Mál 4 2014

Ár 2014, fimmtudaginn 28. ágúst, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 4/2014:

A

gegn

R hdl.

 og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 7. mars 2014 erindi sóknaraðila, A, þar sem kvartað var yfir áskilinni þóknun varnaraðila, R hdl.

Óskað var eftir greinargerð frá varnaraðila um erindið þann 14. mars 2014. Greinargerð varnaraðila barst þann 3. apríl 2014. Sóknaraðila var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerðina þann 10. apríl 2014. Athugasemdir sóknaraðila bárust þann 10. maí 2014. Varnaraðila var gefinn kostur á að gera athugasemdir við bréf sóknaraðila, þann 20. maí 2014. Athugasemdir varnaraðila bárust þann 10. júní 2014.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Þann 24. maí 2013 kom sóknaraðili ásamt eiginmanni sínum, B, á fund til varnaraðila. Óskuðu þau eftir því að varnaraðili myndi aðstoða þau vegna skuldavanda þeirra. Höfðu þau þá fengið samþykki umboðsmanns skuldara til að leita greiðsluaðlögunar.

Ekki liggur fyrir samningur um gjaldtöku vegna verksins en varnaraðili kveðst hafa gefið sóknaraðila og B fast verð, kr. 350.000 að viðbættum virðisaukaskatti vegna ráðgjafar um mál þeirra í greiðsluaðlögunarferlinu.

Þann 27. maí 2013 greiddi sóknaraðili lögmannstofunni T ehf. kr. 439.250. Fyrir liggur reikningur, dags. 30. september 2013, að fjárhæð kr. 439.250 m/vsk, sem sendur var sóknaraðila, vegna lögfræðiþjónustu, magn 1, einingaverð kr. 350.000.

Í framhaldi fundar aðila kallaði varnaraðili eftir gögnum frá kröfuhöfum sóknaraðila og B, vann greiðsluáætlun vegna fjárhagsstöðu þeirra og átti í samskiptum við umsjónarmann með greiðsluaðlöguninni. Samkvæmt tímaskýrslu sem varnaraðili lagði fram með athugasemdum sínum sem bárust þann 10. júní 2014, vann hann samtals 23 klst. að máli sóknaraðila.

Þann 11. júní 2013 mælti umsjónarmaður með greiðsluaðlögun gegn því að greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna og nauðasamningur kæmist á.

Þann 30. september 2013 barst varnaraðila tölvupóstur frá S hdl. þess efnis að sóknaraðili hefði ásamt bræðrum sínum falið honum að fara yfir mál sem sneri að [tilteknum eignum]. Í tengslum við mál sóknaraðila hefði hún greitt stofu varnaraðila innborgun kr. 439.250 sem fyrirframgreiðslu. S hdl. bað varnaraðila um að ganga frá þeim kostnaði/þóknun vegna vinnu sem innt hefði verið af hendi og greiða eftirstöðvar inn á tilgreindan vörslureikning ásamt því að senda honum afrit af reikningi vegna málsins. Varnaraðili svaraði samdægurs og kvaðst hafa unnið að máli hjá umboðsmanni skuldara. Það sem greitt hefði verið til stofunnar væri fyrir ráðgjöf sem unnin hefði verið og sóknaraðili væri skuldlaus við stofuna.

 

II.

Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili verði úrskurðaður til að endurgreiða sér að fullu greidda þóknun, en til vara lægri fjárhæð að mati nefndarinnar.

Sóknaraðili kveður varnaraðila ekki hafa unnið vinnu sína að hennar mati. Hafi hún borgað honum kr. 439.250 þann 27. maí 2013 en engin breyting hafi orðið á högum hennar og eiginmanns hennar. Telur hún að þau hefðu allt eins getað farið í gegnum málið án lögfræðings. Sóknaraðili kveður afar erfitt hafa verið að ná í varnaraðila þrátt fyrir að hafa skilið eftir skilaboð um að hann hefði samband. Allan þann tíma sem hann hafi unnið fyrir þau hafi hún fengið frá honum þrjá tölvupósta, alla í kringum eina setningu.

Sóknaraðili kveðst ekki hafa fengið að sjá gjaldskrá varnaraðila á fundi með honum í maí. Hafi varnaraðili tekið fram að fyrsti tími hjá honum væri frír. Næstu samskipti við varnaraðila hafi verið í gegnum síma og hafi verið þess hljóðandi að hann hafi ætlað að gefa sóknaraðila góðan afslátt af kostnaðinum. Venjulega tæki hann um kr. 600.000 en sóknaraðili þyrfti einungis að greiða kr. 439.250.

Sóknaraðili kveðst síðar meir hafa fengið að vita að allur peningurinn sem hún hafi greitt varnaraðila hafi farið í þá litlu „ráðgjöf" sem hann hafi veitt og hafi ekkert gagnast. Telur sóknaraðili að í rauninni hafi hún verið verr stödd eftir að hafa átt í viðskiptum við varnaraðila heldur en hún hafi verið áður. Í lok september 2013 hafi hún fengið sér nýjan lögmann. Tíminn sem liðið hafði hafi valdið henni tjóni þar sem ekkert hafi verið gert í þessa fimm mánuði. Þá fyrst hafi varnaraðili gefið út reikning og sagt að sóknaraðili eigi ekkert inni hjá honum. Í ljós hafi komið að hann hafi í raun ekkert unnið í málinu frá upphafi.

 

III.

Varnaraðili kveðst hafa upplýst sóknaraðila og eiginmann hennar á fundi þann 24. maí 2013 að það myndi kosta þau kr. 350.000 plús virðisaukaskatt að fá hann sem lögmann að málinu. Skuldamál séu þess eðlis að það taki mikinn tíma að setja sig inn í þau og kalla eftir gögnum til þess að öruggt sé að lögmaður fái rétta mynd af málinu. Varnaraðili kveðst hafa upplýst sóknaraðila um að kallað yrði eftir gögnum svo að lögmaður fengi upplýsingar um helstu skuldir og gæti áttað sig á því hvernig fjárhagsstaða væri.

Varnaraðili kveður þau hjónin hafa verið vel upplýst um að fast verð hafi verið gefið fyrir þjónustuna. Lögmaður hafi unnið greiðsluáætlun til að hafa góða yfirsýn yfir fjármál hjónanna. Tímagjald lögmanns sé 17.800 plús virðisaukaskattur. Hafi varnaraðili ráðgert að málið tæki um 20 vinnustundir, en m.a. þurfi að kalla eftir nauðsynlegum upplýsingum, vinna greiðslumat, kynna sér stöðu málsins, samskipti við umsjónarmann og kröfuhafa o.fl. Ef tekinn væri sá tími sem farið hafi í vinnu fyrir þau hjónin þá sé ljóst að vinnan væri þeim hjónum dýrari heldur en það fasta verð sem gefið hafi verið. Það sé því ljóst að það fasta verð sem gefið hafi verið hafi verið sanngjarnt og umbjóðendur vel upplýstir um kostnað enda þjónustan greidd fyrirfram.

Varnaraðili kveður mikilvægt að kalla eftir stöðu á öllum helstu skuldbindingum til að meta hvernig fjárhagsstaða sé en það sé forsenda þess að geta veitt ráðgjöf um skuldamál. Varnaraðili hafi því fengið ritara til að kalla eftir upplýsingum um stöðu skulda og í framhaldinu hafi hann unnið greiðsluáætlun til að fá sem besta mynd af skuldavandanum.

Varnaraðili vísar til þess að eftir að skuldastaða sóknaraðila og eiginmanns hennar hafi verið metin hafi hann upplýst þau um rétt þeirra til að selja frá sér eða leigja hluta af því landi sem sóknaraðili eigi með bræðrum sínum. Þeirri hugmynd hafi þau tekið vel og hafi ætlað að skoða þann möguleika að leigja frá sér hluta af landinu, enda um ágætt land að ræða sem hafi m.a. upp á laxveiði að bjóða.

Varnaraðili hafnar því alfarið að hafa ekki unnið vinnu sína. Hann hafi lagt sig fram um að gæta hagsmuna sóknaraðila og eiginmanns hennar. Varnaraðili bendir á að sóknaraðili telji að hún hefði allt eins getað farið í gegnum málið án lögfræðings. Það sé rétt að fyrirfram verði aldrei séð hversu vel gangi að ná fram þeim markmiðum sem umbjóðendur setji sér. Það sé sá veruleiki sem allir búi við. Varnaraðili kveðst ávallt reyna að leggja sig sem best fram við að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna. Því sé ranglega haldið fram að erfitt hafi verið að ná tali af honum. Varnaraðili bendir á að í rökstuðningi fyrir kvörtun sé sagt að hann hafi sagt að venjulega kosti sambærileg mál um kr. 600.000. Hið rétta sé að kostnaður mála fari alfarið eftir umfangi verks.

Varnaraðili kveðst hafa reynt að halda sóknaraðila og eiginmanni hennar upplýstum um málið hverju sinni með símtölum og tölvupóstum. Einnig hafi verið haldnir tveir fundir með þeim til að fara yfir málið.

 

IV.

Sóknaraðili kom á framfæri athugasemdum sínum við greinargerð varnaraðila.

Sóknaraðila sýnist að vinna varnaraðila hafi falist í að lesa yfir tölvupósta frá umboðsmanni skuldara, sem sóknaraðili hafi einnig fengið senda, samþykkja þá og gera greiðsluáætlun sem hljómi nákvæmlega eins og sú sem búið hafi verið að gera hjá umboðsmanni skuldara. Hafi það tekið 20 klst. þá finnist sóknaraðila það ansi mikið. Sóknaraðili bendir á að varnaraðili segist hafa fengið samþykki hennar til að láta reyna á nauðasamninga. Það sé hins vegar ekki rétt. Hann hafi aldrei sagt sóknaraðila frá þessu og hafi hún sent honum tölvupóst með fyrirspurn um hvort það væri rétt skilið hjá henni að setja ætti allt á nauðungaruppboð.

Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðili hafi hringt í hana fyrir u.þ.b. þremur vikum til að bjóða henni sátt. Hafi hann byrjað að smjaðra fyrir henni, hafi sagt þau vera svo gott fólk og fleira í þeim dúr. Kveðst sóknaraðili hafa verið frekar þurr á manninn og gefið lítið út á það sem hann hafi sagt. Hafi þau farið að ræða svör hans til úrskurðarnefndarinnar og hafi hann viðurkennt að hafa farið með rangt mál um að fundirnir hefðu verið tveir heldur hafi einungis verið einn fundur, sem hafi verið frír. Hafi hann sagt að það skipti ekki öllu máli hvað stæði í svörum hans til nefndarinnar. Sóknaraðili telur það hljóma eins og honum sé alveg sama þótt hann fari með rangt mál og sé tilbúinn til að skálda eitthvað til að hann líti betur út.

Sóknaraðili kveður varnaraðila hafa beðið þau hjónin um að ræða þessa sátt sem hann hafi boðið, sem falist hafi í því að einhver afsláttur yrði gefinn. Hafi hún ekki fengið að vita hversu hár sá afsláttur yrði. Varnaraðili hafi sagst ætla að hringja aftur daginn eftir en hafi heyrt á sóknaraðila að hún væri ekki alveg sátt með það svo hann hafi sagst ætla að hringja aftur á mánudegi, sem hann hafi svo ekki gert.

 

V.

Varnaraðili kom á framfæri athugasemdum sínum við seinni athugasemdir sóknaraðila.

Varnaraðili undirstrikar mikilvægi þess að kallað sé eftir stöðu lána og mat lagt á fjármál skuldara. Í máli þessu hafi verið mjög langt síðan umsókn hafi verið lögð inn til umboðsmanns skuldara en þau hjónin hafi fengið greiðsluskjól þann 20. október 2010. Þegar svo langt sé síðan samantekt á skuldum hafi verið gerð sé alveg ljóst að skuldastaða geti hafa breyst frá þeim tíma t.d. með því að einhver kröfuhafi hafi á þessum tíma afskrifað skuld. Það hafi því verið rétt hjá varnaraðila að kalla eftir skuldastöðu lána og leggja mat á greiðslugetu.

Varnaraðili bendir á að ekki komi fram í kvörtun sóknaraðila hvort B, maki hennar hafi einhverja athugasemd við það gjald sem samið hafi verið um og greitt til stofunnar, en það hafi verið vinna fyrir bæði sóknaraðila og B.

Varnaraðili kveðst almennt leggja mikið upp úr því að upplýsa umbjóðendur sem best hver kostnaður við tiltekið verk muni vera. Sú leið að bjóða fast verð fyrir tiltekna og afmarkaða þjónustu sé til þess fallin að kaupandi á þjónustu sé vel upplýstur um verð þjónustunnar.

Sóknaraðili og eiginmaður hennar hafi því verið vel upplýst um að greitt væri fast verð fyrir ráðgjöf í máli þeirra við greiðsluaðlögunarferlið. Enda hafi þau greitt umsamda fjárhæð fyrirfram. Varnaraðili kveðst hafa haft samband við sóknaraðila og hafi boðið henni að koma á fund og leita sátta vegna umræddrar kvörtunar. Varnaraðila þyki miður hvernig sóknaraðili lýsi því samtali. Eðlilega vilji lögmaður ná sáttum við umbjóðanda sinn eins og góðum lögmanni sæmi. Varnaraðili hafi sagt í þessu samtali að það hvort sóknaraðili og eiginmaður hennar hafi komið á fund einu sinni eða oftar skipti ekki máli þar sem gefið hafi verið fast verð fyrir þjónustuna en þau hjónin hafi tvisvar komið á fund við lögmann.

Varnaraðili bendir á að sóknaraðili taki fram að hún hafi ekki verið upplýst um að ráðgjöf varnaraðila um að nýta rétt lögum samkvæmt um að reynt yrði á nauðasamning og greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, sbr. 18.-20. gr. laga nr. 101/2010. Varnaraðili undirstrikar að það sé ekki rétt. Hið rétta sé að sóknaraðili hafi verið upplýst um þetta, sbr. samtal þar um og tölvupóstur sem sendur hafi verið sóknaraðila áður en bréf hafi farið á umsjónarmann. Jafnframt megi benda á að í þessu sambandi nefni umsjónarmaður í bréfi sínu frá 11. júní 2013, að það hafi verið að höfðu samráði við lögmann skuldara að sóknaraðili og B óskuðu eftir nauðasamningi og greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna.

Varnaraðili telur að af skrifum sóknaraðila megi ráða að hún átti sig ekki á því að hann sé að nýta sér rétt sóknaraðila og eiginmanns hennar lögum samkvæmt til að láta reyna sem best á að leysa skuldamál þeirra. Varnaraðili tekur fram að með því að benda á þetta, sé ekki verið með neinum hætti að gagnrýna sóknaraðila enda séu mál sem þessi oft snúin. Varnaraðili bendir á að sóknaraðili hafi ekki tekið fram í kvörtun sinni hvort hún hafi verið mótfallin þessari ráðstöfun, enda sé ráðstöfunin gerð með það að marki að það gæti orðið sóknaraðila og eiginmanni hennar til hagsbóta.

Varnaraðili byggir á því að séu þeir tímar sem unnið hafi verið að málinu skoðaðir þá sé ljóst að mun meiri tími hafi farið í vinnu á málinu heldur en hið fasta verð gefi mynd af. Hafi á tímaskýrslu ekki verið tekið tillit til allra þeirra símafunda sem fram hafi farið á milli varnaraðila og sóknaraðila.

Varnaraðili telur ljóst að ef innheimt hefði verið eftir tímaskráningarkerfi lögmannsstofunnar þá hefði kostnaður við málið orðið mun hærri heldur en það verð sem gefið hafi verið upp sem fast verð og sóknaraðili og eiginmaður hennar hafi samþykkt og greitt lögmannsstofunni.

 

Niðurstaða.

I.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Í 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna kemur fram að lögmanni ber að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknun er reiknuð.

Samkvæmt 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup skal neytandi greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er, hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því kostur var að koma því á framfæri.

 

II.

Óumdeilt er að varnaraðili tók að sér verkefni fyrir sóknaraðila og eiginmann hennar. Verður ekki gerð athugasemd við að hún komi fram fyrir hönd þeirra hjóna í máli þessu.

Í greinargerð með kvörtun sinni lýsir sóknaraðili samningum um gjaldtökuna þannig, að varnaraðili hafi, eftir fyrsta fund þeirra, rætt við þau hjónin í síma. Hafi varnaraðili þá tilkynnt þeim að hann ætlaði að gefa þeim góðan afslátt af kostnaðinum, venjulega tæki hann um 600.000 kr. en þau þyrftu bara að borga 439.250, sem sóknaraðili hafi greitt 27. maí 2013. Verður í ljósi þessarar frásagnar sóknaraðila að líta svo á að það sé óumdeilt í máli þessu að samið hafi verið um þessa greiðslu sem fasta greiðslu sem unnin yrði fyrir verkefnið. Verkefnið hafi falið í sér hagsmunagæslu fyrir þau hjónin við framkvæmd greiðsluaðlögunar, sem þá þegar hafi verið í gangi hjá umboðsmanni skuldara.

Enda þótt heppilegra hefði verið að varnaraðili hefði gert skriflegan samning um þetta fyrirkomulag, þykir mega byggja á þessari lýsingu á samkomulagi aðila í ljósi lýsinga sóknaraðila.

Þarf hér að taka afstöðu til þess hvort ofangreint samkomulag um gjaldtöku hafi falið í sér loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns, sbr. fyrrgreinda 2. mgr. 24. greinar lögmannalaga.

Athugasemdir sóknaraðila vegna þess reiknings sem gefinn var út á grundvelli þessa samkomulagt lúta fyrst og fremst að því að sóknaraðili telur hæpið að vinna að baki reikningnum sé að umfangi í samræmi við fjárhæð hans.

Er hér til þess að líta að sóknaraðili féllst sjálf á að greiða þá upphæð sem hér um ræðir. Ekki verður talið að fyrirfram gert samkomulag um fasta fjárhæð fyrir þessa þjónustu feli í sér ósanngjarnt endurgjald, en óvíst var í byrjun hvert umfangið yrði og bar varnaraðili hallann af þeim vafa samkvæmt ofangreindri lýsingu. Þá hefur varnaraðili lagt fram gögn sem sýna að í framhaldi af því að hann tók verkið að sér, aflaði hann nýrra gagna um stöður lána, fylgdist með gangi samninganna o.fl. Þótt greiðsluaðlögunarmáli sóknaraðila lyki þannig að umsjónarmaður legðist gegn því að samningur yrði gerður, án þess að efni stæðu til þess að þeirri niðurstöðu væri hnekkt, gat sú niðurstaða ekki hróflað við því samkomulagi sem gert hafði verið.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu sóknaraðila, A, um að varnaraðili, R hdl.,  endurgreiði henni greidda þóknun,  er hafnað.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

 

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson