Mál 25 2014

Ár 2015, föstudaginn 13. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 25/2014:

A

gegn

R hdl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 16. október 2014 erindi sóknaraðila, A, þar sem kvartað var yfir áskilinni þóknun varnaraðila, R hdl.

Óskað var eftir greinargerð frá varnaraðila um erindið þann 21. október 2014 og barst hún 5. nóvember 2014. Sóknaraðila var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerðina með bréfi, dags. 12. nóvember 2014 og bárust athugasemdir hennar 28. nóvember. Var varnaraðila gefinn kostur á að gera lokaathugasemdir vegna málsins með bréfi dags. 15. desember 2014 og bárust þær 14. janúar 2015. Eftir að þær höfðu verið kynntar sóknaraðila með bréfi, dags. 20. janúar 2015 bárust enn athugasemdir sóknaraðila vegna málsins 28. janúar 2015.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Sóknaraðili varð fyrir tveimur slysum 2. og 3. apríl 2011. Í fyrra slysinu féll sóknaraðili af hestbaki og hlaut nokkra áverka. Naut hún frítímaslysatryggingar hjá D vegna þessa slyss. Daginn eftir varð sóknaraðili fyrir umferðarslysi og versnaði henni af meiðslum sínum við það slys. E bar bótaábyrgð á þessu síðara slysi.

Þann 18. júlí 2011 veitti sóknaraðili varnaraðila tvö umboð til að annast hagsmunagæslu fyrir sína hönd vegna þessara tveggja slysa. Ekkert er fram komið um atvik að baki því að hún leitaði til varnaraðila og enginn skriflegur samningur virðist hafa verið gerður um gjaldtöku vegna starfans. Af málatilbúnaði aðila verður ráðið að lítt eða ekkert hafi verið fjallað um gjaldtöku á þessu tímamarki, en margt hefur þá verið óljóst um gang málsins, umfang tjónsins og bótaskyldu vegna þess.

Af gögnum málsins má sjá að vinna varnaraðila að málinu hefur ekki verið veruleg fyrsta kastið, eins og algengt er í líkamstjónsmálum þar sem bíða þarf þess að endanlegar afleiðingar slyss verði ljósar. Undir mitt ár 2013 hafði hann varið rúmlega átta tímum í gagnaöflun, samskipti við lækni sóknaraðila o.fl. Í júníbyrjun hófst hann handa við að vinna mál gagnvart tryggingafélögunum, útbúa matsbeiðnir og senda þær til tryggingafélaganna. Þá tóku við talsverð samskipti við tryggingafélögin og matsmenn. Er ein matsbeiðni dags. 24. september en önnur 29. nóvember 2013. Matsgerðin var svo tilbúin 20. mars 2014 og hafði varnaraðili þá bókað um 19 stunda vinnu til viðbótar á málið. Eftir það tímamark varði varnaraðili um 10 vinnustundum til viðbótar til kröfugerðar á hendur tryggingafélögunum tveimur, uppgjörs bóta og skyldra starfa. Skráði varnaraðili alls 37 tíma vinnu vegna starfa sinna.

Varnaraðili móttók kr. 859.700 frá D þann 1. apríl 2014. Var um að ræða í einu lagi uppgjör samkvæmt liðnum „varanleg örorka vegna slyss" Af þeim hélt hann eftir kr. 175.674 upp í eigin kostnað, en greiddi út kr. 684.026 daginn eftir.

Varnaraðili móttók svo kr. 3.649.004 frá E þann 28. júlí 2014. Af þeirri fjárhæð var kr. 268.311 vegna lögmannskostnaðar og virðisaukaskatts af honum. Af þessum bótum hélt varnaraðili eftir kr. 800.000, en greiddi út kr. 2.849.004 þann 1. ágúst. Heildarbætur sem sóknaraðili fékk úr tryggingum numu því kr. 4.501.709 að öllu meðtöldu, en heildarþóknun varnaraðila nam kr. 968.679.

 

II.

Aðalkrafa sóknaraðila er að varnaraðili greiði henni kr. 699.619. Felst í því krafa um að gjaldtaka varnaraðila verði takmörkuð við fjárhæðina 269.060, þ.e. nokkurn vegin þá fjárhæð sem ætluð var í lögmannskostnað samkvæmt uppgjöri E.

Til vara krefst sóknaraðili endurgreiðslu að fjárhæð kr. 523.945. Í þeirri kröfu felst efnislega að gjaldtakan verði takmörkuð við þá fjárhæð sem ætluð var í lögmannskostnað samkvæmt uppgjöri E auk kr. 139.979 að viðbættum vsk. vegna innheimtu bóta hjá D.

Til vara er krafist lækkunar á áskilinni þóknun og endurgreiðslu að mati nefndarinnar.

Sóknaraðili véfengir í kvörtun sinni að varnaraðili hafi haft umboð til að innheimta slysabætur sínar hjá D, eða að áskilja sér þóknun vegna þess. Þá sé áskilin þóknun vegna þessarar innheimtu allt of há. Enginn ágreiningur hafi verið um bótaskyldu, atvik eða fjárhæðir og ekki gert ráð fyrir því af tryggingafélaginu að greiða þyrfti lögmanni fyrir þessa innheimtu. Bendi tímaskrá ekki til þess að nema 2,5 tímum hafi verið varið til þessarar innheimtu.

Sóknaraðili telur rétt að ganga út frá þeirri fjárhæð sem E greiddi vegna lögmannskostnaðar við uppgjör aðila vegna þess verks. Kveðst hún aldrei hafa verið upplýst um að henni bæri að standa sjálfri undir kostnaði við að innheimta réttar bætur hjá þeim sem bæru ábyrgð á tjóni hennar. Sú staðreynd að ekki sé gert ráð fyrir lögmannskostnaði við útgreiðslu bóta frá D, sýni að engin þörf hafi verið á vinnu lögmanns við heimtu þeirra.

Sóknaraðili telur að þar sem gögn málsins beri með sér að matsbeiðni hafi verið sett fram sameiginlega fyrir sína hönd og E, sé óeðlilegt að hún sé rukkuð ein fyrir alla vinnu vegna beiðninnar.

Sóknaraðili telur tímaskráningu svo ótrúverðuga að ekki verði á henni byggt. Bendir hún á að samkvæmt henni sé matsbeiðni kláruð og send þann 27. nóvember 2013, en samkvæmt matsgerðinni sé matsbeiðni dagsett 29. nóvember 2013, þ.e. tveimur dögum síðar. Þá séu fram lagðir útreikningar varnaraðila einn hrærigrautur sem engan botn sé unnt að fá í.

Sóknaraðili hafnar því alfarið að unnt sé að byggja á gjaldskrá lögmannstofunnar L við ákvörðun um gjaldtöku varnaraðila. Varnaraðili hafi í fyrsta lagi ekki starfað þar þegar hún leitaði til hans og hafi henni því aldrei verið kynnt gjaldskráin. Tímaskráningin sé færð fyrir hönd T sf. samkvæmt efni sínu. Þá sé fram lögð gjaldskrá gefin út 30. október 2013 en en tímaskráningin taki til vinnu sem unnin var fyrir það tímamark

 

III.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um endurgreiðslu úr sinni hendi verði hafnað. Þá krefst hann þess að sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Varnaraðili telur tímaskráningu sína, gjaldtöku og störf í þágu sóknaraðila eðlilega í alla staði. Hafi vinnan verið vel unnin, með hagsmuni sóknaraðila að leiðarljósi.

Varnaraðili leggur áherslu á að um hafi verið að ræða tvö innheimtumál, gegn tveimur tryggingafélögum vegna tveggja slysa. Hafi hann fengið tvö umboð hjá sóknaraðila til málanna.

Varnaraðili hafnar því að bætur sem tryggingafélög greiða i bótauppgjörum sínum verði lögð til grundvallar í viðskiptum lögmanna við viðskiptamenn sína. Engin lögmannsþóknun hafi verið innifalin í frítímaslysatryggingunni hjá D og hafi því þurft að greiða hana af útgreiddum bótum. Á þessum tímapunkti hafi varnaraðili viljað láta sóknaraðila hafa sem mest af bótunum sem fyrst og því aðeins haldið eftir óverulegum hluta þóknunar sinnar. Afgangurinn af þóknuninni hafi svo átt að greiðast af bótum frá E og hafi það gengið eftir. Hafi hann gert sóknaraðila grein fyrir þessu, enda hafi þetta legið í hlutarins eðli þar sem áfallinn lögfræðikostnaður málsins hafi verið orðinn miklu hærri en þær bætur sem fengust greiddar hjá D.

Varnaraðili kveður gjaldtöku sína hafa farið eftir tímaskrá samkvæmt gjaldskrá lögmannsstofu sinnar, L. Hafi tímagjaldið numið kr. 24.500 - 60.000 frá 13. október 2013. Fram að þeim tíma hafi tímagjaldið numið kr. 22.900.

Varnaraðili hafnar því að aðkoma lögmanns að innheimtumálinu gagnvart D hafi verið ónauðsynleg eða fyrirhafnarlaus. Hafi m.a. þurft að koma mjög til móts við óskir félagsins við gerð matsbeiðni. Má skilja varnaraðila svo að tímum vegna þess sem sneri að D hafi ekki verið haldið sérstaklega til haga, en um sé að ræða mun fleiri tíma en þá 2,75 tíma sem sóknaraðili telji að hafi verið unnið vegna D

Varnaraðili kveðst hafa unnið 9 tíma í báðum matsbeiðnum sínum vegna slysa sóknaraðila, auk eins tíma vegna breytinga á annarri beiðninni. Telur varnaraðili þetta innan eðlilegra marka.

Varnaraðili hafnar aðfinnslum sóknaraðila við tímaskráningu sína. Hann bendir á að matsbeiðni sín sé ekki dagsett 29. nóvember 2013, heldur sé þar um að ræða bréf E til matsmanna. Þann dag hafi beiðnin verið yfirfarin af E og send matsmönnum.

Varnaraðili byggir á því að ekki hafi í upphafi verið unnt að gera sér ljóst hvert endurgjaldið yrði. Málin hafi tekið þrjú ár í vinnslu. Varnaraðili bendir á 28. gr. laga um þjónustukaup, en samkvæmt henni skuli greiða sanngjarnt verð fyrir þjónustu, hafi ekki verið samið um verð fyrirfram. Ekkert hafi legið fyrir um hvernig umrædd tryggingafélög myndu taka þátt í kostnaði þegar umboð varnaraðila vegna málanna var gefið út.

Varnaraðili ber ekki á móti því að sóknaraðila hafi ekki verið kynnt gjaldskrá L þegar í upphafi, enda hafi hann þá ekki starfað þar. Aldrei hafi verið um annað að ræða en að unnið væri samkvæmt tímaskrá, enda algjörlega óljóst hve mikil vinna færi í málin. Jafnan sé upplýst um tímagjald þegar hann taki að sér ný verkefni. Tímagjaldið sé raunar ágreiningslaust í þessu máli, enda sé það í samræmi við gjaldskrár annarra lögmannsstofa.

 

Niðurstaða.

I.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998.

 

II.

Það athugast að bæði í framlögðum skjölum frá varnaraðila og í málatilbúnaði sóknaraðila er að finna minni háttar reiknivillur. Þær fá þó engan vegin raskað grundvelli málsins.

Af gögnum málsins, einkum fram lögðum umboðum, verður skýrlega ráðið að sóknaraðili fól varnaraðila að innheimta bætur vegna tveggja slysa hjá tveimur tryggingafélögum. Virðist lítt eða ekki hafa verið rætt um gjaldtöku vegna þessara verkefna.

Í máli þessu liggur ekki fyrir neinn samningur um þá þjónustu sem varnaraðili veitti sóknaraðila eða  gjaldtöku vegna hennar og raunar er ómótmælt fullyrðingum sóknaraðila um að ekkert hafi verið samið um endurgjald varnaraðila, ef undan eru skildar athugasemdir varnaraðila í þá veru að venjan sé sú að hann upplýsi hvert tímagjaldið er þegar tekið er inn nýtt verkefni, en þegar umboðin voru undirrituð hafi ekki verið ljóst hve mikil vinna færi í þessi mál. Ekki verður miðað við framlagða gjaldskrá L í máli þessu, enda ágreiningslaust að hún hefur aldrei verið kynnt sóknaraðila.

Að framan eru rakin þau ákvæði sem gilda um skyldur lögmanna til að upplýsa viðskiptavini um gjaldtöku sína. Enda þótt oft sé mjög vandasamt og jafnvel útilokað að áætla fyrirfram umfang vinnu við að ljúka uppgjörum eða deilumálum við gagnaðila, virðist sérstaklega brýnt að tekið sé skýrt fram ef gerður er áskilnaður um þóknun umfram t.d. dæmd gjafsóknarlaun eða innheimtulaun sem greidd eru af innheimtum slysabótum.

Hefur í fyrri úrskurðum nefndarinnar verið við það miðað að án slíks áskilnaðar sé ekki heimilt að innheimta þóknun umfram það sem fæst hjá gagnaðila. Er óhjákvæmilegt að taka tillit til þess við úrlausn máls þessa að varnaraðili samdi við E um að fullnaðaruppgjör vegna bóta sóknaraðila frá félaginu skyldi innifela kr. 268.311 greiðslu vegna lögmannskostnaðar að virðisaukaskatti meðtöldum. Verður varnaraðili þannig að bera hallann af því hvernig hann hagaði samningsgerð sinni við sóknaraðila að verulegu leyti.

Á hinn bóginn verður ekki á það fallist með sóknaraðila að hún hafi mátt vænta þess að umrædd störf yrðu skilyrðislaust unnin, henni að kostnaðarlausu. Gat hún t.a.m. ekki vænst þess að innheimta bóta úr frítímaslysatryggingu, þar sem tryggingaskilmálar gera ekki ráð fyrir að félagið bæti lögmannskostnað af heimtu bóta, yrði unnin án nokkurs endurgjalds.Varðandi innheimtumál gagnvart D er því ekki sambærilegri viðmiðun til að dreifa.

Ekki verður fallist á að innheimta varnaraðila hafi verið óþörf, óumbeðin eða aðeins tekið 2,5 stundir. Liggur fyrir að málin voru bæði unnin í einu lagi, samkvæmt tveimur umboðum, útgefnum sama daginn og tímar vegna beggja skrifaðir saman að langmestu leyti.

Með hliðsjón af þeim hagsmunum sem um var að tefla og umfangi máls, verður hæfileg þóknun varnaraðila fyrir þetta mál talin kr. 150.000, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Felur sú niðurstaða í sér að varnaraðili verður úrskurðaður til að greiða sóknaraðila kr. 550.368.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Hæfilegt endurgjald varnaraðila, R hdl., vegna starfa hans í þágu sóknaraðila, A, í skilningi 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er kr.418.311 að virðisaukaskatti meðtöldum. Varnaraðili endurgreiði sóknaraðila kr. 550.368.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

 

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson