Mál 23 2017

Ár 2017, 29. desember 2017, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 23/2017:

A,

gegn

B hdl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 10. maí 2017 erindi kæranda, A, en í því er kvartað yfir því að kærða, B hdl., með starfsstöð að Y, 105 Reykjavík, hafi brotið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn hvað varðar rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess.

Með bréfi úrskurðarnefndar til kærðu, dags. 16. maí 2017, sem kærandi fékk afrit af, var upplýst um að litið væri svo á að erindi kæranda sneri að ágreiningi um rétt til endurgjalds samkvæmt 26. gr. laga nr. 77/1998. Með bréfinu var kærðu veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar.

Greinargerð kærðu barst þann 6. júní 2017 og var hún send kæranda til athugasemda með bréfi þann sama dag. Hinn 12. júní 2017 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærðu þann 13. sama mánaðar. Svar kærðu barst þann 27. júní 2017 og var það sent til kæranda með bréfi dags. 29. sama mánaðar. Viðbótarathugasemdir bárust jafnframt frá kæranda þann 26. júní 2017 og voru þær sendar til kærðu með bréfi dags. 29. sama mánaðar. Þann 12. júlí 2017 bárust úrskurðarnefnd annars vegar viðbótarathugasemdir kærðu og hins vegar frekari gögn vegna málsins frá kæranda. Voru tilgreind andsvör og gögn send til málsaðila þann sama dag með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum fyrir úrskurðarnefnd mun kærandi vera þinglýstur eigandi fasteignarinnar að V. Með lóðarleigusamningi, dags. x. ágúst 1999, var lóðin við V leigð til nánar tilgreinds aðila til 50 ára og heimild veitt til byggingar einbýlishúss. Samkvæmt 7. gr. samningsins var leigutaka heimilt að selja og veðsetja leigurétt sinn að lóðinni í heild, ásamt húsum þeim og mannvirkjum sem á henni yrðu gerð. Mun einbýlishús hafa verið reist á lóðinni á árinu 1953 og bílskúr árið 1969. Þá mun gróðurhús hafa verið reist á sömu lóð árið 1967 en þinglýstur eigandi þess er S.

Í septembermánuði 2015 leitaði kærandi til lögmannsstofu kærðu, P ehf., vegna ágreinings um tilgreint gróðurhús á lóðinni að V. Frá september- og októbermánuði 2015 liggja fyrir tölvubréfasamskipti á milli kæranda og H hdl., fulltrúa á lögmannsstofu kærðu, vegna málsins, þar á meðal vegna aðkomu fyrri lögmanns kæranda að málinu, samskipta við viðkomandi sýslumannsembætti, þinglýstra heimilda og fleiri þátta.

Þann 13. október 2015 sendi lögmannsfulltrúi kærðu tölvubréf til kæranda þar sem óskað var eftir að verksamningur á milli aðila, sem fylgdi með tölvubréfinu, yrði undirritaður og sendur til baka. Með tölvubréfi kæranda þann 15. október 2015 óskaði aðilinn eftir upplýsingum um fyrirhugaðan kostnað vegna málsins. Var þeirri fyrirspurn svarað þann sama dag af hálfu fulltrúa kærðu þar sem eftirfarandi var tiltekið:

Ég veit ekki alveg hvað umfangið verður mikið en ég geri ráð fyrir því að miða við tímaramma 4-8 tímar. Þannig að ef við höfum í maxið þá er þetta ca. 144þkr + vsk. Hámarkið miðast við ef þetta mál vindur mikið upp á sig en ég á nú frekar von á að þetta taki ekki mikinn tíma. Ef ég tel að við séum ekki að standa við þetta þá verður þú látinn vita.“

Í svari kæranda kom fram að þetta væri gott mál og að hann myndi skrifa undir samninginn.

Í samræmi við framangreind samskipti liggur fyrir samningur um lögfræðiþjónustu á milli kæranda, sem verkkaupa, og P ehf., sem verksala, dags. 13. október 2015. Í 1. gr. samningsins var tiltekið að verksali tæki að sér að gæta hagsmuna verkkaupa gagnvart sýslumannsembætti vegna skiptingar á lóð við V og að verksali myndi annast alla lögfræðilega skjalagerð og samskipti við sýslumann og/eða aðra sem kæmu að málinu auk þess að veita lögfræðilega ráðgjöf. Þá var því jafnframt lýst í 1. gr. samningsins að verkkaupi gæti hvenær sem er á gildistíma samningsins óskað eftir því að verksali myndi veita frekari ráðgjöf en þá sem skilgreind væri í samningnum en í því tilviki skyldi gerður sérstakur skriflegur viðauki þar sem viðbótarverkefnið yrði skilgreint og aðilar myndu staðfesta með undirskrift sinni.

Um þóknun P ehf., sem verksala samkvæmt samningnum, var tiltekið í 5. gr. samningsins að reikningar fyrir veitta þjónustu myndu byggja á fjölda vinnustunda/klukkustunda vegna verkefnisins. Var tiltekið að gjaldið fyrir hverja vinnustund kynni að vera breytilegt og að það byggði á ábyrgð og hæfni þeirra starfsmanna sem ynnu að verkefninu á hverjum tíma. Bar verksala að upplýsa verkkaupa um tímagjald einstakra starfsmanna sem aðkomu hefðu að verkefninu. Samkvæmt samningnum skyldu reikningar að jafnaði skrifaðir út og sendir verkkaupa í byrjun hvers mánaðar en þó þannig að verksali gæti ákveðið að bíða með að senda verkkaupa reikning ef aðeins hefði verið um óverulega vinnu að ræða í viðkomandi mánuði.

Þá var tiltekið í 7. gr. samningsins að H hdl. myndi sjá um umsamin verkefni gagnvart verkkaupa en að hann gæti hvenær sem er ákveðið að fá aðra starfsmenn til að sinna einstökum þáttum þess.

Samkvæmt gögnum málsins mun kærða hafa komið fyrst að málum og lögfræðiráðgjöf fyrir kæranda í septembermánuði 2016. Þann 24. nóvember 2016 sendi kærandi tölvubréf til kærðu, með yfirskriftinni „V“, þar sem óskað var eftir upplýsingum um stöðu málsins. Í svari kærðu þann sama dag var upplýst að verið væri að leggja lokahönd á beiðni um útburð og að hún hefði verið að taka saman gögn vegna þess, þ. á m. vegna sönnunar um eignarhald kæranda. Þá var tiltekið að útburðarbeiðnin yrði send til Héraðsdóms Y á næstu dögum.

Umrædd aðfararbeiðni mun hafa borist Héraðsdómi Y þann 29. nóvember 2016. Í beiðninni, sem kærða ritaði fyrir hönd og í þágu kæranda, var krafist dómsúrskurðar þess efnis að gróðurhús með fastanúmerið xxx-xxxx yrði fjarlægt af fasteign kæranda sem væri lóð nr. 2 við V. Aðfararmál þetta fékk málsnúmerið A-xx/2016 fyrir Héraðsdómi Y og fór kærða með málið fyrir hönd kæranda, sem gerðarbeiðanda.  

Úrskurður í ofangreindu máli var uppkveðinn í Héraðsdómi Y þann x. maí 2017. Samkvæmt úrskurðarorði var kröfum kæranda hafnað og aðilanum gert að greiða gerðarþola 549.420 krónur í málskostnað. Í forsendum úrskurðarins var tiltekið að lögð hefðu verið fram gögn sem bentu til þess að gerðarþoli ætti lóðarréttindi á viðkomandi lóð við V sem og álagningarseðill fasteignagjalda en ekkert lægi fyrir um að óheimilt væri að fleiri en einn mættu eiga lóðarréttindi á lóðinni. Þá hefði afsali gerðarþola verið þinglýst þegar gerðarbeiðandi, þ.e. kærandi í þessu máli, hefði fengið eign sinni afsalað þann x. mars 2015. Að því virtu var ekki fallist á að réttur kæranda til þess að hafa einn umráð lóðarinnar væru svo skýr að fallast mætti á kröfur hans í málinu, sbr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, og var kröfum kæranda því hafnað í málinu.

Málsaðilar áttu í tölvubréfasamskiptum í kjölfar uppkvaðningar ofangreinds úrskurðar, þ.e. á tímabilinu frá 2. – 5. maí 2017. Lýsti kærandi í samskiptunum yfir óánægju með niðurstöðu málsins auk þess sem aðilar reifuðu önnur sjónarmið að baki ágreiningnum og hugsanlegu framhaldi málsins. Af gögnum málsins verður ekki séð að kærða eða lögmannsstofa hennar hafi sinnt frekari lögmannsstörfum fyrir kæranda eftir þennan tíma.

Fyrir liggur að kærandi leitaði til annars lögmanns vegna málsins eftir að úrskurður héraðsdóms hafði verið uppkveðinn í aðfararmálinu þann x. maí 2017. Samkvæmt því mun annar lögmaður hafa kært úrskurð Héraðsdóms Y til Hæstaréttar með kæru, dags. x. maí 2017, en greinargerð með málatilbúnaði kæranda fyrir Hæstarétti, dags. x. maí 2017, liggur fyrir í gögnum málsins.

Með dómi Hæstaréttar x. júní 2017 í máli réttarins nr. xxx/2017 var hinn kærði úrskurður staðfestur og kæranda gert að greiða varnaraðila 350.000 krónur í kærumálskostnað. Í forsendum dómsins var tiltekið að kærandi hefði haldið fram málsástæðum sem hann hefði ekki borið fyrir sig í héraði sem hefðu einkum lotið að því að viðkomandi gróðurhúsi hafi aldrei fylgt sjálfstæð lóðarréttindi að V, enda hefði annars vegar gróðurhúsið og hins vegar önnur manvirki á lóðinni ásamt henni sem slíkri komist á árunum 2006 og 2007 fyrir nánar tilgreind mistök hvort á sína hendi. Var lagt til grundvallar í forsendum dómsins að tilgreindum málsástæðum yrði ekki komið að fyrir Hæstarétti samkvæmt 2. mgr. 163. gr., sbr. 4. mgr. 150. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Að því gættu var hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans í dómi Hæstaréttar.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru fimm reikningar gefnir út af lögmannsstofu kærðu vegna lögmannsstarfa fyrir og í þágu kæranda vegna fasteignarinnar að Varmahlíð, þ. á m. einn reikningur eftir að kvörtun í máli þessu hafði verið beint til úrskurðarnefndar.

Í fyrsta lagi var gefinn út reikningur nr. 959 þann 31. mars 2016 að fjárhæð 178.250 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt tímaskýrslu, sem mun hafa fylgt með reikningnum og liggur fyrir úrskurðarnefndinni, var um að ræða reikning vegna lögmannsstarfa H hdl. á tímabilinu frá 2. október 2015 til 2. mars 2016, alls 7,75 klukkustundir, í tengslum við upphaf málsins, skoðun á gögnum, samskipti aðila, samskipti lögmanns við þriðju aðila og ýmis önnur verk. Var útselt tímagjald að fjárhæð 18.000 krónur auk virðisaukaskatts vegna vinnu sem féll til á árinu 2015 en 19.000 krónur auk virðisaukaskatts vegna vinnu sem féll til á árinu 2016.

Í öðru lagi var gefinn út reikningur nr. 987 þann 30. júní 2016 að fjárhæð 260.338 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt tímaskýrslu var um að ræða reikning vegna lögmannsstarfa H hdl. á tímabilinu frá 1. apríl 2016 til og með 28. júní 2016, alls 13 klukkustundir, í tengslum við málarekstur kæranda vegna fasteignarinnar að V, sem áður er lýst. Var útselt tímagjald að fjárhæð 19.000 krónur auk virðisaukaskatts en samkvæmt hinum útgefna reikningi var veittur 15% afsláttur af heildarfjárhæð reikningsins.

Í þriðja lagi var gefinn út reikningur nr. 1007 þann 31. desember 2016 að fjárhæð 364.944 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt tímaskýrslu var um að ræða reikning vegna lögmannsstarfa kærðu í þágu kæranda á tímabilinu frá 5. september 2016 til og með 31. desember 2016, alls 13 klukkustundir, í tengslum við tilgreint aðfarar- og útburðarmál vegna fasteignarinnar að V. Var útselt tímagjald að fjárhæð 25.000 krónur auk virðisaukaskatts og útlagður kostnaður að fjárhæð 23.600 krónur en samkvæmt hinum útgefna reikningi var veittur 15% afsláttur af vinnulið reikningsins.

Í fjórða lagi var gefinn út reikningur nr. 1013 þann 28. febrúar 2017 að fjárhæð 138.012 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt tímaskýrslu var um að ræða reikning vegna lögmannsstarfa kærðu í þágu kæranda í janúarmánuði 2017, alls 4 klukkustundir, vegna áður lýsts aðfarar- og útburðarmáls. Var útselt tímagjald að fjárhæð 26.100 krónur auk virðisaukaskatts og útlagður kostnaður að fjárhæð 22.500 krónur en samkvæmt hinum útgefna reikningi var veittur 15% afsláttur af vinnulið reikningsins.

Í fimmta og síðasta lagi var gefinn út reikningur nr. 1034 þann 30. júní 2017 að fjárhæð 275.094 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt tímaskýrslu var um að ræða reikning vegna lögmannsstarfa kærðu í þágu kæranda í aprílmánuði 2017, alls 8,50 klukkustundir, vegna áður lýsts aðfarar- og útburðarmáls, þ. á m. vegna málflutnings fyrir héraðsdómi. Var útselt tímagjald að fjárhæð 26.100 krónur auk virðisaukaskatts.

Í samræmi við framangreint munu útgefnir reikningar vegna lögmannsstarfa kærðu og fulltrúa hennar vegna vinnu fyrir og í þágu kæranda á tímabilinu frá októbermánuði 2015 til og með aprílmánuði 2017 hafa verið að heildarfjárhæð 1.216.638 krónur með virðisaukaskatti og útlögðum kostnaði.

II.

Skilja verður málatilbúnað kæranda þannig að þess sé krafist að hluti útgefinna reikninga lögmannsstofu kærðu vegna lögmannsstarfa hennar og fulltrúa hennar í þágu kæranda verði felldir niður þannig að greiðslur sem inntar hafa verið af hendi af hálfu kæranda verði endurgreiddar að hluta.

Í kvörtun kæranda er vísað til þess hann hafi gert samning við P ehf. um vinnu vegna hagsmuna gagnvart sýslumannsembætti vegna skiptingar á lóð við V. Áætlaður kostnaður hafi átt að vera ca. 144.000 krónur fyrir fjórar til átta vinnustundir. Við kvörtun hafi lögmannskostnaður verið kominn í 941.594 krónur og 37,75 vinnustundir. Þá hafi málið verið illa unnið auk þess sem það hafi tapast og kæranda verið gert að greiða gagnaðila málskostnað.

Vísar kærandi til þess að það hafi þurft að rita bréf svo að úr því fengist skorið hvort kærandi ætti viðkomandi lóð að V. Það hafi verið gert en í kjölfar þess hafi kærða ráðlagt kæranda að fara í útburð samkvæmt 72., 78. og 83. gr. laga nr. 90/1989 um aðför án undangengins dóms eða réttarsáttar. Kveðst kærandi hafa ráðfært sig við aðra lögmenn sem hafi tjáð honum að það hafi ekki verið rétt ákvörðun.

Kærandi bendir á að kærða hafi tjáð honum að málið væri fyrnt fyrir löngu. Af þeim sökum fái kærandi ekki skilið af hverju ákveðið hafi verið að fara þá leið sem gert hafi verið í málarekstrinum. Þá vísar kærandi til þess að mikill tími hafi farið í málið en að kærandi hafi sjálfur getað flett þessu upp á netinu á tveimur tímum þótt hann sé ekki lærður.

Í málatilbúnaði kæranda er jafnframt vísað til þess að kærða mæli nú með því að kærandi sæki x-bæ til saka þótt það sveitarfélag hafi ekkert brotið af sér.

Er á það bent að hvorki kærða né lögmannsstofa hennar hafi upplýst kæranda um kostnað vegna málarekstursins. Þá hafi kostnaður fallið til á kæranda við það að koma kærðu inn í málið þegar hún hafi tekið við því á síðari stigum.

Í fyrri viðbótarathugasemdum kæranda vegna greinargerðar og málatilbúnaðar kærðu ítrekaði aðilinn fyrri málatilbúnað sinn. Auk þess vísaði kærandi til þess að kærða hefði óskað eftir útburði en að hún hafi ekki sett fram góðan rökstuðning fyrir þeirri kröfu. Að áliti kæranda kom kærða óundirbúin til málsins enda hafi hún engar athugasemdir gert við það hvernig á því hafi staðið að sami lóðarleigusamningur hafi komið fram á tveimur þinglýsingarvottorðum. Samkvæmt því hafi kærða ekki útskýrt hvernig staðið hafi á því að gróðurhús væri á lóðinni og að sýslumaður hefði gert mistök samkvæmt lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús, sbr. einkum 21. og 22. gr. laganna. Hafi þannig átt að selja gróðurhúsið sem lausafé við nauðungarsöluna. Í öðru lagi hafi ekki verið bent á að lóðaskiptasamningur hafi ekki verið til, sbr. 24. og 25. gr. laga nr. 26/1994. Auk þess bendir kærandi í þriðja lagi á 3. og 4. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 og í fjórða lagi til þess að fasteignagjöld séu greidd samkvæmt þinglýsingu en ekki samkvæmt þjóðskrá. Samkvæmt því séu það haldlítil rök að menn eignist rétt ef þeir greiði fasteignagjöld. Kveðst kærandi hafa beðið eftir ráðleggingum frá kærðu í kjölfar uppkvaðningar úrskurðarins en ekkert hafi komið frá henni. Eitt sé að tapa máli en annað þegar ekki sé reynt að verja þann sem sé umbjóðandi.

Í síðari viðbótarathugasemdum kæranda var vísað til þess að kvörtunin lyti í fyrsta lagi að því að kærða hafi ekki krafist málskostnaðar í aðfararbeiðni, í öðru lagi að því að þeirri grundvallarröksemd að viðkomandi gróðurhúsi hefði ekki fylgt lóðaréttindi hefði ekki verið haldið fram undir rekstri málsins í héraði, í þriðja lagi að dómkrafan hafi verið ódómtæk, í fjórða lagi að því að málið hafi varðað eignarrétt og hafi því eðli máls samkvæmt þurft að rekja hvernig gróðurhús annars vegar og hins vegar önnur mannvirki á lóðinni hafi komist í ólíkar hendur en að það hafi ekki verið gert og í fimmta lagi að því að kærða hafi mætt óundirbúin til málflutnings fyrir héraðsdómi sem hafi leitt til þess að kærandi hafi þurft að gefa aðilaskýrslu fyrir dóminum til að upplýsa málið sem tíðkist alla jafnan ekki í slíkum málum. Vísar kærandi til þess reynt hafi verið að lagfæra málið fyrir Hæstarétti en að það hafi ekki gengið. Af þeim sökum hafi kærandi þurft að greiða gagnaðila sínum málskostnað að fjárhæð 899.420 krónur auk þess að bera eigin kostnað af rekstri málsins.

III.

Kærða krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að kröfum kæranda verði hafnað.

Kærða vísar í fyrsta lagi til þess að nær ómögulegt sé að verjast ásökunum sem byggjast á ósannindum. Bendir aðilinn á að augljóslega sé alltaf sárt að tapa máli en að það leysi engan vanda að ráðast að málflutningsmanninum með því að vega að starfsheiðri hans og mannorði, með staðlausum fullyrðingum.

Í öðru lagi vísar kærða til þess að vísa beri málinu frá nefndinni á grundvelli vanreifunar þar sem málatilbúnaður kæranda sé óljós og þokukenndur. Telur kærða að erindi kæranda geti ekki talist tækt til meðferðar og uppfylli meðal annars ekki kröfur 7. gr. málsmeðferðarreglna fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Í þriðja lagi vísar kærða til þess að óskýrt sé að hverjum kæran beinist. Þannig sé kærandi meðal annars að kæra fyrir störf unnin af öðrum lögmanni en þeim sem kærður sé, sbr. framlagða reikninga nr. 987 frá 30. júní 2016 og nr. 956 frá 31. mars 2016. Bendir kærða á að tilgreindir reikningar séu vegna lögmannsstarfa sem hún hafi ekki komið nálægt. Þegar af þeirri ástæðu sé þess óskað nefndin vísi málinu frá.

Í fjórða lagi hafnar kærða því sem röngu að hún hafi sagt að málið væri fyrnt. Bendir kærða á að kærandi hafi snúið út úr eða misskilið hrapallega viðkomandi tölvubréf sem hún hafi sent enda komi fram í svari hennar til kæranda í tölvubréfi þann 5. maí 2017 að fresti til að bera úrlausn þinglýsingarstjóra undir héraðsdómara ljúki er fjórar vikur séu liðnar frá þinglýsingu.

Í fimmta lagi vísar kærða til þess að útgefnir reikningar vegna vinnu hennar í þágu kæranda vegna málflutnings sé að heildarfjárhæð 502.956 með virðisaukaskatti, sbr. reikninga nr. 1007 og nr. 1013, en ekki 941.594 krónur eins og kærandi haldi ranglega fram. Á þeim grundvelli hafnar kærða kröfu kæranda um lækkun þóknunar þar sem umkrafin fjárhæð teljist hæfileg. Vísar kærða til þess að sú vinna sem unnin hafi verið fyrir kæranda áður en kærða hafi komið að málinu hafi falist í því að reyna að greiða úr málum kæranda, miklum samskiptum við opinberar stofnanir, sýslumann og önnur yfirvöld og sáttaumleitunum á milli aðila sem augljóslega hafi ekki gengið eftir. Engin þjónusta hafi verið veitt vegna undirbúnings stefnu eða málflutnings sem kvörtun kæranda lúti að.

Vísar kærða til þess að samskipti á milli kæranda og Ha hdl. vegna kostnaðar eigi ekki við í þessu tilviki þar sem augljóslega hafi ekki verið að fjalla um hugsanlegan málskostnað í því samhengi.

Í samræmi við framangreint hafnar kærða annars vegar kröfum kæranda um lækkun þóknunarinnar og hins vegar öllum ásökunum sem hún telur útilokað að verjast með málefnalegum hætti. Gerir kærða því aðallega kröfu um að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að kröfu kæranda verði hafnað.

Í fyrri viðbótarathugasemdum kærðu ítrekaði aðilinn fyrri kröfur og sjónarmið og vísaði til þess að málatilbúnaður kæranda einkenndist af órökstuddum dylgjum sem myndu skýlaust flokkast undir atvinnuróg. Þannig sé það alrangt að kærða hafi komið óundirbúin til málsins. Kveður kærða það rangt að eigandi gróðurhússins hafi ekki verið með lóðarleigusamning og vísar um það til fyrirliggjandi veðbókarvottorðs sem lagt hafi verið fram í dómsmálinu og liggur fyrir nefndinni. Þá kveður kærða það rangt að hún hafi ekki bent dómara á að engin lóðaskiptasamningur væri fyrir hendi. Hafi það verið eitt af þeim atriðum sem kærða hafi sérstaklega tekið á í málflutningsræðu sinni og kæranda hafi verið kunnugt um enda viðstaddur sjálfan málflutninginn. Varðandi það að kærða hafi ekki ráðlagt kæranda um næsta skref vísar kærða til þess að nokkrum dögum eftir uppkvaðningu úrskurðarins þann x. maí 2017 hafi henni borist kæra frá úrskurðarnefnd lögmanna og á sama degi hafi hæstaréttarlögmaður haft samband við sig til að fá öll gögn málsins vegna fyrirhugaðrar kæru til Hæstaréttar.

Í síðari viðbótarathugasemdum kærðu vísaði aðilinn til þess að málinu hefði verið áfrýjað til Hæstaréttar sem feli í sér að viðkomandi lögmaður sem kom að málinu hafi talið líkur á að það gæti unnist. Geti kærða ekki borið ábyrgð á framsetningu á kröfugerð lögmanns kæranda fyrir Hæstarétti. Í öðru lagi hafnar kærða þeirri fullyrðingu kæranda sem rangri að dómkrafan hafi verið ódómtæk enda hefði málinu ekki verið vísað frá dómi. Þá sé það aðeins á forræði dómstóla að meta hvort dómakrafa teljist ódómtæk. Í þriðja lagi bendir kærða á að það sé rangt að hún hafi ekki krafist málskostnaðar, það hafi verið gert bæði munnlega og skriflega. Samkvæmt því hafnar kærða öllum ásökunum og kröfum kæranda í málinu.

Niðurstaða

                                                                          I.

Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um frávísunarkröfu kærðu en samkvæmt 2. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd löganna getur nefndin vísað máli frá ef í því eru sönnunaratriði, sem örðugt er að leysa úr undir rekstri málsins, eða mál er að öðru leyti ekki nægilega upplýst.

Um þá kröfu er í fyrsta lagi vísað til þess í greinargerð kærðu að ómögulegt sé að verjast ásökunum sem byggjast á ósannindum, í öðru lagi til þess að vísa beri málinu frá á grundvelli vanreifunar þar sem málatilbúnaður kæranda fyrir nefndinni sé óljós og þokukenndur og í þriðja lagi til þess að óútskýrt sé í málatilbúnaðu kæranda að hverjum kæran beinist enda lúti hún einnig af störfum sem unnin hafi verið af öðrum lögmanni.

Þótt fallast megi á það með kærðu að málatilbúnaður kæranda sé nokkuð á reiki og óskýr um ýmis atriði verður ekki fram hjá því litið að umkvörtunum kæranda í málinu er beint gegn kærðu sjálfri og lúta að rétti til endurgjalds og fjárhæð þess vegna starfa hennar og lögmannsstofu hennar í þágu kæranda, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Að mati nefndarinnar hefur málatilbúnaður kæranda ekki leitt til þess að kærða hafi átt í erfiðleikum með að taka til efnisvarna í málinu. Er það mat nefndarinnar að málið teljist nægilega reifað og upplýst, þar á meðal varðandi aðild til varnar í málinu. Samkvæmt því er frávísunarkröfu kærðu í máli þessu hafnað og verður það tekið til efnisúrlausnar.

II.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Eins og áður greinir leitaði kærandi til lögmannsstofu kærðu, P ehf., í septembermánuði 2015 vegna ágreinings um gróðurhús í eigu þriðja aðila á lóðinni að V en kærandi mun vera þinglýstur eigandi fasteignarinnar. Samkvæmt fyrirliggjandi tölvubréfasamskiptum frá september- og októbermánuði 2015 og samningi um lögfræðiþjónustu, dags. 13. október 2015, en efni tilgreindra skjala er nánar lýst í málsatvikalýsingu að framan, mun vinna í þágu kæranda í öndverðu hafa lotið að hagsmunagæslu gagnvart viðkomandi sýslumannsembætti, þ. á m. vegna skiptingar á lóð og þinglýstra heimilda á fasteigninni að V, sem og til að annast lögfræðilega skjalavinnslu, samskipti og veita lögfræðilega ráðgjöf vegna verkefnisins eins og það var skilgreint í samningnum. Af málatilbúnaði aðila verður ráðið að hvorki sé ágreiningur um hvert verkefnið hafi verið við upphaf starfans í þágu kæranda né að annar lögmaður á lögmannsstofu kærðu hafi sinnt verkefninu fyrst um sinn.

Áður en kærandi undirritaði samning um lögfræðiþjónustu óskaði aðilinn eftir upplýsingum um fyrirhugaðan kostnað vegna málsins. Í svari fulltrúa kærðu við þeirri fyrirspurn þann 15. október 2015 var upplýst að umfangið væri ekki ljóst en að gert væri ráð fyrir að vinnustundir vegna málsins yrðu á bilinu fjórar til átta klukkustundir og að ef miðað væri við hámarkið mætti gera ráð fyrir að kostnaður yrði um það bil 144.000 krónur auk virðisaukaskatts. Var jafnframt upplýst að kærandi yrði látinn vita ef sú tilgreining myndi ekki standast.

Af gögnum málsins verður jafnframt ráðið að verkefnið sem lögmannsstofa kærðu tók að sér og sinnti fyrir kæranda hafi tekið nokkrum breytingum eftir því sem á það leið. Þannig mun kærða hafa komið fyrst að málum og lögfræðiráðgjöf fyrir kæranda í septembermánuði 2016 eða tæpu ári eftir upphaf starfans en þá mun hafa verið hafin vinna við útburðarmál án undangengins dóms eða réttarsáttar á grundvelli 12. kafla laga nr. 90/1989 um aðför. Verður ekki annað ráðið en að kæranda hafi verið fullkunnugt um það efni og að kærða hefði tekið við rekstri málsins, sbr. meðal annars tölvubréf kæranda til kærðu frá 24. nóvember 2016 sem áður er lýst. Þannig var aðfararbeiðni beint til Héraðsdóms Y þann 29. nóvember 2016 þar sem þess var krafist fyrir hönd kæranda, sem gerðarbeiðanda, að viðkomandi gróðurhús yrði fjarlægt af fasteign kæranda. Annaðist kærða rekstur aðfararmálsins, sem rekið var sem héraðsdómsmálið nr. A-xx/2016, fyrir hönd kæranda. Með úrskurði Héraðsdóms Y uppkveðnum þann x. maí 2017 var kröfum kæranda hafnað og aðilanum gert að greiða gerðarþola 549.420 krónur í málskostnað á grundvelli forsendna sem nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan. Hvorki kærða né lögmannsstofa hennar sinntu frekari lögmannsstöfum fyrir kæranda eftir tölvubréfasamskipti aðila í kjölfar uppkvaðningar tilgreinds úrskurðar.

Í samræmi við framangreint mun kærða og lögmannsstofa hennar hafa sinnt lögmannsstörfum í þágu kæranda frá októbermánuði 2015 til byrjun maímánaðar 2017, þ.e. í rúmlega eitt og hálft ár. Á grundvelli þeirra lögmannsstarfa voru gefnir út fimm reikningar að heildarfjárhæð 1.216.638 krónur með virðisaukaskatti og útlögðum kostnaði. Nánar tiltekið var annars vegar um að ræða reikninga vegna lögmannsstarfa fulltrúa kærðu vegna starfa á tímabilinu frá októbermánuði 2015 til og með júnímánuði 2016 að fjárhæð 438.588 krónur með virðisaukaskatti, sbr. reikninga nr. 959 frá 31. mars 2016 og nr. 987 frá 30. júní 2016. Hins vegar var um að ræða reikninga vegna lögmannsstarfa kærðu í þágu kæranda á tímabilinu frá septembermánuði 2016 til og með aprílmánuði 2017 að fjárhæð 778.050 krónur með virðisaukaskatti, sbr. reikninga nr. 1007 frá 31. desember 2016, nr. 1013 frá 28. febrúar 2017 og nr. 1034 frá 30. júní 2017. Voru vinnustundir alls 46,25 klukkustundir og útselt tímagjald frá 18.000 krónur auk virðisaukaskatts til 26.100 krónur auk virðisaukaskatts.

Kvörtun kæranda byggir í grundvallaratriðum á því að hann hafi gert samning við lögmannsstofu kærðu um vinnu vegna hagsmuna gagnvart viðkomandi sýslumannsembætti vegna skiptingar á lóð við V. Áætlaður kostnaður hafi verið að hámarki 144.000 krónur auk virðisaukaskatts, þ.e. ef unnið yrði í átta vinnustundir við verkið. Við kvörtun hafi lögmannskostnaður kæranda hins vegar verið kominn í 941.594 krónur og 37,75 vinnustundir auk þess sem málið hafi tapast fyrir héraðsdómi og aðilanum þar gert að greiða gagnaðila málskostnað. Byggir kærandi á að hvorki kærða né lögmannsstofa hennar hafi upplýst kæranda um kostnað vegna málarekstursins auk þess sem kostnaður hafi fallið til við það eitt að koma kærðu, sem hafi komið ný að málinu á síðari stigum, inn í málið.

Um þetta efni er til þess að líta að upphaflegt verk sem lögmannsstofa kærðu tók að sér í þágu kæranda laut að afmörkuðum þætti varðandi skiptingu lóðar og þinglýstar heimildir á fasteign kæranda, sbr. það sem áður er lýst sem fær jafnframt stoð í samningi um lögfræðiþjónustu frá 13. október 2015. Þá liggur fyrir að verkefnið tók breytingum eftir því sem á það leið með auknu umfangi sem fólst í vinnu í þágu kæranda vegna útburðarmáls fyrir héraðsdómi án undangengins dóms eða réttarsáttar sem rekið var á grundvelli 12. kafla laga nr. 90/1989 um aðför. Samkvæmt áðurnefndum samningi um lögfræðiþjónustu gat kærandi hvenær sem er á gildistíma samningsins óskað eftir frekari ráðgjöf en vegna þess afmarkaða verkefnis sem skilgreint hafði verið í samningnum við upphaf samningssambands aðila. Þótt ekki hafi verið gerður skriflegur viðauki um það viðbótarverkefni sem kærða og lögmannsstofa hennar tóku að sér í þágu kæranda, sbr. 2. mgr. 1. gr. samningsins, verður ekki fram hjá því litið að samkvæmt gögnum málsins var kærandi upplýstur um framvindu verkefnisins og að það væri umtalsvert meira að umfangi en gert hafði verið ráð fyrir í upphafi og kærandi hafði verið upplýstur um, sbr. áður lýst tölvubréf frá 15. október 2015. Má um það efni benda á fyrirliggjandi tölvubréfasamskipti á milli málsaðila, málatilbúnað kæranda fyrir nefndinni þar sem greinir að kærða hafi ráðlagt kæranda að fara í útburðargerð á grundvelli laga nr. 90/1989 sem og til þeirra reikninga sem gefnir voru út af lögmannsstofu kærðu með reglulegu millibili undir rekstri málsins en ekki verður annað ráðið en að þeir hafi verið greiddir án nokkurra athugasemda af hálfu kæranda, sbr. reikning nr. 959 útgefinn þann 31. mars 2016, nr. 987 útgefinn þann 30. júní 2016, nr. 1007 útgefinn þann 31. desember 2016 og nr. 1013 útgefinn þann 28. febrúar 2017.

Varðandi það efni í kvörtun kæranda að kærða hafi tjáð honum að málið væri fyrnt fyrir löngu en samt sem áður ráðlagt honum að halda málarekstrinum til streitu er þess að gæta að samkvæmt tölvubréfasamskiptum aðila frá 4. og 5. maí 2017 laut athugasemd kærðu um meinta fyrningu að fresti til að bera úrlausn þinglýsingarstjóra undir héraðsdómara samkvæmt þinglýsingalögum nr. 39/1978 en ekki að sakarefni þess máls sem kærða hafði rekið fyrir kæranda. Samkvæmt því fær nefndin ekki séð að málatilbúnaður kæranda um þetta efni hafi þýðingu við úrlausn málsins.

Kærandi hefur jafnframt borið því við að rökstuðningur kærðu fyrir útburðargerðinni hafi verið ófullnægjandi og að hún hafi mætt óundirbúin til málarekstursins. Kærða hefur hins vegar andmælt þessum málatilbúnaði sem tilhæfulausum. Af fyrirliggjandi gögnum verður hvorki ráðið að mati nefndarinnar að rökstuðningi hafi verið ábótavant með þeim hætti að unnt væri að fallast á kröfur kæranda fyrir nefndinni né að kærða hafi verið óundirbúin í störfum sínum í þágu kæranda. Samkvæmt því eru ekki efni til að fallast á kröfur kæranda með vísan til tilgreindra sjónarmiða aðilans.

Í síðari viðbótarathugasemdum kæranda til nefndarinnar var kvörtun aðilans afmörkuð með nokkuð frábrugðnum hætti. Var þannig vísað til þess að kvörtunin lyti í fyrsta lagi að því að kærða hafi ekki krafist málskostnaðar í aðfararbeiðni, í öðru lagi að því að þeirri grundvallarröksemd að viðkomandi gróðurhúsi hefði ekki fylgt lóðaréttindi hefði ekki verið haldið fram undir rekstri málsins í héraði, í þriðja lagi að dómkrafan hafi verið ódómtæk, í fjórða lagi að því að málið hafi varðað eignarrétt og hafi því eðli máls samkvæmt þurft að rekja hvernig gróðurhús annars vegar og hins vegar önnur mannvirki á lóðinni hafi komist í ólíkar hendur en að það hafi ekki verið gert og í fimmta lagi að því að kærða hafi mætt óundirbúin til málflutnings fyrir héraðsdómi sem hafi leitt til þess að kærandi hafi þurft að gefa aðilaskýrslu fyrir dóminum til að upplýsa málið sem tíðkist alla jafnan ekki í slíkum málum.

Um þetta efni er þess í fyrsta lagi að gæta að kvörtun kæranda var upphaflega afmörkuð við ágreining um rétt kærðu til endurgjalds fyrir störf sín í þágu kæranda eða fjárhæð þess, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Samkvæmt því fær málatilbúnaður aðilans um að kærða hafi á einhvern hátt gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna ekki komist að fyrir nefndinni, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Í öðru lagi er það mat nefndarinnar, eins og áður er lýst, að af fyrirliggjandi gögnum verði hvorki ráðið að rökstuðningi fyrir kröfu um útburðargerð hafi verið ábótavant með þeim hætti að unnt væri að fallast á kröfur kæranda fyrir nefndinni né að kærða hafi verið óundirbúin í störfum sínum í þágu kæranda. Þá verður ekki séð að málatilbúnaður kæranda um að kærða hafi verið óundirbúin við málareksturinn fái stoð í því að kærandi hafi gefið aðilaskýrslu við aðalmeðferð þess dómsmáls sem rekið hafi verið enda slíkt ekki óheimilt þótt vitnaleiðslur og mats- og skoðunargerðir skuli að jafnaði ekki fara fram í slíkum málum, sbr. 1. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989.

Í þriðja lagi verður ekki annað ráðið af úrskurði Héraðsdóms Y frá x. maí 2017 í máli nr. A-xx/2016 en að höfð hafi verið uppi krafa um málskostnað fyrir hönd kæranda og að sú krafa hafi komist að í málinu, sbr. eftirfarandi á bls. 1 í úrskurðinum:

Ekki er getið um málskostnaðarkröfu í aðfarabeiðni, en við munnlegan flutning málsins var höfð uppi slík krafa af hálfu gerðarbeiðanda, auk þess að tillit yrði tekið til virðisaukaskatts og var því ekki mótmælt af hálfu gerðarþola að hún kæmist að.“

Samkvæmt því verður ekki séð að kærandi hafi orðið fyrir réttarspjöllum þótt málskostnaðarkrafa hafi ekki verið höfð uppi í aðfararbeiðni til héraðsdóms eins og kærða hefði réttilega átt að gera.

Í fjórða lagi fær málatilbúnaður kæranda um að dómkrafa í aðfararbeiðni hafi verið ódómtæk hvorki stoð í ofangreindum úrskurði héraðsdóms frá x. maí 2017 né dómi Hæstaréttar frá x. júní í máli réttarins nr. xxx/2017 enda krafan tekin til efnislegrar meðferðar á báðum dómstigum þótt henni hafi verið hafnað.

Í 5. gr. samnings um lögfræðiþjónustu, dags. 13. október 2015, var tiltekið um þóknun lögmannsstofu kærðu að reikningar fyrir veitta þjónustu myndu byggja á fjölda vinnustunda/klukkustunda vegna verkefnisins. Var tiltekið að gjaldið fyrir hverja vinnustund kynni að vera breytilegt og að það byggði á ábyrgð og hæfni þeirra starfsmanna sem ynnu að verkefninu á hverjum tíma. Þá bar að upplýsa kæranda um tímagjald einstakra starfsmanna sem aðkomu hefðu að verkefninu.

Af málatilbúnaði kæranda og fyrirliggjandi gögnum verður hvorki ráðið að ágreiningur sé um tímagjald né að kærandi hafi gert athugasemdir við tímaskráningu í vinnuskýrslu kærðu og fulltrúa hennar en útprent úr þeim mun hafa fylgt með öllum útgefnum reikningnum til kæranda.

Þótt ágreiningur sé um hvort gæði lögmannsstarfa kærðu í þágu kæranda hafi verið forsvaranleg er það mat nefndarinnar að virtum þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu, þ. á m. tímaskýrslum og samningi um lögfræðiþjónustu frá 13. október 2015, að sú þóknun sem kærða og lögmannsstofa hennar áskildu sér vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda hafi verið hæfileg. Samkvæmt því er kröfu kæranda, um að hluti útgefinna reikninga verði felldir niður þannig að greiðslur sem inntar hafa verið af hendi af hálfu kæranda verði endurgreiddar að hluta, hafnað.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilin þóknun kærðu, B hdl., vegna starfa hennar í þágu kæranda, A, felur í sér hæfilegt endurgjald. Endurgreiðslukröfu kæranda er hafnað.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður.

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Þ. Snævarr hrl.

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson