Mál 29 2019

Mál 29/2019 

Ár 2020, þriðjudaginn 5. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík. 

Fyrir var tekið mál nr. 29/2019: 

A, 

gegn 

B lögmanni 

og kveðinn upp svofelldur 

Ú R S K U R Ð U R : 

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 3desember 2019 erindi kæranda, Aþar sem kvartað er yfir því að kærði, B, hafi í störfum sínum sem fyrirsvarsmaður C ehf., brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum laga nr. 77/1998, innheimtulaga nr. 95/2008 og siðareglna lögmanna gagnvart kæranda.  

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 6desember 2019 og barst hún þann 8. janúar 2020. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 9janúar 2020. Hinn 28janúar 2020 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærða næsta dag. Svar kærða barst þann 2. mars 2020 og var það sent til kæranda með bréfi dags. 3. sama mánaðar þar sem tekið var fram að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokiðEkki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

Málsatvik og málsástæður 

Samkvæmt málsgögnum og málatilbúnaði aðila mun kærandi hafa tekið 56 svokölluð smálán, að höfuðstólsfjárhæð alls 1.690.000 krónur, á árunum 2016 og 2017 hjá rekstraraðilum í eigu D ehf. Hefur kærandi um það efni lagt fram í dæmaskyni tvo lánasamninga sem hann gerði við D dagana 5. október 2016 og 17. september 2017 auk almennra skilmála tilgreinds félags sem vísað var til í samningunum en þeir tóku til bókakaupa annars vegar og lánveitingar hins vegar. 

Kærandi hefur lagt fyrir nefndina yfirlit yfir hluta af viðkomandi smálánum sem aðilinn telur sýna fram á að kostnaður vegna þeirra, þ.e. lántökukostnaður og vextir, hafi verið langt umfram lögbundið hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar eins og hún sé skilgreind í lögum nr. 33/2013 um neytendalán. Þá hefur kærandi jafnframt lagt fyrir nefndina yfirlit yfir öll þau smálán sem hann tók á árunum 2016 og 2017 en af yfirlitinu verður ráðið að skuldbindingar samkvæmt sjö lánasamningum séu í vanskilum en að önnur lán séu uppgerð. 

Af málsgögnum verður ráðið að E, sem mun vera með aðsetur í Danmörku, hafi keypt lánasöfn rekstraraðila í eigu D á árinu 2018. Samkvæmt því hafi E tekið yfir kröfur D gagnvart kæranda. Þá er ágreiningslaust að C ehf., sem kærði er í fyrirsvari fyrir, annast innheimtu fyrir E vegna veittra smálána á Íslandi. 

Kærandi hefur bent á að í nóvember 2016 hafi G tekið ákvörðun gagnvart D vegna kostnaðar félagsins af lánum sem það veitti neytendum, sbr. mál nr. x/201xÍ ákvörðuninni komst G að þeirri niðurstöðu að D ætti að fara með kaupverð rafbóka eins og kostnað þegar reiknaður væri út heildarlántökukostnaður og árleg hlutfallstala kostnaðar. Í ákvörðuninni var einnig talið að D hefði ekki fullnægt lögbundinni upplýsingaskyldu sinni. Samkvæmt því var lögð stjórnvaldssekt að fjárhæð 2.400.000 krónur á félagið fyrir brot á lögum nr. 33/2013. T mun hafa staðfest þá ákvörðun með úrskurði í marsmánuði 2017 í máli nr. x/201x. Þá liggur fyrir að bæði héraðsdómur og nú síðast Landsréttur, með dómi uppkveðnum þann x. nóvember 201x í máli nr. xxx/201x, hafa sýknað G af kröfu D um ógildingu úrskurðar fyrrgreindrar áfrýjunarnefndar og með því meðal annars staðfest niðurstöðu stjórnvaldsins varðandi útreikning heildarlántökukostnaðar og árlega hlutfallstölu kostnaðar. 

Fram hefur komið fyrir nefndinni að C ehf. hafi tilkynnt E um á sumarmánuðum 2019 að félagið myndi eingöngu innheimta kröfur sem bæru kostnað í samræmi við íslensk lög um árlega hlutfallstölu kostnaðar. Hefur kærandi um það efni meðal annars lagt fyrir nefndina frétt sem birt var á vefmiðlinum visir.is þann x. júlí 201x þar sem meðal annars kom fram að vextir af viðkomandi lánum hefðu lækkað niður í 53,75% sem væri það hæsta sem lög leyfðu. Þá var haft eftir kærða í fréttinni, sem titlaður var sem lögmaður og stjórnandi C ehf., að félagið væri hætt að innheima lán sem bæru yfir 53,75% vexti og að engin eldri lán væru í innheimtu. Hafi lánum verið breytt að kröfu innheimtuaðilans auk þess sem útvegaðar hefðu verið allar sundurliðanir sem óskað hefði verið eftir.  

Kærandi hefur lagt fyrir nefndina í dæmaskyni sjö ítrekanir löginnheimtubréfa sem C ehf. sendi honum þann 22. febrúar 2018 vegna gjaldfallinna skuldbindinga samkvæmt samningum um smálán. Var í öllum tilvikum vísað til D sem kröfuhafa, til viðkomandi kröfunúmers og til þess að gjalddagi krafnanna hefði ýmist verið 16. eða 17. september 2017. Jafnframt því var gerð grein fyrir sundurliðun krafnanna með þeim hætti að undir höfuðstól féll bæði upphafleg höfuðstólsfjárhæð viðkomandi lánveitingar og lántökukostnaðar, þar á meðal vextir. Aðrar viðbótarkröfur, þ.e. dráttarvextir og  innheimtukostnaður, voru hins vegar sérstaklega sundurgreindar í bréfunum en hinn síðargreindi liður var í öllum tilvikum hærri en skilgreindur „höfuðstóll“ í bréfunum. Þá var tiltekið að aðför eða atbeina dómstóla yrði beitt við innheimtuna ef ekki yrði brugðist við. Kærandi hefur auk þess lagt fram í dæmaskyni yfirlit útistandandi krafna í innheimtu hjá C ehf. eins og þær birtust í heimabanka aðilans þann 6. nóvember 2019. 

Meðal málsgagna fyrir nefndinni er tölvubréf sem Almenn innheimta ehf. sendi til kæranda þann 20. ágúst 2019 undir yfirskriftinni „Alvarleg vanskil – við viljum bjóða þér að samningsborðinu“. Var þar tiltekið að kröfur í innheimtu á hendur kæranda hefðu verið endurreiknaðar auk þess sem kærandi var inntur eftir því hvort vilji væri til að semja um mánaðarlegar afborganir. Með tölvubréfinu fylgdi yfirlit yfir níu tilgreindar kröfur E á hendur kæranda í löginnheimtu hjá C ehf., sem höfðu verið með gjalddaga 16. og 17. september 2017. Var jafnframt gerð grein fyrir sundurliðun krafnanna í upphaflega lánsfjárhæð, lántökukostnað, dráttarvexti og innheimtukostnað sem var í öllum tilvikum umtalsvert hærri en hin veitta lánveiting tók til. 

Kærandi mótmælti frekari innheimtu krafnanna með tölvubréfi til E og C ehf. þann 1. nóvember 2019. Krafðist kærandi þess í tölvubréfinu að útistandandi kröfur yrði felldar niður og að honum yrði endurgreiddur ofgreiddur kostnaður þeim tengdum. Var vísað til eftirfarandi sjónarmiða í tölvubréfi kæranda að baki fyrrgreindum kröfum hans: 

Samkvæmt lánayfirliti, aðgengilegu á heimasíðum smálánafyrirtækjanna, tók ég alls 1.690.000 kr. í lán frá aðilum er heyra undir E og aðilum þeim tengdum á árunum 2016-2017. – Af lánunum hef ég greitt alls 1.873.012 kr. til kröfuhafa. – Ég hef greitt alls 403.012 kr. í kostnað vegna lántökunnar, beint til kröfuhafa. – Það liggur ljóst fyrir að kostnaður tengdur láninu fór langt umfram lögbundið hámark og hef ég þar með ofgreitt verulegar fjárhæðir. – Ef miðað er við seðlabankavexti ætti kostnaður tengdur lántökunni að nema um 4.562 kr. – Jafnvel þótt gengið væri út frá hæsta lögleyfða kostnaði (ÁHK) væri kostnaður tengdur lántöku að hámarki um 58.000 kr. – Sjö lán eru útistandandi og nemur fjárhæð höfuðstóls þeirra samanlagt 220.000 kr. – Að framangreindu virtu liggur fyrir að ég hef ofgreitt verulega fjárhæð sem nemur að lágmarki um 345.000 kr. ef gengið er út frá hæsta leyfilega kostnaði. – Í ljósi þess lýsi ég því hér með yfir skuldajöfnuði og krefst þess að E felli niður útistandandi skuldir og taki þær úr innheimtu. – Þar að auki fer ég fram á að E endurgreiði mér eftirstöðvar þeirrar fjárhæðar er ofgreiðslan nemur. – Bráðabirgðaútreikningur liggur fyrir og er ég reiðubúinn að ljúka málinu með þeim hætti að E felli niður útistandandi kröfur og endurgreiði eftirstöðvar ofgreidds kostnaðar að fjárhæð alls 125.000 kr. Miða umræddar málalyktir við útreikning á ofgreiðslu og hæstu lögleyfðu ÁHK. – Ég óska eftir svari frá E sem allra fyrst og eigi síðar en þann 11. nóvember nk. Berist ekki svar innan tímafrests mun ég í samráði við V skoða önnur úrræði til að fá rétti mínum framgengt. 

Kærandi sendi á ný erindi til C ehf. þann 7. nóvember 2019. Kvaðst kærandi þá hafa tekið saman þá fjárhæð sem hann hefði greitt í innheimtukostnað af viðkomandi kröfum sem fyrir lægi að bæru ólöglega árlega hlutfallstölu kostnaðar. Samkvæmt þeirri samantekt hefði kærandi greitt alls 766.267 krónur í innheimtukostnað vegna innheimtu á ólögmætum kröfum, en þá væri ekki meðtalinn kostnaður vegna seðilgjalda og dráttarvaxta. Vísaði kærandi til þess að þar sem umræddur kostnaður hefði hlotist af innheimtu á ólögmætum kröfum væri farið fram á endurgreiðslu fyrrgreindrar fjárhæðar sem greidd hefði verið í innheimtukostnað. Yrði að telja ljóst að innheimtukostnaður sem grundvallaður væri á ólögmætum kröfum væri jafnframt ólögmætur. Þá hefði C ehf. brotið gegn innheimtulögum nr. 95/2008, ekki síst hvað varðar góða innheimtuhætti, enda hefði innheimtuaðilanum verið fullljóst að um ólögmætar kröfur væri að ræða „og í besta falli verulega umdeildar.“ Vísaði kærandi jafnframt til fyrra erindis frá 1. sama mánaðar og tiltók að ofgreiðsla á lánum næmi það hárri fjárhæð að fella bæri niður útistandandi kröfur og endurgreiða eftirstöðvar ofgreiðslunnar. 

Í svari C ehf. þennan sama dag, 7. nóvember 2019, kom fram að óháð mati kæranda á lögmæti viðkomandi krafna í innheimtu lægi enginn dómur til grundvallar fullyrðingum kæranda. Var jafnframt á það bent að kröfurnar byggðu á samningi kröfuhafa og skuldara hverju sinni sem félli utan ábyrgðarsviðs C ehf. Þá væri innheimtukostnaður í samræmi við reglur þar um og væri af þeim sökum ekki unnt að verða við beiðni kæranda um endurgreiðslu á þeim kostnaði. Auk þess væru dráttarvextir í eigu kröfuhafa og innheimtir samhliða höfuðstól og umsömdum kostnaði. 

Kærandi hefur jafnframt lagt fyrir nefndina gögn sem aðilinn telur sýna fram á að innheimta C ehf. gagnvart honum sé enn í fullum gangi. Er þar í fyrsta lagi um að ræða tölvubréf sem C ehf. sendi til kæranda dagana 6. nóvember 2019 og 20. janúar 2020 þar sem tilkynnt var um alvarleg vanskil innheimtakrafna og því var lýst að innheimtuaðilinn vildi bjóða kæranda að samningsborðinu með gerð greiðslusamkomulags með mánaðarlegum afborgunum. Í öðru lagi liggja fyrir í málsgögnum smáskilaboð sem C ehf. sendi til kæranda þann 9. janúar 2020 þar sem minnt var á ógreiddar kröfur. Þá hefur kærandi lagt fram útprent af heimabanka sínum frá 15. janúar 2020 þar sem fram koma níu innheimtukröfur frá C ehf. fyrir hönd viðkomandi kröfuhafasem tilgreindar eru með gjalddaga 16. og 17. september 2017. 

Ekki verður séð af málsgögnum að frekari samskipti hafi átt sér stað á milli aðila vegna hinna umþrættu krafna á hendur kæranda sem verið hafa til innheimtu hjá C ehf.  

Skilja verður málatilbúnað kæranda þannig að þess sé krafist að kærða verði gert að sæta agaviðurlögum fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Jafnframt því krefst kærandi þess að C ehf. verði gert að hætta allri innheimtu gagnvart sér vegna útistandandi krafna og að innheimtukostnaður verði felldur niður. Þá krefst kærandi endurgreiðslu á ætluðum ofgreiddum innheimtukostnaði til C ehf., að fjárhæð 766.267 krónur, vegna lýstra brota á innheimtulögum nr. 95/2008, lögum nr. 77/1998 og siðareglum lögmanna. 

Í kvörtun kæranda er því lýst að henni sé beint að innheimtu C ehf. á ólögmætum kröfum, þ.e. smálánum sem bera hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar en heimilt sé samkvæmt lögum nr. 33/2013 um neytendalán. Kvörtun sé jafnframt beint að innheimtukostnaði viðkomandi innheimtuaðila sem byggi á innheimtu ólögmætra smálána. Þá sé kvörtun beint að innheimtuháttum kærða og C ehf. enda sé ljóst að markvisst hafi verið unnið að því að valda lántökum umtalsverðu fjárhagslegu tjóni og óþægindum með svæsnum innheimtuháttum. 

Í málatilbúnaði kæranda er vísað til þess að hann hafi tekið smálán á árunum 2016 og 2017 frá rekstraraðilum í eigu D að fjárhæð alls 1.690.000 krónur. Í kostnað vegna þessara lána, þ.e. vexti og lántökukostnað, hafi kærandi greitt 403.012 krónur. Bendir kærandi á að flest lánin hafi borið árlega hlutfallstölu kostnaðar langt umfram það sem heimilt sé samkvæmt lögum nr. 33/2013. Er vísað til þess að ef hæsta lögleyfða árlega hlutafallstala kostnaðar hefði gilt um lánin hefði kostnaður verið 61.590 krónur en 4.500 krónur ef seðlabankavextir hefðu gilt. 

Kærandi kveður engin áhöld um að lánin beri ólögmæta árlega hlutfallstölu kostnaðar. Vísar kærandi um það efni til ákvarðana G í málum nr. x/201x og x/201x, úrskurða T í málum nr. x/201x og x/201x og dóm Landsréttar x. nóvember 201x í máli nr. xxx/201x. Jafnframt því hafi G komist að þeirri ákvörðun í ágúst 2019 að E hefði brotið gegn lögbundnu hámarki árlegrar hlutfallstölu kostnaðar samkvæmt 26. gr. laga nr. 33/2013 auk þess sem félagið hefði veitt ófullnægjandi upplýsingar í lánasamningum sínum sem færu samkvæmt íslenskum lögum, sbr. mál nr. 31/2019. Á þeim tíma hafi E verið búið að taka yfir lánasöfn og starfsemi D og fleiri smálánafyrirtækja. 

Vísað er til þess að C ehf. hafi vitað að um væri að ræða ólögmæt lán. Með lögum nr. 33/2013 hafi verið sett sérstakt ákvæði í 26. gr. um hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar en því hafi verið ætlað að sporna við starfsemi smálánafyrirtækja. Í framhaldinu hafi fallið fjöldi ákvarðana, úrskurða og dómar sem staðfest hafi ólögmæti viðkomandi smálána. Varðandi vonda trú innheimtuaðilans bendir kærandi jafnframt á að kærði hafi gefið það út opinberlega að félagið innheimti ekki lengur ólögmæt lán, þ.e. kostnað af lánum sem væri umfram árlega hlutfallstölu kostnaðar. Samkvæmt því sé ljóst að þau smálán sem kærandi hafi tekið hafi verið langt umfram lögbundið hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar. 

Kærandi kveðst hafa sent tölvubréf til C ehf. þar sem farið hafi verið fram á að innheimtu á útistandandi kröfum vegna lána hjá E yrði hætt á grundvelli yfirlýsingar um skuldajöfnuð. Auk þess hafi kærandi krafist endurgreiðslu á vanskilakostnaði þar sem fyrir hafi legið að C ehf. hefði innheimt kröfur sem byggðu á lánum með ólöglegum okurvöxtum. Er vísað til þess að fram hafi komið í svörum innheimtuaðilans að ekki lægi fyrir dómur til grundvallar fullyrðingum kæranda auk þess sem samningssambandið væri á milli hans og kröfuhafa en ekki C ehf. 

Kærandi byggir á að svör C ehf. séu fyrirsláttur enda liggi fyrir ákvarðanir og úrskurðir stjórnvalda sem og dómar um efnið. Þá hafi umfjöllun um starfsemi smálánafyrirtækja og lánveitingar þeirra verið áberandi allt frá árinu 2014, en smálánafyrirtæki séu einu viðskiptavinir innheimtuaðilans. Eigi kærða og C ehf. því að vera fullkunnugt um ólögmæti lánanna. 

Vísað er til þess að allur sá kostnaður sem lagður hafi verið á kröfurnar stafi frá innheimtu af því sem C ehf. vissi eða mátti vita að væru ólögmæt lán. Þrátt fyrir það hafi innheimtuaðilinn tekið að sér innheimtu á kröfunum og beitt við hana mikilli hörku. Þannig hafi vanskilaskráningu verið hótað ítrekað auk þess sem kærandi hafi verið settur á vanskilaskrá sem haft hafi mjög neikvæð áhrif á lánshæfismat aðilans. Kveðst kærandi gera alvarlegar athugasemdir við það að innheimtufyrirtæki komist upp með að nota vanskilaskráningu sem svipu til að innheimta ólögmætar kröfur, enda sé ekki heimild í öllum undirliggjandi lánasamningum til slíkrar skráningar. Þá sé ekki að sjá að sú löginnheimta sem C ehf. stundi feli í sér raunverulega löginnheimtu í skilningi laga nr. 95/2008 og laga nr. 77/1998 og geti því ekki talist fela í sér lögmæta heimild til skráningar á vanskilaskrá. 

Bent er á að kostnaður vegna innheimtunnar sé sérstaklega hár og raunar vel umfram það sem eðlilegt sé vegna krafna sem séu jafn lágar og raun ber vitni. Þá séu send ítrekuð löginnheimtubréf með mjög háum kostnaði án þess að nokkur vilji eða ætlun sé til hjá innheimtuaðila að fylgja þeim eftir með raunverulegri málsókn. Séu dæmi þess að löginnheimtubréf séu ítrekuð sem hækki innheimtukostnað vel umfram höfuðstól undirliggjandi kröfu. Er í því samhengi bent á að í einu tilfelli nemi innheimtukostnaður 388% af upphaflegri lánsfjárhæð. Jafnframt því bendir kærandi á hvernig kröfur í innheimtu hjá C ehf. birtast í heimabanka hans. 

Kærandi byggir á að C ehf. hafi um árabil, eða allt fram á mitt ár 2019, tekið að sér innheimtu á smálánum sem beri ólöglega okurvexti. Hafi allur innheimtukostnaður sem kæranda hafi verið gert að greiða því verið innheimtur í vondri trú þar sem innheimta kostnaðarins hafi byggt á ólögmætum kröfum. Brjóti viðkomandi innheimtuhættir gegn innheimtulögum nr. 95/2008, sbr. meðal annars 6., 7. og 11. gr. laganna, auk þess sem kostnaðurinn hafi ekki verið í samræmi við 12. gr. laganna og reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl. nr. 37/2009, með síðari breytingum. Þá brjóti innheimtan gegn 24. og 24. gr. a. laga nr. 77/1998 og siðareglum lögmanna. 

Varðandi brot kærða og C ehf. vísar kærandi í fyrsta lagi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 95/2008 þar sem kveðið er á um að innheimta skuli vera í samræmi við góða innheimtuhætti. Kærandi vísar jafnframt til þess að ekki megi beita óhæfilegum þrýstingi eða valda óþarfa tjóni eða óþægindum við innheimtuna, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna. Þá þurfi að gæta góðra innheimtuhátta við sérhverja ráðstöfun eða athöfn sem sé þáttur í innheimtu. Er vísað til þess að það fyrsta sem lögmaður og innheimtuaðili þurfi að skoða við mat á góðum innheimtuháttum hljóti að vera mat á því hvort að viðkomandi krafa sem taka á til innheimtu sé lögmæt. Fyrir liggi að tilgreindar innheimtukröfur standist ekki fyrstu skoðun um lögmæti þegar ákvæði laga, dómafordæmi og úrlausnir stjórnvalda séu skoðaðar. Þá liggi fyrir viðurkenning kærða á því efni. 

Vekur kærandi einnig athygli á að innheimtuaðili geti ekki skýlt sér á bak við ætluð fyrirmæli kröfuhafa um innheimtuna, sbr. eftirfarandi í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 95/2008: „Á innheimtaðilanum hvílir samt sem áður sú sjálfstæða skylda að hlýðnast ekki fyrirmælum kröfuhafa ef þau fela í sér eitthvað sem stríðir gegn góðum innheimtuháttum samkvæmt lögunum eða reglugerð á grundvelli þeirra.“ Þá er á það bent að lögmaður skuli vera óháður í störfum sínum og ráði því sjálfur hvort hann taki að sér verk eða ekki, sbr. 3. gr. siðareglna lögmanna. 

Kærandi byggir á að innheimta á því sem innheimtuaðili veit eða má vita að séu ólögmætar kröfur geti ekki falið í sér góða innheimtuhætti. Þá teljist það brot gegn góðum innheimtuháttum samkvæmt lögskýringargögnum að innheimtuaðili gefi skuldara rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða réttarreglur sem séu mikilvægar fyrir afstöðu hans til kröfunnar. Geti innheimta ólögmætra krafna og sú háttsemi að gera kæranda ekki grein fyrir réttarstöðunni ekki falið annað í sér en brot gegn góðum innheimtuháttum samkvæmt 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008. 

Í öðru lagi byggir kærandi á að innheimtukostnaður sem kærði og C ehf. hafi lagt á hinar umþrættu kröfur hafi falið í sér brot á 12. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 og reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl. nr. 37/2009 með síðari breytingum. 

Um það efni vísar kærandi til þess að samkvæmt 12. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 skuli innheimtukostnaður, meðal annars þóknun sem heimilt sé að krefja skuldara um, taka mið af þeim kostnaði sem kröfuhafi verði fyrir vegna innheimtunnar og nauðsynlegur og hóflegur geti talist. Bendir kærandi á að það hvað teljist hóflegt sé ekki einungis skilgreint á grundvelli reglugerðar nr. 37/2009 heldur verði að meta það einnig í hverju tilfelli. Það að velja að nýta sér alltaf þær hámarks fjárhæðir og að senda alltaf hámarks fjölda innheimtubréfa auk símtals, eins og gert sé grein fyrir í 6. gr. reglugerðarinnar, feli ekki sjálfkrafa í sér að kostnaður við innheimtuna teljist hóflegur í skilningi 12. gr. innheimtulaga nr. 95/2008. Rétt sé að meta það í heild sinni að teknu tilliti til höfuðstóls krafna hvort kostnaðurinn sé í raun og veru eðlilegur og í samræmi við góða innheimtuhætti. Byggir kærandi á að þegar kostnaður sé farinn að nálgast fjárhæð höfuðstóls með jafn skjótum hætti og í innheimtuferli C ehf. að þá sé hann í raun orðinn óhóflegur í skilningi 12. gr. laganna. Felist í þessari háttsemi kærða og C ehf. brot gegn tilgreindri grein, sbr. einnig 4. gr. reglugerðar nr. 37/2009. 

Í þriðja lagi byggir kærandi á að ekki sé gerð grein fyrir kostnaði krafna með réttum hætti samkvæmt 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 og að innheimtuviðvörun þjóni því ekki tilgangi sínum. 

Vísar kærandi um það efni til þess að C ehf. skrái allar kröfur þannig að upphaflegur höfuðstóll og lántökukostnaður sé skráður saman sem ein fjárhæð. Brjóti félagið þannig strax í upphafi gegn reglum c. liðar 2. mgr. 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 um innheimtuviðvörun þar sem fram kemur að fjárhæð kröfu skuli sundurliða í höfuðstól og aðrar viðbótarkröfur. Þá sé ekki frekari sundurliðun á höfuðstól og viðbótarkröfum að finna í innheimtuviðvörun C ehf. Þjóni sending slíkrar viðvörunar því ekki tilgangi sínum. Sé það grundvallaratriði fyrir skuldara að hann geti gert sér raunverulega grein fyrir kostnaði við kröfu. Auk þess sé með þessum hætti verið að hækka höfuðstól með ólögmætum hætti þannig að krafan geti fallið inn í hærri innheimtukostnaðarflokk en hún raunverulega eigi að vera í, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 37/2009. Felist jafnframt í því rangar og villandi upplýsingar um staðreyndir sem séu mikilvægar fyrir afstöðu skuldara til kröfunnar og því brot gegn góðum innheimtuháttum, sbr. 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008. 

Byggir kærandi samkvæmt því á að C ehf. hafi verið óheimilt að krefjast annars innheimtukostnaðar en kostnaðar við innheimtuviðvörunina sjálfa, jafnvel þótt um hefði verið að ræða lögmætar kröfur, sbr. 3. málsl. 11. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 og 4. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 37/2009. Hafi innheimtan því ekki verið réttlætanleg. Að sama skapi hafi innheimtuaðilanum verið óheimilt að hefja löginnheimtu þar sem innheimtuviðvörun hafi ekki þjónað tilgangi sínum. 

Í fjórða lagi byggir kærandi á að kærði hafi brotið gegn 3. mgr. 24. gr. og 24. gr. a. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Er um það efni á það bent að C ehf. hafi aldrei stefnt kröfumáli fyrir dóm þrátt fyrir þúsundir innheimtukrafna. Þá hafi félagið aldrei farið í neinar aðgerðir sem byggðar séu á þeim lögum sem talin séu upp í 1. mgr. 24. gr. a. fyrrgreindra laga. Hafi eiginleg löginnheimta í skilningi 24. gr. laganna því aldrei hafist. 

Kærandi byggir á að svonefnt löginnheimtubréf C ehf. geti ekki talist til eiginlegrar löginnheimtu kröfu enda sé ekki um réttarfarsaðgerð að ræða auk þess sem slík tilkynning samrýmist ekki góðum lögmannsháttum. Eins og gögn málsins beri með sér hafi innheimtuaðilinn sent ætluð löginnheimtubréf og ítrekanir í hverju einasta máli sem fari í 90 daga vanskil. Innheimtukostnaður vegna þessara bréfa hlaupi á tugum þúsunda í hverju máli og samsvari oft upphaflegum höfuðstól undirliggjandi kröfu og jafnvel rúmlega það. Sé sá innheimtukostnaður vel umfram þær fjárhæðir og hlutfall kostnaðar sem tiltekið sé í 2. gr. leiðbeinandi reglna fyrir lögmenn um endurgjald sem lögmönnum er talið hæfilegt að áskilja umbjóðendum sínum úr hendi skuldara vegna kostnaðar af löginnheimtu peningakröfu, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998. 

Kærandi vísar til þess að sending nefndra bréfa með þeim kostnaði sem þeim fylgi feli því eitt og sér í sér brot gegn góðum lögmannsháttum samkvæmt 1. mgr. 24. gr. a. laga nr. 77/1998 og að fjárhæð þóknunarinnar brjóti gegn 3. mgr. 24. gr. laganna. Gjaldið sé ekki hæfilegt vegna þess að fjárhæðin sé vel umfram fyrrnefndar viðmiðunarreglur auk þess sem fjárhæðirnar séu í engu samræmi við raunverulegan kostnað við ritun og sendingu bréfanna. Þá skapi þessir innheimtuhættir óhæfilegan þrýsting og óþarfa tjóni eða óþægindi við innheimtuna, sem brjóti gegn 1. og 2. mgr. 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008. 

Í fimmta lagi byggir kærandi á að með því að skrá kröfur í löginnheimtu, þrátt fyrir það sem áður er rakið, hafi kærði og C ehf. klætt kröfurnar í þann búnir að þær væru hæfar til tilkynningar á vanskilaskrá hjá F. Samkvæmt starfsleyfi þess félags og úrskurði R í máli nrxxx/xxxx þurfi krafa að vera komin í löginnheimtu til þess að heimilt sé að skrá skuldara á vanskilaskrá vegna hennar. Þá búi slík skráning til aukinn þrýsting á skuldara til að gera upp kröfur. Þar sem skráningin byggi á ólögmætum grunni skapi það óhæfilegan þrýsting og óþarfa tjóni við innheimtuna sem brjóti gegn 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 og góðum lögmannsháttum. Eigi það við um kröfur þar sem skuldari hafi ekki samþykkt með sérstakri yfirlýsingu í lána- eða skuldaskjali að heimilt sé að setja hann á vanskilaskrá þegar vanskil hafa varað í að minnsta kosti 40 daga, en sú heimild sé ekki í nema hluta samninga E. 

Í sjötta lagi byggir kærandi á að C ehf., og kærði sem fyrirsvarsmaður þess félags, hafi með fyrrgreindum vinnubrögðum brotið gegn 1. gr. siðareglna lögmanna. Jafnframt því hafi kærði brotið gegn 3. gr. siðareglnanna með því að hafa látið hagsmuni kröfuhafa hafa áhrif á vinnubrögð og vinnu sína. Þá hafi kærði ekki sýnt kæranda fulla virðingu auk þess sem óhóflegum þvingunum hafi verið beitt, en slíkt varði við 34. og 35. gr. siðareglnanna. 

Í viðbótarathugasemdum kæranda er vísað til þess að umkvörtunarefnið lúti ekki að öllu leyti að samningi milli aðilans og lánveitanda líkt og kærði vísi til. Þvert á móti varði umkvörtunarefnið störf kærða sem stundi eftirlitsskylda starfsemi, þ.e. milli- og löginnheimtu. Þá sé skýr heimild í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 til þess að bera slík mál undir nefndina, enda sé eftirlit N jafnframt lögbundið í 2. mgr. 15. gr. innheimtulaga nr. 95/2008. 

Kærandi hafnar því að kvörtun hafi borist of seint líkt og kærði haldi fram í málinu. Vísar kærandi um það efni meðal annars til tölvubréfs C ehf. frá 20. ágúst 2019 um alvarleg vanskil. Jafnframt liggi fyrir yfirlit yfir útistandandi kröfur í innheimtu hjá viðkomandi aðila líkt og þær birtust í heimabanka kæranda þann 6. nóvember 2019. Þá bendir kærandi á að hann hafi síðast fengið tölvubréf frá innheimtuaðilanum þann 20. janúar 2020 þar sem tilkynnt hafi verið um alvarleg vanskil og smáskilaboð þann 9. sama mánaðar þar sem hvatt hafi verið til uppgjörs krafnanna. 

Um þetta efni bendir kærandi jafnframt á að ekki sé um stakt brot kærða að ræða heldur áframhaldandi, þ.e. að kvörtuninni sé hvorki beint að einstakri innheimtu sem kærandi telji of háa né stöku broti í starfi heldur að innheimtu sem byggi á innheimtu ólögmætra krafna og brotum sem enn eigi sér stað. Fyrir liggi að hinar umþrættu kröfur séu enn til innheimtu hjá kærða og C ehf. Hegðun kærða og vinnubrögð séu viðvarandi auk þess sem hann hafi neitað að láta af þeim þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir. Sé kvörtun því ekki of seint fram komin. Þá sé minna en ár síðan að C ehf. viðurkenndi að umræddar kröfur væru ólögmætar. 

Kærandi bendir á að beina þurfi kvörtun að fyrirsvarsmanni innheimtufyrirtækis hverju sinni. Falli það því í hlut kærða, sem núverandi fyrirsvarsmanns C ehf., að svara fyrir og eftir atvikum taka ábyrgð á starfsemi félagsins. 

Kærandi kveður það rangt sem kærði haldi fram um að kærandi hafi hvorki krafið lánveitanda sjálfan um endurgreiðslu á hinni ofgreiddu fjárhæð né haft uppi kröfu um að innheimtu yrði hætt. Bendir kærandi um það efni á bréf hans til lánveitanda og C ehf. frá 1. nóvember 2019 þar sem frekari innheimtu var mótmælt, farið var fram á að útistandandi kröfur yrðu felldar niður og að ofgreiddur kostnaður yrði endurgreiddur. Þá sé ljóst að kærandi hafi fært rök fyrir því að kostnaður tengdur lánunum hafi farið langt umfram hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar. 

Kærandi bendir á að krafa um endurgreiðslu í málinu lúti að ofgreiddum vanskilakostnaði vegna innheimtu ólögmætra krafna. Sé rétt að beina þeirri kröfu til þess aðila sem annast hafi innheimtuna og tekið hafi til sín nefndan kostnað. 

Varðandi skráningu á vanskilaskrá vísar kærandi til þess að kvörtun hans um það efni lúti að þeirri aðferð sem beitt hafi verið til að ná skráningu í gegn, þ.e. að klæða kröfurnar í þann búning löginnheimtukrafna. 

Að endingu hafnar kærandi kröfu kærða um málskostnað sem staðlausri. 

III. 

Kærði krefst þess aðallega að kvörtun kæranda verði vísað frá nefndinni. Til vara krefst aðilinn þess að kröfum kæranda verði hafnað. Þá er þess krafist að kæranda verði gert að greiða kærða málskostnað fyrir nefndinni. 

Kærði vísar í fyrsta lagi til þess að umkvörtunarefnið lúti að öllu leyti að samningi kæranda og lánveitandaC ehf. hafi ekki komið að gerð samningsins heldur annast innheimtu á kröfum sem byggja á honum. Að því sögðu fáist ekki séð að kærði hafi brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn þar sem kveðið sé á um samningssamband milli lögmanns og umbjóðanda hans. Sé slíku ekki til að dreifa varðandi umkvörtunarefni kæranda. Hafi samningssambandið í því tilviki sem um ræði verið á milli C ehf. og D, og síðar E. Þótt skuldarinn beri kostnað af innheimtunni þá sé það í takt við það sem almennt gerist í innheimtumálum fyrir tilstuðlan lögmanna og innheimtulög nr. 95/2008 og áralöng dómaframkvæmd mæla fyrir um. Ekki sé hægt að jafna því við samningssamband kröfuhafa og skuldara. 

Varðandi formhlið málsins vísar kærði jafnframt til þess að meira en ár sé liðið frá því að síðustu kröfur kæranda hafi verið til meðferðar hjá C ehf. Liggi fyrir samkvæmt málatilbúnaði kæranda sjálfs að meira en ár sé liðið frá því að kostur var á að koma kvörtun á framfæri, þ.e. sé miðað við ákvörðun G í máli nr. x/201x eða staðfestingu ákvörðunarinnar hjá T 

Í öðru lagi vísar kærandi til þess að kærði hafi ekki vitað af umræddri innheimtu þar sem annar lögmaður hafi annast rekstur C ehf. á viðkomandi tíma. 

Í þriðja lagi vísar kærandi til þess, varðandi kröfugerð kæranda, að hún geti vart talist tæk til úrskurðar þar sem hún feli í sér að kærða verði gert að láta af allri innheimtu á hendur kæranda. Sé það einungis á færi þar til bærra stjórnvalda að taka slíkar ákvarðanir en ekki sjálfstæðra úrskurðarnefnda.  

Í fjórða lagi er bent á að rökstuðningur kæranda feli ekki í sér að kærði eða ehf. hafi gerst brotleg samkvæmt innheimtulögum nr. 95/2008 eða öðrum reglum sem lúta að innheimtu, ákvæðum laga nr. 77/1998 eða siðareglum lögmanna. Þá verði ekki séð að kærandi hafi í reynd krafið lánveitandann um endurgreiðslu á því sem talið sé að hafi verið ofgreitt né heldur að hann hafi fært sönnur á mál sitt þannig að augljóst sé að lánastarfsemin hafi verið ólögmæt. Er á það bent að kærandi hafi tekið fjöldann allan af lánum, bæði fyrir og eftir að úrskurður G féll, en að kærandi hafi þrátt fyrir það aldrei gert kröfu um endurgreiðslu eða að innheimtu yrði hætt. 

Kærði byggir í fimmta lagi á að ekkert liggi fyrir um meint brot gegn 27. gr. laga nr. 77/1998. Hafi innheimta C ehf. alltaf verið samkvæmt ákvæðum innheimtulaga nr. 95/2008. 

Kærði vísar til þess í sjötta lagi að kröfu um endurgreiðslu beri að beina að kröfuhafanum sjálfum, enda liggi fyrir gildir lánasamningar á milli kröfuhafa og kæranda þar sem samningssambandið liggi. Samningssamband C ehf. og kröfuhafa byggi á innheimtusamningi sem styðjist við innheimtulög nr. 95/2008. Í innheimtunni sjálfri, og því sem lúti að kærða, hafi allra ákvæða laga nr. 95/2008, laga nr. 77/1998 og siðareglna lögmanna verið gætt. Kostnaður innheimtunnar hafi verið í samræmi við tilgreindar heimildir. Þá hafi skráning á vanskilaskrá F byggt á reglum þar að lútandi, þ.e. samningi við tilgreint félag, sem aftur hvíli á starfsleyfi sem félagið byggi starfsemi sína á. Sé skráning á vanskilaskrá algeng leið og þekkt í starfsaðferðum lögmanna og innheimtufyrirtækja. Þá sé slík skráning ekki til handa innheimtuaðila heldur kröfuhafa. Hafi engum þrýstingi þar verið beitt gegn kæranda. 

Varðandi málatilbúnað kæranda um að kærða hafi mátt vera fullljóst að samningsbundinn kostnaður samkvæmt lánasamningi kæranda og kröfuhafa væri langt umfram lögbundið hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, vísar kærði til þess að E sé félag skráð í Danmörku og lúti danskri lögsögu. Ekkert styðji fullyrðingar um annað en ákvörðun G sem E hafi stefnt fyrir dóm í Danmörku til að fá úr því skorið hvort félagið lúti danskri lögsögu eða íslenskri. 

Í viðbótarathugasemdum kærða er ítrekað að hann hafni því að innheimtan hafi brotið í bága við lög. Þá hafi innheimtukostnaður ekki verið ólögmætur þar sem um flatan kostnað hafi verið að ræða sem byggt hafi alfarið á innheimtulögum nr. 95/2008 og reglugerð sem af lögunum leiði. Hafi kæranda auk þess verið í lófa lagið að greiða höfuðstól kröfunnar og það sem hann taldi á þeim tíma lögmætan kostnað, með yfirlýsingu eða fyrirvara þar að lútandi, og haldið eftir því sem hann taldi þá ólögmætan kostnað. Er á það bent að slíkar aðgerðir hefðu þó ekki haft áhrif á innheimtukostað, sbr. það sem áður er rakið. 

Kærði hafnar því að hann hafi getað séð fyrir ætlað ólögmæti lána lánveitanda sem kærandi hafi tekið ótilneyddur að eigin frumkvæði. Ítrekar kærði að þrátt fyrir að hann hafi krafið lánveitendur um að virða árlega hlutfallstölu kostnaðar á Íslandi, og staða lántakenda þar með skánað á grundvelli endurútreikninga, að þá hafi ekki falist í því viðurkenning hans á ætluðu ólögmæti krafnanna. Þá sé það hvorki hlutverk nefndarinnar að úrskurða um lögmæti lánanna né heldur lögmæti innheimtunar. Sé hlutverk nefndarinnar þannig bundið við að skera úr um hvort innheimtan hafi brotið í bága við lög eða umboð frá umbjóðanda innheimtuaðila, þ.e. lánveitanda.  

Um sundurliðun á kröfum vísar kærði til þess að C ehf. hafi ávallt sinnt skyldum sínum varðandi afhendingu innheimtubréfa og yfirlita yfir kröfur. Um það tilvik sem kærandi vísi til liggi fyrir að V hafi staðið opinberlega að hvatningu til neytenda um að lántakendur smálána ættu að krefjast réttar síns um afrit af innheimtubréfum og yfirlitum yfir kröfur. Hafi yfir 1000 slíkar beiðnir borist til C ehf. á nokkrum dögum. Þar sem beiðnirnar hafi falið í sér afhendingu á gögnum yfir allar kröfur hvers og eins aðila, en ekki eingöngu þær sem verið hafi til innheimtu á viðkomandi tíma, hafi þurft að samkeyra mörg tölvukerfi sem hafi tekið nokkrar vikur. Af þeim sökum hafi verið ljóst að ekki væri hægt að útvega umbeðnar upplýsingar á stuttum tíma. Hafi því verið sendur svarpóstur til hvers aðila um að félagið nýtti sér heimild í „ESB reglugerð nr. 2016/679“, sem birt hafi verið með lögum nr. 90/2018 um persónuvernd. Í 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um réttindi skráðra einstaklinga til upplýsinga um málefni er að þeim lúta. Þá sé kveðið á um skyldur ábyrgðaraðila til að láta slíkar upplýsingar í té. Sé þar lögð áhersla á að einstaklingurinn sanni á sér deili og hafi af þeim sökum verið óskað eftir afriti af skilríkjum frá viðkomandi einstaklingi, þ.e. í þágu persónuverndar. 

Kærði vísar til þess að í 3. tl. 12. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um rétt ábyrgðaraðila til 30 daga og allt að 90 daga frests til að afhenda upplýsingarnar. Stuðst hafi verið við þá heimild í því tilviki sem um ræði, þar sem ógrynni af beiðnum hafi borist félaginu í kjölfar hvatningar V. Í engu tilfelli sé unnt að líta svo á að C ehf. hafi ekki sinnt skyldum sínum að þessu leyti, og hvað þá hafnað rétti skuldara til að fá afhentar upplýsingar um kröfur. Þá hafi ekki verið afhentar rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða réttarreglur sem verið hafi mikilvægar fyrir afstöðu skuldara til kröfunnar. Sé það ekki hlutverk innheimtuaðila að veita skuldara upplýsingar um stjórnvaldsákvarðanir eða dómsmál sem rekin séu um lögmæti kostnaðar lána eða krafna. Þótt hlutverk innheimtuaðila sé víðtækt fáist ekki séð hvernig það næði yfir líkt á grundvelli laga. Þá megi almennt fullyrða að innheimtuaðilar sinni ekki slíku hlutverki. 

 

Niðurstaða 

Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um frávísunarkröfu kærða en sú krafa er á því reist að kvörtun í málinu hafi komið fram eftir að lögbundnir frestir til slíks voru liðnir, sbr. 1. mgr. 26. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Í tilgreindum heimildum er tiltekið að nefndin vísi kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá. 

Um frávísunarkröfu kærða er til þess að líta að kvörtun í málinu lýtur að innheimtuháttum C ehf., sem kærði er í fyrirsvari fyrir, gagnvart kæranda vegna undirliggjandi smálána sem hinn síðargreindi tók á árunum 2016 og 2017. Hefur sú innheimta í öllu falli staðið frá árinu 2017 en af málsgögnum verður ráðið að enn séu til meðferðar hjá innheimtuaðilanum ætlaðar gjaldfallnar kröfur á hendur kæranda á grundvelli nefndra smálána, en á nokkru reiki er hvort þær séu sjö eða níu talsins. Hverju sem því líður þá verður skýrlega ráðið af málsgögnum að innheimtuaðgerðum sé enn beint að kæranda af hálfu C ehf. en um það efni liggja meðal annars fyrir í málsgögnum tölvubréf og smáskilaboð sem innheimtuaðilinn sendi til kæranda á tímabilinu frá 6. nóvember 2019 til 20. janúar 2020 um ætluð alvarleg vanskil hins síðargreinda vegna undirliggjandi innheimtukrafna. Auk þess liggur fyrir að umræddar innheimtukröfur frá C ehf. mátti enn finna á heimabanka kæranda í ársbyrjun 2020. Þá verður að mati nefndarinnar ekki framhjá því litið að hinar umþrættu kröfur sættu ekki endurútreikningi til samræmis við hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar samkvæmt lögum nr. 33/2013 um neytendalán fyrr en á vor- eða sumarmánuðum 2019 en fram hefur komið að sú aðgerð hafi verið framkvæmd að kröfu C ehf. gagnvart viðkomandi kröfuhafa og lánveitanda kæranda. 

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki talið að kvörtun kæranda í máli þessu, sem var móttekin þann 3. desember 2019, sé of seint fram komin þannig að varði frávísun málsins í heild sinni á grundvelli hinna lögmæltu tímafresta sem kveðið er á um í 1. mgr. 26. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. fyrrgreindra málsmeðferðarreglna. 

Varðandi formhlið málsins er þess á hinn bóginn að gæta að samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna skal nefndin vísa frá máli ef það lýtur að réttarágreiningi sem ekki fellur undir valdsvið hennar. 

Kærandi hefur meðal annars krafist þess fyrir nefndinni að C ehf. verði gert að hætta allri innheimtu gagnvart sér vegna útistandandi krafna og að innheimtukostnaður verði felldur niður. Jafnframt því hefur kærandi krafist endurgreiðslu á ætluðum ofgreiddum innheimtukostnaði til C ehf., að fjárhæð 766.267 krónur, vegna lýstra brota á innheimtulögum nr. 95/2008, lögum nr. 77/1998 um lögmenn og siðareglum lögmanna. 

Um tilgreindar kröfur kæranda er til þess að líta að úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt lögum nr. 77/1998 um lögmenn en valdsvið nefndarinnar er afmarkað í V. kafla laganna. Nánar tiltekið er valdsvið nefndarinnar annars vegar bundið við ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Hins vegar getur sá sem telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna lagt kvörtun á hendur lögmanninum fyrir nefndina, sbr. 27. gr. laganna. Um hlutverk nefndarinnar er jafnframt fjalla í 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna en þar segir: 

„Hlutverk úrskurðarnefndar lögmanna er: 

  1. að fjalla um ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um þóknun lögmannsins, þ.e. rétt hans til endurgjalds fyrir störf sín og um fjárhæð endurgjaldsins, enda sé ágreiningnum skotið til nefndarinnar af öðrum hvorum málsaðila eða báðum; 
  1. að fjalla um kvörtun á hendur lögmanni frá aðila vegna háttsemi, sem kann að stríða gegn lögum eða siðareglum LMFÍ; 
  1. að fjalla um erindi sem stjórn LMFÍ sendir nefndinni skv. 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna. 

Í samræmi við þær heimildir sem hér hafa verið raktar fellur það utan valdsviðs nefndarinnar að fjalla um og taka til skoðunar kröfu kæranda sem lýtur að því að C ehf. verði gert að hætti allri innheimtu útistandandi krafna og að innheimtukostnaður verði felldur niður. Á slíkt hið sama við um þá kröfu kæranda að C ehf. verði gert að endurgreiða honum ætlaðan ofgreiddan innheimtukostnað, að fjárhæð 766.267 krónur, vegna þeirra ætluðu brota sem lýst er í kvörtun, enda verður ekki talið að slíkt samningssamband sé á milli kærða og/eða C ehf. annars vegar og kæranda hins vegar sem 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 er afmörkuð við. Þegar af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar verður að vísa tilgreindum kröfum kæranda á hendur kærða frá nefndinni með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.  

Samkvæmt því kemur til efnisúrlausnar í málinu sú krafa kæranda að kærða verði gert að sæta agaviðurlögum fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.  

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum. 

III. 

Í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni hefur kærandi um ætluð brot kærða meðal annars vísað til 1., 3., 34. og 35. gr. siðareglna lögmanna. 

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku. Í 3. gr. siðareglnanna er kveðið á um að lögmaður skuli vera óháður í starfi og standa vörð um sjálfstæði lögmannastéttarinnar. Er jafnframt tiltekið að lögmaður skuli ekki láta óviðkomandi hagsmuni, hvort heldur eigin eða annarra, hafa áhrif á ráðgjöf sína, meðferð máls fyrir stjórnvaldi eða dómi eða á annað það, sem lögmaður vinnur í þágu skjólstæðings síns. Þá er því lýst að lögmaður ráði því sjálfur hvort hann taki að sér verk eða ekki, nema lög bjóði annað. 

Samkvæmt 34. gr. siðareglnanna skal lögmaður sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna. Þá er í 35. gr. þeirra tiltekið að lögmaður megi ekki til framdráttar málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum, en í ákvæðinu er jafnframt nánar skilgreint hvað teljist meðal annars ótilhlýðilegt í því samhengi. 

Þá hefur kærandi jafnframt um ætluð brot kærða vísað til 24. og 24. gr. a laga nr. 77/1998 um lögmenn sem og til 6., 7., 11. og 12. gr. innheimtulaga nr. 95/2008Í 1. mgr. 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 er tiltekið að innheimta skuli vera í samræmi við góða innheimtuhætti. Þá segir í 2. mgr. að það teljist meðal annars brjóta í bága við góða innheimtuhætti að beita óhæfilegum þrýstingi eða valda óþarfa tjóni eða óþægindum. 

Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2008, eins og hún hljóðar eftir gildistöku breytingarlaga nr. 55/2018 þann 22. júní 2018, fer N með eftirlit samkvæmt lögunum og lögum nr. 77/1998 gagnvart lögmönnum, lögmannsstofum og lögaðilum í eigu lögmanna eða lögmannsstofa. Í frumvarpi því er varð að breytingarlögum nr. 55/2018 var eftirfarandi tiltekið við 4. gr. frumvarpsins vegna breytinga á 2. mgr. 15. gr. laganna: 

Lögð er til breyting á 2. mgr. 15. gr. laganna en í greininni kemur nú fram að gagnvart lögmönnum fari úrskurðarnefnd lögmanna með eftirlit samkvæmt innheimtulögum og lögum um lögmenn. Lagt er til að vísað verði til N en ekki úrskurðarnefndarinnar enda fer N með almennt eftirlit með innheimtustarfsemi lögmanna en úrskurðarnefnd lögmanna, sem starfar á grundvelli V. kafla laga um lögmenn, nr. 77/1998, tekur til meðferðar ágreiningsmál sem vísað er til hennar. Þannig mun nefndin áfram geta tekið við málum sem varða kvartanir vegna starfa lögmanna á grundvelli innheimtulaga og hefur úrræði til að áminna lögmann, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga um lögmenn, og leggja til við sýslumann að hann verði sviptur lögmannsréttindum, sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna. Um úrræði og eftirlit N er almennt fjallað í 13. gr. laga nr. 77/1998. 

Í samræmi við efni 2. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2008 og áðurgreindra lögskýringargagna verður að telja að kvörtun kæranda í máli þessu vegna ætlaðra brota C ehf. og kærða gegn lögunum sé réttilega beint að nefndinni enda ágreiningslaust að kærði sé í fyrirsvari fyrir félagið sem stjórnarmaður þess, en samkvæmt opinberri skráningu hefur sú skipan stjórnar verið óbreytt frá 2. október 2016. Eigi viðkomandi innheimtustörf því undir nefndina samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2008 og geti samkvæmt því komið til álita að nefndin beiti þeim heimildum sem henni eru faldar í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 vegna kvörtunarinnar, en kærði ber sem lögmaður ábyrgð á viðkomandi innheimtustörfum. Samkvæmt því er haldlaus með öllu sá málatilbúnaður kærða fyrir nefndinni að hann hafi enga aðkomu haft að málefnum C ehf. fyrr en í febrúarmánuði 2019. 

 

Kvörtun kæranda í málinu er í fyrsta lagi á því reist að kærði hafi gert á hans hlut, sem fyrirsvarsmaður C ehf., með því að hafa haft til innheimtu ólögmætar kröfur á grundvelli lánveitinga vegna svonefndra smálána. Hafi kærði með þeirri háttsemi brotið gegn 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 og 3. gr. siðareglna lögmanna. Byggir kærandi á að það fyrsta sem innheimtuaðili þurfi að skoða við mat á góðum innheimtuháttum, í skilningi 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008, hljóti ávallt að vera mat á því hvort undirliggjandi krafa sem taka á til innheimtu sé lögmæt. Hafi þær kröfur ekki staðist fyrstu skoðun um lögmæti þegar ákvæði laga, dómafordæmi og ákvarðanir/úrskurðir stjórnvalda séu skoðaðar. Þá geti innheimta á því sem innheimtuaðili veit eða má vita að séu ólögmætar kröfur ekki falið í sér góða innheimtuhætti. 

Líkt og rakið er í málsatvikalýsingu að framan má rekja hinaumþrættu lánveitingar, sem síðari innheimtakröfur C ehf. gagnvart kæranda voru grundvallar á, aftur til áranna 2016 og 2017. Var einnig gerð grein fyrir ákvörðun G í nóvember 2016 í máli nr. x/2016 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að D bæri að fara með kaupverð rafbóka eins og kostnað þegar reiknaður væri út heildarlántökukostnaður og árleg hlutfallstala kostnaðar. Þar hafi jafnframt verið talið að D hefði ekki fullnægt upplýsingaskyldu sinni og hafi af þeim sökum verið lögð stjórnvaldssekt að fjárhæð 2.400.000 krónur á félagið fyrir brot á lögum nr. 33/2013 um neytendalán. Áfrýjunarnefnd neytendamála hafi staðfest þá ákvörðun með úrskurði í marsmánuði 201x í máli nr. x/201x. Þá hafi bæði héraðsdómur og nú síðast Landsréttur, í dómi uppkveðnum þann x. nóvember 201x í máli nr. xxx/201x, sýknað G af kröfu D um ógildingu úrskurðar áfrýjunarnefndar og með því meðal annars staðfest niðurstöðu stjórnvaldsins varðandi útreikning heildarlántökukostnaðar og árlega hlutfallstölu kostnaðar. 

Kærandi hefur jafnframt vísað til ákvörðunar G frá x. ágúst 201x í máli nr. x/201x þar sem meðal annars var komist að þeirri niðurstöðu að E hefði brotið gegn 26. gr. laga nr. xx/201x með innheimtu kostnaðar af neytendalánum sem numið hafi hærri árlegri hlutfallstölu kostnaðar en 50% að viðbættum stýrivöxtum. 

Fyrir liggur að hvorugur málsaðila fyrir nefndinni hefur átt aðild að þeim dóms- og stjórnsýslumálum sem áður greinir og lotið hafa að gildi og lögmæti hinna svonefndu smálána. Þá fellur það utan valdsviðs nefndarinnar, eins og það er afmarkað í V. kafla laga nr. 77/1998, að leggja efnislegt mat á lögmæti slíkra lánveitinga eða ákveðinna þátta hvað þær varðar. 

Hvað það kvörtunarefni sem hér um ræðir varðar verður þó að telja að mati nefndarinnar að það eitt að innheimtuaðili taki til innheimtumeðferðar kröfu, sem fyrir liggur að efnislegur ágreiningur er um að hluta, geti ekki falið í sér brot gegn innheimtulögum nr. 95/2008 eða öðrum heimildum nema annað og meira komi til. Verður í því tilviki sem hér um ræðir þá að líta til þess að endanlega var ekki leyst úr ágreiningi sem laut að úrskurði G í máli nr. x/201x fyrr en með dómi Landsréttar x. nóvember 201x í máli nr. xxx/201x, en þau takmörkuðu gögn sem lögð hafa verið fyrir nefndina benda til að undirliggjandi lánveitingar til kæranda á árunum 2016 og 2017 hafi í það minnsta að hluta verið sambærilegar þeim lánveitingum sem tilgreint dómsmál tók til. Aftur er til þess að líta að hvorki kærði, C ehf. né kærandi áttu aðild að tilgreindu dómsmáli. Þá liggur fyrir að þá þegar, eða á vor- eða sumarmánuðum 201x, hafði farið fram endurútreikningur vegna smálánakrafna í innheimtu hjá C ehf., að kröfu félagsins gagnvart viðkomandi lánveitanda. Verður ekki annað ráðið af málsgögnum en að sá endurútreikningur hafi tekið til innheimtukrafna á hendur kæranda. Hefur þannig verið upplýst að ekki séu nú í innheimtu hjá kærða og C ehf. lán sem séu yfir því marki árlegrar hlutfallstölu kostnaðar sem lög nr. 33/2013 mæla fyrir um, þ.e. 53,75%. 

Ekki verður heldur framhjá því litið að mati nefndarinnar að þær lánveitingar sem hinar umþrættu innheimtukröfur tóku til fóru að miklu leyti fram eftir að ákvörðun G lá fyrir í máli nr. x/201x. Þrátt fyrir tilgreinda ákvörðun verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum að kærandi hafi haldið áfram töku smálána og að hann hafi ekki haft uppi nokkrar athugasemdar varðandi gildi og lögmæti viðkomandi krafna eða innheimtu þeirra fyrr en með tölvubréfi sem hann beindi til lánveitanda og C ehf. þann x. nóvember 201x. 

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki slegið föstu að áliti nefndarinnar að það eitt að C ehf. hafi haft til innheimtumeðferðar kröfur á hendur kæranda á árunum 201x – 201x, sem hafi verið umfram hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar samkvæmt lögum nr. 33/2013, hafi falið í sér brot gegn innheimtulögum nr. 95/2008 eða siðareglum lögmanna. Þá hefur ekki verið leitt í ljós að mati nefndarinnar að kærði hafi gert á hlut kæranda með því að hafa ekki upplýst um „réttarstöðu“ hans vegna hinna undirliggjandi krafna, svo sem kærandi byggir á í málatilbúnaði sínum. 

Í öðru lagi byggir kvörtun kæranda á að skráning á vanskilaskrá vegna krafna í innheimtu hjá kærða og C ehf. hafi brotið í bága við góða innheimtuhætti samkvæmt 1. og 2. mgr. 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 enda hafi falist í slíkri skráningu óhæfilegur þrýstingur á skuldara til að gera upp kröfur, í þessu tilfelli sem ágreiningur sé um. Eigi það við um kröfur þar sem skuldari hafi ekki samþykkt með sérstakri yfirlýsingu í lána- eða skuldaskjali að heimilt sé að setja hann á vanskilaskrá þegar vanskil hafa varað í að minnsta kosti 40 daga, en sú heimild sé ekki í nema hluta samning E. Kærði hefur á hinn bóginn hafnað því að nokkrum þrýstingi hafi verið beitt gegn kæranda. Skráning á vanskilaskrá sé algeng leið og þekkt í starfsaðferðum lögmanna og innheimtufyrirtækja auk þess sem slík skráning sé ekki til handa innheimtuaðila heldur kröfuhafa. 

Hvað tilgreint kvörtunarefni varðar þá hafa engin gögn verið lögð fyrir nefndina sem varpað gætu ljósi á það hvort og þá hvenær ætluð skráning kæranda á vanskilaskrá á að hafa átt sér stað vegna innheimtukrafna til meðferðar hjá ehf. Þá liggur fyrir heimild í báðum þeim lánasamningum sem kærandi hefur lagt fyrir nefndina til að tilkynna um vanskil sem varað hafa lengur en 40 daga til F, til skráningar á skrá yfir vanskil. Með hliðsjón af því hefur kærandi ekki fært viðhlítandi rök fyrir nefndinni fyrir því að kærði hafi með hinni ætluðu skráningu á vanskilaskrá gert á hlut hans með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. 

Í þriðja lagi er kvörtun kæranda á því reist að ekki hafi verið gerð grein fyrir kostnaði undirliggjandi smálánakrafna með fullnægjandi hætti við innheimtu þeirra af hálfu C ehf. og að innheimtuviðvörun hafi því ekki þjónað tilgangi sínum, sbr. c. lið 2. mgr. 7. gr. og 11. gr. innheimtulaga nr. 95/2008. Hafi upphaflegur höfuðstóll og lántökukostnaður þannig verið skráður saman sem ein fjárhæð sem brjóti gegn tilgreindu ákvæði þar sem mælt sé fyrir um að fjárhæð kröfu skuli sundurliðuð í höfuðstól og aðrar viðbótarkröfur. Sé það grundvallaratriði fyrir skuldara að hann geti gert sér raunverulega grein fyrir kostnaði við kröfu. Auk þess sé með þessum hætti verið að hækka höfuðstól með ólögmætum hætti þannig að krafan geti fallið í hærri innheimtukostnaðarflokk en hún raunverulega eigi að vera í, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 37/2009. Felist jafnframt í því rangar og villandi upplýsingar um staðreyndir sem séu mikilvægar fyrir afstöðu skuldara til kröfunnar og því brot gegn góðum innheimtuháttum, sbr. 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008. 

Í 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 er fjallað um innheimtuviðvörun. Í 2. mgr. 7. gr. er tekið fram hvað skuli standa í innheimtuviðvörun en þar greinir eftirfarandi í c. lið: „fjárhæð kröfu og skal sundurliða hver sé höfuðstóll og hverjar séu viðbótarkröfur, svo sem dráttarvextir og innheimtuþóknun; Þá kemur fram í 3. málsl. 11. gr. laganna að ef brotið sé gegn 7. gr. þeirra, þannig að innheimtuviðvörun þjóni ekki tilgangi sínum, verði skuldari aðeins krafinn um kostnað vegna viðvörunarinnar. 

Af málsgögnum verður ráðið að við hina umþrættu innheimtu hafi upphaflega verið gerð grein fyrir höfuðstól undirliggjandi krafna með því að taka saman í eina fjárhæð annars vegar höfuðstólsfjárhæð viðkomandi lánveitingar og hins vegar þá vexti sem lánið bar fram að gjalddaga. Virðist ágreiningslaust að sá innheimtuháttur hafi verið viðhafður af hálfu C ehf. allt frá sendingu slíkrar innheimtuviðvörunar sem 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 tekur til. Aðrar viðbótarkröfur, þ.e. dráttarvextir og innheimtuþóknun, hafa á hinn bóginn verið sérstaklega sundurliðaðar í þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir nefndina.  

Að mati nefndarinnar verður að fallast á með kæranda að máli geti skipt fyrir skuldara, þar á meðal vegna ákvæði um hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar í 26. gr. laga nr. 33/2013 um neytendalán, að skýrar upplýsingar liggi fyrir um sundurliðun fjárkröfu í innheimtu í höfuðstól annars vegar og aðrar viðbótarkröfur hins vegar. Á hinn bóginn er til þess að líta í máli þessu að við greiðslufall samkvæmt undirliggjandi lánasamningum á gjalddögum þeirra þann 16. og 17. september 2017 féllu í gjalddaga bæði upphafleg höfuðstólsfjárhæð lánveitingarinnar sem og áfallnir vextir samkvæmt viðkomandi lánasamningum. Þá verður ekki annað ráðið af málsgögnum en að C ehf. hafi bætt úr hinum ætlaða annmarka að þessu leyti, en í yfirliti yfir útistandandi kröfur sem innheimtuaðilinn sendi til kæranda þann 20. ágúst 2019 var gerð grein fyrir sundurliðun krafnanna í upphaflega lánsfjárhæð, lántökukostnað, dráttarvexti og innheimtukostnað. Með hliðsjón af því, sem og að teknu tilliti til þess að engar slíkar innheimtuviðvaranir sem 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 tekur til hafa verið lagðar fram í málinu, verður ekki talið að innheimtuhættir C ehf. og kærða hafi að því leyti sem hér um ræðir brotið í bága við 6. gr. laganna eða aðrar heimildir. 

Fjórða og síðasta kvörtunarefni kæranda lýtur að því að ekki sé unnt að líta svo á að eiginleg löginnheimta samkvæmt 3. mgr. 24. gr. og 24. gr. a. laga nr. 77/1998 hafi hafist með sendingu svonefndra „löginnheimtubréfa“ af hálfu C ehf. vegna hinna umþrættu krafna. Þannig hafi C ehf. aldrei stefnt kröfumáli fyrir dóm þrátt fyrir þúsundir innheimtukrafna. Jafnframt því hafi innheimtuaðilinn aldrei farið í neinar slíkar réttarfarsaðgerðir sem mælt sé fyrir um í 1. mgr. 24. gr. a. laga nr. 77/1998. Þá hafi innheimtukostnaður sem kærði og C ehf. hafi lagt á hinar umþrættu kröfur falið í sér brot á 12. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 og reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl. nr. 37/2009 með síðari breytingum, auk þess sem hinn ætlaði löginnheimtukostnaður hafi verið vel umfram þær fjárhæðir og hlutfall kostnaðar sem tiltekið sé í 2. gr. leiðbeinandi reglna fyrir lögmenn um endurgjald sem lögmönnum er hæfilegt að áskilja umbjóðendum sínum úr hendi skuldara vegna kostnaðar af löginnheimtu peningakröfu, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998. 

Kærði hefur á hinn bóginn andmælt málatilbúnaði kæranda að þessu leyti og byggt á því að hin umþrætta innheimta og kostnaður vegna hennar hafi að öllu leyti verið í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. 

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 gilda lögin um frum- og milliinnheimtu gjaldfallinna peningakrafna fyrir aðra eða vegna eigin starfsemi. Er kveðið á um í 2. mgr. að með fruminnheimtu sé átt við innheimtuviðvörun samkvæmt 7. gr. laganna. Með milliinnheimtu sé átt við innheimtuaðgerðir sem hefjist eftir að skuldari hefur fengið slíka innheimtuviðvörun og áður en löginnheimta hefst. Með löginnheimtu sé hins vegar átt við innheimtumeðferð á grundvelli 24. gr. a. laga nr. 77/1998 um lögmenn. 

Í 12. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 er kveðið á um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar. Er þar tiltekið að ráðherra geti ákveðið í reglugerð hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar, meðal annars þóknunar, sem heimilt sé að krefja skuldara um samkvæmt lögunum. Samkvæmt greininni skal fjárhæðin taka mið af þeim kostnaði sem kröfuhafi verður fyrir vegna innheimtunnar og nauðsynlegur og hóflegur geti talist. Þá sé heimilt að innheimta viðbót vegna umdeildra peningakrafna þar sem þörf hefur verið á sérfræðilegri ráðgjöf.  

Á grundvelli 12. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 liggur fyrir reglugerð nr. 37/2009 um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl. frá 21. janúar 2009, með síðari breytingum. 

Um löginnheimtu er hins vegar mælt fyrir um í 1. mgr. 24. gr. a. laga nr. 77/1998.  Er þar kveðið á um að lögmenn annist löginnheimtu og að með slíkri innheimtu sé átt við innheimtumeðferð á grundvelli réttarfarslaga og að upphaf hennar markist við aðgerðir sem byggðar séu á lögum um aðför nr. 98/1989, lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1991, lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 20/1991, eða tilkynningum sem samrýmast góðum lögmannsháttum. Þá er kveðið á um í 3. mgr. 24. gr. laganna að ráðherra skuli að fenginni umsögn Lögmannafélags Íslands gefa út leiðbeiningar handa lögmönnum um endurgjald sem þeim sé hæfilegt að áskilja umbjóðendum sínum úr hendi skuldara vegna kostnaðar af löginnheimtu peningakröfu. Voru slíkar leiðbeinandi reglur settar í innanríkisráðuneytinu þann 26. apríl 2013. 

Varðandi hið fyrrgreinda efni, þ.e. hvort innheimta C ehf. gagnvart kæranda vegna útistandandi krafna hafi í reynd falið í sér löginnheimtu, verður að mati nefndarinnar að horfa til þess hvernig viðkomandi innheimtuaðgerðum var háttað. Þær innheimtukröfur sem nefndin lítur til í því samhengi eru þær kröfur sem innheimtuaðilinn tiltók sérstaklega í fylgiskjali með tilkynningu um „alvarleg vanskil“ sem send var kæranda í tölvubréfi þann 20. ágúst 2019, en efni tölvubréfsins hefur áður verið rakið. Í tilgreindu fylgiskjali var meðal annars að finna eftirfarandi sundurliðun vegna hinna ætluðu vanskilakrafna E á hendur kæranda sem sagðar voru í löginnheimtu hjá C ehf.:  

EftirstöðvarLánsupphæðHöfuðst.m/vskDráttarvextir Innh.kostnGjalddagi 

  1. 51.712kr. 10.000kr. 10.338kr. 2.536kr. 38.83817.9.2017
  2. 85.842kr. 30.000kr. 31.016kr. 7.608kr. 47.21817.9.2017
  3. 68.596kr. 20.000kr. 20.677kr. 5.072kr. 42.84717.9.2017
  4. 85.842kr. 30.000kr. 31.016kr. 7.608kr. 47.21817.9.2017
  5. 85.842kr. 30.000kr. 31.016kr. 7.608kr. 47.21817.9.2017
  6. 85.842kr. 30.000kr. 31.016kr. 7.608kr. 47.21817.9.2017
  7. 85.842kr. 30.000kr. 31.016kr. 7.608kr. 47.21817.9.2017
  8. 85.842kr. 30.000kr. 31.016kr. 7.608kr. 47.21817.9.2017
  9. 153.426kr. 50.000kr. 51.694kr. 12.700kr. 89.03217.9.2017

Svo sem hér hefur verið rakið var gjalddagi framangreindra krafna á hendur kæranda í innheimtu hjá C ehf. dagana 16. og 17. september 2017. Málsgögn bera með sér að ætluð löginnheimta krafnanna hafi verið hafin snemma árs 2018 af hálfu innheimtuaðilans en kærandi hefur lagt fyrir nefndina sjö ítrekanir slíkra bréfa frá 22. febrúar 2018 þar sem því var lýst að ef ekki yrði brugðist við yrði aðför eða atbeina dómstóla beitt. 

Þrátt fyrir ætluð vanskil krafnanna um rúmlega tveggja ára skeið, er kvörtun í máli þessu var beint til nefndarinnar þann 3. desember 2019, hafði enn engri innheimtumeðferð á grundvelli réttarfarslaga verið beitt af hálfu C ehf. gagnvart kæranda, sbr. 1. mgr. 24. gr. a. laga nr. 77/1998. Þvert á móti verður ekki annað ráðið af málsgögnum en að innheimtuaðilinn hafi aðeins fylgt eftir hinum ætluðu löginnheimtubréfum með tölvubréfum, smáskilaboðum og símhringingum til kæranda þar sem tilkynnt var um „ógreiddar kröfur“ og „alvarleg vanskil“. Samkvæmt því verður að mati nefndarinnar ekki annað ályktað af viðkomandi innheimtuháttum en að ekki hafi staðið til að beita réttarfarslögum við innheimtuna. Hafi þannig engin eðlisbreyting orðið á innheimtunni frá sendingu frum- og milliinnheimtubréfa annars vegar, í samræmi við ákvæði innheimtulaga nr. 95/2008, og því þegar hin ætlaða löginnheimta C ehf. átti að hafa hafist með sendingu löginnheimtubréfs. Fær það fulla stoð í því sem fram hefur komið í málatilbúnaði kærða fyrir nefndinni í máli nr. 26/2019 sem rekið er samhliða máli þessu, en þar segir meðal annars: 

Samkvæmt upplýsingum frá S tók C þá afstöðu að innheimta ekki lán fyrir kröfuhafa á grundvelli réttarfarslaga til að koma í veg fyrir óþarfa kostnað skuldara. C hefur heldur reynt að fara samningaleið við skuldara í samráði við kröfuhafa með hagsmuni beggja aðila að leiðarljósi.“  

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður að áliti nefndarinnar að telja að C ehf., og kærði fyrir þess hönd, hafi viðhaft tilgreindar innheimtuaðgerðir á hendur kæranda vegna hinna útistandandi krafna, í þágu umbjóðanda síns, sem lið í ætlaðri frum- og milliinnheimtu gagnvart kæranda. Verði því að fallast á með kæranda að eiginleg löginnheimta krafnanna hafi ekki hafist enda verði ekki talið að í löginnheimtubréfum og ítrekunum þeirra gagnvart kæranda hafi falist tilkynningar „sem samrýmast góðum lögmannsháttum“, sbr. 1. mgr. 24. gr. a. laga nr. 77/1998. Hafi því innheimtuaðgerðir C ehf. gagnvart kæranda fallið undir gildissvið innheimtulaga nr. 95/2008 enda ekki um löginnheimtu að ræða, þ.e. innheimtumeðferð á grundvelli réttarfarslaga, sbr. 1. og 2. mgr. 1. gr. laganna.  

Með hliðsjón af fyrrgreindri niðurstöðu verður að leggja til grundvallar að kærða og C ehf. hafi borið að fara með kostnað af viðkomandi innheimtukröfum samkvæmt innheimtulögum nr. 95/2008, sbr. einnig reglugerð nr. 37/2009 um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl. 

Áður er rakið efni 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 þar sem kveðið er á um góða innheimtuhætti. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að framangreindum lögum var meðal annars tiltekið að gæti þyrfti góðra innheimtuhátta við sérhverja ráðstöfun eða athöfn sem væri þáttur í innheimtu. Þá gilti sú regla í skiptum innheimtuaðila og skuldara að innheimtuaðili ætti ekki að gefa skuldara rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða réttarreglur sem mikilvægar væru fyrir afstöðu hans til kröfunnar. 

Svo sem ráðið verður af stöðu útistandandi krafna á hendur kæranda í innheimtu hjá C ehf. þann 20. ágúst 2019 voru upphafleg smálán sem kærandi tók á árinu 2017 að höfuðstólsfjárhæð frá 10.000 krónum til 50.000 króna. Umkrafinn innheimtukostnaður á því tímamarki vegna krafnanna var á hinn bóginn frá 38.838 krónum til 89.032 króna eða í öllum tilvikum umtalsvert hærri en höfuðstólsfjárhæð lánanna. 

Að mati nefndarinnar var hinn umkrafði innheimtukostnaður í engu samræmi við heimildir í innheimtulögum nr. 95/2008 og reglugerð nr. 37/2009 um hámarksfjárhæð innheimtukostnaður o.fl. og raunar langt umfram þau mörk sem þar er kveðið á um, sbr. einkum 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar með síðari breytingum. Verður þá jafnframt að líta til þess að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar skal skuldari einungis greiða fyrir eina skyldubundna innheimtuviðvörun, valfrjálst milliinnheimtubréf og tvær valfrjálsar ítrekanir á þeim og eitt símtal í milliinnheimtu þar sem samband næst jafnframt því sem mælt er fyrir um að óheimilt sé að leggja á prósentugjöld miðað við skuld, vanskilagjöld eða önnur samsvarandi gjöld. Þá verður að líta til þess að kærði hefur hvorki leitast við að sýna fram á í málinu að hinn umkrafði innheimtukostnaður hafi í reynd tekið mið af kostnaði kröfuhafa  vegna innheimtunnar né að þörf hafi verið á sérfræðilegri ráðgjöf við hana, sbr. 12. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 og 4. gr. reglugerðar nr. 37/2009. Er það því niðurstaða nefndarinnar að sá innheimtukostnaður sem C ehf. áskildi umbjóðanda sínum úr hendi kæranda við innheimtuna hafi talist óhóflegur. 

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður að leggja til grundvallar að í innheimtuaðgerðum kærða vegna C ehf. gagnvart kæranda hafi falist frum- og milliinnheimta gjaldfallinna peningakrafna í skilningi innheimtulaga nr. 95/2008. Hafi því ekki verið um eiginlega löginnheimtu að ræða eftir 24. gr. a. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 3. mgr. 24. gr. laganna. Breyti engu í því samhengi þótt innheimtuaðilinn hafi sent bréf með yfirskriftinni „Löginnheimtubréf“ eða „Löginnheimtubréf – Ítrekun“ til kæranda, svo sem fyrr er rakið. Þá bar kærða fyrir hönd innheimtuaðilans að fara með innheimtukostnað samkvæmt innheimtulögum nr. 95/2008 og reglugerð nr. 37/2009 en ekki samkvæmt lögum nr. 77/1998, sbr. einnig auglýsingu nr. 50/2013 um leiðbeinandi reglur fyrir lögmenn um endurgjald sem þeim er hæfilegt að áskilja umbjóðendum sínum úr hendi skuldara vegna kostnaðar af löginnheimtu peningakröfu. Var sá aukni innheimtukostnaður sem leiddi af ætlaðri löginnheimtu gagnvart kæranda vegna hinna útistandandi krafna því haldlaus með öllu og fór í bága við góða innheimtuhætti, sbr. áðurgreind 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008. 

Að mati nefndarinnar verða lögmenn að haga kröfugerð um innheimtukostnað í frum- og milliinnheimtu, líkt og leggja verður til grundvallar að átt hafi við um innheimtumeðferð kærða fyrir hönd C ehf. gagnvart kæranda, í samræmi við heimildir innheimtulaga nr. 95/2008 og fyrrgreindrar reglugerðar nr. 37/2009. Varð misbrestur á þessu í innheimtuaðgerðum kærða gagnvart kæranda, líkt og áður er rakið, og voru þær til þess fallnar að valda kæranda tjóni og óþægindum. Fór háttsemi kærði að því leyti því jafnframt gegn góðum innheimtuháttum samkvæmt 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 auk þess sem hún fór í bága við 12. gr. sömu laga, sbr. einnig 4. gr. og 1. og 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 37/2009 með síðari breytingum.   

Að öllu framangreindu gættu er það niðurstaða nefndarinnar að kærði hafi gert á hlut kæranda með háttsemi sem brotið hafi í bága við ákvæði innheimtulaga nr. 95/2008 og reglugerðar nr. 37/20019. Fyrir liggur að kærði hefur sætt aðfinnslum af hálfu nefndarinnar vegna brota á góðum innheimtuháttum samkvæmt 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 í úrskurðum 27. júní 201x í máli nr. x/201x og x. maí 20xx í máli nr. xx/201x sem rekið er samhliða máli þessu fyrir nefndinni. Að mati nefndarinnar verður við ákvörðun viðurlaga í máli þessu að líta heildstætt til þeirra brota kærða sem hér hefur verið lýst en þau taka til 6. og 12 gr. innheimtulaga nr. 95/2008, sbr. einnig 4. gr. og 1. og 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 37/2009 með síðari breytingum. Er það niðurstaða nefndarinnar, með hliðsjón af alvarleika brotanna, að veita kærða áminningu samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 vegna háttsemi hans gagnvart kæranda í málinu. 

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð : 

Kröfum kæranda, A, um að C ehf. verði gert að hætta allri innheimtu gagnvart sér vegna útistandandi krafna, að innheimtukostnaður verði felldur niður og að C ehf. verði gert að endurgreiða kæranda ofgreiddan innheimtukostnað að fjárhæð 766.267 krónur, er vísað frá nefndinni. 

Kærði, B lögmaður, sætir áminningu. 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA 

Kristinn Bjarnason lögmaður, formaður 

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður 

Valborg Þ. Snævarr lögmaður  

 

 

Rétt endurrit staðfestir 

 

 

________________________ 

Sölvi Davíðsson