Mál 5 2019

Mál 5/2019

Ár 2019, fimmtudaginn 17. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2019:

A,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 22. febrúar 2019 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir því að kærði, B, hafi brotið annars vegar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn hvað varðar rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess og hins vegar 27. gr. laganna.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfum dags. 25. febrúar og 27. mars 2019. Greinargerð kærða barst nefndinni þann 27. mars 2019 og var hún send kæranda til athugasemda með bréfi dags. 1. apríl 2019. Viðbótarathugasemdir kæranda vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 16. apríl 2019 og voru þær sendar til kærða með bréfi næsta dag. Loks bárust viðbótarathugasemdir frá kærða þann 17. maí 2019 og voru þær sendar til kæranda með bréfi dags. 21. sama mánaðar þar sem tekið var fram að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt málsgögnum mun kærandi hafa leitað til kærða í byrjun októbermánaðar 2018 með beiðni um hagsmunagæslu vegna máls sem laut að sambúðarslitum kæranda og fyrrum maka hans. Á þeim tíma lá fyrir úrskurður héraðsdóms um opinber skipti til fjárslita milli sambúðarfólksins og hafði skiptastjóri, sem skipaður hafði verið, haldið alls fjóra skiptafundi vegna málsins, þ.e. dagana 26. júní, 11. júlí, 5. og 27. september 2018. Af efni fundargerða frá þeim fundum, sem eru meðal málsgagna fyrir nefndinni, verður ráðið að ágreiningur hafi verið á milli aðila um ýmsa þætti fjárslitanna en annar lögmaður sinnti þá hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna málsins.

Málsgögn bera með sér að kærandi og kærði hafi átt með sér fund þann 5. október 2018 um hugsanlega hagsmunagæslu kærða í málinu þar sem kærandi hefði í hyggju að skipta um lögmann. Í tölvubréfi kæranda til kærða næsta dag, 6. október 2018, lýst kærandi þeirri von sinni að kærði gæti tekið að sér málið. Þá fylgdi kærandi fyrra erindi eftir með tölvubréfi til kærða þann 8. sama mánaðar þar sem finna mátti tillögur frá lögmanni gagnaðila um sættir í málinu sem sendar höfðu verið til fyrrum lögmanns kæranda. Meðal málsgagna er jafnframt að finna minnispunkta sem kærandi mun hafa tekið saman og látið kærða í té við upphaf lögskipta aðila.

Kærði upplýsti í svari sínu til kæranda þann 9. október 2018 að hann væri tilbúinn í slaginn en áður en til þess kæmi þyrfti kærandi að tilkynna fyrrum lögmanni sínum um lögmannaskipti auk þess sem uppgjör þyrfti að fara fram á milli þeirra. Þá þyrfti kærandi að greiða innborgun inn á þóknun áður en störf kærða gætu hafist. Kvaðst kærandi myndi gera það strax í svari sínu til kærða þennan sama dag.

Í tölvubréfi kæranda til kærða þann 15. október 2018 kom fram að hinn fyrrgreindi hefði enn ekki fengið reikning og vísaði jafnframt um það efni til nafns og kennitölu nánar tilgreinds einkahlutafélags sem mun hafa verið í eigu kæranda. Í kjölfar þess mun lögmannsstofa kærða hafa gefið út reikning á viðkomandi einkahlutafélag, dags. 12. október 2018, að fjárhæð 372.000 krónur með virðisaukaskatti. Var tilgreint á reikningnum að hann tæki til áfallins kostnaðar. Mun kærandi hafa greitt reikninginn í gegnum heimabanka einkahlutafélagsins þann 16. október 2018.

Meðal málsgagna er fundargerð skiptafundar vegna málsins, dags. 24. október 2018. Samkvæmt fundargerðinni sótti kærði skiptafundinn fyrir hönd kæranda. Á fundinum mun hafa verið farið yfir stöðu mála og kærði upplýstur um skiptameðferðina, það sem á undan hafði gengið og hverra gagna hefði verið aflað. Þá mun hafa verið kynnt sáttatillaga gagnaðila kæranda sem kærði hafnaði á fundinum samhliða því sem hann upplýsti að verið væri að vinna að gagntilboði.

Þann 26. október 2018 sendi kærði tölvubréf til kæranda með upplýsingum um framvindu málsins. Kom þar fram að kærði hefði átt langan og erfiðan fund með lögmanni gagnaðila kæranda og skiptastjóra. Upplýsti kærði um að málið hefði tekið óvenju langan tíma fram að aðkomu hans að því og að ef ekki næðist samkomulag fljótlega mætti búast við því að ágreiningnum yrði vísað til úrlausnar dómstóla með tilheyrandi tjóni fyrir aðila að málinu. Samkvæmt því myndi kærði fara á fulla ferð í vikunni á eftir við að reyna að berja saman einhverja niðurstöðu. Þá lýsti kærði því að kærandi ætti ekki að láta sig dreyma um að verða ánægður með niðurstöðuna enda væri það oft þannig að báðir aðilar yrðu hundfúlir. Í svari kæranda þann sama dag kom fram að hann væri eingöngu að biðja um helmingaskipti líkt og hann hefði gert frá öndverðu.

Í tölvubréfi kæranda til kærða, dags. 5. nóvember 2018, lýst hann sérstökum áhyggjum vegna nánar tilgreinds þáttar málsins og óskaði eftir afstöðu kærða um það efni. Þá óskaði kærandi eftir upplýsingum um framvindu málsins. Í svari kærða sama dag kom fram að fyrirhugaður væri fundur tveimur dögum síðar með lögmanni gagnaðila og skiptastjóra. Þá þyrftu málsaðilar að heyrast degi síðar vegna málsins. Bera gögn málsins með sér að málsaðilar hafi átt með sér fund vegna málsins að morgni 7. nóvember 2018.

Að kvöldi sama dags, 7. nóvember 2018, sendi kærandi ítarlegt tölvubréf til kærða þar sem finna mátti hugleiðingar kæranda um einstaka þætti málsins jafnframt sem í því var að finna fjölda spurninga um réttarstöðuna sem beint var til kærða. Lutu þær meðal annars að ætluðum kröfum við skiptin vegna gistiheimilis, hvort unnt væri að fresta meðferð málsins uns gagnaðili kæranda hefði afhent bókhaldsmöppur vegna nánar tilgreinds félags og um eignarhald á því. Ekki verður séð af málsgögnum að kærði hafi svarað þessu erindi kæranda.

Kærandi mun hafa verið erlendis á tímabilinu 14. – 22. nóvember 2018 en hann kveðst hafa upplýst kærða áður um þá ferð auk þess sem hann hafi ítrekað óskað eftir staðfestingu kærða á að það væri í lagi vegna stöðu málsins.

Í tölvubréfi kæranda til kærða þann 15. nóvember 2018 spurðist hinn fyrrgreindi fregna af stöðu mála. Í svari kærða þann sama dag var eftirfarandi tiltekið:

Já, ég náði fram lausn sem mun þýða ca. kr. 12.000.000,- í þinn hlut, kr. 7.000.000,- cash í peningum og þú færð fyrirtækið og bílana, áætl. nettó verðmæti ca. 5.000.000,-, samtals 12.000.000,-. Þú þarft að samþykkja þetta strax með svari á þennan tölvupóst. Það nægir.

Kærandi svaraði því til samdægurs að hann gengi að tilboðinu. Óskaði kærandi jafnframt eftir að kærði myndi taka við lyklum af bílunum auk þess sem hann tiltók að gagnaðili hans þyrfti að segja sig frá fyrirtækinu svo kærandi gæti gert upp vanskil. Þá tiltók kærandi að kærði myndi væntanlega taka við fjármunum frá gagnaðilanum. Þá sagði í niðurlagi tölvubréfsins: „En samt bestu þakkir fyrir þetta“. Í svari kærða kom fram að hann myndi gera það.

Þennan sama dag, 15. nóvember 2018, var haldinn skiptafundur á skrifstofu skiptastjóra sem kærði sótti fyrir hönd kæranda. Í fundargerð, sem er meðal málsgagna, var eftirfarandi tillaga bókuð:

Lögmenn gera að tillögu sinni að konan fái í sinn hlut fasteignina, hún haldi innistæðum á sínu nafni og beri ábyrgð á veðskuldum og öllum öðrum skuldum sem eru á hennar nafni en greiði manninum kr. 7.000.000 til uppgjörs. Maðurinn fái í sinn hlut fyrirtækið og tekur hann á sig allar skuldir á sínu nafni. Hvorugt eigi frekari kröfur á hendur hinu. Skiptastjóri tekur heilshugar undir tillögu lögmanna og hvetur þá til að fá samþykki umbjóðenda sinna til að ljúka skiptum með þessum hætti enda muni skiptastjóri ella vísa ágreiningi aðila til dóms.

Í tölvubréfi kærða til kæranda, dags. 19. nóvember 2018, var tiltekið að búið væri að skoða allar eignarheimildir fyrir C 1, sem mun hafa verið viðkomandi gistiheimili sem kæranda hafði verið hugleikið vegna málsins, og að hvergi kæmi fram að kærandi hefði verið skráður eigandi. Hins vegar hefði kærandi verið skráður á eyðublaði um kaup og sölu eigna sem væri hluti af skattframtölum. Óskaði kærði eftir upplýsingum frá kæranda um hver hefði talið fram fyrir kæranda og fyrrum sambúðarmaka hans og hvort kærandi hefði undirritað einhver skattframtöl. Þá sagði eftirfarandi í tölvubréfinu: „Við höfum ekki lokað neinum samningum ennþá og erum að skoða þessa þætti.

Kærandi svaraði fyrrgreindu erindi samdægurs og upplýsti þar meðal annars kærða um hver hefði talið fram fyrir þau á meðan sambúðinni hefði varað og að hann hefði ekki undirritað nein framtöl. Staðfesti kærði móttöku á því svari kæranda síðar sama dag.

Þann 21. nóvember 2018 var á ný haldinn skiptafundur á skrifstofu skiptastjóra. Í fundargerð fundarins, sem er meðal málsgagna fyrir nefndinni, var bókun um tillögu til skiptaloka frá fyrri fundi tekin upp. Þá var meðal annars eftirfarandi bókað í fundargerðina:

Lögmaður mannsins kveður hann samþykkja að ljúka skiptum á grundvelli framangreindrar tillögu. Lögmaður konunnar lýsir því að hún sé tilbúin að ljúka skiptum með þessum hætti þó þannig að fyrsta greiðsla að fjárhæð kr. ein og hálf milljón verði greidd þegar í stað en eftirstöðvar eigi síðar en 7. janúar 2019.

Lögmaður mannsins kveður fyrstu greiðslu verða að nema kr. 2 milljónum að lágmarki og greiðast eigi síðar en á hádegi þann 22. nóvember n.k., eða á morgun, gegn því að eftirstöðvar, kr. 5.000.000 greiðist eigi síðar en 7. janúar 2019. Er það að því gefnu að konan afhendi á sama tíma á morgun lykla að Landcruiser bifreiðinni sem hún hefur umráð yfir, sem er í eigu félagsins, og undirriti nauðsynleg skjöl vegna félagsins. Skuli hún koma greiðslukvittun, undirrituðum skjölum vegna félagsins og lyklum að bifreiðinni á skrifstofu lögmanns síns að x-götu, kl. 12,00 á morgun.

Lögmaður konunnar vék af fundi til samtals við umbj. sinn og kvað hún hana samþykkja framngreinda kröfu lögmanns mannsins um tilhögun greiðslu og önnur þau atriði sem þar komu fram.

Þá var færð í fundargerð árétting kærða um að ef ekki yrði staðið við samkomulagið félli samþykki kæranda til framangreindrar tillögu sjálfkrafa niður með þeim hætti að skiptameðferð yrði framhaldið og krafa gerð um að skiptastjóri myndi vísa ágreiningi til dóms. Þá var bókað að lögmenn aðila væru sammála þeirri ákvörðun skiptastjóra að lýsa ekki skiptum lokið með bréfi til héraðsdóms fyrr en fullnaðarefndir hefðu farið fram.

Meðal málsgagna er tölvubréf sem kærandi sendi til kærða þann 23. nóvember 2018 en líkt og áður greinir mun hann hafa komið aftur til landsins degi fyrr. Í tölvubréfinu óskaði kærandi eftir upplýsingum um hvort verið væri að skoða þætti sem lytu að gistiheimilinu og um skráð laun og útlagðan kostnað í tengslum við það. Þá óskaði kærandi eftir upplýsingum frá kærða um hvort einhver von væri í þessu og hvort það hefði þýðingu ef kærandi myndi finna millifærslu hans fyrir kaupum á gistiheimilinu sem fram hefði farið í októbermánuði 2015.

Í tölvubréfi kærða til kæranda, dags. 30. nóvember 2018, var upplýst að tilkynning til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra vegna viðkomandi fyrirtækis lægi fyrir. Jafnframt sendi kærði til kæranda afrit fundargerðar frá skiptafundi þann 21. nóvember 2018. Lýsti kærði því að bókun fundargerðarinnar hefði verið „í anda þess“ sem kærandi hefði samþykkt fyrir utan greiðslufrest á 5.000.000 króna. Hjá þeim greiðslufresti hefði ekki verið komist. Þá tiltók kærði að ef gagnaðili kæranda stæði ekki við sitt væri hægt að taka skiptin upp og fara með málið fyrir dóm. Samkvæmt því væri málinu bæði lokið og ólokið, eftir því hvernig menn kysu að líta á það. Jafnframt því væri það mat kærða að ekki væri hægt að ná fram betri málalokum fyrir kæranda og að óráð væri að fara með málið fyrir dóm með ærnum tilkostnaði og frestun á málalokum. Kvaðst kærði einnig reiðubúinn að hitta kæranda í vikunni á eftir til að fara yfir málið í heild sinni.

Kærandi svarði fyrrgreindu erindi kærða samdægurs. Kvaðst kærandi þar skilja málið að stærstum hluta en að enn væri nokkrum spurningum ósvarað sem lytu meðal annars að eignarhaldi og stöðu viðkomandi félags sem og gistiheimilinu að C 1. Varðandi hið síðargreinda atriði kvaðst kærandi þó ekki þurfa að fá svar strax enda hefði kærði upplýst að um væri að ræða afmarkað mál sem hægt væri að reka eftir á.

Í áframhaldandi samskiptum aðila 30. nóvember 2018 kom fram af hálfu kærða að ritari hans myndi hafa samband við kæranda vegna fyrstu greiðslu sem innt hefði verið af hendi samkvæmt samkomulaginu auk þess sem hann hvatti kæranda til að mæta á fund í vikunni á eftir til að fara yfir málið í stað þess að skrifa „lögfræðilegar langlokur á netið.

Í samræmi við efni samkomulags þess sem staðfest hafði verið í fundargerð skiptafundar þann 21. nóvember 2018 móttók lögmannsstofa kærða 2.000.000 króna frá gagnaðila kæranda fyrir hönd hins síðargreinda þann 22. nóvember 2018. Gögn málsins bera með sér að lögmannsstofa kærða hafi millifært af þeirri fjárhæð 1.000.000 króna til kæranda þann 30. nóvember 2018.  Frá sama degi liggur fyrir skilagrein í tengslum við þá ráðstöfun. Kemur þar fram að frádegið sé vegna útlagðs kostnaðar 52.560 krónur og vegna áfallins kostnaðar 871.150 krónur. Eftir fyrrgreinda millifærslu til kæranda stæðu því eftir 76.290 krónur af innborguninni.

Samkvæmt málsgögnum mun kærði jafnframt hafa móttekið fyrir hönd kæranda samkomulagsgreiðslu að fjárhæð 5.000.000 króna í ársbyrjun 2019. Meðal málsgagna er millifærslukvittun, dags. 8. janúar 2019, sem ber með sér að þann dag hafi lögmannsstofa kærða skilað fyrrgreindri samkomulagsgreiðslu að fullu til kæranda. Þá liggur fyrir frá sama degi skilagrein um þá ráðstöfun sem ber með sér að inneign kæranda hjá lögmannsstofu kærða hafi þá numið 76.290 krónum.

Þann 14. janúar 2019 sendi kærandi tölvubréf til kærða þar sem óskað var eftir uppgjöri þar sem viðskiptum málsaðila væri lokið. Í framhaldi af því mun ritari kærða hafa sent til kæranda fyrrgreindan reikning, dags. 12. október 2018, auk reiknings dags. 5. desember 2018. Á hinum síðargreinda reikningi var tiltekið að hann væri gefinn út af hálfu lögmannsstofu kærða á hendur D ehf. Þá tæki hann til áfallins kostnaðar vegna 28 vinnustunda á tímagjaldinu 25.000 krónur auk virðisaukaskatts auk útlagðs kostnaðar að fjárhæð 3.150 krónur. Samkvæmt því var reikningsfjárhæð 703.150 krónur auk virðisaukaskatts, eða alls 871.150 krónur.

Þann 16. janúar 2019 voru 76.290 krónur millifærðar frá lögmannsstofu kærða til kæranda. Samkvæmt skilagrein lögmannsstofunnar frá sama degi hafði uppgjör þá farið fram að fullu milli málsaðila.

Kærandi sendi á ný tölvubréf til ritara kærða þann 17. janúar 2019. Kvaðst kærandi þar ekki skilja umrædda tvo reikninga enda hefði greiðsla þann 12. október 2018 verið fyrirframgreiðsla inn á lögmannskostnað en ekki greiðsla inn á áfallinn kostnað. Samkvæmt því ætti sú greiðsla, að fjárhæð 372.000 krónur, að koma til frádráttar reikningsfjárhæð vegna reiknings, dags. 5. desember 2018. Að öðru leyti lýsti kærandi því að hann teldi reikninginn úr hófi og að hann tæki ekki til umsamins tímagjalds, sem hefði verið að fjárhæð 17.000 krónur auk virðisaukaskatts. Samkvæmt því væri farið fram á nánari útskýringar á reikningunum og nákvæma tímaskráningu að baki þeim. Jafnframt því óskaði kærandi eftir að fá nánari upplýsingar um það samkomulag sem gert hefði verið, þar á meðal útreikninga að baki samkomulagsgreiðslu.

Í svari ritara kærða við fyrrgreindu erindi, dags. 18. janúar 2019, var að finna afrit af tölvubréfi kæranda þar sem hann hafði gengið að tilboði auk fundargerðar og tilkynningar til héraðsdóms um skiptalok. Í áframhaldandi samskiptum þeirra kom fram af hálfu kæranda að svar ritara kærða væri óviðunandi og að ekki væri annað í stöðunni en að fara með málið til Lögmannafélagsins. Þá ítrekaði kærandi að hann ætti rétt á að fá nákvæma tímaskráningu fyrir hinum útgefnu reikningum.

Ritari kærða sendi á ný tölvubréf til kæranda þann 23. janúar 2019. Kom þar fram að meðfylgjandi tölvubréfi væri kreditreikningur og kvittun fyrir innborgun vegna hans. Hafi verið um mistök ritarans að ræða þar sem henni hafi skilist að innborgunarreikningurinn væri ekki inni í heildarfjárhæð. Var beðist velvirðingar á þeim mistökum.

Tilgreind fylgigögn með tölvubréfinu eru meðal málsgagna fyrir nefndinni. Er þar annars vegar um að ræða kreditreikning, dags. 31. desember 2018, vegna þess reiknings sem gefinn hafði verið út af lögmannsstofu kærða á hendur D ehf. þann 12. október 2018 að fjárhæð 372.000 krónur með virðisaukaskatti. Þá liggur hins vegar fyrir kvittun um millifærslu, dags. 23. janúar 2019, sem ber með sér að lögmannsstofa kærða hafi lagt inn á kæranda 372.000 krónur þann dag.

Í tölvubréfi kæranda til ritara kærða þann 24. janúar 2019 kom fram að gott væri að mistökin hefðu verið leiðrétt. Enn vantaði þó upp á að sjá tímaskráningu frá kærða vegna verksins auk þess sem tímagjald væri enn hærra en samið hefði verið um. Þá var jafnframt ítrekuð ósk um að sjá útreikninga að baki því samkomulagi sem gert hafði verið við skiptin.

Í svari ritara kærða til kæranda, dags. 30. janúar 2019, var meðal annars tiltekið að ekki væri skilið hvað kærandi væri að fara með umræddum beiðnum. Fyrir lægi þannig að kærandi hefði samþykkt umrædd málalok. Þá væru endurteknar fullyrðingar kæranda um umsamið tímagjald að fjárhæð 17.000 krónur auk virðisaukaskatts óskiljanlegar auk þess sem þær ættu ekki við rök að styðjast. Þvert á móti væri fullt tímagjald kærða 28.000 krónur auk virðisaukaskatts en kærði hefði samþykkt að veita afslátt þannig að tímagjaldið yrði hið sama og skiptastjóri hefði áskilið sér, þ.e. að fjárhæð 25.000 krónur auk virðisaukaskatts.

Meðal málsgagna er að finna gjaldskrá lögmannsstofu kærða og tímaskýrslu kærða vegna verksins sem hann lagði fram með greinargerð sinni til nefndarinnar. Í tilgreindri gjaldskrá kemur fram að almennt tímagjald fyrir lögfræðivinnu hæstaréttarlögmanns sé að fjárhæð 28.000 krónur auk virðisaukaskatts. Þá kemur fram í tímaskýrslu kærða að hann hafi varið alls 37 klukkustundum í verkið í þágu kæranda á tímabilinu frá 5. október til 17. desember 2018.

Líkt og áður greinir var máli þessu beint til nefndarinnar með kvörtun kæranda sem móttekin var þann 22. febrúar 2019. Eftir þann tíma kveðst kærði hafa fengið kröfu frá lögmanni gagnaðila kæranda um að eftir bæri að standa skil á skattskuld kæranda, sem samkomulag um uppgjör við skiptalok hafi tekið til, en gagnaðili kæranda væri meðábyrgð fyrir vegna fyrri samsköttunar. Hafi sú skattskuld verið að fjárhæð 570.602 krónur. Liggur fyrir um það efni í málsgögnum meðal annars greiðsluáskorun sýslumannsins á Suðurnesjum til gagnaðila kæranda, dags. 29. janúar 2019, auk yfirlits yfir skuldastöðu kæranda gagnvart viðkomandi embætti. Þá kveðst kærði hafa tekið að sér milligöngu vegna þeirrar kröfu við gerð áðurgreinds samkomulags.

Fyrir liggur að lögmannsstofa kærða greiddi umrædda skattskuld með greiðslu til lögmanns gagnaðila kæranda þann 25. mars 2019 að fjárhæð 570.602 krónur. Jafnframt liggur fyrir fullnaðarkvittun sem lögmaður gagnaðila kæranda beindi til kærða þann 26. sama mánaðar vegna greiðslunnar. Var þar tiltekið að um væri að ræða fullnaðargreiðslu lögmannsstofu kærða vegna skattskuldar samkvæmt lokasamkomulagi vegna sambúðarslita undirliggjandi málsaðila auk þess sem staðfest var að fjárhæðin hefði verið færð inn á umrædda skuld við viðkomandi sýslumannsembætti. Þá liggur fyrir í málsgögnum greiðslukvittun sýslumannsembættisins, dags. 26. mars 2019, til kæranda sem gjaldanda viðkomandi skuldbindingar.

Kærandi hefur hins vegar lagt fyrir nefndina greiðsluáætlun sem hann gerði við sýslumannsembættið á Suðurnesjum þann 18. mars 2019, þar á meðal vegna þeirrar skattskuldar sem fyrrgreind ráðstöfun kærða frá 25. sama mánaðar hafði tekið til. Þá benda gögn málsins til þess að kærandi hafi innt fyrstu greiðslu af hendi samkvæmt greiðsluáætluninni á undirritunardegi hennar, þ.e. greiðslu að fjárhæð 100.000 krónur.

Þann 28. mars 2019 sendi ritari kærða tölvubréf til kæranda þar sem fram kom að meðfylgjandi bréfinu væri kreditreikningur á D ehf. og reikningur á kæranda í staðinn. Er tilgreindur kreditreikningur á D ehf., dags. 27. mars 2019 að fjárhæð 871.150 krónur með virðisaukaskatti, og reikningur lögmannsstofu kærða á kæranda, dags. 27. mars 2019, að fjárhæð 300.647 krónur auk virðisaukaskatts á meðal málsgagna. Hefur kærði um þetta efni borið því fyrir nefndinni að gefinn hafi verið út reikningur á D ehf. vegna mistaka þar sem réttilega hefði átt að beina reikningsgerð vegna málsins til kæranda sjálfs. Þá hafi hinn síðastgreindi reikningur verið mismunur á þeirri þóknun sem kærði hefði áskilið sér vegna verksins samkvæmt fyrri reikningum og þeirrar fjárhæðar sem lögmannsstofa hans hafi greitt vegna fyrrgreindrar skattskuldar kæranda.

Í svari kæranda til ritara kærða þann sama dag, 28. mars 2019, var upplýst að hann myndi ekki svara frekari erindum frá ritaranum eða kærða. Í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni hefur kærandi jafnframt vísað til þess að kærði hafi í gegnum sameiginlega vini reynt að ná sátt í málinu með þeim hætti að hann greiddi skattskuld kæranda ef kvörtun til úrskurðarnefndar yrði dregin til baka og kærandi myndi greiða til lögmannsstofu kærða um 140.000 krónur. Liggur fyrir um það efni meðal annars staðfesting E í tölvubréfi, dags. 15. apríl 2019. Þá kveðst kærandi hafa hafnað því sáttaboði kærða með öllu.

II.

Skilja verður málatilbúnað kæranda með þeim hætti að þess sé annars vegar krafist að endurgjald kærða verði lækkað í samræmi við það sem eðlilegt geti talist, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Hins vegar sé þess krafist af hálfu kæranda að kærði verði látinn sæta viðeigandi agaviðurlögum vegna ætlaðra brota gegn siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Í kvörtun er því lýst að henni sé annars vegar beint að ágreiningi um endurgjald kærða. Þannig hafi kærði tekið of hátt endurgjald á hærra tímagjaldi en samið hafi verið um auk þess sem kærði hafi neitað að afhenda tímaskrá að baki þóknun hans. Hins vegar hafi kærði brotið gegn siðareglum lögmanna í störfum sínum fyrir kæranda. Hafi vinna kærða ekki tekið til hagsmuna kæranda jafnframt því sem kærði hafi neitað að upplýsa kæranda um forsendur að baki samningi sem gerður hafi verið í tengslum við sambúðarslit hins síðargreinda. Þá hafi kærði sýnt kæranda ótrúlega vanvirðingu og dónaskap sem geti ekki verið lögmanni sæmandi.

Kærandi kveður málsatvik þau að komið hafi til sambúðarslita á milli hans og fyrrum maka eftir 24 ára sambúð. Við sambúðarslitin hafi komið upp ágreiningur um skiptingu eigna og skulda sem ekki hafi tekist að leysa og hafi kærandi því krafist opinberra skipta til fjárslita milli aðila.

Er því lýst í málatilbúnaði kæranda að undir hinum opinberu skiptum hafi hann leitað til kærða varðandi hagsmunagæslu í málinu. Hafi þeir átt fund um það efni þann 5. október 2018 þar sem komið hafi fram af hálfu kærða að málið væri borðleggjandi og að ekki kæmi önnur skipting til greina en helmingaskipti við fjárslitin, líkt og kærandi hefði lagt til á öllum stigum. Vísar kærandi til þess að hann hafi afhent kærða á fundinum stofngögn nánar tilgreinds fyrirtækis og beðið kærða um að sannreyna að félagið væri í hans eigu að öllu leyti þvert gegn því sem gagnaðili kæranda héldi fram.

Kærandi vísar til þess að honum hafi borist tölvubréf frá kærða þann 9. október 2018 þar sem fram hafi komið að kærði væri tilbúinn til að taka málið að sér en að greiða þyrfti innborgun inn á lögmannskostnað. Í framhaldi af því hafi kærði hringt í kæranda og upplýst um að tímagjald vegna verksins væri að fjárhæð 17.000 krónur auk virðisaukaskatts en jafnframt þyrfti að greiða innborgun inn á þóknunina að fjárhæð 300.000 krónur auk virðisauaksatts. Kveðst kærandi hafa innt hina umbeðnu greiðslu, alls 372.000 krónur, af hendi þann 16. október 2018 eftir frekari samskipti málsaðila.

Vísað er til þess að skiptafundur hafi verið haldinn þann 26. október 2018 sem kærði hafi mætt á fyrir hönd kæranda. Hafi kærði upplýst kæranda um í kjölfarið að fundurinn hefði verið erfiður og að kærandi ætti ekki að búast við góðri niðurstöðu. Í framhaldi af því hafi málsaðilar átt með sér fund þann 6. nóvember 2018 þar sem komið hafi fram sú afstaða kærða að kærandi ætti í raun ekki skilið að fá neitt við fjárslitin enda hefðu eignir verið skráðar á fyrrum maka hans jafnframt því sem þau ættu viðkomandi félag til helminga. Kveðst kærandi hafa verið ósammála því mati. Þá hafi kærandi spurt kærða út í gistiheimili sem hann og fyrrum sambúðarmaki hans höfðu keypt og selt síðar. Þá fasteign hefðu þau átt til helminga þó að vinnuframlag hafi allt verið frá kæranda. Þá hafi gagnaðili kæranda fengið söluverðið greitt inn á eigin reikning. Er því lýst að kærði hafi verið mjög hrokafullur og tjáð kæranda að hann hafi aldrei heyrt neitt um gistiheimili áður. Vísar kærandi til þess að það sé rangt þar sem hann hafi framvísað gögnum um það efni á fyrsta fundi málsaðila. Þá hafi kærði tjáð kæranda á fundinum að hann skyldi ná samkomulagi í málinu en annars færi það fyrir dóm og kærandi myndi ekki fá krónu.

Kærandi kveðst hafa verið mjög ringlaður eftir fyrrgreindan fund málsaðila. Hafi hann sent kærða athugasemdir sínar og spurningar í tölvubréfi í kjölfarið auk þess sem hann hafi óskað eftir að málið yrði stöðvað á meðan verið væri að afla nánar tilgreindra gagna.

Í framhaldi af því kveðst kærandi hafa farið erlendis en að hann hafi ítrekað áður reynt að ná í kærða í því skyni að athuga hvort óhætt væri að fara í ferðina í ljósi stöðu mála. Ekkert hafi heyrst í kærða fyrr en þann 12. nóvember 2018 þegar ritari hans hafi hringt í kæranda til að fá hann á fund. Þá hafi verið upplýst að skiptafundur væri fyrirhugaður þann 15. sama mánaðar.

Kærandi kveðst hafa fengið tölvubréf frá kærða þann 15. nóvember 2018 þar sem upplýst hafi verið að kærði væri búinn að ná lausn í málinu. Sú lausn fælist í því að kærandi myndi halda viðkomandi félagi og að fyrrum sambúðarmaki myndi auk þess greiða til kæranda 7.000.000 króna. Þyrfti kærandi að samþykkja umrædda lausn strax. Er því lýst að kærandi hafi verið mjög ósáttur við þessa lausn og að hann hafi upplýst kærða þar um í tölvubréfi. Þá hafi vinkona kæranda átt samtal við kærða sama dag þar sem fram hafi komið af hálfu kærða að kærandi þyrfti að samþykkja fyrirliggjandi tilboð strax ella myndi málið fara fyrir dóm. Þá myndi kærandi aldrei fá betra samkomulag auk þess sem hægt væri að taka málið upp síðar ef eitthvað kæmi fram um viðkomandi gistiheimili, slíkt kæmi skiptunum ekki við.

Í framhaldi af því kveðst kærandi ekki hafa talið sér annarra kosta völ en að samþykkja samkomulagið, án þess þó að hann hefði fengið að sjá það almennilega, enda hefði kærði heimtað það. Þá hafi kærandi talið að ekki væri búið að semja um öll atriði.

Kærandi vísar til þess að hann hafi sent tölvubréf til kærða vegna gistiheimilisins þann 19. nóvember 2018. Í svörum kærða þann sama dag hafi komið fram að ekki væri búið að loka neinum samningum og að enn væri verið að skoða viðkomandi þætti. Samkvæmt þeim skilaboðum kærða hafi kærandi ekki talið sig vera búinn að samþykkja neinn endanlegan samning. Annað hafi hins vegar komið á daginn. Þannig hefði verið bókuð tillaga um samkomulag á skiptafundi þann 15. nóvember 2018. Þá hafi samkomulagið verið staðfest án vitundar kæranda á skiptafundi þann 21. sama mánaðar en kærandi hafi ekki komið til landsins fyrr en degi síðar og þá staðið í þeirri trú að kærði væri enn að vinna í samkomulagi.

Vísað er til þess að í tilgreindu samkomulagi sé kveðið á um hvorugur aðila eigi frekari kröfur á hendur hinum. Hafi kæranda ekki verið kunnugt um það efni samkomulagsins enda kærði upplýst hann um að hægt væri að taka upp ákveðna þætti aftur síðarmeir sem ekki væru tengdir samkomulaginu, þar á meðal vegna krafna vegna gistiheimilisins.

Í málatilbúnaði kæranda greinir að kærði hafi sent til hans tölvubréf þann 30. nóvember 2018 þar sem upplýst hafi verið um málalok. Þar hafi kærði enn á ný upplýst að í reynd væri ekki búið að klára málið en að ekki væri hægt að ná betri málalokum og að óráð væri að fara með málið fyrir dóm. Kveðst kærandi hafa skilið tölvubréfið sem svo að enn væri hægt að fá niðurstöðu dómstóla svo sem kærandi hafi ávallt viljað.

Kærandi vísar til fundar sem hann átti með kærða þann 17. desember 2018. Er því lýst að fundurinn hafi verið hræðilegur, að kærði hafi verið mjög æstur og tiltekið að kærandi gæti ekki verið svekktur með niðurstöðuna enda hefðu allir þættir málsins verið útskýrðir fyrir honum. Þá hafi kærði engum spurningum svarað sem kærandi hefði sent til hans fyrir fundinn eða leitast við að útskýra málið á nokkurn hátt. Hafi kærði stoppað sig nokkrum sinnum af á fundinum og beðist afsökunar á því að vera dónalegur. Með þeim hætti hafi samskipti aðila endað og kærandi staðið uppi með mjög ósanngjarnt samkomulag sem hann hefði ekki verið samþykkur auk þess að hafa litlar sem engar útskýringar á málalokum.

Vísað er til þess að kærði hafi tekið við greiðslum samkvæmt samkomulagi um fjárslit í janúar 2019. Hafi kærði þá millifært 6.000.000 króna inn á reikning kæranda en haldið eftir 1.000.000 króna auk þess sem kærandi hafi áður greitt fyrirframgreiðslu að fjárhæð 372.000 krónur. Í framhaldi af því hafi kærandi óskað eftir uppgjöri á milli málsaðila með tölvubréfi til kærða þann 14. janúar 2019. Er því lýst að svar hafi borist frá ritara kærða þann 16. janúar 2019 en með því hafi fylgt tveir reikningar, þ.e. annars vegar reikningur dags. 12. október 2018 að fjárhæð 372.000 krónur með þeirri skýringu að um væri að ræða „áfallinn kostnað“ og hins vegar reikningur dags. 5. desember 2018 að fjárhæð 871.150 krónur. Hafi verið tiltekið á hinum síðargreinda reikningi að hann væri tilkominn vegna vinnu kærða í alls 28 klukkustundir á tímagjaldinu 25.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti og útlögðum kostnaði. Samkvæmt því hefðu eftirstöðvar numið einungis 76.290 krónum sem millifærðar hefðu verið til kæranda. Miðað við það uppgjör hafi kærandi greitt samtals 1.295.710 krónur með virðisaukaskatti til kærða.

Kærandi kveðst hafa verið ósáttur við endurgjaldið og hið áskilda tímagjald enda hafi verið um annað samið. Þá hafi fyrirframgreiðslan verið ranglega listuð upp sem áfallinn kostnaður. Hafi kærandi gert athugasemdir þar að lútandi við kærða í tölvubréfi þann 17. janúar 2018 jafnframt því sem óskað hafi verið eftir að fá forsendur að baki samkomulagi um fjárslit.

Því er lýst að í svari ritara kærða hafi aðeins verið að finna afrit af tölvubréfi því þar sem kærandi hefði gengið að tilboði, ásamt fundargerð og tilkynningu til héraðsdóms um skiptalok. Vísar kærandi til þess að það svar hafi verið óviðunandi og að hann hafi upplýst kærða þar um í tölvubréfi hinn 21. janúar 2018 auk þess sem hann hafi óskað eftir nákvæmri tímaskráningu. Hafi þá borist svör frá ritara kærða um að mistök hefðu átt sér stað af hennar hálfu hvað fyrirframgreiðsluna varðaði og að hún yrði endurgreidd.

Vísar kærandi til þess að þá hafi málið litið betur út en að þóknun kærða hefði þá verið að fjárhæð 923.710 krónur. Hafi kærandi enn talið sig eiga rétt á að fá nánari útskýringar á reikningnum og hafi hann því ítrekað beiðni um að fá tímaskýrslu vegna verksins í tölvubréfi til kærða þann 24. janúar 2019. Því erindi hafi hins vegar ekki verið svarað af hálfu kærða.

Kærandi byggir annars vegar á að kærði hafi áskilið sér of hátt endurgjald og að hann hafi ekki fylgt gildandi lögum og reglum við gerð reikninga.

Um það efni vísar kærandi til þess að aðilar hafi samið munnlega um að tímagjald kærða vegna verksins skyldi vera að fjárhæð 17.000 krónur auk virðisaukaskatts. Við reikningsgerð kærða hafi tímagjaldið hins vegar verið að fjárhæð 25.000 krónur auk virðisaukaskatts. Bendir kærandi á að kærða hafi verið í lófa lagið að gera skriflegan samning við kæranda um umsamda þóknun og umboð. Beri að túlka allan vafa kærða í óhag þar sem hann hafi látið það ógert.

Kærandi bendir á að hann hafi gengið eftir svörum frá kærða um þetta efni. Fram hafi komið hjá ritara kærða að fullt tímagjald kærða væri að fjárhæð 28.000 krónur auk virðisaukaskatts og að fullyrðingar um lægra tímagjald væri vitleysa. Þá hefði kærði gefið kæranda „afslátt“ í samræmi við tímagjald skiptastjóra í málinu. Vísar kærandi til þess að það geti á engan hátt talist sambærilegt. Þannig hafi skiptastjóri upplýst á fyrsta skiptafundi um áskilið tímagjald. Hafi kærði ætlað sér að vera á sama tímagjaldi hafi honum borið að upplýsa kæranda um slíkt og gera skriflegan samning þar um.

Kærandi vísar aukinheldur til þess að hvergi sé að finna gjaldskrá eða skilmála á heimasíðu kærða. Samkvæmt því verði ekki annað ráðið en að kærði hafi ákveðið tímagjald þegar til uppgjörs hafi komið. Sé slíkt ekki sæmandi lögmannsstéttinni og varði við 2. gr. siðareglna lögmanna.

Þá er á það bent að kærandi hafi margsinnis óskað eftir að fá tímaskýrslu frá kærða sem reikningar hefðu verið grundvallaðir á. Hafi kærði neitað með öllu að svara þar um og afhenda tímaskýrslu vegna verksins. Sé það klárt brot á 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna. Þá liggi fyrir að kærði hafi mætt á þrjá skiptafundi, þrjá fundi með kæranda auk þess að annast samskipti við kæranda og lögmann gagnaðila. Sáttatillaga sem kærði samþykkti hafi komið frá lögmanni gagnaðila. Auk þess hafi kærði útbúið tilkynningu til ríkisskattstjóra. Með hliðsjón af þeim verkum sé tímaskráning sem nemi 28 klukkustundum með öllu ofaukið. Felist í því brot á 2. mgr. 10. gr., 3. mgr. 14. gr. og 15. gr. siðareglna lögmanna.

Hins vegar byggir kærandi á að kærði hafi brotið alvarlega gegn siðareglum lögmanna svo að til viðurlaga frá nefndinni þurfi að koma.

Hvað það varðar vísar kærandi til fyrrgreindrar lýsingar á málsatvikum eins og þau horfa við aðilanum. Bendir kærandi á að á þeim stutta tíma sem kærandi hafi farið til útlanda, þ.e. á tímabilinu frá 14. – 22. nóvember 2018, hafi allt í einu verið búið að fullgilda samkomulag á milli kæranda og gagnaðila hans. Kærandi hafi ekki séð það samkoulag fyrr en talsvert síðar. Auk þess hafi kærandi beðið kærða um að stöðva málið uns fyrrum sambúðarmaki hans hefði afhent bókhaldsmöppur en á það hafi kærði ekki hlustað.

Vísar kærandi til þess að hann hafi ekki haft vitneskju um að kærði hefði skrifað undir heildarsamkomulag sem gert hafi það að verkum að kærandi ætti engar frekari kröfur á hendur gagnaðila sínum. Það ákvæði hefði kærandi aldrei samþykkt. Þvert á móti hafi kærandi staðið í þeirri meiningu að enn ætti eftir að semja um ákveðin atriði. Verði slíkt hið sama leitt af tölvubréfum kærða til kæranda þar sem meðal annars hafi komið fram „að það sé ekki búið að klára neina samninga.“ Þá hafi komið fram í tölvubréfi kærða til kæranda eftir undirritun samkomulagsins að enn væri hægt að fara með málið fyrir dóm og að því væri ekki um endanlegt samkomulag að ræða. Af því verði ekki annað ráðið en að kærði hafi viljandi villt um fyrir kæranda um það efni hvort komist hefði á endanlegt samkomulag eða ekki.

Bent er á að ekki verði sé að kærði hafi haft umboð frá kæranda til að undirrita samkomulagið. Þannig hafi kærði ekki fengið skriflegt umboð frá kæranda heldur hafi það eina sem legið hafi til grundvallar verið tölvubréf kæranda þar sem hann samþykkti það tilboð sem kærði hafði borið undir hann. Það tilboð hafi hins vegar ekki endurspeglað endanlegt samkomulag eins og það hafi verið orðað.

Byggir kærandi á að kærða hefði verið rétt að bíða með undirritun þangað til kærandi kæmi aftur til landsins. Þá hafi kærða borið að bera samkomulagið undir kæranda og útskýra nákvæmlega hvað fælist í því. Það hafi kærði ekki gert. Þá sé ekki ljóst hvort kærði hafi verið að vinna fyrir hagsmuni skjólstæðings síns, þ.e. kæranda í málinu. Verði því að telja að kærði hafi gerst brotlegur við 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna sem leitt hafi til tjóns fyrir kæranda.

Samkvæmt öllu framangreindu byggir kærandi á að kærði hafi brotið alvarlega gegn skyldum sínum sem lögmaður í málinu. Á þeim grundvelli sé farið fram á að kærða verði veitt viðurlög eins og nefndin telur réttust.

Í viðbótarathugasemdum sínum til nefndarinnar kveðst kærandi forviða yfir málatilbúnaði kærða og aðgerðum hans eftir framlagningu kvörtunar í málinu. Þá mótmælir kærandi málatilbúnaði kærða í heild sinni.

Í fyrsta lagi kveður kærandi það rangt að hvorki hafi gengið né rekið með framvindu málsins áður en kærði hafi komið að því. Fyrir liggi að fyrrum lögmaður kæranda hafi verið kominn með betra samkomulag í hendurnar. Auk þess sé það rangt að kæranda hafi ekki hugnast að fara með málið fyrir dóm vegna undirliggjandi ágreinings.

Í öðru lagi mótmælir kærandi málatilbúnaði kærða um að kærandi hafi ekki einungis samþykkt einfalda framsetningu á niðurstöðu málsins heldur þakkað kærða sérstaklega fyrir. Vísar kærandi til þess að hann hafi einungis verið kurteis og að slíkt verði ekki notað gegn honum í máli þessu. Þá hafi ekki verið um einfalda framsetningu á samkomulaginu að ræða. Þvert á móti hafi kærandi einungis séð hálft samkomulagið og því einungis samþykkt það sem slíkt. Hafi kærði því ekki haft umboð til að samþykkja neitt frekar en fram hafi komið í tölvubréfi kæranda.

Í þriðja lagi bendir kærandi á að umfjöllun kærða um bakreikninga í tengslum við háttsemi hans á fundi þann 17. desember 2018 sé með öllu óskiljanleg. Þannig hafi hvorki kærði né ritari hans sent nokkurn bakreikning til kæranda á tilgreindum tíma. Slíkt hafi fyrst verið gert í janúarmánuði 2019 eftir athugasemdir kæranda.

Í fjórða lagi vísar kærandi til þess að kærði hafi fyrst lagt fram tímaskýrslu sína undir rekstri málsins fyrir nefndinni. Kærandi hafi ítrekað áður óskað eftir tímaskýrslunni frá kærða en ekki fengið. Af því sé ljóst að ekki hefði komið til afhendingar hennar ef kærandi hefði ekki lagt fram kvörtun vegna málsins. Auk þess verði ráðið af tímaskýrslunni að tímaskráningu sé með öllu ofaukið.

Í fimmta lagi mótmælir kærandi umfjöllun kærða um gjaldskrá hans. Er á því byggt að kærða hafi borið að kynna kæranda gjaldskránna eða gera sérstakan samning um þóknun. Slíkt hafi ekki verið gert. Hafi lögmannshættir kærða að þessu leyti farið í bága við 2. gr. siðareglna lögmanna.

Kærandi vísar til þess að hann sé forviða yfir aðgerðum kærða um að hafa milligöngu um greiðslu á skattskuld kæranda eftir að kvörtun í málinu var beint til nefndarinnar. Bendir kærandi á að báðum aðilum hafi verið ljóst í janúar 2019 að hagsmunagæslu kærða í þágu kæranda væri lokið með fullnaðaruppgjöri. Auk þess hafi kærði ekkert umboð haft frá kæranda til að taka að sér slíka milligöngu. Þannig hafi það verið á ábyrgð kæranda að standa við þann samning sem hann hefði verið aðili að, með öllum mögulegum afleiðingum. Þá sé það rangt að fyrirhugað hafi verið að draga skattskuldina frá við uppgjör. Aldrei hafi verið minnst á slíkt efni við skiptalok. Sé staðreyndin sú að kærði hafi ekki vitað af skattskuldinni fyrr en eftir að lokauppgjör hafi átt sér stað á milli málsaðila.

Um þetta efni bendir kærandi á að kærði hafi reynt að sætta málið í gegnum sameiginlega vini með þeim hætti að kærði myndi greiða upp skattskuld kæranda en kærandi greiða kærða 140.000 krónur auk þess að fella málið niður fyrir nefndinni. Vísar kærandi til þess að hann hafi vísað því tilboði á bug enda þá þegar verið búinn að gera greiðsluáætlun um skattskuldina.

Þrátt fyrir framangreint kveðst kærandi hafa fengið tölvubréf frá ritara kærða þann 28. mars 2019. Með tölvubréfinu hafi fylgt bakreikningur á félag kærða að heildarfjárhæð 871.150 krónur og reikningur á kærða sjálfan að fjárhæð 300.547 krónur með virðisaukaskatti. Kveður kærandi að skýringar kærða um „að við nánari skoðun hafi hann tekið eftir því að reikningurinn væri skráður á einkahlutafélag kæranda en ekki hann persónulega“ standist enga skoðun. Hafi það verið hugmynd kærða að gefa út reikning á einkahlutafélagið svo unnt væri að nýta virðisaukaskattinn í skattskilum.

Kærandi lýsir því að honum sé verulega brugðið að kærði hafi tekið upp á sitt eindæmi að greiða upp skattskuld, sem þegar hafi verið búið að semja um, með sínum eigin fjármunum án samráðs eða umboðs frá kæranda. Slíka „gjöf“ hafi kærandi hvorki beðið um né kært sig um. Þá sé álitamál hvort kærða hafi ekki borið skylda til að upplýsa kæranda um stöðu mála. Auk þess hljóti kærði að hafa fengið upplýsingar hjá viðkomandi sýslumannsembætti um greiðsluáætlun þá sem kærandi hafði undirritað og var byrjaður að greiða samkvæmt. Verði ekki annað ráðið en að kærði hafi ekki framkvæmt skoðun á því hvort skuldin væri enn til staðar eða í vanskilum heldur þvert á móti millifært alla fjárhæðina til lögmanns gagnaðila sem sé enn glórulausara. Liggi fyrir í málsgögnum greiðslukvittun frá lögmanni gagnaðila, dags. 26. mars 2019.

Vísar kærandi til þess að ekki verði annað séð en að kærði hafi með aðgerðum sínum verið að leitast við að bjarga sér fyrir horn. Sé augljóst að ef kærði teldi sig ekki hafa gert neitt rangt í málinu að þá færi hann ekki að greiða upp skattskuld kæranda að fjárhæð 570.602 krónur með eigin fjármunum. Hafi kærði með þessu gerst brotlegur við ákvæði siðareglna lögmanna þar sem hann hafi ekki unnið að hagsmunum kæranda, sbr. einnig 18. gr. siðareglna lögmanna.

Að endingu byggir kærandi á að af málatilbúnaði kærða fyrir nefndinni verði ráðið að kærði hafi fremur verið að vinna fyrir hagsmuni gagnaðila kæranda en eigin umbjóðanda.

Í samræmi við framangreint var farið fram á í viðbótarathugasemdum kæranda að kærði yrði sérstaklega ávíttur fyrir brot á siðareglum fyrir háttsemi sína eftir að kvörtun í málinu var beint til nefndarinnar.

III.

Kærði krefst þess fyrir nefndinni að staðfest verði að gjaldtaka lögmannsstofu hans í umræddu máli hafi verið eðlileg miðað við vinnuframlag, umfang málsins og hagsmuni. Þá krefst kærði þess að kröfu um vítur verði hafnað.

Varðandi málavexti vísar kærði til þess að hann hafi dregist inn á það fyrir góð orð að aðstoða kæranda við að ljúka sambúðarslitamáli og taka við málinu af öðrum lögmanni sem reynt hefði árangurslaust um margra mánaða skeið að binda enda á afar illvíga deilu. Hafi málið á þeim tíma verið í uppnámi og stefnt hraðbyrði í átt að málaferlum. Þá hafi kærandi lagt mikið kapp á að fá kærða að málinu meðal annars á þeim grundvelli að kærði væri þekktur fyrir að ljúka málum.

Kærði vísar til þess að lítið hafi verið rætt um endurgjald. Hafi aðal kappsmál beggja verið að klára málið sem allra fyrst ef hægt væri og á sem skynsamlegastan hátt. Í því væri ávinningurinn fólginn. Vísar kærði til þess að hann hafi upplýst að um gæti verið að ræða um það bil viku vinnu. Tímagjaldið samkvæmt gjaldskrá, sem legið hafi frammi, væri 28.000 krónur en að kærði myndi aldrei krefja kæranda að fullu enda mat hans að hvorki málið né kærandi bæri fullan kostnað. Mótmælir kærði sérstaklega fullyrðingum kæranda um að samið hafi verið um tímagjald að fjárhæð 17.000 krónur, slíkt sé hreinn skáldskapur. Þannig hafi kærði aldrei notað svo lágt tímagjald.

Vísað er til þess að málið hafi snúist um sambúðarslit þar sem eignirnar hefðu allar verið skráðar á konuna, fyrir utan helmings hlut í einkahlutafélagi sem rekið hafi verið utan um vinnu kæranda. Þá hafi forsendur þær sem kynntar hefðu verið fyrir kærða í upphafi ekki staðist eftir tímafreka skoðun.

Kærði vísar til þess að samkomulag það sem gert hafi verið í umboð kæranda hafi í stórum dráttum gengið út á að hann fengi félagið sem aðilar hefðu verið sammála um að væri 5.000.000 króna virði en fengi að auki 7.000.000 króna í peningum, eða alls 12.000.000 króna. Hafi það byggst á því að konan fengi húsið, sem áður hafði verið metið á 36.000.000 króna, en tæki yfir allar skuldir því tilheyrandi sem numið hafi hátt í 15.000.000 króna. Auk þess myndi konan halda þeim innstæðum á bankabókum sem skráðar hefðu verið á hennar nafni. Þá skyldi hvort þeirra um sig bera ábyrgð á þeim skuldum sem því tilheyrðu. Kveðst kærði hafa talið og telji enn að um ágæta niðurstöðu fyrir kæranda væri að ræða enda ljóst að á brattann yrði að sækja fyrir dómstólum auk tafa og kostnaðar sem því myndi fylgja.

Bendir kærði á að kærandi hafi deilt þeirri skoðun þar sem hann hafi samþykkt umrædd málalok í tölvubréfi þann 15. nóvember 2018. Hafi kærði þannig ekki einugis samþykkt einfalda framsetningu á niðurstöðunni heldur einnig lýst þar yfir sérstöku þakklæti með málalokin. Vísar kærði til þess að framsetningin á niðurstöðunni hafi verið skýr og einföld auk þess sem eignabreytur í málinu hefðu ekki verið aðrar og fleiri en lýst sé. Þá hafi kærandi átt að vera öllum hnútum kunnugur þegar hann hafi tekið þá upplýstu ákvörðun að ljúka málinu með greindum hætti.

Kærði vísar jafnframt til þess að niðurstaðan hafi verið sérstaklega kynnt og útskýrð fyrir kæranda í löngum símtölum sem vitni séu að. Þá hafi það verið rækilega skýrt að umrædd tala, sem lent hefði verið á, væri samkomulagsfjárhæð til sátta í þágu kæranda en ekki útkoma úr reikniformúlu. Til grundvallar hafi legið fyrirliggjandi staðreyndar málsins og að kærandi hafi orðið að hrökkva eða stökkva því að öðrum kosti hefði málinu verið vísað til dóms sem hvorugum málsaðila hefði hugnast.

Varðandi kostnað vísar kærði til fyrirliggjandi tímaskýrslu þar sem fram komi að hann hafi varið 37 klukkustundum í málið án þess að allt hafi verið talið. Bendir kærði á að tímaskýrslan nái ekki allt til loka afskipta af málinu, að ekki hafi verið skráð öll símtöl og tölvubréf vegna málsins auk þess sem ekki hafi verið gerð krafa um kostnað vegna vinnu sérhæfðs aðstoðarmanns við gagnaöflun, samskipti o.fl. Gjaldfærðar hefðu verið 28 klukkustundir á tímagjaldinu 25.000 krónur auk virðisaukaskatts. Samkvæmt því hafi kæranda verið veittur verulegur afsláttur af bæði tímagjaldi og tímafjölda.

Um þetta efni vísar kærði jafnframt til þess að við nánari skoðun á málinu hafi komið í ljós að reikningur hefði verið gerður á einkahlutafélag kæranda, D ehf. Slíkt geti auðvitað ekki gengið og hafi því verið gerður nýr lokareikningur á kæranda sem verkkaupa en hinn fyrri kreditfærður.

Auk þess hafi kærði, í tengslum við samkomulag aðila, tekið að sér milligöngu um að greiða þær skattskuldir kæranda sem gagnaðili hans hefði verið í ábyrgð fyrir vegna fyrri samsköttunar. Vísar kærði til þess að öðruvísi hefði samkomulagið aldrei náðst enda hafi gagnaðilinn treyst kæranda miðlungs vel. Fyrirhugað hafi verið að draga þær skattskuldir frá við uppgjör. Af því hafi ekki orðið þar sem kærandi hafi á þeim tíma verið kominn í einhverskonar stríð við lögmannsstofu kærða. Þá hafi kærandi ekki greitt skuldina með þeim afleiðingum að leitað hafi verið fullnustu hjá gagnaðila hans. Í framhaldi af því hafi verið leitað til kærða og krafist greiðslu á grundvelli meints greiðsluloforðs sem aldrei hafi verið gefið heldur einungis lofað milligöngu um. Hafi niðurstaða kærða orðið sú að greiða kröfuna af eigin fé þó óvíst væri um endurgreiðslu af hálfu kæranda.

Vísar kærði til þess að lögmannsstofa hans hafi greitt 570.602 krónur þann 25. mars 2019 og skattskuldir kæranda með því þurrkaðar út. Sé ekki þess virði að reyna innheimtu á þeirri kröfu á hendur kæranda og hafi hún því verið gefin eftir líkt og lokareikningur að fjárhæð 300.547 krónur með virðisaukaskatti beri með sér. Er á það bent að það sé þá á endanum sú heildarfjárhæð sem kærandi hafi þurft að greiða lögmannsstofu kærða vegna lögmannsaðstoðar.

Kærði kveðst hafna því alfarið að skort hafi á útskýringar hans til kæranda í tengslum við gerð samkomulagsins. Kæranda hafi þannig verið algerlega kunnugt um allar forsendur sem legið hafi að baki samkomulaginu. Þá hafi kærði veitt ítarlegar útskýringar bæði gagnvart kæranda sjálfum og aðstoðarfólki hans, aðallega áður, en einnig eftir að gengið hafi verið frá málinu með samkomulagi.

Þá mótmælir kærði rakalausum og ósmekklegum fullyrðingum kæranda um meintan dónaskap kærða í garð kæranda. Kveður kærði það hins vegar rétt að hann hafi verið skýrmæltur um málið á fundi aðila þann 17. desember 2018 enda hafi hann verið orðinn langþreyttur á endalausum spurningum, útskýringum, efasemdum og bakreikningum eftir formleg lok málsins. Fullyrðingar um dónaskap af hálfu kærða eigi hins vegar ekki við rök að styðjast.

Að endingu kveðst kærði stoltur af sinni aðkomu að lausn málsins.

Í viðbótarathugasemdum kærða til nefndarinnar ítrekaði aðilinn að kjarni málsins væri sá að kærandi hefði samþykkt málalokin. Auk þess hafi kærandi einungis þurfti að greiða seinasta reikning málsins, 242.377 krónur auk virðisaukaskatts, eftir að aðrir reikningar hefðu verið kreditfærðir. Þá viðurkenni kærði fúslega að hafa varið andvirði kreditfærslunnar til þess að greiða þann hluta skattskuldar kæranda sem gagnaðili hans hefði borið ábyrgð á í þeirri viðleitni að reyna að ljúka málinu friðsamlega fyrir alla aðila og með lágmarks eftirmálum en jafnframt lágmarks eftirtekju fyrir lögmannsstörfin. Sé kærandi forviða á þeim málalokum verði við það að sitja.

Að öðru leyti vísar kærði til þess að viðbótarathugasemdir kæranda í málinu lúti að efnisþáttum og séu málinu því óviðkomandi. Þá sé fullyrðingum um dónaskap og jafnvel öskur mótmælt sem röngum og tilhæfulausum.

Niðurstaða

Í máli þessu þarf í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort kærði hafi gerst brotlegur við lög eða siðareglur lögmanna þannig að rétt þyki að beita agaviðurlögum og í öðru lagi að fjalla um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa kærða.

 I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Varðandi ætluð brot að þessu leyti hefur kærandi í fyrsta lagi vísað til þess að kærði hafi ekki sinnt ítrekuðum beiðnum kæranda um afhendingu tímaskýrslu vegna þeirra lögmannsstarfa sem kærði sinnti og reikningur hans frá 5. desember 2018 tók til sem var að fjárhæð 871.150 krónur.

Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknun er reiknuð. Í 3. mgr. 14. gr. siðareglnanna er kveðið á um að uppgjör og skil lögmanns til skjólstæðings skuli vera greinargóð. Þá er kveðið á um í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Líkt og rakið er í málsatvikalýsingu að framan veitti kærði móttöku fyrir hönd kæranda á fjármunum sem gagnaðili hins síðargreinda innti af hendi á grundvelli samkomulags þess sem gert var á skiptafundi þann 21. nóvember 2018. Var þar annars vegar um að ræða greiðslu að fjárhæð 2.000.000 króna þann 22. nóvember 2018 og hins vegar greiðslu að fjárhæð 5.000.000 króna í ársbyrjun 2019. Þá liggur fyrir að lögmannsstofa kærða hélt upphaflega eftir af hinni fyrri greiðslu 1.000.000 króna við skil til kæranda þann 30. nóvember 2018, þar á meðal vegna útlagðs kostnaðar að fjárhæð 52.560 krónur og áfallins lögmannskostnaðar 871.150 krónur en líkt og áður greinir gerði lögmannsstofan reikning vegna hinnar síðargreindu fjárhæðar þann 5. desember 2018.

Fyrir liggur að í kjölfar skila lögmannsstofu kærða á hinni síðari samkomulagsgreiðslu til kæranda þann 8. janúar 2019, að fjárhæð 5.000.000 króna, óskaði kærandi eftir í tölvubréfi til kærða, dags. 14. sama mánaðar, að uppgjör færi fram þar sem viðskiptum málsaðila væri lokið. Áframhaldandi samskipti kæranda við ritara kærða, sem mun að nokkru leyti hafa annast samskipti við kæranda fyrir hönd kærða vegna málsins, leiddu til þess að lögmannsstofa kærða skilaði annars vegar til kæranda 76.290 krónum þann 16. janúar 2019 og hins vegar 372.000 krónum þann 23. sama mánaðar samkvæmt kreditreikningi frá sama degi sem tók til fyrirframgreiðslu kæranda inn á lögmannskostnað sem hafði verið reikningsfærð vegna mistaka þann 12. október 2018.

Málsgögn bera skýrlega með sér að kærandi óskaði ítrekað eftir í framhaldinu að fá tímaskýrslur frá kærða að baki fyrrgreindum reikningi frá 5. desember 2018 sem tekið hafði til lögmannsstarfa kærða í þágu kæranda. Má um það vísa til tölvubréfa kæranda til kærða og/eða ritara hans frá 17., 18. og 24. janúar 2019 en efni þeirra og andsvara ritara kærða er nánar lýst í málsatvikalýsingu að framan.

Um þetta efni er þess að gæta að ráða mátti af reikningi þeim sem lögmannsstofa kærða gaf út vegna starfa aðilans í þágu kæranda þann 5. desember 2018 að þóknun væri reiknuð á grundvelli tímagjalds, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna. Samkvæmt því hvíldi ótvíræð skylda á kærða, samkvæmt 15. gr. siðareglnanna sem áður er lýst, til að veita kæranda upplýsingar úr tímaskýrslu enda var eftir þeim leitað ítrekað af hálfu kæranda. Hér verður einnig að líta til þess að reikningsfjárhæðin, 871.150 krónur, var greidd með fjármunum sem kærði hafði móttekið fyrir hönd kæranda. Verður við mat á ætluðu broti kærða að þessu leyti að líta til 2. mgr. 14. gr. siðareglna lögmanna þar sem sérstaklega er tiltekið að í slíkum tilvikum beri lögmanni að gera skjólstæðingi viðhlítandi grein fyrir þeim kostnaði sem hann heldur eftir til tryggingar greiðslu áfallins verkkostnaður.

Ágreiningslaust er að kærði afhenti kæranda hvorki tímaskýrslu að baki reikningnum frá 5. desember 2018 né upplýsingar úr henni þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir kæranda þar að lútandi í janúarmánuði 2019. Með þeirri háttsemi braut kærði gegn 15. gr., sbr. 2. mgr. 14. siðareglna lögmanna. Getur ekki breytt í því samhengi þótt kærði hafi lagt tímaskýrslu sínu vegna starfa í þágu kæranda fram undir meðferð málsins fyrir nefndinni, þ.e. eftir að kvörtun kæranda var komið á framfæri, enda er skylda lögmanna að þessu leyti bæði skýr og ótvíræð gagnvart skjólstæðingum í þeim tilvikum þegar þóknun er áskilin á grundvelli tímagjalds líkt og hér um ræðir.

Í öðru lagi hefur kærandi byggt á því fyrir nefndinni að kærði hafi veitt honum ófullnægjandi upplýsingar í tengslum við samkomulag það sem gert var við opinber skipti til fjárslita kæranda og gagnaðila hans þann 21. nóvember 2019. Þá hafi kærði ekki haft umboð frá kæranda til að ganga frá málinu með þeim hætti sem gert hafi verið á skiptafundi tilgreindan dag.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/1998 ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Er slíkt enn fremur áréttað í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem tiltekið er að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi við þá meginreglu 1. gr. að lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti og leggja svo til allra mála, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Fyrir liggur að kærandi leitaði til kærða í byrjun októbermánaðar 2018 með beiðni um hagsmunagæslu vegna málsins en á þeim tíma höfðu sáttaumleitanir kæranda og gagnaðila hans, sem staðið höfðu um nokkuð skeið, reynst árangurslausar með öllu og ágreiningurinn leitt til opinberra skipta til fjárslita þeirra í milli. Ekki er ágreiningur um að kærði hafi tekið að sér hagsmunagæslu í þágu kæranda og að réttarsamband hafi því stofnast á milli aðila þó að skriflegt umboð þar að lútandi hafi ekki verið gert.

Eðli máls samkvæmt lutu fjárslitin að veigamiklum hagsmunum kæranda. Af málsgögnum verður jafnframt leitt að ýmsir þættir sem lutu að fjárslitunum vörðuðu kæranda miklu. Lutu þau atriði meðal annars að eignarhaldi að nánar tilgreindu einkahlutafélagi og kröfuréttindum vegna sölu á gistiheimili og þá hvort og með hvaða hætti slík réttindi ættu að koma undir fjárslitin. Þá liggur fyrir að mati nefndarinnar að kærandi hafi reynt eftir fremsta megni að upplýsa kærða um það efni við rekstur málsins, svo sem með afhendingu sérstakra minnispunkta við upphaf lögskipta aðila auk ítarlegra tölvubréfaskipta.

Í málsatvikalýsingu að framan er gerð grein fyrir samskiptum málsaðila eins og þau koma fram í skriflegum gögnum sem lögð hafa verið fyrir nefndina. Meðal þess sem þar greinir er tölvubréf sem kærði sendi til kæranda þann 15. nóvember 2018, sem tekið er beint upp að framan, en þar var því meðal annars lýst að kærði hefði náð fram lausn í málinu sem myndi þýða að kærði fengi í sinn hlut peningagreiðslu frá gagnaðila að fjárhæð 7.000.000 króna auk fyrirtækis og bíla að áætluðu verðmæti um 5.000.000 króna, eða samtals 12.000.000 króna. Var jafnframt tiltekið í tölvubréfinu að kærandi, sem staddur var erlendis á þeim tíma, þyrfti að „samþykkja þetta strax“ og að svar við tölvubréfinu þess efnis væri nægjanlegt. Fyrir liggur að kærandi svaraði erindi kærða samdægurs um að hann gengi að tilboðinu.

Þrátt fyrir fyrrgreind tölvubréfasamskipti aðila þann 15. nóvember 2018 liggur fyrir að ekki var gengið frá samkomulagi um lúkningu málsins á skiptafundi vegna fjárslitanna sem haldinn var þann sama dag. Á hinn bóginn var á fundinum bókuð tillaga lögmanna um sættir vegna málsins en auk þeirra atriða sem komið höfðu fram í áðurgreindu tölvubréfi kærða til kæranda var tiltekið í tillögunni að hvor aðili tæki á sig skuldir á sínu nafni og að hvorugur ætti frekari kröfur á hendur hinum.

Af málsgögnum verður ekki ráðið að kærði hafi upplýst kæranda sérstaklega um það sem fram hafði farið á skiptafundinum þann 15. nóvember 2018. Þá mun kærði ekki hafa gert kæranda með skriflegum hætti grein fyrir þeirri tillögu sem bókuð var í fundargerð skiptafundarins um mögulega sátt í málinu. Á hinn bóginn liggur fyrir að kærði gerði kæranda grein fyrir hvernig eignarheimildum að gistiheimilinu að C 1 hefði verið háttað í tölvubréfi hinn 19. nóvember 2018 en þar var jafnframt tiltekið að ekki væri enn búið að loka neinum samningum og að enn væri verið að „skoða þessa þætti.“

Ekki verður séð að kærði hafi átt í frekari samskiptum við kæranda fram að skiptafundi þann 21. nóvember 2018 þar sem tillaga til skiptaloka frá fyrri fundi var samþykkt, með þeim hætti sem nánar greinir í málsatvikalýsingu að framan. Fyrir liggur að kærði upplýsti kæranda um þau málalok í tölvubréfi hinn 30. sama mánaðar en áður hafði kærandi óskað eftir upplýsingum frá kærða um hvort enn væri verið að skoða þætti sem lytu að gistiheimilinu.

Um það kvörtunarefni sem hér um ræðir verður að mati nefndarinnar að líta til þess, svo sem hér hefur verið rakið, að kærði upplýsti kæranda ekki fyrirfram um öll þau atriði sem samkomulag það sem gert var á skiptafundi þann 21. nóvember 2018 tók til. Er þá einkum litið til þess atriðis að kveðið var á um í samkomulaginu að á grundvelli efnda samkvæmt því ætti hvorugur aðila frekari kröfur á hendur hinum. Verður ekki framhjá því litið að mati nefndarinnar að kærða var í lófa lagið að upplýsa kæranda um alla þætti samkomulagsins fyrir gerð þess enda hafði tillaga um það efni verið færð í fundargerð skiptafundar sex dögum fyrr, þ.e. þann 15. nóvember 2018. Telur nefndin raunar að það hafi verið sérstaklega brýnt í því tilviki sem hér um ræðir enda um að ræða atriði sem kærða mátti vera ljóst að vörðuðu kæranda miklu í ljósi undanfarandi samskipta málsaðila fyrir gerð samkomulagsins. Þá var slík upplýsingagjöf ekki síður mikilvæg í ljósi þess að skriflegt umboð lá ekki til grundvallar hagsmunagæslu kærða í þágu kæranda vegna málsins auk þess sem kærandi var staddur erlendis við gerð samkomulagsins og undanfarandi sáttameðferð.

Hér er þess jafnframt að gæta að í málatilbúnaði kærða fyrir nefndinni kemur fram að í tengslum við samkomulagið hafi kærði tekið að sér milligöngu um að greiða þær skattskuldir kæranda sem gagnaðili hans hefði verið í ábyrgð fyrir vegna fyrri samsköttunar, að slíkt hafi verið nauðsynleg forsenda fyrir gerð samkomulagsins og að fyrirhugað hafi verið að draga þær skuldbindingar frá við uppgjör. Af málsgögnum verður í engu ráðið að kærði hafi kynnt eða upplýst kæranda um þann þátt málsins áður en gengið var frá samkomulagi um lúkningu málsins á skiptafundi þann 21. nóvember 2018. Samkvæmt því verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að skort hafi á upplýst samþykki kæranda um það efni við samþykkt kærða fyrir hönd kæranda á umræddum málalokum þann 21. nóvember 2018.

Auk alls framangreinds verður að mati nefndarinnar að líta til þess að eftir samþykkt kæranda á því tilboði sem kærði beindi til hans þann 15. nóvember 2018 og fram að gerð endanlegs samkomulags þann 21. sama mánaðar upplýsti kærði um það eitt að enn væri verið að skoða ákveðna þætti málsins og að ekki væri búið að loka neinum samningum. Samkvæmt því mátti kærandi með réttu standa í þeirri trú að tilboð það sem kærði hafði sent til hans þann 15. nóvember 2018 væri ekki endanlegt og að vinna stæði enn yfir við að greina þá þætti sem kærandi hafði lagt nokkra áherslu á gagnvart kærða. Þá verður ekki séð af málsgögnum að kærði hafi upplýst kæranda um að tilgreindri athugun hans á málinu, sem hann hafði lýst í tölvubréfi til kæranda þann 19. nóvember 2018, væri lokið og að til stæði að ganga frá endanlegu samkomulagi. Að mati nefndarinnar hefði slíkt talist til góðra lögmannshátta og verið í samræmi við þær meginreglur sem kveðið er á um í 18. gr. laga nr. 77/1998 og 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Fær það engu breytt að mati nefndarinnar þótt samkomulagið sem gert var á skiptafundi þann 21. nóvember 2018 hafi verið í „í anda þess“ sem kærandi hafði samþykkt gagnvart kærða nokkru fyrr, líkt og lýst var í tölvubréfi kærða til kæranda þann 30. sama mánaðar.

Í samræmi við allt framangreint er það niðurstaða nefndarinnar að kærði hafi viðhaft ófullnægjandi upplýsingagjöf gagnvart kæranda í aðdraganda að gerð samkomulagsins þann 21. nóvember 2018. Verður jafnframt að leggja til grundvallar að mati nefndarinnar að kærða hafi skort viðhlítandi umboð og/eða aðra heimild frá kæranda til að standa að gerð samkomulagsins á greindum tíma, samkvæmt því efni sem það tók til. Með því hafi kærði gert á hlut kæranda með háttsemi sem hafi gengið í berhögg við 18. gr. laga nr. 77/1998 og 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmana, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Þá verði að virða síðari ráðstafanir kærða, þar á meðal þær sem lutu að kredtifærslum reikninga og greiðslu skattskuldar kæranda þann 25. mars 2018, í ljósi fyrrgreinds heimildarskorts og sem viðleitni aðilans til að bæta úr hugsanlegum afleiðingum hans í þágu kæranda.  

Í þriðja og síðasta lagi hefur kærandi borið því við fyrir nefndinni að kærði hafi sýnt honum dónaskap og vanvirðingu undir rekstri málsins, þar á meðal á fundi sem aðilar hafi átt með sér þann 17. desember 2018. 

Um það efni að kærði hafi viðhaft dónaskap í garð kæranda á áður lýstum fundi málsaðila þann 17. desember 2018 hefur kærði í málatilbúnði sínum fyrir nefndinni vísað til þess að um rakalausar og ósmekklegar fullyrðingar sé að ræða af hálfu kæranda. Rétt sé að kærði hafi verið skýrmæltur á fundinum en að ætlaður dónaskapur í garð kæranda eigi ekki við rök að styðjast.

Engra skriflegra gagna nýtur við um samskipti aðila að þessu leyti á fundinum þann 17. desember 2018. Gegn andmælum kærða um þetta efni hefur ekki verið sýnt fram á í málinu að mati nefndarinnar að hann hafi farið út fyrir þau mörk sem lög nr. 77/1998 og siðareglur lögmanna setja lögmönnum að þessu leyti. Þá verður ekki leitt af öðrum málsgögnum að kærði hafi viðhaft slíka háttsemi gagnvart kæranda í öðrum tilvikum undir rekstri málsins. Samkvæmt því verður ekki talið að kærði hafi gert á hlut kæranda vegna þeirra atvika sem hér um ræðir.

Að öllu framangreindu gættu er það niðurstaða nefndarinnar að kærði hafi gert á hlut kæranda með ýmissi háttsemi sem brotið hafi í bága við ákvæði laga nr. 77/1998 og siðareglur lögmanna. Að mati nefndarinnar verður við ákvörðun viðurlaga í málinu að líta heildstætt til þeirra brota kærða sem hér hefur verið lýst en þau taka til 18. gr. laga nr. 77/1998 og 1. mgr. 8. gr., 2. mgr. 14. gr. og 15. gr. siðrareglna lögmanna. Samkvæmt því liggur fyrir að brot kærða lutu að ýmissi háttsemi hans gagvart kæranda en sýnu alvarlegast að mati nefndarinnar er það brot kærða að hafa gengið frá samkomulagi um fjárslit fyrir hönd kæranda á skiptafundi þann 21. nóvember 2018, án sýnilegrar heimildar eða umboðs frá kæranda að teknu tilliti til þess efnis sem samkomulagið tók til. Er það niðurstaða nefndarinnar, með hliðsjón af atvikum öllum og að teknu tilliti til heildarmats vegna fyrrgreindra brota, að óhjákvæmilegt sé að veita kærða áminningu samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 vegna háttsemi hans gagnvart kæranda í málinu.

II.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Í málsatvikalýsingu að framan er gerð grein fyrir atvikum að baki gjaldtöku kærða vegna lögmannsstarfa hans í þágu kæranda. Eins og málið liggur fyrir nefndinni verður að leggja til grundvallar að ágreiningur á milli aðila í þessum þætti lúti að endurgjaldi því sem kærði áskildi sér úr hendi kæranda samkvæmt reikningi, dags. 5. desember 2018, að fjárhæð 871.150 krónur með virðisaukaskatti. Svo sem fyrr greinir tók reikningurinn til áfallins kostnaðar vegna 28 vinnustunda kærða í þágu kæranda á tímagjaldinu 25.000 krónur auk virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar að fjárhæð 3.150 krónur.

Málatilbúnaður kæranda um þetta efni er reistur á því að þóknun sú sem kærði áskildi sér úr hendi kæranda samkvæmt fyrrgreindum reikningi, dags. 5. desember 2018, hafi verið óhófleg. Þannig hafi aðilar samið munnlega um að tímagjald vegna lögmannsstarfa kærða í þáu kæranda skyldi vera að fjárhæð 17.000 krónur auk virðisaukasktts en við reikningsgerð hafi verið miðað við tímagjaldið 25.000 krónur auk virðisaukaskatts sem eigi sér ekki stoð. Þá hafi tímafjöldi samkvæmt reikningnum verið úr hófi miðað við það verk sem kærði hafi sinnt. Kærði hefur hins vegar vísað til þess að gjaldskrá lögmannsstofu hans hafi legið frammi á fyrsta fundi sem aðilar hafi átt með sér. Komi þar fram að tímagjald kærða sé að fjárhæð 28.000 krónur auk virðisaukaskatts. Þá hafi kærði varið alls 37 klukkustundum í málið samkvæmt fyrirliggjandi tímaskýrslu. Samkvæmt því hafi kærði veitt kæranda verulegan afslátt, bæði af tímagjaldi og tímafjölda. Hafi þóknun vegna lögmannsstarfa hans því verið hófleg.

Um málatilbúnað kæranda þess efnis að umsamið tímagjald vegna lögmannsstarfa kærða hafi verið að fjárhæð 17.000 krónur auk virðisaukaskatts liggja engin skrifleg gögn fyrir nefndinni. Gegn andmælum kærða um það efni hefur ekki verið sýnt fram á fyrir nefndinni að samkomulag hafi komist á milli aðila um að tímagjald að þeirri fjárhæð skyldi lagt til grundvallar við lögskipti aðila.

Samkvæmt fyrirliggjandi tímaskýrslu kærða vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda varði kærði alls 37 klukkustundum í málið á tímabilinu frá 5. október til og með 17. desember 2018. Af tímaskýrslunni verður ráðið að vinna kærða hafi einkum tekið til samskipta hans við kæranda, lögmann gagnaðila kæranda og skiptastjóra, athugunar málsgagna og undirbúnings skiptafunda auk fundarsóknar á slíka fundi og úrvinnslu eftir þá.

Skylda lögmanns til að upplýsa skjólstæðing sinn um verkkostnað, sbr. ofangreind ákvæði laga nr. 77/1998 og siðareglna lögmanna, er virk á meðan verkinu vindur fram. Líkt og fyrr er rakið gaf kærði út reikning vegna umræddra lögmannsstarfa þann 5. desember 2018 en áður hafði kærandi ekki verið upplýstur um áfallnar vinnustundir sem skyldu reikningsfærðar vegna verksins.

Að mati nefndarinnar er eðlilegt að þegar sanngjörn þóknun er metin, sé tekið nokkurt tillit til þess að ekkert liggur fyrir um að kærandi hafi verið upplýstur við framvindu málsins um áfallnar vinnustundir eða kostnað vegna þess. Átti slíkt ekki hvað síst við í ljósi þess að hvorki hafði verið gerður skriflegur samningur um þóknun vegna verksins né skriflegt umboð til handa kærða vegna hagsmunagæslu í þágu kæranda. Hins vegar er til þess að líta að við hina umþrættu reikningsgerð voru reikningsfærðar 28 klukkustundir í stað 35 sem kærði hafði þá þegar varið til verksins samkvæmt tímaskýrslu.

Að mati nefndarinnar var tímagjald kærða, að fjárhæð 25.000 krónur auk virðisaukaskatts, ekki úr hófi. Þá verður ekki séð að tímafjöldi samkvæmt tímaskýrslu hafi verið umfram það sem vænta mátti miðað við það verkefni sem kærða var falið að sinna en líkt og áður greinir var ekki reikningsfært fyrir allar vinnustundir sem tímaskýrslan tók til.

Með hliðsjón af öllu framangreindu og að virtum gögnum málsins, er það álit nefndarinnar að ekki séu efni til að lækka áskilda þóknun kærða vegna starfa aðilans í þágu kæranda. Samkvæmt því er það mat nefndarinnar að hæfilegt endurgjald fyrir lögmannsstörf kærðu í þágu kæranda sé 871.150 krónur með virðisaukaskatti. Þessi niðurstaða felur í sér að sú þóknun sem kærði áskildi sér vegna starfa í þágu kæranda, og þegar hefur verið innheimt, var hæfileg. Samkvæmt því er ekki efni til að fallast á kröfu kæranda um að áskilið endurgjald kærða sæti lækkun.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B lögmaður, sætir áminningu.

Áskilin þóknun kærða, B lögmanns, vegna starfa hans í þágu kæranda, A, felur í sér hæfilegt endurgjald.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Grímur Sigurðsson lögmaður, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Kristinn Bjarnason lögmaður

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson