Mál 10 2015

Ár 2015, föstudaginn 9. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 10/2015:

O

gegn

B hdl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmannabarst þann 4. maí 2015 erindi kæranda, O, þar kvartað er yfir reikningagerð kærðu, B hdl. o.fl.

Óskað var eftir greinargerð frá kæranda með bréfi, dags. 18. maí 2015. Þann 5. júní barst nefndinni greinargerð kærðu og var hún send kæranda með bréfi 15. júní. Athugasemdir kæranda vegna greinargerðarinnar bárust nefndinni 8. júlí 2015 og voru kynntar kærðu með bréfi 20. júlí. Lokaathugasemdir kærðu vegna málsins bárust frá kærðu 6. ágúst 2015 og voru kynntar kæranda með bréfi 12. ágúst 2015.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Hvorki kærandi né kærða hafa gert grein fyrir atvikum málsins með heildstæðum hætti en af framlögðum gögnum og málatilbúnaði þeirra má ráða að kærandi á lóð inni á landi annarra og að ágreiningur hefur verið um notkun þessa landeiganda á vegi eða heimreið að húsi kæranda. Leitaði kærandi til Lögmannsstofu A, þar sem kærða starfaði, vegna þessa snemma í febrúar 2014. Kærða kallaði eftir gögnum frá lögreglu, sem hafði haft afskipti af málinu og frá Vegagerðinni. Þá hóf kærða að setja sig inn í réttarstöðu kæranda vegna málsins. Eru 7,5 stundir skráðar vegna málsins í tímaskrá kærðu frá 5. febrúar til 20. febrúar 2014 og reikningsfærðar með reikningi nr. 37 að fjárhæð kr. 155.306 að vsk. meðtöldum.

Á tímabilinu 21. febrúar til 19. mars 2014 voru skráðar 5,25 stundir vegna málsins og gjaldfærðar ásamt óverulegum aksturskostnaði á reikning nr. 53 að fjárhæð kr. 113.891. Er þar bæði um að ræða færslur vegna athugunar á réttarstöðu, heimsókn kærðu á staðinn og undirbúning vegna hennar og samskipti við lögmann gagnaðila, Vegagerðina o.fl. Svo virðist sem vonir hafi vaknað um þetta leyti í þá veru að sættir gætu tekist og að beðið hafi verið viðbragða gagnaðila um skeið.

Í júnímánuði voru samskipti á milli lögmanna aðila en jafnframt virðist hafa komið til einhverra árekstra á milli umbjóðendanna. Þann 24. júní eru skráðar 1,5 klst. á málið vegna samskipta við kæranda, lögreglu og gagnaðila og reikningsfærðar á reikning nr. 178 að fjárhæð kr. 31.061.

Ekki virðist hafa verið unnið neitt frekar í málinu og ekkert gerst í því fyrr en í desemberbyrjun 2014. Þá hafði lögmaður gagnaðila samband við kærðu og kvað umbjóðanda hennar á ný hafa tálmað umferð um veginn. Er ágreiningslaust að kærða hafði þá samband við kæranda og að þá kom skýrt fram að hún hefði ekki umboð til að vinna frekar að málinu. Í febrúar hafði kærandi samband við kærðu og óskaði eftir að hún sendi nýjum lögmanni sínum gögn málsins. Skráði hún 0,5 vinnustundir vegna samskipta við lögmann gagnaðila og kæranda, en 0,75 vinnustundir vegna vinnu við að taka saman gögn, skanna þau og senda lögmanninum. Er reikningur hennar vegna þessara starfa í desember að fjárhæð kr. 25.575 og mun hann enn ógreiddur.

II.

Kærandi krefst leiðréttingar á reikningum og er litið svo á að í því felist krafa um að þeir verði lækkaðir að mati nefndarinnar. Þá setur kærandi fram kröfu um að hann fái í hendur frá kærðu skriflega niðurstöðu um dómaleit/fordæmaleit sem innheimt hafi verið fyrir. Þá krefst kærandi svara frá kærðu um atriði á borð við í hverju undirbúningur hennar fyrir heimsókn hafi falist  og hvort hún geti yfir höfuð sýnt fram á alla þá vinnu sem innheimt hafi verið fyrir.

Í kærunni er að finna svofellda kvörtun: „Var mjög ósáttur við vinnu hennar og hvernig hún stóð að málinu. Hún virtist ekki vera með hagsmuni skjólstæðings síns í fyrsta sæti við vinnslu í málinu"

Kærandi gerir allmargar athugasemdir við einstök atriði í tímaskráningu kærðu:

  • Kærandi telur að það sé andstætt venju að innheimta tímagjald þegar lögmanni sé kynnt mál í því skyni að athuga hvort hann taki það að sér.
  • Hann telur óeðlilegt að innheimt sé fyrir leit að fordæmum eða slíka greiningu á réttarstöðunni án þess að nein skrifleg niðurstaða úr því liggi fyrir, síðari lögmanni hans til glöggvunar. Geti þetta leitt til þess að endurtaka þurfi þessa vinnu að einhverju eða öllu leyti.
  • Kærandi gerir athugasemdir við að rukkað sé fullt tímagjald fyrir ákveðin störf sem teljast megi ritarastörf og vísar þá m.a. til vinnu við að taka saman gögn fyrir síðari lögmann.
  • Kærandi telur að innheimt sé fyrir móttöku á tölvupósti og svo aftur fyrir lestur á sama pósti.
  • Kærandi telur kærðu innheimta fyrir að bjóða fram lögmannsaðstoð, sem hafi verið afþökkuð og vísar þá til samskipta aðila þann 24. júlí og 3. desember 2014.
  • Kærandi telur að samið hafi verið um að ekki væri greitt fyrir símtöl sín við kærðu þar sem hann athugaði hvað vinnslu málsins liði. Þrátt fyrir þetta sé innheimt vegna slíkra símtala.

Kærandi kveðst hafa gert athugasemdir við reikninga og tímaskráningu. Þá hefur hann gert athugasemdir vegna samskipta sinna við kærðu eftir að mál þetta hófst, en efni þeirra samskipta verða ekki talin til sakarefnis í málinu.

III.

Kærða hafnar alfarið öllum kröfum kæranda. Kærða telur það eðlilegt að fordæma sé leitað og réttarstaða metin án þess að sérstaklega séu teknar saman skriflegar niðurstöður úr slíkri könnun. Hafi ekki verið óskað eftir slíkum skriflegum niðurstöðum og hefði það enda kostað meiri vinnu og peninga að taka þær saman. Niðurstaða sín hafi einfaldlega orðið sú að ekki væri til að dreifa dómafordæmum um sambærilega aðstöðu og kærandi var í. Hafi kæranda hins vegar verið haldið munnlega upplýstum.

Kærða kveður deilu kæranda við eiganda landsins allt í kring um hús hans hafa verið þess eðlis að hún hafi kallað á aðkomu lögmanns, m.a. til að leita sátta við gagnaðila. Þegar kærandi hafi ákveðið að tálma umferð landeigandans um umræddan veg í júlímánuði hafi það kallað á viðbrögð gagnaðila og samskipti sín við lögmanns hans og kæranda. Sé ekki unnt að ræða um óumbeðna aðstoð eða afþakkaða í þessu samhengi. Niðurstaðan í þessari atrennu hafi orðið sú að kærandi hafi ákveðið að láta af umferðartálmunum um sinn en ekki hafi náðst neinir samningar.

Kærða hafi svo aftur fengið viðbrögð frá gagnaðila í desembermánuði vegna umferðartálmana kæranda og upplýst kæranda um það. Hafi kærandi þá ekki haft áhuga á að bregðast við erindi þessu með neinum hætti og hafi hún þá spurt hvort umboð hennar til að starfa fyrir hann væri afturkallað úr því að kærandi vildi ekki gera neitt í málinu. Hafi kærandi játað því. Kærandi hafi svo næst haft samband við sig í febrúar 2015 og óskað eftir því að gögn málsins yrðu send nýjum lögmanni. Hafi hún orðið við því.

Kærða mótmælir ásökunum kærða í þá veru að hún hafi ekki haft hagsmuni kæranda í fyrsta sæti við vinnslu málsins sem röngum, ósönnuðum og meiðandi. Hafi hún aldrei haft neina hugmynd um að kærði væri ósáttur við hennar störf.

Hún telur einnig að kærandi hafi haft meira en eitt ár til þess að gera athugasemdir við tímaskráningar sínar, en það hafi hann ekki gert. Loks hafnar hún athugasemdum kæranda við tímaskráningarnar í einstökum liðum.

Niðurstaða.

I.

Í kvörtun sinni tilgreinir kærandi kærðu B sem þann lögmann sem kvartað er yfir. Beinist kæran m.a. að því að kærandi hafi verið óánægður með vinnu hennar og að hún hafi ekki haft hagsmuni hans að leiðarljósi. Þá er óumdeilt í málinu að hún hafði umboð til að koma fram fyrir hönd kæranda og bar sjálf ábyrgð á þeim tímaskráningum sem deilt er um. Hefur hún enda tekið til varna. Þykir mega fella úrskurð á málið við svo búið, enda þótt ekki sé að fullu upplýst hver voru tengsl hennar við þá lögmannsstofu sem gaf út flesta þá reikninga sem deilt er um.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Fyrr er rakið að í kvörtuninni sem markar upphaf mál þessa er að finna svofellda athugasemd kæranda „Var mjög ósáttur við vinnu hennar og hvernig hún stóð að málinu. Hún virtist ekki vera með hagsmuni skjólstæðings síns í fyrsta sæti við vinnslu í málinu." Kærandi hefur ekki gert neinn reka að því að lýsa þeim athöfnum kærðu eða athafnaleysi sem ollu óánægju hans, en því er ómótmælt að hann gerði ekki athugasemdir við kærðu. Því síður hefur hann rökstutt þá fullyrðingu að kærða hafi látið eitthvað annað en hagsmuni kæranda ráða för við vinnslu málsins. Verða ekki gerðar neinar aðfinnslur við störf kærðu vegna þessara fullyrðinga kæranda.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.

Ekki hefur verið lagður fram neinn samningur um vinnu kærðu fyrir kæranda. Ágreiningslaust virðist þó að um var að ræða tímavinnu samkvæmt tímaskráningu fyrir fast tímagjald sem ekki er ágreiningur um, fyrir verkefni sem kærandi veitti henni umboð sitt til að vinna í sína þágu.Verður nú vikið að einstökum athugasemdum kæranda við tímaskráningu kærðu.

Úrskurðarnefndin getur ekki fallist á að það sé gagnstætt venju að innheimta tímagjald þegar lögmanni sé kynnt mál í því skyni að athuga hvort hann taki það að sér. Ekki er í ljós leitt að kærða eða viðkomandi lögmannsstofa hafi nokkru sinni gefið til kynna að unnt væri að fá ókeypis skoðun á mál áður en ákvörðun væri tekin um að vinna frekar í þeim.

Það eru venjubundin vinnubrögð lögmanna að leitað sé fordæma og annarra skráðra réttarheimilda þegar réttarstaðan eða málstaður einstakra umbjóðenda er kannaður, án þess að ritaðar séu um það sérstakar skýrslur, en eftir því sem atriði koma fram sem máli skipta er þeim þá haldið saman. Í þessu tilfelli varð það niðurstaða kærðu að ekki væri til að dreifa fordæmum varðandi réttarágreining sem uppi var. Verða athugasemdir við tímaskráningar ekki á því reistar að skriflegum gögnum um þá niðurstöðu sé ekki til að dreifa.

Kærandi hefur haldið því fram að sérstaklega hafi verið um það samið að ekki væri innheimt tímagjald vegna þeirra símtala sem hann hringdi inn á lögmannsstofuna til að spyrjast fyrir um mál sitt. Væru það að sönnu mjög óvenjulegir samningsskilmálar, en kærða hefur andmælt því að um þetta hafi verið samið. Ekkert liggur fyrir um samkomulag í þessa veru, enda þótt í einstökum tímaskýrslum kærðu hafi verið skráðar 0 mínútur við símtöl. Er slíkt alvanalegt þegar um endurtekin stutt símtöl er að ræða. Verður að telja alveg ósannað að kærandi hafi átt að njóta gjaldfrjáls aðgangs að lögmanni.

Það er óumdeilt í málinu að kærða kom fram fyrir hönd kæranda gagnvart gagnaðila. Þegar lögmaður gagnaðila hafði samband við kærðu var henni nauðsynlegt að hafa samband við kæranda vegna þess, jafnvel þótt hann vildi þá ekkert aðhafast. Hlaut þetta að kalla á að kærða ráðstafaði tíma sínum í þágu kærða og að þá væri innheimt umsamið tímagjald fyrir það. Kærandi hefur ekki stutt það neinum gögnum að hann hafi með öllu afþakkað öll störf kærðu fyrir sig áður en kom til samskipta þeirra þann 3. desember 2014. Verður að hafna því að kærða njóti ekki endurgjalds fyrir umrædda milligöngu.

Kærandi telur að innheimt sé fyrir móttöku á tölvupósti og svo aftur fyrir lestur á sama pósti. Þegar tímaskráningar kærðu eru skoðaðar í heild sinni og þær bornar saman við þau takmörkuðu gögn sem nefndin hefur undir höndum, fæst ekki séð að umræddar tímaskráningar séu úr hófi vegna atriða á borð við þetta. Má í því samhengi t.d. benda á að fyrir liggja nokkur tölvupóstsamskipti kærðu við gagnaðila þann 18. júní sem ekki virðast hafa verið færð á tímaskrá.  Verður í þessu samhengi heldur ekki fram hjá því litið að kærandi fékk frá upphafi senda reikninga ásamt tímaskrám þar sem ítarlega var lýst hvaða vinna hefði verið unnin, en hann virðist engar athugasemdir hafa gert við neinar skráningar, fyrr en eftir að hann óskaði eftir að kærða tæki saman gögn fyrir síðari lögmann og kærða gerði honum reikning vegna þess.

Varðandi síðasttalda atriði, þ.e. innheimtu kærðu á 0,75 stundum á tímagjaldi vegna beiðni kæranda um að hún tæki saman gögn málsins, verður ekki fallist á að um sé að ræða gjaldtöku úr hófi fram. Eðlilegt er að reikna með að beiðnin sé móttekin, farið í fljótu bragði yfir að öll gögn sem máli skipta séu til staðar, gögnin síðan ljósrituð og send. Hvernig sem að þessu er staðið, fer fjárhæðin  sem kærða innheimtir vegna þessa ( rúmlega 12.000 kr. auk vsk) ekki fram úr því sem telja má hæfilegt.

Ekki verður talið að aðrar athugasemdir kæranda fái haggað þeirri niðurstöðu að gjaldtaka kærðu fyrir störf í þágu kæranda megi teljast hæfileg. Verður kröfum kæranda því hafnað.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærða, B hdl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, O, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Kröfum kæranda um að áskilið endurgjald kærðu sæti lækkun, er hafnað.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Þ. Snævarr hrl.