Mál 1 2019

Mál 1/2019

Ár 2019, fimmtudaginn 21. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2019:

A, B ehf. og C AB,

gegn

D lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 8. janúar 2019 erindi E lögmanns fyrir hönd kærenda, A, B ehf., og C AB, þar sem kvartað er yfir því að kærði, D lögmaður, með starfsstöð að X 1, 101 Reykjavík, hafi brotið annars vegar gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn hvað varðar rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess og hins vegar gegn ákvæði 27. gr. laganna.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 11. janúar 2019 og barst hún þann 14. febrúar sama ár. Var umboðsmanni kærenda send greinargerð kærða til athugasemda með bréfi hinn síðastgreinda dag. Hinn 11. mars 2019 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kærenda og voru þær sendar kærða þann 12. sama mánaðar. Svar kærða barst 3. apríl 2019 og var það sent til umboðsmanns kærenda með bréfi dags. 4. sama mánaðar með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Engar frekari athugasemdir voru gerðar og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt gögnum málsins og málsatvikalýsingu aðila munu kærendur hafa leitað til F lögmanns á árinu 2016 með beiðni um hagsmunagæslu og lögmannsþjónustu vegna ýmissa mála. Var tilgreindur lögmaður þá starfsmaður á lögmannsstofu kærða, G ehf., sbr. 3. mgr. 11. gr. og 2. tl. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá mun lögmannsstofan hafa starfað undir merkjum H á viðkomandi tíma eða allt til ársloka 2016 er hún flutti aðsetur sitt að X í Reykjavík.

Undirliggjandi málsatvik lúta að máli sem höfðað var á hendur kærendum af J ehf. með birtingu stefnu þann 4. apríl 2016 sem F lögmaður áritaði um viðtöku. Var málinu aðallega beint að kæranda A, til vara að kæranda B ehf. og til þrautavara að kæranda C AB en í öllum tilvikum var krafist greiðslu að fjárhæð 1.837.320 krónur auk vaxta samkvæmt útgefnum reikningum. Er tilgreind stefna og dómskjöl málsins meðal málsgagna fyrir nefndinni. Þá liggur fyrir að málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann x. maí 201x sem héraðsdómsmálið nr. E-xxxxx/2016.

Fyrir liggur í málsgögnum umboð, dags. 13. apríl 2016, sem kærandi A veitti F lögmanni fyrir hönd kærenda til að annast hagsmunagæslu í fyrrgreindu dómsmáli en umboðið var vottað af kærða. Kærði hefur borið því við fyrir nefndinni að umboðið hafi jafnframt náð til lögmannsstarfa hans í þágu kærenda enda hafi fyrrgreindur F þá starfað á lögmannsstofu hans, líkt og áður er rakið.

Ekki virðist ágreiningur um að á tilgreindum tíma hafi lögmannsstofa kærða, og þá einkum F lögmaður fyrir hönd stofunnar, annast hagsmunagæslu í þágu kærenda vegna ýmissa annarra mála. Hefur kærði meðal annars um það efni lagt fram umboð, dags. 18. apríl 2016, sem kærandi A veitti H og F lögmanni til að annast hagsmunagæslu vegna ágreinings við seljanda fasteignarinnar að T í Garðabæ annars vegar og vegna nánar tilgreinds kyrrsetningarmáls hins vegar er laut að sömu fasteign.

Af málsgögnum verður ráðið að kærandi A hafi átt í tölvubréfasamskiptum við nánar tilgreint sænskt tryggingafélag í maímánuði 2016 vegna réttaraðstoðartryggingar sem aðrir kærendur munu hafa keypt hjá tryggingafélaginu. Fyrir liggur að kærandinn framsendi þau samskipti til F lögmanns, þar sem meðal annars komu fram upplýsingar um hvernig rétt væri að beina kröfu í trygginguna auk undirliggjandi skilmála. Bera gögn málsins jafnframt með sér að F hafi framsent umrædd samskipti og gögn til kærða. Þá verður að leggja til grundvallar af fyrirliggjandi gögnum að greitt hafi verið úr tryggingunni vegna áðurgreinds kyrrsetningarmáls en um það efni liggur meðal annars fyrir staðfesting tryggingafélagsins sem send var í tölvubréfi til kærða þann 1. júlí 2016.

Í málsgögnum liggja fyrir greinargerðir kærenda í fyrrgreindu héraðsdómsmáli nr. E-xxx/xxxx sem lagðar voru fram á dómþingi þann x. júní 201x. Bera þær með sér að F lögmaður hafi haldið uppi vörnum í málinu fyrir aðal- og varastefnda, þ.e. kærendur A og B ehf., en kærði fyrir þrautavarastefnda, þ.e. kæranda C AB. Verður slíkt jafnframt leitt af endurriti úr þingbók málsins frá x. ágúst 201x, sem er meðal málsgagna, en við fyrirtöku málsins þann dag var málinu frestað til munnlegs málflutnings um frávísunarkröfu kærenda, sem stefndu, til x. nóvember 201x.

Þann x. september 201x sendi F lögmaður tölvubréf til kærða með málsgögnum héraðsdómsmálsins. Lýsti hinn fyrrgreindi lögmaður því að kærði þyrfti að senda gögnin til viðkomandi tryggingafélags í Svíþjóð.

Málið nr. E-xxxx/xxxx var munnlega flutt í Héraðsdómi Y þann x. nóvember 201x vegna kröfu kærenda, sem stefndu, um frávísun þess. Ágreiningslaust er að kærði flutti málið fyrir hönd kæranda C AB en fyrrgreindur F fyrir hönd annarra kærenda. Með úrskurði héraðsdóms, uppkveðnum x. desember 201x, var kröfu kærenda, sem stefndu, um frávísun málsins hafnað en ákvörðun um málskostnað var látin bíða efnisdóms í málinu.

Þann 20. desember 2016 beindi kærði tölvubréfi til viðkomandi tryggingafélags kærenda í Svíþjóð og óskaði eftir afstöðu félagsins til kröfu í réttaraðstoðartryggingu vegna reksturs fyrrgreinds dómsmáls sem rekið var fyrir Héraðsdómi Y. Var í tölvubréfinu að finna samantekt á málsatvikum og kröfugerð aðila í málinu, en ráða má af málsgögnum að F lögmaður, sem fengið hafði afrit af erindinu, hafi áður, nánar tiltekið þann x. nóvember 2016, gert drög að íslenskri útgáfu bréfsins og sent til kærða.

Í svari tryggingafélagsins til kærða, dags. 30. desember 2016, var óskaði eftir nánar tilgreindum gögnum vegna dómsmálsins og upplýsingum um stöðu þess. Kærði sendi umbeðin gögn til tryggingafélagsins í tölvubréfum 9. og 11. janúar 2017 jafnframt því sem upplýst var um stöðu málsins, þar á meðal um fyrrgreindan úrskurð sem kveðinn hafði verið upp þann x. desember 201x. Þá óskaði kærði eftir í tölvubréfi til tryggingafélagsins, dags. 18. janúar 2017, að kostnaður fyrir hluta málsins yrði greiddur enda lægi þegar fyrir úrskurður héraðsdóms um formhlið þess. Með tölvubréfinu fylgdi reikningur, útgefinn af G ehf. en á bréfsefni H, á hendur kærendum B ehf. og C AB, dags. 18. janúar 2017. Var tiltekið á reikningnum, sem var að heildarfjárhæð 17.913 evrur, að hann tæki til vinnu lögmanna á tímabilinu frá apríl til desember 2016 vegna ágreinings við J ehf., að kærði hefði unnið í málinu í alls 27,25 klukkustundir á tímagjaldinu 250 evrur en F lögmaður í alls 55,5 klukkustundir á tímagjaldinu 200 evrur. Þá var nánari sundurliðun til einstakra verkþátta að finna á reikningnum. Tímaskýrsla kærða vegna fyrrgreindra vinnustunda, sem tekur til tímabilsins frá 16. maí 2016 til 18. desember 2016, er jafnframt meðal málsgagna fyrir nefndinni.

Tryggingafélagið sendi á ný tölvubréf til kærða þann 24. janúar 2017. Í því kom fram staðfesting á móttöku fyrrgreinds reiknings og upplýsingar um hvernig hann yrði greiddur á grundvelli undirliggjandi skilmála. Kom þar fram að reikningsfjárhæð yrði greidd að frádreginni sjálfsábyrgð vátryggingartaka, sem var alls að fjárhæð 4.330 evrur. Samkvæmt því væri til greiðslu úr tryggingunni 13.574 evrur, vegna fyrrgreinds reiknings, en tiltekið að helmingurinn, 6.787 evrur, kæmi þegar til greiðslu en það sem eftir stæði í kjölfar efnislegrar niðurstöðu dómstóla í málinu.

Meðal málsgagna fyrir nefndinni er millifærslukvittun sem ber með sér að lögmannsstofa kærða hafi móttekið fyrri greiðslu úr tryggingunni frá viðkomandi tryggingafélagi, í samræmi við framangreint, þann 25. janúar 2017 að fjárhæð 835.615 krónur, þ.e. eftir umreikning 6.787 evra í íslenskar krónur miðað við gengisskráningu þann dag.

F lögmaður mun hafa látið af störfum hjá lögmannsstofu kærða í febrúarmánuði 2017 og hafið sjálfstæðan rekstur í sama mánuði. Í tölvubréfi F til kærða, dags. 24. febrúar 2017, var tilkynnt um afturköllun umboðs nánar tilgreindra aðila til lögmannsstofu kærða og óskað eftir afhendingu málsgagna. Þá var þar tiltekið að aðrir aðilar, þ. á m. kærendur C AB og B ehf., hefðu staðfest við lögmanninn munnlega eða í tölvubréfi um afturköllun á umboði G ehf. en að skrifleg tilkynning þar að lútandi yrði send í vikunni á eftir. Meðal málsgagna er jafnframt að finna hluta af samningi á milli G ehf. og F lögmanns um fjárhagslegt uppgjör, dags. 27. nóvember 2017, en ekki þykir ástæða til að rekja efni þess vegna sakarefnis málsins fyrir nefndinni.

Af málsgögnum og málatilbúnaði aðila fyrir nefndinni verður ráðið F lögmaður hafi frá febrúarmánuði 2017 tekið einn við rekstri héraðsdómsmálsins nr. E-xxxx/201x fyrir hönd kærenda, þar á meðal fyrir þrautavarastefnda C AB sem kærði hafði áður annast hagsmunagæslu fyrir.

Þann 5. desember 2017 sendi kærði tölvubréf til K, sem mun vera fjármálastjóri kærenda B ehf. og C AB í Svíþjóð, þar sem óskað var eftir greiðslu á reikningi sem gefinn hafði verið út sama dag vegna starfa kærða og F lögmanns í þágu kærenda í tengslum við rekstur dómsmálsins áður en til starfsloka hins síðargreinda kom hjá G ehf. í febrúarmánuði sama ár. Með tölvubréfinu fylgdi umræddur reikningur, útgefinn af L ehf. þann 5. desember 2017 á hendur B ehf. að fjárhæð 1.290.404 kónur með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum að hann tæki til lögfræðilegrar ráðgjafar kærða og fyrrgreinds lögmanns „varðandi J ehf., og C AB, málflutningur, fundir o.fl.

Með tölvubréfi kæranda A til kærða, dags. 6. desember 2017, var reikningnum hafnað á grundvelli þess að kærendur hefðu hvorki átt í samskiptum né viðskiptum við L ehf.

Fyrir nefndinni hefur kærði borið því við að fyrrgreindur reikningur, dags. 5. desember 2017, hafi verið gefinn út vegna mistaka enda hafi reikningur sá sem gefinn hafi verið út þann 18. janúar 2017, sem áður greinir, tekið til umræddra starfa og verið greiddur að hluta á þeim tíma. Þá hafi eftirstöðvar hins síðargreinda reiknings átt að koma til greiðslu af hálfu tryggingafélagsins við lok viðkomandi dómsmáls. Samkvæmt því hafi reikningur sá sem gefinn hafði verið út af L ehf., dags. 5. desember 2017, verið kreditfærður í kjölfar fyrrgreindra samskipta málsaðila.

Þann 7. desember 2017 var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Y í fyrrgreindu máli nr. E-xxxx/xxxx. Samkvæmt dómsorði var kæranda A gert að greiða stefnanda stefnufjárhæð málsins auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Kærendur B ehf. og C AB voru hins vegar sýknaðir af kröfum stefnanda en málskostnaður þar á milli var látinn niður falla.

Þann 12. desember 2017 sendi kærði erindi til tryggingafélagsins í Svíþjóð og upplýsti um að niðurstaða dómstóla lægi fyrir og óskaði eftir síðari greiðslu úr tryggingunni samkvæmt reikningi þeim sem útgefinn hafði verið 18. janúar sama ár. Í svari tryggingafélagsins til kærða, dags. 14. desember 2017, var óskað eftir afriti af dómi héraðsdóms auk skýringa á niðurstöðunni. Í frekari tölvubréfsamskiptum tilgreindra aðila, dags. 15. sama mánaðar, kom fram að einungis væri um fyrrgreindan reikning að ræða auk þess sem aðilinn sendi til tryggingafélagsins afrit af dómi héraðsdóms jafnframt því að tilgreina niðurstöðu samkvæmt dómsorði.

Meðal málsgagna fyrir nefndinni er millifærslukvittun sem ber með sér að lögmannsstofa kærða hafi móttekið síðari greiðslu úr tryggingunni frá viðkomandi tryggingafélagi, í samræmi við framangreint, þann 20. desember 2017 að fjárhæð 846.135 krónur, þ.e. eftir að 6.787 evrur höfðu verið umreiknaðar í íslenskar krónur miðað við gengisskráningu þann dag.

Þann 9. janúar 2018 sendi F lögmaður, sem þá starfaði undir merkjum H, erindi til hins sænska tryggingafélags og óskaði eftir greiðslu úr viðkomandi réttaraðstoðartryggingu kærenda vegna reksturs málsins nr. E-xxxx/xxxx fyrir Héraðsdómi Y. Með erindinu fylgdu reikningar vegna starfa lögmannsins í þágu kærenda á tímabilinu frá 16. desember 2016 til 8. desember 2017, tímaskýrslur að baki þeim reikningum auk afrit dóms héraðsdóms. Þá var því lýst að lögmannsstofan hefði áður sent gögn og reikninga vegna lögmannsstarfa sem innt hefðu verið af hendi fyrir 16. desember 2016.

Í framhaldi af því, nánar tiltekið þann 10. janúar 2018, mun tryggingafélagið hafa upplýst F lögmann um samskipti sín við kærða frá desembermánuði 2017 og greiðslu úr tryggingunni. Í svari F kom fram að umboð kærða hefði verið afturkallað í ársbyrjun 2017 og að hann starfaði ekki lengur undir merkjum H. Samkvæmt því hefði kærði hvorki heimild til að veita fjármunum viðtöku né til að fá upplýsingar um málið.

Tryggingafélagið upplýsti F lögmann um í tölvubréfi hinn 12. janúar 2018 að lokagreiðsla hefði verið greidd til kærða í desember 2017. Í svari lögmannsins, sama dag, kom fram að kærði hefði ekki haft heimild til að veita fjármunum viðtöku og að um mistök hefði verið að ræða af hálfu tryggingafélagsins að greiða úr tryggingunni til hans. Ítrekaði lögmaðurinn kröfu um greiðslu úr tryggingunni vegna þeirra starfa sem hann hefði innt af hendi auk þess sem hann óskaði eftir upplýsingum um nánar tilgreinda þætti málsins.

Í áframhaldandi andsvörum tryggingafélagsins gagnvart F, dags. 17. janúar 2018, kom fram að á grundvelli fyrirliggjandi gagna hefði félagið ekki gert mistök við útgreiðslu úr tryggingunni. Þá var bent á að F hefði verið meðvitaður um greiðslu þá sem innt hafði verið úr tryggingunni í janúarmánuði 2017 og ekki viðhaft nokkrar athugasemdir þar að lútandi.

Með bréfi F lögmanns til kærða, dags. 18. janúar 2018, var atvikum að baki útgreiðslu úr fyrrgreindri tryggingu lýst. Var þess krafist að kærði myndi endurgreiða 6.787 evrur til tryggingafélags kærenda án tafar. Þá var tiltekið að ef fjármunirnir yrðu ekki endurgreiddir innan sjö daga yrði athæfið kært til lögreglu auk þess sem kvörtun yrði beint til úrskurðarnefndar lögmanna vegna ólögmætra starfshátta kærða. Auk þess myndu kærendur tilkynna tjónið til tryggingafélags kærða og gera kröfu í starfsábyrgðartryggingu.

Kærði hafnaði fyrrgreindum kröfum með tölvubréfi til lögmannsins þennan sama dag, 18. janúar 2018.

Auk þeirra reikninga sem áður er lýst, þ.e. annars vegar reikning útgefinn af lögmannsstofu kærða þann 18. janúar 2017 og hins vegar 5. desember 2017 sem síðar var kreditfærður, hafa kærendur lagt fram með viðbótarathugasemdum sínum til nefndarinnar fimm aðra reikninga í málinu. Er þar í öllum tilvikum um að ræða reikninga sem útgefnir voru af hálfu lögmannsstofu kærða, G ehf., á hendur kæranda B ehf. Nánar tiltekið er í fyrsta lagi um að ræða reikning, dags. 2. ágúst 2016 að heildarfjárhæð 63.891 króna, í öðru lagi reikning, dags. 7. september 2016 að heildarfjárhæð 163.277 krónur, í þriðja lagi reikning, dags. 9. nóvember 2016, að heildarfjárhæð 156.178 krónur, í fjórða lagi reikning, dags. 14. desember 2016, að heildarfjárhæð 482.732 krónur og í fimmta lagi reikning, dags. 3. febrúar 2017, að heildarfjárhæð 184.574 krónur. Í öllum tilvikum greinir að um sé að ræða reikning vegna lögfræðilegrar ráðgjafar og vinnu kærða og F lögmanns. Þá bera þrír þessara reikninga með sér að hafa verið samþykktir af hálfu kæranda A með áritun á þá.

Kærði hefur jafnframt lagt fyrir nefndina afrit af tölvubréfasamskiptum sínum við K, fjármálastjóra kærenda í Svíþjóð, frá október- og nóvembermánuði 2016 í tengslum við útgáfu reikninga vegna lögmannsstarfa.

Líkt og áður er rakið beindu kærendur kvörtun í málinu til nefndarinnar þann 8. janúar 2019.

II.

Kærendur krefjast þess í fyrsta lagi að nefndin taki umþrætta þóknun kærða til endurskoðunar og úrskurði um hæfilega þóknun. Í öðru lagi krefjast kærendur þess að nefndin úrskurði um lögmæti þeirrar háttsemi kærða sem kvörtun taki til með tilliti til laga nr. 77/1998 um lögmenn og siðareglna lögmanna, einkum er varðar þá háttsemi kærða að krefjast greiðslna fyrir hönd kærenda og taka á móti fjármunum, án umboðs eða annarrar heimildar. Þá krefjast kærendur málskostnaðar úr hendi kærða vegna reksturs málsins fyrir nefndinni, sbr. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998.

Í málatilbúnaði kærenda er vísað til þess að kvörtun lúti að þeirri háttsemi kærða að hafa verið í samskiptum við sænskt tryggingafélag kærenda C AB og B ehf., án þess að hafa haft til þess lögmætt umboð eða heimild í tengslum við málskostnaðartryggingu félaganna. Er vísað til þess að kærði hafi fengið greiddar 6.787 evrur úr málskostnaðartryggingu viðkomandi kærenda án umboðs eða heimildar. Þá hafi kærði ekki endurgreitt fjármunina þrátt fyrir áskorun frá þáverandi lögmanni kærenda, dags. 18. janúar 2018.

Um atvik vísa kærendur til þess að þeir hafi veitt F lögmanni umboð til að gæta hagsmuna sinna vegna stefnu sem útgefin hafi verið á hendur þeim af J ehf., dags. 4. apríl 2016. Í málinu hafi tilgreint félag krafist greiðslu að fjárhæð 1.837.320 króna auk málskostnaðar. Þegar umboðið hafi verið veitt hafi fyrrgreindur lögmaður starfað undir merkjum H sem fulltrúi hjá kærða.

Því er lýst að kærendur hafi talið að F væri sjálfstæður lögmaður og að þeir hefðu samið beint við hann, í samræmi við fyrirliggjandi umboð. Hafi kærendur þannig hvorki hitt kærða né rætt við hann persónulega er umboð hafi verið veitt. Er vísað til þess að í lok árs 2016 hafi kærði hætt að starfa undir merkjum H og stofnað sína eigin lögmannsstofu, L ehf. Fljótlega eftir það hafi F hætt störfum fyrir kærða og ráðið sig í vinnu hjá H, þá sem eigandi. Hafi F haldið áfram vinnu sinni fyrir kærendur við áðurnefnt dómsmál gegn J ehf. Samkvæmt því hafi tilgreindur lögmaður mætt í fyrirtökur, lokið gagnaöflun og flutt málið munnlega þann 9. nóvember 2017.

Kærendur vísa til þess að þeim hafi borist tölvubréf frá kærða þann 6. desember 2017 þar sem upplýst hafi verið um útistandandi kröfu við lögmannsstofu hans. Í viðhengi hafi verið reikningur útgefinn af L ehf. að fjárhæð 1.290.404 krónur. Vísa kærendur til þess að þeir hafi svarað erindinu samdægurs og hafnað umræddum reikningi á þeim grundvelli að þeir hefðu ekki átt í neinum samskiptum eða viðskiptum við viðkomandi lögmannsstofu.

Vísað er til þess að Héraðsdómur Y hafi kveðið upp dóm í máli nr. E-xxxx/xxxx þann x. desember 2018, þar sem kæranda, A, hafi persónulega verið gert að greiða umkrafðan reikning að fjárhæð 1.837.320 krónur auk málskostnaðar að fjárhæð 850.000 krónur.

Á það er bent að F lögmaður hafi haft samband við tryggingafélag kærenda þann 9. janúar 2018 og óskað eftir greiðslu úr málskostnaðartryggingu kærenda vegna málarekstursins. Hafi lögmaðurinn þá fengið þau svör frá starfsmanni tryggingafélagsins að kærði hefði þann 20. desember 2017 fengið greiddar 6.787 evrur úr tryggingunni í tengslum við rekstur málsins. Við nánari eftirgrennslan hafi komið í ljós að kærði hefði í janúar 2017 einnig fengið 6.787 evrur úr tryggingunni. Samkvæmt því hafi kærði fengið greiddar alls 13.574 evrur úr málskostnaðartryggingunni án nokkurs samráðs við kærendur.

Kærendur vísa til þess að til grundvallar útgreiðslum úr málskostnaðartryggingunni hafi kærði sent tryggingafélaginu reikning, dags. 18. janúar 2017, að fjárhæð 17.913 evrur sem útgefinn hafi verið til kærenda, C AB og B ehf. Hafi reikningurinn verið á bréfsefni frá H en gefinn út af einkahlutafélagi kærða, G ehf. Benda kærendur á að kærði hafi aðeins sent umræddan reikning til tryggingafélagsins enda hefðu þeir hafnað honum ef þeir hefðu fengið hann til sín. Um það efni vísa kærendur til þess að reikningurinn hafi verið umtalsvert hærri en dómkrafa J ehf. auk þess sem fjárhæðin hafi ekki verið í nokkru samræmi við þá vinnu sem hafi átt sér stað fyrir útgáfu hans þann 18. janúar 2017. Á þeim tíma hafi eingöngu verið búið að útbúa greinargerð og flytja málið vegna kröfu kærenda um frávísun þess.

Um málatilbúnað sinn vísa kærendur til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 og 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna.

Í viðbótarathugasemdum kærenda vegna greinargerðar og málatilbúnaðar kærða fyrir nefndinni er vísað til þess að ágreiningur á milli kærða og F lögmanns sé málinu óviðkomandi. Snúist málið fyrir nefndinni þannig um tvennt, þ.e. annars vegar hvort kærði hafi haft umboð til að krefjast greiðslna fyrir hönd kærenda úr málskostnaðartryggingu og hins vegar hvort umkrafin þóknun kærða hafi verið hæfileg í skilningi 24. gr. laga nr. 77/1998.

Varðandi ætlað umboðsleysi kærða vísa kærendur til þess að F lögmanni hafi einum verið veitt skriflegt umboð til að gæta hagsmuna kærenda í dómsmálinu við J ehf. Umboðið hafi þannig ekki verið til kærða eða H líkt og kærði haldi fram í málinu. Þá verði ráðið af málsgögnum að fyrrgreindur F hafi litið svo á að lögmannsstofa kærða, G ehf., hafi haft einhvers konar umboð frá kærendum enda hafi hann séð sig knúinn til að tilkynna kærða um afturköllun þess með tölvubréfi hinn 24. febrúar 2017.

Kærendur vísa til þess að þeim sé ekki kunnugt um hvaða ástæður hafi legið að baki tilgreindri afturköllun. Þannig hafi kærendur hvorki veitt tilgreindu félagi né kærða sjálfum umboð til hagsmunagæslu í málinu. Hafi kærandi A, sem jafnframt sé fyrirsvarsmaður annarra kærenda, því hafnað umsvifalaust reikningi frá kærða þann 6. desember 2017.

Er á það bent að í framhaldi af því hafi kærði leitað milliliðalaust til tryggingafélags kærenda og krafist greiðslu úr málskostnaðartryggingu. Hafi kærði gert það án vitundar, heimildar og umboðs frá kærendum. Vísa kærendur til þess að kærða hafi hlotið að vera ljóst um heimildarbrest sinn enda hafi fyrirsvarsmaður kærenda aðeins nokkrum dögum áður hafnað greiðsluskyldu gagnvart kærða vegna dómsmálsins.

Vakin er athygli á að viðkomandi reikningur sem kærði hafi sent tryggingafélaginu hafi verið gefinn út á bréfsefni H þrátt fyrir að kærði hafi ekki starfað á lögmannsstofunni við útgáfu reikningsins. Með sama hætti hafi kærði notast við gamalt tölvupóstfang sitt í samskiptum sínum við tryggingafélagið. Þá hafi kærði sent tryggingafélaginu afrit af dómi héraðsdóms sem tekinn hafi verið af vef dómstólsins. Jafnframt því hafi kærði útskýrt efnislega niðurstöðu dómsins fyrir tryggingafélaginu án þess að geta þess að annar lögmaður hafi alfarið annast rekstur um efnishlið málsins.

Kærendur byggja á að í athæfi kærða að þessu leyti hafi falist háttsemi sem stríði gegn lögum og reglum í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Er vísað til þess í dæmaskyni að samkvæmt 3. mgr. 21. gr. laganna sé lögmanni óheimilt að taka við greiðslum svo bindandi sé gagnvart umbjóðanda nema hann hafi til þess sannanlegt umboð. Þá megi vafalaust heimfæra háttsemi kærða sem brot á refsilöggjöfinni. Í ljósi málsatvika verði að telja að sakir kærða séu miklar.

Varðandi óhæfilega þóknun vísa kærendur til þess að erfitt sé að henda reiður á hversu mikla þóknun kærði hafi krafið kærendur um vegna reksturs dómsmálsins. Skýrist það einkum á því að tímaskýrslur hafi jafnan ekki fylgt með reikningum frá kærða. Þá hafi reikningarnir stafað frá mismunandi félögum auk þess sem gögn bendi til þess að útgáfa þeirra hafi í einhverjum tilfellum verið til málamynda af hálfu kærða.

Vísa kærendur til þess að félög á vegum kærða hafi gefið út sjö reikninga á hendur kærendum á tímabilinu frá 2. ágúst 2016 til 5. desember 2017 að heildarfjárhæð 5.150.628 krónur með virðisaukaskatti.

Um reikning útgefinn 18. janúar 2017 á hendur kærendum B ehf. og C AB, að fjárhæð 2.265.784 krónur auk virðisaukaskatts, vísa kærendur til þess að þeir hafi fyrst fengið vitneskju um hann þegar upp hafi komist um heimildarlaus samskipti kærða við tryggingafélagið um miðjan janúar 2018. Hafi fjárhæð reikningsins verið tilgreind í evrum. Veki athygli að tímagjald samkvæmt reikningnum sé talsvert hærra en annarra reikninga sem kærði hafi gefið út til kærenda. Af ókunnum ástæðum hafi kærði ekki innheimt virðisaukaskatt af reikningnum og sé hann því áætlaður í erindi kærenda.

Kærendur byggja á að við mat á því hvort umkrafin þóknun sé hæfileg verði að líta til þeirra hagsmuna sem undir hafi verið í málinu. Af stefnu málsins að dæma hafi verið um tiltölulega einfalt innheimtumál að ræða þar sem deilt hafi verið um greiðsluskyldu á reikningum. Telja kærendur það engum vafa undirorpið að sú þóknun sem kærði hafi krafist með útgáfu reikninga sé í engu samræmi við þá hagsmuni sem um hafi verið deilt í dómsmálinu þar sem dómkrafa hafi verið að höfuðstólsfjárhæð 1.837.320 krónur.

 

III.

Skilja verður málatilbúnað kærða fyrir nefndinni þannig að hann krefjist þess að kröfum kærenda verði hafnað í málinu. Þá krefst kærði málskostnaðar úr hendi kærenda vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Kærði kveðst hafna kvörtunarefnum kærenda enda hafi hann ásamt fulltrúanum F lögmanni sannanlega unnið umrædda vinnu. Hafi vinnan verið unnin í samræmi við gjaldskrá lögmannsstofu hans og fyrir sanngjarna og eðlilega þóknun. Þá hafi kærði haft umboð til vinnunnar ásamt viðkomandi fulltrúa, þar með talið til að fá greidda reikninga frá tryggingafélagi á grundvelli rekstrartryggingar í samræmi við og samkvæmt samþykki kærenda. Telur kærði ljóst að tilgangur kvörtunarinnar sé fyrst og fremst sá að reyna á einhvern hátt að koma höggi á sig og valda tjóni.

Varðandi forsögu málsins vísar kærði til þess að hann hafi verið sjálfstætt starfandi lögmaður í um 15 ár og frá 2005 hafi rekstrarfélag lögmannsstofunnar verið G ehf. Á árinu 2011 hafi F verið ráðinn fulltrúi hjá kærða þar sem hann hafi starfað til febrúar 2017. Er vísað til þess að mikið af þeirri vinnu sem nú sé kvartað undan hafi verið unnin af F þegar hann hafi starfað sem fulltrúi hjá kærða. Skrifstofan hafi flutt árið 2014 í X þar sem nokkrar lögmannsstofur sjálfstætt starfandi lögmanna hafi starfað undir merki H. Lögmannsstofa kærða hafi flutt aftur í lok ársins 2016 í X í Reykjavík og hafið starfsemi undir heitinu L ehf.

Kærði gerir alvarlegar athugasemdir við atvikalýsingu í kvörtun, þ.e. þar sem fram komi um að F hafi verið sjálfstætt starfandi á árinu 2016 og að honum hafi verið einum veitt umboð í málinu eða kærendur litið svo á. Að halda slíku fram sé fráleitt og rangt með öllu. Þannig hafi F verið skráður hjá Lögmannafélagi Íslands og hjá dómstólum sem fulltrúi kærða líkt og reyndin hafi verið.

Kærði vísar til þess að öll umboð sem gerð hafi verið á lögmannsstofu hans hafi verið í nafni lögmanna á stofunni. Fyrirliggjandi umboð í málinu séu vottuð af kærða. Þá hafi umboð og önnur skjöl verið og átt að vera í nafni H og eftir atvikum ýmist til annars eða bæði kærða og F. Öll umboð sem F hafi gert hafi eðli máls samkvæmt verið umboð til stofunnar og til hans sem fulltrúa kærða. Hafi viðkomandi fulltrúa verið óheimilt með öllu að starfa sjálfstætt sem lögmaður.

Vísað er til þess í málatilbúnaði kærða að vinna fyrir kærendur hafi hafist í ársbyrjun 2016 og að verkefnin hafi verið af ýmsum toga þar sem kærendur hafi verið í uppbyggingu hótela og ferðaþjónustu á Íslandi. Hafi lögmannsstofa kærða sinnt verkefnum fyrir kærendur á árunum 2016 og 2017 en auk dómsmáls gegn J ehf. er í greinargerð kærða gerð grein fyrir öðrum lögmannsstörfum sem innt hafi verið af hendi á tímabilinu. Hafi verkefnin verið unnin að mestu leyti sameiginlega af kærða og F þótt hinn síðargreindi hafi verið meira í fyrirsvari. Þá hafi öllum mátt vera ljóst að kærði hefði komið að verkefnunum enda hann ítrekað í samskiptum við skrifstofu kærenda í Svíðþjóð auk fundahalda. Allir reikningar hafi verið útgefnir á félagið B ehf., samkvæmt fyrirmælum kærenda, af G ehf. en þeir hafi alls verið 12 á árunum 2016 og 2017.

Kærði vísar til þess að hann hafi neyðst til að segja fulltrúa sínum upp störfum fyrirvaralaust í febrúarmánuði 2017. Er eftirmálum þess lýst í málatilbúnaði kærða fyrir nefndinni.

Varðandi umboð og kröfu um greiðslu málskostnaðar í rekstrartryggingu vísar kærði til þess að fleiri umboð en eitt tengist því máli sem hér um ræði. Eðli máls samkvæmt hafi umboð verið til lögmannsstofu kærða en einnig hafi verið um að ræða stöðuumboð. Byggir kærði á að hann hafi fyrir hönd stofunnar haft fullt umboð og samþykki frá kærendum til að gera kröfu um greiðslu málskostnaðar í rekstrartryggingu kærenda. Þá hafi lögmannsstofan áður annast mál fyrir hönd kærenda þar sem óskað hefði verið eftir að málskostnaður yrði greiddur úr rekstrartryggingu. Fordæmi hafi því verið fyrir því að hafa þennan háttinn á.

Kærði bendir á að kærendur hafi sjálfir haft frumkvæði að því að upplýsa um málskostnaðartryggingu sem væri innifalin í rekstrartryggingu aðilanna og óskað eftir því að kröfum vegna málskostnaðar yrði beint til tryggingafélagsins. Liggi það fyrir í tölvubréfasamskiptum í málinu. Þannig hafi kærandi Benedikt haft samband við viðkomandi tryggingafélag og óskað eftir undirliggjandi skilmálum sem hann hafi svo framsent til F. Þá hafi F verið í munlegum samskiptum við kærendur og staðfest einnig gagnvart kærða umrætt samþykki/heimild og ósk kærenda um að láta tryggingafélagið greiða málskostnaðinn.

Bent er á að F hafi gert uppkast að bréfi til tryggingafélagsins þar sem óskað hafi verið eftir staðfestingu á að tryggingin tæki til málskostnaðar í umræddu máli. Kærði hafi sett upp bréfið á dönsku og sent til tryggingafélagsins. Þá hafi verið staðfest af tryggingafélaginu að málskostnaður yrði greiddur að skilyrðum skilmála uppfylltum. Kveðst kærði jafnframt hafa sent bréf til tryggingafélagsins þann 20. desember 2016 í tengslum við kröfu um málskostnað í málinu og í framhaldinu öll skjöl málsins.

Kærði vísar til þess að þann 18. janúar 2017 hafi verið send krafa með reikningi til tryggingafélagsins en áður hafi kröfu kærenda um frávísun málsins verið hafnað með úrskurði uppkveðnum 16. desember 2016. Í framhaldi af því hafi tryggingafélagið staðfest greiðsluskyldu og að helmingur kröfunnar yrði greiddur þá þegar en eftirstöðvar þegar málinu lyki efnislega. Bendir kærði á að hann hafi verið skráður lögmaður kæranda C AB í dómsmálinu en F sem lögmaður annarra kærenda.

Í málatilbúnaði kærða er vísað til þess að dómur í málinu hafi verið kveðinn upp þann 7. desember 2017. Í kjölfar þess hafi hann sent bréf til tryggingafélagsins þar sem óskað hefði verið eftir greiðslu á eftirstöðvum málskostnaðar í málinu þar sem einungis helmingur hefði verið greiddur þann 25. janúar 2017, þ.e. við útgáfu reiknings og kröfugerð. Er vísað til þess að ekki hafi átt að gefa út reikning í desember 2017, sem síðar hafi verið kreditfærður, enda hafi reikningurinn frá 2016 verið enn inni hjá tryggingafélaginu og ógreiddur að hluta.

Kærði kveður tryggingafélagið hafa greitt eftirstöðvarnar í framhaldi þessa, að frádreginni sjálfsábyrgð. Á þeim tíma hafi einnig verið til viðbótar skráðir tímar í málinu sem ekki hafi verið bætt við kröfuna, heldur aðeins óskað greiðslu á eftirstöðvum þess reikings sem sendur hafi verið í janúar 2017. Þá kveðst kærði hafa hafnað með tölvubréfi kröfum í bréfi F lögmanns, dags. 18. janúar 2018. Ekkert hafi heyrst frá kærendum frá þeim tíma að telja.

Kærði byggir á að kjarni málsins sé sá að kærendur hafi veitt lögmannsstofu hans umboð til að vinna umrætt mál og til að gera málskostnaðarkröfu í rekstrartryggingu hjá hinu sænska tryggingafélagi. Er á það bent að um viðvarandi viðskiptasamband hafi verið að ræða og þar með fyrirliggjandi stöðuumboð, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggernigna. Auk þess hafi kærendur veitt sérstök skrifleg heimildarumboð, sbr. 18. gr. fyrrgreindra laga.

Á því er byggt að lögmannsstofa kærða hafi unnið í viðkomandi dómsmáli samkvæmt samkomulagi við kærendur um að gera kröfu í málskostnaðartryggingu hjá tryggingafélagi. Hafi lögmannsstörf verið innt af hendi á þeirri forsendu og í trausti þess að málskostnaðurinn yrði tryggður. Gerð hafi verið krafa í málskostnaðartrygginguna í janúar 2017 þegar umboð/samþykki hafi legið fyrir frá kærendum enda allir upplýstir um það efni og samkvæmt ósk kærenda. Hafi það augljóslega verið mikið hagræði fyrir kærendur að geta látið tryggingafélag sitt greiða allan málskostnað í málinu sem og í fyrra máli sem lögmannsstofa kærða hafi sinnt.

Kærði kveðst hafa fengið staðfest frá viðkomandi tryggingafélagi að við meðferð krafna af þessu tagi sé send út kvittun við útgreiðslu til viðskiptavinarins. Hafi það verið gert í janúarmánuði 2017 í tilviki kærenda sem engar athugasemdir hafi gert. Fyrirliggjandi sé að tryggingafélagið hafi samþykkt umboð til að gera kröfu í trygginguna auk þess að samþykkja greiðslu úr henni. Verði ekki annað leitt af því en að tryggingafélagið hafi fengið sérstakt samþykki kærenda á því að lögmannsstofa kærði gerði umrædda kröfu í trygginguna og fengi greitt úr henni.

Á það er bent að tryggingafélagið hafi greitt eftirstöðvar þeirrar kröfu, sem gerð hafi verið í janúar 2017, þann 20. desember sama ár. Ekki hafi þannig verið um það að ræða að lögmannsstofa kærða væri að gera nýja eða aukna kröfu í trygginguna, heldur einungis óskað eftir að eftirstöðvar yrðu greiddar samkvæmt samþykkt frá janúar 2017. Er á því byggt að sönnun liggi fyrir um að umboð hafi verið veitt af hálfu kærenda sem síðar hafi verið staðfest við tryggingafélagið með samþykki við greiðslu úr tryggingunni. Eigi kvörtun um umboðsleysi því ekki við nein rök að styðjast.

Varðandi reikning og tímaskýrslur vísar kærði til þess að málskostnaður í umræddu dómsmáli byggi á tímaskýrslum vegna vinnu við málið í samræmi við gjaldskrá lögmannsstofu hans og tímagjald. Reikningur vegna málsins, sem gefinn hafi verið út af G ehf., hafi verið sendur til tryggingafélagsins auk kærenda þótt hinu gagnstæða sé ranglega haldið fram af hálfu kærenda. Samkvæmt gjaldskrá hafi tímagjald verið 21.500 krónur til 32.000 krónur með heimild til að leggja á álag í ákveðnum tilfellum. Auk þess hafi vinna fyrir erlenda aðila verið á bilinu 200 – 320 evrur, í báðum tilfellum háð því hvort um eiganda eða fulltrúa væri að ræða.

Kærði telur ljóst af fyrirliggjandi málsgögnum í dómsmálinu, greinargerðum fyrir þrjá aðila, mætingum í héraðsdóm og flutningi málsins af hálfu beggja lögmanna að því er frávísunarkröfu varðar, að um fullkomlega eðlilega tímaskráningu og þóknun hafi verið að ræða. Um hafi verið að ræða umfangsmikið mál þrátt fyrir að stefnufjárhæð hafi ekki verið mjög há. Þá hafi bæði kærði og fulltrúi hans upplýst kærendur um umfang málsins en jafnframt verði að hafa í huga að um þrjá málsaðila var að ræða. Heildarþóknun hafi numið 17.913 evrum. Sé þeirri fjárhæð skipt í þrennt sé um að ræða 5.971 evru á hvern stefnda í málinu, sem verði að teljast eðlilegt miðað við umfang málsins. Auk þess hafi dregist frá við greiðslu frá tryggingafélaginu sjálfsábyrgð kærenda og hafi því einungis 75% af reikningsfjárhæðinni fengist greidd.

Bent er á að greiðslur til lögmannsstofu kærða hafi verið tvær. Annars vegar hafi verið um að ræða greiðslu að fjárhæð 6.787 evrur þann 25. janúar 2017 eða 835.615 krónur miðað við gengi þann dag. Hins vegar hafi verið um að ræða greiðslu að sömu fjárhæð í evrum þann 20. desember 2017 eða alls 846.135 krónur miðað við gengisskráningu. Samkvæmt því hafi greiðsla numið alls 1.681.750 krónum. Eftirstöðvar reikningsins, 4.357 evrur, hafi kærendur ekki greitt.

Kærði vísar til þess að kærendur hafi verið mjög ákveðnir í að láta reyna á frávísunarkröfu og að stefnu í málinu yrði mætt af hörku þannig að öll nauðsynleg vinna yrði unnin til að fá dæmda sýknu. Kærendur hafi verið upplýstir um allt við meðferð málsins og fengið í hendur öll nauðsynleg gögn, þar með talið greinargerðir fyrir hönd allra kærenda. Einnig hafi upplýsingar verið sendar til tryggingafélagsins um gang málsins auk málsgagna.

Vísað er til þess að reikningur G ehf. í málinu tilgreini sundurliðað tímagjald fyrir kærða annars vegar og þáverandi fulltrúa hans hins vegar. Ennfremur megi finna á reikningnum sundurliðaða tímaskráningu fyrir mismunandi þætti málsins. Vísar kærði til málsgagna um þetta efni en bendir á að ekki hafi reynst mögulegt að prenta út heildstætt yfirlit yfir tímaskráningu fulltrúans í ljósi þess hvernig starfslokum hans hefði verið háttað.

Kærði byggir einnig á að kvörtun í málinu sé of seint fram komin. Í málinu hafi átt sér staða krafa og greiðsla í janúar 2017 og síðan greiðsla eftirstöðva í desember sama ár. Rök megi færa fyrir því að kærendur hafi haft tækifæri til að kvarta í janúar 2017 og sé því meira en ár liðið frá umræddu atviki sem kvartað sé undan. Á grundvelli þess beri að vísa málinu frá. Verði ekki talið að kvörtunarefnið í heild sé eldra en eins árs er hins vegar á því byggt að kvörtun vegna þóknunar sé of seint fram komin þar sem reikningur hafi verið gefinn út í janúar 2017 og sendur til kærenda. Um þetta efni beri jafnframt að hafa í huga að greiðsla hefði átt sér stað 25. janúar 2017 auk þess sem tryggingafélagið hafi þá sent kvittun til kærenda. Greiðsla á eftirstöðvum hafi svo farið fram þann 20. desember 2017. Geti bréf F lögmanns, dags. 18. janúar 2018, engu breytt í því samhengi.

Niðurstaða

                                                                          I.

Rétt þykir að fjalla fyrst um frávísunarkröfu kærða í málinu en líkt og áður er rakið er kvörtun kærenda á hendur kærða reist á 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 er kveðið á um að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Þá kemur fram í 1. mgr. 27. gr. laganna að sá sem telji lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna geti sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna. Í báðum tilvikum er tiltekið að nefndin vísi kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá.

Ofangreind ákvæði eru afdráttarlaus um skyldu nefndarinnar til að vísa ágreiningsmálum um endurgjald og kvörtunum á grundvelli 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 frá ef þær berast meira en ári eftir að kostur var á að koma slíkum málum á framfæri.

Varðandi málatilbúnað og kröfur kærenda á grundvelli 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 er til þess að líta að ágreiningslaust er að lögmannsstofa kærða annaðist hagsmunagæslu vegna ýmissa mála í þágu kærenda á árunum 2016 og 2017, líkt og nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan, eða allt þar til kærendur afturkölluðu umboð sitt til stofunnar í febrúarmánuði 2017. Frá þeim tíma tók F lögmaður, sem áður hafði starfað á lögmansstofu kærða en hafið hafði sjálfstæðan rekstur, við hagsmunagæslunni í þágu kærenda, þar á meðal rekstri héraðsdómsmálsins nr. E-xxx/xxxx að öllu leyti en kærði hafði fyrir þann tíma rekið málið fyrir kæranda C AB sem stefnt hafði verið til þrautavara.

Samkvæmt málsgögnum liggur fyrir að þeir reikningar kærða sem tilgreind krafa kærenda lýtur að voru annars vegar gefnir út á hendur kæranda B ehf. dagana 2. ágúst 2016, 7. september 2016,  9. nóvember 2016, 14. desember 2016 og 3. febrúar 2017 og hins vegar á hendur kærendum B ehf. og C AB hinn 18. janúar 2017 en þeim reikningi var jafnframt beint að sænsku tryggingafélagi viðkomandi kærenda. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins og málatilbúnaði aðila en að hinir fyrrgreindu reikningar hafi verið greiddir án athugasemda en hluti þeirra ber þess jafnframt merki að hafa verið sérstaklega samþykktir af kæranda A.

Svo sem nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan var hinn síðastgreindi reikningur að heildarfjárhæð 17.913 evrur og á honum lýst að hann tæki til vinnu lögmanna, þ.e. kærða og F lögmanns,  á tímabilinu frá apríl til desember 2016 vegna ágreinings við J ehf. Ágreiningur er um á milli málsaðila hvort kærði hafi sent viðkomandi reikning til kærenda, líkt og kærði byggir á, eða hvort hann hafi einvörðungu verið sendur til hins sænska tryggingafélags svo sem málatilbúnaður kærenda er grundvallaður á fyrir nefndinni.

Hverju sem framangreindu líður þá liggur fyrir að sá lögmaður, sem tók við hagsmunagæslu í þágu kærenda af kærða í febrúar 2017, var að fullu meðvitaður og upplýstur um tilgreinda reikningsgerð. Er sérstaklega um það efni til þess að líta að í erindi viðkomandi lögmanns, sem þá starfaði undir merkjum H sem sjálfstætt starfandi lögmaður, til hins sænska tryggingafélags, dags. 9. janúar 2018, var upplýst að áður hefði verið gerð krafa í trygginguna vegna reksturs dómsmálsins, þ.e. vegna lögmannsstarfa sem innt hefðu verið af hendi fyrir 16. desember 2016, auk þess sem gögn þar að lútandi hefðu verið send, þar á meðal tímaskýrslur og reikningar. Samkvæmt því verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að kærendum hafi verið kunnugt um fyrrgreinda reikningsgerð af hálfu lögmannsstofu kærða þann 18. janúar 2017. Auk alls framngreinds verður ekki framhjá því litið í þessu samhengi að fyrri greiðsla úr tryggingunni á grundvelli reikningsins var innt af hendi þann 25. janúar 2017 og mátti kærendum vera það ljóst að slík útgreiðsla færi ekki fram nema samkvæmt útgefnum reikningi vegna lögmannsstarfa í tengslum við rekstur héraðsdómsmálins nr E-xxxx/xxxx.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að áliti nefndarinnar, í því tilviki sem hér um ræðir, ekki miðað við annað tímamark en útgáfudag þeirra reikninga sem um ræðir við mat á því hvenær kærendur áttu þess kost að koma ágreiningsmáli um rétt til þess endurgjalds sem reikningarnir tóku til á framfæri við nefndina í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Kvörtun kærenda í máli þessu var móttekin af úrskurðarnefnd lögmana þann 8. janúar 2019 en þá þegar voru tímafrestir samkvæmt ofangreindum heimildum liðnir. Þá liggur fyrir að reikningur lögmannsstofu kærða á hendur kæranda B ehf., dags. 5. desember 2017, var gefinn út vegna mistaka kærða og var kreditfærður af þeim sökum, svo sem nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan. Í ljósi þess fortakslausa tímafrests sem kveðið er á um í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. áður lýstra málsmeðferðarreglna fyri nefndinni, er óhjákvæmilegt að vísa kvörtun kærenda að því leyti sem hér hefur verið rakið frá úrskurðarnefnd lögmanna með þeim hætti sem greinir í úrskurðarorði.

Varðandi kvörtun kærenda á grundvelli 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, þ.e. vegna ætlaðs umboðsleysis kærða við móttöku fjármuna úr tryggingunni þann 20. desember 2017, verður á hinn bóginn ekki slegið föstu að kærendum hafi mátt vera kunnugt um þá háttsemi fyrir 8. janúar 2018. Samkvæmt því kemur sá þáttur til efnislegrar úrlausnar í málinu. 

III.

Líkt og fyrr er rakið getur sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 3. mgr. 21. gr. laga nr. 77/199 getur lögmaður ekki tekið við greiðslu svo bindandi sé gagnvart umbjóðanda nema hann hafi til þess sannanlegt umboð.

Í kvörtun kærenda að þessu leyti er á því byggt að kærði hafi verið í samskiptum við sænskt tryggingafélag kærenda og veitt viðtöku á fjármunum frá því úr réttaraðstoðartryggingu í desembermánuði 2017, eða alls 6.787 evrur, án umboðs eða nokkurrar heimildar frá kærendum. Þá hafi kærði ekki endurgreitt fjármunina þrátt fyrir áskorun frá þáverandi lögmanni kærenda, dags. 18. janúar 2018.

Svo sem fyrr er rakið þá sinnti lögmannsstofa kærða ýmsum störfum í þágu kærenda á árunum 2016 og 2017. Það mál sem hér um ræðir lýtur að rekstri héraðsdómsmálsins nr. E-xxx/xxxx, sem rekið var fyrir Héraðsdómi Y, en kærendum var þar öllum stefnt eins og nánar greinir í málsatvikalýsingu.

Þrátt fyrir að umboð til að annast hagsmunagæslu í málinu í þágu kærenda, sem veitt var þann 13. apríl 2016, hafi samkvæmt efni sínu aðeins tekið til F lögmanns þá verður að mati nefndarinnar að líta til þess að sá lögmaður starfaði þá á lögmannsstofu kærða, G ehf., samkvæmt heimild í 3. mgr. 11. gr. 77/1998, sbr. einnig 2. tl. 2. mgr. 12. gr. laganna. Að mati nefndarinnar mátti kærendum vera fullkunnugt um þá aðstöðu. Er þá annars vegar til þess að líta að kærði hélt upphaflega uppi vörnum fyrir hönd kæranda C AB, sem þrautavarastefnda, fyrir héraðsdómi í málinu nr. E-xxx/xxxx, eða allt til þess tíma er umboð hans var sérstaklega afturkallað í febrúar 2017, en fyrrgreindur F fyrir hönd annarra kæranda, sem aðal- og varastefnda. Hins vegar verður ekki framhjá því litið að reikningar vegna lögmannsstarfa í þágu kærenda voru gefnir út af hálfu G ehf., lögmannsstofu kærða, þar sem jafnframt var sérstaklega tiltekið að þeir tækju til lögfræðilegrar ráðgjafar og vinnu kærða og F. Þá verður af málsgögnum ráðið að kærði hafi annast öll samskipti við fjármálstjóra kærenda í Svíþjóð í tengslum við útgáfu reikninga. Gerðu kærendur engar athugasemdir við framgöngu eða störf kærða að þessu leyti í þeirra þágu.

Í samræmi við framngreint verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að lögmannsstofu kærða hafi verið falið að annast hagsmunagæslu í þágu kærenda vegna reksturs héraðsdómsmálsins nr. E-xxx/xxxx og að fullnægjandi umboð hafi legið þar að baki.

Af málsgögnum verður ráðið að í maímánuði 2016 hafi kærandi A komið á framfæri nauðsynlegum upplýsingum til fulltrúa kærða þannig að unnt yrði að hafa uppi kröfu í réttaraðstoðartryggingu kærenda hjá sænsku tryggingafélagi þeirra vegna málarekstursins. Líkt og nánar er rakið í málsatvikalýsingu tilkynnti kærði tryggingafélaginu um málareksturinn í desember sama ár og óskaði eftir afstöðu félagsins til kröfu í trygginguna. Kom fram í áframhaldandi samskiptum að málskostnaður kærenda nyti tryggingar samkvæmt undirliggjandi skilmálum þar að lútandi.

Á þeim tíma sem hér um ræðir hafði málið nr. E-xxx/xxxx verið munnlega flutt í héraði um frávísunarkröfur kærenda, sem stefndu, og þeim hafnað með úrskurði uppkveðnum x. desember 201x. Í tölvubréfi kærða til tryggingafélagsins, dags. 18. janúar 2017, óskaði aðilinn eftir að kostnaður vegna þeirra lögmannsstarfa, sem þegar hefðu verið innt af hendi, yrði greiddur enda lægi fyrir úrskurður um formhlið málsins. Samhliða því sendi kærði reikning til tryggingafélagsins, sem gefinn hafði verið út þann sama dag á hendur kærendum B ehf. og C AB að heildarfjárhæð 17.913 evrur. Líkt og fyrr er rakið tók reikningurinn til vinnu lögmanna á tímabilinu frá apríl til desember 2016. Þá staðfesti tryggingafélagið við kærða að reikningsfjárhæðin yrði greidd, að frádreginni sjálfsábyrgð vátryggingartaka, en þó þannig að helmingur kæmi þegar til greiðslu en það sem eftir stæði í kjölfar endanlegrar niðurstöðu dómstóla í málinu. Í samræmi við það veitti lögmannsstofa kærða viðtöku á fyrri greiðslu úr réttaraðstoðartryggingunni þann 25. janúar 2017.

Svo sem áður er lýst lét kærði og lögmannsstofa hans af störfum fyrir kærendur í febrúarmánuði 2017 en á þeim tíma var enn útistandandi gagnvart tryggingafélaginu helmingur þeirrar fjárhæðar sem félagið hafði samþykkt úr réttaraðstoðartryggingunni samkvæmt fyrrgreindum reikningi, dags. 18. janúar 2017. Ágreiningur í þessum þætti málsins lýtur að háttsemi kærða eftir að dómur hafði verið kveðinn upp í málinu nr. E-xxx/xxxx þann 7. desember 2017. Nánar tiltekið er hér um þá háttsemi kærða að ræða að óska eftir síðari greiðslu úr tryggingunni þann 12. desember 2017 og veita viðtöku á fjármunum úr henni þann 20. sama mánaðar.

Um þetta efni er þess að gæta að þeir fjármunir sem kærði veitti viðtöku úr réttaraðstoðartryggingu kærenda voru að öllu leyti samkvæmt útgefnum reikningi, dags. 18. janúar 2017, vegna starfa kærða og fulltrúa hans frá apríl- til desembermánaðar 2016 og greiddir á grundvelli samþykktar tryggingafélagsins frá sama mánuði. Á þeim tíma sem reikningurinn var gerður og krafa var gerð í viðkomandi réttaraðstoðartryggingu fór kærði og lögmannsstofa hans, í samræmi við framangreint, með umboð til að annast hagsmunagæslu í þágu kærenda vegna reksturs þess dómsmáls sem þóknunin tók til. Að mati nefndarinnar hafði kærði því fullnægjandi heimild í desember 2017 til að óska eftir síðari greiðslu úr tryggingunni og þar með fullnaðaruppgjöri úr henni vegna þeirra lögmannsstarfa sem fallið hafði til á fyrra ári og samþykkt hafði verið af tryggingafélaginu á meðan umboð kærða varði, líkt og áður greinir.

Að mati nefndarinnar verður jafnframt að líta til þess að kærendur hreyfðu engum athugasemdum við fyrri útgreiðslu úr tryggingunni og viðtöku kærða á þeim fjármunum þann 25. janúar 2017. Þá verður ekki annað ráðið af eftirfarandi samskiptum tryggingafélagsins við F lögmann, sem annaðist hagsmunagæslu fyrir kærendur frá febrúarmánuði 2017 og þar til dómur var uppkveðinn í desember sama ár, en að vilji kærenda hafi staðið til að málskostnaður yrði greiddur úr tryggingunni að því marki sem unnt væri. Af þeim sömu samskiptum frá janúarmánuði 2018 verður ráðið að kærendum hafi verið ljóst að krafa hefði verið gerð í trygginguna af lögmannsstofu kærða vegna áfallinna vinnustunda á árinu 2016 og að úr henni hefði verið greitt athugasemdalaust.

Í samræmi við allt framangreint verður ekki fallist á með kærendum að kærði hafi í desembermánuði 2017 átt í samskiptum og tekið við greiðslu frá hinu sænska tryggingafélagi án lögmæts umboðs eða annarrar heimildar frá kærendum, líkt og málatilbúnaður þeirra fyrir nefndinni er reistur á. Samkvæmt því verður ekki talið að kærði hafi gert á hlut kærenda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu kærenda, A, B ehf. og C AB, um að nefndin taki umþrætta þóknun kærða, D lögmanns, til endurskoðunar og úrskurði um hæfilega þóknun, er vísað frá nefndinni.

Kærði, D, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kærenda, A, B ehf. og C AB, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr lögmaður, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Kristinn Bjarnason lögmaður

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

________________________

Sölvi Davíðsson