Mál 4 2019

Mál 4/2019

Ár 2019, miðvikudaginn 4. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2019:

A ehf.,

gegn

C og B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 6. febrúar 2019 erindi D fyrir hönd kæranda, A ehf., en í því er kvartað yfir því að kærðu, C lögmaður og B lögmaður, hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærðu var veitt færi á að skila inn greinargerðum vegna kvörtunarinnar með bréfum dags. 7. febrúar 2019 og bárust þær dagana 22. febrúar og 5. mars 2019. Greinargerðir kærðu voru sendar kæranda til athugasemda með bréfi hinn síðastgreinda dag. Hinn 21. mars 2019 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar kærðu þann sama dag. Svar kærða C barst 9. apríl 2019 og var það sent til kæranda með bréfi dags. 11. sama mánaðar með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Kærandi lagði loks fram frekari gögn í málinu þann 11. apríl 2019 og var þeim komið á framfæri við kærðu með bréfi dags. 12. sama mánaðar. Engar frekari athugasemdir voru gerðar og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt gögnum málsins og málsatvikalýsingu aðila mun kærandi vera heildverslun. Mun kærði C hafa annast lögmannsstörf í þágu kæranda frá árinu 2006 jafnframt því sem hann mun hafa tekið að sér stöðu stjórnarformanns hjá félaginu um mitt ár 2014.

Í dómi Hæstaréttar x. febrúar 201x í máli nr. xxx/xxxx, sem hefur fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir þar til það gagnstæða er sannað, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, greinir að fyrirsvarsmaður E slf., F, hafi verið ráðinn framkvæmdastjóri kæranda frá 1. júní 2015. Hafi hann starfað þar sem slíkur þar til hann lét af störfum 24. ágúst 2015 í kjölfar ágreinings við hluthafa, en þann sama dag mun kærði C hafa sagt sig úr stjórn kæranda og látið af allri hagsmunagæslu í þágu aðilans. Þann sama dag mun framkvæmdastjórinn fyrir hönd kæranda hafa greitt reikning E slf. vegna launa hans fyrir september, október og nóvember 2015 samkvæmt ráðningarsamningi, dags. 1. júní 2015, og viðauka við hann, dags. 24. júlí 2015. Mun kærði C hafa ritað undir viðkomandi ráðningarsamning og viðauka við framkvæmdastjórann fyrir hönd kæranda sem stjórnarformaður félagsins.

Meðal málsgagna er að finna drög að breytingu á ráðningarsamningnum dags. í júlí 2015. Þá liggur fyrir tölvubréf kærða C til F, dags. 16. ágúst 2015, sem ber með sér að drög að breyttum ráðningarsamningi hafi verið því meðfylgjandi. Var þar jafnframt tiltekið að kærði C þyrfti að fá allar kennitölur og heimilisföng enda væri mikilvægt að starfsmenn hefðu ekki á tilfinningunni að eitthvað væri að gerast heldur frekar að um væri að ræða ófrágengið mál.

Í kjölfar breytingar á stjórnun kæranda krafðist aðilinn þess að kyrrsettar yrðu eignir E slf. til tryggingar ætluðum kröfum kæranda, sem gerðarbeiðanda, vegna greiðslu þeirrar sem innt hafði verið af hendi þann 24. ágúst 2015. Bera gögn málsins með sér að kyrrsetningargerðin hafi farið fram þann x. september 201x þar sem kyrrsett var innstæða á nánar tilgreindri bankabók í eigu E slf.

Í framhaldi af því höfðaði kærandi mál á hendur E slf. þar sem gerð var nánar tilgreind fjárkrafa jafnframt því sem þess var krafist að fyrrgreind kyrrsetningargerð yrði staðfest. Var málið þingfest í Héraðsdómi X þann x. september 201x sem málið nr. E-xxx/xxxx. Annaðist kærði B hagsmunagæslu í þágu E slf. fyrir dómi. Í máli þessu liggja meðal annars fyrir endurrit aðila- og vitnaskýrslna sem fram fóru undir aðalmeðferð fyrrgreinds dómsmáls þann x. apríl 201x, þar á meðal skýrsla kærða C. Með dómi héraðsdóms, uppkveðnum x. maí 201x, var E slf. sýknað af kröfum kæranda jafnframt því sem felld var úr gildi kyrrsetning sú sem farið hafði fram x. september 201x. Var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar x. febrúar 201x í máli nr. xxx/xxxx og kæranda gert að greiða E slf. x krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Þann x. apríl 201x höfðaði E slf. mál á hendur kæranda til heimtu skaðabóta vegna kyrrsetningar þeirrar sem felld hafði verið úr gildi með dómi Hæstaréttar  í máli nr. xxx/xxxx. Var málið þingfest í Héraðsdómi X og hlaut það málsnúmerið E-xxx/xxxx. Til stuðnings kröfu sinni um ætlað fjártjón vegna kyrrsetningarinnar lagði E slf. fram undir rekstri málsins, nánar tiltekið á dómþingi þann x. september 201x, reikning sem útgefinn hafði verið á hendur félaginu af lögmannsstofu kærða C þann x. apríl 201x.

Nánar tiltekið var um að ræða reikning nr. 984 að fjárhæð x. krónur með virðisaukaskatti en á honum var sérstaklega tiltekið að um væri að ræða lögfræðiþjónustu vegna „kyrrsetningarmáls á hendur E sf.“ Í nánari sundurliðun reikningsins kom fram að hann tæki til símtals við „B“ vegna kyrrsetningargerðar, fundar með sama aðila vegna viðbragða við kyrrsetningu, fundar með lögmanni, athugunar á kyrrsetningarbeiðni og fylgiskjölum, yfirferðar úrskurðar og næstu skrefa, ritunar greinargerðar, frágangs skjala fyrir dómi, undirbúnings fyrir málflutning með „B“ og skýrslugjöf við málflutning.

Meðal málsgagna er að finna smáskilaboð sem framkvæmdastjóri kæranda sendi til kærða C þann 24. september 2017. Þar lýsti framkvæmdastjórinn því meðal annars að hann hefði undir höndum viðkomandi reikning þar sem fram kæmi að kærði C hefði þegið þóknun fyrir vitnaskýrslu í héraði.

Í málinu liggja jafnframt fyrir reikningar sem lögmannsstofa kærða B gaf út á hendur E slf. dagana x. janúar og x. mars 2016 að heildarfjárhæð x. krónur með virðisaukaskatti vegna reksturs hins fyrra dómsmáls.

Aðalmeðferð málsins nr. E-xxx/xxxx mun hafa farið fram í Héraðsdómi X þann x. mars 201x. Fyrir liggur aðilaskýrsla F, framkvæmdastjóri E slf., þar sem fram kom að fyrrgreindur reikningur kærða C hafi verið tilkominn vegna reksturs málsins nr. E-xxx/xxxx og að hann hafi unnið að málinu með kærða B.

Dómur í málinu var uppkveðinn þann x. mars 201x. Samkvæmt dómsorði var kæranda gert að greiða E slf. x. krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum auk málskostnaðar. Af málatilbúnaði aðila verður ráðið að dómi héraðsdóms hafi ekki verið áfrýjað.

Í málinu liggur jafnframt fyrir dómur Héraðsdóms X x. mars 201x í máli nr. S-xxx/xxxx sem og dómur Hæstaréttar x. maí 201x í máli nr. xxx/xxxx en kærði C hefur meðal annars um málsatvik vísað til tilgreindra dóma fyrir nefndinni. Þá hefur kærandi lagt fyrir nefndina reikning sem lögmannsstofa kærða C gaf út á hendur kæranda þann x. júlí 201x að fjárhæð x. krónur vegna veittrar þjónustu. Verður gerð grein fyrir tilgreindum gögnum við lýsingu á málsástæðum aðila fyrir nefndinni, eftir því sem við getur átt.

II.

Skilja verður málatilbúnað kæranda þannig að þess sé krafist að kærðu verði gert að sæta agaviðurlögum fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Byggir kærandi á að framferði kærðu hafi verið afar gróft og að því eigi að koma til skoðunar svipting réttinda, sbr. 2. mgr. 15. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Þá krefst kærandi málskostnaðar úr hendi kærðu vegna reksturs málsins fyrir nefndinni, sbr. 3. mgr. 15. gr. fyrrgreindra reglna.

Í kvörtun kæranda er vísað til þess að í kjölfar deilna og átaka innan stjórnar og hluthafahóps aðilans hafi orðið breytingar á stjórn félagsins sem leitt hafi til þess að stjórnarformaður, kærði C, og framkvæmdastjóri létu af störfum. Í framhaldi þess hafi komið í ljós að þáverandi framkvæmdastjóri hefði látið greiða félagi í sinni eigu, E slf., jafngildi þriggja mánaða launa í eingreiðslu við starfslok hans. Hafi viðkomandi byggt greiðsluna á viðauka við ráðningarsamning hans sem gerður hefði verið án aðkomu stjórnar kæranda.

Kærandi vísar til þess að komið hafi þá í ljós að gerðir hefðu verið sambærilegir viðaukar við ráðningarsamninga allra starfsmanna félagsins. Hafi nánari eftirgrennslan leitt í ljós að reynt hefði verið að eyða sönnunargögnum úr tölvubúnaði félagsins jafnframt því að viðaukarnir hefðu verið unnir af kærða C og sendir úr tölvupóstfangi hans til þáverandi framkvæmdastjóra þann x. ágúst 201x. Lýsir kærandi því að viðaukarnir hafi verið bein viðbrögð kærða C og framkvæmdastjórans við fyrirætlun um breytingu á stjórnun félagsins.

Kærandi byggir á að háttsemi þessi hafi verið gerð í þeim tilgangi að lama eigendavald félagsins og tryggja stjórnarhald F, þáverandi framkvæmdastjóra kæranda, og kærða C, þáverandi stjórnarformanns þess. Hafi tilgreindir aðilar jafnframt átt beina fjárhagslega hagsmuni af því að svo yrði áfram, enda hafi þeir innheimt báðir fjármuni af kæranda fyrir vinnu sína í þágu félagsins. Þannig hafi þeir báðir þegið vel yfir 1.000.000 króna á mánuði frá kæranda. Samkvæmt því hafi gerningurinn aðeins verið í þágu þeirra en beinlínis gengið gegn hagsmunum kæranda og hluthafa hans.

Kærandi vísar til þess að þegar nýir stjórnendur hefðu náð tökum á félaginu og áttað sig á hvað hefði gerst hafi þeir strax hafist handa við að endurheimta féð. Hafi þótt rétt að krefjast kyrrsetningar á eigum E slf., sem verið hafi í eigu fyrrgreinds F, til að tryggja kröfur kæranda. Hafi kyrrsetningargerð farið fram þann x. september 201x að beiðni kæranda en þá hafi aðeins x. krónur staðið eftir af þeim x. krónu sem millifærðar hefðu verið af reikningi kæranda inn á reikning E slf.

Kærandi kveðst hafa höfðað mál í kjölfarið fyrir Héraðsdómi X til staðfestingar á kyrrsetningargerðinni. Hafi aðalmeðferð málsins farið fram þann x. apríl 201x þar sem F hafi gefið aðilaskýrslu. Jafnframt því hafi kærði C gefið vitnaskýrslu í málinu. Vísar kærandi til þess að skýrslur þeirra hafi verið mjög áþekkar og að miklu leyti í samræmi við greinargerð málsins. Hafi dómur ekki fallist á málatilbúnað kæranda. Samkvæmt því hafi verið sýknað í málinu og kyrrsetning á fjármunum E slf. felld úr gildi. Þá hafi Hæstiréttur staðfest þá niðurstöðu með dómi x. febrúar 201x í máli nr. xxx/xxxx.

Vísað er til þess í kvörtun að E slf. hafi í framhaldi þessa höfðað mál á hendur kæranda til heimtu skaðabóta vegna kyrrsetningar þeirrar sem felld hefði verið úr gildi. Hafi tilgreint félag þannig meðal annars krafist bóta vegna dráttarvaxta af reikningum vegna lögmanna sem komið hafi að rekstri hins fyrra máls. Hafi verið lagðir fram reikningar vegna lögmannskostnaðar því til stuðnings, þar á meðal reikningur sem stafað hafi frá lögmannsstofu kærða C. Kveður kærandi það hafa vakið athygli enda hafi kærði B rekið hið fyrra mál fyrir hönd E slf.

Af þeim sökum hafi F verið spurður um reikninginn við aðalmeðferð hins síðara máls í héraði. Hafi F þar staðfest að kærði C hefði unnið í málinu og ritað greinargerð vegna þess. Bendir kærandi á að ráða megi af reikningnum að kærði C hafi unnið að málinu í þágu E slf. allt frá því að kyrrsetningarbeiðnin hafi komið fram, ritað greinargerð í málinu, unnið að frágangi skjala til framlagningar, komið að undirbúningi aðalmeðferðar með kærða B sem hafi aðeins verið skráður fyrir málinu að forminu til. Þá hafi kærði C enn fremur skráð þann tíma sem hann hafi varið í að gefa skýrlu við aðalmeðferð málsins og innheimt lögmannsþóknun fyrir það viðvik. Vísar kærandi til þess að dómur í hinu síðara máli hafi verið kveðinn upp í héraði þann x. mars 201x þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að kærandi væri skaðabótaskyldur gagnvart E slf.

Kærandi byggir á að með skýrslu fyrirsvarsmanns E slf. fyrir dómi þann x. mars 201x hafi kæranda fyrst verið unnt að leggja fram kvörtun þar sem þá hafi verið upplýst um aðkomu kærða C að málinu. Samkvæmt því sé kvörtun í málinu fram komin innan tímamarka þeirra sem kveðið sé á um 27. gr. laga nr. 77/1998.

Á því er byggt að með framferði sínu hafi kærði C brotið freklega gegn trúnaði sínum gagnvart kæranda. Hafi kærði C þannig um árabil veitt kæranda lögmannsþjónustu jafnframt því sem hann hafi lagt til á grundvelli þeirra starfa að stjórnarmönnum hjá kæranda yrði fjölgað úr þremur í fimm og að hann og fyrrgreindur F tækju sæti í stjórn félagsins. Er vísað til þess að við starfslok kærða C hafi kærandi mátt bera traust til þess að kærði C sýndi félaginu sérstakan trúnað í ljósi fyrra réttarsambands.

Á hinn bóginn bendi málsgögn til þess að kærði C hafi unnið gegn kæranda í störfum sínum sem stjórnarformaður jafnframt því sem hann hafi lagst á sveif með mótaðila kæranda í dómsmáli og tekið upp málsvarnir fyrir hans hönd, svo til á sama tíma og störfum hans hafi lokið hjá kæranda. Hafi kærði C í engu skeytt um áralangt trúnaðarsamband hans og kæranda. Sýni það glögglega vonda trú hins kærða að hann hafi látið annan lögmann „leppa“ störf sem hann hafi unnið í laumi. Hafi kærði C með því athæfi brotið freklega gegn 11. og 17. gr. siðareglna lögmanna. Byggir kærandi jafnframt á að með framferði sínu við rekstur héraðsdómsmálsins nr. E-xxx/xxxx hafi kærðu brotið gróflega gegn starfsskyldum sínum sem lögmenn.

Kærandi bendir á að málsvörn E slf. gegn kröfugerð kæranda í kyrrsetningarmálinu hafi að mestu leyti byggt á skýrslu kærða C. Þá verði að hafa í huga að dómari hafi haft sérstakt tilefni til að leggja ríkari trúnað í vitnaskýrslu kærða C, þar sem hann hafi tiltekið í skýrslu sinni að hann hafi annars vegar verið stjórnarformaður kæranda og hins vegar sinnt lögmannsstörfum fyrir aðilann frá árinu 2006. Hafi dómari eðli málsins samkvæmt getað treyst því að eftir tæplega 10 ára störf sem lögmaður kæranda, gæti sá hinn sami ekki snúist gegn aðilanum og tekið upp varnir fyrir gagnaðila í dómsmáli. Enn þá síður ef sami lögmaður hefði gegnt ríkari trúnaðarskyldum fyrir félagið sem stjórnformaður.

Vísað er til þess í málatilbúnaði kæranda að gögn málsins bendi til þess að kærði C hafi veitt E slf. lögfræðilega ráðgjöf vegna kyrrsetningarbeiðni kæranda aðeins nokkrum dögum eftir fyrrgreind starfslok hans sem stjórnarformanns. Þar að auki hafi kærði C ritað þá greinargerð sem grundvallað hafi málsvörn E slf. fyrir dómi jafnframt því að gefa vitnaskýrslu í þeim tilgangi að renna stoðum undir það sem hann hefði sjálfur ritað. Hafi kærði C innheimt lögmannsþóknun úr hendi E slf. fyrir vinnuna. Með þessu hafi F og kærða C tekist að hylma yfir þá brotastarfsemi sem þeir hafi stundað í störfum sínum fyrir kæranda.

Kærandi bendir á að ef allt framangreint hefði legið til grundvallar í hinum fyrri málarekstri hefði aðilinn andmælt skýrslugjöf kærða C fyrir dómi enda ljóst að slík skýrsla hefði ekkert sönnunargildi. Þá er vísað til þess að svo til allar forsendur fyrir niðurstöðu í málinu hafi byggt á einhliða yfirlýsingum sem kærði C hafi ritað í greinargerð og veitt staðfestingu í vitnaskýrslu fyrir dómi.

Í samræmi við allt framangreint byggir kærandi á að dómur í málinu hafi verið vísvitandi afvegaleiddur enda sé yfir vafa hafið að málsatvik hafi ekki verið réttilega leidd í ljós. Ef málið hefði þannig verið rekið á réttum grunni telur kærandi ljóst að niðurstaða málsins hefði orðið á annan veg. Samkvæmt því er á því byggt að kærðu hafi sameiginlega valdið réttarspjöllum í málinu og að athafnir þeirra hafi brotið freklega gegn 19., 20., 21. og 22. gr. siðareglna lögmanna.

Í viðbótarathugasemdum kæranda vegna greinargerða og málatilbúnaðar kærðu fyrir nefndinni er varðandi formhlið málsins vísað til þess að kvörtun í málinu sé ekki of seint fram komin. Er vísað til þess að kærandi hafi ekki haft neina staðfestingu í höndum um aðkomu kærða C að málsvörn E slf. fyrir dómi. Ákveðið hafi því verið að spyrja fyrirsvarsmann tilgreinds félags um þetta atriði í skýrslugjöf fyrir dómi og hafi þá sannleikurinn um aðkomu kærða C komið í ljós. Án þeirrar staðfestingar hafi kærandi ekki haft neitt mál í höndum enda sönnunarstaða engin. Þá byggir kærandi á að tímafresti beri að túlka ólöglærðum kæranda í hag enda lögmaður í yfirburðastöðu til að taka til varna. Samkvæmt því verði að horfa til víðari tímafresta fremur en þrengri.

Kærandi vísar til þess að hann hafi ekki gert mikið úr störfum kærða C sem stjórnarformanns hjá kæranda enda hafi þau störf ekki heyrt beint undir valdsvið úrkurðarnefndar lögmanna. Þau störf hafi þó tengst fyrirliggjandi kvörtunarefnum að einhverju leyti og samkvæmt því á því byggt að kærði C hafi í senn brotið gegn starfsskyldum sínum sem lögmaður og stjórnarformaður.

Á það er bent að kærði C hafi allt frá árinu 2005 veitt kæranda lögmannsþjónustu að nokkru umfangi. Kveður kærandi það afar hæpna túlkun á trúnaðarskyldum lögmanns að hann geti að loknu samfelldu tíu ára trúnaðarsambandi snúið sér að öðrum viðskiptamanni og tekið upp málsvörn gegn kröfugerð kæranda.

Kærandi vísar til þess að fyrirliggjandi málskostnaðarreikningur kærða C tali sínu máli. Lýsi reikningurinn þannig öllum skrefum við rekstur dómsmáls, að því frátöldu að lokahnykkur er skýrslugjöf fyrir dómi en ekki munnlegur málflutningur. Í ljósi reikningsins, sem hafi verið að fjárhæð x. krónur, sé fráleitt að ætla að að kærði C hafi ekki ritað greinargerð og raunar komið með mjög víðtækum hætti að undirbúningi málsins. Beri jafnframt málskostnaðarreikningar kærða B þess merki, sem hafi verið að heildarfjárhæð x. krónur með virðisaukaskatti.

Í samræmi við allt framangreint byggir kærandi á að kvörtun hans eigi fullkomlega rétt á sér og að tæpast verði séð að þeir lögmannshættir sem hér um ræði séu samrýmanlegir þeim skyldum sem kveðið sé á um í siðareglum lögmanna, sbr. einnig 22. gr. laga nr. 77/1998.

III.

Kærði C lögmaður krefst þess aðallega að kvörtun kæranda verði vísað frá nefndinni en til vara að kröfu kæranda verði hafnað. Þá krefst kærði þess að kæranda verði gert að greiða sér málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Varðandi málsatvik vísar kærði til dóma Hæstaréttar x. febrúar 201x og x. maí 201x í málum nr. xxx/xxxx og xxx/xxxx sem og til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur x. mars 201x í máli nr. S-xxx/xxxx. Af þeim dómum verði ráðið að málsatvikalýsing kæranda sé röng eða villandi í mörgum atriðum. Þá beri að hafa í huga að í dómsmáli kæranda gegn E slf. hafi lögmaður hins fyrrgreinda ekki leitt neinn fyrir dómi í héraði, þ.e. hvorki fyrirsvarsmann kæranda, aðra hluthafa eða starfsmenn. Telji kærandi að það hafi valdið réttarspjöllum verði hann að eiga það við viðkomandi lögmann sem rekið hafi málið.

Kærði bendir á að hann hafi vísað fyrirsvarsmanni E slf., F, á kærða B sem lögmann. Að beiðni kærða B hafi kærði C ritað greinargerð eða minnisblað um málið einungis í þeim tilgangi að staðreyndir lægju fyrir sem réttastar frá sjónarhorni aðilans. Kveðst kærði þekkja vel til allra málsatvika enda hafi hann ásamt meðal annars G lögmanni, gengið frá verksamningi við E slf. þegar fyrrgreindur F hafi tekið við sem framkvæmdastjóri kæranda í júní 2015. Í verksamningnum hafi verið ákvæði þess efnis að væri F sagt upp „án sakar“ af hans hálfu skyldi hann fá greidd verklaun í þrjá mánuði án vinnuskyldu á tímabilinu.

Kærði mótmælir öllum röksemdum kæranda í kvörtun sem of seint fram komnum, röngum og oft óljósum.

Aðalkrafa kærða um frávísun málsins er reist á því að kvörtun í málinu sé of seint fram komin, sbr. 2. málslið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Skipti ekki máli í því sambandi hvort miðað sé við dagsetningu kvörtunareyðublaðsins eða óundirritaðrar greinargerðar enda komi fram á fyrirliggjandi reikningi frá x. apríl 201x, sem lögmannsstofa kærða hafi gefið út á hendur E slf., að hann hafi verið lagður fram sem dómskjal fyrir héraðsdómi þann x. september 201x. Samkvæmt því hafi kæranda þá í síðasta lagi mátt vera ljóst um tilvist þessa reiknings sem kvörtun í málinu sé reist á.

Kærði hafnar því með öllu að hann hafi brotið gegn 11. gr. siðareglna lögmanna enda hafi kærandi slitið samningssambandi aðila. Samkvæmt því séu skilyrði þau sem sett séu í greininni ekki til staðar. Sama máli gegni um 17. gr. siðareglnanna en ljóst sé að tilgreiningu á meintum brotum kærða samkvæmt þeirri grein skorti í kvörtun. Bendir kærði á að hann hafi engum afhent trúnaðarupplýsingar eða slík gögn um kæranda enda sé ekki á því byggt af hálfu hins síðargreinda. Séu ásakanir kæranda þannig almenns eðlis og málatilbúnaðurinn ófullnægjandi og án stoðar.

Í málatilbúnaði kærða er því mótmælt að hann hafi snúist gegn kæranda í störfum sínum sem stjórnarformaður félagsins. Byggir kærði á að um ósmekklegar aðfinnslur séu að ræða í hans garð. Þannig hafi núverandi framkvæmdastjóri kæranda verið hættur að mæta til starfa hjá kæranda auk þess sem ekki hafi verið hægt að ná í hann. Ekki hafi því verið annað fært til að bjarga starfseminni en að ráða nýjan framkvæmdastjóra til bráðabirgða. Hafi orðið úr að F, sem þá hafi verið starfsmaður kæranda, var ráðinn framkvæmdastjóri til bráðabirgða samkvæmt löglegri stjórnarákvörðun.

Kærði byggir á að allar ráðstafanir hans sem stjórnarformanns kæranda á árinu 2015 hafi miðað að því að halda rekstri kæranda í lagi þrátt fyrir innbyrðis ágreining hluthafa og háttsemi núverandi framkvæmdastjóra félagsins. Þá hafi kærði tilkynnt um úrsögn sína úr stjórn þann x. ágúst 2015 þegar fyrir hafi legið samkomulag hluthafa um að víkja ætti honum og F úr stjórninni.

Kærði hafnar því sem röngu að hann hafi tekið upp málsvarnir fyrir hönd E slf. undir rekstri kyrrsetningarmálsins. Vísar kærði til þess að hið rétta sé að F hafi óskað eftir fundi með sér vegna málsins sem hann hafi samþykkt enda þá í engu samningssambandi við kæranda. Kveðst kærði hafa bent kæranda á kærða B sem lögmann, sem tekið hafi að sér málið í þágu E slf. Hins vegar hafi kærði ritað greinargerð eða minnisblað um málsatvik að beiðni kærða B. Hafi það síðan alfarið verið undir kærða B komið hvernig hann nýtti þau skrif. Þá hafi kærði gefið út reikning á E slf. vegna þessarar vinnu líkt og eðlilegt verði að telja. Verði ekki séð að slíkt hafi á nokkurn hátt leitt til þess að trúnaðarskylda gagnvart kæranda væri rofin í skilningi 17. gr. siðareglnanna.

Varðandi meint brot gegn 19., 20., 21. og 22. gr. siðareglna lögmanna vísar kærði sérstaklega til dóms Hæstaréttar í máli nr. xxx/xxxx, sbr. einnig héraðsdómsmálið nr. E-xxxx/201x. Er á það bent að þeim sjónarmiðum sem fram komi um hin ætluðu brot sé öllum hafnað. Þá bendir kærði á að sjónarmið kæranda að þessu leyti séu að sumu leyti svo illa reifuð að vísa verði þeim frá nefndinni.

Kærði hafnar því sem röngu að hann hafi ritað greinargerð fyrir E slf. og reynt að hylma yfir það sem kærandi nefni „brotastarfsemi.“ Þá standist það enga skoðun sem kærandi haldi fram í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni um að án vitnisburðar kærða fyrir dómi hafi aðeins orð staðið gegn orði. Bendir kærði um það efni annars vegar á að kærandi hafi kosið að leiða ekki aðila- eða vitni til skýrslugjafar fyrir dómi jafnframt því sem skýrlega greini í forsendum dóms Hæstaréttar að F hafi átt rétt samkvæmt skriflegum gögnum til þriggja mánaða launa án vinnuskyldu við starfslok án sakar. Ekki verði því séð að vitnisburður kærða fyrir dómi hafi skipt sérstöku máli um þetta efni.

Kærði kveðst jafnframt hafna því að dómur í áðurgreindu máli hafi vísvitandi verið afvegaleiddur enda hafi engin haldbær rök verið færð fyrir því. Sé þannig einungis um endurteknar getgátur að ræða af hálfu kæranda.

Samkvæmt því hafnar kærði því að 19. – 22. gr. siðareglnanna eigi við í máli þessu.

Í viðbótarathugasemdum kærða fyrir nefndinni er ítrekuð krafa um frávísun á grundvelli þess tímafrests sem kveðið sé á um í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Auk fyrri sjónarmiða um þetta efni vísar kærði til þess að honum hafi borist þrjú smáskilaboð frá fyrirsvarsmanni kæranda þann x. september 2017 sem liggi fyrir í málsgögnum. Byggir kærði á að þau sýni með ótvíræðum hætti að á þeim tíma hafi fyrirsvarsmaður kæranda talið að kærði hefði gert á hlut kæranda. Beri því í síðasta lagi að miða upphaf tímafrestsins við dagsetningu tilgreindra skilaboða. Að öðru leyti lýsir kærði því að fyrrgreint ákvæði laga nr. 77/1998 sé skýrt og að tilburðir kæranda til að skýra það með öðrum hætti séu ekki byggðir á lögmætum grundvelli.

Vísað er til þess að það eina sem kærði hafi gert hafi verið að segja það sem hann hafi vitað sannast og réttast í umræddu máli jafnframt því sem gætt hafi verið að því að brjóta í engu trúnað gagnvart viðskiptamanni. Þá hafi aðkoma kærða að málinu farið fram eftir að viðskiptasambandi við kæranda var lokið auk þess sem engar trúnaðarupplýsingar hafi verið veittar eða gögnum komið á framfæri.

Að öðru leyti kveðst kærði vísa öllum málatilbúnaði kæranda á bug sem röngum.

IV.

Skilja verður málatilbúnað kærða B lögmanns á þá leið að þess sé krafist að kvörtun kæranda verði vísað frá nefndinni en til vara að kröfu kæranda verði hafnað. Þá krefst kærði þess að kæranda verði gert að greiða sér málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Kærði vísar til þess að kvörtun í málinu lúti að störfum hans í þágu E slf. Hafi kærandi rekið mál gegn E slf. fyrir Héraðsdómi X og Hæstarétti frá x. september 201x til x. febrúar 201x og tapað því á báðum dómsstigum.

Kærði lýsir því að fyrirsvarsmaður E slf. hafi leitað til hans með beiðni um hagsmunagæslu vegna málarekstursins samkvæmt ábendingu frá kærða C. Hafi kærðu rætt saman skömmu eftir að eignir E slf. hefðu verið kyrrsettar og eins áður en greinargerð hafi verið skilað í málinu. Hafi kærði C sent honum minnisblað um málið en að öðru leyti ekki haft aðkomu að því. Vísar kærði til þess að við rekstur dómsmálsins hafi verið neytt allra lögmæltra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna E slf., eins og skylt sé samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/1998.

Kærði hafnar því með öllu að hann hafi með einhverjum hætti brotið gegn ákvæðum siðareglna lögmanna. Vísar aðilinn til þess að kærandi hafi fengið eignir E slf. kyrrsettar og í kjölfar þess höfðað mál kyrrsetningunni til staðfestingar og endurheimtu fjár. Hafi dómstólar hafnað málatilbúnaði kæranda þrátt fyrir alla sönnunarfærslu lögmanns hans fyrir dómi. Er á það bent að hafi kærandi orðið fyrir réttarspjöllum vegna málsins sé það væntanlega á ábyrgð þeirra lögmanna sem gætt hafi hagsmuna félagsins fyrir dómi.

Kærði byggir jafnframt á að ekki verði sé að málið geti komið til kasta úrskurðarnefndar lögmanna enda sé meira en ár liðið frá dómi Hæstaréttar í málinu.

Vísað er til þess að í kvörtun kæranda séu hafðar uppi grófar aðdróttanir um að kærði sem lögmaður hafi bakað kæranda einhverjum ótilgreindum réttarspjöllum án nokkurs rökstuðnings. Af þeim sökum sé gerð sú krafa að kæranda verði gert að greiða kærða þóknun vegna meðferðar málsins fyrir nefndinni.

Niðurstaða

                                                                          I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá er tiltekið í ákvæðinu að nefndin vísi kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá.

Ofangreind ákvæði eru afdráttarlaus um skyldu nefndarinnar til að vísa kvörtunum frá ef þær berast meira en ári eftir að kostur var á að koma þeim á framfæri.

Kærðu krefjast þess í málinu að kvörtun kæranda verði vísað frá nefndinni þar sem meira en eitt ár sé liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Hafa kærðu um það efni vísað til þess að reikningur sá, sem lögmannsstofa kærða C hafi gefið út á hendur E slf. þann x. apríl 201x og rekja megi kvörtun kæranda til, hafi verið lagður fram á dómþingi í héraðsdómsmálinu nr. E-xxx/xxxx þann x. september 201x sem kærandi hafi átt aðild að. Þá hafi fyrirsvarsmaður kæranda staðfest í smáskilaboðum til kærða C þann x. september 2017 að hann hefði reikninginn undir höndum og að kærði C hafi með háttsemi sinni gert á hlut kæranda.

Kærandi hefur hins vegar andmælt þeirri kröfugerð kærðu á þeim grundvelli að kvörtun hafi verið lögð fyrir úrskurðarnefnd innan árs frá aðilaskýrslu F, fyrirsvarsmanns E slf., fyrir dómi þann x. mars 201x í fyrrgreindu héraðsdómsmáli þar sem fram hafi komið staðfesting á því að kærði C hafi unnið að málarekstri tilgreinds félags gegn kæranda í kyrrsetningarmáli því sem lyktað hafi með dómi Hæstaréttar x. febrúar 201x í máli nr. xxx/201x. Vísar kærandi til þess að ef þeirrar staðfestingar hefði ekki verið aflað fyrir dómi hafi kærandi ekki haft neitt mál í höndum enda sönnunarstaðan erfið. Þá verði að túlka tímafresti ólöglærðum kæranda í hag. Verði þannig að horfa til víðari tímafresta fremur en þrengri.  

Um þetta efni er þess að gæta að fyrirliggjandi kvörtunarefni kæranda í málinu lúta öll að ætlaðri háttsemi kærðu við málsvörn í þágu E slf. gagnvart kröfum kæranda í kyrrsetningarmáli því sem lauk með dómi Hæstaréttar x. febrúar 201x í máli nr. xxx/xxxx. Leiðir kærandi þannig hin ætluðu brot kærðu af fyrrgreindum reikningi sem kærði C gaf út á hendur E slf. þann x. apríl 201x og lagður var fram undir rekstri hins síðara dómsmáls á milli sömu aðila, þ.e. E slf. sem stefnanda og kæranda sem stefnda, sem hlaut málsnúmerið E-xxx/xxxx fyrir Héraðsdómi X.

Líkt og rakið er í málsatvikalýsingu að framan var tiltekið að reikningurinn væri tilkominn vegna lögfræðiþjónustu kærða C vegna „kyrrsetningarmáls á hendur E sf.“ Þá kom meðal annars fram í nánari sundurliðun reikningsins að hann tæki til símtals við „F“ vegna kyrrsetningargerðar, fundar með sama aðila vegna viðbragða við kyrrsetningu, fundar með lögmanni, athugunar á kyrrsetningarbeiðni og fylgiskjölum, yfirferðar úrskurðar og næstu skrefa, ritunar greinargerðar, frágangs skjala fyrir dómi, undirbúnings fyrir málflutning með „B“ og skýrslugjöf við málflutning.

Að mati nefndarinnar verður ekki fram hjá því litið að kærandi hefur í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni lýst því að fyrrgreindur reikningur tali sínu máli. Þannig sé ljóst af efni reikningsins að kærði C hafi haft meiri aðkomu að þeim málarekstri sem hann hafi tekið til en að rita minnisblað. Þannig lýsi reikningurinn öllum skrefum við rekstur dómsmáls, að því frátöldu að lokahnykkur hafi verið tilgreindur sem skýrslugjöf fyrir dómi en ekki munnlegur málflutningur. Samkvæmt því liggi fyrir að kærði C haf komið með mjög víðtækum hætti að undirbúningi kyrrsetningarmálsins. Þá hafi hið síðara dómsmál lotið að kröfu E slf. um skaðabætur úr hendi kæranda, þar á meðal kröfu um skaðabætur vegna dráttarvaxta sem félagið hafi greitt af reikningum lögmanna.

Í samræmi við framangreint verður að áliti nefndarinnar vegna kvörtunar kæranda ekki miðað við annað tímamark en framlagningu þess reiknings, sem áður er lýst á dómþingi Héraðsdóms X þann x. september 201x í málinu nr. E-xxx/xxxx, við mat á því hvenær kærandi átti þess kost að koma kvörtun á framfæri í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Verður að mati nefndarinnar að ætla að kærandi hafi þá þegar haft tök á að kynna sér efni skjalsins, sem kvörtun aðilans er nú studd við, og átt þann kost að koma kvörtun á framfæri. Fær það aukinheldur stoð í smáskilaboðum þeim sem framkvæmdastjóri kæranda beindi til kærða C þann x. sama mánaðar en þau verða ekki skilin á annan hátt en að hinn fyrrgreindi hafi þá haft reikninginn undir höndum og að hann hafi talið kærða C hafa gert á hlut kæranda með þeirri háttsemi sem reikningurinn hafi tekið til. Samkvæmt því verður ekki talið að aðilaskýrsla F, framkvæmdastjóra E slf., í héraðsdómsmálinu nr. E-xxx/xxxx þann x. mars 201x hafi haft nokkurt sjálfstætt gildi, við mat á upphafi tímafrests þess sem kveðið er á um í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, umfram það sem greindi þegar á fyrrgreindum reikningi kærða C til félagsins sem kærandi hafði haft undir höndum frá x. september 201x.

Kvörtun kæranda í máli þessu var móttekin af úrskurðarnefnd lögmanna þann 6. febrúar 2019 en þá þegar voru tímafrestir samkvæmt ofangreindum heimildum liðnir. Í ljósi fortakslauss ákvæðis 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. áður lýstra málsmeðferðarreglna fyrir nefndinni, getur nefndin hvorki fallist á að unnt sé að miða upphaf ársfrestsins við fyrrgreinda aðilaskýrslu F í héraði þann x. mars 201x líkt og áður greinir né aðrar málsástæður sem kærandi hefur teflt fram fyrir nefndinni um þetta efni.

Að öllu þessu gættu er óhjákvæmilegt að vísa kvörtun kæranda frá úrskurðarnefnd lögmanna með vísan til 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Rétt þykir að hver aðili beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Kristinn Bjarnason lögmaður

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson