Mál 3 2014

 

Ár 2014, fimmtudaginn 19. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 3/2014:

A

gegn

R hdl.

 og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 19. febrúar 2014 erindi sóknaraðila, A, þar sem kvartað var yfir áskilinni þóknun varnaraðila, R hdl.

Óskað var eftir greinargerð frá varnaraðila um erindið þann 25. febrúar 2014. Þann 28. febrúar 2014 fór varnaraðili fram á frekari frest til að skila greinargerð. Frestur var veittur þann 3. mars 2014. Greinargerð varnaraðila barst þann 15. apríl 2014. Sóknaraðila var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerðina þann 22. apríl 2014. Athugasemdir bárust ekki frá sóknaraðila.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Þann 5. desember 2013 setti sóknaraðili sig í samband við varnaraðila vegna tveggja mála sem hún óskaði eftir aðstoð varnaraðila við að leysa úr. Annars vegar mál vegna margháttaðra galla á fasteign sem hún festi kaup á vorið 2013 og hins vegar hélt sóknaraðili því fram að fasteignasalinn sem seldi fasteignina hafi valdið henni tjóni með athöfnum sínum og athafnaleysi. Ekki liggur fyrir að samið hafi verið um gjaldtöku vegna verksins.

Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa í fyrsta samtali, þann 5. desember 2013, lýst málsatvikum í stuttu máli og kvartað sáran yfir því að fyrri lögmaður hennar hafi verið með málið í langan tíma, frá því í júní og að ekkert hafi gerst þann tíma. Sama dag ræddi varnaraðili við lögmanninn sem samþykkti að varnaraðili fengi gögn málsins afhent. Varnaraðili skráði ekki tíma vegna þessarar vinnu í þágu sóknaraðila.

Þann 9. desember 2013 hafði varnaraðili aftur samband við fyrri lögmann sóknaraðila. Fékk hún senda tölvupósta og gögn sem hún las yfir í einn klukkutíma, skv. tímaskýrslu.

Varnaraðili kveður miklar annir hafa verið hjá sér síðustu vikurnar fyrir jól og áramót. Væntanlega hafi hún tekið fram við sóknaraðila að mál hennar yrðu skoðuð eins fljótt og auðið væri og myndi hún hafa samband við hana eftir að hafa skoðað þau. Sóknaraðili sendi tölvupóst til varnaraðila með frekari gögnum þann 12. desember 2013 og óskaði eftir fundi sem ákveðinn var mánudaginn 16. desember. Varnaraðili skráði ekki tíma vegna þessara tölvupóstsamskipta við sóknaraðila.

Þann 16. desember fór varnaraðili yfir og las móttekin gögn og skráði 0,5 klst. í tímaskýrslu vegna þessa. Á fundinn sama dag mætti sóknaraðili með frekari gögn, m.a. varðandi fasteignasöluna, lánaskjöl og skuldabréfaviðskipti vegna kaupanna. Skráði varnaraðili 1 klst. í tímaskýrslu vegna fundarins.

Þann 18. desember sendi sóknaraðili varnaraðila aftur tölvupóst með spurningum er m.a. vörðuðu það sem rætt var um á fundinum og svaraði varnaraðili samdægurs. Tilkynnti varnaraðili að það þyrfti að afla frekari gagna, þar sem seljandi fasteignarinnar hefði sjálfur fengið afslátt af kaupverði sem nam lokagreiðslu skv. kaupsamningi, vegna margvíslegra galla og að varnaraðili ætti eftir að fá staðfest hver lokagreiðsla var. Þá kemur einnig fram að varnaraðili hafi kynnt sér byggingasögu hússins sem hafi gefið tilefni til þess að afla frekari gagna. Tilkynnti varnaraðili sóknaraðila að þegar þessi gögn lægju fyrir myndi staðan á málinu verða tekin. Þessi tölvupóstsamskipti voru ekki skráð í tímaskráningu lögmanns.

Þann 20. desember fór varnaraðili í frekari gagnaöflun og rannsóknarvinnu. Skráði hún í tímaskráningu 1,5 klst. vegna þess. Varnaraðili komst að því að seljandi fasteignarinnar naut aðstoðar lögmanns sjálfur þegar hann keypti fasteignina. Hafði seljandi fengið afslátt vegna margvíslegra galla á grundvelli matsgerðar. Benti lögmaðurinn á að fasteignasalan ætti væntanlega eintak af matsgerðinni.

Varnaraðili kveðst hafa kannað lauslega skjöl sem sóknaraðili afhenti á fundinum 16. desember vegna þess álitamáls hvort fasteignasali hafi gert mistök í starfi. Gögn málsins bentu hins vegar til þess að umboðsmaður sóknaraðila við samningsgerðina hafi átt sök á því hvernig málin þróuðust. Varnaraðili hafði einnig samband við banka sem útbjó skuldabréf vegna sölunnar. Varnaraðili gerði sóknaraðila grein fyrir framangreindu áliti. Símtöl við banka voru ekki skráð í tímaskýrslu.

Lögmannsstofa varnaraðila var lokuð 23. og 24. desember, á milli jóla og nýárs og fyrstu tvo dagana í janúar 2014. Varnaraðili kveðst hafa komið í stutta stund á skrifstofuna til þess að vinna í bókhaldi og fleiru en ætlunin hafi hvorki verið að svara póstum né síma. Sóknaraðili hringdi og kvaðst hafa fengið gögn frá byggingarfulltrúa sem hún áframsendi á varnaraðila. Sóknaraðili kom einnig á lögmannsstofu varnaraðila, án þess að eiga pantaðan tíma. Varnaraðili ræddi um stund við sóknaraðila og gerði henni grein fyrir því að farið yrði í málið eins fljótt og unnt væri en ekkert myndi gerast yfir jól og áramót, því mikið væri um frí þessa daga. Varnaraðili kveðst hafa ítrekað að mikilvæg gögn vantaði í málið, sem væri matsskýrsla sem seljandi hafi sjálfur látið gera um galla á fasteigninni.  Þann 23. desember 2013 skráði varnaraðili 0,5 klst. í tímaskýrslu vegna símtals, tölvupósts til sóknaraðila, yfirlestur gagna v/gólfhita og móttöku á svari með gögnum byggingarfulltrúa.

Varnaraðili var stutt á skrifstofu sinn þann 30. desember. Vann hún þá í máli sóknaraðila þar sem hún óskaði þess að málið yrði tekið fyrir sem fyrst. Var þá ítrekaður tölvupóstur á fasteignasöluna sem kynni að hafa gögn undir höndum sem skiptu miklu máli fyrir kröfu sóknaraðila. Skráði varnaraðili 0,25 klst. í tímaskráningu vegna ítrekunar á tölvupósti á T á fasteignasölunni S vegna matsgerðar fyrri eigenda. Þar sem ekkert svar barst reyndi varnaraðili að ná í fasteignasalann í síma eftir áramótin en án árangurs.

Sóknaraðili kom aftur á skrifstofu varnaraðila í janúar 2014, án þess að hafa pantað tíma. Varnaraðili kveðst hafa reynt að útskýra fyrir sóknaraðila hvernig lægi í málunum, að fasteignagallamál væru flókin og tímafrek, að hún væri að sinna fleiri málum og að það væri ekkert vit í öðru en að fá afrit af matsskýrslunni til þess að staðreyna hvort umræddir gallar væru enn til staðar eða hvort þeir hefðu verið lagfærðir. Ákveðið var að sóknaraðili kæmi á fund til varnaraðila þann 20. janúar til að fara yfir stöðu málsins og hvað framundan væri. Umræddur fundur var ekki skráður í tímaskýrslu varnaraðila.

Þann 16. janúar barst varnaraðila tölvupóstur frá sóknaraðila þar sem hún tilkynnti að hún hefði ákveðið að taka málið annað og óskaði eftir að fá gögn málsins afhent fyrir hádegi næsta dag. Varnaraðili tilkynnti sóknaraðila sama dag að gögnin yrðu afhent þegar meðfylgjandi reikningur hefði verið greiddur. Fyrir liggur reikningur nr. 0000147 vegna vinnu í máli gegn seljendum fasteignarinnar, Reykjavík, 4,75 klst., einingaverð kr. 18.900, upphæð kr. 89.775. Samtals var reikningurinn að fjárhæð kr. 112.668 með vsk. Samkvæmt tímaskýrslu var einingaverð kr. 22.000.

Að kvöldi 16. janúar greiddi sóknaraðili reikninginn athugasemdalaust. Þann 17. janúar tilkynnti varnaraðili sóknaraðila að greiðslan væri móttekin og gögnin væru tilbúin til afhendingar í afgreiðslunni.

II.

Sóknaraðili krefst endurgreiðslu á a.m.k. kr. 66.000. Sóknaraðili telur varnaraðila hafa rukkað sig um of háa þóknun.

Sóknaraðili kveðst hafa rætt lauslega við varnaraðila í síma þann 9. desember 2013. Svo hafi hún hitt hana þann 16. desember til að fara yfir málið. Þann 23. desember kveðst sóknaraðili hafa komist að því hjá Reykjavíkurborg að húsið hafi ekki farið í lokaúttekt og hafi hún þá hringt í varnaraðila og tilkynnt henni það. Síðan hafi hún ekki heyrt frá varnaraðila fyrr en 16. janúar en fari þá til hennar til að sjá hvað hafi gerst. Varnaraðili hafi þá enn sagst vera að bíða eftir svari við tölvupósti frá 20. desember til fasteignasölunnar sem selt hafi húsið árið 2009, þar sem hún kalli eftir matsskýrslu um húsið. Hún hafi tekið það fram að hún hafi ekki enn athugað á dómavefinn hvort skýrsluna væri þar að finna.

Sóknaraðila kveðst mislíka framangreindur seinagangur á málinu. Hafi hún sent tölvupóst samdægurs, þ.e. 16. janúar, og sagt varnaraðila upp. Hafi henni þá verið sendur reikningur um hæl upp á kr. 112.668 og sagt að gögnin yrðu ekki afhent nema hún borgaði þá upphæð fyrst.

Sóknaraðili bendir á að á reikningnum megi sjá sundurliðun á kostnaðinum sem hún sé ósátt við. Bendir sóknaraðili á að þann 16. desember segist varnaraðili lesa gögn málsins í 50 mínútur en samt hafi henni láðst að sjá misfellur sem varði byggingarstig hússins sem sjá megi á kaupsamningspappírum. Húsið hafi verið sagt á 7 stigi en það sé á stigi 4.

Vísar sóknaraðili til þess að þann 20 desember hafi varnaraðili sent tölvupóst á byggingarfulltrúa í 1,25 mínútur. Samt hafi varnaraðili ekki komist að því að húsið sé án lokaúttektar. Þá kveðist varnaraðili hafa rætt við lögmann seljanda í 0,25 mínútur. Sóknaraðili kveðst ekki hafa heyrt af því samtali og hafi ekki verið tjáð hvað þeim hafi farið á milli.

Sóknaraðili bendir á að þann 30. desember hafi verið ítrekaður tölvupóstur á fasteignasölu í 25 mínútur. Telur sóknaraðili það langan tíma til að endursenda tölvupóst.

Sóknaraðili telur framangreind atriði vera oftalin, sem geri um 3 klst. Bæði hafi verið um losaraleg vinnubrögð að ræða og ofreiknun vinnutíma. Málið hafi legið á borði sóknaraðila í sex vikur án þess að nokkuð af viti hafi komið fram sem setji málið í nokkurn farveg.

Sóknaraðili kveðst hafa greitt reikninginn um leið þar sem hún hafi viljað koma málinu til einhvers sem myndi taka það föstum tökum. Málið hafi strax farið í alvöru meðferð hjá þeim lögmanni sem sé með það nú.

III.

Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði vísað frá en til vara að kröfu sóknaraðila um endurgreiðslu á a.m.k. 66.000,- verði hafnað.

Varnaraðili byggir á því að hún hafi í störfum sínum ekki sýnt af sér háttsemi sem kunni að stríða gegn lögum eða siðareglum LMFÍ. Sé því þvert á móti haldið fram að varnaraðili hafi á allan hátt hagað störfum sínum í samræmi við lög, góða lögmannshætti og siðareglur lögmanna með hagsmuni sóknaraðila að leiðarljósi. Jafnframt sé byggt á því að þóknun fyrir störf í þágu sóknaraðila séu ekki úr hófi fram né vinnutímar oftaldir.

Varnaraðili telur  að réttast væri að vísa kvörtun sóknaraðila frá úrskurðarnefnd lögmanna. Sé byggt á því að kröfugerð sóknaraðila sé svo vanreifuð að ekki sé hægt að átta sig á því hvaða háttsemi kærðu það sé sem kunni að stríða gegn lögum eða siðareglum lögmanna, hvort þóknun sé of há, lítill árangur af vinnu eða oftaldir skráðir tímar sem farið hafi í vinnuna. Jafnframt beri að hafa í huga að sóknaraðili hafi greitt útgefinn reikning athugasemda- og fyrirvaralaust. Hún hafi ekki gert kröfu um að reikningurinn yrði lækkaður né farið fram á afslátt af reikningsfjárhæðinni. Sé því ekki hægt að líta svo á að um ágreining sé að ræða á milli lögmanns og umbjóðanda hans um þóknun eða rétt til endurgjalds fyrir störf lögmannsins eða um fjárhæð endurgjaldsins, þar sem sóknaraðili hafi snúið sér beint til úrskurðarnefndar lögmanna án þess að kvarta við kærðu.

Varnaraðili telur óumdeilt og fyrir liggi að sóknaraðili hafi leitað til hennar og óskað eftir þjónustu lögmanns. Sé því haldið fram að varnaraðili hafi í alla staði sýnt af sér góða lögmannshætti og unnið af heilindum og samviskusemi í þágu sóknaraðila með hennar bestu hagsmuni í huga. Varnaraðili hafi skráð unna tíma í þágu sóknaraðila í vinnuskýrslu vegna vinnunnar og hafi tímaskýrslan fylgt með reikningi varnaraðila. Því sé haldið fram að gögn málsins beri með sér að í raun hafi varnaraðili unnið fleiri tíma í þágu sóknaraðila og þannig halli frekar á varnaraðila í vantöldum vinnutímum í þágu sóknaraðila. Sóknaraðili hafi ekkert lagt fram í málinu sem sýni eða sanni að skráðar vinnustundir hafi ekki verið unnar eða séu oftaldar eða gert líklegt að svo sé.

Varnaraðili byggir á því að ekki sé ágreiningur um uppsett tímagjald hennar, sem sé kr. 18.900,- auk virðisaukaskatts. Hafi hún lækkað almennt tímagjald sem sé kr. 22.000,- auk virðisaukaskatts, eins og komi fram á tímaskýrslu.

Varnaraðili telur rökstuðnings sóknaraðila fyrir kröfu sinni ósannar, ósmekklegar og ómaklegar fullyrðingar um meint losaraleg vinnubrögð, að varnaraðila hafi láðst að lesa rétt úr gögnum málsins, seinagangur sem sóknaraðila mislíki og að málið hafi legið á borðum varnaraðila í sex vikur án þess að nokkuð af viti hafi komið fram. Varnaraðili mótmælir þessum fullyrðingum sem röngum og ósönnuðum. Ekkert sé athugavert við málshraða og vinnubrögð lögmanns, sem hafi tilkynnt sóknaraðila 19. desember, að staða málsins yrði tekin þegar nauðsynleg gögn lægju fyrir í málinu. Sóknaraðili hafi hins vegar sýnt strax af sér mikinn óhemjugang og hafi sýnt því lítinn skilning að ekki væri hægt að leysa strax úr málum hennar sem sé afar óraunhæft þegar um fasteignagallamál sé að ræða.

Varnaraðili heldur því fram að sóknaraðili geti kennt sjálfri sér og eigin óþolinmæði um það að vinna varnaraðila hafi nýst henni lítið sem ekkert. Með því að ákveða að leita til þriðja lögmannsins með mál sín hafi sóknaraðili sjálf valdið sér tjóni með því að vinna sem varnaraðili hafi innt af hendi nýttist ekki áfram. Varnaraðili hafi aldrei gefið sóknaraðila ábyrgðaryfirlýsingu um að árangur næðist eða að ná ákveðinni niðurstöðu og síst innan ákveðinna tímamarka. Varnaraðili hafi ekki valdið sóknaraðila réttarspjöllum.

Varnaraðili tekur eftirfarandi sérstaklega fram vegna augljóss misskilnings í rökstuðningi sóknaraðila. Í samtali við sóknaraðila hafi varnaraðili tekið fram, þegar útskýrt var mikilvægi þess að fá afrit af matsgerð seljanda fasteignarinnar, að varnaraðila væri ekki kunnugt um hvort þetta væri matsskýrsla sem seljandi hefði aflað sjálfur eða hvort þetta væri matsskýrsla frá dómkvöddum matsmanni. Varnaraðili hafi aldrei talað um að til stæði að athuga á dómavef hvort þessa skýrslu væri að finna þar enda sé sennilega öllum lögmönnum ljóst að matsskýrslur sé ekki þar að finna, en sóknaraðili virðist alls ekki hafa hlustað á útskýringar varnaraðila.

Varnaraðili bendir á að í rökstuðningi vísi sóknaraðili til þess að varnaraðili hafi lesið gögn í 50 mínútur þann 16. desember 2013 án þess að gera sér grein fyrir því að byggingarstig hússins sé á stigi 4 en ekki byggingastigi 7. Megi helst lesa út úr þessu að sóknaraðili telji að ekki eigi að greiða fyrir vinnu lögmanns hafi honum missést misfella, en sóknaraðili geti ekki með nokkru móti vitað hvernig varnaraðili hafi lesið úr byggingarsögu hússins.

Varnaraðili bendir á að sóknaraðili telji að tímaskráningareiningin 0,50 séu 50 mínútur, 1,25 séu ein klukkustund og 25 mínútur og að 0,25 standi fyrir 25 mínútur. Hefði sóknaraðili skoðað tímaskráningarskýrslu betur hefði hún áttað sig á því að ekki hafi verið um mínútur að ræða heldur brot úr klukkustund. Niðurstaðan úr samlagningu tímaskráningar hefði verið allt önnur ef um væri að ræða skráningu í mínútum. Samkvæmt taxta lögmannsstofu varnaraðila sé lágmarkseining sem rukkað sé fyrir 0,25 úr klukkustund eða 15 mínútur. Með tölvupósti 17. janúar, hafi sóknaraðili fullyrt að eina vinnan sem varnaraðili hafi innt af hendi væri að skrifa tvo tölvupósta, en varnaraðili hafi svarað samdægurs með rökstuðningi fyrir hinu gagnstæða, sem sóknaraðili hafi aldrei svarað. Ekkert mál hefði verið að leiðrétta þennan misskilning sóknaraðila hefði hún sett út á tímaskráninguna við varnaraðila.

Varnaraðili telur að kvörtun sóknaraðila sé bersýnilega ósanngjörn, tilefnislaus og augljóslega ekki á neinum rökum reist.

Um málskostnaðarkröfu vísar varnaraðili til 3. mgr. 15. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna og 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Töluverð vinna hafi farið í greinargerðarskrif varnaraðila sem taki tíma frá annarri vinnu og þar með tekjuöflun lögmannsstofunnar. Þá sé einnig töluverður efniskostnaður við ljósritun gagna málsins í sex eintökum.

Niðurstaða.

I.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998.

II.

Ráða má af málatilbúnaði sóknaraðila að hún geri athugasemdir við fjölda skráðra tíma í tímaskráningarskýrslu varnaraðila. Hún hefur hins vegar ekki gert athugasemdir við tímagjald varnaraðila. Með vísan til þess að ráðið verður af málatilbúnaði sóknaraðila hvers er krafist verður ekki fallist á kröfu varnaraðila um að vísa skuli málinu frá.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að málinu hafi verið fylgt eftir með fullnægjandi hætti af varnaraðila. Af fyrirliggjandi gögnum og tímaskráningu varnaraðila virðist hún ekki hafa skráð og innheimt fyrir alla þá tíma sem unnir voru í þágu sóknaraðila. Með vísan til þessa og að tímafjöldi virðist hæfilegur eru ekki efni til að gera athugasemdir við tímaskráningu varnaraðila og áskilda þóknun hennar.

Ber því að hafna kröfu sóknaraðila um endurgreiðslu að fjárhæð kr. 66.000.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilið endurgjald varnaraðila, R hdl., vegna starfa hennar í þágu sóknaraðila, A, telst hæfilegt í skilningi 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson