Mál 5 2015

Ár 2015, föstudaginn . október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 5/2015:

A

gegn

H hdl. og G hdl.

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 5. febrúar 2015 erindi kæranda, A, þar sem kvartað var yfir störfum kærðu, H hdl. og G hdl., að máli kæranda.

Óskað var eftir greinargerð frá kærðu um erindið þann 5. mars 2015. Kærðu skiluðu greinargerð vegna málsins 14. og 15. apríl 2015 og voru þær sendar kæranda með bréfi 27. apríl. Kærandi gerði athugasemdir við þessar greinargerðir með bréfi 29. maí 2015 og voru þær kynntar kærðu með bréfi 5. júní 2015. Lokaathugasemdir kærðu vegna málsins bárust 29. og 30. júní og voru kynntar kæranda með bréfi 6. júlí um leið og tilkynnt var að málið væri tekið til úrskurðar. Auk þessara bréfaskipta sendi kærandi nefndinni tölvuskeyti þann 23. mars og áréttaði að ekki væri um að ræða ágreining um gjaldtöku í málinu. Hún hefði aðeins greitt ákveðna upphæð til húseigendafélagsins en ekki verið krafin um greiðslu af kærðu G.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Rétt er að taka fram að málavaxtalýsingar, eins og annar málatilbúnaður í máli þessu eru mjög miklar að vöxtum og er því þó haldið fram að mjög vanti á að öll samskipti aðila séu þar rakin til fulls. Eru málsatvik hér rakin eins og þau birtast af fram lögðum gögnum og af greinargerðum aðila, að því marki sem sammæli virðist um þau.

Það er upphaf máls þessa að kærandi er eigandi að íbúð í fjölbýlishúsi við Xgötu í Reykjavík. Eftir því sem fram kemur í málatilbúnaði kæranda hefur hún um um alllangt skeið búið við heilsutjón og margháttað annað tjón af völdum útbreidds myglusvepps og raka í fasteigninni.

Hafði kærandi talað um það um nauðsyn þess að grípa til framkvæmda í fasteigninni nokkurt skeið við sameigendur sína þegar hún í maímánuði 2013 leitaði til Húseigendafélagsins eftir aðstoð og leiðbeiningum um hvernig unnt væri að boða löglega til húsfunda og hvað unnt væri að gera til að flýta fyrir framkvæmdum. Fékk hún leiðbeiningar, fyrst hjá S, en síðan hjá kærðu, H hdl., sem starfaði þá hjá félaginu. Í fyrirliggjandi tölvupóstsendingum á milli S og kæranda koma m.a. fram leiðbeiningar um skaðabótaskyldu húsfélags vegna tjóns sem hlýst af vanrækslu á viðhaldi.

Kærandi mun hafa leitað sér lækninga í kring um áramótin 2013/2014 en var í samskiptum við kærðu H um mál sín í húsfélaginu.

Kærandi boðaði til húsfundar í húsfélaginu 19. febrúar 2014 með fundarboði sem samið var í samráði við kærðu H. Á meðal fundarefna í fundarboði var skaðabótakrafa hennar vegna raka í geymslu og fleiri bótakröfur. Samkvæmt þeim tölvupóstum sem lagðir hafa verið fram í málinu hafði kærða H þá hvatt hana til að hætta að bíða eftir viðbrögðum annarra í húsfélaginu og afla þess í stað mats á skemmdum og nauðsyn framkvæmda og knýja þær fram í krafti laga um fjöleignarhús.

Eftir því sem ráða má af gögnum málsins þótti bótakrafa kæranda ekki nægilega studd gögnum á fundinum til að unnt væri að taka afstöðu til hennar þá, en í framhaldi af honum átti kærandi í frekari samskiptum við húseigendafélagið. 

Meðeigendur kæranda að fasteigninni komu í framhaldi af þessu tillögu að sáttum um málið á framfæri við kærðu H á skrifstofu húseigendafélagsins. Óumdeilt virðist að hún hafi þá látið þá vita að kærandi hafði leitað til kærðu G. Er óumdeilt að kærða H taldi henni tilboðið hagfellt og ráðlagði henni að ganga að því. Fékk kærandi tilboðið í hendur og taldi það með öllu óásættanlegt.

Kærandi aflaði sér í framhaldi af þessu frekari gagna um ástandið í íbúð sinni. Um miðjan mars var hún í frekari samskiptum við kærðu H sem tjáði henni þá að hún hefði þegar fengið meiri ráðgjöf og aðstoð frá félaginu en almennt væri miðað við og benti henni á að ráðfæra sig við lögmann.

Kærandi boðaði til annars húsfundar þann 7. maí, að því er virðist án aðstoðar kærðu í máli þessu. Kærandi leitaði til kærðu G vegna máls síns í maíbyrjun 2014, en hún hafði þá áður notið einhverrar aðstoðar annars lögmanns. Í framhaldi af boðun til fundarins höfðu sameigendur hennar samband við húseigendafélagið og vildu freista þess að leita sátta á þeim vettvangi, en húsfélagið var þá orðið aðili að húseigendafélaginu. Hafði kærða H milligöngu í samskiptum félagsins við kæranda vegna þessa, en ljóst virðist að þau samskipti hafa reynst erfið, enda taldi kærandi að kærða H hefði þá þegar tekið að sér ósamrýmanleg hlutverk við hagsmunagæslu í málinu.

Á húsfundinum 7. maí kom fram að sameigendur kæranda í húsinu höfðu fengið leiðbeiningar um stöðu málsins hjá húseigendafélaginu og að þar hefðu þeir jafnframt fengið upplýsingar um að kærandi nyti aðstoðar lögmanns. Í framhaldi af þeim húsfundi settu þeir einnig fram gagntilboð um heildarbætur húsfélagsins til kæranda vegna tjóns sem hún hefði orðið fyrir vegna raka og myglu. Hafði kærða H milligöngu um að senda það tilboð til kæranda og kærðu G þann 6. júní 2014. Tilboðið fól í sér að húsfélagið tæki á sig kostnað við rakamælingu, sýnatöku, múrviðgerð á kjallaraherbergi og málningarvinnu að fjárhæð 76.118 auk málningarkostnaðar sem þá lá ekki fyrir. Einnig 75.000 króna framlag til kæranda vegna hreinsunar á íbúð hennar, en tekið var fram að í því fælist ekki viðurkenning á bótaskyldu vegna þrifa á íbúðinni.

Var kærandi í samskiptum við kærðu G vegna málsins og ræddu þær m.a. í tölvupóstum sín á milli um að hún myndi lesa gögn sem kærandi var að senda henni, um ólögmætar boðanir á húsfundi, sem virðast hafa verið dregnar í land o.fl. Er af samskiptunum ljóst að á borði húsfélagsins voru allmörg mál vegna ýmis konar viðgerða sem rætt var um hvort og hvenær skyldi ráðist í, en virðast flestar eða allar hafa beinst að því að komast fyrir rakamyndun í húsinu. Í þessum samskiptum kemur einnig fram að kærða G stakk upp á því að kærandi myndi skrifa uppkast að áskorun til húsfélagsins og lagði henni til fyrirmynd til þess. Varð samkomulag á milli þeirra um þessa tilhögun.

Fresturinn til að svara tilboði húsfélagsins rann út án þess að því yrði svarað. Kemur fram í fram lögðum tölvuskeytum að til stóð að kærða G svaraði því, en að hún væri í miklum önnum. Þá kemur fram í skeyti hennar þegar fresturinn til að svara því var runninn út að hún hefði ákveðið að svara tilboðinu ekki þar sem þær hefðu hvort sem er ætlað að hafna því. Í framhaldi af þessu lýsti kærandi miklum vonbrigðum með frammistöðu kærðu G. Varð úr að kærða G svaraði þá tilboðinu og gerði grein fyrir þeirri afstöðu að hún gæti fallist á umræddar fjárhæðir en ekki gengið að skilyrði um að falla frá frekari bótarétti vegna raka og myglu. Féll kærandi þá í bili frá hugmyndum sínum um að leita annað eftir aðstoð og voru þær G í samskiptum í framhaldinu, m.a.  varðandi útleigu á fasteigninni.

Kærða H sendi kærðu G annað tilboð sameigendanna í júnílok, þar sem komið var að einhverju marki til móts við mótbárur hennar. Bar kærða G það undir kæranda sem svaraði því svo í tölvuskeyti 30. júní „Ég geng að tilboðinu". Varð úr að þannig lauk uppgjöri vegna þessara skemmda, eftir því sem næst verður komist. Frekari tölvuskeyti kæranda til kærðu G bera með sér þann skilning hennar að hún hafi svo talið að þannig hafi hún samið af sér, en að af fundi þeirra G 3. júlí hafi hún dregið þá ályktun að svo væri ekki, frekari skaðabótakröfur vegna afleidds tjóns gætu verið óuppgerðar. Frekari samskipti þeirra bera svo með sér að þetta atriði var ekki skýrt. Fór svo að kærandi leitaði sér frekari lögmannsaðstoðar annars staðar.

 

II.

Erindi kæranda verður skilið svo að í því felist krafa um að kærðu verði beittar viðurlögum á grundvelli 27. gr. laga um lögmenn.

Kærandi gerir margvíslegar athugasemdir við störf beggja kærðu og reikningsgerð. Hún telur að misfarið hafi verið með hagsmuni sína. Frá upphafi hafi verið skýrt að hún þyrfti að fá bætur frá sameigendum sínum í húsinu vegna viðgerðarkostnaðar á séreign sinni í húsinu, en að auk þess hafi hún þurft að fá bætur fyrir verulegt afleitt tjón vegna heilsutjóns og afnotamissis. Vinnubrögð beggja kærðu hafi hins vegar leitt til þess að hún hafi þegið mjög óverulegar bætur upp í kostnað sinn og óafvitandi afsalað sér rétti sínum til frekari bóta vegna afleidda tjónsins. Kærandi telur að kærðu hafi ekki kynnt sér nægilega gögn málsins og umfang tjónsins áður en þær ráðlögðu henni að fallast á tillögur sameigendanna. Hafi kærða H raunar verið í algjörri villu um grundvallaratriði málsins þegar hún ráðlagði henni að ganga til samninga í marsmánuði 2014.  Kærandi telur að þegar síðasta tilboð sameigendanna kom fram í júní 2014 hafi kærða G rætt við sig um að aðeins væri verið að ræða um uppgjör vegna beina tjónsins. Það hafi verið vegna þessa sem kærandi gekk að þessu tilboði um uppgjör á beina tjóninu. Hún hafi síðar áttað sig á því að með þessu hafi hún líklega fyrirgert rétti sínum til nokkurra frekari bóta.

Kærandi telur að aðkoma H að málinu hafi ekki verið eðlileg. Hún hafi tekið á móti kæranda og unnið að að því að fá húnæðið lagfært og bætur greiddar. Síðan hafi hún neitað að aðstoða sig frekar á þeim forsendum að hún væri búin að eyða of miklum tíma í málið. Þá hafi hún upplýst gagnaðila kæranda um að hún væri með lögmann sér til aðstoðar. Hafi gagnaðilar hennar í deilum um málefni húsfélagsins hagnýtt sér þá vitneskju að kærða nyti aðstoðar lögmanns með þeim hætti að þeir hófu að boða húsfundi um helgar og á kvöldin þegar óhægt var um vik fyrir kæranda að fá lögmann sinn með sér á fundinn. Loks hafi kærða H unnið að málinu þegar gagnaðilarhennar leituðu til húseigendafélagsins, þrátt fyrir að kastast hefði í kekki á milli þeirra í fyrri samskiptum og fengið sig til að samþykkja tilboð þeirra.

 

III.

Kærða H hdl. krefst þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Í lokaathugasemdum sínum vegna málsins setur hún einnig fram frávísunarkröfu sem byggir á því sjónarmiði að þar sem kæranda hafi að eigin sögn verið fullljóst að hún kom ekki fram sem lögmaður hennar heldur aðeins sem starfsmaður Húseigendafélagsins, falli umrædd störf ljóslega utan við lögmannsstörf hennar.

Kærða kveðst hafa starfað hjá Húseigendafélaginu og hafi starf hennar einkum lotið að því að veita félagsmönnum hagnýta aðstoð. Sé við það miðað í gjaldskrá félagsins að félagsmenn geti fengið ákveðna grunnþjónustu hjá félaginu sér að kostnaðarlausu, þ.e. mat á réttarstöðu og ákveðna aðstoð við fyrstu aðgerðir. Sé yfirleitt miðað við 1-4 klukkustunda vinnu við hvert mál. Miðist öll aðkoma við að upplýsa félagsmenn um gildandi lög og rétt. Hafi kærandi fengið þess þjónustu í máli sínu og mjög langt verið gengið í að aðstoða hana með þessum hætti. Eftir að húsfélag hafði verið stofnað og það húsfélag gengið í húseigendafélagið, hafi það einnig átt rétt á sams konar lágmarksaðstoð. Kærða kveðst frá upphafi hafa metið það svo að brýnast væri fyrir kæranda að koma húsfélaginu í skilning um skyldur sínar vegna rakavandamála í húsinu.  Hennar starf hafi þó ávallt falið í sér tilraun til sáttamiðlunar, fremur en hagsmunagæslu fyrir kæranda eða gagnaðila hennar.

Kærða kveður það hafa verið ákvörðun framkvæmdastjóra félagsins að stöðva yrði vinnu félagsins fyrir kæranda. Hafi það verið gert og henni leiðbeint um að leita til lögmanns, eins og raunar hafi gengið eftir.

Kærða kveður gagnaðila kæranda hafa komið á skrifstofu húseigendafélagsins og þá verið í þeirri villu að F væri lögmaður kæranda. Hafi kærða einfaldlega leiðrétt það og sagt þeim sem satt var að kærða G væri tekin við hagsmunagæslu fyrir hennar hönd og rétt væri að beina erindum til hennar. Líti kærða ekki svo á að þar hafi verið um trúnaðarupplýsingar að ræða, enda hafi henni ekki verið kynnt neitt slíkt.

Kærða kveður gagnaðila kæranda hafa samið það samkomulag sem gert var. Hún hafi sjálf ekki haft af því aðra aðkomu en að senda það til kærðu G, fyrir hönd kæranda. G hafi eftir það haft samband við sig um minni háttar breytingar á því og hafi kærða unnið að því með það í huga að allir gætu fallist á það. Aðkomu hennar að málinu hafi lokið með því að hún hafi sent gagnaðilum lokaútgáfu samkomulagsins og síðan tilkynnt kærðu G að allir gagnaðilar myndu samþykkja það.

Kærða segir að ekki hafi verið öðrum starfsmönnum til að dreifa á skrifstofu félagsins, sem hefðu getað tekið að sér vinnu við umrætt deilumál. Kærandi hafi aldrei sett fram neina ósk um að kærða hefði ekki frekari afskipti af málinu og hefi kærða ekki vitað af því að þetta hafi verið afstaða kæranda. Hafi enda þessi afstaða fyrst orðið til eftir að afskiptum hennar lauk, ef marka megi málatilbúnað kæranda.

Kærða kveðst aldrei hafa séð nein gögn sem styddu að kærandi ætti nokkurn rétt á bótum vegna óbeins tjóns. Skemmdirnar hafi verið litlar og aðalatriði málsins hafi verið að fá húsfélagið til að stöðva leka og gera við þær. Telur kærandi að umrætt samkomulag feli í sér sanngjörn málalok fyrir kæranda en tekur þó fram að það hafi ekki verið á sína ábyrgð að taka afstöðu til þess. Hún hafi aðeins haft milligöngu um að koma tilboðinu til lögmanns kæranda.

 

IV.

Kærða G hdl. krefst þess að málinu verði vísað frá, en til vara að kröfum kæranda verði hafnað.

Kærða telur kvörtun kæranda óskiljanlega og málatilbúnaðinn yfirþyrmandi. Sé erfitt að átta sig á því yfir hverju sé í raun kvartað.

Kærða kveðst hafa hitt kæranda í fyrsta sinn þegar hún kom á lögmannsstofuna til að sækja gögn frá fyrri lögmanni sínum. Hafi hún þá rætt stuttlega við kæranda, gert henni grein fyrir  að hún væri að snúa til baka úr veikindaleyfi og væri mjög ásetin á næstunni. Hafi kærandi þegar hafið umfangsmiklar tölvupóstsendingar til hennar þrátt fyrir þetta og hafi þær verið gríðarmiklar að umfangi.  Þegar kærða hafi gengið eftir að fá öll málsins hjá kærðu hafi komið í ljós að þau voru of umfangsmikil til að unnt væri að skanna þau eða setja þau í Dropbox. Hafi verið um að ræða gríðarlegt magn gagna, sem hafi haft mismikla þýðingu og tengingu við málið.

Kærða kveðst hafa ætlað að fylgja kæranda á einn húsfund sem síðan hafi verið aflýst. Aðrir fundir hafi verið boðaðir með mjög skömmum fyrirvara um helgar þegar hún komst ekki á þá með kæranda.

Kærða kveðst hafa leiðbeint kæranda um gagnaöflun vegna tjóns hennar. Hún hafi þó ekki fylgt þeim leiðbeiningum og kærða því ekkert kröfubréf ritað.

Kærða bendir á að í fram lögðum samskiptum þeirra kæranda komi ítrekað fram að kærandi sé ánægð með störf hennar, en inn á milli komi skilaboð um að hún sofi ekki um nætur af áhyggjum og virðist þá jafnvel reyna að koma inn samviskubiti hjá kærðu vegna þess. Hún hafi ítrekað bent kæranda á þann möguleika að fá sér annan lögmann. Kærða hafi ekki getað fylgt kæranda á húsfund 19. júlí og í framhaldi af því frétt að kærandi hefði mætt þar með öðrum lögmanni, sem þó hefði ekki haft samband við kærðu til að fá gögn úr málinu eða til að athuga hvort kærða hefði fengið greitt. Kærða kveðst enn ekki hafa gert kæranda reikning en áskilur sér rétt til að gera það í samræmi við tímaskýrslu sína.

Kærða mótmælir því að hún hafi með nokkru móti „látið" kæranda ganga að tilboði gagnaðila athugasemdalaust og þannig orðið til þess að kærandi afsalaði sér rétti samkvæmt lögum um fjöleignarhús. Hafi kærandi þvert á móti lagt sig fram um að koma sjónarmiðum og kröfum kæranda á framfæri. Hafi kærandi sjálf samþykkt tilboðið eftir að orðalagi þess hafði verið breytt til samræmis við hennar óskir.

 

Niðurstaða.

Gögn máls þessa eru mjög viðamikil. Í þeim er fjallað ítarlega um atriði sem nefndin telur að hafi ekki afgerandi áhrif á niðurstöðu málsins, s.s. um það hvernig herberjaskipan í húsi kæranda er háttað og hvaða hugmyndir kærðu höfðu um hana á einstökum tímamörkum. Þá kemur fram í gögnum málsins og er óumdeilt í greinargerðum aðila, að öll samskipti aðila voru mörkuð af því að mál kæranda lá mjög þungt á henni og hún vildi halda báðum kærðu mjög vel upplýstum, en þeim tókst ekki að fullu að halda í við kæranda í samskiptunum og leiddi þetta til tímabundinna árekstra. Þetta hefur þó heldur ekki úrslitaáhrif við mat á sakarefninu.

Enda þótt aðstaða kærðu, hvorrar um sig, gagnvart kæranda sé ólík, verður að líta svo að kvörtunin snúi að sömu málsatvikum. Verður fallist á að unnt sé að fjalla um kröfur gegn báðum kærðu í einu lagi.

 

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna. Samkvæmt 2. gr. reglnanna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum. Skal lögmaður leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna, sbr. 8. gr. og skal ekki taka að sér verkefni, sem hann veit eða má vita að hann er ekki fær um að sinna af kunnáttu og fagmennsku, nema verkið sé unnið í samstarfi við hæfan lögmann á viðkomandi sviði.

 

II.

Úrskurðarnefndin telur ekki að málinu verði vísað frá vegna óskýrleika í kvörtun, vegna þess að hún beinist ekki að lögmannsstörfum kærðu, eða vegna þess að ekki verði fjallað um hana af öðrum ástæðum. Málatilbúnaður kæranda er að sönnu mikill að vöxtum, en nefndin telur vel mögulegt að átta sig á því hver helstu umkvörtunaratriði í kvörtuninni eru. Málskot til úrskurðarnefndar felur í sér úrræði fyrir þá sem telja lögmenn hafa brotið á sér og verða ekki gerðar ríkar formkröfur um málatilbúnað fyrir nefndinni.

 

III.

Að því er varðar aðkomu kærðu H að máli þessu þá telur nefndin ljóst að hún hafi starfað að máli kærðu, meðal annars í krafti lögmannsréttinda sinna. Hún virðist hafa verið kynnt sem héraðsdómslögmaður út á við og var því bundin af siðareglum lögmanna í störfum sínum. Það virðist á hinn bóginn óumdeilt að aðkoma hennar var fyrst og fremst í því falin að freista þess að leita sátta með aðilum á grundvelli þeirra upplýsinga sem hún hafði um málið, auk þess að leiðbeina kæranda á upphafsstigum þess um hvaða skref væri rétt að taka. Nefndin telur að kæranda hafi ekki tekist að sýna fram á að kærða hafi veitt kæranda rangar leiðbeiningar með því að leggja til við hana að semja við gagnaðila um málalok á fyrri hluta árs 2014 á grundvelli þeirra gagna sem hún hafði þá undir höndum. Verður í því samhengi að líta til þess að mjög matskennt er hvaða atriði er rétt að láta reyna á í ágreiningsmálum fremur en að sætta mál þannig að kröfur nái ekki fram að ganga nema að takmörkuðu leyti eða að leggja út í frekari gagnaöflun málstað sínum til stuðnings. Valið um þetta var á endanum hjá kæranda. Enn fjarlægara er þó að kenna kærðu H um að kærandi hafi að lokum samþykkt tilboð gagnaðila um bætur í upphafi júlímánaðar, en ekki fæst séð að kærða hafi þar átt annan hlut að máli en milligöngu, m.a. um að færa orðalag tilboðsins til þess sem lögmaður kærðu óskaði eftir fyrir hennar hönd.

Kærðu H virðist ekki  hafa verið kunnugt um hugleiðingar kæranda í þá veru að það væri óheppilegt að hún hefði enn milligöngu í málinu, eftir að húsfélagið að x-götu leitaði til Húseigendafélagsins. Í ljósi þess hvert hlutverk hennar var og þeirra samskipta sem hún var í við málsaðila, verður ekki talið að henni hafi borið að hafna því að eigin frumkvæði að hafa nokkra milligöngu í málinu vegna fyrri samskipta hennar og kæranda. 

Þá virðist óumdeilt að kærða H var ekki beðin um að halda því leyndu að kærandi nyti aðstoðar lögmanns eða hver það væri. Verður ekki talið að almennt hafi kærðu borið að líta á það sem trúnaðarupplýsingar að félagsmaður í Húseigendafélaginu hafi leitað til lögmanns. Sérstaklega átti það ekki við þegar viðkomandi lögmaður hafði haft samband við hana fyrir hönd viðkomandi og fyrir lá að gagnaðilum kæranda var fullkunnugt um að hún hefði haft annan lögmann sér til fulltingis.

Að öllu ofangreindu virtu verður að hafna því að kærða H hafi brotið gegn siðareglum lögmanna eða lögum með störfum sínum að máli kæranda.F

 

IV.

Samskipti kæranda við kærðu G bera með sér að kærða hélt henni frá upphafi vel upplýstri um að hún væri í önnum, en myndi sinna málinu eftir bestu getu. Þótt ekki hafi orðið úr því að hún svaraði erindum húsfélagsins fyrir hönd kærðu eins og þær voru búnar að ræða um innan tilskilins frests, fæst ekki séð að það hafi valdið kæranda neinum réttarspjöllum eða sett hagsmuni hennar í hættu, enda þótt það væri til þess fallið að valda kæranda áhyggjum. Gögn málsins bera með sér að kærandi var sjálf mjög vel með á nótunum um eigin málstað og málarekstur hennar allur var að verulegu leyti í því formi að hún stýrði málinu í meginatriðum sjálf í samræmi við eigin skoðanir á því hvaða skref bæri að taka, en leitaði eftir leiðbeiningum um einstök atriði.

Það er ósannað að kærða G hafi leiðbeint kæranda um það á fundi áður en kærandi ákvað að fallast á tilboð gagnaðila, að hún gæti sótt bætur vegna óbeins tjóns, burtséð frá samþykki tilboðsins. Getur nefndin ekki fallist á það með kæranda að ábyrgðin á því að kærandi ákvað að samþykkja tilboðið liggi hjá kærðu. Eru gögn málsins afdráttarlaus um það atriði að sú ákvörðun lá að endingu algjörlega hjá kæranda. Verður ekki séð að kærða hafi annars sinnt málinu illa eða aðhafst nokkuð það í því sem aðfinnsluvert má teljast. Verður því einnig að hafna því að hún hafi brotið gegn siðareglum lögmanna eða lögum með störfum sínum að máli kæranda

Ekki þykir ástæða til að úrskurða um málskostnað í máli þessu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærðu, H hdl. og G hdl., hafa í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Þ. Snævarr hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson