Mál 4 2015

Ár 2015, fimmtudaginn 2. júlí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

 

Fyrir var tekið málið nr. 4/2015:

D og I

gegn

G hrl.

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 2. febrúar 2015 erindi kærenda, D og I, þar sem kvartað var yfir störfum G hrl. sem réttargæslumanns dætra þeirra í sakamáli, auk skyldra starfa.

Óskað var eftir greinargerð frá kærðu um erindið þann 6. febrúar 2015 og var það erindi ítrekað með bréfi 25. mars 2015. Greinargerð kærðu barst 7. apríl 2015. Kærendum var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærðu og bárust athugasemdir þeirra  þann 18. maí 2015. Lokaathugasemdir kærðu bárust þann 4. júní 2015.

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Málsatvik eru þau að snemma árs 2013 barst barnaverndaryfirvöldum tilkynning um að tvær ólögráða dætur kærenda hefðu sætt kynferðisbroti af hálfu gestkomandi manns að heimili sínu. Var kærendum tilkynnt um þetta 25. febrúar 2013. Daginn eftir var ákveðið í símtali á milli starfsmanns barnaverndaryfirvalda og kærenda að fara þess á leit að kærða yrði skipuð réttargæslumaður brotaþola vegna málsins. Gekk það eftir og var hún skipuð réttargæslumaður þann 27. febrúar, en skýrslutaka af brotaþolum fór fram 14. mars. Ræddi kærða þá við kærendur og stúlkurnar. Kveður kærða að þá hafi komið fram af hálfu stúlknanna að þær teldu kærendur ekki hafa staðið með sér sem skyldi og m.a. leyft meintum brotamanni að koma á heimilið eftir að þær skýrðu frá meintum brotum hans. Þá hafi komið fram hjá þeim að þær vildu gera bótakröfur í málinu.

Þann 11. apríl 2013 ritaði kærða sýslumanninum á Selfossi bréf og greindi frá því að þar sem brotaþolar í málinu væru ólögráða yrði bótakrafa í málinu sett fram af hálfu fyrirsvarmanna fyrir þeirra hönd. Sú staða væri hins vegar uppi í málinu að meintur brotamaður í málinu væri sonur vinahjóna kærenda og jafnframt þroskaskertur.  Myndu þau ekki setja fram bótakröfu fyrir hönd dætra sinna í málinu.  Í ljósi þess hlutverks síns sem réttargæslumanns að setja fram einkaréttarkröfu í sakamálinu, óskaði kærða eftir því að hún yrði skipaður lögráðamaður ad hoc til að geta sett bótakröfuna fram fyrir hönd barnanna. Kveðst kærða hafa farið yfir þetta fyrir fram með kærendum og þau verið sátt við þessa skipan mála, en kærendur hafna því. Segjast þau í greinargerð sinni ætíð hafa talið rétt að fara varlega í málinu vegna þess hve málið gegn brotamanninum virtist miklum vafa undirorpið. Féllst sýslumaður á þessa beiðni kærðu og skipaði hana lögráðamann beggja stúlknanna ad hoc þann 24. apríl 2013 í þessu skyni. Kærða setti fram einkaréttarkröfu fyrir hönd barnanna þann 28. maí 2013.

Á meðan kærða vann að gerð einkaréttarkröfunnar hafði lögreglumaður sem vann að rannsókn málsins samband við hana og spurðist fyrir um nafn sálfræðings sem börnin hefðu gengið til. Svaraði kærða því svo að hún hefði ekki nafn viðkomandi en þyrfti að kanna það hjá foreldrunum (kærendum). Lögreglumaðurinn svaraði með því að senda kærðu nafn sálfræðingsins og upplýsti jafnframt að hann væri búinn að upplýsa sálfræðinginn um stöðu kærðu sem réttargæslumanns svo viðkomandi ætti að vera ljóst að óhætt væri að ræða við hana. Óskaði kærða eftir því við sálfræðinginn með bréfi 26. júní 2013 að hún léti í té vottorð eða greinargerð um þá meðferð sem systurnar hefðu verið í, að svo miklu  leyti sem sú meðferð lyti að meintu broti sakborningsins gegn þeim, enda teldi kærða slíkt vottorð nauðsynlegt til að fylgja bótakröfunum eftir fyrir dómi.

Kærendum var tilkynnt um þessa ad hoc skipan og brugðust þau við með því að kæra hana til innanríkisráðuneytisins í júní 2013. Felldi ráðuneytið skipunina úr gildi með úrskurði þann 28. nóvember 2013 og lagði fyrir sýslumann að taka beiðni kærðu um skipan lögráðamanns ad hoc til meðferðar á nýjan leik.

Samkvæmt gögnum málsins virðist það síðan hafa verið þann 2. maí 2014 sem sýslumaður boðaði kærendur til sín í fyrirtöku til að taka á ný fyrir beiðni kærðu um skipan ad hoc. Lýstu þau sig andsnúna skipaninni og urðu málalyktir þær að beiðni kærðu um skipan ad hoc var synjað af sýslumanni við þessa síðari málsmeðferð.

Við fyrirtökuna 2. maí 2014 kveðast kærðu hafa verið upplýst um hugsanlegan bótarétt dætranna hjá bótanefnd. Hafi þau þá grafist fyrir um hvort bótakrafa vegna dætra þeirra hafi borist nefndinni, en þá komið í ljós að svo var ekki. Jafnframt kveðast þau þá hafa fengið þær upplýsingar að málið væri við það að fyrnast.

Kærendur óskuðu þess við héraðsdóm 22. maí 2014 að skipt yrði um réttargæslumann fyrir dætur þeirra. Þann sama dag gaf ríkissaksóknari út ákæru vegna brota gegn annarri dóttur þeirra en ekki hinni. Í ákærunni kom fram að í málinu væri gerð bótakrafa að fjárhæð ein milljón króna, en kærða hafði sett hana fram. Úr varð að stúlkunum var skipaður nýr réttargæslumaður en ekki liggur fyrir á hvaða tímamarki það var gert.

Þann 1. desember 2014 var ákærði sýknaður, þar sem vafi þótti leika á um hvort, hvernig og hvenær umrædd brot hefðu átt sér stað. Var bótakröfunni þar með vísað frá.

 

II.

Kærendur krefjast þess að kærða verði vítt fyrir slaka lögmannshætti, sbr. 1. - 3. gr. siðareglna lögmanna. Verður krafan skilin svo að þess sé krafist að kærða verði beitt aðfinnslu eða áminningu á grundvelli 27. gr. lögmannalaga.

Þá krefjast kærendur þess að Lögmannafélag Íslands beiti sér fyrir því að hlutverk og skyldur réttargæslumanna verði skýrar skilgreint í lögum og reglugerðum en nú er.

Kærendur gera í kvörtun sinni ýmsar aðfinnslur við störf kærðu, auk þess sem þau rekja hvernig óljós staða réttargæslumanns hafi kostað þau fé, fyrirhöfn og leitt til langvarandi óvissu. Í stuttu máli snúast athugasemdir þeirra við störf kærðu að eftirfarandi:

  • Kærða hafi óskað þess að hún yrði skipuð lögráðamaður ad hoc til að setja fram bótakröfu. Telja kærendur að kærða hafi ranglega talið þeim trú um að þarna væri um hreint formsatriði að ræða og alvanalega aðferð, en í ljós hafi komið að með þessu hafi þau verið svipt forsjá dætra sinna. Benda kærendur í þessu sambandi á að mögulegt sé að sá sem krafinn er um bætur geti gert kröfu um þóknun fyrir að verjast kröfunni.
  • Kærða hafi krafið sálfræðing, sem bundinn var ólögráða skjólstæðingum trúnaði, um gögn sem vörðuðu sálfræðimeðferð þeirra. Jafnframt hafi hún rofið trúnað með því að upplýsa barnaverndaryfirvöld um sálfræðinginn.
  • Kærða hafi hvorki sagt sig frá hlutverki réttargæslumanns, né haft nokkurt samband við kærendur eftir að úrskurður ráðuneytisins var kveðinn upp, þar sem felld var úr gildi skipun hennar sem lögráðamanns ad hoc til að setja fram bótakröfu.
  • Kærða hafi ekki hirt um að halda bótakröfunni fram við bótanefnd, jafnvel þótt bótaréttur gagnvart nefndinni hafi verið við það að fyrnast.

 

III.

Kærða bendir í greinargerð sinni á að samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga vísi nefndin kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því kostur var á að koma henni á framfæri. Telur kærða að vel hefði verið unnt að leggja kvörtunina fram fyrir febrúar 2014, þ.e. meira en ári áður en hún kom fram. Verður sá skilningur lagður í þessa ábendingu að þess sé krafist að málinu verði vísað frá nefndinni á þessum grunni.

Kærða krefst þess annars að kvörtuninni verði vísað á bug og kveðinn verði upp úrskurður um að kvörtunin eigi ekki við rök að styðjast.

Kærða kveðst hafa sett fram beiðni um skipan sína sem lögráðamanns ad hoc í fullu samráði við kærendur. Þau hafi ekki viljað standa að slíkri kröfu í ljósi tengsla sinna við meintan brotamann og fjölskyldu hans.

Kærða bendir á að skýrslur meðferðaraðila um meðferð brotaþola séu yfirleitt á meðal þeirra gagna sem lögregla eða ákæruvald afli, enda á meðal þeirra gagna sem geti verið til stuðnings ákæru. Í þessu máli hafi sálfræðingurinn óskað eftir að hún féllist á kröfu lögreglu um vottorð um meðferðina og hafi hún fallist á það, enda um að ræða gögn sem styddu bótakröfu sem hún hefði gert fyrir þessa skjólstæðinga sína. Áréttar kærða í þessu samhengi að stúlkurnar sjálfar hafi haft vilja til að bótakrafa væri gerð, hvað sem vilja foreldranna (kærenda) leið. Þá vísar kærða til lögboðinnar skyldu allra þeirra sem vegna stöðu sinna og starfa hafi afskipti af málefnum barna til að hafa samstarf við barnaverndaryfirvöld. Eigi þetta bæði við um lögreglu og réttargæslumann. Sé í lögum sérstaklega áréttað að gefa skuli barnaverndarnefnd kost á að fylgjast með rannsókn á málum sem varða grun um brot gegn barni.

Í greinargerð kærðu kemur fram að hún hafi ekki verið upplýst um kæruna á skipan sinni sem lögráðamanns ad hoc til Innanríkisráðuneytisins. Henni hafi fyrst verið tilkynnt um það mál af sýslumanni þegar úrskurður ráðuneytisins lá fyrir. Ekkert hafi komið fram hjá sýslumanni um hvert framhald málsins yrði og hafi kærða ekki gengið eftir því, enda hafi hún á því tímamarki verið búin að gera bótakröfuna.

Kærða telur fjarri sanni að bótakröfur umbjóðenda hennar gagnvart bótanefnd hafi verið við það að fyrnast. Telur kærða að ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota hafi verið túlkað þannig að tveggja ára frestur hafi verið talinn frá kæru eða tilkynningu um brot þegar um eldri brot er að ræða.

Samantekið telur kærða að hún hafi innt starf sitt sem réttargæslumaður af hendi af fyllstu vandvirkni og heilindum gagnvart umbjóðendum sínum, sem hafi verið umræddar stúlkur en ekki kærendur.

 

Niðurstaða

I.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn getur sá sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi, sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna, lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því kostur var á að koma henni á framfæri, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 27. greinar.

Samkvæmt 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna verður erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina. Að öðrum kosti vísar nefndin erindinu frá.

Sú háttsemi sem kærendur gera athugasemdir við, lýtur m.a. að því að kærða hafi ekki haldið fram rétti dætra kærenda gagnvart bótanefnd, en kærendur kveðast fyrst hafa fengið leiðbeiningar um þennan rétt hjá sýslumanni í maí 2014.  Verður málinu ekki vísað frá á grundvelli þessara ákvæða. Þá telur nefndin að kærendur hafi þá stöðu gagnvart kærðu, sem lögráðamenn umbjóðenda hennar, að þeir geti lagt fram kæru í málinu.

Í máli þessu hafa kærendur gert ítarlega grein fyrir því hvernig þeim þótti skipun sérstaks réttargæslumanns brotaþola hafi orðið þeim til mikilla óþæginda, án þess að séð verði að hún hafi orðið að gagni við vinnslu málsins. Þessum ábendingum verða ekki gerð skil í úrskurðarmáli þessu, en í samræmi við kröfu kæranda verður þeim komið á framfæri við stjórn Lögmannafélags Íslands.II.

Kærendur vísa í kæru sinni til fyrstu þriggja greina í siðareglum lögmanna. Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku. Samkvæmt 2. gr. skal lögmaður skal gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum. Þá skal lögmaður samkvæmt 3. gr. vera óháður í starfi og standa vörð um sjálfstæði lögmannastéttarinnar.

Ekki er að fullu upplýst hvað kærendum og kærðu fór á milli varðandi þá tillögu kærðu að hún yrði skipuð lögráðamaður stúlknanna ad hoc til að unnt yrði að koma fram bótakröfu þeirra án þess að kærendur þyrftu að leggja nokkuð til þess. Áréttað skal í því efni að kærða verður ekki beitt viðurlögum fyrir aðrar yfirsjónir en þær sem sannað þykir að hún hefur gerst sek um. Er ekkert fram komið um að hún hafi beitt kærendur blekkingum að þessu leyti og fæst raunar ekki annað séð en að með þessu móti hafi hún náð því fram að unnt var að leggja fram bótakröfur fyrir hönd barnanna. Enda þótt kærendum þyki nú að að sér hafi verið vegið með þessari skipan og hafi rakið hversu íþyngjandi þeim hafi þótt að fá þessu breytt, hlaut kærða í starfi sínu sem réttargæslumaður að líta fyrst og fremst til hagsmuna barnanna af því að fá bætur fyrir þá háttsemi sem kærð var. Þá er ekki unnt að leggja það til grundvallar að það hafi einfaldlega verið rangt að krefjast bóta, þótt sakamálið hafi endað með sýknudómi. Verður að hafna því að kærða hafi með þessu farið offari eða að í þessu hafi falist einhver meingerð af hennar hálfu.

Úrskurðarnefndin telur að það tilheyri starfi réttargæslumanns brotaþola, þegar um börn er að ræða, að hafa samráð við barnaverndaryfirvöld og lögreglu um að afla gagna um tjón skjólstæðinga sinna, m.a. með því að afla vottorða sálfræðinga eða annarra sem geta upplýst um tjónið. Þegar af þeirri ástæðu verður því hafnað að kærða hafi brotið gegn trúnaðarskyldu sinni með samskiptum við lögreglu, starfsmenn barnaverndaryfirvalda og viðkomandi sálfræðing.

Það voru kærendur sem höfðu forgöngu um að fá skipan kærðu sem lögráðamanns ad hoc fellda úr gildi. Þegar kærða frétti af þeirri ráðstöfun hafði hún þegar skilað bótakröfu og búið var að gefa út ákæru í málinu þar sem krafist var bóta. Í úrlausn ráðuneytisins að þessu leyti fólst ekki sú efnislega afstaða að bótakrafan væri þar með ranglega sett fram, heldur eingöngu að rétt væri að endurtaka málsmeðferðina við að taka afstöðu til beiðni kærðu um skipun hjá sýslumanni. Hefði það verið óforsvaranleg hagsmunagæsla ef kærða hefði vegna niðurstöðu ráðuneytisins haft forgöngu um að afturkalla bótakröfur, en hún var á því tímamarki enn skipaður réttargæslumaður. Það fæst ekki séð að það hafi staðið upp á kærðu að ýta á eftir því að málinu væri ráðið til lykta hjá sýslumanni eða að skipt væri um réttindagæslumann og henni verður ekki um það kennt ef með þessu hefur skapast einhver vafi um hvort bótakröfurnar voru löglega fram settar.

Með lögum nr. 118/1999 var gerð breyting á lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Fólst breytingin eingöngu í því nýmæli að bætt var nýrri 3. mgr. við ákvæði 6. gr. laganna sem fjallar um tímafresti til að leggja fram bótakröfur. Segir í ákvæðinu að víkja megi frá skilyrðum 1. og 2. mgr. 6. gr. um tímafresti þegar veigamikil rök mæli með því. Í frumvarpi til laganna er ákvæðið skýrt svo að það eigi sérstaklega við að víkja frá tímaskilyrðunum þegar brotið er gegn barni, en barn hafi oft ekki náð nauðsynlegum þroska til að gera sér grein fyrir því að um refsivert brot hefur verið að ræða, auk þess sem aðstæður barnsins til að kæra brot kunni að vera erfiðar. Þá segir einnig í greinargerðinni að við ákvörðun um hvort vikið verði frá tímaskilyrðunum verði að meta hvert tilvik fyrir sig. Þó megi gera ráð fyrir að veigamikil rök mæli almennt með því þegar þolendur eru yngri en 18 ára. Í þessu ljósi verður ekki talið að kærendur hafi sýnt fram á að bótakröfur dætra þeirra hafi verið í hættu á að fyrnast í höndum kærðu.

Af öllu því sem að framan er rakið leiðir, að kærða verður ekki talin hafa gengið gegn lögum eða góðum lögmannsháttum í störfum sínum fyrir dætur kærenda. Af gögnum málsins er ljóst að kærendur töldu umrætt sakamál standa á veikum grunni, voru andsnúin því að það væri höfðað og neituðu samvinnu við lögreglu og ákæruvald um það. Þá er sem fyrr greinir fram komið að rekstur málsins reyndist þeim erfiður og að skipan réttargæslumanns fyrir brotaþola hafi ekki orðið til þess að staða þeirra yrði skýr eða einföld. Kærðu verður hins vegar ekki kennt um það að kærendum var t.d. ekki leiðbeint um stöðu sína sem vitni með þeim hætti sem þau telja að rétt hefði verið eða að stjórnsýslukæra á skipan hennar sem lögráðamanns ad hoc var felld úr gildi. Verður kröfum um að kærða sæti viðurlögum hafnað.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærða, G hrl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kærenda D og I, eða dætra þeirra með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson