Mál 11 2015

Ár 2015, föstudaginn 11. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 11/2015:

Þ og R sjálf og vegna  sálfræðistofu

gegn

E hrl.

 og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 12. maí 2015 erindi kærenda, Þ og R, þar sem kvartað var yfir framkomu og virðingarleysi sem kærði, E hrl. hefði sýnt þeim í skriflegu erindi sínu til fjölda aðila í tengslum við störf hans að máli sem kærðu komu að.

Óskað var eftir greinargerð frá kærða um erindið þann 18. maí 2015. Greinargerð kærða barst þann 25. júní 2015, auk þess sem viðbótarathugasemd barst frá honum 14. júlí 2015.. Kærendum var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerðina og viðbótarathugasemdina með bréfum þann 3. júlí 2015 og 20. júlí, en frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Hvorugur aðila málsins hefur sett fram heildstæða málavaxtalýsingu. Eftir því sem ráða má af fram lögðum gögnum eru atvik málsins þau að Æ, starfsmaður í skóla í Reykjavík, kvartaði yfir því við yfirmenn sína að samstarfsmaður hans, Ó, legði hann í einelti. Var sálfræðistofunni , sem kærendur reka í félagi við fleiri sálfræðinga, falið að rannsaka málið og að því er virðist að skila skýrslu um það, en verksamningur eða verkbeiðni hafa ekki verið lögð fram. Óumdeilt virðist að kærendur í máli þessu unnu skýrslu um eineltismálið, sem dagsett er 26. september 2015. Það athugast að nefndin hefur fengið tvo hluta úr skýrslunni, annars vegar óundirritað skjal, merkt kærendum með yfirskriftinni „Niðurstöður vegna kvörtunar um einelti í [X]skóla" dags. 25. september og hins vegar það sem virðist vera meginhluti skýrslunnar sjálfrar, dags. 26. september þar sem búið er að afmá persónugreinanlegar upplýsingar. Enginn ágreiningur virðist þó með aðilum um efni skýrslunnar.

Í skýrslu þessari er farið yfir einstakar ávirðingar sem Æ hefur borið fram, lið fyrir lið. Eru raktar frásagnir Æ og framburður Ó um hvert atvik fyrir sig í stuttu máli, auk þess sem vitnað er til þess sem samstarfsfólk þeirra beri um hvert atvik. Lýkur yfirferð yfir hvern lið með því að kærendur taka afstöðu til þess hvort umrætt atvik geti talist hluti af einelti Ó í garð Æ og taka þá bæði afstöðu til þess hvort umrædd atvik hafi í raun átt sér stað og hvort þau falli undir þá skilgreiningu á einelti sem lögð er til grundvallar í skýrslunni. Er samantekin niðurstaða skýrslunnar sú að af 21 atriði sem Æ tiltók sem birtingarmyndir eineltis væru 15 hluti af eineltismynstri og byggðust tillögur kærenda um næstu skref á þeirri niðurstöðu. Virðist í senn augljóst af lestri skýrslunnar og ágreiningslaust að vinnsla hennar fór fram með þeim hætti að kærendur ræddu við báða aðila málsins og samstarfsfólk þeirra um þessar ávirðingar. Þá liggur fyrir afrit af formi fyrir trúnaðaryfirlýsingu til þeirra starfsmanna sem rætt var við vegna málsins. Kemur þar fram að endanlega útgáfa af frásögn viðkomandi verði í vörslu kærenda sem gagn í málinu og verði ekki afhent öðrum nema að undangengnum dómsúrskurði.

Þann 9. október 2014 fór fram „leiðbeiningarviðtal" yfirmanna Ó við hana þar sem bókað var að til umfjöllunar væri niðurstaða athugunar sálfræðistofunnar  sem hefði verið kynnt Ó þann 6. október. Þá var bókað að skólastjóri gerði alvarlegar athugasemdir við framkomu Ó eins og henni væri lýst í skýrslunni.

Með bréfi 26. nóvember tilkynnti kærði fyrirsvarsmönnum Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar að Ó hefði leitað til sín vegna málsins. Kemur strax í þessu bréfi fram að kærði telur að margt sé við málsmeðferðina að athuga, m.a. að kærendur hafi ekki notað „eineltishugtakið í lagalegum skilningi" og að vinnubrögð í málinu væru að hans mati verri en almennt sæist. Boðar kærði þar að hann muni rita Skóla og frístundasviði sérstakt bréf um málsmeðferðina, en annað um sönn atvik í eineltismálinu. Var það bréf ritað 15. desember 2014 og er innihald þess inntakið í sakarefni þessa máls.

Í bréfinu er því lýst að Ó hafi verið boðuð til fundar í ágúst 2014. Hún hafi þá átt að fá að sjá gögn en af því hafi ekki orðið. Segir svo um framkvæmd viðtalsins:

Á fundinn með sálfræðingunum mætir umbj.m. óundirbúin.  Hún lýsir því hvernig hún sat eins og sakborningur á fundi með Þ sálfræðingi sem sat ströng á svip fyrir framan tölvu. Við hlið hennar sátu trúnaðarmaður skólans og ungur sálfræðingur sem spurði spurninganna, sem væntanlega mun vera R.  Í þessari uppstillingu leið umbj.m. afar illa.  Því næst var kvörtunin lesin upp með dramatískum hætti í andrúmslofti sem umbj.m. upplifði sérlega óvinsamlegt."

Kærði ber í bréfinu einnig saman skilgreiningu á eineltishugtakinu í umræddri skýrslu og hins vegar að vinnurétti. Eftir að hafa rakið skilgreininguna í skýrslunni og síðan skilgreininguna í reglugerð nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað, segir kærði m.a. í bréfinu:

Skilgreining sálfræðinganna víkur í verulegum atriðum frá skilgreiningu á einelti í vinnurétti.  Í vinnurétti lýtur einelti að háttsemi sem er annað hvort ámælisverð háttsemi eða síendurtekin ótilhlýðilegt háttsemi.  Það er nánar skilgreint sem hegðun sem sé „til þess fallin" að niðurlægja, gera lítið úr o.s.frv.  Til að taka af allan vafa er sagt að ekki sé um að ræða skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur ef það leiðir ekki til slíkrar háttsemi sem að framan er lýst.  Í skilgreiningu sálfræðinganna er ekki notað orðasambandið „til þess fallin" heldur eitthvað sem „leiðir til" vanlíðunar.  Að íslenskum rétti verða einstaklingar ekki gerðir ábyrgir fyrir líðan og tilfinningum annarra með þeim hætti sem þarna er gert. Í skilgreiningu sálfræðinganna er áherslunni beint að upplifun kvartanda en ekki gerðir þess sem kvartað er yfir. Af þessari skilgreiningu mætti ráða að einelti fari eftir því hvernig tiltekinn einstaklingur upplifir annan einstakling.  Það er því miður ekki ofmælt að segja að slík skilgreining á einelti er röng og í raun víðáttuvitlaus."

Kærði heldur áfram í bréfi sínu og kveðst telja það ámælisvert að Reykjavíkurborg skuli nota verktaka til að gera stjórnsýsluathugun á kvörtun af þessu tagi, sem kunna jafnlítið til verka í skilgreiningu á einelti skv. vinnurétti, þannig að í stað þess að finna geranda breytist aðgerðin í nornaveiðar. Segir kærði um þetta atriði:

Það þekkist ekki lengur í siðuðum vestrænum heimi að framkvæma einhvers konar réttarrannsókn með þessum hætti bak við luktar dyr án þess að sá, sem ásakaður er, fái gögn máls, upplýsingar um hver leynivitnin séu og hvað þau bera um, og geti kynnt sér framburði þeirra.

Bætir kærði við síðar í bréfinu:

Rannsóknaraðferðir af þessu tagi voru notaðar á nornaveiðum á 17. og 18. öld þegar „fræðingar" voru fengnir til að athuga hverjir væru göldróttir.  Þá var rætt við fólk án þess að það gæti í raun borið hönd fyrir höfuð sér og síðan var verið að ráða í frásagnir annarra af upplifunum þeirra af einhverju átti að hafa gerst og leggja út með furðulegum hætti.  Þó ekki sé verið að bera aðgerðir gegn umbj.m. saman við þau ósköp sem þá gengu á eru rannsóknaraðferðirnar svipaðar. Á tímum McCarthy í Bandaríkjunum var reynt að góma menn með rannsóknarréttarfari sem þó var opnara og skárra en það sem notað var í máli umbj.m. 

Í bréfi kærða er þetta ítrekað með svofelldum hætti:

Sálfræðingarnir tala við starfsfólk án þess að nöfn þeirra komi fram eða hvað þau segja, heldur birtist það í skýrslunni eins og fréttir af skyggnilýsingarfundi. Síðan virðast sálfræðingarnir telja sig hafa yfirskilvitlegar gáfur til að geta greint sannleikann með þessum ómögulegu rannsóknaraðferðum sem viðhafðar voru.

Kærði víkur einnig með beinum hætti að hæfni kærenda til að stýra rannsóknum af þessu tagi í bréfinu og segir:

Þeir kunna að vera ágætir í að gera persónuleikapróf og sálfræðipróf en þeir sýna í orði og athöfnum að þeir kunna nákvæmlega ekkert fyrir sér í að upplýsa atvik svona máls.  A.m.k. ef marka má vinnubrögðin í þessu máli. 

Þá víkur kærði einnig að því í bréfi þessu að í skaðabótamáli vegna meints eineltis hafi sálfræðistofa kærðu fengið falleinkunn frá Hæstarétti hvað varðaði lagaþekkingu á eineltishugtakinu og nytsemi rannsóknar hennar við úrlausn málsins.

Í framhaldi af þessu tóku við umfangsmikil bréfaskipti kærða við Reykjavíkurborg þar sem m.a. var deilt um aðgang að upplýsingum um eineltismálið og þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í því. Í þeim deilum koma fram margar athugasemdir af hálfu kærða við það hvernig haldið var á málinu af hálfu borgaryfirvalda auk þess sem aðfinnslur hans við skýrslu kærenda og vinnubrögð við vinnslu hennar eru ítrekaðar og áréttaðar. Af hálfu kærenda var haldið uppi vörnum gegn þessu og ritaði I hrl. ítarlegt bréf 30. janúar 2015 þar sem aðfinnslum kærða við skýrsluna og vinnslu hennar er afdráttarlaust hafnað.

 

II.

Kærendur krefjast þess að úrskurðað verði að kærði hafi brotið gegn siðareglum lögmanna og lögum um lögmenn. Þá er þess krafist að lögmaðurinn verði nafngreindur í úrskurði og hann áminntur.

Kærendur telja að kærði hafi brotið gegn góðum lögmannsháttum almennt og einnig gegn skyldum sínum við gagnaðila. Vísa kærendur sérstaklega til 2., 5., 8. og 34. greina siðareglnanna. 

Hafi kærði farið fram með rangfærslur, ýkjur og tilhæfulausar staðhæfingar sem ekki sú hæfandi lögmanni. Hafi orðræða lögmannsins verið meiðandi í garð kærenda sem sérfræðinga og vegið alvarlega að starfsheiðri þeirra. Ekkert tilefni hafi verið til þessarar framsetningar lögmannsins og hafi hún ekki þjónað neinum öðrum tilgangi en að rægja kærendur sem sérfræðinga. Kærendur telja að kærði hafi gengið allt of langt í ummælum sínum, sem hafi bæði verið óvægin og ómálefnaleg og hafi kærði ekki verið í eðlilegum tengslum við hlutverk sitt sem lögmanns í stjórnsýslumálinu.

Telja kærendur að ofangreind lýsing á viðtali þeirra við umbjóðanda kærða sé mjög ófagmannlega fram sett, hlutleysis sé ekki gætt og texti mun farsakenndari en efni hafi staðið til. Þá telja þeir að sú staðhæfing og það orðaval kærða að skilgreining þeirra á einelti sé röng og „víðáttuvitlaus" séu ófagmannlegar og ekki hæfandi lögmanni.

Það sama telja kærendur gilda um fullyrðingar kærða í þá veru að þau kunni lítið til verka í skilgreiningu á einelti og að um nornaveiðar hafi verið að ræða af þeirra hálfu. Telja kærendur að kærði hafi ekki fullnægjandi fagþekkingu á sálfræðilegu mati á einelti til að setja fram slíkar staðhæfingar. Samlíkingin með verkum kærenda og nornaveiðum sé gríðarlega ámælisverð og í raun ærumeiðandi í þeirra garð með grafalvarlegum hætti. Grafi kærði þannig undan starfsheiðri kærenda, alveg að tilefnislausu.

Kærendur mótmæla því að umbjóðandi kærða hafi ekki verið kynnt fyrirætlan í starfi þeirra, enda hafi hún skrifað upp á upplýst samþykki, með trúnaðarmann með sér. Hljóti staðhæfing kærða um þetta að vera sett fram gegn betri vitund.

Þá telja kærendur að kærði dragi gróflega rangar ályktanir um atvik máls í dómi Hæstaréttar í því máli sem hann vísar til.

Kærendur telja allt orðaval kærða úr hófi fram og þarflaust til að koma efnislegum athugasemdum kærða til skila. Ýkjukenndar og grófar lýsingar kærða hafi farið gegn skyldu hans til að sýna kærendum sem gagnaðila virðingu í ræðu og riti. Hafi algjörs virðingarleysis þvert á móti gætt í þessum skrifum og þannig grafið undan starfsheiðri þeirra. Vekja kærendur athygli á að afrit bréfsins voru send á fjóra yfirmenn hjá Reykjavíkurborg, tvo formenn kennarafélaga. Hafi kærði þannig gert í því að bera óhróður um kærendur út. Telja kærendur að kærði hafi þannig valdið sér verulegum skaða og miska.

 

III.

Kærði setur ekki fram ákveðnar kröfur í greinargerð sinni, en af efni hennar verður dregin sú ályktun að hann krefjist þess að öllum kröfum kærenda verði hafnað.

Kærði bendir í greinargerð sinni á að tjáningarfrelsi lögmanna, eins og annarra, sé varið af 73. gr. stjórnarskrárinnar. Þessi vernd lúti ekki aðeins að efni þess sem sagt er, heldur einnig að tjáningarforminu. Sé tjáning lögmanns á annað borð innan þess sem varið er af 73. gr. stjórnarskrárinnar, verði frelsi hans til þeirrar tjáningar ekki takmörkuð nema skv. skýrri lagaheimild, sbr. 3. mgr. ákvæðisins.  Siðareglur lögmanna eigi sér vissulega lagastoð, en þær séu ekki birtar í stjórnartíðindum og uppfylli því ekki það skilyrði sem sett sé fyrir takmörkun tjáningarfrelsis í stjórnarskránni. Kærandi áréttar á hinn bóginn að með þessari ábendingu fallist hann alls ekki á að tjáning hans hafi verið andstæð siðareglum lögmanna.

Kærði leggur í greinargerð sinni áherslu á þá alvarlegu stöðu sem umbjóðandi hans hafi verið komin í vegna athafna Reykjavíkurborgar og fleiri þegar umrætt bréf var skrifað. Athafna sem byggðust meðal annars á þeirri skýrslu sem kærendur höfðu sett fram. Lýsir hann þeirri aðstöðu svo að umbjóðandinn hafi orðið fyrir aðkasti frá einum samkennara sinna og loks mátt þola að hann setti fram ásakanir um einelti á hendur henni. Hafi kærendur þá verið kölluð til og skrifað skýrslu þar sem þau komust að þeirri röngu niðurstöðu að umbjóðandinn væri sek um einelti út frá rangri skilgreiningu á einelti og með aðferðum sem voru ekki til þess fallnar að leiða hið sanna í ljós. Á þessari skýrslu hafi verið gæðastimpill sálfræðistofu kærðu og hafi sá sem bar kvörtunina fram notað hana óspart til að vega að umbjóðandanum í aðförum sínum gegn henni. Hafi samkennarinn m.a. farið með niðurstöðu skýrslunnar í fjölmiðla með ósanngjörnum og ósmekklegum hætti og lagt út af henni að hann væri fórnarlamb umbjóðandans. Kærði bendir á að atvinnurekandinn hafði veitt umbjóðandanum tiltal á grundvelli skýrslunnar og telur að skýrslan hafi lifað sjálfstæðu lífi. Gagnvart umbjóðandanum hafi þessi skýrsla vofað yfir mannorði hennar og framtíð. Allt hafi þetta haft mikil niðurbrjótandi áhrif á heilsu hennar. Hafi því ekki dugað að taka það verkefni neinum vettlingatökum að hrekja það sem í henni komi fram og finna að vinnubrögðunum við gerð hennar.

Kærði telur að fullt tilefni hafi verið til að setja fram þá gagnrýni sem hann gerði. Það sé einfaldlega staðreynd að við gerð skýrslunnar hafi bæði lögmætar athafnir og ósannaðar athafnir verið afgreiddar sem einelti. Þetta hafi haft gríðarleg neikvæð áhrif fyrir umbjóðanda hans að ósekju. Kærði telur að það hljóti að kalla á mjög kröftug andmæli þegar skilgreining á einelti sem sé í ósamræmi við settar reglur um það efni sé notuð til að komast að þeirri niðurstöðu að saklaus manneskja hafi lagt aðra í einelti. Það sama gildi þegar almennum viðmiðunum um sönnunarfærslu sé einfaldlega sleppt og skýrslur teknar af fólki með aðferðum sem kærði telur að hafi beinlínis verið út í hött og ekki til þess fallnar að leiða sannleikann í ljós.

Kærði telur að það hafi verið umbjóðanda sínum nauðsynlegt að afhjúpa það sem hann taldi afglöp við gerð skýrslunnar, að vinnubrögðin við gerð hennar hafi ekkert haft með vísindi á sviði rannsóknartækni eða sálfræði að gera og að niðurstaða hennar væri augljóslega röng. Hafi verið mikilvægt að hrekja á braut þau hughrif sem það kallaði fram að fyrir lægi skýrsla þar sem sérfræðingar á sviði sálfræði hefðu komist að niðurstöðu að athuguðu máli.

Telur kærði að brýnir þjóðfélagshagsmunir standi auk þess til þess að unnt sé að ræða um áreiðanleika og vinnubrögð sálfræðinga í ljósi þess hve mikilvægar ákvarðanir séu oft byggðar á rannsóknum þeirra og ályktunum.

Athugasemdir kærða við einstök atriði í ummælunum og kvörtuninni eru sem hér greinir.

  • Í umræddu bréfi hans greini hann frá upplifun skjólstæðings síns með kærendum. Segi í bréfinu „Hún [umbj.m.] lýsir því hvernig hún sat eins og sakborningur á fundi..."Augljóslega sé hann þarna að rekja upplifun skjólstæðingsins og hljóti hún að mega koma fram þótt hún feli í sér gildisdóm.
  • Kærði kveðst standa við þau ummæli sín að skilgreining kærenda á einelti hafi verið „víðáttuvitlaus". Skilgreiningin sem þeir lögðu til grundvallar hafi byggst á upplifun þess sem bar fram kvörtun en ekki því hvort athafnirnar sem um ræddi hafi í raun falið í sér hegðun sem var til þess fallin að valda þjáningum, svo sem miðað sé við í íslenskum rétti.
  • Í bréfi kæranda sé fundið harkalega að því að Reykjavíkurborg feli verktaka stjórnsýsluathugun á einelti, án þess að tryggt sé að sá verktaki kunni til verka þegar kemur að skilgreiningu á einelti. Sé þar rætt um nornaveiðar, en þar sé átt við athafnir sem séu til þess fallnar að menn verði taldir sekir um eitthvað sem þeir ekki gerðu. Skilgreining kærenda á einelti hafi verið nákvæmlega til slíks fallin.
  • Kærði ítrekar í greinargerð sinni þá gagnrýni sína sem lýtur að því að rannsakendur ræði við vitni í trúnaði og telur að slík réttarrannsókn á bak við luktar dyr styðjist hvorki við aðferðafræði sálfræðinnar né viðurkenndar aðferðir við sönnunarfærslu.
  • Kærði kveður gagnrýni sína á undirbúning fund umbjóðenda síns með kærendum ekki beinast að þeim. Yfirmaður umbjóðandans hafi sagt henni hvers kyns viðtal yrði um að ræða og sé það hvorki á ábyrgð kærenda, né geti þeir neitt fullyrt um það samtal.
  • Kærði andmælir því að það felist í því sérstök móðgun að kenna rannsóknaraðferðir kærenda við 18. og 19. öld, sem hafi m.a. markast af upplýsingu og vísindum. Hins vegar hafi menn á þeim tíma rannsakað mál með því að yfirheyra vitni í trúnaði á bak við luktar dyr, en þær aðferðir hafi ekki staðist dóm reynslunnar og verið aflagðar. Það sama gildi um samlíkingar sínar við galdrarannsóknir og athuganir í fortíðinni á því hverjir væru kommúnistar. Staðreyndin sé sú að í báðum tilvikum hafi verið beitt gölluðum skilgreiningum og gölluðum rannsóknaraðferðum sem hafi ákveðin líkindi við verklag kærenda í málinu.
  • Kærði kveður orðið „flumbrugang" hafa verið viðhaft af sinni hálfu um stjórnsýslu Reykjavíkurborgar en ekki vinnubrögð kærenda.
  • Kærði kveðst standa við þá gagnrýni sína að svo litlar staðreyndir hafi legið fyrir við mat kærenda að útilokað hafi verið að álykta að umbjóðandinn væri sek um einelti. Til þess að brúa bilið milli fyrirliggjandi staðreynda og niðurstöðunnar hafi þurft að beita fjörugu ímyndunarafli eða yfirskilvitlegum gáfum.
  • Kærði telur að tjáningarform og ritstíll sé á meðal þess sem varið sé af 73. gr. stjórnarskrár. Þótt kærendur lesi ákveðið virðingarleysi fyrir störfum sínum út úr stílnum þá verði að hafa það í huga að þeir hafi sjálfir sýnt umbjóðanda kærða mikið virðingarleysi með því að stimpla hana með eineltisstimpli, grafa undan virðingu hennar og starfsheiðri. Ítrekar kærði að ekki hafi dugað neitt minna en að rífa skýrsluna niður með rökum, draga ekkert undan eða skafa af.

Kærði kveðst ekki geta fallist á þá kröfu kærenda að hann verði nafngreindur í úrskurði þar sem það yrði túlkað sem sérstakur áfellisdómur yfir honum umfram það sem gengur og gerist. Á hinn bóginn geri hann engar athugasemdir við að kærandi nafngreini hann í opinberri umfjöllun um málið, enda eigi það brýnt erindi við til almennings.

 

Niðurstaða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 28. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum, sbr. 1. mgr. 14. gr. lögmannalaga.

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna, ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku. Þá skal lögmaður, samkvæmt 2. gr. reglnanna gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Í 5. gr. siðareglnanna er fjallað um þátttöku lögmanna í umræðu í fréttamiðlum eða á öðrum opinberum vettvangi um mál, sem lögmaður hefur eða hefur haft til meðferðar. Samkvæmt ákvæðinu ber honum að virða óskir skjólstæðings síns um að ekki sé fjallað um málið af hans hálfu, en er jafnan rétt að koma á framfæri mótmælum og leiðréttingum við röngum og villandi fréttum af málum.

Í II. kafla siðareglnanna er fjallað um skyldur lögmanns við skjólstæðing sinn. Kemur þar fram í8. gr. að í samræmi við meginreglu 1. gr. skuli lögmaður leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna.  Ber honum að vinna það starf án tillits til eigin hagsmuna, persónulegra skoðana, stjórnmála, þjóðernis, trúarbragða, kynþátta, kynferðis, kynhneigðar eða annarra utanaðkomandi atriða, er ekki snerta beinlínis málefnið sjálft. Í 2. mgr. ákvæðisins segir svo að lögmanni ber að forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum og hefur kröfu til að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn.

Í V. kafla siðareglnanna er fjallað um skyldur lögmanns við gagnaðila. Þar kemur fram í 34. gr. að lögmaður skal sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.

Í 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands er kveðið á um að allir séu frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.
Í 3. mgr. ákvæðisins segir að tjáningarfrelsi megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

 

II.

Að ofan eru rakin þau ákvæði siðareglna og settra laga sem aðilar máls þessa hafa reist málatilbúnað sinn á. Ekki verður fallist á að kærendur þessa máls geti knúið fram úrskurð um að kærði hafi brotið gegn þeim ákvæðum siðareglna sem lúta að skyldum hans við umbjóðanda sinn. Geta þau ekki átt aðild að slíku máli, enda ekkert samningssambands á milli þeirra og kærða. Þá verður að líta svo á að ákvæði V. kafla siðareglnanna um skyldur við gagnaðila geti í þessu máli bæði náð yfir framkomu kærða í garð þess samstarfsmanns umbjóðanda hans sem kvartaði undan framkomu hennar og í garð borgaryfirvalda, en óumdeilt er að yfirmaður hennar gerði athugasemdir við framkomu umbjóðandans á grundvelli stjórnunarheimilda sinna, sem stjórnandi hjá Reykjavíkurborg. Hins vegar verður ekki talið  að þótt kærðu hafi verið fengin af borgaryfirvöldum til að aðstoða yfirvöld þar við úrlausn málsins, sé unnt að líta á þau sem gagnaðila í skilningi siðareglnanna, frekar en aðra þá sem fengnir eru til matsstarfa af ýmsu tagi á vegum gagnaðila. Koma því í máli þessu fyrst og fremst til álita ákvæði siðareglna lögmanna í 1. kafla um góða lögmannshætti almennt.

Nefndin lítur svo á að lög um lögmenn og siðareglur lögmanna veiti nefndinni fullnægjandi lagagrundvöll til að gera athugasemdir við framgöngu kærða í lögmannsstörfum sínum eða til að minna hann á skyldur sínar. Fæst ekki séð að með slíkum athugasemdum séu tjáningarfrelsi kærða settar skorður, en hér þarf ekki að leysa úr því hvort frekari viðurlög á grundvelli 27. gr. lögmannalaga kunni að fela í sér slíkar skorður og hvort þær standist þá ákvæði stjórnarskrár um tjáningarfrelsi.

 

III.

Nefndin fellst á það með kærða að rétt sé að meta orð hans í því samhengi sem þau voru sett fram í. Verða kærendur að sæta því að rannsóknaraðferðir þeirra og niðurstöður um að einstakar persónur hafi gerst sekar um einelti sæti harkalegri gagnrýni og andmælum þeirra sem þannig eru bornir sökum. Þegar umbjóðandi kærða ákvað að ráða sér lögmann, m.a. til að aðstoða sig við að koma andmælum sínum á framfæri, var sömuleiðis eðlilegt að hann brygðist við af festu fyrir hennar hönd. Var honum heimilt að gagnrýna bæði aðferðir og niðurstöður kærðu, án þess að þurfa að halda sig innan marka þess sem þeim sjálfum þótti tilhlýðilegt.

Sumt af því sem kærði setti fram í andmælum sínum gekk mjög langt í að dæma vinnu kærenda hart. Lýsingar á vinnubrögðum sem „víðáttuvitlausum" og fullyrðingar um að kærðu virtust telja sig hafa yfirskilvitlegar gáfur eru dæmi um orðaval sem ekki er til eftirbreytni fyrir lögmenn við lýsingar á matsvinnu eða málavöxtum yfirleitt. Samlíkingin við nornaveiðar sem kærði valdi að taka til samanburðar úr mannkynssögunni er sömuleiðis alræmt dæmi um valdníðslu sem hafði yfirleitt banvænar afleiðingar fyrir þá sem fyrir urðu. Var miður smekklegt að tefla því fram til lýsingar á vinnubrögðum kærenda, enda þótt kærði áréttaði í textanum að líkindin væru bundin við rannsóknaraðferðirnar en ekki aðgerðirnar gegn umbjóðanda hans.

Í ljósi þess sem að ofan er rakið um samhengið sem ummælin voru sett fram í, verður þó varla fullyrt að með þessu hafi kærði gengið svo langt að heiður lögmannastéttarinnar hafi beðið hnekki, sbr. 2. gr. siðareglnanna. Þá fólst ekki í þessu glannalega orðavali að kærði setti fram fullyrðingar um staðreyndir málsins sem hann mátti vita að væru beinlínis ósannar, sbr. 1. gr.  Þá fæst ekki séð að önnur ákvæði siðareglnanna komi til álita. Verður því að hafna því að beita kærða viðurlögum samkvæmt lögum um lögmenn.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, E, hefur ekki gerst brotlegur við lög eða siðareglur lögmanna, með umfjöllun sinni um vinnubrögð og niðurstöður kærenda, Þ, R og sálfræðistofu.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Helgi Birgisson hrl., formaður

Hjördís Harðardóttir hrl.

Grímur Sigurðsson hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson