfir störfum kærða, R hrl.

Óskað var eftir greinargerð frá kærða um erindið þann 10. apríl 2014. Greinargerð kærða barst þann 6. maí 2014. Kærendum var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærða þann 16. maí 2014. Athugasemdir kærenda bárust þann 30. maí 2014. Kærða var gefinn kostur á að koma á framfæri lokaathugasemdum þann 16. júní 2014. Athugasemdir bárust þann 10. júlí 2014.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Kærði rak héraðsdómsmál fyrir stefnanda, E. Umrætt mál var sprottið af umfjöllun um skjólstæðing kærða á vefsvæði D þar sem honum var borið á brýn að hafa brotið kynferðislega gegn nafngreindum konum, þ.m.t. kærendum í máli þessu. Í því skyni að sýna fram á að ásakanir þessar ættu ekki við rök að styðjast lagði stefnandi fram ýmis gögn í málinu, þ.m.t. tölvupóstsamskipti kærenda við hann.

 

II.

Kærendur krefjast þess að nefndin fjalli um mál þeirra og bregðist við á viðeigandi hátt. Litið er svo á að í þessu felist krafa um að kærði verði beittur viðurlögum samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærendur telja að kærði hafi tekið þátt í að rjúfa trúnað við fyrrverandi sóknarbörn skjólstæðings síns með því að leyfa birtingu tölvupóstsamskipta kærenda við skjólstæðing hans. Skjólstæðingur kærða hafi gegnt stöðu forstöðumanns trúfélagsins T og hafi verið bundinn trúnaði við sóknarbörn sín.

Kærendur vísa til 7. gr. laga nr. 108/1999 um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög og til 18. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Telja þær mikil líkindi með starfi og skyldum forstöðumanna trúfélaga og presta sem sannarlega séu opinberir starfsmenn. Því megi leiða að því líkum að þeir lúti sömu reglum. Þá komi eftirfarandi fram í siðareglum Prestafélags Íslands: „1. Virða þagnarskyldu um hvað eina sem þau verða áskynja í starfi og leynt skal fara. 2) Gæta þess að vanvirða ekki tilfinningar og tiltrú skjólstæðinga sinna. 3) Sýna ábyrg rafræn samskipti og netnotkun. 4) Gæta varfærni og hlífðar í samskiptum við börn og skjólstæðinga í viðkvæmum aðstæðum. 5) Notfæra sér ekki vitneskju eða tengsl sem verða til á vettvangi þjónustunnar í ábata- eða hagsmunaskyni." Telja kærendur því nokkuð ljóst að forstöðumaður trúfélags sé bundinn trúnaði og þagnarskyldu gagnvart sóknarbörnum sínum rétt eins og prestar gagnvart sínum sóknarbörnum.

Kærendur benda á að skjólstæðingur kærða hafi verið ákaflega valdamikill sem forstöðumaður T, mun valdameiri en nokkur prestur innan íslensku þjóðkirkjunnar sé gagnvart safnaðarbörnum sínum. Hann hafi stjórnað öllum daglegum rekstri innan T ásamt því að hafa ákvörðunarvald um persónuhagi safnaðarbarna sinna. Sem dæmi megi nefna að safnaðarmeðlimir hafi leitað álits hans þegar komið hafi að persónulegum málum og ákvörðunum, t.d. hjúskaparákvörðunum, ráðgjöf varðandi fjármál, kenningarleg álitaefni ásamt því að algengt hafi verið að senda til hans bænarefnabeiðnir. Safnaðarmeðlimir hafi tekið orð hans alvarlega enda hafi þau verið nánast lög í þeirra eyrum. Eðlilegt sé að safnaðarmeðlimir hafi staðið í þeirri trú að forstöðumaðurinn gætti trúnaðar við þá, samkvæmt lögum þess efnis, þegar þeir hafi leitað til hans með mál sín. Rof á slíkum trúnaði hljóti að vera alvarlegt.

Kærendur telja að með birtingu persónulegra bréfa þeirra til skjólstæðings kærða á meðan hann hafi gegnt forstöðu trúfélagsins T hafi trúnaður verið rofinn. Kærendur álíta að kærði hafi með birtingu bréfanna tekið þátt í að rjúfa trúnað við þær, fyrrverandi sóknarbörn E.

Kærendur telja vandséð hvernig gögn þau sem um ræði sýni fram á sannleiksgildi eða styrki mál skjólstæðings kærða. Gögn þessi sýni alls ekki fram á að ásakanirnar á hendur skjólstæðingnum séu rangar, eins og kærði haldi fram.

Kærendur mótmæla kröfu kærða um greiðslu málskostnaðar. Kærendum hafi verið nauðugur sá kostur að koma þessum kvörtunum á framfæri við nefndina.

 

III.

Kærði mótmælir því að með framlagningu umræddra skjala hafi hann sýnt af sér háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sbr. 27. gr. sömu laga.

Kærði vísar til þess að samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/1998 beri lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim sé trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna skuli lögmaður leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna. Málið [sem E höfðaði gegn D]hafi snúist öðrum þræði um sannleiksgildi þeirra ásakana á hendur stefnanda sem birst hafi á vefsvæði D. Í því skyni að sýna fram á að ásakanirnar væru rangar hafi stefnandi m.a. óskað eftir því við kærða að lögð yrðu fram sem málskjöl tölvupóstsamskipti kærenda við stefnanda. Að beiðni skjólstæðings síns hafi kærði því lagt fram þessi gögn.

Kærði kveðst engin lög hafa brotið með framlagningu umræddra gagna og því síður siðareglur lögmanna. Þvert á móti sé nærtækara að líta svo á að hefði hann ekki lagt fram þau gögn sem skjólstæðingur hans hafi óskað sérstaklega eftir að lögð yrðu fram sem dómskjöl í málinu gæti hann mögulega hafa gerst brotlegur við siðareglur lögmanna. Ef skjólstæðingur kærða eða eftir atvikum eiginkona hans, hafi rofið trúnað við kærendur í tengslum við gagnaframlagninguna þá sé það mál kærenda gegn viðkomandi einstaklingum. Raunar sýnist einboðið af umræddum gögnum að ekki sé um trúnaðarskjöl að ræða.

Kærði telur ljóst með vísan til þess sem að framan sé rakið að kæra kærenda sé án alls tilefnis. Af þessum sökum sé sú krafa gerð með vísan til 3. mgr. 15. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna að kærendum verði gert að greiða kærða málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni. Kærða hafi verið nauðugur sá kostur að koma athugasemdum sínum á framfæri sem eðli máls samkvæmt hafi haft í för með sér kostnað. Þess sé beiðst að kærða verði ákvarðaður málskostnaður að skaðlausu samkvæmt mati nefndarmanna.

Kærða kveðst alls ekki hafa verið ljóst að með framlagningu umræddra gagna væri umbjóðandi hans hugsanlega að brjóta gegn lögbundnum trúnaðarskyldum sínum. Í fyrsta lagi komi hvergi fram í umræddum gögnum að um trúnaðarskjöl hafi verið að ræða og skjölin beri það alls ekki með sér. Í öðru lagi hafi kærði ekki verið meðvitaður um að umbjóðandi hans hafi á þeim tíma sem gögn þessi hafi orðið til verið í sérstöku trúnaðarsambandi við málshefjendur og haft lögboðnar trúnaðarskyldur gagnvart umræddum einstaklingum. Kærði hafi ekki vitað annað en að kærendur hefðu allar verið hættar í trúfélaginu T á þeim tíma sem gögnin hafi orðið til. Raunar liggi ekki fyrir í málinu að kærendur hafi verið skráðar í trúfélagið T á þeim tíma sem máli skipti fyrir úrlausn máls þessa og þegar af þeirri ástæðu sé ósannað að umbjóðandi hans hafi brotið gegn lögbundnum trúnaðarskyldum sínum gagnvart kærendum.

 

Niðurstaða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í II. kafla siðareglna lögmanna er fjallað um skyldur lögmanna gagnvart skjólstæðingum sínum. Er þar í 8. gr. m.a. kveðið á um að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna.  Beri honum að vinna það starf án tillits til eigin hagsmuna,

Í V. kafla siðareglnanna er á hinn bóginn fjallað um skyldur lögmanns við gagnaðila. Þar kemur m.a. fram í 35. gr. að lögmaður má ekki til framdráttar málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum, en það telst meðal annars ótilhlýðilegt að ljóstra upp eða hóta gagnaðila uppljóstrun um atferli, er getur valdið gagnaðila hneykslisspjöllum.

Í lögum nr. 108/1999 er fjallað um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög. Samkvæmt þeim er heimilt að skrá trúfélög utan þjóðkirkjunnar, sbr. 2. gr. og er þá m.a. skráður forstöðumaður, sbr. 4. gr. Við skráninguna öðlast félagið ákveðin réttindi og skyldur samkvæmt lögunum. Forstöðumaður skráðs trúfélags hefur stöðu opinbers sýslunarmanns að því leyti að hann getur framkvæmt ákveðin embættisverk og ber ákveðnar skyldur um framkvæmd þeirra. Segir í 4. mgr. 7. gr. að Forstöðumaður skráðs trúfélags [...] sé „háður ábyrgð opinbers starfsmanns í framkvæmd þeirra starfa sem honum eru falin samkvæmt ákvæðum laga". Á hinn bóginn er ekki í lögum fjallað um önnur störf forstöðumanns og er hann því ekki bundin sérstökum trúnaði samkvæmt lögum, umfram aðra, þótt staða hans og störf geti að sönnu kallað mjög á að hann gæti trúnaðar um það sem honum er trúað fyrir af félögum.

Í 230. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir að ef maður, sem hefur eða haft hefur með höndum starf, sem opinbera skipun, leyfi eða viðurkenningu þarf til að rækja, segir frá einhverjum einkamálefnum, sem leynt eiga að fara og hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu, þá varði það sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

 

II.

Í máli þessu verður ekki tekin nein afstaða til þess hvort það var lögleg eða siðleg ákvörðun hjá umbjóðanda kærða að ákveða að leggja fram umrædda tölvupósta í héraðsdómsmálinu, en byggja verður á því að það hafi verið hans ákvörðun, en ekki ákvörðun kærða. Gegn andmælum kærða verður ekki talið að honum hafi mátt vera það ljóst að umræddir tölvupóstar fælu í sér upplýsingar sem kærða hefðu verið veittar í trúnaði sem forstöðumanni löggilts trúfélags. Í þeim er fjallað um samband sendenda við umbjóðandann, m.a. vegna fjölskyldutengsla. Þá liggur ekkert fyrir um vitneskju kærða um að sendendur póstanna hafi verið í viðkomandi trúfélagi, en hann hefur haldið því fram að hann hafi talið að þær hefðu allar verið hættar í því þegar póstarnir voru sendir.

Með framlagningunni var ekki leitast við að þvinga kærendur til að aðhafast eitthvað eða láta eitthvað ógert. Ofangreint ákvæði 35. gr. siðareglna lögmanna á því ekki við.

Verður í þessu ljósi að hafna því, að kærða hefði verið rétt að neita umbjóðanda sínum um leggja umrædd gögn fram.Verða því ekki talin efni til að gera athugasemdir við störf kærða í máli þessu.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, R hrl, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, B og C, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

 

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson