Mál 27 2014

Ár 2015, föstudaginn 27. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 27/2014:

A

gegn

R hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi A til úrskurðarnefndar lögmanna, sem barst nefndinni þann 24. nóvember 2015, var kvartað yfir framgöngu R hrl., kærða, en hann kom fram fyrir hönd tjónþola í slysabótamáli gegn kæranda. Með bréfi, dags. 26. nóvember 2014, var óskað eftir greinargerð kærða um málið. Kærði óskaði eftir frekari fresti til að skila greinargerð og var hann veittur. Þann 13. janúar 2015 skilaði kærði inn gögnum vegna málsins og óskaði eftir hálfsmánaðar fresti til að koma að athugasemdum vegna málsins. Jafnframt komu þá fram í erindi hans nokkrar efnislegar athugasemdir vegna málsins. Var kærða veittur lokafrestur til 28. janúar til að skila  greinargerð sinni í málinu. Kærði sendi kæranda afrit af þessum athugasemdum sínum og bárust nefndinni athugasemdir kæranda við þær þann 30. janúar 2015. Þær voru kynntar kærða með bréfi til kærða þann 26. febrúar 2015. Var kærða þar gefinn frestur til 12. mars til að koma að athugasemdum við bréf kæranda og upplýst að eftir það tímamark yrði lagður úrskurður á málið. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kærða vegna málsins.

Málsatvik og málsástæður.

I

Svo sem að ofan greinir hefur kærði ekki skilað heildstæðri greinargerð vegna máls þessa. Af athugasemdum hans verður ráðið að ekki sé ágreiningur um málavaxtalýsingu kæranda nema í einstökum, afmörkuðum atriðum.

Málsatvik eru þau, að kærði fór með slysabótamál fyrir mann sem hafði slasast í umferðarslysi. Hafði hann setið í kyrrstæðri bifreið sinni þegar ekið var á hana. Var bifreið tjónvaldsins tryggð ábyrgðartryggingu hjá kæranda. Leitaði kærði til kæranda vegna tryggingabóta. Kærandi leitaði til sérfræðings á sínum vegum, sem framkvæmdi útreikning á áætluðum hraða bifreiðarinnar, sem byggðu einkum á skemmdum á bifreiðunum, en einnig viðtali við ökumanninn sem olli slysinu. Ágreiningur er um hvort þessir útreikningar voru sendir matsmönnum sem kærði fékk til að metaafleiðingar slyssins fyrir tjónþola. Kærði gerði verulegar athugasemdir við útreikninga þessa og taldi sig geta sýnt fram á að þeir byggðu á röngum upplýsingum um skemmdirnar. Matsmenn komust að þeirri niðurstöðu að orsakatengsl væru á milli slyssins og meiðsla tjónþola. Mátu þeir m.a. varanlegan miska til 15 stiga og varanlega örorku 15%.

Þann 26. júní 2014 gerði kærði kröfu á kæranda vegna slyssins á grundvelli matsgerðarinnar. Í kjölfarið bauð B hdl. f.h. kæranda kærða þann 10. júlí lokauppgjör á bótum vegna slyssins að fjárhæð kr. 3.639.148 kr. Tilboð þetta var sent með tölvupósti til lögmannsstofu kærða, þar sem fylgiskjal innihélt óundirrituð drög að lokauppgjöri. Er í tölvupóstinum tekið fram að félagið fallist ekki á þá viðmiðun sem matsmenn lögðu til grundvallar um laun tjónþolans. Þá kemur fram athugasemd við að matsmenn hafi ekki verið búnir að móttaka umrædda útreikninga á hraða bifreiðar tjónvaldsins. Loks segir orðrétt í tölvupósti þessum „Meðfylgjandi tilboð er sett fram til sátta og með öllum fyrirvörum þ.m.t. við matið sjálft. Tölvupóstur þessi og tilboðið er ekki ætlað til framlagningar." Þá segir í skjalinu sem fylgdi og innihélt drög að fullnaðaruppgjöri „Sett fram til sátta með öllum fyrirvörum, ekki ætlað til framlagningar".

Í framhaldi af þessu vildi kærði fallast á tilboðið með fyrirvara um rétt árslaunaviðmið vegna varanlegrar örorku, auk þess sem tjónþoli ætti rétt á bótum fyrir tímabundið atvinnutjón. Félagið féllst ekki á að ganga frá uppgjörinu með þessum fyrirvara.

Kærði birti kæranda stefnu vegna slysabótamálsins þann 21. ágúst 2014.Í stefnunni er talið upp á lista yfir framlögð skjöl „Bótatilboð, dags. 10.7.2014". Samdægurs hafði B hdl. samband við kærða símleiðis og óskaði eftir því að hann myndi ekki leggja tilboðið fram fyrir dómi. Kærði lagði bótatilboðið allt að einu fram við þingfestingu málsins 4. september 2014 og voru mótmæli kæranda gegn framlagningunni þá jafnframt bókuð.

II.

Kærandi krefst þess að úrskurðarnefnd lögmanna grípi til viðeigandi viðurlaga í samræmi við 2. mgr. 27. gr. laga um lögmenn vegna háttsemi kærða. Þá krefst kærandi málskostnaðar fyrir nefndinni úr hendi kærða.

Kærandi telur að framlagning sáttatilboðsins hafi falið í sér tvíþætt brot. Annars vegar brot gegn þeim hátternisreglum sem gildi um samskipti lögmanna og dómstóla, sbr. III. kafla siðareglna LMFÍ. Hins vegar hafi háttsemi kærða verið í andstöðu við góða lögmannshætti, sbr. I. kafla siðareglnanna.

Kærandi byggir á því að um sé að ræða brot gegn 2. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna sem leggi bann við því að lögmaður leggi fram í dómi sáttatillögur gagnaðila, lagðar fram utan réttar, nema með samþykki hans. Leggur kærandi áherslu á að kærði hafi framið brotið þrátt fyrir að sérstaklega hafi verið tekið fram í tilboðinu að það væri ekki til framlagningar og þrátt fyrir að hafa móttekið sérstaka ósk frá kæranda um að tilboðið yrði ekki lagt fram. Hafi kærða mátt vera fullljóst að gagnaframlagning þessi fæli í sér brot gegn ákvæðum siðareglna LMFÍ. Þá hafi honum verið í lófa lagið að hætta við framlagninguna vegna mótmæla kæranda.

Kærandi telur hafið yfir vafa að brot kærða eigi undir ákvæðið. Í fyrsta lagi sé B hdl. starfandi lögmaður. Auk þess nái skylda kærða til þess að leggja ekki fram sáttatilboð gagnaðila, burtséð frá því hver eigi í hlut.

Kærandi telur engu skipta fyrir mál þetta þótt hann hafi ekki viljað ganga frá bótauppgjöri á grundvelli tilboðsins með fyrirvara. Honum sé heimilt að bjóða tjónþolum sættir um fullnaðaruppgjör. Umræddur tjónþoli hafi notið aðstoðar lögmanns og niðurstaðan einfaldlega orðið sú að samkomulag náðist ekki. Sama eigi við um þá skýrslu sem kærandi hafi vissulega aflað einhliða um hraða ökutækja í umræddu slysi. Hún skipti ekki máli fyrir sakarefni þessa máls, en áhersla sé lögð á að hún hafi verið unnin eftir bestu vitund og hafi verið óskað endurskoðunar útreiknings þegar athugasemdir við forsendur hennar komu fram. 

Kærandi telur að í háttsemi kærða felist vinnubrögð sem ekkert eigi skylt við góða lögmannshætti. Beri lögmönnum bæði að efla rétt og hindra órétt og jafnframt að gæta heiðurs lögmannastéttarinnar. Vegi framganga kærða að heiðri lögmannastéttarinnar. Forsenda fyrir farsælu réttarfari sé að milli lögmanna ríki gagnkvæmt traust. Nái þetta traust til þess að menn fylgi ákvæðum siðareglnanna.

III.

Sem fyrr greinir hefur kærði ekki skilað nefndinni fullburða greinargerð vegna máls þessa, en þó hefur hann sent nefndinni nokkrar athugasemdir sínar vegna málsins auk gagna.

Kærði byggir í fyrsta lagi á því að það sé ekki rétt að umræddir hraðaútreikningar hafi ekki verið sendir matsmönnum. Þeir hafi verið falsaðir og hefði það mál e.t.v. átt að fara til lögreglu.

Kærði telur einnig að umrætt tilboð hafi falið í sér lægri bætur en tjónþoli átti rétt á. Eigi tryggingafélög ekki að geta þvingað tjónþola til að samþykkja slík tilboð án þess að gera fyrirvara. Leggur kærði fram leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins um rétt tjónþola til bótagreiðslu með fyrirvara þessu til stuðnings. Þá telur kærði að þar sem B hdl. starfi sem lögfræðingur á tjónadeild kæranda en ekki sem sjálfstætt starfandi lögmaður sé fyrir hendi vafi um að siðalögmál lögmanna gildi um hann.

Niðurstaða.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumannað réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 2. gr. siðareglna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. siðareglnanna er lögmanni óheimilt að leggja fram í dómi sáttatillögur gagnaðila, lagðar fram utan réttar, nema með samþykki hans.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að framlagning umrædds sáttaboðs í dómi feli í sér skýlaust brot á þessu síðastnefnda ákvæði. Ákvæðið nær til sáttatilboða gagnaðila, burtséð frá því hvort um er að ræða starfandi lögmenn eða ekki. Í tilefni af athugasemdum kærða er þó rétt að árétta að siðareglur lögmanna ná til allra starfandi lögmanna.

Nefndin telur að þær málsbætur sem kærði teflir fram varðandi framgöngu kæranda í umræddu bótauppgjörsmáli hafi ekki þýðingu við úrlausn málsins. Þótt kærði hafi verið ósáttur við hvernig kærandi stóð að gagnaöflun sinni vegna slyssins og ósáttur við afstöðu kæranda til hugmynda kærða um uppgjör með fyrirvörum, færir það honum ekki rétt til að brjóta siðareglurnar. Ekkert í fram lögðum leiðbeinandi tilmælum FME styður það að tryggingafélögum sé óheimilt að bjóða tjónþolum upp á að ganga frá fullnaðaruppgjörum með aðstoð lögmanns. Felst engin kúgun í því eins og sést best á því að kærði og umbjóðandi hans ákváðu að fallast ekki á þetta tilboð.

Fæst ekki séð að neinir lögvarðir hagsmunir hafi kallað á að kærði legði umrætt sáttatilboð fram. Reglu 2. mgr. 21. gr. er ætlað að tryggja að með því að leggja hugmyndir sínar að sáttum utan réttar í hendur lögmanna, geti menn treyst því að slíkar hugmyndir verði ekki taldar bindandi eða leiðbeinandi á síðari stigum fyrir dómi. Þannig styður reglan við það hlutverk lögmanna að aðstoða umbjóðendur við að ná samningum í krafti þess trausts sem bundið er við stöðu þeirra. Var brotið til þess fallið að grafa undan þessu trausti. Brotið beindist þannig að heiðri lögmannastéttarinnar og þeim hagsmunum sem 2. gr. siðareglnanna er ætlað að verja.

Brot kærða gegn ákvæðinu var sérlega alvarlegt í því ljósi að umrætt tilboð var sett fram með mjög skýrum fyrirvara um að það skyldi ekki lagt fram í dómi auk þess sem skorað hafði verið á kærða að láta ekki verða af brotinu við þingfestingu málsins. Verður að líta svo á að brotið hafi verið framið af skýrum ásetningi. Sætir kærði áminningu. Auk þess verður honum gert að bæta kæranda málskostnað hans fyrir nefndinni eins og í úrskurðarorði greinir og hefur þá verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, R hrl., sætir áminningu. Kærði greiði kæranda, A, kr.75.000 kr. í málskostnað.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Þ. Snævarr hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson