Mál 16 2015

Ár 2015, fimmtudaginn 31. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 16/2015:

V ehf.

gegn

J hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmannabarst þann 5. október 2015 erindi V ehf. þar kvartað er yfir siðlausri innheimtu reiknings, sóknaraðila, J hrl., sem ekki var samið um fyrirfram. Kemur í kvörtuninni fram að ágreiningur sé með aðilum vegna 600.000 kr. reiknings varnaraðila, sem sóknaraðili hafi þegar greitt, en andmælt.

 

Óskað var eftir greinargerð frá varnaraðila með bréfi, dags. 13. október 2015. Þann 30. október 2015 barst greinargerð varnaraðila. Sóknaraðila var gefinn kostur á að gera athugasemdir við greinargerð varnaraðila með bréfi, dags. 5. nóvember og bárust þær 23. nóvember 2015.Varnaraðila var gefinn kostur á að gera lokaathugasemdir vegna þeirra með bréfi þann 2. desember2015. Þær bárust nefndinni 17. desember og voru kynntar sóknaraðila með bréfi 29. desember.

 

Málsatvik og málsástæður

I

Það er upphaf máls þessa að sóknaraðili er eigandi að landi á Vesturlandi. Á landinu eru nokkrar sumarhúsalóðir. Þegar sóknaraðili eignaðist landið var ritað í kaupsamninginn að   kaupandi gerði sér grein fyrir kvöðum landeiganda vegna sumarhúsabyggðar og yfirtæki þær, en fyrir lægi að vegir og vatnsveita tilheyrandi skipulagðri sumarhúsabyggð skv. samþykktu deiliskipulagi hefðu ekki verið kláruð, væru ekki í lagi og uppfylltu ekki kröfur. Myndi kaupandi sjá um á sinn kostnað að koma þessu í lag í samráði við eigendur sumarhúsalóða á landinu. Umrædd kvöð var sprottin af upphaflegri sölu sumarbústaðalandanna, en um kvöðina, gildi og umfang hennar virðast hafa verið deilur. Aðilaskipti að landinu og einstökum sumarbústaðalóðum, ásamt fleiri löggerningum virðast fremur hafa flækt réttarstöðuna varðandi skyldur landeigandans en einfaldað.

 

Eigendur umræddra sumarbústaðalanda stefndu sóknaraðila og kröfðust þess að honum yrði með dómi gert skylt að leggja til vatnslögn að lóðarmörkum hverrar lóðar í sumarhúsabyggðinni og leggja vegi í samræmi við gildandi deiliskipulag. Stefndu leituðu upphaflega til B hdl. Hann fékk G til að taka málið að sér. Málið tapaðist í héraði og er dómur héraðsdóms upp kveðinn 18. júlí 2014. Samkvæmt frásögn sóknaraðila gerði G honum 4.000.000 króna reikning vegna málsins. Þá var sóknaraðili dæmdur til að greiða gagnaðilum sínum 1.500.000 kr. í málskostnað.

 

Eftir að niðurstaða héraðsdóms lá fyrir ráðfærði sóknaraðili sig á nýjan leik við B um hugsanlega áfrýjun málsins. Varð úr að leitað var til varnaraðila um að taka það verkefni að sér. Aðilar eru sammála um að í upphafi hafi verið rætt um hugsanlegan kostnað vegna málsins, en nokkuð ber á milli um hvað var sagt um þau efni. Varnaraðili kveðst hafa verið afdráttarlaus um að kostnaður hans yrði um 1.000.000 kr. auk virðisaukaskatts og töluverðs útlagðs kostnaðar. Sóknaraðili kveður varnaraðila hins vegar hafa sagt að kostnaður sinn yrði örugglega lægri en reikningur G fyrir að reka málið fyrir héraðsdómi. Ágreiningslaust er hins vegar að enginn skriflegur samningur var gerður um gjaldtöku fyrir verkefnið.

 

Varnaraðili tók svo til við áfrýjun málsins. Fékk hann mann til að gera ágrip og aflaði gagna frá héraðsdómi. Þá skrifaði hann áfrýjunarstefnu og greinargerð og sendi til sóknaraðila. Sóknaraðilar töldu greinargerðina ekki endurspegla afstöðu sína til ágreiningsins. Varnaraðila bárust í framhaldi af því athugasemdir við greinargerðina frá G. Var hann ósáttur við það, enda taldi hann frammistöðu G í héraðsdómsmálinu vera með þeim hætti að réttara væri að hann héldi sig til hlés. Varð úr að samstarfi aðila lauk á þessum tímapunkti, en sóknaraðili fékk annan lögmann, E hrl., til að annast flutning málsins fyrir Hæstarétti.

 

Sóknaraðili hafði greitt 465.416 kr. vegna útlagðs kostnaðar við málsgögn. Varnaraðili gerði honum nú reikning fyrir 600.000 kr. til viðbótar, auk 25,5% virðisaukaskatts, vegna starfa sinna að áfrýjun málsins. Er sá reikningur dagsettur 26. ágúst 2014. Neitaði varnaraðili beiðnum sóknaraðila um að fá gögn málsins afhent, nema honum yrði greiddur reikningurinn að fullu. Varð úr að sóknaraðili greiddi reikninginn og sendi varnaraðila andmæli sín og fékk þá gögnin afhent.

 

Dómur Hæstaréttar í málinu var kveðinn upp 12. mars 2015. Varð niðurstaðan sú að málinu var vísað frá héraðsómi vegna þess sem rétturinn taldi óljósan málatilbúnað af hálfu gagnaðilanna. Var sóknaraðila þessa máls jafnframt dæmdur 1.200.000 kr. málskostnaður á báðum dómstigum úr þeirra hendi.

 

II

Sóknaraðili krefst þess að reikningur varnaraðila sæti endurskoðun og að varnaraðila verði gert að endurgreiða honum það sem ofgreitt hefur verið.

 

Sóknaraðili kveður varnaraðila aldrei hafa skilgreint tímagjald og hvorki hafa áætlað útlagðan kostnað né heildarkostnað af málinu. Hafi enginn samningur verið gerður vegna verksins.

 

Þegar ljóst hafi verið orðið að aðilar þessa máls ættu enga samleið í málarekstrinum fyrir Hæstarétti, hafi hann óskað eftir því að fá afhent þau gögn sem hann hafi fengið borgað fyrir þar sem kærufrestur hafi verið að renna út. Varnaraðili hafi neitað að afhenda þessi gögn nema honum yrði greiddur reikningur að fjárhæð  kr. 600.000 til viðbótar auk vsk.  Hafi engin tímaskýrsla fylgt reikningi eða nokkrar skýringar á því fyrir hvað skyldi greitt. Hafi sóknaraðili neitað að láta kúga fé af sér með þessum hætti, en að lokum greitt undir andmælum, til að fá afhent þau gögn sem hann hafði þegar greitt fyrir. Sóknaraðili telur reikning kæranda óhæfilega háan þótt hann hafi ekki forsendur til að meta hæfilega þóknun þar sem hann hafi ekki upplýsingar um hvaða vinna eða þjónusta liggi að baki reikningnum.

 

Að fenginni greinargerð varnaraðila, gerði sóknaraðili nokkuð ítarlegar grein fyrir sinni hlið málsins en í upphaflegri kvörtun sinni. Lýtur sumt að því að flutningi máls hans fyrir héraðsdómi, en það hefur ekki þýðingu fyrir úrlausn þessa máls. Sóknaraðili kveðst hafa spurt varnaraðila um áætlaðan kostnað við að reka málið fyrir Hæstarétti. Hafi varnaraðili svarað að málið myndi örugglega kosta minna en það sem G tók fyrir að reka málið í héraði.

 

Í athugasemdum sínum við greinargerð varnaraðila áréttar sóknaraðili að honum sé með henni fyrst gert ljóst að umræddur reikningur sé vegna 40 stunda vinnu við undirbúning málsins fyrir Hæstarétti. Hafi varnaraðili aldrei fyrr rætt um tímafjölda eða tímagjald og sé engar slíkar upplýsingar að finna á umræddum reikningi.

 

Þá sé ljóst að varnaraðili hafi ráðið fólk til að vinna með sér að málinu, en ekkert liggi fyrir um umfang starfa þeirra eða tímagjald. Hafi sóknaraðili aldrei veitt varnaraðila heimild til að ráða aðra samstarfsmenn að verkinu.

 

Sóknaraðili telur nauðsynlegt að skoða af hverju það hafi tekið varnaraðila 40 tíma að kynnast málinu og skrifa greinargerð, m.a. í ljósi þess að hann hafi sjálfur gert athugasemd við reikning G sem of háan. Bendir sóknaraðili á að E hrl. sem tók við málinu, hafi á 40 tímum kynnt sér málið, skrifað greinargerð, lagað hana eftir athugasemdum sóknaraðila, heimsótt jörðina, kynnt sér vegi og vatnsveitulangir, farið á önnur sumarhúsasvæði til að bera saman ástand vega, tekið viðtöl við vitni á staðnum, haldið fund með fyrri eiganda jarðarinnar, flutt málið fyrir dómi og unnið.

 

Varnaraðili hafi ekki haft þau með í ráðum við ritun greinargerðarinnar. Hann hafi ekki viljað taka tillit til athugasemda sóknaraðila, sem hafi talið að það kynni að stafa af tungumálaörðugleikum. Hafi sóknaraðili því fengið G  til að hringja í varnaraðila til að útskýra breytingartillögurnar. G hafi svo raunar tekið sér það bessaleyfi að leiðrétta og bæta inn í greinargerð varnaraðila án þess að sóknaraðili hafi falið honum það. Hafi varnaraðili reiðst við. Hafi þessir tveir lögmenn ekkert getað unnið saman, eins og sóknaraðili hafði hugsað sér.

 

Ágreiningurinn hafi komið upp aðeins nokkrum dögum áður en frestur til að skila greinargerð og ágripum til Hæstaréttar hafi runnið út. Þremur dögum áður en fresturinn rann út hafi varnaraðili enn neitað að afhenda bækurnar nema hann fengi greidda uppsetta þóknun.

 

Sóknaraðili bendir á að málskostnaður sinn í héraði hafi numið 4.000.000. Hann hafi svo greitt varnaraðila alls 1.218.000 en E 1.300.000. Hæstiréttur hafi hins vegar dæmt honum 1.200.000 í skaðabætur vegna málskostnaðar á báðum dómstigum.

 

III

Í greinargerð sinni rekur varnaraðili í grófum dráttum samskipti sín við sóknaraðila og hvernig mál hans horfði við honum. Hann  kveðst hafa tekið skýrt fram að kostnaður sinn af áfrýjun málsins yrði nálægt 1.000.000 auk vsk., auk þess sem töluverður útlagður kostnaður myndi hljótast af málinu.  Hann hafi fengið starfsstúlku til að taka saman ágrip og hafi það verið 408 síður. Á þeim tímapunkti hafi verið haldinn annar fundur um málið og hafi sóknaraðili verið tvístígandi með framhaldið, m.a. vegna kostnaðar. Hafi þó verið ákveðið að halda áfram og greinargerð rituð. Það hafi flækt málið að sóknaraðilar vildu að G fylgdist með vinnunni og legði lið. Þessu hafi varnaraðili verið ósammála. Vísar varnaraðili í þessu samhengi til athugasemda héraðsdóms við málatilbúnað G.  Málið hafi farið í hnút vegna þessa ágreinings um afskipti G og athugasemdir við vinnu varnaraðila. Sóknaraðili hafi því falið öðrum lögmanni málið. Varnaraðili telur að gjaldtaka sín að fjárhæð 600.000 hafi verið í fullu samræmi við það sem aðilar höfðu talað um. Fyrir að rita áfrýjunarstefnu, þingfesta málið og skila greinargerð hafi hann tekið kr. 600.000. Hann hafi varið miklum tíma í málið og sé varlegt að 40 stundir hafi farið í málið fyrir utan þá fundi sem voru haldnir um það. Sé greinargerð sín vel unnin og skýr, enda þótt málið hafi í grunninn verið efnismikið og sérlega ruglingslegt.

 

Varnaraðili telur það algjöra fásinnu af hálfu varnaraðila að halda því fram að engu hafi verið slegið föstu um kostnað af málinu. Hafi kostnaðurinn einmitt verið mjög ítarlega ræddur í samhengi við mat á framhaldi málsins. Varnaraðili telur að upphafleg kostnaðaráætlun sín hefði staðist ef hann hefði klárað málið.

 

Varnaraðili telur eðlilegt að gert sé upp við lögmann þegar mál sem hann hefur unnið er tekið úr höndum hans og falið öðrum. Hafi engin kúgun falist í því, enda sóknaraðila í lófa lagið að gera athugasemdir við reikning eða greiða með fyrirvara. Engar athugasemdir hafi hins vegar komið fram við gjaldtökuna fyrr en með máli þessu. Varnaraðili bendir auk þess á að hann hafi verið í mjög þröngri stöðu við uppgjör við sóknaraðila. Upp hafi verið kominn algjör trúnaðarbrestur. Sóknaraðili hafi staðið í málaferlum og hefði málið tapast, hefði gjaldþrot blasað við honum. Þá hafi varnaraðili ekkert þekkt til sóknaraðila.

 

Niðurstaða

I

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Kröfur sóknaraðila eru alfarið fjárhagslegs eðlis og er litið svo á að málið sé eingöngu rekið á grundvelli 26. gr.

 

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

 

Í 15. gr. siðareglna lögmanna segir að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

 

Samkvæmt 16. gr. siðareglnanna er lögmanni rétt að halda í sínum vörslum skjölum og öðrum gögnum, er hann hefur móttekið í tengslum við mál skjólstæðings síns, uns skjólstæðingur hefur gert lögmanni full skil á útlögðum kostnaði og þóknun samfara því máli samkvæmt útgefnum reikningi. Haldsréttur lögmanns gildir þó ekki samkvæmt annarri málsgrein ákvæðisins, ef hald gagna veldur skjólstæðingi réttarspjöllum, sem ella verður ekki afstýrt.

 

II

Gögn málsins bera með sér að um var að ræða allflókið dómsmál. Ýmsir löggerningar höfðu verið gerðir varðandi þá skyldu sem málið snerist um. Að málssókninni stóð stór hópur lóðaeigenda, sem hafði fengið umræddar lóðir keyptar með fjölda löggerninga, sem ekki voru samhljóða. Krafan studdist við ummæli í greinargerð með breytingu á skipulagi, en fékk einnig stuðning af löggerningi sem færði fasteign sóknaraðila í hans hendur.  Um ástanda vega og vatnslagna virðast ekki hafa legið fyrir aðgengilegar upplýsingar. Reyndi á ýmis réttarfarsatriði í málinu, auk þess sem fjallað var um gildi og þýðingu margs konar löggerninga, sem gerðir höfðu verið.

 

Þegar hæstaréttarlögmanni er falin áfrýjun héraðsdóms, felst almennt í því að hann grípi til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar eru vegna Hæstaréttarmálsins. Í því felst að hlutast til um að framburðir vitna séu ritaðir upp og að öll nauðsynleg gögn séu tekin saman í ágrip, samkvæmt leiðbeiningum Hæstaréttar. Verður talið að varnaraðila hafi verið rétt að stofna til þess kostnaðar sem af þessu hlaust, f.h. umbjóðanda síns og að endurkrefja um kostnaðinn. Er þarflaust að fjalla frekar um þennan þátt gjaldtökunnar.

 

Í málinu nýtur við áfrýjunarstefnu og greinargerðar sem varnaraðili hafði skrifað þegar slitnaði upp úr samstarfi aðila. Þessi gögn bera með sér að varnaraðili hafði sett sig ítarlega inn í mál sóknaraðila. Er framsetningin á málstað áfrýjanda í þessum skjölum fyllilega frambærileg að mati nefndarinnar, hvað sem líður ágreiningi aðila um einstök atriði.

 

Í máli þessu liggur ekki fyrir neinn skriflegur samningur um þá þjónustu sem varnaraðili veitti sóknaraðila eða gjaldtöku vegna hennar. Varnaraðili hefur ekki lagt fram gjaldskrá eða tímaskrá. Í greinargerð hans kemur fram að hann telur sig hafa unnið a.m.k. 40 tíma í málinu, auk fundahalda. Þóknunin virðist þó öðru fremur byggja á áætlun þess efnis að meðferð málsins fyrir Hæstarétti kostaði um 1.000.000 og að varlegt sé að áætla að 600.000 kr. af kostnaði vegna vinnu sé fram kominn við skil greinargerðar.

 

Að framan eru rakin þau ákvæði sem gilda um skyldur lögmanna til að upplýsa umbjóðendur um gjaldtöku sína. Í þeirri deilu sem hér er komin upp verður varnaraðili að bera hallann af því að hafa ekki tryggt sér sönnun um þá kostnaðaráætlun sína, sem hann kveður aðila hafa gengið út frá við áfrýjun málsins og hafi miðað við 1.000.000 auk vsk. í málflutningsþóknun. Verður hún því ekki lögð til grundvallar. Ekki hefur heldur verið litið svo á að málskostnaður sem dæmdur er úr hendi gagnaðila fyrir dómstólum feli í sér fullnaðargreiðslu vegna vinnu lögmanns. Fullyrðing varnaraðila um að vinna hans vegna málsins hafi numið a.m.k. 40 stundum kemur heldur ekki að neinu haldi við úrlausn málsins, þar sem henni fylgdi engin tímaskýrsla og raunar engin umfjöllun um hvernig þessum tíma hefði í stórum dráttum verið varið í þágu málsins.

 

Verður hér að meta að álitum hæfilegt endurgjald varnaraðila ber að fá í málflutningslaun fyrir Hæstarétti.Verður við þá úrlausn að líta til fyrrgreindra ákvæða 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og þeirrar meginreglu kröfuréttar sem meðal annars kemur fram í lokamálslið 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sbr. dóm Hæstaréttar í máli 481/2011.

 

Við það mat þarf að leggja mat á ýmislegt það sem fyrir liggur um umfang málsins. Dómar héraðsdóms og Hæstaréttar í málinu sýna glögglega að málið var snúið og í því reyndi bæði á ýmis réttarfarsatriði og fjölda löggerninga. Er ekki að efa að alltímafrekt hefur verið að setja sig inn í málið. Málatilbúnaður gagnaðila var með þeim hætti að óhjákvæmilegt var að tefla fram vörnum á fleiri en einum grundvelli og var enda bæði krafist frávísunar og sýknu í greinargerð varnaraðila og ýmsum málsástæðum teflt fram.

 

Fyrir liggur hvert var endurgjald þess lögmanns sem tók við málinu og þykir mega hafa til nokkurrar hliðsjónar að  endurgjald til varnaraðila nemi eðlilegu hlutfalli af því.

 

Að vandlega virtum þeim gögnum, sem lögð hafa verið fram, telur nefndin að hæfilegt endurgjald fyrir að rita áfrýjunarstefnu og greinargerð í umræddu dómsmáli sé um 600.000 kr. auk virðisaukaskatts. Þessi niðurstaða felur í sér að sú þóknun sem varnaraðili áskildi sér vegna starfa sinna í þágu sóknaraðila og hefur þegar innheimt, var hæfileg. Heppilegra hefði þó verið að ganga þannig frá grundvelli gjaldtökunnar fyrirfram að ekki léki á tveimur tungum hvernig þóknun skyldi reiknuð.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilin þóknun varnaraðila, J hrl., vegna starfa hans í þágu sóknaraðila, V ehf., felur í sér hæfilegt endurgjald. Endurgjaldið er að fullu greitt. Endurgreiðslukröfu sóknaraðila er hafnað.

 

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

 

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson