Mál 13 2017

Ár 2017, 6. desember 2017, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2017:

A,

gegn

B

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 14. mars 2017 erindi kæranda, A, en í því er kvartað yfir því að kærði, B héraðsdómslögmaður, með starfsstöð að Y, 105 Reykjavík, hafi brotið annars vegar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn hvað varðar rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess og hins vegar 27. gr. laganna.

Með bréfi úrskurðarnefndar til kæranda, dags. 17. mars 2017, sem kærði fékk afrit af, var upplýst um að litið væri svo á að erindi kæranda sneri bæði að ágreiningi um endurgjald samkvæmt 26. gr. laga nr. 77/1998 og að kvörtun vegna starfa kærða og beitingu viðurlaga samkvæmt 27. gr. laganna. Var sérstaklega tilgreint í bréfinu að hvorki yrði fjallað um kröfur kæranda um bótaskyldu né um aðrar kröfur sem féllu utan við starfsvið nefndarinnar.

Þann sama dag var kærða veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar og barst hún þann 11. apríl 2017. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 12. apríl 2017. Hinn 4. maí 2017 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærða þann 9. sama mánaðar. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt gögnum málsins mun kærandi hafa leitað til kærða í maímánuði 2015 vegna skilnaðar og fjárskipta kæranda og eiginkonu hans en þau höfðu slitið samvistum í októbermánuði 2014. Tók kærði að sér málið fyrir hönd kæranda og undirrituðu málsaðilar af því tilefni verkbeiðni/lögmannsumboð þann 27. maí 2015. Er vísað til þess í málatilbúnaði kærða að útséð hafi verið um sættir á milli þeirra hjóna á þeim tíma auk þess sem kærandi hefði áður leitað til annars lögmanns sem hafi sagt sig frá málinu vegna áherslna kæranda og þeirra krafna sem hann hefði viljað hafa frammi í málinu.

Í málsatvikalýsingu kærða, sem ekki hefur sætt sérstökum andmælum af hálfu kæranda að þessu leyti, er vísað til þess að fljótlega hafi komið í ljós að helsti ágreiningur aðila vegna fjárskiptanna hafi lotið að erfðahlut kæranda í fasteigninni að F, en kærandi mun hafa verið skráður þinglýstur eigandi að 33,03% hlut í eigninni sem og systir aðilans. Hafi komið fram í samskiptum kærða og kæranda að þau systkinin væru í raun skráð fyrir sitthvorum rúmum 11% sem með réttu væri eign bróður þeirra en þau þrjú höfðu erft jafnan hlut í eignarhluta föður þeirra í umræddri eign. Vegna fjárhagsörðugleika hafi verið ákveðið að færa eignarhluta bróðurins yfir á kæranda og systur hans til að halda eigninni utan þeirra erfiðleika.

Undir fjárskiptunum mun hafa verið fallist á kröfu kæranda um að viðkomandi hluti í fasteigninni að F, yrði haldið utan við skiptin. Var verðmæti 11% hlutarins miðað við forsendur fyrirliggjandi fjárskiptasamnings, dags. 1. mars 2016, u.þ.b. kr. 2.000.000.

Tilgreind fasteign að F mun hafa verið seld síðla árs 2015. Er ágreiningslaust að kærði átti enga aðkomu að þeirri sölu. Við gerð fjárskiptasamningsins mun hafa verið litið til þess sem fram kom í kaupsamningi um eignina varðandi stöðu áhvílandi skulda. Samkvæmt fyrirliggjandi kaupsamningi var staða áhvílandi veðskulda á eigninni að fjárhæð kr. 11.225.395 en í atvikalýsingu kærða er vísað til þess að kærandi hafi afhent kærða samninginn. Þá hafi kærandi ekki upplýst kærða um að viðskiptum um fasteignina hefði lokið miðað við aðrar forsendur en þær sem gert hefði verið ráð fyrir í fjárskiptasamningnum, og kærandi hefði undirritað, fyrr en eftir að gerð og efndir samningsins.

Samkvæmt málatilbúnaði aðila og gögnum málsins var haldinn fundur vegna fjárskiptanna þann 1. mars 2016. Þann fund sátu málsaðilar að fjárskiptunum sem og lögmenn þeirra, þ. á m. kærði fyrir hönd kæranda. Á fundinum mun hafa verið farið yfir fjárskiptasamninginn og forsendur hans, þ. á m. forsendur sölu framangreindrar fasteignar. Ágreiningur er á milli aðila um hver hafi átt frumkvæði að fundinum, hvort kærandi hafi þar gert athugasemdir við efni fjárskiptasamningsins sem og um samskipti kæranda og kærða á fundinum. Í öllu falli liggur fyrir að fjárskiptasamningurinn var undirritaður á fundinum og í kjölfar þess munu efndir hafa farið fram, þ. á m. með greiðslu kæranda til fyrrverandi maka að fjárhæð kr. 1.954.386.

Fyrir liggur að kærandi hafði samband við kærða í kjölfar þessa þar sem hann hafði orðið þess áskynja að hann hefði sennilega ofgreitt við fjárskiptin þar sem áhvílandi veðskuldir á F hefðu verið hærri en tiltekið hafði verið í kaupsamningi um fasteignina. Lýsir kærði því að hann hafi haft samband við þann fasteignasala sem hafði annast sölu fasteignarinnar þar sem komið hafi í ljós að áhvílandi lán á eigninni hafi numið hærri fjárhæð en kaupsamningurinn hafði kveðið á um. Hafi þar munað um kr. 1.600.000. Hafi fasteignasalinn ekki haft aðrar skýringar á því en að sennilega væri um uppgreiðslugjald Íbúðalánasjóðs að ræða en að endanlegt uppgreiðsluverðmæti lánanna hafi legið fyrir 7. janúar 2016. Verður ekki séð af málatilbúnaði aðila eða gögnum málsins að kærandi hafi upplýst kærða um hið endanlega uppgreiðsluverðmæti lánanna fyrir gerð fjárskipasamningsins þann 1. mars 2016.

Ágreiningslaust er að tilgreindur mismunur á stöðu áhvílandi lána á fasteigninni að F hafi haft þá þýðingu að það sem renna átti til kæranda vegna sölu fateignarinnar hafi átt að vera rúmlega kr. 355.000 lægri en sú fjárhæð sem fjárskiptasamningurinn hafði gert ráð fyrir. Samkvæmt því ofgreiddi kærandi gagnaðila sínum rúmlega kr. 177.000 við fjárskiptin.

Kærði hafði samband við lögmann fyrrverandi eiginkonu kæranda í kjölfar þessa til að athuga hvort hún væri reiðubúin að endurgreiða hina ofgreiddu fjárhæð. Var þeirri beiðni hafnað í tölvubréfi til kærða þann 6. apríl 2016.

Í kjölfar þess mun kærandi hafa snúið sér til kærða, og síðar stjórnenda og eigenda X- lögmanna, með kröfur um bætur sem var hafnað.

Af gögnum málsins verður ekki séð að kærði hafi sinnt frekari lögmannsstörfum fyrir kæranda eftir þann tíma.

Frá 9. mars 2016 liggur fyrir reikningur vegna lögmannsstarfa kærða í þágu kæranda. Nánar tiltekið var gefinn út reikningur nr. SR16-0153 þann dag að fjárhæð kr. 622.713 með virðisaukaskatti, þar af kr. 1.653 vegna útlagðs kostnaðar. Var því lýst að um væri að ræða reikning samkvæmt tímaskýrslu kærða, alls fyrir 22,05 vinnustundum og að tímagjald væri kr. 22.700 án virðisaukaskatts. Frá sama degi liggur fyrir tilgreind tímaskýrsla kærða vegna starfa hans í þágu kæranda á tímabilinu frá 26. maí 2015 til og með 9. mars 2016.

Með tölvubréfi kæranda til kærða, dags. 18. mars 2016, var upplýst um að framangreindur reikningur hefði borist. Óskaði kærandi annars vegar eftir upplýsingum um hvort hann þyrfti sjálfur að vinna í að fá endurgreiðslu vegna ofgreiðslunnar við fjárskiptin eða hvort það væri innifalið í reikningnum og hins vegar hvort hann ætti ekki að fá öll gögn málsins. Þá óskaði kærandi eftir upplýsingum um við hvern ætti að ræða til að fá reikningnum skipt. 

Kærði svaraði framangreindu erindi með tölvubréfi til kæranda þann 21. mars 2016. Var því þar lýst að sjálfsagt mál væri að skipta reikningnum auk þess sem farið var yfir forsendur fjárskiptanna og hvort rétt væri að kærði tæki að sér innheimtu hinnar ofgreiddu fjárhæðar. Þá óskaði kærði eftir upplýsingum um hvaða gögnum kærandi óskaði eftir. Aðilar áttu eftir þetta í frekari tölvubréfasamskiptum, sem liggja fyrir nefndinni, án efnislegrar niðurstöðu um hina ofgreiddu kröfu eða útgefinn reikning kærða vegna lögmannsstarfa hans í þágu kæranda.

II.

Skilja verður kröfu kæranda þannig að kærða skuli gert að sæta agaviðurlögum fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, og að útgefinn reikningur vegna lögmannsstarfa kærða í þágu kæranda verði felldur niður þannig að greiðslur sem inntar hafa verið af hendi verði endurgreiddar með vöxtum, sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna.

Í kvörtun kæranda er vísað til þess að hún lúti að mistökum og dónaskap kærða í störfum aðilans í þágu kæranda, einkum á lokafundi vegna fjárskipta kæranda og fyrrverandi maka aðilans í tengslum við hjónaskilnað þeirra þann 1. mars 2016.

Varðandi meint mistök kærða er vísað til þess að aðilinn hafi látið kæranda greiða of háar fjárhæðir til fyrrverandi maka kæranda við skilnaðarmál þeirra þar sem kærði hafi verið að vinna með röng gögn í málinu.

Um dónaskap kærða er í erindi kæranda vísað til þess að þegar kærandi hafi ætlað að rétta sinn hlut við fjárskiptin á fundinum þann 1. mars 2016 hafi hann fengið spurningaflóð frá kærða. Hafi kærandi túlkað það svo að hann hafi ekki átt að hafa sig frammi á fundinum. Þá hafi kærði upplýst á fundi að hann kynni ekki að reikna, sem hefði verið ástæða þess að hann hefði farið í lögfræðinám, og að það hafi einnig komið á daginn við fjárskiptin þar sem þær fjárhæðir sem lagðar höfðu verið til grundvallar reyndust rangar.

Er vísað til þess að kærandi hafi þurft að inna af hendi greiðslu til fyrrverandi maka við fjárskiptin að fjárhæð kr. 1.980.000. Hafi kærandi bent kærða á að hann teldi sig aðeins þurfa að greiða kr. 1.750.000 en að kærði hafi ekki sinnt því heldur aðeins beint frekari spurningum til kæranda.

Þá bendir kærandi á að hann hafi ekki fengið nein gögn frá kærða um skilnaðarferlið þrátt fyrir ítrekaðar óskir um það efni.

Með vísan til þessa krefst kærandi þess fyrir nefndinni að meint ofgreiðsla hans við fjárskiptin verði endurgreidd með vöxtum sem og greiðslur á grundvelli reiknings kærða fyrir störf hans í þágu kæranda.

Í viðbótarathugasemdum kæranda vegna greinargerðar og málatilbúnaðar kærða var því mótmælt að kærði hefði sent kæranda drög fjárskiptasamningsins í tölvubréfi og að drögin hefðu verið rædd á fundi málsaðila.

III.

Kærði krefst þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað og að kæranda verði gert að greiða kærða málskostnað að mati úrskurðarnefndar, sbr. 15. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Byggir kærði á að kvörtunin sé tilefnislaus að öllu leyti og varði atvik sem kærði beri enga ábyrgð á.

Kærði mótmælir því annars vegar að reiknað endurgjald, sem byggði á gjaldskrá X- lögmanna og kynnt var kæranda strax í upphafi, hafi verið of hátt. Er vísað til þess að skiptin hafi dregist á langinn vegna einstrengingsháttar kæranda sem hafi margoft komið á skrifstofu kærða til að ræða sömu hlutina. Hafi kærði sent og/eða móttekið rúmlega 180 tölvubréf vegna málsins og séu þá ótaldir allnokkrir fundir með kæranda og símtöl vegna málsins. Ennfremur hafi þurft að stilla upp umræddum fjárskiptasamningi og fleira. Vegna þessa hafi kærandi verið rukkaður alls um 22 tíma samkvæmt framlagðri tímaskýrslu. Er því mótmælt að það sé óeðlilegur tímafjöldi miðað við umfang verksins.

Í þessu samhengi bendir kærði jafnframt á að fjárskiptasamningurinn hafi í raun verið á milli þriggja aðila þar sem bróðir kæranda hafi komið mikið að málinu til að verja sig og hagsmuni sína vegna fasteignarinnar að F. Þetta atriði hafi orðið til þess að flækja málin enn frekar þar sem kærði hafi í raun á tímabili, með samþykki kæranda, verið að gæta hagsmuna bæði kæranda og bróður hans.

Vegna athugasemda við störf kærða vísar aðilinn hins vegar til þess að þegar fjárskiptasamningurinn var gerður þann 1. mars 2016 hafi kærði aðeins getað stuðst við fyrirliggjandi kaupsamning um eignina varðandi fjárhæð eftirstöðva lána. Þá hafi kærði engar upplýsingar fengið um það frá kæranda að áhvílandi lán fasteignarinnar F hefðu verið gerð upp í janúar það ár eða að munurinn á fjárhæð áhvílandi lána samkvæmt kaupsamningnum og raunstöðu lánanna væri jafn há fjárhæð og raunin hefði orðið. Byggir kærði á að kærandi hafi átt að upplýsa um uppgreiðslu lánanna en að það hafi ekki verið gert fyrr en eftir að gengið hefði verið frá fjárskiptasamningnum og efndir höfðu farið fram.

Vísar kærði til þess að hann hafi unnið að málinu samkvæmt þeim forsendum sem legið hafi fyrir miðað við bestu vitneskju um leið og kærandi hafi ekki upplýst um að þær væru rangar eftir yfirferð kæranda yfir drög fjárskiptasamningsins. Þannig hafi engar athugasemdir verið gerðar af hálfu kæranda við forsendur samkvæmt drögum fjárskiptasamningsins og hafi því engin ástæða verið fyrir kærða að óska eftir frekari upplýsingum um stöðu lánanna. Bendir kærði á að hann hafi ekki haft umsjón með umræddri eignasölu. Samkvæmt því hafnar kærði því að hann beri ábyrgð á þeirri villu sem hafi orðið við gerð fjárskiptasamningsins.

Um efni fundarins þann 1. mars 2016 vísar kærði þess til að kærandi hafi ætlað að fara að ræða atriði á fundinum sem ekki hafi komið fjárskiptunum við, þ. á m. um hjúskaparbrot fyrrverandi eiginkonu kæranda. Viðurkennir kærði að hann hafi gripið fram í fyrir kæranda í því skyni að halda fundarmönnum við efnið og til að gæta þess að samskipti yrðu siðleg en í málatilbúnaði kærða er vísað til þess að kærandi hafi á fundum þeirra verið afar orðljótur í garð konunnar. Hafi kærði ekki haft áhuga á því að sitja undir slíku á fundinum auk þess sem honum hafi verið það óskylt, sbr. 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Hins vegar hafi það aldrei verið meining kærða að kærandi myndi upplifa fundinn með þeim hætti sem lýst sé í kvörtun aðilans.

Að endingu mótmælir kærði því að kærandi hafi ítrekað óskað eftir gögnum um skilnaðinn hjá kærða en ekki fengið þau afhent. Hafi kærandi aldrei haft samband við kærða í því skyni að óska eftir gögnum enda séu engin gögn lögð fram til stuðnings þeirri fullyrðingu kæranda.

Með vísan til alls framangreinds krefst kærði þess að kröfum kæranda verði hafnað.

Niðurstaða

Í máli þessu þarf í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort kærði hafi gerst brotlegur við lög eða siðareglur lögmanna þannig að rétt þyki að beita agaviðurlögum og í öðru lagi að fjalla um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa kærða.

                                                                          I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Er slíkt enn fremur áréttað í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem tiltekið er að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi við þá meginreglu 1. gr. að lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti og leggja svo til allra mála, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Fyrir liggur í málinu að kærði tók að sér hagsmunagæslu fyrir kæranda vegna fjárskipta hins síðarnefnda við hjónaskilnað. Ágreiningslaust er að málsaðilar að fjárskiptunum, þ. á m. kærandi, undirrituðu fjárskiptasamning á fundi þann 1. mars 2016 sem lögmenn þeirra sátu einnig. Fyrsta kvörtunarefni kæranda lýtur að því að aðilinn hafi ofgreitt fyrrverandi eiginkonu sinni við fjárskiptin þar sem röng fjárhæð hafi verið lögð til grundvallar í fjárskiptasamningnum um áhvílandi veðskuldir á fasteigninni að F en um það efni sagði m.a. eftirfarandi í samningnum:

Eignarhluta (22,02%) í söluandvirði fasteignarinnar að F, fnr. xxx-xxxx, munu aðilar skipta með sér að jöfnu en kaupsamningur vegna eignarinnar var undirritaður þann 15. október 2015 og nam söluandvirðið 30.800.000,-. Samkvæmt því sem fram kemur í samningnum var staða áhvílandi lána á eigninni á undirritunardegi samningsins kr. 11.225.395,-. Miðað við það, og að frádreginni söluþóknun og kostnaði að fjárhæð kr. 652.564, er andvirði eignarhlutar mannsins í eigninni kr. 4.166.633,- en hann hefur þegar móttekið greiðslur vegna kaupanna.“

Um þetta efni er þess að gæta að tilgreining í fjárskiptasamningnum um stöðu áhvílandi lána á umræddri fasteign var í fullu samræmi við kaupsamning um eignina, dags. 15. október 2015, sem og söluyfirlit hennar en það eru þau gögn sem kærði hafði undir höndum við gerð fjárskiptasamningsins í þágu kæranda. Í þessu samhengi verður ekki fram hjá því litið að kærði hafði enga aðkomu að sölumeðferð fasteignarinnar. Með vísan til þess sem og með hliðsjón af því að söluandvirði eignarhluta kæranda í fasteigninni hafði þegar verið innt af hendi til aðilans þegar hinn umþrætti fjárskiptasamningur var gerður þann 1. mars 2016 verður að leggja til grundvallar að það hafi staðið kæranda nær að upplýsa kærða um að tilgreining áhvílandi lána á fasteigninni hefði verið röng í samningsskjölum við fasteignaviðskiptin. Samkvæmt því er það mat nefndarinnar að kæranda hafi verið í lófa lagið að upplýsa kærða um hinar breyttu forsendur áður en kom að gerð fjárskiptasamningsins, undirritunar hans og efnda. Hafi því ekki verið tilefni fyrir kærða til að óska sérstaklega eftir frekari upplýsingum um stöðu áhvílandi veðskulda á fasteigninni en fram komu í samningsskjölum við sölumeðferð eignarinnar. Verður því ekki talið að kærði hafi gert á hlut kæranda að þessu leyti með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Um það efni að kærði hafi viðhaft dónaskap í garð kæranda á áður lýstum fundi vegna fjárskiptanna þann 1. mars 2016 þá hefur kærði í málatilbúnaði sínum til nefndarinnar viðurkennt að hann hafi gripið fram í fyrir kæranda, þ.e. í því skyni að halda fundarmönnum við efnið og til þess að gæta að samskipti yrðu siðleg, þegar hinn síðarnefndi hafi ætlað að ræða atriði ótengd fjárskiptunum, þ. á m. um hjúskaparbrot fyrrverandi eiginkonu aðilans. Kærandi hefur hins vegar um þetta efni vísað til þess að kærði hafi svarað honum með spurningaflóði á fundinum þegar kærandi hafi viljað rétta sinn hlut við fjárskiptin.

Engra annarra gagna nýtur við um samskipti aðila að þessu leyti á fundinum þann 1. mars 2016. Gegn andmælum kærða um þetta efni og að teknu tilliti til eðlis slíkra hjúskaparmála, þar sem lögmenn þurfa jafnan að gæta hagsmuna vegna persónulegra og viðkvæmra málefna málsaðila þar sem ágreiningur aðila kann jafnframt að vera djúpstæður, er ósannað að mati nefndarinnar að kærði hafi gengið lengra en efni stóðu til í samskiptum sínum við kæranda, sem skjólstæðing kærða, á fundinum þann 1. mars 2016. Samkvæmt því verður ekki talið að kærði hafi brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna í störfum sínum fyrir kæranda að þessu leyti.

Á slíkt hið sama við um kvörtunarefni kæranda þess efnis að kærði hafi ekki afhent honum gögn málsins þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um það efni. Fyrir liggur að í tölvubréfi kæranda til kærða þann 18. mars 2016 var meðal annars óskað eftir upplýsingum um hvort kærandi ætti ekki að fá öll gögn. Í svari kærða frá 21. sama mánaðar óskaði kærði eftir upplýsingum um hvaða gögn kærandi óskaði eftir. Af fyrirliggjandi gögnum fyrir nefndinni verður hvorki séð að kærandi hafi svarað þeirri fyrirspurn kærða né að hann hafi ítrekað beiðni um afhendingu gagna. Samkvæmt því er ekki efni til að telja að kærði hafi gert á hlut kæranda vegna þessa.

Samkvæmt ofangreindu er það niðurstaða nefndarinnar að kærði hafi ekki brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna í störfum sínum fyrir kæranda.

II.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Eins og áður greinir tók kærði að sér hagsmunagæslu fyrir kæranda vegna fjárskipta hans við hjónaskilnað. Á grundvelli þeirra lögmannsstarfa kærða í þágu kæranda gaf kærði út reikning þann 9. mars 2016 að fjárhæð kr. 622.713 með virðisaukaskatti, þar af kr. 1.653 vegna útlagðs kostnaðar. Var því lýst að um væri að ræða reikning samkvæmt tímaskýrslu kærða, alls fyrir 22,05 vinnustundum og að tímagjald væri kr. 22.700 án virðisaukaskatts. Þá liggur fyrir að kærði sendi tímaskýrslu til kæranda með reikningnum, þ.e. vegna starfa kærða í þágu kæranda á tímabilinu frá 26. maí 2015 til og með 9. mars 2016.

Ekki er ágreiningur um tímagjald en samkvæmt verkbeiðni/lögmannsumboði, dags. 27. maí 2015, skuldbatt kærandi sig til að greiða lögmannsstofu kærða fyrir umbeðna og veitta þjónustu samkvæmt gjaldskrá stofnunnar á hverjum tíma og á grundvelli tímaskráningar á verkinu. Var því sérstaklega lýst að kæranda hefði verið kynnt gjaldskráin og fengið afrit hennar. Um verkáætlun var því lýst í tilgreindri verkbeiðni/lögmannsumboði að tímamörk væru óljós þar sem mikið myndi velta á mótaðila um framvindu málsins. Samkvæmt því lægi verkáætlun ekki fyrir en að verkið yrði unnið í samráði við kæranda með það fyrir augum að halda vel utan um kostnað.

Fyrir liggur að lögmannsstörf kærða í þágu kæranda stóðu yfir í tæpa tíu mánuði. Á þeim tíma átti kærði í miklum og reglulegum samskiptum við kæranda um framvindu málsins, lögmann gagnaðila kæranda sem og aðra þriðju aðila, þ. á m. bróður kæranda, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum.

Að vandlega virtum þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu, þ. á m. tímaskýrslu kærða sem virðist greinargóð um það sem gert var hverju sinni og ekki úr hófi telur nefndin að hæfilegt endurgjald fyrir lögmannsstörf kærða í þágu kæranda, að teknu tilliti til útlagðs kostnaðar, sé kr. 622.713 með virðisaukaskatti. Þessi niðurstaða felur í sér að sú þóknun sem kærði áskildi sér vegna starfa sinna í þágu kæranda var hæfileg. Samkvæmt því er endurgreiðslukröfu kæranda í málinu hafnað.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B hdl., hefur ekki brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna í störfum sínum fyrir kæranda, A.

Áskilin þóknun kærða, B hdl., vegna starfa hans í þágu kæranda, A, felur í sér hæfilegt endurgjald. Endurgreiðslukröfu kæranda er hafnað.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður.

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Þ. Snævarr hrl.

 

 

Rétt endurrit staðfestir

Sölvi Davíðsson