Mál 17 2014

Ár 2014, föstudaginn 12. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

 

Fyrir var tekið málið nr. 17/2014:

X og Y

gegn

A  hdl. og B hdl.

 og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 5. júní 2014 erindi kærenda, X og Y, þar sem kvartað var yfir áskilinni þóknun og störfum kærðu,  A hdl. og B hdl., vegna vinnu þeirra við mál kærenda.

 

Óskað var eftir greinargerð frá kærða um erindið þann 11. júní 2014. Kærðu skiluðu greinargerð vegna málsins þann 30. júní 2014.

 

Kærendum var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærðu þann 3. júlí 2014. Athugasemdir bárust frá kærendum þann 21. júlí 2014. Þann 29. júlí 2014 var kærðu gefinn kostur á að gera athugasemdir við bréf kærenda, en með bréfi, mótteknu 1. september 2014 tilkynntu þeir að ekki þætti ástæða til að gera frekari athugasemdir vegna málsins.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Verulegur ágreiningur er með aðilum um atvik málsins. Fyrir liggur þó að kærandi X hafði símasamband við kærða A 22. janúar 2014 og ákváðu þau að hittast á fundi í framhaldi af því símtali þann 28. janúar. Kærendur byggja á því að frá upphafi hafi málaleitan þessi snúist um hugsanlega hagsmunagæslu og aðstoð við kæranda X. Hún var skráður eigandi að 10% hlut í fasteign sem kærandi Y átti að öðru leyti, en þau voru í sambúð. Y átti í verulegum fjárhagsörðugleikum á þessum tíma og hafði mál þar sem LBI hf. krafðist gjaldþrotaskipta yfir honum verið þingfest í árslok 2013. Kröfurnar hafði LBI hf. fengið með framsali frá Landsbankanum í Luxembourg, en þær voru til komnar vegna lána- og veðsamninga Y við þann banka. Tilraunir höfðu verið gerðar til að semja við LBI hf. um uppgjör, en þær höfðu mistekist. Hafði bankinn m.a. krafist þess að fá umrædda fasteign framselda að fullu upp í kröfur sínar á hendur Y. Af hálfu kærenda er því haldið fram að í þessum upphafssamskiptum hafi þeim möguleika verið velt upp að lögmannsstofan P tæki í framhaldinu að sér hagsmunagæslu fyrir kæranda Y, en aldrei hafi þó komið til þess.

 

Kærðu starfa saman á lögmannsstofunni P. Þeir byggja á því að málaleitan X hafi frá upphafi snúið að málinu í heild, þ.e. athugun á því hvernig báðir kærendur gætu komist sem best frá kröfum Landsbankans.

 

Í framhaldi af upphaflegu símtali, sendi kærandi X kærða A um 13 tölvupósta með ýmsum upplýsingum, sem vörðuðu einkum fyrri samskipti við LBIhf. vegna krafna hans á hendur kærða Y.

 

Enda þótt aðilar séu sammála um að haldinn hafi verið fundur um málið þann 28. janúar, eru þeir í öllum grundvallaratriðum ósammála um hvað fór fram á fundinum og hverjar niðurstöður hans voru.

 

Af hálfu kærenda er því haldið fram að kærði B hafi verið kynntur til sögunnar á fundinum á þeim forsendum að hann væri með meiri reynslu á þessu sviði. Hefði hann verið lítt undirbúinn og fundurinn einkum farið í að útskýra fyrir honum hvernig málin stæðu. Þá hefði einnig komið í ljós að hann hafði starfað fyrir Landsbankann um árabil, en kærandi X hefði áður verið búin að kynna kærða A að hún væri að leita til hans vegna þess að hann hefði ekki unnið neitt fyrir bankann. Undir lok fundarins hafi komið í ljós að kærðu hafi haft meiri áhuga á að vinna að máli Y en að hagsmunagæslu fyrir X. Hafi þeir boðist til að hafa samband við Landsbankann og freista þess að semja um skuldauppgjör. Þessu hafi verið afdráttarlaust hafnað. Bæði hafi Y á þessum tíma fengið annan lögmann til að koma fram fyrir sína hönd og þá hafi hann verið að bíða eftir gögnum frá Landsbankanum í Luxembourg. Hafi það verið bundið fastmælum að kærðu myndu ekki aðhafast neitt fyrr en þeir hefðu heyrt frá kærendum.

 

Kærði A byggir á því að hann hafi fyrir þennan fund borið það undir X að hann vildi kalla kærða B að málinu og hafi engar athugasemdir verið gerðar við það að hann væri boðaður til fundarins. Kærðu byggja jafnframt á því að þeir hafi undirbúið umræddan  fund með því að fara yfir þau gögn sem þeim höfðu borist frá kærendum. Á fundinum hafi svo verið farið yfir niðurstöður þeirra af þessari yfirferð. Hafi verið rætt um að allt þyrfti að gera til að koma í veg fyrir að kærandi Y yrði tekinn til gjaldþrotaskipta, enda væri það forsenda þess að hann héldi starfi sínu. Hafi niðurstaðan orðið sú að heppilegast væri að kærðu hefðu samband við LBI hf. og freistuðu þess að semja um skuldauppgjör. Þá hafi verið rætt um hvort mögulegt væri að kærandi X gæti haldið sínum eignarhlut og einnig um þann möguleika að grípa þyrfti til varna í gjaldþrotamálinu. Hafi kærðu verið falið að gæta hagsmuna Y fyrir dómi við fyrirtöku gjaldþrotamálsins 7. febrúar.

 

Í framhaldi af þessum fundi 28. janúar var stofnað mál í málaskrá P í nafni kæranda Y. Við það tækifæri var honum flett upp í skrám Creditinfo, en það mun hefðbundið verklag þegar stofnað er til reikningsviðskipta. Fengu kærendur senda tilkynningu um þessa uppflettingu.

 

Jafnframt þessu settu kærðu sig í samband við LBI hf. Segist kærendum svo frá að þetta hafi komið þeim í opna skjöldu og hafi komið illa við þann lögmann sem kom fram fyrir hönd Y gagnvart LBI hf., auk þess að vekja ákveðið vantraust hjá LBI hf.

 

Kærandi X sendi kærða A tölvupóst þann 29. janúar og spurðist fyrir um fyrrgreinda uppflettingu. Þegar hún hafði fengið svar við henni svaraði hún um hæl og sagði þá m.a. „Í upphafi vorum við eingöngu að ræða um mína hagsmuni hvað þetta mál varðar. Engin stofnun máls eða uppfletting hefur þótt þörf á í því tilfelli.  [...] Eins og hefði átt að vera ljóst höfum við verið afar óheppin við leit okkar að lögfræðingi. P þarf ekki að skoða þetta mál neitt frekar."

 

Kærendur tóku í framhaldi af þessu á móti tveimur reikningum frá lögmannsstofu kærðu. Reikningur nr. 418 er stílaður á kæranda Y og dagsettur 31. janúar 2014. Á honum er reikningsfærð vinna kærðu samkvæmt tímaskýrslu, 4 tímar vegna vinnu kærða B en 9 tímar vegna vinnu kærða A. Heildarfjárhæð reikningsins er kr. 324.699 að meðtöldum virðisaukaskatti. Reikningur nr. 419 er stílaður á kæranda X og dagsettur 4. febrúar 2014. Á honum er er reikningsfærð vinna kærða A, alls 7 tímar og er fjárhæð reikningsins kr. 174.822 að virðisaukaskatti meðtöldum.

 

II.

Kærendur gera margvíslegar athugasemdir, bæði við störf kærðu og reikningsgerð. Kröfur þeirra eru að reikningar kærðu verði felldir niður, en til vara lækkaðir stórlega. Þá krefjast þau þess að nefndin úrskurði þeim málskostnað úr hendi lögmannsstofu kærðu.

 

Þar sem umkvartanir kærenda beinast m.a. að tilgreindum brotum gegn siðareglum lögmanna og lögum, verður kvörtun þeirra jafnframt skilin svo að hún byggi á 27. gr. lögmannalaga og tekið til athugunar hvort beitt skuli viðurlögum á grundvelli ákvæðisins.

 

Kærendur telja að þar sem kærandi Y hafi aldrei falið lögmannsstofunni nein störf í sína þágu, geti kærðu ekki ætlast til þess að hann greiði þeim neina reikninga. Aðkoma Y hafi eingöngu verið til skýringar á stöðu mála, en P hafi eingöngu verið ætlað að gæra hagsmuna X.

 

Að því er varðar reikning stílaðan á kæranda X og störf í hennar þágu telja kærendur að í raun hafi ekki annað verið gert en að halda einn upphafsfund til að kanna hvort af samstarfi gæti orðið. Á fundinum hafi hins vegar verið ákveðið að kærðu aðhefðust ekkert fyrr en kærendur hefðu samband.

 

Kærendur telja uppflettingu á Y í skrám Creditinfo hafa brotið gegn meginreglu 7. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000, þar sem fram kemur að við meðferð persónuupplýsinga skuli unnar með sanngjörnum og málefnalegum hætti og meðferð þeirra í samræmi við vandaða vinnuhætti. Þá hafi vinnslan verið óheimil samkvæmt 8. gr. laganna þar sem kærandi Y hafi ekki veitt samþykki sitt og enginn samningur á milli hans og kærðu verið fyrir hendi.

 

Kærendur telja að kærðu hafi brotið gegn siðareglum lögmanna með því að upplýsa þau ekki fyrirfram um áætlaðan kostnað eða um þá fyrirætlan að fá fleiri en kærða A að málinu. Sé framganga kærðu brot á meginreglunni um að lögmenn skuli gæta heiðurs lögmannsstéttarinnar. Telja kærendur fráleitt að senda þeim reikninga að fjárhæð samtals um hálfa milljón króna vegna eins fundar og svo fundahalda einstakra lögmanna innan P, auk starfa sem unnin hafi verið umboðslaust og í óþökk kærenda.

 

Í kæru sinni gera kærendur einnig fjölmargar athugasemdir við einstakar færslur í tímaskrá kærðu.

 

III.

Kærðu krefjast þess að öllum kröfum kærenda verði hafnað.

 

Kærendur byggja sem fyrr greinir á því að þeir hafi verið fengnir til að vinna að málum beggja kærenda. Kærandi X hafi upphaflega sett sig í samband við kærða A og óskað eftir því að P aðstoðaði hana vegna gjaldþrotaskipta á búi sambýlismanns hennar. Hafi hún verið upplýst þá þegar um að öll vinna yrði unnin í tímavinnu og um tímagjald stofunnar. Í framhaldi af því hafi hún sent 11 tölvupósta með 17 fylgiskjölum með upplýsingum um málið, samtals upp á 95 blaðsíður. Hafi þessir tölvupóstar varðað margvísleg og flókin álitaefni varðandi deilur Y við LBI hf., m.a. hvort framsal krafnanna frá Landsbankanum í Luxembourg stæðust þarlendar reglur um framsal krafna, deilur vegna viðgerða á fasteigninni, gildi óundirritaðs samkomulags um uppgjör og kærendur höfðu byrjað að efna.

 

Morguninn eftir, þann 23. hafi hún sent tvo tölvupósta í viðbót, annan um tímasetningu á þinghaldi í gjaldþrotamáli Y þann sama dag kl. 13:15, hins vegar fyrirspurn um „hvort þú /þið sjáið einhvern flöt á því ... hvort þið treystið ykkur til að verja Y einnig" Kærðu hafi þegar tekið til óspilltra málanna við að kynna sér gögnin. Hafi kærði B verið kallaður að málinu vegna reynslu sinnar á þessu réttarsviði. Þeir hafi lagt til að Y fengi frest í þinghaldinu þann 23. og talið rétt að efna til fundar um málið með kærendum. Sem fyrr greinir byggja kærðu á því að á fundinum hafi verið ákveðið að þeir hefðu samband við LBI hf. Í framhaldinu hafi borist athugasemdir frá kærðu vegna uppflettinga hjá Creditinfo og samstarfinu síðan verið slitið. Það hafi ekki verið fyrr en 3. febrúar sem ljóst hafi orðið að X vildi standa fast á því að halda sínum 10% eignarhluta í fasteigninni og hagsmunir þeirra Y þar með ekki farið saman.

 

Niðurstaða

Kvörtunin sem mál þetta byggir á stafar frá kærendum sameiginlega. Enda þótt aðstaða þeirra gagnvart kærðu sé um margt ólík og krafist sé niðurfellingar tveggja reikninga, sem beinast hvor að sínum kæranda, verður að líta svo að kvörtunin snúi að sömu málsatvikum. Verður fallist á að unnt sé að fjalla um kröfur kærenda í einu lagi.

Rétt þykir að fjalla fyrst um þær kvartanir sem kærðu hafa fært fram vegna starfa kærðu, en síðan um ágreining þeirra um endurgjald kærða. Áréttað skal að sönnunarbyrði vegna þess sem óljóst þykir verður ekki lögð með sama hætti á aðila í þessum tveimur þáttum málsins.

 

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

 

Samkvæmt 2. gr. siðareglna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

 

Úrskurðarnefndin telur ekki að kærendur hafi sýnt fram á að kærðu hafi brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Af þeim skeytum sem kærandi X sendi kærðu 22. og 23. janúar 2014 mátti ráða að hagsmunir beggja kærenda væru mjög samtvinnaðir og að óskað væri eftir að málið væri skoðað í heild. Af tölvupóstum þessum má skýrlega greina að hún var þá þegar meðvituð um að kærði Jón myndi væntanlega ekki vinna einn að málinu.

 

Ekki hafa verið lögð fyrir úrskurðarnefndina gögn sem sýna fram á að það hafi verið rangur skilningur kærðu eftir fund aðila að þeim væri ætlað að vinna í þágu beggja kærenda, en í ljósi þess skilnings var eðlilegt að kærendum væri flett upp áður en stofnað væri til reikningsviðskipta og að kærðu hefðu samband við gagnaðila.

 

Í ljósi alls ofangreinds verða ekki gerðar aðfinnslur við störf kærðu eða beitt viðurlögum á grundvelli 27. gr. lögmannalaga vegna máls þessa.

 

II.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga. Ágreiningur er um hvort kærendum var kynnt gjaldtaka kærðu.

 

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

 

Samkvæmt 28. gr. laga um þjónustukaup nr. 42/2000 skal neytandi greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er, hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu.

 

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins ber lögmanni að leita samþykkis skjólstæðings, ef fela þarf mál hans öðrum lögmanni. Sama gildir að jafnaði, ef leita þarf annarrar sérfræðiaðstoðar, svo sem mats‑ eða skoðunarmanna, ef verulegur kostnaður er því samfara.

 

Í máli þessu liggur fyrir að kærðu hittu kæranda Y á fundi 28. janúar 2014. Fyrir þann tíma hafði hann ekki falið þeim mál sitt. Ágreiningur er um hvort samkomulag hafi orðið á þessum fundi um að kærðu tækju við máli hans, en kærendur gerðu tafarlaust athugasemdir þegar þeim varð ljóst að kærðu litu svo á. Gegn eindreginni neitun kærenda, verður að telja að kærðu hafi ekki tekist að sanna að þeir hafi unnið í þágu kæranda Y með hans samþykki. Verða þeir að bera sönnunarbyrðina um þetta, enda hefði þeim verið í lófa lagið að ganga frá skriflegu umboði á umræddum fundi. Verður, af þessari ástæðu að fallast á kröfu um að reikningur nr. 418, sem gefinn er út á kæranda Y, verði felldur niður.

 

Að því er varðar kæranda X og reikning nr. 419 er til þess að líta að í samskiptum sínum við kærðu sýndi hún glögglega að henni var ljóst að um var að ræða umfangsmikið mál. Sendi hún kærða A þann 22. og 23. janúar mikið magn gagna og skilaboð sem báru með sér að vilji hennar stæði til þess að hann aðstoðaði hana við að ná sem hagstæðastri niðurstöðu. Var það að hennar undirlagi að ekki aðeins var skoðuð réttarstaða hennar gagnvart kæranda Y og skuldheimtumönnum hans, heldur allur grundvöllur þeirrar kröfu sem LBI hf. hélt fram. Þá bera umrædd skilaboð einnig með sér að hún hafði þá þegar vitneskju um að fleiri kynnu að koma að málum en Jón sjálfur. Loks verður ekki litið fram hjá því að á umræddum skilaboðum mátti skilja að mjög sterklega kæmi til greina að kærðu yrði falið að sjá um alla hagsmunagæslu í málinu, þ.e. einnig fyrir kæranda Y.

 

Að öllu þessu athuguðu og þá sérstaklega til þess hve umfangsmikið og flókið mál var um að ræða, verður að telja að bæði tímafjöldi og fjárhæð sem kærandi X er krafin um með reikningi kærðu nr. 419 sé mjög hóflegur m.v. þá yfirferð sem hún óskaði eftir.

 

Rétt þykir að hvor aðila um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærðu,  A hdl. og B hdl., hafa í störfum sínum ekki gert á hlut kærenda, X og Y, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 

Áskilið endurgjald kærðu vegna starfa í þágu kæranda X með reikningi nr. 419, dagsettur 4. febrúar 2014, að fjárhæð kr. 144.576,telst hæfilegt í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998.

 

Reikningur nr. 418, stílaður á kæranda Y og dagsettur 31. janúar 2014 að fjárhæð kr. 324.699  er felldur niður.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Helgi Birgisson hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Þ. Snævarr hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson