Mál 8 2017

Ár 2017, 8. september 2017, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

 Fyrir var tekið mál nr. 8/2017:

A,

gegn

B hrl.

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S KU R Ð U R :

 

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 3. febrúar 2017 erindi kæranda, A, til heimilis að D, en í því er kvartað yfir störfum kærða, B hrl., með starfsstöð að Y, í þágu kæranda.

 

Með bréfi úrskurðarnefndar til kæranda, dags. 8. febrúar 2017, sem kærði fékk afrit af, var upplýst um að litið væri svo á að erindi kæranda sneri bæði að ágreiningi um endurgjald eða fjárhæð þess samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og að kvörtun vegna starfa kærða og beitingu viðurlaga samkvæmt 27. gr. laganna. Var sérstaklega tilgreint í bréfinu að ekki yrði fjallað um kröfur kæranda um bótaskyldu, beiðni um að kærandi yrði tekinn af vanskilaskrá, beiðni um að kærði myndi sæta læknisrannsókn eða aðrar kröfur sem féllu utan við starfssvið nefndarinnar.

 

 Þann sama dag var kærða veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar og barst hún þann 15. mars 2017 frá lögmanni kærða, C hdl. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 16. mars 2017. Hinn 31. mars 2017 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til lögmanns kærða þann 3. apríl 2017. Andsvör kærða bárust 21. apríl 2017 og voru þau send kæranda með bréfi dags. 26. sama mánaðar með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Engar frekari athugasemdir voru gerðar og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.  

Málsatvik og málsástæður

 

I.

Kærði annaðist lögmannsstörf fyrir kæranda á árinu 2015. Má upphaf þeirra starfa rekja til ágreinings á milli kæranda og nánar tilgreindrar lögmannsstofu vegna veittrar lögmannsþjónustu og útgefinna reikninga á þeim grundvelli. Mun kærandi hafa talið að verulegir gallar væru á hinni veittu þjónustu og af þeim sökum væri honum óskylt að greiða kröfur á grundvelli útgefinna reikninga.

 

Í kjölfar málshöfðunar á hendur kæranda vegna hinna umþrættu reikninga leitaði kærandi til kærða í febrúarmánuði 2015. Varð úr að kærði tók að sér hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna innheimtumálsins sem rekið var fyrir Héraðsdómi K. Var greinargerð með vörnum kæranda í málinu lögð fram á dómþingi þann X. mars 2015. Málið var dómtekið í kjölfar aðalmeðferðar þess þann X. október 2015. Dómur í málinu var uppkveðinn í Héraðsdómi K þann X. nóvember 2015 þar sem kæranda var gert að greiða stefnanda málsins höfuðstólsfjárhæðir útgefinna reikninga auk dráttarvaxta og málskostnaðar.

 

Af gögnum málsins verður ekki séð að kærði hafi sinnt frekari lögmannsstörfum fyrir kæranda eftir uppkvaðningu dómsins þann X. nóvember 2015.

 

Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni gaf kærði út einn reikning vegna lögmannsstarfa hans í þágu kæranda. Nánar tiltekið var gefinn út reikningur nr. 00420 þann 13. janúar 2016 að fjárhæð 435.500 krónur með virðisaukaskatti, þar af 1.500 krónur vegna útlagðs kostnaðar. Samkvæmt tímaskýrslu kærða, dags. 23. desember 2015 sem liggur fyrir úrskurðarnefndinni, voru skráðar vinnustundir kærða í þágu kæranda í tengslum við rekstur ofangreinds héraðsdómsmáls alls 44 klukkustundir og 50 mínútur. Var tiltekið í tímaskýrslu að hver klukkustund væri útseld á 23.000 krónur auk virðisaukaskatts og heildarkostnaðar samkvæmt því 1.278.647 krónur.

 

Ágreiningur varð á milli aðila um greiðsluskyldu kæranda gagnvart kærða samkvæmt ofangreindum reikningi. Þar sem reikningurinn fékkst ekki greiddur höfðaði kærði mál á hendur kæranda fyrir Héraðsdómi K til innheimtu skuldar samkvæmt reikningnum. Var málið þingfest þann X. apríl 2016 og fékk málsnúmerið X. Með dómi Héraðsdóms K í málinu, sem uppkveðinn var þann X. september 2016, var kæranda gert að greiða kærða 435.500 krónur með dráttarvöxtum frá 13. janúar 2016 til greiðsludags auk málskostnaðar. Af gögnum málsins verður ekki séð að til frekari málareksturs eða lögskipta hafi komið á milli aðila vegna lögmannsstarfa kærða í þágu kæranda en síðustu samskipti aðila, sem liggja fyrir nefndinni, eru tölvubréfasamskipti frá 25. og 26. október 2016.

 

II.

Í öndverðu var lagður sá skilningur í kröfugerð og málatilbúnað kæranda að aðilinn krefðist þess að kærða skyldi gert að sæta agaviðurlögðum fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, auk þess sem ágreiningur væri um rétt kærða til endurgjalds fyrir störf sín í þágu kæranda, sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna. Í kvörtun kæranda var ekki upplýst um að þegar væri lokið dómsmáli aðila vegna ágreinings um greiðsluskyldu kæranda samkvæmt útgefnum reikningi kærða. Var nefndin þannig fyrst upplýst um dóm Héraðsdóms K í máli nr. X í greinargerð og með gagnaframlagningu kærða undir rekstri málsins, sem áður er lýst.

 

Kvörtun kæranda lýtur að ýmsum þáttum vegna lögmannsstarfa kærða í þágu kæranda á árinu 2015. Eiga öll kvörtunarefnin það sammerkt að varða störf kærða vegna og í tengslum við héraðsdómsmálið nr. X, sem rekið var fyrir Héraðsdómi K, þar sem kærði hélt uppi vörnum og sinnti hagsmunagæslu fyrir kæranda. Nánar tiltekið kvartar kærandi yfir því, með nánar tilgreindum rökum, að kærði hafi ekki veitt sýnilega sérfræðiþjónustu, að hagsmunir kæranda hafi ekki verið í fyrirrúmi í störfum kærða, að eftirfylgni kærða samkvæmt skjölum hafi verið brotin þar sem vitni hafi ekki verið leidd í samræmi við áskilnað í greinargerð, að framlögð greinargerð í málinu hafi ekki verið gerð í sátt við kæranda auk þess sem hún hafi verið illa unnin og að kærði hafi í störfum sínum brotið gegn lögum nr. 77/1998 um lögmenn, lögum nr. 57/2015 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og siðareglum lögmanna.

 

III.

Kærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 1. mgr. og 3. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Til vara krefst kærði þess að hafnað verði sjónarmiðum kæranda um að tilefni sé til athugasemda við áskilið endurgjald eða störf kærða. Þá krefst kærði þess að kæranda verði gert að greiða sér málskostnað með álagi samkvæmt 15. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 og til hliðsjónar ákvæði 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Kærði byggir aðalkröfu sína á því að hvort heldur sem kvörtunin yrði heimfærð til ágreinings um endurgjald fyrir störf kærða eða um að kærði hafi gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna sé óhjákvæmilegt að vísa málinu frá á þeim grundvelli að meira en eitt ár var liðið þegar kvörtun var lögð fram þann 3. febrúar 2017 frá því kostur var á að koma henni á framfæri, sbr. 6. gr. málsmeðferðarreglna fyrir úrskurðarnefnd lögmanna sem og 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

 

Hvað varði endurgjald fyrir störf kærða þá hafi reikningur verið gefinn út þann 13. janúar 2016 auk þess sem dæmt hafi verið um kröfuna með dómi Héraðsdóms K frá X. september 2016 í máli nr. X. Beri því að vísa þeim þætti málsins frá nefndinni með vísan til 1. og 3. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Um kvörtunarnefni kæranda sem lúti að öðru en endurgjaldi þá vísar kærði til þess að dómur hafi fallið í því máli sem kærði rak fyrir kæranda þann X. nóvember 2015. Heyri öll kvörtunarefni kæranda til undirbúnings og málflutnings þess máls og hafi öll atvik legið skýrt fyrir við uppkvaðningu dómsins. Ekki sé unnt að miða ársfrestinn við síðara tímamark þar sem kæranda hafi verið í lófa lagið þá þegar að koma kvörtunum sínum á framfæri við nefndina. Beri því að vísa málinu í heild sinni frá nefndinni.

 

Að öðru leyti byggir kærði á að kröfugerð kæranda sé óskýr og að meintur ágreiningur í málinu eigi ekki undir nefndina. Þá mótmælir kærði öllum ávirðingum kæranda sem röngum og ósönnuðum og byggir á að vinna hans og hagsmunagæsla fyrir kæranda hafi öll verið til fyrirmyndar og staðist lagakröfur sem og ákvæði siðareglna.

 

Niðurstaða

I.

Í 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er mælt svo fyrir að lögmanni sé rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skuli umbjóðanda hans gert það ljóst eftir því sem unnt er hver fjárhæð þess gæti orðið.

 

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 er unnt að leggja fyrir úrskurðarnefnd lögmanna ágreining um rétt lögmanns til endurgjalds eða fjárhæð þess. Þá er tiltekið að nefndin vísi frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá.

 

Þá er í 3. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 kveðið á um að ef lagt sé fyrir úrskurðarnefndina ágreiningsefni sem dómsmál er rekið um geti hún að ósk annars eða beggja aðila látið í té álitsgerð til afnota þar. Hafi dómsmáli verið lokið um ágreiningsefni vísi nefndin því frá sér.

 

Ofangreind ákvæði eru afdráttarlaus um skyldu nefndarinnar til að vísa málum frá ef þau berast meira en ári eftir að kostur var að koma ágreiningi á framfæri eða ef dómsmáli hafi þegar verið lokið um ágreiningsefnið.

 

Hinn umþrætti reikningur vegna lögmannsstarfa kærða í þágu kæranda var gefinn út þann 13. janúar 2016. Að áliti nefndarinnar verður í þessu tilviki ekki miðað við annað tímamark en útgáfudag þess reiknings við mat á því hvenær kærandi átti þess kost að koma ágreiningsmálinu á framfæri við nefndina í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998.

 

Undir rekstri málsins fyrir úrskurðarnefndinni var jafnframt upplýst að þegar væri lokið dómsmáli á milli aðila um þau ágreiningsefni sem lutu að hinum útgefna reikningi, sbr. dóm Héraðsdóms K frá X. september 2016 í máli nr. X. Er sá dómur bindandi um úrslit sakarefnisins á milli aðila um þær kröfur sem þar voru dæmdar að efni til, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.

 Að öllu þessu gættu er óhjákvæmilegt að vísa ágreiningi í þessum þætti málsins frá úrskurðarnefnd lögmanna með vísan til 1. og 3. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998. II.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn getur sá sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi, sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna, lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því kostur var á að koma henni á framfæri, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 27. gr. laganna og áðurgreind 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefndinni.

 

Eins og áður er lýst felst í ákvæðum þessum að nefndin hefur ekki heimildir til að fjalla um mál sem henni berast eftir að umræddur ársfrestur er liðinn. Reynir því hér á hvenær kostur var á að koma kvörtuninni á framfæri, sbr. fyrrnefndan 2. málsl. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

 

Fyrir liggur að öll kvörtunarefni kæranda lúta að störfum kærða í þágu kæranda vegna og í tengslum við héraðsdómsmálið nr. X, sem rekið var fyrir Héraðsdómi K, þar sem kærði hélt uppi vörnum og sinnti hagsmunagæslu fyrir kæranda. Dómur í málinu var uppkveðinn þann X. nóvember 2015 þar sem kæranda var gert að greiða stefnanda málsins höfuðstólsfjárhæðir útgefinna reikninga auk dráttarvaxta og málskostnaðar.

 

Af gögnum málsins og málatilbúnaði kæranda verður ekki annað ráðið en að aðilinn hafi á öllum stigum þess máls sem kærði rak fyrir hann verið upplýstur og meðvitaður um þá háttsemi sem kvörtunarefni aðilans lúta nú að. Samkvæmt því verður að líta svo á að tilvitnað ákvæði 27. gr. laga nr. 77/1998 hafi skammtað kæranda ársfrest í síðasta lagi frá uppkvaðningu dóms Héraðsdóms K í máli nr. X þann X. nóvember 2015 til að bera upp kvörtun við úrskurðarnefnd lögmanna. Samkvæmt því og þar sem kvörtun kæranda barst ekki til nefndarinnar fyrr en þann 3. febrúar 2017 verður að vísa máli þessu frá nefndinni í heild sinni.

 Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá nefndinni. 

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður.

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Þ. Snævarr hrl.   

 

Rétt endurrit staðfestir  ________________________Kristinn Bjarnason hrl.