Mál 6 2014

Ár 2014, föstudaginn 10. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 6/2014:

A

gegn

R hrl.

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 10. mars 2014 erindi sóknaraðila, A, þar sem kvartað var yfir áskilinni þóknun varnaraðila, R hrl.

Óskað var eftir greinargerð frá varnaraðila um erindið þann 27. mars 2014. Greinargerð varnaraðila barst þann 16. apríl 2014. Sóknaraðila var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerðina þann 22. apríl 2014. Athugasemdir sóknaraðila bárust þann 9. maí 2014. Varnaraðila var gefinn kostur á að gera athugasemdir við bréf sóknaraðila, þann 16. maí 2014. Athugasemdir varnaraðila bárust þann 3. júní 2014.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Þann 11. júlí 2007 seldi sóknaraðili tvö einkahlutafélög sín, T ehf. og U ehf. til einkahlutafélagsins V ehf. Samruni fór fram hjá V ehf. og T ehf. og var nafni hins síðarnefnda félags haldið.

V ehf. vanefndi kaupsamninginn og greiddi einungis kaupverðið að hluta til sóknaraðila áður en félagið, T ehf., var tekið til gjaldþrotaskipta.

Þann 2. apríl 2008 leitaði sóknaraðili til varnaraðila vegna vanefndanna. Samkvæmt yfirlýsingu dagsettri þann dag fól sóknaraðili varnaraðila að innheimta hjá V ehf. og/eða eigendum félagsins persónulega, skuld vegna kaupa félagsins á hlutafé í T ehf. og U ehf. skv. kaupsamningi dags. 10. júlí 2007. Ekki liggur fyrir að samið hafi verið um þóknun vegna verksins.

Varnaraðili hóf innheimtuaðgerðir í kjölfarið með ritun innheimtubréfs, auk beitingu annarra réttarúrræða í kjölfarið til að freista fullnustu.

Á árinu 2010 var félagið T ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og var S hrl. skipaður skiptastjóri.

Þann 8. júní 2010 lýsti varnaraðili fjórum kröfum í þrotabú T ehf. fyrir hönd sóknaraðila og mætti á tvo skiptafundi. Skiptum er ekki lokið.

Þegar ljóst var að T ehf. voru komnar í gjaldþrotaskiptameðferð taldi sóknaraðili að útséð væri að lítið fengist upp í kröfur hans miðað við stöðu mála. Ákvað hann þá í samráði við varnaraðila að freista þess að fara í skaðabótamál vegna fjártjóns síns gegn D ehf. o.fl. Stefndu í þeim málaferlum höfðu allir komið með einum eða öðrum hætti að sölunni svo og samningagerðinni vegna hennar.

Þann 11. júlí 2011 gerðu sóknaraðili og varnaraðili með sér samkomulag um lögmannsþóknun fyrir mál sóknaraðila gegn Dehf. og fleirum. Í samkomulaginu fólst að lögmannsþóknun fyrir málið í héraðsdómi og Hæstarétti skyldi vera, ef mál tapaðist kr. 2.000.000 (vsk. innifalinn). Útlagður kostnaður fyrir héraðsdómi og Hæstarétti skyldi greiðast af sóknaraðila. Kæmi til matsmáls undir rekstri málsins skyldi það rætt sérstaklega. Næðu kröfur fram að ganga með dómi eða samkomulagi, hvort sem væri fyrir héraðsdómi eða Hæstarétti, skyldi lögmaður setja fram kröfur skv. gjaldskrá stofunnar eins og um munnlega flutt mál væri að ræða. Sóknaraðili skyldi greiða auk tildæmds málskostnaðar aukaþóknun 7,5% af innheimtri kröfu.

Niðurstaðan í dómi Hæstaréttar varð sú að skaðabætur voru dæmdar óskipt úr hendi D ehf. E ehf., B og F. Sóknaraðila var þó gert að bera þriðjung tjóns síns sjálfur. Þá var sóknaraðila dæmdar kr. 4.000.000 í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Þann 15. nóvember 2013 greiddust heildarbætur frá dómþolum til varnaraðila, samtals kr. 168.021.535. Varnaraðili greiddi sóknaraðila þann 19. nóvember 2013 kr. 140.000.000 en hélt eftir kr. 28.021.535 upp í þóknun.

Þann 17. desember 2013 barst sóknaraðila yfirlit yfir vinnu lögmannstofunnar G vegna vinnu fyrir sóknaraðila vegna máls gegn V ehf./T ehf. og máls gegn D o.fl. Samtals var fjárhæð vegna beggja málanna kr. 34.268.174.

Fyrir liggur tímaskráning vegna mála sóknaraðila hjá varnaraðila en skráningin virðist einkum vera vegna innheimtunnar hjá seljendunum en ekki vegna bótamálsins gegn D, nema þá að litlu leyti. Á árinu 2008 vann varnaraðili 48 klst. í þágu sóknaraðila samkvæmt tímaskránni, á árinu 2009 83 klst. á árinu 2010 44 klst. og á árinu 2012 15 klst. Alls vann varnaraðili 190 klst. í þágu sóknaraðila samkvæmt tímaskránni. Á hinn bóginn virðast reikningar sóknaraðila ekki beinlínis byggja á þessari tímaskráningu heldur annars vegar á fyrrgreindum samningi um endurgjald og hins vegar á gjaldskrá lögmannsstofunnar fyrir innheimtu.

Þann 31. janúar 2014 gaf varnaraðili út reikning nr. 1638 til sóknaraðila vegna meðferðar máls fyrir héraðsdómi og Hæstarétti Íslands gegn D o.fl., að fjárhæð kr. 15.488.866 án vsk. eða kr. 19.438.527 m/vsk. Reikningurinn byggði á samkomulagi, dags. 11. júlí 2011. Reikningurinn var greiddur af inneign á skrifstofunni.

Þann 3. janúar 2014 leitaði sóknaraðili til K ehf. og L ehf. vegna útreiknings á kröfu á hendur D ehf. o.fl. Undirritaði hann umboð v. útreiknings varnaraðila á kröfum og málskostnaði.

Í framhaldi af útgáfu framangreinds reiknings áttu sér stað tölvupóstsamskipti á milli umboðsmanns sóknaraðila og lögmannstofunnar G um samkomulag vegna þóknunarinnar. Ekki tókst samkomulag með aðilum.

Þann 14. apríl 2014 gaf varnaraðili út reikning nr. 1721 til sóknaraðila vegna innheimtu á V ehf., að fjárhæð kr. 11.312.339 án vsk. eða kr. 14.196.985 m/vsk.

 

II.

Sóknaraðili krefst þess að reikningur varnaraðila að fjárhæð kr. 19.438.537, útg. 31. janúar 2014, verði stórlega lækkaður að mati úrskurðarnefndarinnar. Sóknaraðili krefst þess að aðrar kröfur varnaraðila að fjárhæð 11.415.191 og 3.388.500, samtals kr. 14.803.691 verði aðallega felldar niður en til vara stórlega lækkaðar. Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðili verði úrskurðaður til að greiða sóknaraðila málskostnað vegna undirbúnings og reksturs máls þessa fyrir úrskurðarnefndinni að mati hennar.

Sóknaraðili vísar kröfugerðinni og kvörtuninni til stuðnings til 26. og 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Sóknaraðili mótmælir eindregið kröfum sóknaraðila um endurgjald fyrir störf í sína þágu. Sóknaraðili mótmælir sérstaklega þeirri neitun varnaraðila að leiðrétta eða viðurkenna innágreiðslur. Sóknaraðili mótmælir endurgjaldinu sem varnaraðili áskilur sér skv. „samkomulaginu". Þar segi að sóknaraðili skuli greiða auk tildæmds málskostnaðar aukaþóknun 7,5% af innheimtri kröfu. Sóknaraðili telur ákvæðið um þessa aukaþóknun fela í sér verulega ósanngjarnan áskilnað um endurgjald vegna starfa varnaraðila í sína þágu og sé endurgjaldið m.a. andstætt ákvæði 2. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Sóknaraðili vísar til ákvæða III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sérstaklega 1. mgr. 36. gr. Sóknaraðili telur ákvæðið eiga við í sínu tilfelli þar sem reiknað endurgjald varnaraðila sé ekki í samræmi við góðar og gildar venjur meðal lögmanna og hljóti því að falla undir það sem kallast ósanngjarnir samningsskilmálar. Þá telur sóknaraðili að hafa beri til hliðsjónar sambærileg efni í neytendarétti per analogiam.

Sóknaraðili vísar einnig til vankunnáttu sinnar og einfeldi í gjaldskrármálum innan lögmannastéttarinnar og vísar um þetta til 31. gr. laga nr. 7/1936. Varnaraðili hafi hagnýtt sér þessa veikleika í samningssambandinu og þá yfirburðarstöðu sem hann hafi þar borið.

Sóknaraðili vísar til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 7/1998. Varnaraðili hafi ekki fylgt ákvæðinu heldur komið því inn hjá sóknaraðila að þetta væri algengt og venjulegt áskilið endurgjald meðal lögmanna til viðbótar við dæmdan málskostnað. Sóknaraðili telur sig nú vita að svo sé ekki reyndin.

Sóknaraðili bendir á að varnaraðili krefji sig um kr. 11.415.191 í fyrri þætti kröfugerðar sinnar. Sé hún byggð á vinnuþáttum gegn V ehf./T ehf. og vísar varnaraðili um þetta til vinnuframlags skv. fjórum kröfulýsingum, öllum dags. 8. júní 2010. Sóknaraðili telur að ætla megi að krafan skv. þessum lið sé byggð á einhverjum hagsmunatengdum innheimtutaxta, sem ekki liggi fyrir hver sé og hafi aldrei verið kynntur sóknaraðila. Sé kröfu þessari alfarið mótmælt enda sé hún í algjörri mótsögn við vinnuframlag varnaraðila varðandi ritun og undirbúning kröfulýsinganna.

Sóknaraðili bendir á að samkvæmt skiptastjóra þrotabús T ehf., sé vinna varnaraðila í málum vegna þrotabúsins óveruleg. Um sé að ræða ritun fjögurra kröfulýsinga, sem allar séu ritaðar sama dag, einnig mæting á tvo skiptafundi auk þess sem nokkur símtöl hafi átt sér stað.

Sóknaraðili telur kröfuna samkvæmt þessum lið með öllu óásættanlega og í raun ósæmandi. Telur hann að með kröfunni hafi verið brotið gegn ákvæðum lögmannalaga, samningalaga og neytendaréttar.

Sóknaraðili krefst þess að krafan í þessum þætti verði alfarið felld niður, enda hafi að hans mati þessi vinna verið tekin inn í heildarmálskostnaðinn í skaðabótamálinu fyrir héraði og Hæstarétti. Að öðrum kosti verði krafan lækkuð verulega og þá byggð á áætluðu sanngjörnu tímagjaldi, sem gilt hafi um löglærða fulltrúa varnaraðila á þeim tíma sem vinnan hafi verið innt af hendi.

Sóknaraðili bendir á að varnaraðili krefji sig um kr. 3.388.500. Þar byggi hann kröfuna á tímavinnu alls 120 klst. á tímagjaldinu kr. 22.500 auk virðisaukaskatts. Bendir sóknaraðili á að tímafjöldinn hafi hækkað í alls 190, samkvæmt yfirliti, sem lagt var fram eftir að umboðsmaður sóknaraðila hafi óskað frekari skýringa á kröfugerð varnaraðila. Hvort alvara hafi fylgt máli eða ekki varðandi framlagningu þessa yfirlits liggi ekki fyrir, en á skjalinu megi sjá skráða tíma í hinum mismunandi vinnuþáttum. Sóknaraðili hafi hins vegar metið þetta svo að varnaraðili hafi með framlagningu þessa skjals viljað sýna fram á það í verki að hann hafi í raun sýnt sanngirni í tímaskráningunni og ekki viljað rukka um alla tímana sem hann hafi sagst hafa unnið.

Sóknaraðili mótmælir alfarið þessari viðbótarkröfu, hyggist varnaraðili halda henni til streitu, sem rangri og að hún verði alfarið felld niður. Til vara sem allt of hárri og bendir sóknaraðili á að flestir ef ekki allir af þeim tímum sem þarna séu tilgreindir falli í raun undir dæmdan málskostnað í skaðabótamálinu. Þá sé áhugavert að skoða þessa tímaskráningu með hliðsjón af kröfum skv. fyrri þætti liðs 2 eða hagsmunatengdu kröfugerðinni vegna kröfulýsinganna í þrotabú T ehf. hinn 8. júlí 2008. Þar virðist ýmislegt endurrukkað.

Sóknaraðili kveður forsendu þess að leitað hafi verið til varnaraðila hafi verið sú að varnaraðili hafi verið þekktur sem gamalreyndur Hæstaréttarlögmaður og honum væri því treystandi til að vinna verkefnið fagmannlega, fljótt og vel með lágmarks tilkostnaði. Komið hafi á daginn að varnaraðili hafi látið syni sína annast að mestu allan málatilbúnað og rekstur mála, m.a. rekstur skaðabótamálsins. Hafi þetta alls ekki verið það sem um hafi verið samið auk þess sem aldrei hafi verið leitað samþykkis sóknaraðila fyrir slíku framsali vinnunnar. Varnaraðili hafi tekið þessar ákvarðanir einn og sér og án samráðs við sóknaraðila. Sé þetta andstætt 4. mgr. 21. gr. laga nr. 77/1998 og beri því að skoða allar kröfur varnaraðila í því ljósi til lækkunar.

Sóknaraðili telur að varnaraðili hafi með framangreindri háttsemi brotið trúnað auk þess að ganga á svig við forsendur málshefjanda um vinnuréttarsamband þeirra. Hér sé um forsendubrest að ræða, sem beri að meta gagnaðila í óhag, þegar verðlagning hans á þjónustunni sé metin.

Sóknaraðili vill vekja athygli nefndarinnar á tölvupósti. Þar láti H í veðri vaka að sóknaraðili eigi í vændum meiri fjárhæð en þessar kr. 140.000.000 sem honum hafi verið sendar inn á reikning hans. Í tölvupóstinum segi: „við (gagnaðili) göngum frá uppgjöri síðar, þegar búið er að reikna að [svo] út."

Sóknaraðili telur skjóta skökku við að varnaraðili skuli nú vera að reyna að krefja sig um umtalsvert hærri fjárhæð en þarna hafi verið gert ráð fyrir og eftir að búið hafi verið að greiða honum kr. 140.000.000. Allt sé þetta í mótsögn hvað við annað og varnaraðila til vansæmdar.

 

III.

Varnaraðili hafnar ásökunum sóknaraðila og krefst að kröfum sóknaraðila fyrir úrskurðarnefnd verði hrundið. Þess er krafist að staðfest verði greiðsluskylda sóknaraðila eftir reikningi nr. 1638, dags. 3. janúar 2014 að fjárhæð kr. 19.438.537 og reikningi nr. 1721, dags. 14. apríl 2014, að fjárhæð kr. 14.196.985, sem og að reikningarnir séu aðfararhæfir. Ennfremur er þess krafist að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað með álagi fyrir nefndinni að mati nefndarinnar, og að sá málskostnaður verði aðfararhæfur.

Varnaraðili telur málatilbúnað sóknaraðila óskýran og að erfitt sé að átta sig á því hverjar kröfur séu hafðar í frammi við úrskurðarnefnd. Ekki verði annað ráðið en að klögunarefnið sé helst endurgjald sem lögmannsstofan hafi áskilið sér og samið um fyrir störf í þágu sóknaraðila. Varnaraðili, R hrl., hafi enga reikninga gert og sé því kröfum ranglega beint að honum. Hins vegar séu aðfinnslur gerðar við störf varnaraðila R hrl. Verði ekki annað ráðið af efni þeirra og framsetningu að þær aðfinnslur eigi að leiða til lækkunar eða niðurfellingar á endurgjaldi til lögmannstofunnar G. Vísist því hér eftir til lögmannstofunnar G sem varnaraðila.

Varnaraðili tekur fram að skv. skriflegu umboði, dags. 3. janúar 2014, sem sóknaraðili hafi lagt fyrir nefndina þá hafi I hdl., f.h. lögmannstofunnar K ehf. og N f.h. LögmannsstofuL ehf., umboð úr hendi sóknaraðila. Umboðinu hafi verið haldið leyndu fyrir varnaraðila.

Varnaraðili telur að málatilbúnaður sóknaraðila sé þeim lögmanni sem á haldi, til minnkunar. Lögmaður fari fram með staðhæfingar gegn betri vitund og framfylgi hótunum sem hafðar hafi verið í frammi af hálfu M fyrrverandi lögmanni. Málsatvikalýsingu sóknaraðila sé með öllu hafnað, enda engum gögnum studd og ósönn. Hún snerti á málum sem varði ágreining um endurgjald lítið sem ekki neitt og virðist einasta til þess fallin að sverta virðingu varnaraðila sem hafi unnið störf sín af heilindum fyrir sóknaraðila, með góðum árangri og ánægjulegri niðurstöðu fyrir sóknaraðila. Þá sé umfjöllun um aðra lögmenn og eigendur stofunnar lítilsvirðandi og verk þeirra smættuð. Þá skuli þess getið að H hdl. og J hdl. séu eigendur en ekki fulltrúar og að einungis J hafi rekið skaðabótamálið sem prófmál fyrir Hæstarétti. Sóknaraðili hafi verið vel upplýstur um hverjir hafi sótt málin fyrir hann enda hafi hann sótt aðalmeðferðir sjálfur og verið í miklum samskiptum við lögmenn stofunnar. Á engum tímapunkti hafi hann gert athugasemdir við þá lögmenn. Sé þessi málatilbúnaður síðar til kominn. Telur varnaraðili rétt að nefndin taki til sjálfstæðrar skoðunar hvort víta beri lögmann sóknaraðila fyrir framsetningu, enda honum skylt að sýna öðrum lögmönnum fulla virðingu í ræðu og riti.

Varnaraðili bendir á að þau einu gögn sem sóknaraðili styðji málatilbúnað sinn við séu langir tölvupóstar sem M hafi sent lögmannstofunni G. Þeir tölvupóstar hafi auðsjáanlega átt að styðja við sjálfstæða málsatvikalýsingu á síðari stigum, enda ljóst að ætlunin hafi frá öndverðu verið að skapa ágreining. M hafi ekki komið fram af heilindum, heldur hafi hann beitt blekkingum. Þannig hafi hann fullyrt að sóknaraðili vildi fyrir alla muni halda áfram samstarfi við stofuna. Engu að síður hafi hann haldið skriflegu umboð leyndu sem þó hafi kveðið á um að M skyldi tilkynna um uppsögn sóknaraðila á viðskiptasambandi við stofuna.

Varnaraðili vísar til þess að vegna vinnu fyrir sóknaraðila hafi verið gerðir tveir reikningar, nr. 1638, dags. 31. janúar 2014 og nr. 1721, dags. 14. apríl 2014. Beðið hafi verið með útgáfu síðari reiknings þar til eftir að klögunargerð þessi hafi verið sett fram, svo hægt væri að taka tillit til þeirra atriða sem sóknaraðili hefði fram að færa, enda hafi þau aldrei verið kynnt varnaraðila með greinargóðum hætti. Því skuli haldið til haga að áskilið endurgjald varnaraðila af vinnu fyrir sóknaraðila við þessi tvö mál, um sex ára skeið, hafi numið samtals 9,38% af heildarkröfu sóknaraðila. Slíkt endurgjald geti ekki talist óhóflegt.

Varnaraðili byggir á því að til úrlausnar fyrir nefndinni sé ágreiningur um fjárhæð endurgjalds en ekki önnur atriði. Hvað greiðslur sem sóknaraðili ætli nú að eigi að vera innborganir á málinu þurfi ekki að fjalla sérstaklega um og geti hann haft uppi sjónarmið um greiðslur þegar reikningur verði innheimtur. Þó skuli þess sérstaklega getið að í tillögu að uppgjöri hafi vantað innborgun að fjárhæð kr. 500.000 í september 2013, sem eftir hafi átt að bókfæra í viðskiptamannakerfi varnaraðila og leiðréttist það hér með.

Varnaraðili vísar til þess að þau drög sem send hafi verið sóknaraðila til lúkningar málum hafi m.a. byggt á því sem aðilum hafi samist um munnlega. Umboðsmenn sóknaraðila hafi hins vegar aldrei sett fram tillögur sem hafi getað orðið grundvöllur uppgjörs og hafi ekki fengist til að setja einu tillögur sínar fram með skriflegum hætti þótt þeir reyndu að reka málatilbúnað að öllu öðru leyti í tölvupóstsamskiptum. Varnaraðili kveður M hafa ítrekað óskað eftir því við varnaraðila að beðið yrði með útgáfu reikninga, sem þó ætti að vera forsenda þess að semja um uppgjör, enda hægt að lækka útgefna reikninga og veita afslátt. Á fundi 29. janúar 2014 hafi M boðið að málum yrði lokið með þeim hætti að reikningur yrði gerður fyrir kr. 4.000.000 og síðan yrðu eftirstöðvar greiddar undir borðið, þannig að sóknaraðili nyti þess ávinnings að greiða ekki virðisaukaskatt af þjónustunni. Þeirri málaleitan hafi verið hafnað. Hafi þetta verið eina tillaga sem frá umboðsmönnum sóknaraðila hafi komið og um þetta geti lögmenn varnaraðila vitnað.

Varnaraðili byggir á því að reikningur nr. 1638 sé fyrir rekstur og flutning skaðabótamáls gegn D ehf. o.fl. fyrir héraði og fyrir Hæstarétti. Málið hafi verið rekið á grundvelli sérfræðiábyrgðar og hafi verið umfangsmikið. Reikningurinn byggi á samkomulagi sem sóknaraðili og varnaraðili hafi gert með sér og R hrl. hafi undirritað f.h. varnaraðila. Hafi samkomulagið tekið skýrum orðum til reksturs dómsmáls gegn D ehf. o.fl. og hafi átt við um bæði dómstig. Samkomulagið hafi verið gert að kröfu sóknaraðila enda hafi það tryggt sóknaraðila umtalsvert betri kjör en fengist hefði ef reikningur hefði verið gerður á grundvelli gjaldskrár, hvort heldur sem mál hefði unnist eða tapast. Það hafi verið stuttort, skýrt og afdráttarlaust um efni sitt og sé bindandi samningur. Samkomulagið hafi kveðið á um fasta greiðslu ef dómsmál tapaðist að fjárhæð kr. 2.000.000, auk útlagðs kostnaðar. Þannig sé ljóst að hagsmunir sóknaraðila hafi verið vel tryggðir og varnaraðili hafi borið áhættu af lágum verklaunum fyrir vinnu sína. Við gerð reiknings hafi varnaraðili tekið á sig hallann af eigin sök sóknaraðila, sem leitt hafi til lækkunar skaðabóta fyrir Hæstarétti en sóknaraðila hafi í dómi Hæstaréttar verið gert að bera tjón sitt að þriðjungi sjálfur. Einfeldningsrök sóknaraðila séu því harla sérstæð og léttvæg í ljósi þess að Hæstiréttur hafi áður fjallað um gerhæfi hans og kunnáttu af viðskiptum. Endurgjald til varnaraðila hafi lækkað vegna eigin sakar sóknaraðila um þriðjung.

Varnaraðili bendir á að síðari reikningurinn byggi á gjaldskrá lögmannstofunnar S og taki mið af ýtrustu kröfum sem sóknaraðili hafi getað byggt á fyrir skiptastjóra að þrotabúi V ehf. (síðar T ehf.). Sóknaraðili hafi á öllum tímum samþykkt í verki þá fjárhæð og krafið aðra um bætur sér til handa vegna þeirra. Sóknaraðili hafi þó lengstan beðið varnaraðila að bíða með að krefja hann greiðslna og sú staðreynd hafi orðið til þess að dómstólar hafi ekki dæmt honum málskostnaðarkröfur að fullu. Reikningurinn taki mið af fjórum kröfulýsingum sem samþykktar hafi verið af skiptastjóra og gerðar hafi verið fyrir sóknaraðila með samþykki hans. Innheimtuþóknun skv. kröfulýsingu merkt A hafi verið samtals kr. 3.653.577, málskostnaður skv. kröfulýsingu merkt B hafi verið samtals kr. 522.500, málskostnaður skv. kröfulýsingu merkt C hafi verið samtals kr. 522.500 og innheimtuþóknun skv. kröfulýsingu merkt D hafi verið samtals kr. 3.200.000. Málskostnaður skv. kröfulýsingu B og C hafi byggt á dómsorðum og hafi málskostnaður verið svo lágt dæmdur þar sem sóknaraðila höfðu ekki verið gerðir reikningar. Samkvæmt tímayfirliti sem liggi fyrir nefndinni og varnaraðili sendi umboðsmönnum sóknaraðila til upplýsinga sé ljóst að dæmdur málskostnaður hafi verið langt um lægri en útseldir tímar, sem sóknaraðili sé greiðsluskyldur eftir. Varnaraðili hafi þó takmarkað tímafjölda við 120 útselda tíma í uppgjörstillögum sínum. Það skjóti skökku við að sóknaraðili skuli fyrst nú hafa athugasemdir við innheimtuþóknun varnaraðila, enda hafi hennar verið krafist af þrotabúi og síðar sem hluta af skaðabótakröfu sóknaraðila í dómsmáli á hendur þriðja aðila, þ.e. D ehf. o.fl. á grundvelli almennu sakarreglunnar og sérfræðiábyrgðar. Sóknaraðili hafi ítrekað samþykkt kröfurnar í verki frammi fyrir opinberum sýslunaraðilum og dómstólum. Byggi fjárhæðin á fjórum kröfulýsingum sem síðar hafi orðið hluti stefnufjárhæðar í Hæstaréttarmáli. Stefnufjárhæðin hafi numið [u.þ.b. 213.000.000 kr.] og þar af hafi kr. 8.071.571 verið kostnaður við að halda fram kröfu gagnvart V ehf. skv. fjórum kröfulýsingum merktum A-D. Dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, hafi verið krafist frá 14. apríl 2010 og fram til greiðsludags, þ.e. þegar hann hafi fyrst krafið D ehf. o.fl. um greiðslu vegna þess málskostnaðar, samtals kr. 10.808.486. Að halda því fram nú að sóknaraðila hafi ekki verið kunnugt um málskostnaðarskuld vegna innheimtu eða að hann hafi ekki vitað um gjaldskrá stofunnar séu léttvæg rök og marklítil.

Varnaraðili telur málatilbúnað sóknaraðila um að hann hafi ekki átt að greiða fyrir þjónustu  jafn fjarstæðukenndan og hann sé ósannur. Málatilbúnaður sóknaraðila gangi út á það að hann hafi krafið aðra um greiðslu málskostnaðar, án þess að stofna til hans, þ.e. að hann hafi orðið fyrir fjártjóni. Slíkur málatilbúnaður lýsi refsiverðu hugarfari, þ.e. refsiverðum auðgunarsjónarmiðum, eftir ákvæðum almennra hegningarlaga. Að sóknaraðili krefjist greiðslu málskostnaðar fyrir skiptastjóra og sem hluta af skaðabótum um dómsmáli, án þess að vera greiðsluskyldur sé refsivert að lögum og geti sóknaraðili ekki haldið slíku fram.

Varnaraðili bendir á að dómur Hæstaréttar breyti ekki eða skerði rétt sóknaraðila til að hafa uppi kröfur á þrotabú V ehf. / T ehf. Þar sé sóknaraðili eini samþykkti kröfuhafinn og skiptum á búi sé enn ekki lokið, þannig að fyrirsjáanlegt sé að sóknaraðili eigi eftir að sækja úthlutun í búið. Þeir lögmenn sem sæki málið gegn varnaraðila og hafi tekið til þess umboð í janúar 2014, sem leynt hafi verið fyrir varnaraðila, hafi síðan þá haldið á hagsmunum sóknaraðila gagnvart skiptastjóra. Fari slík háttsemi í bága við siðareglur lögmanna og telji varnaraðili tilefni til að úrskurðarnefnd taki það til sjálfstæðrar skoðunar.

Varnaraðili vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sé lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf. Þar á meðal geti lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fái greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Varnaraðili telur sig hafa fylgt framangreindum lagaákvæðum í einu og öllu og hafi á engan hátt brotið gegn ákvæðum laga né heldur siðareglum lögmanna. Árangurstengt endurgjald það sem varnaraðili hafi áskilið sér fyrir vinnu sína yfir sex ára tímabil sé kr. 26.801.205 án vsk. eða sem nemi 9,38% af heildarkröfu sóknaraðila. Heildarkrafa hans hafi staðið í kr. 285.647.195 skv. síðustu útreikningum í nóvember 2013. Athugist að um ræði útreikninga á skaðabótakröfu einvörðungu en ekki kröfu í þrotabúið, þannig að hlutfallstalan sé í raun lægri en 9,38%, enda aðrir vaxtaútreikninga sem um kröfulýsingar gildi. Þess sé krafist að sóknaraðila verði gert að greiða fyrir vinnu sem unnin hafi verið í hans þágu.

Varnaraðili krefst þess að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað með álagi vegna þessa. Ásakanir sóknaraðila séu með öllu tilhæfulausar og settar fram gegn betri vitund. Þá séu ávirðingar hafðar uppi í málinu sem sé óþolandi að sitja undir, m.a. er varði misneytingu. Af þeim sökum sé full ástæða til þess að gera sóknaraðila að greiða varnaraðila málskostnað með álagi.

 

IV.

Sóknaraðili kom á framfæri athugasemdum sínum við greinargerð varnaraðila.

Sóknaraðili mótmælir öllum kröfum varnaraðila sem fram koma í greinargerð hans, auk rökstuðnings og ekki hvað síst áskilnaði um málskostnað ásamt álagi úr hendi sóknaraðila.

Sóknaraðili bendir á að varnaraðili haldi því fram að „G lögmannsstofa" eigi að teljast varnaraðili í kvörtunarmáli þessu og kröfum sé ranglega beint gegn R hrl. Þessu sé alfarið mótmælt af hálfu sóknaraðila og færi hann því til stuðnings eftirfarandi röksemdir.

Sóknaraðili bendir á að hann hafi leitað til R hrl. hinn 2. ágúst 2008, en ekki til lögmannstofunnar G, eins og H hdl. haldi fram. Vísist um þetta m.a til yfirlýsingar, dags. 2. ágúst 2008, þar sem segi m.a. berum orðum að „R hrl. skal innheimta kröfuna með málsókn, ef því er að skipta". Sóknaraðili kveðst aldrei hafa átt nein lögskipti við hinn óskilgreinda aðila G lögmenn né heldur lögmannstofunnar S ehf., sé slíku haldið fram. Svo virðist skv. greinargerð og gögnum varnaraðila og staðhæfingum H að hér sé um tvo mismunandi aðila að ræða. Ljóst sé að S ehf. sé lögpersóna með kennitölu, en allt slíkt sé á huldu varðandi G og ekki hægt að geta sér til um hvort hér sé um að ræða raunverulega lögpersónu, sem hægt sé að telja sem forsvarsaðila í vörninni eða ekki.

Sóknaraðili vísar til þess að hafi það verið meining H að setja samasemmerki á milli G og S ehf. komi slíkt alls ekki fram í greinargerð hans. Ekki sé hægt að ætlast til þess að sóknaraðili giski á þetta né gefi sér það sem forsendu. Hver sem meining H sé varðandi þetta geti hvorki G eða S ehf. talist vera ígildi lögmanns eðli máls samkvæmt né borið réttindi og skyldu skv. lögum nr. 77/1998. Slíkar staðhæfingar eða skoðanir standist engan veginn enda án lagastoðar.

Sóknaraðili vísar til þess að lögmenn beri skv. lögum nr. 77/1998 ríkar skyldur. Séu þær lögum samkvæmt bundnar við persónu þeirra og þau réttindi sem staða þeirra veiti þeim. Rekstrarfélög þeirra eða nafngiftir á starfsstofum þeirra geti aldrei öðlast slíka réttarstöðu. Lög nr. 77/1998 kveði á um það hvernig með ágreiningsmál skuli fara á milli lögmanna og skjólstæðinga þeirra. Jafnframt að lögmenn skuli hafa með sér félag, Lögmannafélag Íslands. Rekstrarfélag lögmanns geti hvorki fengið þar aðild né öðlast réttindi innan vébanda þess. Til þess skorti lagaheimild.

Sóknaraðili bendir á að úrskurðarnefnd lögmanna fjalli um ágreining lögmanna og skjólstæðinga skv. ákvæðum laga nr. 77/1998. Aðeins störf og starfshættir lögmanna sjálfra komi þar til álita og úrskurða. Lögmenn geti ekki skorast undan ábyrgð sinni með því að vísa til rekstrarfélaga sinna sem geranda þegar reyni á ábyrgð í starfi þeirra svo og réttindi og skyldur.

Sóknaraðili telur að öllu framangreindu virtu að kröfum hans sé réttilega beint gegn R hrl. og að úrskurðarnefnd lögmanna beri skylda til að taka þær til úrskurðar andstætt kröfu varnaraðila.

Sóknaraðili leyfir sér að leiðrétta þá fjárhæð sem hann tilgreini í B lið kröfugerðar sinnar og færir nú niður til samræmis við fjárhæðina sem tilgreind sé á reikningi frá 14. apríl 2014.

Sóknaraðili mótmælir staðhæfingum varnaraðila um að málatilbúnaður hans sé óskýr. Þá kveðst sóknaraðili eiga erfitt með að skilja að erfitt hafi verið fyrir varnaraðila að átta sig á því hvaða kröfur sóknaraðili setji fram. Sóknaraðili telur þær ekki geta verið skýrari. Það sama eigi við um málatilbúnað hans allan. Allur snúist málatilbúnaðurinn um að sýna og sanna hina óhóflegu gjaldtöku sóknaraðila og krefjast lækkunar.

Sóknaraðili bendir á að H haldi því fram að varnaraðili hafi enga reikninga gert. Þessari staðhæfingu mótmælir sóknaraðili og telur hana fjarstæðukennda. Samkvæmt lögmannalögum sé lögmönnum heimilt að hafa rekstrarfélag um starfsemi sína, sbr. 3. og 4. mgr. 19. gr. laganna.

Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðili og samstarfsmenn hans hafi unnið þau verk sem varnaraðila hafi einum verið falið að taka að sér og annast. Á þessum verkum beri varnaraðili einn ábyrgð svo og þeirri reikningagerð sem leitt hafi af störfum hans. Það að reikningarnir hafi verið gefnir út í nafni rekstrarfélagsins S ehf. breyti engu þar um.

Sóknaraðili vísar til þess að hugvilla H um að umboðinu til núverandi lögmanns sóknaraðila hafi verið haldið leyndu fyrir varnaraðila sé gjörsamlega út í hött og vísist til föðurhúsanna. Varnaraðili hafi vitað af samstarfi M og lögmannanna I og N frá upphafi. Þá sé það almennt ekki venja að skriflegt umboð sé lagt fram við þreifingar til sátta utan réttar nema um það sé beðið sérstaklega sem ekki hafi verið gert.

Sóknaraðili bendir til marks um ósannsögli H á fyrsta tölvupóstinn sem sendur hafi verið varnaraðila þann 8. janúar 2014, þar sem tilkynnt hafi verið um hverjir hafi verið fengnir til að aðstoða sóknaraðila í málinu.

Lögmaður sóknaraðila mótmælir því sérstaklega að M hafi viðhaft hótanir í garð varnaraðila. Þegar tölvupóstar um samskipti hans og gagnaðila séu skoðaðir, megi sjá að M hafi lagt sig allan fram um að ná sáttum í málinu á kurteislegan og vinsamlegan hátt. Þessi aðdróttun H verði að teljast með öllu óviðeigandi og einnig sú sem beinist gegn lögmanni sóknaraðila varðandi málatilbúnaðinn.

Sóknaraðili mótmælir harðlega dylgjum H um að M hafi verið með sáttaboð um uppgjör þar sem greiðslur gengju til gagnaðila án virðisaukaskatts. Þá sé því jafnframt mótmælt að hann hafi ekki lagt fram tillögu til uppgjörs. Sú tillaga sem hann hafi lagt fram hafi reyndar ekki verið skrifleg heldur munnleg. Hún hafi verið sú að varnaraðili fengi í málskostnað fyrir störf sín í þágu sóknaraðila það sama og Hæstiréttur hafði dæmt úr hendi D ehf. o.fl., samtals kr. 4.000.000, en að frádregnum innborgunum sem sóknaraðili hafði greitt til varnaraðila, samtals að fjárhæð kr. 3.500.000. Hvar virðisaukaskattur gæti hafa komið inn í slíkt uppgjör sé sóknaraðila hulin ráðgáta. Hér snúist uppgjörið um að skila til baka peningum sem sóknaraðili telur sig eiga, ekki gagnaðili eða skattyfirvöld.

Sóknaraðili áréttar og staðfestir að M hafi verið heimilt að bjóða varnaraðila upp á samstarf um frekari störf í sína þágu, en einungis að því gefnu að sættir næðust. Engum blekkingum hafi verið beitt, hvorki um þetta né annað er varðað hafi samskiptin við varnaraðila. Varnaraðili hafi ætíð hafnað öllum tilraunum M til sátta og hafi aldrei verið reiðubúinn til að gefa neitt eftir af kröfum sínum.

Sóknaraðili ítrekar að samskipti hans við varnaraðila hafi verið mjög lítil meðan á þessum störfum varnaraðila hafi staðið og ekki í neinu samræmi við það sem H og/eða varnaraðili haldi fram. Helst hafi þau komið til þegar varnaraðili hafi kallað eftir innborgunum á málið. Varnaraðili hafi allan tímann stjórnað gangi mála einn og sér og án samráðs við sóknaraðila nema þegar komið hafi að málsókn gegn D ehf. o.fl. Þá hafi verið haldinn einn fundur þar sem aðalmálið hafi virst vera að ganga frá samkomulagi um þóknun. Einnig hafi verið haldinn stuttur fundur þegar tekin hafi verið ákvörðun um áfrýjun málsins. Sóknaraðili telur H falla í þá gryfju að reyna að mikla þá vinnu sem unnin hafi verið fyrir sóknaraðila á tímabilinu frá 2. apríl 2008 fram á seinni hluta árs 2013 til að reyna að réttlæta hina gífurlegu háu gjaldtöku.

Sóknaraðili telur að á H megi skilja að unnið hafi verið samfellt í málunum allan þennan tíma. Slíkt standist engan veginn þegar farið sé yfir framlögð gögn í málinu. Þar sjáist að unnið hafi verið með hléum auk þess sem oftar en ekki hafi verk tekið mun skemmri tíma en haldið sé fram. Aðeins í örfáum undantekningartilvikum hafi verið unnið mikið í verkefnum og þá við rekstur mála gegn D ehf. o.fl. fyrir héraði og Hæstarétti. Sú vinna sé innifalin í málskostnaðarákvörðun Hæstaréttar og því ekki grundvöllur fyrir frekari gjaldtöku utan hennar.

Sóknaraðili bendir á að sé samantekt yfir innheimtuaðgerðir gagnvart kaupendum vegna vanefnda skoðuð megi sjá að varnaraðili sé að vísa til sömu skjala og hann leggi fram í máli sóknaraðila gegn D ehf. o.fl. í héraði og Hæstarétti. Sé bersýnilegt að varnaraðili sé þarna að tvírukka fyrir sömu vinnuna. Yfirlit yfir skráða tíma vegna innheimtumáls gegn V ehf./T ehf. staðfesti þetta við samanburð en skjölin séu yfirlit yfir „meinta tímavinnu" í þágu sóknaraðila í innheimtmálum gegn V ehf. Síðan komi reikningurinn nr. 1721 frá 14. apríl 2014 byggður á hagsmunatengingu um sömu innheimtuna og algjörlega án þess að um það hafi nokkru sinni verið samið.

Sóknaraðili vísar til þess að þegar tímaskýrslur varnaraðila séu skoðaðar, megi sjá að varnaraðili segi þar að hann hafi eytt samtals 52 klst. í viðveru með málshefjanda, þ.e. á aðra viku miðað við vinnustundir í meðal vinnuviku, skv. almennum kjarasamningum. Þessu mótmælir sóknaraðili sem alröngu. Sóknaraðili segir tímafjöldann sem hann hafi eytt með gagnaðila í besta falli mega telja á fingrum beggja handa, að hámarki 10 klst.  Hins vegar hafi sóknaraðili í örfá skipti mætt sjálfviljugur í dóm og fylgst þar með gangi mála. Slíkt geti á engan hátt talist sjálfstæður grundvöllur tímaskráningar.

Sóknaraðili telur að það væri til að æra óstöðugan að fara ítarlega ofan í tímaskráninguna, svo yfirgengileg sé hún. Telur sóknaraðili þó óhjákvæmilegt að taka nokkur dæmi um þetta, sbr. t.d. 21. apríl 2008, bréf til L hjá D ehf. 2 klst. - stutt bréf og tölvupóstar eru venjulega skráð á stundarfjórðung, 27. maí 2008, greiðsluáskorun 3 klst. - fyrir reyndan Hæstaréttarlögmann eða ritara hans á tölvuöld gæti slík ritun talist taka að hámarki 0,5 klst., 4. maí 2009, kyrrsetningarbeiðni 6 klst. - hámark gæti verið 1 klst. o.fl.

Sóknaraðili bendir á máli sínu til stuðnings að í yfirliti yfir skráða tíma vegna innheimtumáls gegn V ehf./T ehf. sé greint frá því að unnið hafi verið samtals 10 klst. hinn 15. ágúst 2012 við gagnaöflun og gerð áfrýjunarstefnu. Einnig sé tilgreint í upptalningu fylgiskjala í niðurlagi greinargerðar H að afrit af gögnum v. innheimtumáls, sem lögð hafi verið fram í Hæstaréttarmáli sé fylgiskjal nr. 23. Þarna sé enn ein staðfestingin á samspili dæmds málskostnaðar í málum gegn D ehf. o.fl. annars vegar og innheimtumálum gegn V ehf. hins vegar, sbr. reikningur nr. 1721.

Sóknaraðili vísar til þess að reikningur nr. 1721 sé ekki byggður á tímaskráningunni heldur innheimtutaxta varnaraðila og/eða rekstrarfélags hans sem gilt hafi við útgáfu reikningsins. Ekkert liggi fyrir um það hvernig gjaldskráin hafi hljóðað þegar vinna hafi hafist í málum fyrir sóknaraðila, enda hafi gjaldskráin aldrei verið kynnt fyrir honum þar sem samkomulag hafi verið um að varnaraðili fengi þá þóknun eingöngu sem tækist að innheimta úr hendi skuldara. Sóknaraðili þyrfti engu að bæta þar við.

Sóknaraðili tekur fram að honum sé tjáð að gjaldtaka lögmanna miðist yfirleitt við þá gjaldskrá sem í gildi hafi verið þegar vinna hafi hafist eða umboð veitt. Gjaldskráin sem gilt hafi hjá varnaraðila á þeim tíma hafi ekki verið lögð fram til kynningar hvað varði sóknaraðila. Hljóti slíkt að teljast varnaraðila í óhag.

Sóknaraðili bendir á að varnaraðili hafi þurft að hætta við fullnustuaðgerðir á hendur V ehf. þegar félagið hafi farið í gjaldþrotaskiptameðferð. Byggir varnaraðili nú hina óhóflegu gjaldtöku sína hvað þennan þátt mála varði, á fjórum kröfulýsingum í bú félagsins, öllum dags. 8. júní 2010. Að mati sóknaraðila sé þessi viðmiðun með öllu óásættanleg og í engu samræmi við umfang verks.

Sóknaraðili telur að nauðsynlegt sé að úrskurðarnefndin fari gaumgæfilega ofan í saumana á gjaldtöku varnaraðila og ekki hvað síst í ljósi samspils mála gegn D ehf. o.fl. annars vegar og innheimtuaðgerða gegn V ehf. hins vegar og úrskurði um eðlilegt endurgjald fyrir störf varnaraðila í þágu sóknaraðila.

Sóknaraðili mótmælir staðhæfingu varnaraðila um að samkomulag hafi orðið á milli aðila á grundvelli draga um uppgjör. Drög þess hafi varnaraðili kynnt sóknaraðila í kjölfar dóms Hæstaréttar og eftir greiðslu skaðabótanna. Samkvæmt drögum þessum hafi heildarkröfur verið sagðar samtals kr. 24.738.880, fyrir utan virðisaukaskatt. Í drögunum hafi aðeins verið tekið tillit til tveggja innborgana á málið, samtals kr. 1.000.000 og hafi þessu verið mótmælt. Þar hafi einnig verið rukkað fyrir útlagðan kostnað þrátt fyrir að hann væri innifalinn í dæmdum málskostnaði, skv. dómi Hæstaréttar. Nú séu kröfur varnaraðila í heild sinni orðnar kr. 26.801.205 auk virðisaukaskatts og hafa því hækkað verulega frá ritun ofangreindra draga. Geti þetta ekki talist góð vinnubrögð.

Sóknaraðili vísar til þess að reikningur nr. 1638 hafi verið gerður á grundvelli „samkomulags" sem gert hafi verið 11. júlí 2011. Sóknaraðili mótmælir því sem röngu sem fram komi hjá H í greinargerð hans að samkomulagið hafi verið gert „að kröfu málshefjanda". Jafnframt sé mótmælt þeirri staðhæfingu H að samkomulagið hafi tryggt sóknaraðila „umtalsvert betri kjör, en fengist hefði, ef reikningur hefði verið gerður á grundvelli gjaldskrár." Slíkt staðhæfing sé með öllu ósönnuð og í engu samræmi við raunveruleikann.

Sóknaraðili telur að líta beri til þess við ákvörðun þóknunar til handa varnaraðila að mál hafi tapast að hluta. Málshefjandi hafi þurft að bera tjón af 1/3 af kröfu sinni. Sóknaraðili telur því að varnaraðili sé vel sæmdur af dæmdum málskostnaði, skv. ákvörðun Hæstaréttar og eigi ekki rétt á hærra endurgjaldi fyrir störf sín.

Sóknaraðili bendir á að varnaraðili segi seinni reikning sinn, nr. 1721 vera gerðan skv. ýtrustu kröfum skv. gjaldskrá S ehf. Réttlæti varnaraðili þessa gjaldtöku sína með þeirri staðhæfingu að sóknaraðili geti byggt á þessari kröfugerð gagnvart þrotabúi V ehf. þegar til úthlutunar komi. Þetta telji sóknaraðili vera óskhyggju hjá varnaraðila þar sem óvíst sé með öllu hvort einhver fjárhæð komi til úthlutunar úr þrotabúinu að loknum skiptum. Nú þegar sé skiptakostnaður orðinn mikill og mjög dýrt hafi verið að ráðstafa eignum búsins skv. frásögn skiptastjóra og lágt verð fengist fyrir þær.

Sóknaraðili mótmælir því viðmiði varnaraðila að prósentuhlutfallið 9,8% af lýstum heildarkröfum í þrotabúið sé sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir verk varnaraðila. Svona reikningskúnstir geti ekki réttlætt gjaldtöku varnaraðila.

Sóknaraðili bendir á að varnaraðili krefjist málskostnaðar með álagi úr hendi sóknaraðila og staðhæfi að slíkt sé réttlætanlegt þar sem viðhafðar hafi verið í kvörtun í máli þessu „tilhæfulausar ásakanir", settar fram „gegn betri vitund". Þessari staðhæfingu mótmælir sóknaraðili harðlega og telur þær ómaklegar og ekki gagnaðila eða H sæmandi. Sé þeim vísað til föðurhúsanna sem og staðhæfingum um að sóknaraðili hafi haft í frammi „óþolandi ávirðingar" í garð varnaraðila. Slíkt eigi ekki við rök að styðjast. Sóknaraðili hafi aðeins lýst gangi samskipta sinna við varnaraðila skv. bestu samvisku og sagt það sem sé satt og rétt.

Sóknaraðili telur það eðlilega og sannarna kröfu af sinni hálfu að krefjast málskostnaðar úr hendi varnaraðila og byggir það á eðli máls og lögum nr. 77/1998.

 

V.

Varnaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri lokaathugasemdum sínum við greinargerð sóknaraðila.

Varnaraðili telur málatilbúnað sóknaraðila jafnóskýran og áður. Ágreiningur lúti helst að endurgjaldi fyrir vinnu skv. tveimur reikningum sem sóknaraðila hafi verið gerðir. Annar reikningurinn nr. 1721, sé gerður vegna innheimtumáls á hendur T ehf., vegna vanefnda viðsemjanda á samningi. Reikningsfjárhæðin hafi ekki sætt mótmælum sóknaraðila fyrr en nú. Hún grundvallist á gjaldskrá G lögmanna. Sóknaraðili hafi sjálfur sótt fund hjá skiptastjóra 7. júlí 2010, þar sem fjallað hafi verið um kröfu hans. Hafi sóknaraðili heldur ekki hreyft mótmælum þar við fjárhæð málskostnaðar og/eða innheimtuþóknunar. Varnaraðili hafi haldið á hagsmunum sóknaraðila gagnvart þrotabúinu allt þar til ágreiningur þessi hafi komið fram. Sóknaraðili hafi því beðið á fjórða ár með að hreyfa athugasemdum við fjárhæð vegna innheimtumálsins, sem gögn og athafnir sóknaraðila sjálfs staðreyni endurtekið að honum hafi verið kunnugt um og samþykkt.

Varnaraðili vísar til þess að hann hafi talið að þeir sem önnuðust sölu fyrirtækja sóknaraðila kynnu að hafa í störfum sínum bakað sér skaðabótaábyrgð. Í samráði við sóknaraðila hafi verið ákveðið að láta reyna á skaðabótaábyrgð þeirra og um þann þátt gert sérstakt samkomulag. Stefnufjárhæðin hafi verið samtala kröfulýsinganna fjögurra, þ.m.t. málskostnaðar- og innheimtuþóknunarhluta kröfulýsinganna, enda sé það hluti fjártjóns sóknaraðila. Reikningur nr. 1638 hafi verið gerður í samræmi við efni samkomulagsins.

Varnaraðili telur að sóknaraðili hafi í málatilbúnaði og athugasemdum sínum ekki fært nein rök fyrir því hvers vegna hann ætti ekki að greiða jafnaugljósar og skýrar reikningsskuldir og hér um ræði. Annars vegar sýnist á því byggt á sóknaraðili hafi skv. sérstöku samkomulagi aldrei átt að greiða fyrir vinnu lögmanna við innheimtumál, og því beri að fella greiðsluskyldu niður skv. reikningi nr. 1721. Hins vegar virðist á því byggt að samkomulag 11. júlí 2011 eigi að víkja og greiðsluskylda skv. reikningi nr. 1638 ennfremur að falla niður. Sóknaraðili hafi ekki gert tölulegan ágreining um útreikning varnaraðila skv. samkomulaginu, heldur einasta talið sig óbundinn af því. Engin rök hafi verið færð fyrir því að efni samkomulags sé óeðlilegt eða ósanngjarnt, hvað þá heldur að sóknaraðili hafi ekki haft burði til að gæta hagsmuna sinna.

Varnaraðili byggir á því að hæfilegt og sanngjarnt endurgjald sé það endurgjald sem um hafi samist og staðfest í verki, enda sé það í samræmi við góða lögmannshætti. Endurgjald skv. reikningum sé árangurstengt og varnaraðili hafi síðan 2008 heimt u.þ.b. 170 milljónir króna fyrir sóknaraðila. Heimtur hefðu slagað hátt í 300 milljónir króna hefði Hæstiréttur Íslands ekki metið sem svo að sóknaraðili væri reynslumikill í viðskiptum og vitandi vits, og bæri því þriðjung fjártjóns síns sjálfur.

 

Niðurstaða.

I.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Í 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna kemur fram að lögmanni ber að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknun er reiknuð.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því kostur var að koma því á framfæri.

 

II.

Það samkomulag um gjaldtöku sem fyrir liggur í málinu er á milli sóknaraðila og varnaraðila. Ekki virðist ágreiningur um að sóknaraðili leitaði til varnaraðila með mál sitt. Verða ekki gerðar athugasemdir við að sóknaraðili kjósi að gera ágreining við hann sjálfan í máli þessu og skiptir þá ekki máli þótt varnaraðili reki lögmannsstofu með sjálfstæða kennitölu, enda verður stofan talin bundin við niðurstöðu málsins. Það þykir hins vegar ekki hafa þýðingu fyrir niðurstöðu máls þessa að aðrir eigendur eða starfsmenn lögmannsstofunnar unnu hluta þeirrar vinnu sem um ræðir, enda hlaut sóknaraðila að vera ljóst um langt skeið að svo var og gerði hann ekki athugasemdir við það eftir því sem best fæst séð.

Við rekstur máls þessa fyrir nefndinni hafa verið settar fram ýmsar athugasemdir á báða bóga um störf nokkurra lögmanna. Verða þeim engin skil gerð, enda verður ekki lagður sá skilningur í umræddar athugasemdir að um sé að ræða kvörtun á grundvelli 27. gr. laga um lögmenn.

 

III.

Nauðsyn krefur að um gjaldtöku varnaraðila sé fjallað í tvennu lagi. Annars vegar vegna innheimtu hjá þeim sem keyptu félag hans, sérstaklega hjá þrotabúi V ehf. Hins vegar vegna innheimtu skaðabóta hjá D ehf. Telur nefndin einsýnt að samningurinn sem gerður var um gjaldtöku vegna sérstaks skaðabótamáls á hendur endurskoðendunum, feli ekki í sér greiðslur vegna annarra starfa en vegna reksturs þess máls.

Eins og málið er lagt fyrir nefndina verður afstaða tekin tilfjárhæðar endurgjaldsins, en athugasemdir varðandi það hvað hefur þegar verið greitt verða að koma til skoðunar við uppgjör á grundvelli úrskurðarins.

 

IV.

Ekkert liggur fyrir um að varnaraðili hafi nokkurn tíma samið við sóknaraðila um gjaldtöku vegna innheimtunnar hjá kaupanda og síðar þrotabúinu. Enda þótt varnaraðili hafi áskilið sóknaraðila ýtrasta rétt vegna innheimtunnar í kröfulýsingum sínum, og enda þótt sóknaraðili hafi byggt á þeim ýtrasta rétti í kröfugerð sinni gagnvart öðrum, fær það ekki hróflað við þessari staðreynd málsins. Er óhjákvæmilegt að leggja á það mat, hvað telja má hæfilegt endurgjald í skilningi 24. gr. laga um lögmenn vegna innheimtunnar. Hefur gjaldskrá varnaraðila ekki afgerandi þýðingu við það sanngirnismat, enda liggur ekki fyrir að hún hafi verið kynnt sóknaraðila. Á hinn bóginn mátti sóknaraðila frá upphafi vera ljóst að hann leitaði eftir sérfræðiþjónustu varðandi mál sem snerist um verulega hagsmuni.

Hvorki fæst séð að varnaraðili hafi áskilið sér í samskiptum við sóknaraðila þóknun byggða á útseldri vinnu, heildarhagsmunum við innheimtuna, né innheimtuárangri. Er hann ekki í aðstöðu til að kynna eftir á að þóknun skuli reiknuð með þeim hætti að honum beri ríflega ellefu milljón króna greiðsla vegna innheimtunnar á grundvelli kröfulýsinga sem hann hafi sent f.h. sóknaraðila, en reikningur varnaraðila nr. 1721 virðist byggja á þeim. Varnaraðili virðist á hinn bóginn ekki byggja gjaldtöku sína á þeirri tímaskráningu sem fyrir liggur í málinu.

Það athugast að þessi umkrafða innheimtuþóknun byggir á samlagningu nokkurra kröfuliða, sem sumir innibera virðisaukaskatt. Allt að einu er lagður fullur virðisaukaskattur á heildarfjárhæðina.

Matið á sanngjarnri þóknun vegna innheimtunnar öðru fremur að byggja á þeim tíma sem ætla má að nauðsynlegt hafi verið að verja til hennar. Þarf  þá að taka tillit til þess að kröfum sóknaraðila var af hálfu varnaraðila fylgt eftir með kyrrsetningar- , aðfarar- og nauðungarsölumálum auk þess sem varnaraðili hélt uppi hagsmunum varnaraðila við gjaldþrotaskipti. Hér verður einnig litið til þess að enginn árangur varð af þessari innheimtu. Tímaskráningar varnaraðila þykja í einstökum atriðum mjög ríflegar miðað við þá verkliði sem um ræðir og verður skráningin ekki lögð til grundvallar eins og hún kemur fyrir, en af henni má þó draga ályktanir um umfang verksins.

Þegar umfang starfans er þannig metið heildstætt, telur nefndin að kr. 850.000, auk virðisaukaskatts, sé hæfilegt endurgjald fyrir umrædd innheimtustörf. Hefur þá verið tekið tillit til vaxta af fjárhæðinni frá því krefja mátti um endurgjaldið til uppkvaðningu úrskurðar þessa.

 

V.

Varðandi þóknun varnaraðila fyrir flutning málsins gegn D ehf. liggur fyrir samkomulag aðila, dagsett 11. júlí 2011. Samkvæmt því átti sóknaraðili að greiða kr. 2.000.000 auk útlagðs kostnaðar fyrir rekstur málsins á báðum dómsstigum ef það tapaðist.

Það felst í samkomulaginu að ef málið ynnist, skyldi sóknaraðili greiða 7,5% af innheimtri kröfu í álag auk tildæmds málskostnaðar. Sóknaraðili byggir á því að samkomulagið feli í sér loforð hans um ósanngjarnt endurgjald.

Sóknaraðila hefur ekki tekist að skýra hvers vegna hann ákvað á sínum tíma að gera umrætt samkomulag, ef frá eru taldar málsástæður hans sem lúta að því að varnaraðili hafi talið honum trú um að um væri að ræða tíðkanlega samningsskilmála. Hér verður að líta til þess að sóknaraðili starfaði við viðskipti um árabil samkvæmt dómi Hæstaréttar í umræddu máli. Úrslit málsins voru í hæsta máta óvís á þeim tíma sem samningurinn er gerður.  Eru ekki efni til að líta öðru vísi á en svo að sóknaraðili hafi á þeim tíma talið samninginn samræmast best hagsmunum sínum af því að halda kostnaði í lágmarki ef málið tapaðist, jafnvel þótt það yrði honum alldýrt ef málið ynnist. Eru engin efni til að hrófla við samningi þessum eða gjaldtöku sóknaraðila á grundvelli hans.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilin þóknun varnaraðila, R hrl., vegna skaðabótamáls sem hann rak fyrir hönd sóknaraðila, samkvæmt reikningi nr. 1638 að fjárhæð kr. 19.438.527 felur í sér hæfilegt endurgjald í skilningi 24. gr. laga um lögmenn.

Hæfilegt endurgjald vegna innheimtustarfa varnaraðila í þágu sóknaraðila er kr. 850.000 auk virðisaukaskatts.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Kristinn Bjarnason, hrl.

 

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson