Mál 18 2019

Mál 18/2019

Ár 2020, þriðjudaginn 10. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 18/2019:

A,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 2. september 2019 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna. C lögmaður fer með málið fyrir hönd kæranda fyrir nefndinni.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfum, dags. 3. september og 1. október 2019. Greinargerð kærða barst til nefndarinnar þann 9. október 2019 og var hún send kæranda til athugasemda með bréfi dags. 11. sama mánaðar. Viðbótarathugasemdir kæranda vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 25. nóvember 2019 og voru þær sendar til kærða með bréfi næsta dag. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Með úrskurði Héraðsdóms x. júní 201x í máli Z-x/201x var dómkröfum kæranda á hendur umbjóðanda kærða vísað frá dómi auk þess sem kæranda var gert að greiða gagnaðila sínum 200.000 krónur í málskostnað. Var sá úrskurður staðfestur með úrskurði Landsréttar x. ágúst 201x í máli nr. x/201x auk þess sem kæranda var gert að greiða umbjóðanda kærða 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Af málatilbúnaði aðila verður ráðið að kærði hafi beint áskorun til kæranda um greiðslu málskostnaðarins, að fjárhæð 550.000 krónur, þann x. ágúst 201x. Þá liggur fyrir að kærði sendi innheimtubréf vegna kröfunnar til lögmanns kæranda þann x. september 201x. Var krafan þar tilgreind að fjárhæð 688.466 krónur, sbr. eftirfarandi sundurliðun:

            „Höfuðstóll:                            kr. 550.000    

            Dráttarvextir frá 24.8.18:      kr. 1.833

            Innheimtuþóknun:                  kr. 110.188

            Virðisaukaskattur:                  kr. 26.445

            Samtals:                                  kr. 688.466

Þá var í innheimtubréfinu vísað til nánar tilgreindra greiðsluupplýsinga auk þess sem tekið var fram að fjárnámsbeiðni yrði send til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sjö dögum eftir dagsetningu bréfsins til tryggingar á kröfunni.

Lögmaður kæranda svaraði erindi kærða með tölvubréfi, dags. 7. september 201x. Var þar tekið fram að sótt hefði verið um leyfi til þess að kæra úrskurð Landsréttar í málinu nr. x/201x til Hæstaréttar jafnframt því sem lögð hefði verið fram kæra til Hæstaréttar, en tilgreind gögn munu hafa verið fylgiskjöl með tölvubréfinu. Kvaðst lögmaður kæranda jafnframt aldrei hafa séð slíkt innheimtubréf fyrr, þ.e. að gerð hafi verið krafa um innheimtulaun á málskostnað og það innan aðfararfrests. Skoraði lögmaður kæranda á kærða að falla frá innheimtulaunum á málskostnaðinn en að öðrum kosti þyrfti að gera ráð fyrir að málið yrði borið undir úrskurðarnefnd lögmanna.

Í svari kærða til lögmanns kæranda þennan sama dag, x. september 201x, var því lýst að þar sem stefndi í að úrskurðaður málskostnaður yrði ekki gerður upp væri ekki annað í stöðunni en að senda fjárnámsbeiðni í lok mánudagsins á eftir. Var tiltekið að þá myndi bætast við kröfuna kostnaður við gerð fjárnámsbeiðni, að fjárhæð 40.000 krónur auk virðisaukaskatts, og kostnaður við mætingu í fyrirtöku fjárnáms, að fjárhæð 40.000 krónur auk virðisaukaskatts. Kvaðst kærði jafnframt að hann myndi mótmæla öllum frestbeiðnum sem kynnu að koma frá kæranda við rekstur aðfararmálsins. Þá væri ekki orðið við ósk lögmanns kæranda um að falla frá innheimtulaunum. Vísaði kærði um það efni til þess að áfallin innheimtuþóknun væri í fullu samræmi við innheimtulög nr. 95/2008 þar sem send hafi verið innheimtuviðvörun. Auk þess væru engin tengsl á milli álagningar innheimtuþóknunar og aðfararfresta.

Fyrir liggur að með aðfararbeiðni kærða fyrir hönd síns umbjóðanda, dags. x. september 201x en mótekinni af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu þann x. sama mánaðar, var þess krafist að gert yrði fjárnám hjá kæranda, sem gerðarþola, til tryggingar á hinum úrskurðaða málskostnaði sem áður greinir. Var krafan þar tilgreind að heildarfjárhæð 796.993 krónur en auk höfuðstóls og dráttarvaxta var gerð krafa um innheimtuþóknun og virðisaukaskatt að fjárhæð 155.958 krónur, 40.000 króna fyrir ritun fjárnámsbeiðni auk sömu fjárhæðar vegna kostnaðar vegna fjárnáms. Þá var gerð krafa um aðfarargjald í ríkissjóð að fjárhæð 7.891 krónu.

Með bréfi lögmanns kæranda til Hæstaréttar, dags. x. september 201x, var tilkynnt um afturköllun kæranda á umsókn um kæruleyfi og að fallið væri frá kæru til Hæstaréttar vegna fyrrgreinds úrskurðar Landsréttar í máli nr. x/201x. Þann sama dag sendi lögmaður kæranda tölvubréf til kærða, sem fullnustudeild sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu fékk jafnframt afrit af, þar sem tilkynnt var um fyrrgreinda afturköllun auk þess sem því var lýst að krafa samkvæmt úrskurðuðum málskostnaði auk dráttarvaxta, alls 554.950 krónur, hefði verið greidd inn á vörslufjárreikning kærða. Þá var tiltekið að um væri að ræða fullnaðargreiðslu á umræddum kostnaði sem hefði ekki verið gjaldkræfur fyrr en þennan sama dag. Samkvæmt því væri þess að vænta að kærði myndi falla frá boðuðum fjárnámsaðgerðum.

Kærði staðfesti í tölvubréfi til lögmanns kæranda þennan sama dag, 20. september 2018, að hann hefði móttekið innborgun inn á kröfuna. Tiltók kærði hins vegar að einhver misskilningur væri á ferðinni varðandi fjárhæð þeirrar kröfu sem krafist væri fjárnáms vegna. Þannig hefði innheimtukostnaður bæst við höfuðstól og dráttarvexti í samræmi við gjaldskrá lögmannsstofu kærða. Beiðni um kæruleyfi hefði engu breytt í því efni auk þess sem heimilt hafi verið að senda inn fjárnámsbeiðni hvort sem til frestunar fjárnáms hefði komið eða ekki. Samkvæmt því yrði fjárnámsbeiðnin ekki afturkölluð.

Meðal málsgagna fyrir nefndinni eru jafnframt ítarleg tölvubréfasamskipti lögmanns kæranda og kærða frá 21. september til 5. október 2018, en starfsmenn á fullnustusviði fyrrgreinds sýslumannsembættis fengu jafnframt send afrit þeirra samskipta. Lýstu lögmennirnir í þeim samskiptum sjónarmiðum umbjóðenda sinna varðandi lögmæti aðfararbeiðninnar.

Með tölvubréfi D, lögfræðings á fullnustusviði sýslumanns, til lögmanns kæranda og kærða hinn síðastgreinda dag var staðfest móttaka á fyrri erindum. Var þar jafnframt tiltekið að mótmæli skyldu að jafnaði koma fram við fyrirtöku máls og að ekki væri hægt að taka afstöðu til þeirra fyrr, sbr. 27. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Þá hafi aðfararbeiðni staðist upphafsskoðun hjá embættinu og að af þeim sökum hafi verið boðað til fyrirtöku. Samkvæmt því yrði tekin afstaða til framkominna mótmæla í hinni boðuðu fyrirtöku málsins.

Hin umþrætta aðfararbeiðni var tekin fyrir hjá sýslumanni þann x. október 201x en kærði mætti þar fyrir hönd gerðarbeiðanda en lögmaður kæranda fyrir hönd hins síðargreinda, sem gerðarþola. Í fyrirtökunni voru bókuð mótmæli kæranda sem byggðu meðal annars á því að krafan væri greidd, að innheimtuþóknun hefði verið lögð á aðfararbeiðni og að aðfararbeiðni hefði verið komin fram of snemma. Samkvæmt því væri aðfararbeiðnin reist á röngum grundvelli og þess krafist af hálfu kæranda að gerðin yrði stöðvuð. Kærði hafnaði hins vegar hinum framkomnu mótmælum fyrir hönd gerðarbeiðanda og krafðist þess að gerðinni yrði fram haldið.

Samkvæmt endurriti úr gerðarbók lýsti fulltrúi sýslumanns í fyrirtökunni þeirri afstöðu að hann teldi óvíst að gerðarbeiðandi ætti þau réttindi sem hann krefðist fullnægt. Samkvæmt því væri fallist á mótmæli kæranda, sem gerðarþola, og tekin sú ákvörðun að stöðva gerðina, sbr. 27. gr. laga nr. 90/1989. Var í framhaldi af því bókað í gerðarbók að kærði lýsti því yfir að hann myndi krefjast úrlausnar héraðsdóms um ákvörðun sýslumanns.

Upplýst hefur verið fyrir nefndinni að til frekari málareksturs hafi ekki komið vegna ákvörðunar sýslumanns í fyrirtökunni hinn x. október 201x.

Líkt og áður greinir beindi kærandi kvörtun í máli þessu til nefndarinnar þann 2. september 2019.

II.

Kærandi krefst þess fyrir nefndinni að úrskurðað verði um lögmæti hinna umþrættu vinnubragða kærða og að hann verði beittur, eftir atvikum, þeim viðurlögum sem nefndin telur hæfa. Þá krefst kærandi jafnframt málskostnaðar úr hendi kærða vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Í kvörtun kæranda er því lýst að henni sé beint að ólögmætri og tilefnislausri aðfararbeiðni kærða, dags. x. september 201x, sem þó hafi ekki verið birt kæranda fyrr en þann x. október 201x. Jafnframt því sé kvörtuninni beint að ólögmætum innheimtuaðgerðum kærða, þar á meðal fyrir að hafa krafist ólögmætra og tilefnislausra kostnaðarliða. Er á það bent að aðfararbeiðnin hafi verið tekin fyrir hjá sýslumanninum þann x. október 201x þrátt fyrir andmæli kæranda. Hafi sýslumannsembættið þar synjað beiðni kærða um aðför eða fjárnám. Þá hafi kærði ekki vísað þeirri ákvörðun embættisins til héraðsdóms líkt og boðað hafi verið í fyrirtökunni hinn x. október 201x.

Um nánari atvik vísar kærandi til þess að kærandi og umbjóðandi kærða hafi átt í málaferlum á árinu 2018. Með úrskurði Héraðsdóms x. júní 201x í máli nr. Z-x/201x hafi kæranda verið gert að greiða umbjóðanda kærða 200.000 krónur í málskostnað. Hafi Landsréttur staðfest þann úrskurð þann x. ágúst 201x í máli nr. x/201x auk þess sem kæranda hafi þar verið gert að gert að greiða umbjóðanda kærða 350.000 krónur í kærumálskostnað. Samkvæmt því hafi skuld kæranda við umbjóðanda kærða verið 550.000 krónur.

Vísað er til þess að kærandi hafi ekki viljað una fyrrgreindum úrskurði Landsréttar og hafi því verið sótt um kæruleyfi til Hæstaréttar auk þess sem lögð hafi verið fram kæra til Hæstaréttar. Er á það bent að kærða hafi verið tilkynnt um það efni þann x. september 201x. Þrátt fyrir það hafi kærði lagt fram aðfararbeiðni, dags. x. september 201x, sem birt hafi verið kæranda þann x. október sama ár. Þá hafi kærandi fallið frá beiðni um kæruleyfi til Hæstaréttar þann x. september 201x þar sem ekki hafi þjónað lengur tilgangi fyrir hann að fá úrskurði héraðsdóms og Landsréttar ómerkta. Þann sama dag, x. september 201x, hafi kærandi greitt hinn úrskurðaða málskostnað ásamt dráttarvöxtum, samtals 554.950 krónur, inn á reikning kærða.

Kærandi vísar til þess að hann hafi eðlilega talið að þessum þætti málaferlanna væri lokið með greiðslunni. Svo hafi ekki reynst vera. Hafi kærði þannig neitað að afturkalla fjárnámsbeiðnina og boðað fjárnám til tryggingar ólögmætum kostnaðarliðum, þ.e. innheimtulaunum að fjárhæð 110.311 krónur, fjárnámsbeiðni að fjárhæð 40.000 krónur og kostnaði vegna fjárnáms 40.000 krónur eða samtals 190.311 krónur án virðisaukaskatts. Byggir kærandi á að kærði hafi smurt hinum ólögmætu kostnaðarliðum á úrskurðaðan málskostnað, jafnvel áður en aðfararfrestur hafi verið liðinn. Þá er á því byggt að hin umþrætta gjaldtaka og innheimtuaðgerðir kærða hafi verið andstæðar lögum og góðum lögmannsháttum samkvæmt lögum nr. 77/1998, siðareglum lögmanna, sbr. einkum I. og V. kafla þeirra, sem og góðum innheimtuháttum samkvæmt innheimtulögum nr. 95/2008, sbr. til dæmis 6. gr. laganna, og þá ekki síst þar sem að engin aðfararheimild hafi verið fyrir hinum ólögmætu kröfum.

Í samræmi við framangreint lýtur kvörtun kæranda að ólögmætum innheimtuaðgerðum kærða sem hafi auk þess verið algerlega tilefnislausar. Þá hafi ekki aðeins verið krafist aðfarar áður en aðfararfrestur var liðinn, sbr. meðal annars 2. mgr. 168. gr. laga nr. 91/1991, heldur hafi kærði einnig á þeim tíma smurt á úrskurðaðan málskostnað ólögmætum kostnaðarliðum, í þessu tilviki 190.311 krónur án virðisaukaskatts.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er vísað til þess að nefndin þurfi í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort lögmanni sé heimilt að leggja „innheimtulaun“ á dæmdan málskostnað. Vísar kærandi til þess að engin heimild sé til slíks í 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í öðru lagi vísar kærandi til þess að taka þurfi afstöðu til þess hvort slík „innheimtulaun“ séu aðfararhæf á grundvelli dóms eða úrskurðar, þar sem eingöngu hafi verið kveðið á um málskostnað. Í þriðja lagi þurfi nefndin að svara því hvort lögmanni sé heimilt að krefja dóm- eða úrskurðarþola um dæmdan málskostnað í aðfararfresti og að lokum, ef slíkt er heimilt, hvort krafa að fjárhæð 190.311 krónur fyrir ritun tveggja tölvubréfa kærða sé „hæfilegt endurgjald“ í skilningi 24. gr. laga nr. 77/1998.

Kærandi vekur athygli á að hann hafi greitt málskostnaðinn þann 20. september 2018 auk dráttarvaxta samkvæmt 4. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991. Er á því byggt að hagsmunir dóm- og úrskurðarhafa séu að fullu tryggðir með tilgreindu ákvæði.

Samkvæmt því byggir kærandi á að kærði hafi með framferði sínum og hinum ólögmætu innheimtuaðgerðum, jafnvel í aðfararfresti, brotið gróflega og með ósvífnum hætti gegn siðareglum lögmanna og réttindum og skyldum lögmanna samkvæmt lögum nr. 77/1998. Vísar kærandi til þess að vilji dóm- eða úrskurðarþoli íhuga að skjóta dómi eða úrskurði til æðra dóms, hvort heldur með kæru eða áfrýjun, eigi hann skilyrðislausan rétt á að fá frið til þess að athuga og fara yfir þann möguleika með lögmanni sínum í aðfararfresti. Til þess sé fresturinn. Sé ákveðið að leggja fram slíka kæru eða áfrýjun eigi frekari innheimtuaðgerðir að stöðvast.

Að endingu vísar kærandi til þess að lögmaður hans hafi upplýst kærða um að málskostnaðurinn yrði gerður upp, ef til kæmi, jafnskjótt og málinu lyki fyrir dómstólum. Við það hafi verið staðið þar sem úrskurðaður málskostnaður hafi verið greiddur með áföllnum dráttarvöxtum til greiðsludags sama dag og málinu hafi lokið fyrir dómstólum, þ.e. þann x. september 201x. Engu að síður hafi kærði haldið áfram hinum ólögmætu innheimtuaðgerðum og smurt á ólögmætum kostnaðarliðum, bæði í aðfararfresti sem og eftir greiðslu kröfunnar.

III.

Kærði krefst þess í málinu að kröfum kæranda verði hafnað. Þá krefst kærði málskostnaðar úr hendi kæranda vegna meðferðar málsins fyrir nefndinni.

Kærði byggir á því að kvörtunin taki ekki til háttsemi sem sé í andstöðu við góða lögmannshætti. Bendir kærði á að hann hafi fyrir hönd síns umbjóðanda skorað á kæranda að gera upp úrskurðaðan málskostnað og þegar því hafi ekki verið sinnt sent innheimtubréf á lögmann kæranda. Í kjölfar þess hafi hann sent fjárnámsbeiðni til sýslumanns. Lýsir kærði því að það sé misskilningur hjá kæranda að beiðni um kæruleyfi til Hæstaréttar leiði til þess að dráttarvextir og innheimtukostnaður bætist ekki við kröfu. Hafi ekkert verið því til fyrirstöðu að kostnaður og vextir bættust við kröfu umbjóðanda kærða. Auk þess hafi beiðni kæranda um kæruleyfi til Hæstaréttar verið með öllu haldlaus enda lokasala þegar ákveðin og engar lagalegar forsendur til að fresta henni.

Kærði byggir á að það sé misskilningur hjá kæranda að ekki megi senda aðfararbeiðni til sýslumanns fyrr en krafa sé orðin aðfararhæf. Það sé alþekkt að lögmenn sendi kröfur til sýslumanns áður en til þess kemur, með það að augnamiði að krafa sé orðin aðfararhæf þegar sýslumaður tekur hana fyrir. Það sem skipti máli er hvort krafa sé orðin aðfararhæf þegar sýslumaður tekur aðfararbeiðni fyrir.

Kærði bendir á að sýslumaður hafi metið það sem svo við fyrirtöku málsins að óvíst væri hvort gerðarbeiðandi, þ.e. umbjóðandi kærða, ætti þau réttindi sem krafa var gerð um að fullnægt yrði. Hafi gerðin því verið stöðvuð. Við það tilefni hafi verið bókað eftir kærða að þeirri ákvörðun yrði skotið til héraðsdóms, enda hafi kærði verið ósammála ákvörðuninni. Kærði kveðst hins vegar hafa fallið frá þeim áformum eftir að hafa farið yfir málið með umbjóðandanum. Þá fáist ekki séð að kærða hafi borið að tilkynna það sérstaklega.

Niðurstaða

                                                                          I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

II.

Líkt og nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan var kæranda gert, með úrskurði Landsréttar x. ágúst 201x í máli nr. x/201x, að greiða umbjóðanda kærða alls 550.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað. Þremur dögum síðar beindi kærði áskorun til kæranda um greiðslu málskostnaðarins og fylgdi þeirri áskorun eftir með innheimtubréfi þann x. september 201x þar sem jafnframt var gerð krafa um innheimtuþóknun að fjárhæð 136.633 krónur með virðisaukaskatti. Þá liggur fyrir að kærði beindi aðfararbeiðni fyrir hönd síns umbjóðanda vegna kröfunnar til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hún var móttekin þann x. september 201x, þar sem þess var krafist að gert yrði fjárnám hjá kæranda að heildarfjárhæð 796.993 krónur en auk höfuðstóls og dráttarvaxta var gerð krafa um innheimtuþóknun og virðisaukaskatt að fjárhæð 155.958 krónur, 40.000 króna fyrir ritun fjárnámsbeiðni auk sömu fjárhæðar vegna kostnaðar vegna fjárnáms. Þá var gerð krafa um aðfarargjald í ríkissjóð að fjárhæð 7.891 krónu.

Málatilbúnaður kæranda fyrir nefndinni er reistur á því að umrædd gjaldtaka og innheimtuaðgerðir kærða hafi verið andstæðar lögum og góðum lögmannsháttum samkvæmt lögum nr. 77/1998, siðareglum lögmanna, sbr. einkum I. og V. kafla þeirra, sem og góðum innheimtuháttum samkvæmt innheimtulögum nr. 95/2008, sbr. til dæmis 6. gr. laganna.

Að mati nefndarinnar verður annars vegar í málinu að taka til skoðunar þá innheimtuhætti kærða sem lutu að gerð og sendingu fyrrgreinds innheimtubréfs til kæranda, dags. 3. september 2018, en í því var vísað til þess að áður, eða með bréfi þann 27. ágúst sama ár, hefði verið skorað á kæranda að gera upp fyrrgreindan málskostnað og að líta bæri á það bréf „sem innheimtuviðvörun“. Var slíkt aukinheldur áréttað í tölvubréfi kærða til lögmanns kæranda þann 7. september 2018, þar sem fram kom að áfallin innheimtuþóknun samkvæmt fyrrgreindu innheimtubréfi hefði verið í samræmi við innheimtulög þar sem send hefði verið innheimtuviðvörun.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður að áliti nefndarinnar að telja að kærði hafi viðhaft tilgreindar innheimtuaðgerðir, í þágu umbjóðanda síns, sem lið í ætlaðri frum- og milliinnheimtu gagnvart kæranda vegna þess málskostnaðar sem úrskurður Landsréttar í máli nr. x/201x tók til. Féllu þær innheimtuaðgerðir undir gildissvið innheimtulaga nr. 95/2008 enda ekki um að ræða löginnheimtu, þ.e. innheimtumeðferð á grundvelli réttarfarslaga, sbr. 1. og 2. mgr. 1. gr. laganna. Verður jafnframt óvírætt ráðið af málsgögnum að kærði hafi talið svo vera varðandi áðurgreinda áskorun hans til kæranda um greiðslu, dags. x. ágúst 201x, og innheimtubréf það sem hann beindi til kæranda og lögmanns hans í framhaldinu þann x. september sama ár.

Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. innheimtulaga nr. 95/2008, eins og hún hljóðar eftir gildistöku breytingarlaga nr. 55/2018 þann 22. júní 2018, fer Lögmannafélag Íslands með eftirlit samkvæmt lögunum og lögum um lögmenn gagnvart lögmönnum, lögmannsstofum og lögaðilum í eigu lögmanna eða lögmannsstofa. Í frumvarpi því er varð að breytingarlögum nr. 55/2018 var eftirfarandi tiltekið við 4. gr. frumvarpsins vegna breytinga á 2. mgr. 15. gr. laganna:

Lögð er til breyting á 2. mgr. 15. gr. laganna en í greininni kemur nú fram að gagnvart lögmönnum fari úrskurðarnefnd lögmanna með eftirlit samkvæmt innheimtulögum og lögum um lögmenn. Lagt er til að vísað verði til Lögmannafélagsins en ekki úrskurðarnefndarinnar enda fer Lögmannafélagið með almennt eftirlit með innheimtustarfsemi lögmanna en úrskurðarnefnd lögmanna, sem starfar á grundvelli V. kafla laga um lögmenn, nr. 77/1998, tekur til meðferðar ágreiningsmál sem vísað er til hennar. Þannig mun nefndin áfram geta tekið við málum sem varða kvartanir vegna starfa lögmanna á grundvelli innheimtulaga og hefur úrræði til að áminna lögmann, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga um lögmenn, og leggja til við sýslumann að hann verði sviptur lögmannsréttindum, sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna. Um úrræði og eftirlit Lögmannafélagsins er almennt fjallað í 13. gr. laga um lögmenn. 

Í samræmi við efni 2. mgr. 15. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 og áðurgreindra lögskýringargagna verður að telja að kvörtun kæranda að því leyti sem hér ræðir og vegna ætlaðra brota kærða gegn 6. gr. laganna sé réttilega beint að nefndinni. Eigi viðkomandi innheimtustörf því undir nefndina samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2008 og geti samkvæmt því komið til álita að nefndin beiti þeim heimildum sem henni eru faldar í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 vegna kvörtunarinnar, en kærði ber sem lögmaður ábyrgð á viðkomandi innheimtustörfum.

Í 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 er kveðið á um góða innheimtuhætti. Þar segir í 1. mgr. að innheimta skuli vera í samræmi við góða innheimtuhætti. Þá segir í 2. mgr. að það teljist meðal annars brjóta í bága við góða innheimtuhætti að beita óhæfilegum þrýstingi eða valda óþarfa tjóni eða óþægindum. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að framangreindum lögum var meðal annars tiltekið að gæti þyrfti góðra innheimtuhátta við sérhverja ráðstöfun eða athöfn sem væri þáttur í innheimtu. Þá gilti sú regla í skiptum innheimtuaðila og skuldara að innheimtuaðili ætti ekki að gefa skuldara rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða réttarreglur sem mikilvægar væru fyrir afstöðu hans til kröfunnar.

Um það innheimtubréf sem kærði beindi til kæranda þann 3. september 2018 og ætluð brot kærða gegn 6. gr. laga nr. 95/2008, er til þess að líta að það tók meðal annars til kærumálskostnaðar sem úrskurðaður hafði verið 10 dögum fyrr, sbr. úrskurð Landsréttar x. ágúst 201x í máli nr. x/201x. Samkvæmt 4. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber málskostnaður, sem er dæmdur aðila úr hendi gagnaðila hans, dráttarvexti frá fimmtánda degi eftir uppkvaðningu dóms eða úrskurðar og til greiðsludags. Með hliðsjón af því, og þar sem dráttarvextir leggjast alla jafna ekki á kröfu fyrr en gjalddagi eða annar efndadagur hennar er kominn, verður að telja að krafa samkvæmt hinum úrskurðaða kærumálskostnaði hafi ekki verið gjaldfallin, eða hún í öllu falli ekki í vanskilum, er kærði beindi fyrrgreindu innheimtubréfi til kæranda og að því hafi ekki verið skilyrði til að hefja innheimtu vegna þeirrar kröfu, sbr. 1. mgr. 1. gr. innheimtulaga nr. 95/2008.

Auk þess verður að mati nefndarinnar ekki fundin nokkur stoð fyrir þeirri kröfu um innheimtuþóknun sem kærði hafði uppi gagnvart kæranda í fyrrgreindu innheimtubréfi, þ.e. hvorki í lögum nr. 77/1998, innheimtulögum nr. 95/2008, afleiddum stjórnvaldsfyrirmælum  né öðrum réttarheimildum. Er þess sérstaklega að gæta um það efni að umbjóðanda kærða var úrskurðaður málskostnaður úr hendi kæranda vegna þess málareksturs sem lyktaði með úrskurði Landsréttar x. ágúst 201x í máli nr. x/2018. Var sú krafa aðfararhæf að liðnum aðfararfresti, sbr. 1. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Samkvæmt því gat umbjóðandi kærða leitað fullnustu kröfunnar, við greiðslufall hennar, eftir þeim leiðum sem lög nr. 90/1989 buðu. Stóðu hins vegar engar heimildir til þess að kærði gæti áskilið umbjóðanda sínum slíkan innheimtukostnað úr hendi kæranda sem gert var í innheimtubréfinu þann 3. september 2018. Aukinheldur var fjárhæð hinnar umþrættu innheimtuþóknunar, 136.633 krónur með virðisaukaskatti, í engu samræmi við heimildir í innheimtulögum nr. 95/2008 og reglugerð nr. 37/2009 um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl. og var raunar langt umfram þau mörk sem þar er kveðið á um.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður að leggja til grundvallar að ekki hafi verið skilyrði til að hefja innheimtu viðkomandi kröfu þann 3. september 2018, er kærði beindi hinu umþrætta innheimtubréfi til kæranda, auk þess sem hvorki hafi verið að finna lög- né samningsbundna stoð fyrir innheimtuþóknun þeirri sem krafist var né fjárhæð hennar. Þegar af þeirri ástæðu verður að áliti nefndarinnar að telja að háttsemi kærða, sem fólst í gerð og sendingu innheimtubréfsins til kæranda, hafi farið í bága við góða innheimtuhætti gagnvart kæranda, sbr. 6. gr. laga nr. 95/2008. Verður þá til þess að líta að gera verður þá kröfu til lögmanna, sem innheimta slík kröfuréttindi, að þeir hafi áður gengið úr skugga um að gjalddagi eða annar efndadagur krafna sé kominn, eða að krafa sé að öðru leyti í vanskilum, þannig að skilyrði séu til að hefja slíkar innheimtuaðgerðir. Þá verði lögmenn að haga kröfugerð um innheimtukostnað í frum- og milliinnheimtu, líkt og kærði reisti hina umþrættu innheimtu að þessu leyti á, í samræmi við heimildir innheimtulaga nr. 95/2008 og fyrrgreindrar reglugerðar nr. 37/2009. Varð misbrestur á þessu í innheimtuaðgerðum kærða gagnvart kæranda, líkt og áður er rakið, og voru þær til þess fallnar að valda kæranda óþægindum. Fór háttsemi kærða að þessu leyti því gegn góðum innheimtuháttum og telst hún aðfinnsluverð að mati nefndarinnar.

Hins vegar hefur kærandi krafist þess, á grundvelli sömu heimilda og áður er lýst, að nefndin taki afstöðu til innheimtuhátta kærða vegna aðfararbeiðni hins síðargreinda, dags. x. september 201x. Hefur kærandi meðal annars um það efni vísað til þess að kærði hafi sent þá aðfararbeiðni til sýslumanns innan aðfararfrests og þrátt fyrir vitneskju um að lögmaður kæranda hafði þá þegar sótt um kæruleyfi fyrir hans hönd til Hæstaréttar vegna úrskurðar Landsréttar x. ágúst 201x í máli nr. x/201x og lagt fram kæru til Hæstaréttar. Þá hafi kærði ekki afturkallað aðfararbeiðnina þrátt fyrir greiðslu kæranda á málskostnaðinum, sem aðfararbeiðnin tók til, auk dráttarvaxta þann x. september 201x.

Að mati nefndarinnar verður ekki talið að kærði hafi gert á hlut kæranda, í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, vegna þeirra atvika sem hér um ræðir.

Er þá í fyrsta lagi til þess að líta að í 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 90/1989 um aðför er tiltekið að aðför megi gera eftir dómi eða úrskurði, þegar liðnir eru fimmtán dagar frá uppkvaðningu hans, ef annar aðfararfrestur er ekki tiltekinn. Fyrir liggur að aðfararbeiðni kærða, í þágu umbjóðanda aðilans, var beint til viðkomandi sýslumannsembættis þann 11. september 2018 þar sem hún var móttekin þann 14. sama mánaðar. Samkvæmt því var hinn 15 daga aðfararfrestur liðinn er kærði beindi hinni umþrættu aðfararbeiðni til sýslumanns enda hafði úrskurður Landsréttar, sem höfuðstólsfjárhæð í aðfararbeiðni tók til, verið kveðinn upp þann 24. ágúst 2018 eða 18 dögum fyrr, svo sem fyrr greinir.

Auk þess verður 1. mgr. 5. gr. laga nr. 90/1989 ekki skilin með öðrum hætti að áliti nefndarinnar en að aðförina sjálfa megi ekki gera fyrr en að liðnum aðfararfresti, óháð því hvenær aðfararbeiðni hefur verið komið á framfæri. Fyrir liggur að aðfarargerð sú sem hér um ræðir var ekki tekin fyrir hjá sýslumannsembættinu fyrr en þann x. október 201x en þá var aðfararfrestur löngu liðinn. Þá liggur fyrir að sýslumannsfulltrúi upplýsti lögmann kæranda og kærða um í tölvubréfi hinn x. október 201x að hin umþrætta aðfararbeiðni hafi staðist upphafsskoðun hjá embættinu og að því hefði verið boðað til fyrirtöku í málinu. Standa engin skilyrði eða heimildir til þess að hrófla við því mati fulltrúa sýslumanns af hálfu úrskurðarnefndar lögmanna.

Að mati nefndarinnar fær engu breytt í máli þessu að kærði hafi þegar þann 7. september 201x verið upplýstur um beiðni kæranda um kæruleyfi til Hæstaréttar og kæru hans til réttarins vegna fyrrgreinds úrskurðar Landsréttar frá x. ágúst 201x, en engu að síður farið fram með aðfararbeiðnina. Er þá til þess að líta að gert er ráð fyrir þeirri aðstöðu í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 90/1989 þar sem meðal annars er kveðið á um að ef úrskurður sætir kæru innan kærufrests til æðra dóms verði ekki af fyrirtöku aðfararbeiðni meðan mál er rekið fyrir æðra dómi, nema mælt sé svo fyrir í lögum eða viðkomandi dómi eða úrskurði að kæra fresti ekki aðför. Þá verður ekki talið að 2. mgr. 168. gr. laga nr. 91/1991 hafi girt fyrir að kærði gæti beint aðfararbeiðni í þágu umbjóðanda síns til sýslumannsembættisins þann x. september 201x vegna þeirrar aðfararhæfu kröfu sem úrskurður Landsréttar tók til.

Kærandi hefur jafnframt á því byggt fyrir nefndinni að kærði hafi farið fram með ólögmætar kröfur í þágu síns umbjóðanda í hinni umþrættu aðfararbeiðni, dags. x. september 201x, þar sem auk höfuðstóls og dráttarvaxta hafi meðal annars verið krafist innheimtuþóknunar að fjárhæð 155.958 með virðisaukaskatti, 40.000 króna fyrir ritun fjárnámsbeiðni auk sömu fjárhæðar vegna kostnaðar vegna fjárnáms.

Um þetta efni er til þess að líta að umrædd innheimtumeðferð var grundvölluð á réttarfarslögum, sbr. lög nr. 90/1989, og var því um löginnheimtu að ræða sem fór samkvæmt. 24. gr. a. laga nr. 77/1998 um lögmenn en ekki innheimtulögum nr. 95/2008, sbr. einnig 3. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998.

Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 eru taldar upp kröfur, sem einnig má fullnægja með fjárnámi samhliða aðfarargerð fyrir meginskyldu gerðarþola samkvæmt aðfararheimild. Segir þar meðal annars að aðför megi gera fyrir kostnaði af kröfu og innheimtukostnaði, en þar undir geta fallið þeir liðir í hinni umþrættu aðfararbeiðni sem hér um ræðir. Samkvæmt dómi Hæstaréttar 16. janúar 2003 í máli nr. 572/2002 felur ákvæði þetta ekki í sér sjálfstæða lagaheimild fyrir rétti gerðarbeiðanda til að krefja gerðarþola um slíka kostnaðarliði, heldur aðeins heimild til að leita fjárnáms fyrir þeim ef viðhlítandi stoð verður fundin í annarri réttarheimild fyrir kröfurétti gerðarbeiðanda.

Leggja verður til grundvallar að hinir umþrættu kostnaðarliðir í aðfararbeiðni kærða hafi verið hafðir uppi samkvæmt fyrrgreindri 2. mgr 1. gr. laga nr. 90/1989. Fyrir liggur að fulltrúi sýslumanns stöðvaði gerðina við aðfarargerð málsins þann x. október 201x þar sem óvíst var talið að gerðarbeiðandi, þ.e. umbjóðandi kærða, ætti þau réttindi sem hann krafðist að fullnægt yrði eftir greiðslu kæranda á höfuðstólsfjárhæð kröfunnar auk dráttarvaxta sem fram fór þann x. september 201x. Þá liggur fyrir að umbjóðandi kærða leitaði ekki úrlausnar dómstóla til að fá þeirri ákvörðun hnekkt og stóð hún því óhögguð.

Að mati nefndarinnar er mikilvægt að árétta hvað þetta sakarefni varðar að þeir kostnaðarliðir sem fram komu í aðfararbeiðni kærða á hendur kæranda, dags. x. september 201x, voru bein afleiðing af þeim aðfinnsluverðu innheimtuháttum sem kærði viðhafði við frum- og milliinnheimtu kröfunnar. Gildir slíkt hið sama og áður er rakið því um innheimtuhætti kærða og réttmæti þeirrar kröfu um innheimtuþóknun, að fjárhæð 155.958 með virðisaukaskatti, sem hann hafði uppi fyrir hönd umbjóðanda gagnvart kæranda í viðkomandi aðfararbeiðni enda ekki að finna viðhlítandi stoð í nokkurri réttarheimild fyrir slíkum kostnaðarlið, sbr. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 572/2002. Voru innheimtuhættir kærða að því leyti aðfinnsluverðir á grundvelli sömu sjónarmiða og áður hafa verið rakin.

Á hinn bóginn er að mati nefndarinnar ekki efni til að telja að kærði hafi gert á hlut kæranda, í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, með því að hafa haft uppi fjárkröfur í aðfararbeiðni vegna ritunar fjárnámsbeiðni og kostnaðar vegna fjárnáms.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sú háttsemi kærða, B lögmanns, að hefja innheimtuaðgerðir á hendur kæranda, A, með ritun og sendingu innheimtubréfs þann x. september 201x vegna kröfu um kærumálskostnað, sem þá var ekki í vanskilum, og að hafa þar uppi sem og í aðfararbeiðni, dags. x. sama mánaðar, kröfu um hagsmunatengda innheimtuþóknun vegna úrskurðaðs málskostnaðar, án þess að stoð væri fundin fyrir slíkri kröfu, er aðfinnsluverð.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason lögmaður, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Valborg Þ. Snævarr lögmaður

 

Rétt endurrit staðfestir

 

________________________

Sölvi Davíðsson