Mál 3 2017

Ár 2017, 28. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 3/2017:

G

gegn

S hdl.

og gefið út svofellt

Á L I T:

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 10.janúar 2017 erindi, A hdl. fyrir hönd G (hér eftir nefndur „álitsbeiðandi"), þar sem óskað var eftir álitsgerð nefndarinnar, sbr. 3. mgr. 26. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998,  í máli Héraðsdóms Norðurlands eystra nr.X, þar sem lögmannsstofa S hdl. (hér eftir „lögmaðurinn") krefur um greiðslu  reiknings vegna lögmannsþjónustu vegna sambúðarslita álitsbeiðanda og H. Nefndin óskaði eftir greinargerð lögmannsins með bréfi 11. janúar 2017 og bárust andsvör hans þann 23. janúar 2017. Var álitsbeiðanda sent bréf hans til athugasemda með bréfi dags. 31. janúar 2017. Hinn 6. febrúar 2017 bárust athugasemdir sem sendar voru lögmanninum þann 16. febrúar 2017. Svar hans barst þann 6. mars 2017 og var álitsbeiðanda sent það til upplýsingar. Engar frekari athugasemdir bárust og er álitsgerð þessi byggð á fyrirliggjandi gögnum.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Eftir því sem fram kemur í álitsbeiðni, greinargerð lögmannsins og öðrum gögnum eru málsatvik þau að álitsbeiðandi leitaði til lögmannsins vegna slita á óvígðri sambúð hans og H eftir að honum hafði borist bréf frá lögmanni hennar þar sem settar voru fram kröfur vegna sambúðarslitanna. Aðilar náðu ekki samkomulagi um fjárslitin en niðurstaða fékkst  um forsjá sonar þeirra, lögheimili hans og meðlagsgreiðslur. Samkvæmt beiðni H voru fjárslitin tekin til opinberra skipta með úrskurði sem kveðinn var upp þann 25. febrúar 2015 á grundvelli 1. mgr. 98. gr. laga nr. 20/1991 og var E hdl. skipaður skiptastjóri. Samkvæmt gögnum liggur fyrir að meðan opinberu skiptin stóðu voru haldnir 13 formlegir skiptafundir auk óformlegra samskipti milli funda.

Þann 29. október 2015 komust H og álitsbeiðandi að samkomulagi um að hann tæki yfir 50% eignarhlut H í jörðinni B í Skagafirði ásamt öllu því sem henni fylgdi. Jafnframt varð samkomulag um að hann tæki að sér greiðslu skulda við Arion banka með veði í framangreindri jörð og yfirdráttarskuld að fjárhæð 24,6 milljónir króna. Samhliða skyldi H leyst undan ábyrgð á sameiginlegum skuldbindingum þeirra og fá greiðslu að fjárhæð 11,5 milljónir króna. Samkomulag þetta var undirritað með fyrirvara um fjármögnun. Þegar liðnir voru tveir mánuðir frá samkomulaginu lá fyrir að álitsbeiðandi fengi ekki fjármögnun og féll það því niður.

Þann 28. desember 2015 var gengið frá nýju samkomulagi milli aðila sem samþykkt var með skiptagerð skiptastjóra þann 4. janúar 2016. Í því fólst að H tæki yfir 50% eignarhlut álitsbeiðanda í jörðinni B og áhvílandi veðlán auk þess sem samið var um skiptingu lausafjár og skulda. Samkvæmt samkomulaginu skyldi H greiða álitsbeiðanda11 milljónir króna.

Eftir að fjárslitum aðila var lokið með framangreindum hætti varð álitsbeiðandi ósáttur við málalyktir og taldi að lögmaðurinn hefði veitt sér ranga sérfræðiráðgjöf og valdið sér skaða. Af þeim sökum hafnaði hann að greiða þóknun samkvæmt reikningi dags. 18. febrúar 2016. Óánægja hans laut  aðallega að því að hann taldi ráðgjöf lögmannsins hafa miðast við að aðilar hefðu verið í hjúskap en ekki óvígðri sambúð og skiptin því hefðu ranglega verið byggð á helmingaskiptareglunni.

Þar sem framangreindur reikningur var ekki greiddur var Lögheimtunni ehf. falin innheimta hans og var stefna þingfest í Héraðsdómi Norðurlands eystra þann 26. maí 2016, þar sem krafist var greiðslu að fjárhæð kr. 963.480,00 auk dráttarvaxta og málskostnaðar að mati dómsins.

Í tímaskýrslu sem lögð var fram í málinu kemur fram svohljóðandi yfirlit yfir vinnu hans samkvæmt reikningi dags. 18. febrúar 2016, en tímagjald var 18.500 króna fyrir hverja útselda klukkustund:

 

Skýring á vinnu                                                                                                       Klst.                                                                                                  

Mæting og undirbúningur v/ 14 skiptafunda á tímabilinu mars til nóv 2016            17

Símtöl við G tímabilið haust 2014 til janúar 2016                                                    2,5

Samskipti við fasteignasala                                                                                       1,5

Samskipt við matsmenn lausafjár                                                                             1,5

Samskipti við lögmann konu                                                                                     2

Vinna við samkomulag dags. 29.10. 2015                                                               9

Vinna við endanlegt samkomulag í desember 2015                                                 7

                                                                                                                                 42

 

II.

Þann 10. janúar 2017 barst úrskurðarnefnd lögmanna beiðni álitsbeiðanda um álitsgerð á grundvelli 3. mgr. 26. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, vegna kröfu framangreindrar kröfu um lögmannsþóknun í umræddu héraðsdómsmáli nr. E-96/2016.

Í álitsbeiðni er vísað til dómkrafna sem koma fram í greinargerð í dómsmálinu þar sem aðallega er krafist sýknu en til vara lækkunar á kröfum. Í beiðninni er þess farið á leit að úrskurðarnefnd lögmanna ákvarði hæfilega þóknun starfa lögmannsins og gefi jafnframt álit sitt á því hvort hann hafi með störfum sínum valdið álitsbeiðanda skaða.

Af hálfu álitsbeiðanda er aðallega byggt á því að lögmaðurinn hafi veitt honum ranga ráðgjöf við fjárslitin með því að um þau skyldi fara eftir helmingaskiptareglu eins og um hjúskap væri að ræða. Hann kveður lögmanninn ekki hafa hlustað á staðhæfingar sínar um að með honum og fyrrum sambýliskonu hans hafi ekki myndast slík fjárhagsleg samstaða að rétt væri að skipta eignum til helminga. Því til stuðnings byggir hann í fyrsta lagi á að aðilar hafi báðir verið á vinnumarkaði þann tíma sem sambúðin varði og að eigna hafi verið aflað með sjálfsaflafé hvors um sig. Í öðru lagi hafi þau ekki verið samsköttuð nema mjög skamman tíma á sambúðartímanum og þá sambýliskonunni til hagræðis þannig að hún gæti nýtt sér ónýttan persónuafslátt álitsbeiðanda meðan hann sá um heimilið. Í þriðja lagi hafi hvorugur aðilinn haft almennan ákvörðunarrétt á lausafjárkaupum hins. Í fjórða lagi hafi eignir sambýliskonunnar ekki komið til skipta þ.m.t. snyrtistofa hennar, á sama tíma og allir hlutir í eigu hans og tengdust starfi hans í tamningum hafi komið undir skiptin. Í sjötta lagi hafi fasteignin B verið eina eignin sem þau áttu sameiginlega, þó þannig að álitsbeiðandi hafi lagt fram kaupsamningsgreiðslur en sambýliskonan hafi ásamt honum verið skuldari að fasteignaláni með veð í fasteigninni. Telur álitsbeiðandi að skýrt hafi verið hverjar eignarheimildir væru og að slíkt megi greina eftir því hvað hvor aðilinn átti eða var að nýta eign sína.

Álitsbeiðandi heldur fram að lögmaðurinn hafi gengið hart að sér að klára skiptin með þeim hætti sem gert var þ.e. á grundvelli helmingaskiptareglunnar og bent á að þau fælu í sér hagstæðari niðurstöðu fyrir hann. Þrátt fyrir kröftug mótmæli hafi lögmaðurinn ekki brugðist við.

Álitsbeiðandi telur að lögmaðurinn hafi augljóslega átt að gefa sér þær ráðleggingar að láta dómstóla skera úr um rétt fyrrum sambýliskonu til eignamyndunar í lausafé sem skráð var á hann, enda hafi augljós vafi verið til staðar og sönnunarbyrðin hvílt á sambýliskonunni. Telur hann að dómsniðurstaða hefði ekki getað falið í sér lakari niðurstöðu en endanlegt samkomulag aðila, jafnvel þótt það hefði tapast að öllu leyti. Álitsbeiðandi hafi hins vegar treyst á sérfræðiþekkingu lögmannsins við ákvörðunartöku í málinu.

Álitsbeiðandi heldur fram að lögmaðurinn hafi hvorki haft umboð til þess að taka þær veigamiklu ákvarðanir sem teknar voru á skiptafundum svo sem að hafna framkomnum tilboðum, án þess að bera það undir sig né að taka þátt í samningsgerð fyrir sína hönd. Hann telur að með þessu hafi lögmaðurinn tekið framfyrir hendur sínar þegar veigamiklar ákvarðanir voru teknar og fullvissað hann um að með því móti væri hagsmunum hans best borgið.

Álitsbeiðandi telur að krafa samkvæmt hinum umþrætta reikningi sé allt of há og ekki í samræmi við umfang verksins eða niðurstöðu þeirrar vinnu sem lögmaðurinn innti af hendi. Vísar hann til þess að samkvæmt gögnum málsins hafi aðeins verið haldnir sjö skiptafundir en ekki 14 eins og kemur fram í tímaskýrslu lögmannsins. Að auki hafnar álitsbeiðandi sérstaklega þeim 16 klukkustundum sem lögmaðurinn kveðst hafa unnið að gerð endanlegs samkomulags um sambúðarslitin og bendir á að umrætt samkomulag sé aðeins rétt rúm blaðsíða sem feli í sér upptalningu á eignum og greiðslum.

Álitsbeiðandi bendir á að engar tímaskýrslur hafi fylgt kröfunni þannig að hann gæti gert sér grein fyrir hvað störf lögmannsins fólu í sér, önnur en samantekt sem ber þess merki að hafa verið gerð eftirá sem fylgiskjal þessa máls og sé ekki í samræmi við önnur gögn þess. Auk þess hafi honum hvorki verið gert ljóst að kostnaðurinn yrði jafn mikill og raun ber vitni né honum tilkynnt um stöðu mála á meðan á þeim stóð. Hann telur að um einföld skipti hafi verið að ræða þar sem fasteign átti að koma til skiptanna en annað ætti að haldast á kennitölu aðila.

Álitsbeiðandi álítur aðkomu lögmannsins hafi aðeins orðið til þess að málið safnaði á sig kostnaði og að niðurstaða varð honum óhagstæð. Jafnframt telur hann að meginefni meintrar vinnu lögmannsins hafa verið verk sem skiptastjóri átti að sinna auk þess sem lögmaðurinn hafi ekki lagt fram nein fylgigögn máli sínu til stuðnings.

 

III.

Lögmaðurinn telur að erindi álitsbeiðanda fullnægi ekki skilyrðum til þess að um hana verði fjallað efnislega. Byggir hann þá skoðun m.a. á því að miðað við fyrirliggjandi gögn verði ekki séð með nokkurri vissu hver sé álitsbeiðandi þar sem beiðnin hafi verið óundirrituð. Ekki fáist heldur séð hver kvartandi sé og virðist mega ganga út frá því miðað við fyrirliggjandi gögn að kvartandi sé A hdl. lögmaður álitsbeiðanda þó hann telji jafnframt ólíklegt að kvörtunin stafi frá lögmanni miðað við orðalag hennar. 

Lögmaðurinn telur að umkvartanir álitsbeiðanda vegna þóknunar fyrir störf hans eigi ekki við rök styðjast. Ekki sé unnt að fallast á að aðkoma hans í málinu hafi aðeins verið til þess að málið safnaði á sig kostnaði og niðurstaða þess yrði álitsbeiðanda óhagstæð enda fullyrðingar í þessa veru órökstuddar. Vísar hann til þess að hátt sé reitt til höggs sem ekki geti talist vinsamlegt í garð gamals skólafélaga. Um sé að ræða svívirðilega aðdróttun í hans garð. Lögmaðurinn mótmælir sérstaklega staðhæfingum um að meginefni vinnu hans hafi verið að vinna verk skiptastjóra.

Varðandi fullyrðinguum að skiptafundir hafi verið aðeins verið sjö talsins bendir lögmaðurinn á að haldnir hafi verið 13 formlegir fundir og að gerð endanlegs samkomulags hafi tekið 16 klukkustundir þrátt fyrir að aðeins séu tilgreindir 7 klst. í tímaskýrslu sem fylgdi með reikningi dags. 18. febrúar 2016. Lögmaðurinn tiltekur sérstaklega að ekki hafi verið færðar fram sönnur á þá fullyrðingu að hann hafi tekið fram fyrir hendur á álitsbeiðanda við töku á veigamiklum ákvörðunum.

Lögmaðurinn mótmælir því að hann hafi ekki skilað tímaskýrslu eða gert grein fyrir hver kostnaður málsins yrði og telur að þar fari álitsbeiðandi með rangt mál. Vísar hann til þessa  að tímaskýrsla liggi fyrir í málinu þó að hún hefði mátt vera nákvæmari hvað varðar ýmsar tímasetningar. Bendir hann á að tímafjöldinn hefði getað verið mun meiri en hann hafi tekið ákvörðun um að skera niður fjölda tíma vegna aðstæðna. Í öðru lagi bendir hann á að ítrekað hafi verið farið yfir það með álitsbeiðanda að því meiri tími sem færi í málið yrði kostnaðurinn hærri þar sem þóknun væri ákvörðuð á grundvelli tímagjalds. Ekki verði séð að fundið hafi verið að þessu, hvorki í greinargerð né í álitsbeiðni. Álitsbeiðandi hafi mátt gera sér grein fyrir því að vinna lögmannsins sem í upphafi hafi ekki verið reiknað með að yrði umfangsmikil, hlyti að verða mun meiri þegar málið dróst á langinn og ekki hafi tókst að ljúka því fyrr en komið var á annað ár.

 

Niðurstaða.

I.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum. Lögmanni ber að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknuð.

Samkvæmt 3. mgr. 26. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 getur úrskurðarnefnd lögmanna látið í té álitsgerð til afnota um ágreiningsefni sem dómsmál er rekið um, að ósk annars eða beggja aðila dómsmálsins en tilgreint ákvæði  fjallar um ágreining lögmanns við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín. Lýtur álitsgerð þessi annars vegar að því að meta umfang starfa lögmannsins, en hins vegar að því álitaefni hvert er sanngjarnt endurgjald fyrir þau. Að því er síðarnefnda atriðið varðar skal áréttað að jafnan þegar nefndin tekur afstöðu til þess  hvert sé  hæfilegt endurgjald fyrir störf lögmanns, ræðst matið að meginstefnu  af því um hvað hafi verið samið og hvað sé sannað í þeim efnum og hvernig fjallað hefur verið um gjaldtökuna í samskiptum lögmanns og umbjóðanda hans. Eins og hér er í pottinn búið eiga dómstólar þó síðasta orðið um sönnun og túlkun þessara samskipta. Verður heldur ekki komið við fyrir nefndinni munnlegum framburði sem kann að hafa áhrif á þetta mat.

 

II.

Í erindi álitsbeiðanda er meðal annars óskað álits á því hvort að lögmaðurinn hafi með störfum sínum valdið honum skaða. Úrskurðarnefnd lítur svo á að um sé að ræða beiðni um álitsgerð um hæfilegt endurgjald lögmannsins, sbr. 3. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, til afnota í máli Héraðsdóms Norðurlands eystra nr.  X auk þess sem það er ekki á valdsviði nefndarinnar að fjalla um meinta bótaskyldu lögmanna. Krafa um álit á bótaskyldu er því vísað frá nefndinni.

 

III.

Í greinargerð lögmannsins er gerð krafa um að málinu verði vísað frá á þeim grundvelli að ekki verði séð með vissu hver sé álitsbeiðandi þar sem beiðnin sé óundirrituð og að ganga megi út frá því að kvartandi sé A hdl. Samkvæmt gögnum málsins er A hdl. lögmaður álitsbeiðanda í máli Héraðsdóms Norðurlands eystra nr. X þar sem óskað er eftir álitsgerð úrskurðarnefndar, sbr. 3. mgr. 26. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Samkvæmt því sé ljóst að A hdl. hafi stöðuumboð til þess að fara með hagsmunagæslu fyrir álitsbeiðanda ogað óska eftir umbeðnu áliti úrskurðarnefndar lögmanna. Frávísunarkröfu lögmannsins er því hafnað.

 

IV.

Samkvæmt framlögðum gögnum sinnti lögmaðurinn margvíslegri lögfræðiþjónustu fyrir álitsbeiðanda frá nóvember 2014 til janúar 2016. Gögn málsins bera með sér að um allumfangsmikið mál hafi verið að ræða sem snéri að ýmsum ágreiningsefnum  milli álitsbeiðanda og H vegna sambúðarslita þeirra sem leiddu til opinberra skipta og þar með að skiptastjóri var skipaður  á grundvelli 1. mgr. 98. gr. laga nr. 20/1991. Lauk hinum opinberu skiptum með samkomulagi aðila dagsettu 4. janúar 2016. Áður en endanlegt samkomulag tókst milli aðila hafði verið gert annað samkomulag sem féll niður þar sem álitsbeiðandi gat ekki efnt það. Samkvæmt framlagðri tímaskýrslu voru skráðar vinnustundir lögmannsins í málinu 42 talsins.Til samanburðar má benda á að útseldir tímar  lögmanns H, voru 39,25 talsins, svo sem fram kemur í tölvupósti hans dags. 2. mars 2017.

Tímagjald lögmannsins var 18.500 krónur og nam krafa um þóknun 777.000 krónur auk virðisaukaskatts að fjárhæð186.480 krónur eða samtals 963.480 krónur.

Úrskurðarnefnd gerir ekki athugasemdir við áskilið tímagjald lögmannsins. Þó telja verði að tímaskýrsla lögmannsins hefði átt að vera skýrari og ítarlegri er það álit úrskurðarnefndar að hún, ásamt öðrum fyrirliggjandi gögnum og skýringum, gefi fullnægjandi upplýsingar um umfang starfa hans í þágu álitsbeiðanda. Með hliðsjón af því umfangi og eðli þess verks um er að ræða er það mat nefndarinnar að umkrafin tímafjöldi teljist eðlilegur. Í samræmi við það er það álit úrskurðarnefndar lögmanna að umkrafin þóknun fyrir lögmannsstörf fyrir álitsbeiðanda í greindu sambúðarslitamáli teljist hæfileg í skilningi 24. gr. laga nr. 77/1998.

 

Á L I T S O R Ð :

Það er álit úrskurðarnefndar lögmanna að áskilið endurgjald S hdl. vegna lögmannsstarfa hans fyrir G, samtals að fjárhæð 963.480 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, teljist hæfilegt í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.