Mál 40 2018

Mál 40/2018

Ár 2019, miðvikudaginn 29. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2018:

A lögmaður og B ehf.,

gegn

C ehf.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 27. nóvember 2018 erindi kærenda, A lögmanns og B ehf. en í því er lýst ágreiningi kærenda við kærða, C ehf. um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. D lögmaður fer með mál kærða fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Með bréfi úrskurðarnefndar til kærða, dags. 7. desember 2018, var upplýst um að litið væri svo á að erindi kærenda sneri að ágreiningi um rétt til endurgjalds fyrir störf lögmanns eða fjárhæð þess samkvæmt 26. gr. laga nr. 77/1998. Með bréfinu var kærða veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins.

Greinargerð kærða barst þann 11. janúar 2019 og var hún send kærendum til athugasemda með bréfi þann sama dag. Hinn 1. febrúar 2019 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kærenda og voru þær sendar til kærða þann 5. sama mánaðar. Loks bárust viðbótarathugasemdir frá kærða þann 21. febrúar 2019 og voru þær sendar til kærenda með bréfi þann sama dag með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Þann 3. ágúst 2017 barst úrskurðarnefnd lögmanna erindi kærða þar sem vísað var til ágreinings kærða við kæranda, A lögmann, um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Var það mál rekið fyrir nefndinni sem málið nr. x/2017. Úrskurður í málinu var kveðinn upp af hálfu nefndarinnar þann 22. mars 2018 og var úrskurðarorð svohljóðandi:

Áskilið endurgjald kærða, A lögmanns, vegna starfa hans og/eða lögmannsstofu hans í þágu kæranda, C ehf., sætir lækkun og telst hæfilegt endurgjald að fjárhæð 3.047.680 krónur auk virðisaukaskatts.

Framangreindur úrskurður var sendur til málsaðila í ábyrgðarpósti þann 26. mars 2018. Í bréfi nefndarinnar til aðila var jafnframt tiltekið að samkvæmt 5. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 væri aðila að máli, sem lyki fyrir nefndinni, heimilt að leita fyrir dómi ógildingar á úrskurði hennar eða sátt, sem gerð væri fyrir henni, eða leita þannig breytingar á niðurstöðu, sem þar hefði fengist. Samkvæmt því sem fram hefur komið í máli þessi hefur hvorugur aðila leitað endurskoðunar á úrskurði nefndarinnar í máli nr. X/2017 fyrir dómstólum, í samræmi við fyrrgreint ákvæði.

Samkvæmt málsgögnum mun kærði hafa innt af hendi greiðslur að heildarfjárhæð 2.150.390 krónur inn á áfallinn lögmannskostnað kærenda á tímabilinu frá 4. júlí 2013 til 21. september 2015. Frekari greiðslur munu ekki hafa verið inntar af hendi af hálfu kærða eftir að úrskurður nefndarinnar í máli nr. x/2017.

Þann 30. október 2018 tók embætti sýslumannsins á Suðurlandi fyrir kröfu kæranda B ehf., sem gerðarbeiðanda, um að fjárnám yrði gert hjá hinu kærða félagi, sem gerðarþola að nánar tilgreindri fjárhæð en um aðfararheimild hafði verið vísað til fyrrgreinds úrskurðar nefndarinnar í máli nr. x/2017. Samkvæmt endurriti úr gerðarbók, sem er meðal málsgagna, mun sýslumaður hafa stöðvað gerðina á þeim grundvelli að ekki hefði verið kveðið á um fortakslausa skyldu til greiðslu í úrskurði nefndarinnar.

Samkvæmt málatilbúnaði aðila fyrir nefndinni mun ákvörðun S um stöðvun gerðarinnar ekki hafa verið borin undir héraðsdóm, sbr. 14. kafla laga nr. 90/1989 um aðför.

II.

Kærendur krefjast þess fyrir nefndinni að kærða verði gert að greiða þeim 1.628.732 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna, frá 22. mars 2018 til greiðsludags. Þá krefjast kærendur málskostnaðar úr hendi kærða að mati úrskurðarnefndar.

Í erindi kærenda er vísað til þess að fyrir liggi úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna í máli nr. 26/2017 þar sem hæfilegt endurgjald kærenda hafi verið ákveðið 3.047.680 krónur auk virðisaukaskatts vegna vinnu í þágu kærða. Krafist hafi verið aðfarar á grundvelli úrskurðarins hjá S þar sem kærði hefði ekki orðið við greiðsluáskorunum. Hafi S frestað fjárnáminu þar sem úrskurðarorðið hafi ekki verið talið aðfararhæft.

Nánar tiltekið vísa kærendur til þess að fyrrum umbjóðandi þeirra, kærði, hafi leitað til úrskurðarnefndar lögmanna vegna ágreinings um þóknun, sbr. mál nr. x/2017. Hafi kærði krafist þess í því máli að úrskurðað yrði um að kærendur ættu ekki rétt til frekara endurgjalds en greitt hefði verið vegna vinnu í þágu aðilans. Kærendur hefðu hins vegar gert þær kröfur fyrir nefndinni að kröfum kærða yrði hafnað og að honum yrði þess í stað gert að greiða lögmannsstofunni 4.971.226 krónur með virðisaukaskatti auk málskostnaðar. Gagnkröfunni hafi ekki verið vísað frá nefndinni heldur hún tekin til efnislegrar úrlausnar með kröfum kærða.

Kærendur vísa til þess að úrskurður hafi verið kveðinn upp þann 22. mars 2018, sbr. fyrrgreint úrskurðarorð. Hafi úrskurðuð fjárhæð að meðtöldum virðisaukaskatti numið 3.779.123 krónum.

Er á það bent að kærði hafi þegar greitt 2.159.390 krónur með virðisaukaskatti vegna lögmannsþjónustu kærenda. Út af standi því ógreiddar 1.628.733 krónur með virðisaukaskatti samkvæmt úrskurði nefndarinnar. Hafi kærði þrátt fyrir fyrri úrskurð synjað alfarið um frekari greiðslur.

Kærendur vísa til þess að samkvæmt 6. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn séu úrskurðir nefndarinnar aðfararhæfir. Sambærilega reglu megi finna í 16. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar. Í ljósi þess hefðu kærendur reynt að fara í aðför til innheimtu eftirstöðva skuldarinnar. Þrátt fyrir skýr fyrirmæli framangreindra ákvæða hafi sýslumaður talið rétt að fresta fjárnámi er byggðist á úrskurði nefndarinnar í máli nr. 26/2017 þar sem úrskurðarorðið taldist ekki aðfarahæft. Sé þess því krafist af hálfu kærenda að nefndin úrskurði með aðfararhæfum hætti um greiðsluskyldu gagnaðila. Kveða kærendur þá kröfu byggja á áðurnefndum úrskurði nefndarinnar þar sem fjárhæð þóknunar hafi verið ákveðin.

Samkvæmt því krefjast kærendur þess að kærða verði gert að greiða þeim 1.628.732 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. mars 2018 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

Í viðbótarathugasemdum kærenda til nefndarinnar var því mótmælt að vísa bæri málinu frá nefndinni þar sem ætlaður ársfrestur samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 hafi verið liðinn þegar erindi í máli þessu barst nefndinni. Vísa kærendur til þess að í upphafi hafi verið talið að úrskurðar nefndarinnar í máli nr. x/2017 væri aðfararhæfur, líkt og lögbundið sé í 6. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998. Þegar í ljós hafi komið að svo væri ekki hafi fyrst verið tilefni til að óska eftir nýjum úrskurði, sem væri aðfararhæfur. Þá megi telja að eitt helsta hagræðið af V. kafla laganna sé einmitt það að fullnægja megi úrskurðum nefndarinnar með aðför. Málsmeðferð fyrir nefndinni sé formleg og vönduð og á allan hátt svo úr garði gerð, að almennt megi líta svo á að þegar niðurstaða liggi fyrir, sé hún endanleg og rétt, en löggjafinn hefði vart áskilið að fullnægja mætti úrskurðum nefndarinnar með aðför, ef svo væri ekki.

Þá mótmæla kærendur með öllu athugasemdum kærða er lúta að því að ekki beri að fallast á kröfur þeirra í málinu. Vísa kærendur um það efni til niðurstöðu í máli nr. x/2017 þar sem rækilega hafi verið farið í gegnum og leyst úr hinum efnislega ágreiningi í málinu. Hið eina sem vanti uppá, sé að hægt sé að fullnægja niðurstöðunni með aðför, líkt og lögboðið sé.

III.

Kærði krefst þess aðallega í málinu að kröfum kærenda verði vísað frá nefndinni en til vara að þeim verði hafnað. Þá krefst kærði í báðum tilvikum málskostnaðar fyrir nefndinni úr hendi kærenda að skaðlausu.

Kærði vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn geti nefndin eingöngu fjallað um ágreining um þóknun. Bendir aðilinn á að í erindi kærenda til nefndarinnar komi fram að fyrir liggi úrskurður í máli nr. x/2017 þar sem hæfilegt endurgjald hafi verið ákveðið 3.047.680 krónur auk virðisaukaskatts. Ágreiningur aðila hafi verið til lykta leiddur fyrir nefndinni í hinu fyrra máli. Beri því að vísa málinu frá.

Þá byggir kærði á að lögmenn geti ekki leitað til nefndarinnar um aðfararhæfan úrskurð nema aðilum greini á. Vanskil séu ekki það sama og ágreiningur. Breyti þar engu um þótt ekki hafi verið gerð krafa um greiðslu í hinu fyrra máli. Þar sem ágreiningur aðila hafi verið til lykta leiddur fyrir nefndinni geti kærendur ekki beint kröfu til nefndarinnar nú um aðfararhæfan úrskurð.

Jafnframt því bendir kærði á að viðskiptum aðila hafi lokið í maímánuði 2017. Í athugasemdum kæranda A í hinu fyrra máli hafi komið fram að honum hafi verið kunnugt um ágreining um þóknun fyrir vinnu í þágu kærða í byrjun ágúst 2017. Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 skuli nefndin vísa frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri. Ljóst sé að sá frestur hafi verið liðinn þegar kvörtun kærenda var borin fram í máli þessu. Samkvæmt því sé óhjákvæmilegt að vísa málinu frá nefndinni.

Verði ekki fallist á kröfu um frávísun krefst kærði þess að kröfum kærenda verði hafnað. Er vísað til þess að samkvæmt samningi aðila hafi kærandi A tekið að sér tiltekið verk fyrir kærða, þ.e. að sækja kröfu á hendur E hf. og F hf. Ágreiningsmálum við F hf. hafi verið lokið en ekki máli við E hf. Hafi kærandinn því ekki að fullu unnið það verk sem hann hafi tekið að sér. Geti kærandinn ekki krafist efnda að fullu úr hendi kærða án fullra efnda af sinni hálfu í samræmi við samning aðila. Er á það bent að sá sem taki að sér að grafa 300 metra skurð geti ekki hætt eftir 150 metra og krafist greiðslu fyrir allt verkið. Beri því að hafna kröfum kærenda.

Í viðbótarathugasemdum kærða til nefndarinnar var vísað til þess að fram kæmi í athugasemdum kærenda að ekki væri fyrir hendi efnislegar ágreiningur í málinu. Sé það skilyrði 26. gr. laga nr. 77/1998 að fyrir hendi sé ágreiningur. Hafi tilgreind lög ekki að geyma heimild til að leita til nefndarinnar til að fá aðfararhæfan úrskurð ef ekki sé fyrir hendi ágreiningur. Þar sem þegar hafi verið leyst úr hinum efnislega ágreiningi í málinu með úrskurði nefndarinnar í máli nr. x/2017, beri að vísa nýju máli frá nefndinni.

Niðurstaða

                                                                          I.

Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um frávísunarkröfu kærða en samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna skal nefndin vísa frá máli ef það lýtur að réttarágreiningi sem ekki fellur undir valdsvið nefndarinnar. Er um tilgreinda kröfu annars vegar vísað til þess í málatilbúnaði kærða að ágreiningur aðila hafi verið til lykta leiddur með úrskurði nefndarinnar í máli nr. x/2017 og að af þeim sökum geti kærendur nú ekki beint kröfu til hennar um aðfararhæfan úrskurð, sbr. fyrri málslið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Hins vegar hefur kærði vísað til þess að tímafrestur síðari málsliðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 hafi verið liðinn þegar erindi kærenda var móttekið af hálfu nefndarinnar þann 27. nóvember 2018.

Um hið fyrrgreinda efni er þess að gæta að kveðið er á um í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess getur annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Fyrir liggur að leyst var úr ágreiningi aðila í máli nr. x/2017 fyrir nefndinni á grundvelli kvörtunar kærða á hendur kæranda A lögmanni samkvæmt tilgreindu lagaákvæði og kom því ekki til efnislegrar úrlausnar í því máli krafa hins síðargreinda um ætlaða greiðsluskyldu kærða eða fjárhæð hennar. Hafa kærendur nú beint máli til nefndarinnar á þeim grundvelli, líkt og heimild stendur til í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998.

Fyrir liggur að uppgjör hefur ekki farið fram á milli aðila í samræmi við efni úrskurðar í máli nr. x/2017 og er það ágreiningslaust. Þá liggur fyrir að kærði hefur nú uppi þær efnisvarnir í málinu að kröfum kærenda verði hafnað, en þær eru reistar á sömu málsástæðum og kærði tefldi fram í hinu fyrra máli. Samkvæmt því verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að enn sé fyrir hendi ágreiningur á milli aðila um rétt til endurgjalds vegna starfa kæranda A lögmanns í þágu kærða eða fjárhæð þess, í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Verður málinu því ekki vísað frá nefndinni á þeim grundvelli.

Um hið síðargreinda efni er til þess að líta að leyst var úr erindi kærða á hendur kæranda A lögmanni, sem beint hafði verið til nefndarinnar þann 3. ágúst 2017 á grundvelli 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998, með úrskurði uppkveðnum þann x. mars 2018. Að áliti nefndarinnar verður að líta til þess tímamarks við mat á því hvenær kærendur áttu þess kost að koma ágreiningsmáli þessu, í því búningi sem það er nú, á framfæri við nefndina. Verður þá jafnframt horft til þess að kærendur voru í góðri trú um að úrskurður í hinu fyrra máli myndi leiða til efnislegrar niðurstöðu um rétt til endurgjalds vegna þeirra lögmannsstafa sem sannanlega voru innt af hendi og um fjárhæð þess og að uppgjör gæti átt sér stað á milli aðila á þeim grundvelli. Samkvæmt því og með hliðsjón af atvikum öllum verður því ekki talið að ársfrestur sá sem kveðið er á um í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 hafi girt fyrir að kærendur gætu beint erindi því til nefndarinnar sem hér er til úrlausnar.

Samkvæmt því er frávísunarkröfu kærða í máli þessu hafnað og verður það tekið til efnisúrlausnar.

II.

Svo sem áður greinir er hægt að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Líkt og rakið er í málsatvikalýsingu að framan þá kvað úrskurðarnefnd lögmanna upp úrskurð þann x. mars 2018, á grundvelli kvörtunar sem kærði í máli þessu hafði beint til hennar á samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 vegna ágreinings á milli aðilans og kæranda A lögmanns um rétt hins síðargreinda til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess. Úrskurðarorð var svohljóðandi:

Áskilið endurgjald kærða, A lögmanns, vegna starfa hans og/eða lögmannsstofu hans í þágu kæranda, C ehf., sætir lækkun og telst hæfilegt endurgjald að fjárhæð 3.047.680 krónur auk virðisaukaskatts.

Fyrir liggur að aðilar að framangreindu máli hafa ekki leitað ógildingar úrskurðarins fyrir dómstólum samkvæmt heimild í 5. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998. Samkvæmt því hafa aðilar ekki leitast eftir að fá úrskurðinum hnekkt og stendur hann því óhaggaður.

Svo sem áður greinir var lagt til grundvallar í fyrrgreindum úrskurði nefndarinnar í máli nr. x/2017 að hæfilegt endurgjald vegna lögmannsstarfa kæranda A lögmanns og/eða lögmannsstofu aðilans, kæranda B ehf., vegna vinnu í þágu kærða á tímabilinu frá 25. apríl 2013 til 10. apríl 2017 væri að fjárhæð 3.047.680 krónur auk virðisaukaskatts, þ.e. 3.779.123 krónur með virðisaukaskatti. Krefjast kærendur þess í máli þessu að kærði verði gert að greiða þeim tilgreinda fjárhæð að frádregnum innborgunum að heildarfjárhæð 2.150.390 krónur sem inntar voru af hendi á tímabilinu frá 4. júlí 2013 til 21. september 2015. Samkvæmt því er krafa kærenda að höfuðstólsfjárhæð 1.628.732 krónur auk þess sem krafist er vaxta.

Í forsendum úrskurðar í máli nefndarinnar nr. 26/2017 var fjallað um þær efnisvarnir sem kærði hefur nú aftur uppi í máli þessu fyrir kröfu sinni um höfnun krafna kærenda. Þar sem kærði hefur hvorki krafist ógildingar úrskurðarins fyrir dómi né með öðrum hætti leitast eftir endurskoðun hans, sbr. 5. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998, eru ekki efni til annars en að leggja til grundvallar að hæfilegt endurgjald vegna lögmannsstarfa kæranda A lögmanns í þágu kærða á áðurgreindu tímabili sé að fjárhæð 3.779.123 krónur með virðisaukaskatti, sbr. forsendur og niðurstaða nefndarinnar í úrskurði uppkveðnum x. mars 2018 í máli nr. x/2017. Þá hefur kærði ekki andmælt tilgreiningu kærenda á fjárhæð lýstra innborgana inn á kröfuna, sem jafnframt er studd skriflegum gögnum sem liggja fyrir nefndinni. Samkvæmt því verður að mati nefndarinnar að fallast á höfuðstólsfjárhæð kröfu kærenda á hendur kærða, 1.628.732 krónur, með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir. Verður þá jafnframt litið til þess að kærandi A lögmaður annaðist lögmannsstörf sín í þágu kærða í gegnum lögmannsstofu sína, kæranda B ehf., og voru reikningar vegna lögskiptanna gefnir út af hálfu hins síðastgreinda auk þess sem kærði innti innborganir af hendi til þess aðila.

Kærendur hafa jafnframt krafist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna, frá úrskurðardegi í máli nr. x/2017, þ.e. þann x. mars 2018, til greiðsludags. Um þá kröfu er til þess að líta að kærendur hafa í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni ekki skýrt hvernig ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, þar sem kveðið er á um að hafi gjalddagi verið fyrirfram ákveðinn sé kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti sem reiknast af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi, geti átt við um það sakarefni sem hér er til úrlausnar. Þá hafa kærendur ekki vísað til annars upphafsdags vaxta sem kynni að geta komið til skoðunar vegna krafna kærenda á hendur kærða. Samkvæmt því er krafa kærenda um vexti vanreifuð að áliti nefndarinnar og verður því ekki hjá því komist að vísa henni frá nefndinni.

Samkvæmt öllu framangreindu er það niðurstaða nefndarinnar að kærða beri að greiða kæranda, B ehf., 1.628.732 krónur.

Úrskurði þessum má fullnægja með aðför, sbr. 6. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, C ehf., greiði kæranda, B ehf., 1.628.732 krónur.

Kröfu kærenda um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af höfuðstólsfjárhæð kröfu sinnar frá x. mars 2018 til greiðsludags er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr lögmaður, formaður

Dagmar Arnardóttir lögmaður

Kristinn Bjarnason lögmaður

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson