Mál 2 2015

Ár 2015, fimmtudaginn 2. júlí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

 

Fyrir var tekið málið nr. 2/2015:

A hrl.

gegn

G hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 28. janúar 2015 erindi A hrl., þar sem kvartað er yfir broti G  gegn reglum í 30. gr. siðareglna lögmanna. Lýtur kæran að því að kærði hafi hótað því að gera kæranda persónulega ábyrgan fyrir því tjóni sem umbjóðandi kærða kynni að verða fyrir ef kærandi setti fram kröfu um gjaldþrotaskipti á umbjóðendum kærða.

 

Óskað var eftir greinargerð frá kærða með bréfi dagsettu 29. janúar og barst nefndinni svarbréf hans 5. febrúar 2015. Þar kemur fram að kærði hygðist ekki svara kærunni efnislega, en vísaði til bréfs síns sem fylgdi kærunni, auk þess að gera stuttar athugasemdir. Var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna þessa fyrir 16. mars. Frekari athugasemdir hafa ekki borist vegna málsins. Á fundi nefndarinnar 17. apríl 2015 var ákveðið að óska eftir því við kæranda að hann legði fram upphaf bréfaskipta aðila og bárust umbeðin gögn þann 12. maí 2015.

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Málsatvik eru þau að kærandi beindi greiðsluáskorun að Valitor hf. f.h. tveggja umbjóðenda sinna þann 15. desember 2014. Greiðsluáskorunin var sett fram með hliðsjón af 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti, en hún kveður á um að lánardrottinn geti krafist þess að bú skuldarans verði tekið til gjaldþrotaskipta að því skilyrði fullnægðu „að skuldarinn hafi ekki innan þriggja vikna orðið við áskorun lánardrottins, sem birt hefur verið honum eftir sömu reglum og gilda um birtingu stefnu í einkamáli, um að lýsa því skriflega yfir að hann verði fær um að greiða skuld við hlutaðeigandi lánardrottin þegar hún fellur í gjalddaga eða innan skamms tíma ef hún er þegar gjaldfallin".

 

Svaraði kærði greiðsluáskoruninni þann 30. desember 2014. Benti hann þar meðal annars á að fjárkrafan styddist hvorki við dómi né annars konar viðurkenningu af hálfu Valitor dómsmál hefði ekki verið höfðað til innheimtu hennar. Krafan væri með öllu ósönnuð og umrædd félög væru ekki lánadrottnar Valitors í skilningi 65. gr. GÞL. Var fjárkröfunni harðlega mótmælt. Þá rakti kærði í bréfi sínu tilurð 5. tl. 2. mgr. 65. gr. GÞL og rökstuddi að krafa kærandi gæti ekki verið grundvöllur undir beitingu ákvæðisins. Þá varaði hann við því að héldu forsvarsmenn félaganna tveggja áfram á þeirri braut sem þeir hefðu markað með greiðsluáskoruninni og yrði slíkt til að skaða orðspor og hagsmuni Valitors hf. myndi félagið gera þá ábyrga sem að baki atlögunni stæðu.

 

Kærandi sendi kærða svarbréf þann 5. janúar 2015. Þar fullyrti kærandi að bréf kærða geymdi ekki svör sem fullnægðu skilyrðum ákvæðisins og varaði við því að til þess kynni að koma að farið yrði fram á gjaldþrotaskipti yfir Valitor hf. vegna þessa.

 

Kærði svaraði með bréfi dagsettu 10. janúar 2015. Er kvörtun kæranda reist á efni þess bréfs. Kærði rekur í bréfi þessu tilurð og efni 5. tl. 2. mgr. 65. gr. GÞL. Þá dregur kærði í bréfinu þá ályktun af lögskýringargögnum að það hafi ekki verið tilgangurinn með því að bæta ákvæðinu í lögin „að opna nýja og almenna leið fyrir kröfuhafa til að setja aðila í þá stöðu að þurfa að verjast gjaldþroti á grundvelli óljósra einhliða krafna, eins og reyndin er með þær kröfur sem umbjóðendur þínir hafa haft uppi á hendur Valitor hf." Þá kemur fram að kærði taldi umræddar fjárkröfur hreinan tilbúning og að kæranda væri augljós þörf á að fá dóm fyrir kröfu sinni, ætlaði hann sér að innheimta hana. Krafan væri auk þess, hvað sem öðru liði, ógjaldfallin.

 

Lokakafli bréfs kærða er svohljóðandi „Verði af þeirri hótun þinni fyrir hönd umbjóðenda þinna að leggja fram kröfu um gjaldþrotaskipti á hendur Valitor hf. munt þú persónulega og forsvarsmenn þeirra félaga og félögin sjálf verða gerðir ábyrgir in solidum fyrir öllu því tjóni sem Valitor hf. og hluthafar félagsins kunna að verða fyrir vegna þess að krafa um gjaldþrotaskipti er sett fram." Þá er ennfremur fjallað um þau áhrif sem krafa um gjaldþrotaskipti kunni að hafa á félagið o.fl.

 

II.

Kærandi krefst þess að úrskurðarnefnd lögmanna beiti kærða viðeigandi viðurlögum í samræmi við 43. gr. siðareglna lögmanna. Telur kærði að hin tilvitnuðu ummæli feli í sér brot gegn 30. gr. siðareglnanna. Þá vísar kærandi til úrskurðar nefndarinnar í máli frá árinu 2013 um að kærði hafi áður brotið af sér með sama hætti.

 

III.

Nefndinni hefur ekki borist heildstæð greinargerð vegna málsins frá kærða þar sem fjallað er um þá háttsemi sem honum er borin á brýn í kærunni. Á hinn bóginn vísar kærandi í svarbréfi sínu til bréfs síns frá 10. janúar 2015 og bendir á að lögmenn geti orðið bótaskyldir. Séu lögmenn varla svo heilagir að ekki megi minna þá á að gerðir þeirra geti leitt til bótaskyldu.

 

Niðurstaða

 

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum. 43. gr. siðareglna lögmanna er á þessu reist og kveður á um að úrskurðarnefnd lögmanna geti veitt einstökum félagsmönnum áminningar eða beitt strangari viðurlögum

 

Í 1. gr.  siðareglna lögmanna kemur fram að lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Í 27. gr. reglnanna segir að lögmaður megi einungis hafa uppi gagnrýni á störfum annars lögmanns á málefnalegum grundvelli, og skuli forðast að valda honum álitsspjöllum umfram það, sem málefnið gefur ástæðu til.

Þá segir í 30. gr. siðareglnanna að lögmaður megi ekki hóta lögmanni gagnaðila kæru eða lögsókn í því skyni að fá hann til að aðhafast eitthvað eða láta eitthvað ógert í máli gagnaðila.

 

Þegar kærandi gaf til kynna að hann myndi krefjast gjaldþrotaskipta á umbjóðanda kærða, án þess að hafa í höndum gjaldfallna eða aðfararhæfa kröfu á hendur honum, þrátt fyrir ábendingar kærða um að það væri ólögmætt og gæti skaðað valdið tjóni, var hann kominn á ystu nöf þess sem honum var heimilt samkvæmt fyrrgreindri 1. gr. siðareglna lögmanna. Jafnvel þótt málatilbúnaðurinn hafi verið settur fram fyrir hönd umbjóðenda hans og á þeirra ábyrgð, gat aðkoma hans að svo harkalegri framgöngu á svo veikum grunni mögulega kallað á frekari afleiðingar en almennt gildir þegar lögmenn koma fram fyrir hönd umbjóðenda sinna. Verður að leggja til grundvallar að eins og málið horfði við kærða hafi kærandi sett fram hótun um framlagningu beiðni um gjaldþrotaskipti, sem ekki var útilokað að varðaði hann í reynd bótaskyldu. Var kærði þannig í óvenjulegri aðstöðu gagnvart kæranda þegar hann varaði hann við því að bótakrafa gegn honum sjálfum kynni að verða sett fram. Telur nefndin því að framganga kæranda sjálfs setji bréf kærða frá 10. janúar 2015 í töluvert annað samhengi en almennt er uppi í kærumálum vegna 30. gr. siðareglna lögmanna, þ.á.m. í því máli sem kærandi vísar til.

 

Hvað sem framgöngu kæranda leið, fær hún þó ekki haggað því að kærða bar að gera skýran greinarmun á umbjóðendum kæranda og honum sjálfum. Orðalagið í orðsendingu kærða var harkalegt og fól ekki í sér neinn fyrirvara um raunverulega aðkomu kæranda að ákvörðunum um framlagningu gjaldþrotaskiptabeiðni. Er í orðsendingunni ekkert vikið að því á hvaða grunni bótaskylda kæranda gæti byggst, heldur látið við það sitja að samsama hann umbjóðendum sínum fyrirvaralaust. Mátti kærði ekki freista þess að fá kæranda til að laga málatilbúnað sinn fyrir hönd umbjóðendanna að eigin hagsmunum af því að komast hjá lögsóknum kærða. Af þessum sökum verður talið að orðsendingin hafi falið í sér brot gegn 30. gr. siðareglna lögmanna.

 

Með tilliti til þeirrar óvenjulegu aðstöðu sem kærandi skóp með framgöngu sinni og fyrr er rakin, verður hins vegar látið við það sitja að gera aðfinnslu við að kærði skyldi beina aðvörunum sínum um bótaskyldu að kæranda jafnframt umbjóðendum hans.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sú háttsemi kærða, G hrl. að lýsa því yfir að kærandi, A hrl., yrði gerður persónulega ábyrgur ef hann krefðist gjaldþrotaskipta á búi umbjóðanda kærða, er aðfinnsluverð.

 

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Þ. Snævarr hrl.

 

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson