Mál 15 2019

Mál 15/2019

Ár 2019, fimmtudaginn 21. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2019:

A,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 14. júní 2019 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn í störfum sínum í þágu kæranda.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 18. júní 2019, þar sem meðal annars var tekið fram það mat nefndarinnar að um væri að ræða kvörtun reista á 27. gr. laga nr. 77/1998. Greinargerð kærða barst nefndinni þann 27. ágúst 2019 og var hún send kæranda til athugasemda samdægurs. Hinn 3. september 2019 bárust úrskurðarnefnd viðbótarathugasemdir og gögn frá kærða og voru þau send til kæranda þann 5. sama mánaðar þar sem frestur hans til að skila athugasemdum til nefndarinnar var jafnframt framlengdur. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum mun kærandi hafa leitað til kærða, sem þá starfaði hjá C, á haustmánuðum 2015 með beiðni um hagsmunagæslu í tengslum við möguleg kröfuréttindi hans á hendur fjármálafyrirtækjum vegna ætlaðrar ofgreiðslu samkvæmt lánasamningum með ólögmætri gengistryggingu sem fram hafði farið í ársbyrjun 2008. Áður hafði kærandi beint gagna- og upplýsingabeiðnum til D banka hf. vegna málsins en um það efni liggja meðal annars fyrir í málsgögnum bréf, dags. 28. mars og 30. júní 2014. Munu þær beiðnir ekki hafa skilað tilætluðum árangri.

Af málsgögnum verður ráðið að kærandi hafi átt fund með E lögmanni, sem þá starfaði sem lögmannsfulltrúi hjá kærða, í byrjun septembermánaðar 2015 vegna málsins. Í kjölfar fundarins, nánar tiltekið þann 7. september 2015, sendi tilgreindur lögmaður tölvubréf til kæranda þar sem finna mátti tillögu að tilhögun lögmannsþóknunar vegna málsins. Í svari kæranda þann sama dag var óskað eftir skoðun lögmannsins á nokkrum þáttum sem lutu meðal annars að orðalagi lánasamninga og fyrningu krafna. Þá óskaði kærandi eftir áliti lögmannsins á væntanlegri niðurstöðu hvort heldur sem litið væri til samninga eða dómstóla.

Í tölvubréfi E lögmanns til kæranda, dags. 8. september 2015, kom fram að beiðni kæranda fæli í sér umtalsverða rannsóknarvinnu. Unnt væri að leysa það mál með gerð lögfræðilegrar álitsgerðar þar sem umbeðnum spurningum yrði svarað auk þess sem slík álitsgerð myndi nýtast við framhald málsins gagnvart viðkomandi fjármálafyrirtækjum. Þá var því lýst að álitsgerðin myndi kosta 200.000 krónur.

Meðal málsgagna fyrir nefndinni er lögfræðileg álitsgerð, dags. 19. október 2015, sem unnin var af kærða og E lögmanni í þágu kæranda. Í niðurstöðuköflum álitgerðarinnar kom fram það mat lögmanna að hugsanleg endurgreiðslukrafa kæranda gagnvart F hf. vegna meintra ólögmætra vaxta og meintrar ofgreiðslu samkvæmt uppgreiddum lánasamningum væri ekki fyrnd. Þá var þar tiltekið að ekki væri unnt með lögfræðilegri skoðun að komast að einhlítu svari um hvort umræddir lánasamningar væru í íslenskum krónum, bundnir við gengi erlendra gjaldmiðla. Yrði að leysa úr slíkum ágreiningi fyrir dómstólum.

Af málsgögnum verður ráðið að málsaðilar hafi átt með sér fund um framhald málsins í desembermánuði 2015. Í tölvubréfi kæranda til kærða, dags. 29. desember 2015, var því lýst að hans skilningur væri sá að kærði teldi gott færi að sækja á í málinu strax á nýju ári. Þess skyldi freistað að ná samningum og leysa málið án lögsóknar. Þá stæði til að hafa samband við aðila til að reikna upp lánin og ganga frá samkomulagi á milli málsaðila vegna málsins. Óskaði kærandi jafnframt eftir fundi með kærða til að ræða um lögmannsþóknun vegna málsins.

Fyrir liggur í málsgögnum umboð, dags. 15. janúar 2016, sem kærandi veitti kærða og E lögmanni til hagsmunagæslu í málinu. Í umboðinu var meðal annars tiltekið að það tæki til vinnu við mál kæranda sem tengdist því að gera kröfur á bankastofnanir vegna erlendra lána og hagsmunagæslu að öðru leyti í tengslum við málið. Var jafnframt tiltekið að aðilar hefðu samið sín á milli um að kærandi myndi greiða 100.000 krónur en að þóknun yrði að öðru leyti árangurstengd, þ.e. 25% af innheimtum kröfum að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá var tiltekið að lögmenn væru skuldbundnir til að senda afrit af öllum gögnum til kæranda auk þess að upplýsa reglulega um gang mála. Auk þess bæri lögmönnum að senda grófa tímaáætlun varðandi verkefnið til kæranda.

Þann 20. apríl 2016 sendi E lögmaður tölvubréf til kæranda þar sem óskað var eftir nánar tilgreindum gögnum varðandi uppgjör viðkomandi lánasamninga. Í framhaldi af því, eða dagana 27. og 28. apríl 2016, beindi lögmaðurinn svo gagna- og upplýsingabeiðnum til G ehf. og D banka hf. vegna lánasamninganna, en kærandi fékk sent til sín afrit þeirra beiðna. Ekki verður séð af málsgögnum að umræddum beiðnum hafi verið svarað.

Kærandi óskaði eftir upplýsingum um stöðu mála í tölvubréfi til E lögmanns, dags. 11. júlí 2016. Í svari lögmannsins næsta dag kom fram að enn vantaði upp á gögn og að viðkomandi fjármálafyrirtæki hefðu ekki brugðist við beiðnum þar að lútandi. Af þeim sökum þyrfti lögmaðurinn að funda með kærða varðandi næstu skref með tilliti til dómsmáls og hvernig unnt væri að styrkja slíkt mál í ljósi skorts á gögnum. Þá kvaðst lögmaðurinn myndi vera í sambandi við kæranda í framhaldinu.

Kærandi óskaði á ný eftir fréttum af málinu með tölvubréfi til fyrrgreinds lögmanns þann 14. október 2016. Í svari lögmannsins þann sama dag kom fram að hann hefði rætt við allar fjármálastofnanir varðandi hin umbeðnu gögn, en án árangurs. Þá hefði hann fundað með kærða varðandi næstu skref og væru þeir sammála um að málsgrundvöllurinn væri ekki nægilega sterkur þar sem gögn vantaði auk þess sem ekki hefði reynst unnt að endurreikna lánin af þeim sökum. Í áframhaldandi samskiptum lögmannsins og kæranda þann 18. sama mánaðar festu aðilar með sér fund til að ræða framhald málsins en fyrirhugað var að kærði myndi sitja þann fund.

Meðal málsgagna er bréf, dags. 9. janúar 2017, sem E lögmaður sendi fyrir hönd kæranda til D banka hf. Var í bréfinu að finna tilgreiningu á þeim lánasamningum sem málið varðaði og því mati lýst að um væri að ræða samninga í íslenskum krónum sem bundnir hefðu verið við gengi erlendra gjaldmiðla. Samkvæmt því var þess krafist í bréfinu að bankinn myndi hlutast til um endurútreikning lánasamninganna með tilliti til ólögmætrar gengistryggingar.

Í svari starfsmanns D banka hf. til lögmannsins, dags. 8. febrúar 2017, kom fram að umræddir lánasamningar hefðu aldrei verið framseldir til bankans og að kröfu um endurútreikning væri samkvæmt því ranglega að honum beint. Var lögmanninum bent á að setja sig í samband við slitastjórn F hf. vegna málsins.

Þann 24. febrúar 2017 var kærandi upplýstur um að E hefði látið af störfum hjá kærða og að hinn síðargreindi myndi halda áfram með málið. Samkvæmt því ætti framvegis að beina erindum vegna málsins til kærða. Í tölvubréfi, dags. 27. sama mánaðar, óskaði kærandi eftir upplýsingum frá kærða um það hvernig hann sæi málið þróast áfram.

Kærandi sendi á ný tölvubréf til kærða þann 14. júlí 2017. Var þar tiltekið að aðilar hefðu átt með sér fund nokkrum vikum fyrr og að þá hefði verið rætt um að kærði myndi hafa samband í vikunni á eftir en ekkert hafi gerst. Óskaði kærandi því eftir upplýsingum um stöðu verksins. Í svari kærða, dags. 23. sama mánaðar, kom fram að hann væri í fríi til 4. ágúst 2017 en að aðilar skyldu vera í sambandi þá „varðandi stöðuna og kröfuna.

Í tölvubréfi kærða til kæranda, dags. 6. desember 2017, var upplýst að kærði hefði verið erlendis vegna vinnu en að hann kæmi til með að klára bréf um helgina á eftir og senda til kæranda. Ítrekaði kærði í tölvubréfi til kæranda þann 11. sama mánaðar að hann væri að vinna í bréfinu en óskaði eftir upplýsingum um hvort erindi því sem beint hafði verið til D banka hf. fyrr á árinu hefði verið svarað. Í svari kæranda til kærða, dags. 18. desember 2017, mátti finna hluta af fyrri samskiptum. Þá var þar tiltekið það mat kæranda að málið gengi alltof hægt sem gæti rýrt þá niðurstöðu sem fengist í málið. Óskaði kærandi jafnframt eftir upplýsingum um stöðu málsins auk þess sem honum yrði haldið upplýstum um næstu skref með því að fá afrit af því sem sent yrði. Ítrekaði kærandi það efni í tölvubréfi til kærða þann 4. janúar 2018.

Kærði upplýsti kæranda um í tölvubréfi þann 4. janúar 2018 að H hf. væri lengur starfandi og að af þeim sökum þyrfti að beina kröfunni að D banka hf. Þar sem ekkert svar hafi komið frá bankanum hefði kærði sent kröfubréf til hans á ný til að fá formleg svör. Bera gögn málsins með sér að kærði hafi framsent umrætt bréf til kæranda í tölvubréfi þann 18. janúar 2018.

Tilgreint bréf kærða fyrir hönd kæranda til D banka hf., dags. 3. janúar 2018, er meðal málsgagna. Í bréfinu var að finna tilgreiningu á þeim lánasamningum sem málið varðaði og því mati lýst að um væri að ræða samninga í íslenskum krónum sem bundnir hefðu verið við gengi erlendra gjaldmiðla. Samkvæmt því var þess krafist í bréfinu að bankinn myndi hlutast til um endurútreikning lánasamninganna með tilliti til ólögmætrar gengistryggingar.

Í svari D banka hf, við fyrrgreindu erindi, dags. 12. janúar 2018, var vísað til fyrri afstöðu bankans sem komið hafði verið á framfæri við fulltrúa kærða þann 8. febrúar 2017.

Meðal málsgagna er tölvubréf sem kærði sendi til slitastjórnar H hf. þann 8. maí 2018. Var því lýst í tölvubréfinu að með því fylgdi bréf sem upphaflega hefði verið beint til félagsins en því síðan vísað til D banka hf. Var óskað eftir staðfestingu á móttöku erindisins en ekki verður séð af málsgögnum að því hafi verið svarað.

Í tölvubréfi kæranda til kærða, dags. 11. mars 2019, var tiltekið að vegna tómlætis kærða hefði kæranda verið bent á að hafa samband við Lögmannafélag Íslands varðandi aðstoð. Væri úrskurðarnefnd lögmanna hentugur vettvangur til athugunar á því verklagi sem viðhaft hefði verið í málinu af hálfu kærða. Áður en til þess kæmi væri rétt að ræða málin og óskaði kærandi því eftir fundi þar að lútandi.

Í svari kærða þann sama dag kom fram að kærði hefði verið erlendis og verið mjög tímabundinn. Varðandi málið þá hefði því ekki miðað áfram eins og vonast hefði verið eftir. Á hinn bóginn hafi samkomulag aðila verið á þann veg að settar yrðu fram kröfur og afstaða bankans fengin en að því búnu yrðu næstu skref metin. Kröfum hafi hins vegar ekki verið svarað af hálfu bankans. Samkvæmt því hefði vinna kærða í málinu verið takmörkuð við ákveðna þætti. Að endingu lýsti kærði því að hann myndi fara yfir gögnin og taka saman og að aðilar skyldu funda í kjölfar þess.

Ekki verður séð að málsaðilar hafi átt í frekari samskiptum vegna málsins en kærandi beindi kvörtun í máli þessu til nefndarinnar þann 14. júní 2019, svo sem fyrr greinir.

II.

Kærandi krefst þess fyrir nefndinni að tekin verði afstaða til þess hvort sú háttsemi kærða, að draga það úr hófi fram að gæta hagsmuna kæranda með þeim afleiðingum að endurkröfur hans vegna uppgjörs lána með gengistryggingu fyrndust, hafi strítt gegn lögum eða siðareglum lögmanna eða verið aðfinnsluverð að öðru leyti. Jafnframt krefst kærandi þess að nefndin taki afstöðu til þess hvort kærða beri að afhenda kæranda öll umbeðin gögn um mál hans og láti í ljós leiðsögn um hvernig hægt sé að knýja á um að fá þau afhent. Þá krefst kærandi þess að nefndin taki til skoðunar hvort ástæða kunni að vera til að veita kærða áminningu vegna háttsemi hans í málinu.

Í kvörtun er því lýst að hún lúti að vanrækslu kærða á að leita réttar kæranda til endurgreiðslu vegna ofgreiðslu af gengisbundnu láni, innan fyrningartíma, og afhenda skjólstæðingi umbeðin gögn málsins. Kveðst kærandi um kvörtun sína vísa til 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Um forsögu málsins vísar kærandi til þess að fyrir efnahagshrunið á árinu 2008 hafi hann átt í viðskiptum við F hf. með hlutabréf, afleiður og fjármögnun með gengistryggðum lánum. Þegar til uppgjörs hafi komið í ársbyrjun 2008 hafi lánin verið búin að hækka mikið vegna breytinga á gengi erlendra gjaldmiðla. Síðar hafi Hæstiréttur Íslands dæmt um ólögmæti slíkrar gengistryggingar líkt og þekkt sé. Er jafnframt vísað til þess að eftir að fyrrgreint fjármálafyrirtæki hafi verið tekið til slitameðferðar hafi innlán og útlán viðskiptavina færst til D banka hf., þó útlán hafi haft viðkomu í G ehf. sem hafi verið í eigu J.

Kærandi vísar til þess að eftir að ljóst varð um ólögmæti gengistryggingar hafi hann reynt að leita réttar síns vegna ofgreiðslna af hinum gengistryggðu lánum, en erfitt hafi reynst að fá nauðsynlegar upplýsingar og gögn í þeim tilgangi. Augljóst sé þó af viðkomandi fjárhæðum og breytingum á gengi gjaldmiðla að um verulega hagsmuni hafi verið að tefla. Þá hafi tilgangur hans með því að leita til lögmanns ekki síst verið sá að leiða nákvæmlega í ljós umfang þeirra hagsmuna.

Kærandi kveðst hafa leitað til C á árinu 2015 en þar hafi kærði og E lögmaður tekið að sér málið, sbr. fyrirliggjandi umboð dags. 15. janúar 2016. Er vísað til þess að einhver hreyfing hafi þá komið á málið þótt illa hafi gengið að fá svör frá viðkomandi fyrirtækjum við gagna- og upplýsingabeiðnum. Að því fullreyndu hafi kærði sent erindi til D banka hf., dags. 3. janúar 2018, þar sem gerð hefði verið krafa um endurútreikning á umræddum lánum. Er á það bent að kærði hafi þá verið búinn að láta af störfum hjá C en tekið til starfa hjá K. Hafi mál kæranda fylgt kærða á hina nýju lögmannsstofu. Frá þeim tíma hafi kæranda hins vegar reynst mjög erfitt að ná sambandi við kærða auk þess sem hinn síðargreindi hafi ekki sinnt írekuðum beiðnum kæranda um afhendingu allra málsgagna.

Vísað er til þess í málatilbúnaði kæranda að stjórnvöld hefðu brugðist við hinni ólögmætu gengistryggingu með setningu laga nr. 151/2010 sem breytt hefðu lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Hafi í tilgreindum lögum verið kveðið á um að fyrningartími uppgjörskrafna vegna ólögmætrar verðtryggingar lánasamninga í formi gengistryggingar skyldi reiknast frá 16. júní 2010. Með lögum nr. 38/2014 hafi auk þess verið kveðið á um að fyrningarfrestur slíkra krafna skyldi vera átta ár frá umræddu tímamarki. Þá hafi með dómi Héraðsdóms Y x. mars 201x í máli nr. E-3xxxx/xxxx, verið komist að þeirri niðurstöðu að kröfur vegna endurútreiknings á grundvelli laga nr. 151/2010 hefðu fyrnst 16. júní 2018 og þar sem málið hefði verið höfðað eftir tilgreint tímamark hefði krafa stefnanda á viðkomandi grundvelli verið fyrnd.

Kærandi byggir á að kærði hafi dregið það úr öllu hófi að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að leita réttar kæranda vegna ofgreiðslu gengistryggðra lána. Þrátt fyrir að bréf hafi verið sent til D banka hf. með kröfu um endurútreikning lánanna hafi því ekki verið fylgt eftir auk þess sem aldrei hafi verið gerð nein krafa um endurgreiðslu tiltekinnar fjárhæðar þó slíkt hafi verið tilgangur málarekstursins. Enn fremur hafi kærði gert út um möguleika kæranda á að leita réttar síns eftir öðrum leiðum með því að afhenda ekki gögn málsins.

Vísað er til þess að sé tekið mið af fyrrgreindum héraðsdómi fáist ekki betur séð en að seinagangur kærða hafi leitt til þess að endurkrafa kæranda hafi fyrnst í meðförum hans á málinu. Þannig hafi þessi óhæfilegi seinagangur valdið kæranda alvarlegum réttarspjöllum. Enn fremur sé það ekki í samræmi við þau faglegu vinnubrögð sem verði að ætlast til af lögmönnum, að afhenda skjólstæðingi ekki margumbeðin gögn um mál hans.

Vísar kærandi um málatilbúnað sinn til 8., 12. og 16. gr. siðareglna lögmanna sem og til 18., 25. og 27. gr. laga nr. 77/1998.

III.

Skilja verður málatilbúnað kærða fyrir nefndinni með þeim hætti að aðilinn krefjist þess að kvörtun og kröfum kæranda samkvæmt 27. gr. laga nr. 77/1998 verði hafnað.

Kærði kveðst hafna með öllu athugasemdum kæranda á grundvelli þess að hann hafi unnið þá vinnu sem um hafi verið samið, að ekki hafi verið tekin ákvörðun um frekari vinnu og að kærandi hafa alla tíð haft undir höndum öll gögn málsins. Er því lýst að í kvörtun sé að finna rangfærslur og ósannindi.

Vísað er til þess í málatilbúnaði kærða að kærandi hafi leitað til hans með beiðni um skoðun á því hvort fyrir hendi væru hugsanleg kröfuréttindi á hendur viðskiptabanka kæranda á grundvelli endurútreiknings erlendra lána og ef svo væri hvort slík réttindi væru fyrnd. Hafi verið samið um í fyrstu að kærði myndi útbúa álitsgerð á því hver væri réttarstaða kæranda, sem gert hafi verið.

Á það er bent að nokkur tími hafi liðið frá gerð álitsgerðarinnar þar til kæranda hafi óskað eftir að kærði myndi taka málið til nánari skoðunar og gera kröfu á bankann í því sambandi. Vísar kærði til þess að nauðsynlegt hafi verið að láta endurútreikna lánið til að móta þá kröfu sem yrði beint að bankanum. Hafi af því tilefni verið óskað eftir gögnum frá kæranda en þau hafi ekki öll fengist. Hafi niðurstaðan orðið sú að kærandi væri ekki með öll gögn í tengslum við málið þrátt fyrir að hann hafi sjálfur farið þess á leit við bankann. Samkvæmt því hafi verið ákveðinn ómöguleiki á því að reikna kröfuna og setja fram kröfu á viðkomandi fjármálafyrirtæki.

Kærði vísar til þess að í álitsgerð hans og fulltrúa hans hafi verið tiltekið að verulegur vafi væri á því að grundvöllur væri fyrir kröfunni, þ.e. að í raun hafi verið um íslenskt lán að ræða en ekki erlent.

Vísað er til þess í málatilbúnaði kærða að í framhaldi þessa hafi málsaðilar gert með sér samkomulag, sbr. fyrirliggjandi umboð í málinu, þess efnis að kærði myndi setja upp kröfubréf og beina að bankanum og sjá hver viðbrögðin yrðu en síðan yrði metið í framhaldi hvort næsta skref yrði tekið í málinu ef synjun fengist við erindinu. Er á það bent að í umboðinu hafi verið sérstaklega tiltekið að um innheimtu væri að ræða á fyrsta stigi en ekki að reka málið fyrir dómstólum.

Kærði telur ljóst að við ritun umboðsins hafi legið fyrir á milli aðila að álitamál væri uppi um það hvort krafan væri fyrnd. Þá hafi kærði ekki haft fullnægjandi gögn undir höndum til að framkvæma endurútreikning lánsins og þar með ætlaða kröfu kæranda. Aðeins hafi verið um afrit af yfirlitum og greiðslukvittunum að ræða og því ekki um að ræða frumgögn af einhverju tagi. Kveðst kærði hafna því með öllu að hafa undir höndum frumrit af einhverju tagi og að hann hafi neitað að afhenda kæranda þau.

Vísað er til þess að í framhaldinu hafi kröfu verið beint að D banka hf. í tvígang, þ.e. af hálfu fulltrúa kærða annars vegar og kærða sjálfs hins vegar, auk símtala og tölvubréfasamskipta sem því hafi fylgt. Þar hafi komið á endanum í ljós að krafan hefði ekki verið framseld til D banka hf. eins og margar aðrar kröfur frá F hf. heldur hefði krafan orðið eftir í viðkomandi félagi sem þá hafði verið tekið til slitameðferðar. Í kjölfar þess hafi verið sent kröfubréf á viðkomandi félag sem ekki hafi fengist svar við. Er því lýst að kærandi hafi verið upplýstur um framgang málsins að þessu leyti og ennfremur um það mat kærða að erfitt yrði að sækja kröfuna. Þá hafi kærði upplýst kæranda um að næstu skref í málinu yrðu kostnaðarsöm og því yrði að útbúa nýtt umboð og endursemja ef fara ætti áfram með málið.

Því er lýst í málatilbúnaði kærða að þrátt fyrir framangreint hafi kærandi haldið áfram að senda bréf til kærða þar sem settar hafi verið fram kröfur um að kærði færi áfram með málið án þess að endursamið hafi verið um næstu skref í því. Kveðst kærði þá hafa verið búinn að upplýsa kæranda um að kröfunni hafi ekki verið svarað og að ekki væri um það að ræða að umboð fæli í sér frekari vinnu af hálfu kærða.

Samkvæmt því hafnar kærði því að hann hafi sýnt af sér vanrækslu í málinu enda hafi umboð verið takmarkað við takmarkaða vinnu þar sem kærandi hafi ekki verið tilbúinn að ráða kærða til að fara í málið á grundvelli gjaldskrár og tímavinnu. Þannig hafi einungis verið um takmarkaða vinnu að ræða af hálfu kærða í samræmi við það sem umsamið hafi verið. Sé ljóst að greiðsla að fjárhæð 100.000 krónur taki aðeins til vinnu lögmanns í nokkrar klukkustundir.

Kærði hafnar því jafnframt með öllu sem fram kemur í málatilbúnaði kæranda um að hann hafi ekki fengið afhent frumgögn í málinu. Telur kærði ljóst að öll gögn í málinu hafi verið afrit af hreyfingarlistum og greiðslukvittunum en ekki frumgögn af einhverju tagi. Þá hafi kærandi fengið afrit af kröfubréfi til D banka hf. með öllum fylgiskjölum. Samkvæmt því sé rangt að kærði hafi undir höndum frumrit gagna sem hamlað hafi á einhvern hátt kæranda til að leita til annars lögmanns.

Í málatilbúnaði kærða er því lýst að mótmælt sé lögskýringu kæranda á ætlaðri fyrningu undirliggjandi kröfu. Vísar kærði til þess að kærandi hafi verið upplýstur um það á fundum og í álitsgerð að krafan væri hugsanlega fyrnd. Verði kærandi sjálfur að bera ábyrgð á framgangi málsins og hvernig samning hann gerir við lögmann sem er falið að gera kröfu fyrir hans hönd. Fyrir liggi að kærandi hafi viljað spara sér pening og gert samning við kærða um takmarkaða vinnu. Geti kærandi hvorki þá né nú litið svo á að hann hafi samið og greitt lögmanni fyrir ótakmarkaða vinnu í málinu. Væri slíkt fráleitt í máli sem þessu enda umboð takmarkað við einfalda kröfugerð/innheimtu.

Kærði bendir á að ekkert í málinu sé sönnun fyrir þeim málatilbúnaði sem kærandi reisi kvörtun sína á. Þá sé ekkert í málinu sem sýni fram á tjón, fyrningu eða tap á kröfu af hálfu kæranda.

Vísað er til þess að kæranda hafi verið í lófa lagið að leita til annars lögmanns í tengslum við næsta skref í málinu, svo sem að stefna, en kærði hafi ekki verið tilbúinn til þess einungis á grundvelli hagsmunatengdrar þóknunar vegna þess hve litlar líkur hafi í reynd verið á því að ná kröfunni fram. Verði kærandi að bera hallann af því tómlæti. Þá bendir kærði á að vinnu kærða hafi lokið í janúar 2018, eða fyrir lengri tíma en ári síðan.

Niðurstaða

                                                                          I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

II.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/1998 ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Er slíkt enn fremur áréttað í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem tiltekið er að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi meginreglu 1. gr. siðareglnanna þar sem kveðið er á um að lögmanni beri að efla rétt og hrinda órétti og að hann skuli leggja svo til allra mála sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni, sem tekur að sér verkefni að reka það áfram með hæfilegum hraða. Skal hann tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist.

Kvörtun í málinu lýtur að því að kærði hafi dregið úr öllu hófi að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að leita réttar kæranda vegna ofgreiðslu gengistryggðra lána. Þrátt fyrir að bréf hafi verið sent til D banka hf. með kröfu um endurútreikning lána hafi því ekki verið fylgt eftir auk þess sem aldrei hafi verið gerð krafa um endurgreiðslu tiltekinnar fjárhæðar þótt slíkt hafi verið tilgangur málarekstursins. Þá hafi kærði gert út um möguleika kæranda á að leita réttar síns eftir öðrum leiðum með því að afhenda ekki gögn málsins.

Kærði kveðst hins vegar hafa tekið að sér afmarkaðan verkþátt í þágu kæranda sem hafi lotið að því að setja upp kröfubréf og beina að D banka hf. Hafi verið umsamið að vinna kærða í þágu kæranda væri takmörkuð við þann þátt en að fengnum svörum frá bankanum yrði framhaldið metið af hálfu málsaðila. Þar sem efnisleg svör hafi ekki borist frá bankanum og nauðsynleg gögn ekki fengist afhent hafi málið ekki farið lengra enda hafi kærandi ekki verið reiðubúinn að fá kærða í verkið á grundvelli gjaldskrár og tímavinnu. Þá hafi kærði ekki haft nokkur frumgögn undir höndum heldur einvörðungu afrit af yfirlitum og greiðslukvittunum. Auk þess hafi kærandi fengið afrit af öllum bréfum sem send hefðu verið af hálfu kærða og fulltrúa hans. Samkvæmt því fái það ekki staðist að kærði hafi undir höndum gögn er varði mál kæranda sem honum beri að afhenda eða að ætluð synjun um það efni hafi á einhvern hátt hamlað kæranda í að fá annan lögmann í málið.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er ágreiningslaust að kærði tók að sér að gæta hagsmuna kæranda vegna þess endurkröfumáls sem kærandi leitaði til hans með á haustmánuðum 2015. Fyrir liggur að umboð kæranda þar að lútandi til kærða og fulltrúa hans var undirritað þann 15. janúar 2016 en efni þess er nánar lýst í málsatvikalýsingu að framan. Áður hafði kærði unnið lögfræðilega álitsgerð fyrir kæranda, dags. 19. október 2015, þar sem meðal annars kom fram það mat aðilans að hugsanleg endurgreiðslukrafa kæranda vegna ætlaðrar ofgreiðslu samkvæmt lánasamningum væri ófyrnd en að álitamál væri hins vegar um það hvort viðkomandi samningar hefðu kveðið á um ólögmæta gengistryggingu. Yrði að leysa úr slíku álitamáli fyrir dómstólum. Að fengnu því áliti lýsti kærandi því gagnvart kærða að hans skilningur væri sá að gott færi væri að sækja á í málinu og að þess skyldi freistað að ná samningum og leysa málið án lögsóknar.

Ekki virðist ágreiningur um að kærði hafi sinnt máli kæranda frá þeim tíma og allt til ársins 2019 en tölvubréfasamskipti aðila frá 11. mars 2019, sem nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan, bera þess merki að kærði hafi þá enn annast hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna málsins. Málsgögn bera með sér að á því því tímabili sem réttarsamband aðila varði hafi kærði og lögmannsfulltrúi hans beint gagna- og upplýsingabeiðnum til G ehf. og D banka hf. í tölvubréfum dagana 27. og 28. apríl 2016 auk bréflegra krafna á hendur hinu síðargreinda fjármálafyrirtæki um endurútreikning viðkomandi lánasamninga, dags. 9. janúar 2017 og 4. janúar 2018. Leiddu tilgreindar gagnabeiðnir og kröfubréf hvorki til afhendingar umbeðinna gagna né endurútreiknings lánasamninga og voru því árangurslausar með öllu.

Um það kvörtunarefni kæranda að kærði hafi ekki sinnt málinu af alúð og rekið það áfram með hæfilegum hraða er þess að gæta að kærða mátti vera það ljóst við upphaf starfans að kærandi lagði mikla áherslu á að málið yrði unnið án ástæðulauss dráttar, þar á meðal að teknu tilliti til hugsanlegrar fyrningar krafna, og að slíkt varðaði aðilann miklu. Bera ítrekuð tölvubréf kæranda til kærða og fulltrúa hans jafnframt með sér að aðilinn hafi lagt ríkt traust á að kærði, sem lögmaður, sinnti málinu af alúð þannig að hagsmuna hans yrði gætt í hvívetna og að réttarspjöll hlytust ekki af.

Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir kæranda til kærða um framgang og stöðu mála frá upphafi til loka réttarsambands aðila mun lítið sem ekkert hafa þokast áfram í rekstri málsins í júnímánuði 2019 þegar kærandi beindi þeirri kvörtun sem mál þetta varðar til nefndarinnar vegna starfshátta kærða. Ekki verður framhjá því litið að erfiðlega reyndist að afla gagna til að færa stoð undir tölulega kröfugerð hinnar ætluðu endurgreiðslurkröfu kæranda en aðilinn var upplýstur um það efni í tölvubréfi hinn 14. október 2016 þar sem jafnframt kom fram það mat kærða og fulltrúa hans að málsgrundvöllurinn væri ekki nægilega sterkur vegna skorts á gögnum.

Þrátt fyrir þau samskipti í októbermánuði 2016 liggur fyrir að kærði annaðist áfram hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna málsins, líkt og áður er rakið. Þá hreyfði kærði því fyrst gagnvart kæranda að hagsmunagæsla hans væri takmörkuð við afmarkaða upphafsþætti málsins í tölvubréfi þann 11. mars 2019, þ.e. eftir að kærandi hafði upplýst kærða um að hann kynni að leggja fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun vegna starfshátta kærða í málinu. Að mati nefndarinnar er hvorki unnt að finna stoð fyrir slíkri takmörkun varðandi hagsmunagæslu kærða í þágu kæranda í málinu, sem málatilbúnaður kærða er reistur á, í umboði því sem kærandi veitti kærða þann 15. janúar 2016 né öðrum málsgögnum fyrir nefndinni. Þá getur engu breytt í því samhengi að mati nefndarinnar þótt samið hafi verið um árangurstengda lögmannsþóknun vegna málsins en samkvæmt tilgreindu umboði skyldi hún nema 25% af innheimtum kröfum með virðisaukaskatti. Fyrir liggur að kærði tók sem lögmaður að sér hagsmunagæslu í þágu kæranda og hvíldu samkvæmt því þær skyldur sem kveðið er á um í lögum nr. 77/1998 og siðareglum lögmanna á herðum kærða við rekstur starfans.

Sú skylda hvílir á lögmönnum að neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Gögn málsins bera með sér að kærði hafi lítið aðhafst í um þrjú ár til að koma málinu í réttan farveg og með því neyta lögmætra úrræða til að gæta hagsmuna kæranda, sem skjólstæðings síns. Þannig leitaðist kærði hvorki eftir því  með þeim leiðum sem lög bjóða að afla nauðsynlegra gagna til að undirbyggja hina ætluðu endurkröfu kæranda né fylgdi hann eftir þeim takmörkuðu gagna- og upplýsingabeiðnum og kröfubréfum sem þó voru send á tímabilinu til viðkomandi fjármálafyrirtækja, sem fyrr greinir. Hefur kærði ekki veitt viðhlítandi skýringar á aðgerðaleysi sínu að þessu leyti fyrir nefndinni. Þá liggur fyrir að kærði sagði sig hvorki frá málinu né upplýsti kæranda um að ekki yrði að frekari aðkomu hans að málinu að ræða í ljósi hinna árangurslausu gagna- og upplýsingabeiðna sem beint var til viðkomandi fjármálafyrirtækja.

Að áliti nefndarinnar var vanræksla kærða að þessu leyti í andstöðu við 18. gr. laga nr. 77/1998 sem og 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 12. gr. siðareglna lögmanna. Að mati nefndarinnar verður hins vegar ekki slegið föstu að háttsemi kærða að þessu leyti hafi valdið kæranda réttarspjöllum. Er þá til þess að líta að kærandi greiddi upp kröfur samkvæmt viðkomandi lánasamningum í janúarmánuði 2008. Samkvæmt því gátu lög nr. 151/2010 og 38/2014, sem leiddu meðal annars til breytinga á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu varðandi fyrningu krafna, ekki tekið til lögskipta sem lokið var fyrir setningu laganna, sbr. dóm Hæstaréttar 19. september 2013 í máli nr. 499/2013. Með vísan til þess sem og með hliðsjón af því að umboð kæranda til kærða var fyrst veitt þann 15. Janúar 2016 og atvikum öllum að öðru leyti verður látið við það sitja að veita kærða aðfinnslu vegna háttsemi hans að þessu leyti gagnvart kæranda.

Af málsgögnum verður ekki ráðið að kærði hafi neitað að afhenda kæranda málsgögn eftir lok réttarsambands aðila. Gegn neitun kærða um það efni og með hliðsjón af málatilbúnaði aðilans um að hann hafi engin frumgögn undir höndum heldur einungis afrit af yfirlitum og greiðslukvittunum sem kærandi hafi látið honum í té, verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á í málinu að kærði hafi að þessu leyti gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn 16. gr. siðareglna lögmanna.

Á grundvelli valdsviðs nefndarinnar, eins og það er afmarkað í V. kafla laga nr. 77/1998 um lögmenn, eru ekki efni til að taka til skoðunar kröfu kæranda um að nefndin taki afstöðu til þess hvort kærða beri að afhenda kæranda öll málsgögn og láti í ljós leiðsögn um hvernig hægt sé að knýja á um afhendingu þeirra. Þegar af þeirri ástæðu er tilgreindri kröfu kæranda vísað frá nefndinni.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B lögmaður, sætir aðfinnslu fyrir að hafa í starfi sínu gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 12. gr. siðareglna lögmanna.

Kröfu kæranda, A, um að nefndin taki afstöðu til þess hvort kærða, B lögmanni, beri að afhenda kæranda öll málsgögn og láti í ljós leiðsögn um hvernig hægt sé að knýja á um slíka gagnaafhendingu, er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr lögmaður, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Kristinn Bjarnason lögmaður

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson