Mál 15 2018

Mál 15/2018

Ár 2018, 17. desember 2018, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2018:

 

A og B,

gegn

C lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 30. ágúst 2018 erindi kærenda, A og B, þar sem kvartað er yfir því að kærða, C lögmaður, hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærðu var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 3. september 2018 og barst hún þann 26. sama mánaðar. Var kærendum send greinargerð hennar til athugasemda með bréfi dags. 27. september 2018. Hinn 15. október 2018 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kærenda og voru þær sendar til kærðu samdægurs. Svar kærðu barst 19. október 2018 og var það sent til kærenda sama dag með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Kærandi A er pakistanskur ríkisborgari. Samkvæmt gögnum málsins mun hann hafa sótt um alþjóðlega vernd hér á landi og var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. október 2017. Kærandi mun hafa kært tilgreinda ákvörðun til kærunefndar útlendingamála sem kvað upp úrskurð þann 12. desember 2017 þess efnis að málið skyldi fara aftur til meðferðar hjá Útlendingastofnun.

Þann 21. desember 2017 synjaði Útlendingastofnun kæranda A að nýju um alþjóðlega vernd. Er því lýst í málsatvikalýsingu kærðu, sem ekki hefur sætt sérstökum andmælum af hálfu kærenda, að tilgreind ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið birt kærandanum þann 16. janúar 2018 og að hann hafi í kjölfar þess leitað til kærðu vegna málsins.

Þann 18. janúar 2018 veitti kærandi A kærðu umboð til að annast hagsmunagæslu vegna hælisumsóknar á Íslandi. Var sérstaklega tiltekið í umboðinu að það tæki til þess að kærða ákvörðun Útlendingastofnunar í máli nr. x.

Í málsgögnum liggja fyrir samskipti kæranda A og kærðu frá 22. janúar 2018 vegna fyrirhugaðrar gagnaöflunar í tengslum við kæru á ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála. Þá bera gögn málsins með sér að kærandinn hafi sent nánar tilgreind gögn til kærðu í tölvubréfi þann 24. sama mánaðar auk þess sem kærða hafði aðkomu að öflun sjúkragagna fyrir hönd aðilans sem lágu fyrir í byrjun febrúarmánaðar 2018. Lýsir kærða því í málsatvikalýsingu sinni að kærandi A hafi komið með viðkomandi sjúkragögn til sín þann 5. febrúar 2018 eða aðeins tveimur dögum áður en hann gekk í hjúskap með kæranda B þann 7. sama mánaðar. Bendi slíkt eindregið til þess að kærandi A hafi haft fullan hug á að gera allt sem í hans valdi hefði staðið til að fá umsókn sína um hæli hér á landi samþykkta.

Eins og áður greinir þá gengu kærendur í hjúskap þann 7. febrúar 2018. Í málsgögnum liggja fyrir samskipti málsaðila um það leyti þar sem kærða upplýsti kæranda B meðal annars um að skila þyrfti greinargerð ásamt gögnum til kærunefndar útlendingamála þann 8. sama mánaðar vegna kæru á ákvörðun Útlendingastofnunar. Af málsgögnum verður ráðið að aðilar hafi átt með sér fund þann dag og að greinargerð hafi verið skilað til kærunefndarinnar ásamt fylgigögnum vegna þess máls sem laut að umsókn kærandans um alþjóðlega vernd á Íslandi.

Þann 9. febrúar 2018 sendi kærandi A fyrirspurn til kærðu um það hvenær hún hefði í hyggju að afturkalla umsókn kærandans um alþjóðlega vernd og sækja um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar. Af gögnum málsins verður ráðið að aðilar hafi átt með sér fund þann 13. sama mánaðar. Vísar kærða til þess í málatilbúnaði sínum að á fundinum hafi verið farið yfir næstu skref málsins, hvort öll gögn fyrir umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar væru til staðar auk þess sem rætt hafi verið um að hafa umsókn kæranda A um alþjóðlega vernd til meðferðar svo kærandinn yrði ekki brottfluttur frá landinu.

Samkvæmt málsgögnum sótti kærandi A um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar hjá Útlendingastofnun þann 15. febrúar 2018 en kærða mun hafa aðstoðað og veitt kærandanum ráðgjöf vegna umsóknarinnar.

Með bréfi, dags. 7. mars 2018, var kærandi A boðaður til fundar að Skúlagötu 17 í Reykjavík sem haldinn skyldi þann 12. sama mánaðar. Var upplýst að á fundinum yrði kynnt niðurstaða kærunefndar útlendingamála vegna máls kærandans fyrir nefndinni. Kærandinn sendi kærðu tilgreint boðunarbréf í tölvubréfi þann 10. mars 2018. Í málsgögnum liggja jafnframt fyrir samskipti málsaðila vegna boðunarinnar og hins fyrirhugaða fundar. Er vísað til þess í málsatvikalýsingu kærðu að kærandi A hafi verið meðvitaður og upplýstur um að birting boðunarinnar væri vegna umsóknar hans um alþjóðlega vernd á Íslandi.

Kærða mætti með kæranda A til uppkvaðningar úrskurðar kærunefndar útlendingamála þann 12. mars 2018. Með úrskurði kærunefndarinnar var staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um að umsókn kærandans um alþjóðlega vernd væri ekki tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi og kveðið á um að hann skyldi endursendur til Þýskalands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Þann sama dag sendi kærða tölvubréf til Útlendingastofnunar þar sem hún tilkynnti fyrir hönd kæranda A að umsókn hans um alþjóðlega vernd væri dregin til baka. Þá var því lýst í tölvubréfinu að kærandinn hefði lagt inn beiðni um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar þar sem óskað hefði verið eftir að honum yrði gert heimilt að dvelja hér á landi á meðan umsóknin væri til meðferðar hjá Útlendingastofnun.

Aðilar áttu í samskiptum næsta dag, þann 13. mars 2018, þar sem kærandi A upplýsti kærðu meðal annars um að hann myndi fara úr úrræði hælisleitendateymis Útlendingastofnunar þann sama dag og flytja inn til eiginkonu sinnar.

Kærða áframsendi jafnframt fyrrgreint tölvubréf, sem hún hafði sent til Útlendingastofnunar þann 12. mars 2018, til kærunefndar útlendingamála þann 15. sama mánaðar. Í svari kærunefndarinnar, dags. 16. mars 2018, var tiltekið að máli kæranda A væri lokið hjá nefndinni og að úrskurður í málinu hefði verið sendur til Útlendingastofnunar. Samkvæmt því ætti kærandinn ekkert mál í gangi hjá nefndinni og væri því ekkert mál til að afturkalla.

Kærða sendi jafnframt ítrekunarbréf til Útlendingastofnunar þann 16. mars 2018. Í svari Útlendingastofnunar, dags. 24. apríl 2018, var tiltekið að ekki væri hægt að draga umsókn um vernd til baka eftir að niðurstaða hefði fengist í málinu. Stæði því ákvörðun Útlendingastofnunar, sem staðfest hefði verið með úrskurði kærunefndar útlendingamála, óhögguð í máli kæranda A sem þyrfti að yfirgefa landið. Þá var tiltekið að dvalarleyfisumsókn yrði ekki tekin til afgreiðslu fyrr en staðfesting hefði borist á því að kærandinn hefði yfirgefið landið.

Í málsatvikalýsingu kærðu er vísað til þess að kærendur hafi komið á fund hennar þann 27. apríl 2018 þar sem upplýst hafi verið um fyrrgreind samskipti við Útlendingastofnun. Er því lýst að kærða hafi bent á að ráðlegast væri fyrir kæranda A að fara á eigin vegum sjálfviljugur til Þýskalands, því annars gæti hann átt á hættu að fá brottvísun og endurkomubann til Íslands til tveggja ára.

Í tölvubréfi kærðu til Útlendingastofnunar, dags. 28. apríl 2017, var óskað eftir að tekin yrði formleg ákvörðun með rökstuðningi í máli kæranda A. Þann sama dag sendi kærða jafnframt tölvubréf til kærandans þar sem reifað var hvernig mál hans hefði verið rekið af hálfu lögmannsstofu kærðu auk þess sem kærandinn var upplýstur um að kærða hefði óskað eftir því við Útlendingastofnun að formleg ákvörðun yrði tekin í málinu.

Í framhaldi þessa munu kærendur hafa tilkynnt kærðu um að þau hefðu í hyggju að leita til annars lögmanns vegna leyfisumsókna kæranda A hér á landi. Sendi kærða gögn málsins til kærandans í tölvubréfi þann 30. apríl 2018. Mun kærða ekki hafa sinnt frekari hagsmunagæslu í þágu kærandans eftir þann tíma.

Samkvæmt gögnum málsins mun kærða hafa gefið út einn reikning vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda A. Nánar tiltekið var gefinn út reikningur þann 12. apríl 2018 að fjárhæð 41.773 krónur með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum að hann tæki til kæru á ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála, aðstoðar við gagnaöflun vegna hjúskaparstofnunar sem og umsóknar um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar ásamt greinargerð til Útlendingastofnunar.

Í málsgögnum liggur jafnframt fyrir ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. júlí 2018, um synjun á umsókn kæranda A um dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli hjúskapar. Er tiltekið í ákvörðuninni að kærandinn hefði reist málatilbúnað sinn fyrir Útlendingastofnun á ætluðum mistökum kærðu þar sem hún hefði látið hjá líða að draga umsókn hans um alþjóðlega vernd til baka þrátt fyrir beiðni kærandans þar að lútandi. Í forsendum fyrir ákvörðun Útlendingastofnunar var eftirfarandi meðal annars tiltekið um þetta efni:

Umsækjandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi og var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar dags. 21. desember 2017, sem síðar var staðfest af kærunefnd útlendingamála í úrskurði dags. 6. mars 2018. Í þeirri ákvörðun var tekin afstaða til frávísunar umsækjanda sem ekki enn hefur verið framkvæmd.

Með vísan til framangreinds hafði umsækjandi ekki heimild til að vera á landinu þegar umsókn um dvalarleyfi var lögð fram. Að mati Útlendingastofnunar eru aðstæður í máli umsækjanda ekki þess eðlis að undanþágur 51. gr. eigi við. Þar af leiðandi skal hafna umsókn á grundvelli 4. mgr. 51. gr. útlendingalaga.

Að gefnu tilefni vill Útlendingastofnun benda á að niðurstaða stofnunarinnar um umsókn þá sem hér um ræðir hefði almennt verið sú sama ef umsækjandi hefði dregið til baka umsókn sína um alþjóðlega vernd.

Samkvæmt málatilbúnaði kærenda fyrir nefndinni mun tilgreind ákvörðun Útlendingastofnunar hafa verið kærð til kærunefndar útlendingamála af hálfu nýs lögmanns kæranda A. Þá er því lýst að samþykkt hafi verið undir rekstri kærumálsins að kærandi A fengi að dvelja á landinu á meðan mál hans væri til meðferðar hjá kærunefndinni.

II.

Í kvörtun kærenda er því lýst að kærða hafi í störfum sínum í þágu kæranda A brotið gegn siðareglum lögmanna og mannréttindum kærenda. Hafi kærða brugðist kærendum og skaðað dvalarleyfismál kæranda A hjá Útlendingastofnun þar sem honum hafi verið gert að fara úr landi í hálft ár.

Nánar tiltekið vísa kærendur til þess að kærða hafi margsinnis verið beðin um að afturkalla umsókn kæranda A um alþjóðlega vernd áður en úrskurður kærunefndar útlendingamála vegna þeirrar umsóknar var uppkveðinn þann 6. mars 2018. Hafi kærða ekki sinnt þeirri beiðni kærenda þrátt fyrir fyrirheiti um slíkt.

Er á því byggt að kærða hafi með þeirri háttsemi brotið gegn kærendum og veikt þar með málstað kæranda A vegna dvalarleyfisumsóknar aðilans þar sem það mál hafi ekki lengur heyrt undir 51. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Geti dvalarleyfismálið því ekki lengur fallið undir undantekningarákvæði lagagreinarinnar þar sem kveðið sé á um að sé hælisleitanda synjað tvívegis eigi hann ekki kost á að dvelja í landinu á meðan umsókn um dvalarleyfi sé til meðferðar. Telja kærendur að kæranda A hafi verið vísað úr landinu vegna þess.

Kærendur vísa til þess að þeir hafi verið fullvissir um að kærða hefði afturkallað umsókn kæranda A um alþjóðlega vernd og að því máli hefði því verið lokið. Hafi kærendur ekki haft grun um að kærða hefði hunsað margítrekaða ósk kærenda um þetta efni.

Kærendur kveða að kærði A hafi verið boðaður á fund þann 12. mars 2018. Hafi kærendur talið að þar væri um að ræða fund vegna dvalarleyfisumsóknar á grundvelli hjúskapar, sem lögð hafi verið fram mánuði fyrr eða þann 15. febrúar 2018, en eftir uppkvaðningu úrskurðar hafi kærandi A áttað sig á að verið væri að taka fyrir mál vegna umsóknar hans um alþjóðlega vernd. Hafi kærða tjáð kærendum eftir uppkvaðningu úrskurðarins að um tvö aðskilin mál væri að ræða og að hægt væri að hafa þau opin á sama tíma. Þá hefði önnur synjun engar afleiðingar fyrir kæranda A og að hann væri öruggur í landinu.

Byggja kærendur á að kærða hafi logið að þeim og afvegaleitt auk þess sem hún hafi misnotað sér það traust sem kærendur hafi haft á kærðu sem lögmanni. Kveða kærendur að taka þurfi hart á brotum kærðu og að hún fái ekki að skaða fleiri skjólstæðinga sína. Þá er því lýst að kærendur efist stórlega um hæfni kærðu sem lögmanns og siðferðilega getu til að starfa sem slíkur. Það eigi einnig við um rekstur lögmannsstofu. Samkvæmt því óska kærendur eftir að brugðist verði strax við svo kærendur þurfi ekki að líða fyrir mistök kærðu.

Skilja verður málatilbúnað kærenda fyrir nefndinni þannig að þess sé krafist að kærða verði látin sæta agaviðurlögum samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn vegna háttsemi sinnar. Þá er þess jafnframt krafist í kvörtun kærenda að kærandi A fái að vera á Íslandi á meðan kærendur leiti réttar síns, að kærða gangist við mistökum sínum og játi þau fyrir Útlendingastofnun og að kærða standi straum af öllum kostnaði kærenda sem rekja megi til háttsemi kærðu.

Í viðbótarathugasemdum kærenda til nefndarinnar er á það bent að skýrt liggi fyrir að óskað hafi verið eftir við kærðu að hún myndi afturkalla kæru til kærunefndar útlendingamála eftir að kærendur gengu í hjúskap. Hafi kærendur talið að kæran ætti ekki lengur við eftir að umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar hefði verið lögð inn hjá Útlendingastofnun. Kærða hafi hins vegar ekki sinnt ítrekuðum beiðnum og óskum kærenda. Hafi sinnuleysi kærðu komið í bak kærenda þegar staðfesting kærunefndar á synjun hælisumsóknar hafi verið birt og kæranda A gert að yfirgefa landið.

Byggja kærendur á að mistök kærðu að þessu leyti hafi bakað kæranda A tjón enda hafi verið tiltekið í ákvörðun Útlendingastofnunar frá 21. desember 2017 að kæra frestaði réttaráhrifum hennar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 80/2016.

Kærendur vísa jafnframt til þess að kærandi A hafi sótt um makaleyfi þann 15. febrúar 2018 og verið synjað um leyfi 25. júlí sama ár. Í synjuninni hafi meðal annars komið fram að kærandanum hefði verið synjað um alþjóðlega vernd af hálfu Útlendingastofnunar þann 21. desember 2017 og að sú ákvörðun hafði verið staðfest af kærunefnd útlendingamála þann 6. mars 2018. Hafi sú synjun falið í sér að kærandinn skyldi endursendur til Þýskalands og hann því orðinn í ólögmætri dvöl hér á landi.

Byggja kærendur á að ef kærða hefði afturkallað umsókn um alþjóðlega vernd í samræmi við beiðnir þeirra þar að lútandi hefði kærandi A verið í löglegri dvöl hér á landi þegar umsókn um makaleyfi var lögð inn í febrúarmánuði 2018.

Að endingu vísa kærendur til þess að nýr lögmaður hafi komið að málinu og kært synjun Útlendingastofnunar frá 25. júlí 2018. Í þeirri kæru hafi þess meðal annars verið krafist að kærandi A fengi að dvelja hér á landi þar til kærunefndin hefði fjallað um kæruna. Hafi sú krafa verið samþykkt. Kærendum sé hins vegar ókunnugt um hvort kærunefnd útlendingamála muni horfa til þess að kærandi A hafi verið í ólöglegri dvöl eftir 6. mars 2018. Auk þess hafi málið valdið kærendum miklu hugarangri og kostað mikla fjármuni.

III.

Kærða krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá úrskurðarnefnd lögmanna en til vara að kröfum kærenda verði hafnað. Þá krefst kærða málskostnaðar úr hendi kærenda með álagi samkvæmt 15. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn með vísan til hliðsjónar í 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Kærða bendir á að hún hafi eingöngu verið umboðsmaður kæranda A.

Kærða mótmælir málsatvikalýsingu kærenda í öllum aðalatriðum sem ruglingslegum og samhengislitlum. Sé um það að ræða að kærendur vísi til þess að kærða hafi ekki dregið til baka umsókn kæranda A um alþjóðlega vernd og þar með skaðað umsókn kærandans um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 51. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, þá byggir kærða á að óumdeilt sé að um lögvillu sé að ræða hjá kærendum. Þá sé óljóst við hvað sé átt og beri því að vísa málinu frá nefndinni.

Í málatilbúnaði kærðu er vísað til þess að fallist úrskurðarnefnd á með kærendum að kærða hafi ekki fylgt fyrirmælum þeirra um að draga til baka umsókn kæranda A um alþjóðlega vernd, þá hafi það engin áhrif haft á efnislega niðurstöðu máls kærandans eða réttaráhrif varðandi það hvort Útlendingastofnun myndi veita honum heimild til að dvelja á Íslandi á meðan dvalarleyfisumsóknin væri til meðferðar. Hafi kærða því á engan hátt gert á hlut kærenda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Varðandi kröfu um frávísun vísar kærða til þess að málatilbúnaður kærenda sé með öllu óskiljanlegur og því sé ómögulegt að henda reiður á umkvörtunarefnið og á hverju sé byggt. Málsatvik séu jafnframt óskýr og krafa kærenda vanreifuð. Er einnig á það bent að kærendur vísi ekki til neinna þeirra lagaákvæða sem kærða eigi að hafa brotið. Þá fari kærendur með rangfærslur og ósannindi í bréfi, dags. 2. maí 2018, sem liggi fyrir í málsgögnum og hafi verið undirritað af kæranda B. Ýti það enn frekar undir þá kröfu kærðu að málinu verði vísað frá nefndinni þar sem það sé vanreifað og óskýrt. Fylgigögn með kvörtun kærenda séu aukinheldur gripin út úr öllu samhengi auk þess sem haldið sé fram ósannindum sem séu með öllu órökstudd.

Krafa kærðu um að kröfum kærenda verði hafnað er í fyrsta lagi reist á því að ákvörðun kæranda A um að draga ekki til baka umsókn um hæli fyrr en svar hefði fengist frá dvalarleyfissviði Útlendingastofnunar, um hvort kærandanum væri heimilt að dvelja hér á landi á meðan umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar væri til meðferðar, hafi verið tekin í fullu samráði við kæranda. Fái slíkt stoð í málsgögnum.

Í öðru lagi byggir kærða á að í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. júlí 2018, sé skýrlega kveðið á um að hin meintu mistök kærðu, um að hafa ekki dregið til baka umsókn kærandans um alþjóðlega vernd fyrir uppkvaðningu úrskurðar kærunefndar útlendingamála, hafi ekki leitt til þess að dvalarleyfisumsókn á grundvelli hjúskapar hafi ekki verið tekin til meðferðar.

Í málatilbúnaði kærðu er í þriðja lagi á því byggt að henni hafi ekki borist beiðni frá kæranda um afturköllun á hælisumsókn fyrr en þann 12. mars 2018 og að hún hafi brugðist við þeirri beiðni samdægurs. Þá bendir kærða á að kærandi hafi ekki sjálfur farið úr úrræði hælisleitendateymis Útlendingarstofnunar fyrr en daginn eftir að úrskurður kærunefndar útlendingamála hafi verið birtur, þ.e. þann 13. mars 2018. Sé því engum vafa undirorpið að kærandi A hafi vitað vel að ekki hefði verið búið að draga hælisumsókn hans til baka og að sú umsókn væri því til meðferðar hjá kærunefndinni. Að öðrum kosti hefði kærandinn þurft að yfirgefa úrræði hælisleitendateymisins.

Kærða byggir í fjórða lagi á að kærandi A hafi í smáskilaboðum til kærðu þann 2. febrúar 2018 óskað eftir hvort kærða gæti beðið með að senda greinargerð til kærunefndar útlendingamála vegna  umsóknar um alþjóðlega vernd þar sem enn væri verið að afla gagna, þ. á m. sjúkragagna sem bárust kærðu þann 5. sama mánaðar eða tveimur dögum áður en kærandinn gekk í hjúskap. Samkvæmt því megi ljóst vera að kærandinn hafi enn verið að afla gagna vegna hælisleitendaumsóknar sinnar og kæru til viðkomandi kærunefndar og hafi því engan hug haft á að draga þá umsókn til baka.

Í fimmta lagi er á því byggt að á fundi þann 8. febrúar 2018 hafi kærða farið yfir með kæranda A hvaða gögn þyrftu að fylgja með umsókn um dvalarleyfi auk þess sem aftur hafi þá verið til umræðu ákvörðun kærandans um að draga ekki til baka umsókn um alþjóðlega vernd svo hann yrði ekki sendur úr landi á meðan beðið væri niðurstöðu Útlendingastofnunar um dvalarleyfið. Hafi sú ákvörðun verið tekin af kærandanum sjálfum. Þá hafi þetta ennfremur verið síðasti dagur til að skila inn gögnum með kæru til kærunefndar útlendingamála. Samkvæmt því hafi kæranda verið í lófa lagið að óska eftir að hælisumsókn hans yrði afturkölluð, þ.e. hafi vilji hans staðið til slíks. Liggi því ljóst fyrir að kærandi A hafi ávallt verið meðvitaður og upplýstur og tekið ákvörðun sjálfur um að halda hælisumsókn áfram opinni svo honum yrði ekki vísað á brott, jafnvel þó að hann hefði á þessum tíma verið genginn í hjúskap. Bendir kærða í því samhengi á að kærendur hafi gengið í hjúskap þann 7. febrúar 2018 en að kærandi A hafi ekki yfirgefið hælisleitendaúrræðið fyrr en þann 13. mars sama ár.

Í sjötta lagi vísar kærða til þess að kærandi A hafi sent sér fyrirspurn þann 9. febrúar 2018 um það hvenær kærða hefði í hyggju að draga til baka umsókn um hæli og leggja inn dvalarleyfisumsókn. Bendir kærða á að um spurningu kærandans hafi verið að ræða en ekki kröfu um að kærða myndi aðhafast nokkuð að þessu leyti. Í framhaldi þessa hafi aðilar átt með sér fund þann 14. sama mánaðar þar sem kærða hafi meðal annars aðstoðað kærandann við að fylla út dvalarleyfisumsókn auk þess sem farið hafi verið yfir fylgigögn. Kveðst kærða hafa ítrekað á þeim fundi að nokkurn tíma gæta tekið þangað til umsókn um dvalarleyfi kæmist í hendur lögfræðinga Útlendingastofnunar sem myndu taka afstöðu til þess hvort kærandanum yrði veitt heimild til að dvelja hér á landi á meðan umsóknin væri til meðferðar. Af þeim sökum hafi kærandinn viljað halda hælisleitendaumsókninni opinni, þ.e. þar til svar bærist frá dvalarleyfissviði Útlendingastofnunar svo hann yrði ekki brottfluttur frá Íslandi í millitíðinni.

Kærða bendir á að hún hafi ítrekað kynnt kæranda A að um undanþáguákvæði væri ræða frá meginreglu 1. mgr. 51. gr. laga nr. 50/2016 þar sem kveðið væri á um að útlendingur skyldi ekki vera staddur á landinu þegar umsókn um dvalarleyfi væri lögð fram. Þá hafi kærða upplýst kærandann um efni athugasemda með frumvarpi til laga nr. 80/2016 þar sem skýrt kæmi fram að undantekningarákvæðið ætti ekki við þegar umsækjandi hefði áður sótt um dvalarleyfi og verið hafnað eða sótt um alþjóðlega vernd hér á landi og fengið synjun og gift sig fljótlega í kjölfarið, líkt og við hefði átt í tilviki kæranda.

Í samræmi við framangreint kveðst kærða hafna því með öllu að hafa brotið gegn reglum sem lúta að starfsháttum og starfsskyldum lögmanna gagnvart kærendum. Byggir kærða á að hún hafi þvert á móti lagt sig fram við að gæta hagsmuna kæranda A í hvívetna í samræmi við siðareglur lögmanna og lög nr. 77/1998 um lögmenn.

Þá hafnar kærða sérstaklega kröfum kærenda um að henni verði gert að greiða útlagðan kostnað þeirra. Er á það bent að kærandi A hafi ekki enn gert upp við kærðu vegna þeirrar vinnu sem innt hafi verið af hendi í hans þágu þrátt fyrir loforð um slíkt. Ennfremur krefst kærða þess að kröfum kærenda, um að henni verði gert að viðurkenna meint mistök sín hjá Útlendingastofnun, verði vísað frá nefndinni.

Í viðbótarathugasemdum kærðu til nefndarinnar er á það bent að í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. júlí 2018, sé ítrekað að ákvæði 3. mgr. 51. gr. laga nr. 80/2016 sé heimildarákvæði en feli ekki í sér skyldu Útlendingastofnunar um að heimila einstaklingi að dvelja á Íslandi á meðan umsókn hans um dvalarleyfi sé í vinnslu. Hafi umsækjandi fengið synjun á umsókn um alþjóðlega vernd eigi undanþágan ekki við hvort sem umsókn um hæli er dregin til baka eftir fyrstu synjun hjá Útlendingastofnun eða eftir að ákvörðunin er kærð til kærunefndar útlendingamála og úrskurður kveðinn upp í hælismáli. Þá hefði undanþágan heldur ekki átt við jafnvel þótt kærandi A hefði dregið umsókn sína um hæli til baka hjá kærunefnd útlendingamála áður en nefndin úrskurðaði í málinu, sbr. ákvörðun útlendingastofnar 10. október 2018 í öðru tilgreindu máli.

Þá bendir kærða á að ef umsókn kæranda A um alþjóðlega vernd hefði verið dregin til baka á fyrri stigum hefði hann ótvírætt verið í  ólögmætri dvöl hér á landi, þar sem hann hafði dvalið lengur en 90 daga hér á landi og þar af leiðandi ekki fallið undir undanþáguákvæði 3. mgr. 51. gr. laga nr. 80/2016, sbr. 1. mgr. 49. gr. laganna og 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Af þeim sökum hafi kærandinn ákveðið að halda umsókn sinni um hæli gangandi í kerfinu eins lengi og hægt væri svo honum yrði ekki brottvísað frá landinu á meðan Útlendingastofnun væri með dvalarleyfisumsókn hans til meðferðar.

Niðurstaða

                                                                          I.

Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um frávísunarkröfu kærðu en samkvæmt 2. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna getur nefndin vísað máli frá ef í því eru sönnunaratriði, sem örðugt er að leysa úr undir rekstri málsins, eða mál er að öðru leyti ekki nægilega upplýst. Þá er kveðið á um í 3. mgr. 10. gr. málsmeðferðarreglnanna að ef réttarágreiningur í máli falli ekki undir valdsvið nefndarinnar skuli hún vísa málinu frá.

Um þá kröfu er í greinargerð kærðu vísað til þess að málatilbúnaður kærenda sé með öllu óskiljanlegur og vanreifaður auk þess sem ómögulegt sé að henda reiður á umkvörtunarefnið. Er einnig á það bent að kærendur vísi ekki til neinna þeirra lagaákvæða sem kærða eigi að hafa brotið. Þá fari kærendur með rangfærslur og ósannindi í gögnum sem liggi fyrir í málinu jafnframt því sem fylgigögn með kvörtun þeirra séu gripin út úr öllu samhengi.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem gildir um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Þótt fallast megi á það með kærðu að málatilbúnaður kærenda sé að sumu leyti óskýr, þ. á m. varðandi tilvísun til ákvæða laga og siðareglna lögmanna vegna ætlaðra brota kærðu annars vegar og aðild kæranda B að málinu hins vegar, verður ekki fram hjá því litið að umkvörtun kærenda lýtur að ákveðnum þætti og háttsemi í störfum kærðu í þágu kæranda A, þ.e. því hvort kærða hafi skirrst við afturkalla umsókn kærandans um alþjóðlega vernd hér á landi í samræmi við fyrirmæli og beiðni hins síðarnefnda þar að lútandi. Að mati nefndarinnar hefur málatilbúnaður kærenda að því leyti í engu leitt til þess að kærða hafi átt í erfiðleikum með að taka til efnisvarna í málinu, svo sem greinargerðir og athugasemdir hennar til nefndarinnar bera jafnframt með sér, með þeim hætti að leitt geti til frávísunar þess frá nefndinni. Eins og atvikum er háttað er það mat nefndarinnar að málið teljist nægilega reifað og upplýst. Samkvæmt því er kröfu kærðu um að málinu verði í heild sinni vísað frá nefndinni hafnað.

Á grundvelli valdsviðs nefndarinnar, eins og það er afmarkað í V. kafla laga nr. 77/1998 um lögmenn, sbr. einnig 3. gr. og 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, eru hins vegar ekki efni til að taka til skoðunar kröfur kærenda um að kærandi A fái að vera á Íslandi á meðan kærendur leiti réttar síns, að kærða gangist við mistökum sínum og játi þau fyrir Útlendingastofnun og að kærðu verði gert að standa straum af öllum kostnaði kærenda sem rekja megi til háttsemi kærðu. Þegar af þeirri ástæðu er tilgreindum kröfu kærenda vísað frá nefndinni.

Í samræmi við framangreint verður krafa kærenda, um að kærða verði látin sæta agaviðurlögum samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, tekin til efnisúrlausnar.

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

III.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/1998 ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Er slíkt enn fremur áréttað í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem tiltekið er að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi við meginreglu 1. gr. siðareglnanna þar sem kveðið er á um að lögmanni beri að efla rétt og hrinda órétti og að hann skuli leggja svo til allra mála sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort kærða hafi gert á hlut kærenda með því að hafa ekki afturkallað umsókn kæranda A um alþjóðlega vernd hér á landi, í samræmi við meintar beiðnir kærenda þess efnis, eftir að umsókn fyrir hönd sama aðila um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar var lögð inn hjá Útlendingastofnun þann 15. febrúar 2018.

Um þetta ágreiningsefni er þess í fyrsta lagi að gæta að ekki verður ráðið af gögnum málsins að kærandi A hafi óskað eftir við kærðu eða gefið henni fyrirmæli um að umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi skyldi afturkölluð, þ.e. áður en úrskurður kærunefndar útlendingamála var birtur kærandanum að viðstöddum kærðu þann 12. mars 2018. Þrátt fyrir að kærandinn hafi sent kærðu fyrirspurn þann 9. febrúar 2018 um það hvenær hún hefði í hyggju að afturkalla umsókn um alþjóðlega vernd og sækja um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, þá liggur fyrir að aðilar áttu með sér fundi og samskipti eftir þann tíma sem bera með sér að slík afturköllun umsóknar hafði ekki átt sér stað og að kærandinn hafi verið meðvitaður og upplýstur um það efni. Hefur kærða jafnframt borið því við fyrir nefndinni að það hafi verið ákvörðun kærandans sjálfs að afturkalla ekki umsókn um alþjóðlega vernd til að forðast það að sæta brottflutningi af landinu á meðan umsókn hans um dvalarleyfi væri til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Fær það að mati nefndarinnar nokkra stoð í gögnum málsins enda má ljóst vera að ákvörðun Útlendingastofnunar frá 21. desember 2017, þar sem umsókn kæranda um alþjóðlega vernd var synjað, hefði staðið óhögguð ef kæra ákvörðunarinnar til kærunefndar útlendingamála hefði verið afturkölluð í samræmi við málatilbúnað kærenda.

Í annan stað er þess að gæta að með bréfi, dags. 7. mars 2018, var kærandi A upplýstur um að niðurstaða kærunefndar útlendingamála í máli hans yrði kynnt á fundi þann 12. sama mánaðar. Kærandinn upplýsti kærðu um boðunina með tölvubréfi þann 10. mars 2018 auk þess sem hann mun hafa óskað eftir nærveru kærðu á fundinum sem hún og varð við. Engar fyrirspurnir eða athugasemdir bárust frá kærandanum til kærðu á þessum tímapunkti hverju það sætti að verið væri að boða til uppkvaðningar úrskurðar fyrir kærunefnd útlendingamála, þ.e. hafi kærandinn talið að umsókn hans um alþjóðlega vernd hefði þegar verið afturkölluð. Samkvæmt því er að mati nefndarinnar ekki hægt að leggja annað til grundvallar en að kærandinn hafi verið meðvitaður og upplýstur á þessu tímamarki um að umsókn hans um alþjóðlega vernd væri enn til meðferðar hjá kærunefnd útlendingamála, að til stæði að kveða upp úrskurð í málinu þann 12. mars 2018 og að hann hafi ekki hreyft nokkrum athugasemdum þar að lútandi gagnvart kærðu. Fær slíkt jafnframt stoð í þeirri staðreynd að kærandinn yfirgaf ekki úrræði hælisleitendateymis Útlendingastofnunar fyrr en daginn eftir birtingu úrskurðarins, þ.e. þann 13. mars 2018.

Í þriðja lagi verður ekki fram hjá því litið að aðkoma kærðu að málinu í þágu kæranda A hófst eftir að ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á umsókn kærandans um alþjóðlega vernd hafði verið birt aðilanum í janúarmánuði 2018. Samkvæmt því var aðkoma kærðu að málinu í þágu kærandans fólgin í því að kæra ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála líkt og skýrlega var jafnframt kveðið á um í umboði kærandans til kærðu, dags. 18. janúar 2018. Samkvæmt því mun kærandinn sjálfur hafa annast umsókn þá sem um ræðir í upphafi og aðkoma kærðu að málinu því takmörkuð við kæru til viðkomandi kærunefndar. Eins og atvikum er háttað, og með hliðsjón af því að engin gögn liggja fyrir nefndinni um að kærandinn hafi með ótvíræðum hætti óskað eftir eða gefið kærðu fyrirmæli um að umsókn hans og/eða kæra til kærunefndar útlendingamála skyldi afturkölluð, er ósannað að mati nefndarinnar að kærða hafi gert á hlut kærenda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Í fjórða lagi verður að líta til þess að með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. júlí 2018, var umsókn kæranda A um dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli hjúskapar hafnað. Fyrir liggur að kærandinn reisti meðal annars málatilbúnað sinn fyrir Útlendingastofnun á ætluðum mistökum kærðu þar sem hún hefði látið hjá líða að draga umsókn hans um alþjóðlega vernd til baka þrátt fyrir beiðni kærandans þar að lútandi. Eins og áður greinir var umsókn kærandans um dvalarleyfi hafnað en í forsendum ákvörðunarinnar var jafnframt tiltekið af hálfu Útlendingastofnunar að „niðurstaða stofnunarinnar um umsókn þá sem hér um ræðir hefði almennt verið sú sama ef umsækjandi hefði dregið til baka umsókn sína um alþjóðlega vernd.

Jafnvel þótt sannað teldist í málinu að kærðu hefði verið falið að afturkalla umsókn kæranda A um alþjóðlega vernd og að hún hafi samt sem áður látið það ógert, verður með hliðsjón af ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. júlí 2018, að leggja til grundvallar að slíkt hefði ekki leitt til réttarspjalla fyrir kærandann enda hefði réttarstaða hans eftir sem áður verið óbreytt varðandi meðferð og niðurstöðu Útlendingastofnunar á umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar.

Í samræmi við allt framangreint er það niðurstaða nefndarinnar að kærendur hafi ekki sýnt fram á í máli þessu að kærða hafi gert á hlut þeirra í störfum sínum í þágu kæranda A með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærða, C lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kærenda, A og B, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Kröfum kærenda, um að kærandi A fái að vera á Íslandi á meðan kærendur leiti réttar síns, að kærða gangist við mistökum sínum og játi þau fyrir Útlendingastofnun og að kærðu verði gert að standa straum af öllum kostnaði kærenda sem rekja megi til háttsemi kærðu, er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður, formaður

Kristinn Bjarnason lögmaður

Valborg Þ. Snævarr lögmaður

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson