Mál 7 2019

Mál 7/2019

Ár 2019, fimmtudaginn 17. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2019:

A ehf. og B,

gegn

C lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 6. mars 2019 erindi D lögmanns fyrir hönd kærenda, A ehf. og B þar sem kvartað er yfir því að kærði, C lögmaður, hafi brotið annars vegar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn hvað varðar rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess og hins vegar 27. gr. laganna.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfum dags. 6. mars og 11. apríl 2019. Greinargerð kærða barst nefndinni þann 26. apríl 2019 og var hún send lögmanni kærenda til athugasemda með bréfi dags. 29. sama mánaðar. Viðbótarathugasemdir kærenda vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 10. maí 2019 og voru þær sendar til kærða með bréfi dags. 13. sama mánaðar. Loks bárust viðbótarathugasemdir frá kærða þann 14. júní 2019 og voru þær sendar samdægurs til lögmanns kærenda þar sem jafnframt var tekið fram að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Í málsatvikalýsingu kærenda er vísað til þess að kærandi B sé fyrirsvarsmaður kæranda A ehf. Er því lýst að kærandi Rosita hafi komið að fjölmörgum verkefnum bæði hér á landi og í K sem hún hafi stýrt og komið að á einn eða annan hátt. Á árinu 2016 hafi kærandinn flutt til E þar sem hún hafi stofnað F sem kærandi A ehf. hafi rekið. Þá hafi starfsemi þess aðila jafnframt falist í útflutningi á sjávarafurðum og öðrum vörum til K.

Í málatilbúnaði kærða fyrir nefndinni er því lýst að hann annist lögmannsstörf sín í gegnum félagið G ehf. Samkvæmt hlutafélagaskrá verður ráðið að kærði sé stjórnarmaður og eini hluthafi tilgreinds félags en tilgangur þess er lögfræðiþjónusta, viðskiptaráðgjöf, rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Í málsgögnum er hins vegar jafnframt að finna útprentun af vefsíðu H ehf. (hér eftir „H ehf.“) þar sem nafn kærða, sem titlaður er sem lögmaður og löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali, kemur fram undir liðnum „Starfsmenn“. Hefur kærði lýst því fyrir nefndinni að hann hafi sinnt ýmsum verkefnum fyrir H ehf. á umliðnum árum, bæði fyrir og eftir að hann hóf rekstur eigin lögmannsstofu, en að þau hafi flest lotið að fyrirtækjar- og rekstrarráðgjöf sem og sölutengdum verkefnum. Hafi kærði almennt sinnt þeim störfum í krafti sérþekkingar sinnar sem viðskiptafræðings og löggilts fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala.

Samkvæmt málsgögnum er tilgangur H ehf. rekstur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu, viðskiptaþjónusta, leigumiðlun, fjármálastarfsemi, kaup og sala fasteigna, eignarhald og útleiga fasteigna og önnur skyld starfsemi. Er þar jafnframt tilgreint að J sé framkvæmdastjóri félagsins og eini hluthafi þess. Meðal málsgagna er tölvubréf sem fyrrgreindur J sendi til lögmanna kærenda, dags. 9. maí 2019, þar sem því er lýst að H ehf. hafi síðastliðin fimm ár veitt kæranda B og félögum á hennar vegu, þar með talið kæranda A ehf., ráðgjöf og þjónustu við fjöldann allan af ólíkum verkefnum eða allt frá því að útvega í nokkur skipti mannskap til að rýma/farga rusli úr eignum aðilans yfir í að bjarga æru hennar á fáheyrðan hátt. Auk þess hafi H ehf. séð um hagsmunagæslu og/eða milligöngu um fjölda samninga með ágætum árangri fyrir kærendur. Þá var þar tiltekið að kærði hefði sinnt ýmsum verkefnum fyrir H ehf. tengdum kærendum líkt og öðrum viðskiptavinum fyrirtækisins.

Hvað mál það sem hér varðar liggur fyrir að stéttarfélagið L sendi bréf til kæranda B þann 2. september 2016 vegna ætlaðra vangreiddra launa, launa í uppsagnarfresti og kostnaðar vegna ferða nánar tilgreinds aðila samkvæmt ráðningarsambandi sem byggt var á að komist hefði á milli viðkomandi og kæranda B eða félags á hennar vegum. Var tiltekið í bréfinu að heildarkrafa væri að fjárhæð 1.521.929 krónur, að hafa þyrfti samband vegna kröfunnar innan 10 daga en að öðrum kosti yrði krafan fengin lögmanni félagsins til innheimtu.

Í málsgögnum liggur fyrir svarbréf kærða til áðurgreinds stéttarfélags, dags. 29. september 2016. Var tiltekið í bréfinu, sem ritað var á bréfsefni lögmannsstofu kærða, að kærandi B hefði falið kærða að svara erindinu fyrir hönd kæranda A ehf. Í bréfinu var öllum kröfum þeim sem fram höfðu komið í bréfi stéttarfélagsins hafnað en í því var skírskotað til kæranda A ehf. sem umbjóðanda kærða.

Þann 30. ágúst 2017 var birt frétt á vefmiðli M  (hér eftir „M“) sem bar yfirskriftina „Grunur um.........“. Var meðal annars tiltekið í fréttinni að eigandi F á E, þ.e. kærandi B án þess að hún væri sérstaklega nafngreind, væri grunaður um ....... auk þess sem ætluðum atvikum að baki því var lýst. Þá mun jafnframt hafa verið greint frá málinu í beinni útsendingu í kvöldfréttum M þennan sama dag.

Í yfirlýsingu stéttarfélagsins L, dags. x. september 201x, var meðal annars tiltekið að fréttastofa M þyrfti ein að axla ábyrgð vegna fréttar þeirrar sem birt hafði verið þann x. ágúst sama ár. Hafi þannig verið að öllu leyti á ábyrgð viðkomandi fréttamanns, yfirmanns hans og M í heild sinni að birta viðkomandi frétt. Hafi starfsmenn L aldrei staðfest annað eða meira en að ábending hefði komið fram og að grunur léki á um að eitthvert misferli ætti sér stað. Rannsókn málsins hefði leitt í ljós að ábendingin ætti ekki við rök að styðjast heldur hefðu þvert á móti öll gögn verið í samræmi við almenna kjarasamninga og launataxta. Þyrfti fréttastofa M því ein að axla ábyrgð „af ófaglegum vinnubrögðum sínum.“

Ekki er ágreiningur um að kærði kom strax að málefnum kærenda í kjölfar birtingar á frétt M þann x. ágúst 201x. Bera gögn málsins þannig með sér að kærði hafi annast öll samskipti fyrir hönd kærenda í tengslum við málið, hvort heldur sem um var að ræða samskipti við stéttarfélög, fjölmiðla, endurskoðanda kærenda eða aðra aðila.

Þann x. september 201x gaf kærði út fréttatilkynningu vegna málefna F á E en hún var gefin út á bréfsefni lögmannsstofu hans. Var því þar lýst að umbjóðandi kærða, kærandi B, hefði ákveðið að leita réttar síns vegna umfjöllunar M um málefni F. Í fréttatilkynningunni var jafnframt atvikum að baki umfjölluninni lýst eins og þau horfðu við kærandanum. Þá sagði eftirfarandi í niðurlagi fréttatilkynningarinnar:

Rík skylda hvílir á fjölmiðlum og fréttamönnum að fylgja siðareglum, starfsreglum og öðrum hátternisreglum, sérstaklega þegar kemur að ásökunum um refsiverða háttsemi, en ....... varðar allt að 12 ára fangelsi. Að þessu var ekki gætt við fréttaflutning M þann x. ágúst sl. Hefur umbj. minn því ákveðið að leita réttar síns og falið undirrituðum að undirbúa stefnu á hendur M, fréttamanni og öðrum sem ábyrgð kunna að bera.

Fyrir liggur að þennan sama dag voru fréttir birtar á ýmsum vefmiðlum um efni fyrrgreindrar fréttatilkynningar kærða. Þar á meðal eru fréttir sem birtar voru á vefmiðlunum x.is og y.is þann x. september 201x undir yfirskriftunum „Höfðar mál gegn M“ og „Eigandi F stefnir M“, en þær eru meðal málsgagna fyrir nefndinni.

Með tölvubréfum kæranda B til kærða að kvöldi dags þann 22. október 201x var því lýst að tekjur kvöldins hefðu verið óviðunandi og að fréttir af F hefðu eyðilagt orðspor og rekstur fyrirtækisins. Þá óskaði kærandinn eftir áliti kærða á því hvort loka ætti staðnum.

Kærandi B ítrekaði fyrrgreint efni í tölvubréfi til kærða þann 27. október 201x. Óskaði kærandinn jafnframt eftir áætluðum lögmannskostnaði vegna reksturs máls fyrir dómstólum gegn M. Ítrekaði kærandi þá ósk í tölvubréfi til kærða þann 29. sama mánaðar, sbr. nánar tiltekið eftirfarandi:

As we could see after M news, its really kill ... business, because most people are still believe there is something wrong with ........ – I would like send M to court as soon as possible, but before you start any work, I would like discuss with you, how much will cost all lawyer fee, I need all the clear information from you. – It´s necessary for me to make a plan how much will be cost in this case, how much I can get from the court.

Í málatilbúnaði kærða er því lýst að ekki hafi komið til þess að hann tæki að sér slíkan málarekstur í þágu kærenda fyrir dómstólum. Þá hafi viðskiptasamband kærenda verið bundið við H ehf. en ekki lögmannsstofu kærða og að því hafi ekkert réttarsamband verið á milli kærenda og kærða.

Meðal málsgagna er tölvubréf sem J, framkvæmdastjóri og eigandi H ehf., beindi til kæranda B þann 20. desember 201x. Með tölvubréfinu, sem kærendur lögðu fram undir rekstri málsins fyrir nefndinni, fylgdu tímaskýrslur vegna starfa fyrrgreinds J annars vegar og kærða hins vegar í þágu kæranda A ehf. á tímabilinu frá apríl- til desembermánaðar 201x. Nánar tiltekið sagði meðal annars eftirfarandi í tölvubréfinu:

Attached you will find a detailed time reports from me and C for every month since 1. april 201x. The time reports include a breakdown of every task and case we have been working on for you in 201x. – You did get bill for jan-mar in beginning of april and we did not send you any bill since then because of your temporary cash flow problems. - The number in the attachments is a reference to the month of the work (06 for june and so on..).

Kærendur hafa lagt fyrir nefndina fyrrgreindar tímaskýrslur að því marki sem þær lúta að störfum kærða í þágu A ehf. en þær taka til tímabilsins júní – nóvember 201x. Í öllum tilvikum kemur þar fram að um sé að ræða tímaskýrslu vegna lögfræðivinnu og annarra sérfræðistarfa kærða, að verksali sé H ehf. og verkkaupi sé kærandi A ehf. Af tímaskýrslunum verður ráðið að áskilið tímagjald vegna lögmannsstarfa kærða í þágu kærandans hafi verið að fjárhæð 19.800 krónur auk virðisaukaskatts en tímagjald vegna annarra starfa hafi verið að fjárhæð 16.800 krónur auk virðisaukaskatts. Þá liggur fyrir samkvæmt tímaskýrslunum að kærði varði alls 240,25 klukkustundum á tímabilinu í lögmannsstörf í þágu kærandans en 138,75 klukkustundum í önnur störf vegna aðilans. Nánari lýsingu á einstökum verkþáttum, tímafjölda, tímagjaldi og heildarendurgjaldi vegna hvers mánaðar greinir jafnframt skýrlega í skýrslunum.

Kærendur lýsa því í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni að kærandi A ehf. hafi greitt alls 16.372.129 krónur til H ehf. á tímabilinu frá 27. febrúar 2017 til 23. apríl 201x. Vísa þeir um það efni annars vegar til fyrirliggjandi hreyfingaryfirlits lánardrottna og hins vegar til millifærslukvittana. Kærði hefur hins vegar bent á að tilgreint hreyfingaryfirlit beri með sér að greiðslur sem eigi að hafa verið inntar af hendi 27. febrúar, 12. apríl og 21. desember 201x, alls að fjárhæð 4.541.599 krónur, hafi verið kreditfærðar þessa sömu daga og því geti heildargreiðslur kærandans til H ehf. ekki numið hærri fjárhæð en 11.830.530 krónum líkt og skjalið beri með sér.

Hverju sem því líður þá liggur fyrir að kærandi A ehf. greiddi til H ehf. alls 11.830.530 krónur með þremur greiðslum á tímabilinu frá 1. febrúar til 23. apríl 2018. Nánar tiltekið var þar í fyrsta lagi um að ræða greiðslu að fjárhæð 2.000.000 króna þann 1. febrúar 2018, í öðru lagi greiðslu að fjárhæð 5.000.000 króna þann 12. sama mánaðar og í þriðja lagi greiðslu að fjárhæð 4.830.530 krónur þann 23. apríl 2018.

Þá liggur fyrir í málsgögnum reikningur nr. 377 sem H ehf. gaf út á hendur kæranda A ehf. þann 12. nóvember 2018 að heildarfjárhæð 11.830.530 krónur með virðisaukaskatti. Á reikningnum var tiltekið að hann væri í fyrsta lagi tilkominn vegna fyrirtækjaráðgjafar 201x „skv. skýrslum“, að vinnustundir væru alls 146 klst. á tímagjaldinu 16.800 krónur auk virðisaukaskatts og að áskilið endurgjald væri því 2.452.800 krónur auk virðisaukaskatts vegna þess þáttar. Í öðru lagi var tiltekið á reikningnum að hann tæki til fyrirtækjaráðgjafar 201x „skv. skýrslum“, að vinnustundir væru alls 138,75 klst. á tímagjaldinu 16.800 krónur auk virðisaukaskatts og að áskilið endurgjald væri því 2.331.000 krónur auk virðisaukaskatts vegna þess þáttar. Að endingu var tiltekið á reikningnum að hann tæki til lögfræðiráðgjafar 201x „skv. skýrslum“, að vinnustundir væru alls 240,25 klst. á tímagjaldinu 19.800 krónur auk virðisaukaskatts og að áskilið endurgjald vegna þess þáttar væri því 4.756.950 krónur auk virðisaukaskatts.

Kærendur hafa jafnframt lagt fram í málinu tölvubréf sem J, framkvæmdastjóri og eigandi H ehf., sendi til endurskoðanda kærenda þann 28. febrúar 2019 en af yfirskrift og efni þess verður ráðið að fyrrgreindur reikningur nr. 377 frá 12. nóvember 2018 hafi fylgt með því. Í bréfinu var að finna útlistun á tilgreindum reikningi en þar sagði meðal annars:

Skv. beiðni þinni þá er meðfylgjandi afrit reiknings sem var gefinn út á A ehf. á síðasta ári. – Til útskýringar (þar sem þú bókar A og þetta spannar yfir árin 201x/201x) þá er um að ræða samsafnaða vinnu sem nær yfir átta mánaða tímabil árið 201x. Sökum mikilla greiðsluerfiðleika B og hennar félaga árið 201x var fallist á að bíða með innheimtu fyrir vinnu H og útgáfu reiknings vegna góðvildar við hana, en henni voru þó afhent yfirlit og hún vel meðvituð um alla unna vinnu. – Sökum tafa á greiðslum (B ætlaði að greiða framangreint eigi síðar en fyrir árslok 201x) og engar innborganir 201x, var samkomulag aðila um að reikningur yrði gefnn út eftir fullnaðaruppgjör frá A (svo H þyrfti ekki að leggja út fyrir útskatti ógreidds reiknings) og voru því innborganir A (sem fór fram á tímabilinu febrúar til loka apríl 201[x]) gerðar á grundvelli bæði sundurliðaðs reikningsyfirlits (yfir heildartímabilið) og tímaskýrslna (eftir mánuðum/aðilum) sem B hafði fengið afhent. – Eftir fullnaðaruppgjör var síðan gefinn út meðfylgjandi reikningur í samræmi við framangreint og hann sendur á lögheimili A.

Með bréfi núverandi lögmanns kærenda til kærða, dags. 12. desember 2018, var því lýst að lögmaðurinn færi nú með hagsmunagæslu kærenda vegna fréttaflutnings M hinn x. ágúst 201x um meint .................. Var óskað eftir að kærði myndi afhenda öll skjöl og önnur gögn í tengslum við málið eigi síðar en hinn 21. desemer sama ár. Þá var áskilinn réttur í bréfinu til að leggja fram kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna vegna starfa kærða og endurgjalds í málinu.

Kærði mun hafa afhent hin umbeðnu gögn á skrifstofu núverandi lögmanns kærenda þann 18. desember 2018 ásamt minnisblaði um störf sín. Er tilgreint minnisblað meðal málsgagna fyrir nefndinni. Þá bera gögn þau sem kærði afhenti með minnisblaðinu með sér, svo sem áður er rakið, að hann hafi átt í umtalsverðum samskiptum, þar á meðal vegna gagnaöflunar, við hina ýmsu aðila vegna málsins, þar á meðal kæranda B, fjölmiðla og stéttarfélög. Taka umrædd gögn einkum til september- og októbermánaðar 201x. Þá bera gögn málsins með sér að við sendingu tölvubréfa hafi kærði almennt notast við tölvupóstfang á lögmannsstofu aðilans, þ.e. c@g.is.

Með bréfi núverandi lögmanns kærenda til kærða, dags. 13. febrúar 2019, voru gerðar alvarlegar athugasemdir við þóknun kærða og einstakar tímaskráningar vegna málsins. Var því lýst að með hliðsjón af atvikum og gögnum væri það mat kærenda að hæfilegt endurgjald fyrir störf kærða væri að fjárhæð 5.000.000 króna með virðisaukaskatti enda gæti sú fjárhæð ekki talist annað en hófleg og sanngjörn. Aftur á móti hefði þóknun kærða samkvæmt bókhaldi kæranda A ehf. numið 16.372.129 krónum með virðisaukaskatti fyrir tímabilið 27. febrúar 2017 til 23. apríl 2018, en sú fjárhæð væri úr hófi og fengi ekki að neinu leyti stoð í þeim störfum sem innt hefðu verið af hendi.  Samkvæmt því væri gerð krafa á hendur kærða um mismuninn, samtals 11.372.129 krónur með áskilnaði um frekari rétt ef sættir næðust ekki.

Kærði hafnaði framangreindu erindi með tölvubréfi til lögmanns kærenda þann 28. febrúar 2019. Kvað kærði augljóst að lögmaður kærenda væri ekki upplýstur um málefni og fyrirkomulag vinnu í þágu kærenda. Þá tiltók kærði að hann hefði ekki á nokkurn hátt brotið gegn skyldum sínum gagnvart kærendum.

Ekki verður séð að málsaðilar hafi átt í frekari samskiptum vegna málsins. Þá beindu kærendur kvörtun í máli þessu til nefndarinnar þann 6. mars 2019, svo sem fyrr greinir.

II.

Kærendur krefjast þess aðallega að kærða verði gert að endurgreiða þeim 11.372.129 krónur vegna ofgreiddrar þóknunar, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Til vara krefjast kærendur þess að lögmannsþóknun kærða verði lækkuð verulega og metin að álitum nefndarinnar. Er þá gerð sú krafa að kærða verði gert skylt að greiða kærendum mismun þeirrar fjárhæðir og því sem kærendur hafa þegar greitt kærða. Þá krefjast kærendur þess að kærði verði áminntur fyrir brot á siðareglum lögmanna samkvæmt 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. 10., 12. og 15. gr. siðareglnanna. Loks krefjast kærendur málskostnaðar úr hendi kærða vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Kærendur kveða upphaf málsins hvað kærða varði megi rekja til tiltekins máls sem komið hafi upp á haustmánuðum 2016. Þá hafi nánar tilgreindur einstaklingur komið til landsins í kjölfar samskipta við kæranda B í tengslum við vinnu á F. Sá einstaklingur hafi hins vegar ekki fengið starfið. Af þeim sökum hafi hann leitað til stéttarfélagsins L vegna málsins. Er vísað til þess að viðkomandi stéttarfélag hafi gert kröfu fyrir hönd aðilans með bréfi til kæranda B, dags. 2. september 2016, á þeim grundvelli að komist hefði á ráðningarsamningur. Hafi kærði hafnað þeim kröfum fyrir hönd kæranda B með bréfi, dags. 26. september 2016. Þá liggi fyrir í málsgögnum tölvubréfasamskipti milli stéttarfélagsins og kærða vegna þessa máls en fyrir liggi að stéttarfélagið hafi ekki aðhafst frekar vegna málsins þrátt fyrir boðaða stefnu.

Kærendur lýsa því að mál þetta fyrir nefndinni eigi jafnframt rætur að rekja til fréttar sem birt hafi verið hinn x. ágúst 201x á vefmiðlinum m.is þar sem umfjöllunarefnið hafi verið meint .......................... Sama dag hafi einnig verið greint frá því í beinni útsendingu í kvöldfréttum M að grunur léki á að eigandi staðarins, kærandi B, stundaði ....... samkvæmt heimildum frá starfsmönnum stéttarfélagsins L.

Kærendur vísa til þess að eftir því sem þeir viti best hafi kærði átt fund með fulltrúum stéttarfélagsins eftir birtingu fyrrgreindra frétta. Á fundinum hafi fulltrúar stéttarfélagsins fullyrt að rangt væri að hinar ætluðu heimildir væru frá þeim komnar. Hafi slíkt hið sama verið ítrekað í yfirlýsingu stéttarfélagsins, dags. x. september 201x, þar sem meðal annars var tiltekið að ekkert athugavert hefði fundist við könnun á F.

Því er lýst að eftir birtingu fréttarinnar hafi kærði átt fund með kæranda B. Vísa kærendur til þess að þar hafi komið fram skýrar væntingar af hálfu kærandans um að höfðað yrði skaðabótamál gegn M vegna umrædds fréttaflutnings. Fyrir tilstilli kærða hafi því svo verið lýst í fjölmiðlum að kærandi B hefði falið honum að undirbúa stefnu á M vegna umfjöllunarinnar. Vísa kærendur um það efni til fréttatilkynningar kærða, dags. x. september 201x, sem tekin hafi verið upp af öðrum fjölmiðlum sama dag. Benda kærendur þó á að hvergi í málsgögnum megi finna formleg bréfasamskipti milli kærða og M eða stefnudrög líkt og kærandi B hafi falið kærða að gera.

Hverju sem því líður benda kærendur á að meðferð málsins í kjölfarið af hálfu kærða hafi ekki verið með eðlilegum hraða og í verulegu ósamræmi við þá þóknun sem kærði áskildi sér. Þannig séu gögn málsins hvorki umfangsmikil né varði þau flókin viðskipti sem tímafrekt sé að undirbúa og greina. Þá hafi kærði engar skýringar veitt á drætti málsins. Vegna óánægju kæranda B með framgang málsins hafi hún leitað til Lögmanna N hinn 10. desember 2018. Í framhaldi þess hafi verið óskað eftir að kærði myndi afhenda öll gögn málsins sem tengst hafi störfum hans í þágu kærenda. Er vísað til þess að kærði hafi afhent umbeðin gögn á skrifstofu fyrrgreindrar lögmannsstofu þann 18. desember 2018 ásamt stuttu minnisblaði um störf aðilans í þágu kærenda.

Kærendur vísa til þess að þeir hafi gert verulegar athugasemdir við þóknun kærða og einstakar tímaskráningar hans í bréfi dags. 13. febrúar 2019. Hafi kærða með bréfinu verið gefinn kostur á að ná samkomulagi um þóknunina og endurgreiða kærendum tiltekna fjárhæð. Með tölvubréfi kærða, dags. 28. febrúar 2019, hafi öllum kröfum kærenda verið hafnað. Lýsa kærendur því að ekkert hafi komið fram í málinu síðan sem réttlætt geti þóknun kærða.

Vísað er til þess í málatilbúnaði kærenda að ágreningur málsins lúti að lögmannsþóknun kærða fyrir lögmannsþjónustu sem hann hafi innt af hendi í þágu kærenda á árunum 2016 og 2017. Samkvæmt hreyfingarlista úr bókhaldi kæranda A ehf. hafi kærða verið greiddar 16.372.129 krónur með virðisaukaskatti á tímabilinu frá 27. febrúar 2017 til og með 23. apríl 2018. Í öllum tilvikum hafi umræddar fjárhæðir verið lagðar inn á sérstakan reikning kærða hjá H ehf. Byggja kærendur á að fjárhæðin eigi sér ekki stoð og að hún styðist ekki að neinu leyti við þau störf sem innt hafi verið af hendi af hálfu kærða.

Kærendur benda á að í málinu liggi fyrir tímaskýrslur úr verkbókhaldi kærða fyrir tímabilið júlí 201x til og með desember 201x. Hafi verið miðað við tímagjaldið 16.800 krónur og 19.800 krónur auk virðisaukaskatts en samanlagður fjöldi vinnustunda samkvæmt þeim sé 379 klukkustundir sem geri alls 8.886.045 krónur með virðisaukaskatti. Kveðst kærandi B ekki kannast við að hafa móttekið aðrar tímaskýrslur frá kærða. Vegna fyrirliggjandi ágreinings sé nauðsynlegt að kærði leggi fram í málinu allar tímaskýrslur sínar vegna starfa í þágu kærenda.

Þá byggja kærendur á að nauðsynlegt sé að gera alvarlegar athugasemdir við einstakar tímaskráningar í málinu. Þannig séu sumir verkþættir óeðlilegir og úr hófi miðað við umfang þeirrar vinnu sem innt hafi verið af hendi. Í dæmaskyni vísa kærendur til þess að samkvæmt tímaskýrslu fyrir september 201x hafi verið bókaðir 110,75 klukkustundir í samskipti, þar á meðal símtöl og tölvubréf. Það jafngildi samtals 2.707.044 krónum með virðisaukaskatti í samskipti fyrir einungis einn mánuð. Í mánuðinum þar á undan, ágúst 2017, hafi 41,25 klukkustund farið í samskipti, þar af í eitt skipti 8 klukkustundir í símtöl fyrir aðeins tvo daga án viðeigandi skýringa sem verði að teljast óeðlilegt.

Ennfremur benda kærendur á að kærði hafi varið yfir 100 klukkustundum í vinnu sem lotið hafi að fjármögnun hjá X banka hf. Vísa kærendur til þess að umrædd fjármögnun hafi ekki gengið eftir og að takmarkaðar upplýsingar liggi fyrir um hana í þeim gögnum sem kærði hafi afhent. Samkvæmt framlögðu minnisblaði kærða megi ástæðuna hins vegar rekja til slæmrar stöðu kæranda A ehf. á tilgreindum tíma. Byggja kærendur á að kærða hafi mátt vera ljóst að verkefnið væri ekki líklegt til árangurs og að honum hafi því borið að haga umfangi vinnu sinnar í samræmi við það.

Í samræmi við framangreint gera kærendur alvarlegar athugasemdir við fyrirliggjandi tímaskýrslur. Byggja kærendur á að við mat á þóknun beri að líta til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 en sú regla fái meðal annars stoð í 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Telja verði að mælikvarðinn á hvað teljist hæfilegt hljóti fyrst og fremst að ráðast af heildarmati á vinnu með hliðsjón af undirliggjandi hagsmunum, því verki sem unnið er og þeim árangri sem af því hafi hlotist. Telja kærendur þóknun kærða hvorki hæfilega né sanngjarna í því sambandi. Er í því samhengi á það bent að málarekstur gegn M hafi verið lítið sem ekkert kominn á veg öfugt við það sem ætla mætti af lýsingu í framlögðum tímaskýrslum og fjárhæð þóknunarinnar. Sama gildi um fjármögnun hjá X banka hf. sem ekki hafi gengið eftir. Auk þess hafi málin ekki verið rekin með hæfilegum hraða, sbr. 12. gr. siðareglna lögmanna. Um þeta efni vísa kærendur jafnframt til 2. mgr. 10. gr. og 15. gr. siðareglnanna.

Kærendur vísa til þess að ljóst sé að uppgjör og skil lögmanns til skjólstæðings skuli vera greinargóð og að honum beri að láta í té reikning yfir verkkostnað í hverju máli og tímaskýrslu. Veruleg vanhöld hafi hins vegar verið á útgáfu reikninga af hálfu kærða. Af hálfu kærenda hafi verið greitt inn á verkið samkvæmt fyrirmælum og eftir tímaskýrslum. Þá hafi kærði ekki gefið út reikning fyrr en með tölvubréfi dags. 28. febrúar 2019. Einnig liggi fyrir að ekki hafi verið samið upphaflega um tímagjald vegna starfa kærða í þágu kærenda enda enginn skriflegur samingur þar að baki. Þar að auki hafi kærandi B aldrei verið upplýst um áfallnar vinnustundir eða athygli hennar vakin á að þóknunin yrði eins há og raunin varð.

Byggja kærendur á að allt framangreint sé í brýnni andstöðu við siðareglur lögmanna og teljist ámælisvert af hálfu kærða. Áskilið og greitt endurgjald kærða geti ekki talist hæfilegt. Með hliðsjón af atvikum öllum og fyrirliggjandi gögnum sé það mat kærenda að hæfilegt endurgjald fyrir störf kærða sé að fjárhæð 5.000.000 krónur með virðisaukaskatti. Er á það bent að þóknun kærða nemi samkvæmt bókhaldi 16.372.129 krónum með virðisaukaskatti. Samkvæmt því geri kærendur aðallega kröfu á hendur kærða um mismuninn, samtals 11.372.129 krónur. Til vara sé krafist lækkunar og endurgreiðslu að álitum nefndarinnar.

Kærendur telja ljóst að málskot þeirra sé innan tímamarka enda hafi verið veruleg vanhöld á útgáfu reikninga af hálfu kærða, tímaskýrslna og upplýsingagjöf um málefni kærenda. Þannig hafi kærendur enga yfirsýn haft yfir stöðu mála sinna eða raunkostnað sem hlotist hafi af störfum kærða. Samkvæmt því hafi kærendur ekki haft tilefni til að leita réttar síns að þessu leyti fyrr en gert hafi verið. Er jafnframt á það bent að samkvæmt framlögðum hreyfingarlista hafi síðasta greiðslan verið innt af hendi hinn 24. apríl 2018 og því sé ljóst að málskotið sé innan tímamarka.

Í viðbótarathugasemdum kærenda var málatilbúnaði kærða mótmælt í heild sinni. Kærendur vísa til 2. mgr. 5. gr. laga nr. 77/1998 og 3. gr. siðareglna lögmanna og byggja á að þegar gögn málsins séu skoðuð geti engum dulist að kærði hafi tekið að sér ýmis verk fyrir hönd kærenda sem lögmaður. Ágreiningsefni málsins sé skýrt. Kærandi B hafi leitað til kærða á haustmánuðum 201x vegna stöðu hans sem lögmanns en ekki vegna sérþekkingar á öðrum sviðum. Kærði hafi samþykkt að gæta hagsmuna kærenda í þeim deilum sem upp hafi komið sem öll hafi verið af lögfræðilegum toga. Þá hafi kærði brugðist meðal annars við með því að senda svör og erindi úr netfangi lögmannsstofu sinnar eða á bréfsefni hennar. Er á það bent að í öllum sendingum hafi kærði auðkennt sig sérstaklega sem lögmann og kærendur sem umbjóðendur sína. Vísa kærendur um það efni meðal annars til aðkomu kærða í tengslum við fjölmiðlaumfjallanir í ágúst- og septembermánuði 201x, fyrirliggjandi tímaskýrslna kærða sem hafi tekið til lögfræðilegra þátta og framlagðs reiknings sem hafi verið tilkominn vegna lögmannsstarfa kærða í þágu kærenda.

Samkvæmt því byggja kærendur á að ljóst sé að kærði hafi komið fram sem lögmaður í áðurgreindum deilum og að hann hafi verið bundinn af siðareglum í störfum sínum. Jafnframt því sé ljóst af 38. gr. siðareglnanna, sbr. einnig 19. gr. laga nr. 77/1998, að sérhverjum lögmanni, sem reki lögmannsstofu, sé óheimilt að stunda lögmannsstörf í nafni annars félags eða stofnunar, sem ekki sé rekin af lögmanni. Er á það bent að tilgangur H ehf. sé meðal annars rekstur fasteigna, fyrirtækja, viðskiptaþjónusta og önnur skyld starfsemi. Samkvæmt því sinni tilgreint félag ekki lögmannsstörfum fyrir viðskiptavini. Geti því engum dulist að aðkoma H ehf. að lögmannsstörfum kærða hafi verið í andstöðu við siðareglur og raunar útilokuð að lögum. Hafi kærði því verið með öllu óheimilt að sinna lögmannsstörfum í þágu kærenda í gegnum fyrrgreint félag. Leiði af því að ekkert réttarsamband hafi verið á milli kærenda og félagsins hvað störf og endurgjald kærða varði.

Um frávísunarkröfu kærða vísa kærendur jafnframt til þess að kvörtunin lúti að endurgjaldi kærða og fjárhæð þess, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Heyri slíkur ágreiningur óvírætt undir valdsvið nefndarinnar eins og það sé afmarkað í lögunum, sbr. einnig 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Þá breyti engu í því sambandi þótt kærendur hafi millifært inn á H ehf. samkvæmt fyrirmælum kærða.

Mótmæla kærendur því sérstaklega sem röngu og afleiddu hvernig félag, sem ekki sé rekið af lögmanni, geti átt aðild að réttarsambandi málsaðila í því samhengi sem hér um ræði enda hafi það enga aðkomu haft, hvorki beint né óbeint, að lögmannsstörfum kærða sem sé rót krafna kærenda. Jafnvel þótt greiðslur hafi borist til H ehf., og þaðan til kærða, breyti það ekki eðli viðskiptanna sem um ræði eða ábyrgð kærða. Auk þess ráðist samningssamband málsaðila hvorki af uppgjöri H ehf. við kærða né hvernig kærði hafi kosið að innheimta fyrir sína vinnu.

Kærendur mótmæla jafnframt málatilbúnaði kærða sem röngum um að hann hafi ekki þegið neinar greiðslur frá kærendum. Byggja kærendur á að greiðslur fyrir vinnu kærða hafi sannanlega verið inntar af hendi líkt og málsgögn staðfesti. Samkvæmt framlögðum bankakvittunum hafi H ehf. verið greiddar samtals 16.327.129 krónur á tímabilinu frá 27. febrúar 2017 til 23. apríl 2018. Þar af hafi verið greiddar samtals 8.865.045 krónur samkvæmt framlögðum tímaskýrslum kærða sem fyrirsvarsmaður H ehf. sendi til kærenda fyrir hönd kærða hinn 20. desember 2017. Mismunur þar á stafi öllu jafna af annarri vinnu frá sama tíma, meðal annars lögmannsvinnu sem kærði hafi innt af hendi í þágu kærenda sem kærða beri að standa skil á í þessu máli. Þá byggja kærendur á að H ehf. hafi átt engan þátt í gerð tilgreindra skýrslna sem hafi greinilega verið unnar af kærða.

Þá vísa kærendur til þess, varðandi frávísunarkröfu kærða, að kvörtunin lúti að broti kærða sem lögmanns gegn 10., 12. og 15. gr. siðareglna lögmanna, sbr. einnig 38. gr. þeirra sem bæst hafi við sakargiftirnar. Heyri síkur ágreiningur ótvírætt undir valdsvið nefndarinnar eins og það sé afmarkað í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. 3. gr. fyrrgreindra málsmeðferðarreglna.

Auk alls framangreinds benda kærendur á að málatilbúnaður kærða sé óljós og vanreifaður um ýmis atriði. Þannig sé til að mynda ekki alls kostar ljóst af þeim kröfum sem byggt er á hvernig H ehf. geti átt aðild að .................... Eigi sami annmarki við varðandi störf kærða og milligöngu H ehf. að lögmannsþóknun kærða. Þá liggi fyrir að kærði hafi mótmælt heildarfjárhæðinni en að hann útiloki ekki í sínum málatilbúnaði að hafa fengið greiðslur til sín frá H ehf. Vísa kærendur til þess að engu að síður byggi málatilbúnaður kærða á að hann hafi „aldrei“ fengið neinar greiðslur frá kærendum í gegnum tilgreint félag. Felist í því óútskýrð mótsögn. Þá hafi kærða ekki tekist að útskýra hverju það sæti að hann hafi ekki gefið út reikning vegna vinnu sinnar.

III.

Kærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að öllum kröfum kærenda verði hafnað. Þá krefst kærði málskostnaðar úr hendi kærenda að skaðlausu samkvæmt mati nefndarinnar.

Kærði kveðst hafna málatilbúnaði kærenda að öllu leyti sem röngum og ósönnuðum. Er því lýst að kærði sé lögmaður og að hann sinni slíkum störfum í gegnum lögmannsstofuna G ehf. sem sé undir hans stjórn og í hans eigu. Kærði mótmælir því alfarið sem röngu sem greinir í málatilbúnaði kærenda um að hinir síðargreindu hafi greitt honum alls 16.372.129 krónur. Vísar kærði til þess að hann hafi hvorki fengið greiðslur frá kærendum né gefið út reikninga fyrir nokkurri þeirri vinnu sem kvörtunin taki til. Fái það raunar stoð í fyrirliggjandi gögnum sem lögð hafi verið fram með kvörtun. Er á því byggt að um sé að ræða grófa óheiðarlega atlögu að heiðri kærða, án nokkurra gagna, í því skyni að ná fjármunum frá honum.

Í málatilbúnaði kærða er vísað til þess að staðreynd málsins sé sú að hann hafi aldrei fengið greitt frá kærendum enda hafi ekkert viðskiptasamband verið á milli málsaðila. Er á það bent að kærði hafi um nokkurt skeið leigt skrifstofu í sama húsnæði og H ehf. Hafi kærendur um margra ára skeið verið viðskiptavinir þess félags sem kærði hafi engin tengsl við, þ.e. hvorki eignarhaldslega né stjórnunarlega. Taki gögn málsins raunar af allan vafa um það.

Þá sé ljóst af hreyfingarlista kærenda, sem og yfirliti yfir millifærslur frá kærendum til H ehf., að kærði hafi aldrei fengið neinar greiðslur frá kærendum. Hafnar kærði því jafnframt sem röngu og ósönnuðu að hann hafi þegið greiðslur frá tilgreindu félagi. Staðreyndin sé sú að þær greiðslur sem kærendur byggi á sem sönnunargögnum í málinu séu til annars aðila en kærða. Eigi kærði enga aðild að réttarágreiningi á milli kærenda og H ehf.  og verði endurgreiðslukröfu því ekki beint að kærða. Krefja verði réttan aðila um „endurgreiðslu“, þ.e. þann sem fengið hafi greitt það fjármagn sem krafist sé endurgreiðslu á. Þeirri kröfu verði ekki beint að öðrum aðila, enda sé honum ómögulegt að endurgreiða fjármuni sem aldrei voru honum greiddir.

Þrátt fyrir framangreint, sem kærði telur ljóslega sýna aðildarskort hans að réttarágreiningnum, telur kærði að ekki verði hjá því komist að benda á það ósamræmi sem greini í kvörtun kærenda annars vegar og fyrirliggjandi gögnum hins vegar. Um það efni bendir kærði á að á fyrirliggjandi reikningi frá H ehf., að fjárhæð 11.830.540 krónur, komi fram að lögfræðiráðgjöf kærða nemi 240,25 klukkustundum eða samtls 4.756.950 krónum án virðisaukaskatts. Einnig komi þar fram „fyrirtækjaráðgjöf 201x skv. skýrslum“ samtals 138,75 klukkustundir á tímagjaldinu 16.800 krónur eða alls 2.331.000 krónur. Vísar kærði til þess að tilgreindir fjármunir hafi ekki verið greiddir til sín, enda sé reikningurinn frá öðrum lögaðila auk þess sem hann stemmi ekki við fjárhæð á fyrirliggjandi hreyfingarlista. Samkvæmt því sé óljóst hvernig standi á að kærendur fullyrði að þeir hafi greitt „kærða“ 16.372.129 krónur. Þá hafi kærendur ekki tekið tillit til kreditreikninga, sbr. fyrrgreint hreyfingaryfirlit, að fjárhæð 4.541.599 krónur. Samkvæmt honum verði ekki annað ráðið en að greiðslur til H ehf. hafi réttilega numið 11.830.530 krónum en ekki 16.372.129 krónum líkt og fullyrt sé í kvörtun málsins.

Kærði telur að framangreint breyti því ekki að hér sé ekki um að ræða viðskipti milli kærenda og kærða, eða félags í eigu hins síðargreinda. Samkvæmt því séu fullyrðingar kærenda um greiðslur til kærða rangar. Þá séu fullyrðingar um að H ehf. eða starfsmenn þess félags séu með einhverjum hætti á vegum kærða rangar og úr lausu lofti gripnar. Kærði byggir á að ljóst sé að málið eigi ekki undir valdsvið nefndarinnar enda sé ekki um að ræða samband lögmanns við umbjóðanda. Verði kærendur að beina ætluðum ágreiningi að réttum aðila. Eigi kærði ekki aðild að þeim ágreiningi enda hafi hann aðeins sinnt verkefnum fyrir H ehf. Þá hafi kærði aldrei fengið nálægt þeirri fjárhæð greidda frá tilgreindu félagi sem getið sé um í kvörtun kærenda. Beri því að vísa málinu frá nefndinni, sbr. útprent úr hlutafélagaskrá vegna H ehf.

Kærði kveðst ekki hafa nokkuð ákvörðunarvald um útgáfu reikninga fyrir hönd H ehf. auk þess sem tilgreint félag sendi ekki út reikninga fyrir hönd kærða líkt og ranglega sé fullyrt í kvörtun. Bendir kærði á að þau verkefni sem hann hafi sinnt fyrir H ehf. séu af ýmsum toga er snúi að viðskiptum og rekstri fyrirtækja, rekstri og sölu fasteigna og fjármálum fyrirtækja. Eðli máls samkvæmt tengjast verkefnin þjónustu viðkomandi fyrirtækjasölu við viðskiptavini þess félags, þar með talið kærenda. Lýsir kærði því að hann hafi komið fram í fjölmiðlum að H ehf. og kærenda til að reyna að draga úr neikvæðum áhrifum þeirrar fréttar sem birst hafi í lok ágúst 201x um meint ........................ Aldrei hafi hins vegar verið undirritað umboð á milli kærða og kærenda um lögmannsstörf vegna þessa. Hins vegar hafi verið nauðsynlegt að draga úr áhrifum fréttaumfjöllunarinnar en H ehf. hafi verið falið það verkefni af hálfu kæranda B. Þannig hafi aldrei staðið til að kærendur myndu fá reikning frá kærða enda ekkert viðskiptasamband þar á milli.

Kærði vísar til þess að vinna sú sem fram hafi farið hafi að einhverju leyti verið af lögfræðilegum toga. Verkefni kærða fyrir H ehf. hafi aðallega verið viðskiptaráðgjöf þó verkefni af lögfræðilegum toga hafi komið upp endrum og eins. Jafnframt því sé tilgangur félags kærða, G ehf., lögfræðiþjónusta, viðskiptaráðgjöf, rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Samkvæmt því sinni kærði öðrum verkefnum en eingöngu lögmennsku fyrir viðskiptavini. Þá kveðst kærði hafa starfað lengi innan helstu fjölmiðla landsins og sé vel kunnugur starfsemi fjölmiðla almennt sem og samskiptum við þá. Vegna þeirrar þekkingar hafi verið eðlilegt að kærði setti sig í samband við þá sem skipt hafi máli í kjölfar hinnar umdeildu fréttar, til að leitast við að draga úr áhrifum neikvæðrar umfjöllunar um málefni kærenda.

Vísað er til þess að mikilvægt hafi verið að stöðva fjölmiðlaumfjöllun með öllum tiltækum ráðum, áður en lögmannsstörf yrðu hafin vegna mögulegs tjóns af völdum umfjöllunarinnar. Samkvæmt því hafi lögmannsstörf ekki getað hafist fyrr en búið hafi verið að ná tökum á hinni neikvæðu fjölmiðlaumfjöllun. Bendir kærði á að til þess hafi aldrei komið að hann tæki að sér lögmannsstörf, svo sem með útgáfu stefnu á hendur M og eftir atvikum L. Hins vegar hafi gríðarlegur tími farið í samskipti við alla málsaðila og aðra vegna þess hve alvarlegar ásakanirnar hefðu verið og miklir hagsmunir verið í húfi. Hafi það verkefni verið sett í forgang að beiðni H ehf.

Kærði bendir á að endurgreiðsla feli í sér endurgreiðslu á fjármunum sem greiddir hafi verið. Vísað er til þess að hvorki hafi borist greiðsla til kærða né lögmannsstofu hans frá kærendum auk þess sem kærði hafi ekki gefið út reikning til kærenda. Af því leiði að útilokað sé fyrir kærða að endurgreiða fjármuni sem aldrei hafi verið greiddir. Ekkert viðskiptasamband hafi þannig verið á milli kærða og kærenda. Þá hafi kærði ekki með nokkrum hætti brotið á rétti kærenda. Vísar kærði til þess að ef nefndin telji að hann eigi rétt á endurgjaldi úr hendi kærenda sé þess krafist að nefndin úrskurði sem svo að kærði skuli gefa út reikning fyrir þeirri fjárhæð sem talið sé sanngjarnt endurgjald vegna málsins úr hendi kærenda.

Í viðbótarathugasemdum kærða til nefndarinnar mótmælir aðilinn því alfarið að hann hafi tekið að sér ýmis verk fyrir kærendur sem lögmaður. Bendir kærði á að hann hafi sinnt ýmsum verkefnum fyrir H ehf. sem meðal annars hafi snúið að málefnum kærenda, þar á meðal því máli sem lotið hafði að F. Í því hafi ekki falist lögmannsstörf. Vísar kærði til þess að H ehf. hafi óskað eftir aðkomu hans að málinu og að hann hafi þá sett sig í samband við kæranda B og farið til E án tafar til fundar með henni. Í kjölfar þess hafi hafist störf við krísustjórnun en ítrekað er að kærði sé viðskiptafræðingur sem starfað hafi við markaðsmál um margra ára skeið. Við slíka krísustjórnun, sem teljist ekki til lögmannsstarfa, hafi hótun um lögsókn oft reynst mjög vel við að draga úr neikvæðri fjölmiðlaumfjöllun. Þá hafi markmið kærða verið að slá hratt og örugglega á frekari neikvæða umfjöllun um kærendur með öllum mögulegum ráðum. Það að kærði hafi kynnt sig sem lögmann kærenda í samskiptum við fjölmiðla og aðra í tengslum við málið hafi verið lítið annað en þáttur í árangursríkri krísustjórnun. Hafi sú vinna gengið mjög vel og verið kærendum til hagsbóta.

Kærði vísar til þess að hann hafi sinnt ýmsum öðrum verkefnum fyrir H ehf. sem tengjast kærendum, en upptalning þar að lútandi í níu liðum liggur fyrir í viðbótarathugasemdum hans til nefndarinnar. Telur kærði ljóst af þeirri upptalningu að ekki hafi verið um lögmannsstörf að ræða í þeim tilvikum heldur hefðbundna viðskiptaráðgjöf og viðskiptaþjónustu.

Kærði hafnar því að hann hafi fengið H ehf. til að senda reikninga fyrir sína hönd. Er á það bent að ef kærði hefði átt að fá greitt fyrir þjónustuna sem lögmaður hefði reikningur eðlilega verið gefinn út af G ehf. og endurgjaldið greitt kærða. Sú hafi ekki verið raunin enda ekkert réttarsamband á milli málsaðila. Jafnframt því hafi yfirlit yfir tímaskráningu sem sent hafi verið tilgreindri fyrirtækjasölu aldrei verið reikningsfært. Þá sé tímagjald kærða sem lögmanns 24.900 krónur auk virðisaukaskatts en ekki það sem fram komi á yfirlitinu. Samkvæmt því sanni hvorki yfirlitið né reikningur G ehf. að greiðslur hafi borist til kærða. Hafi kærði nær undantekningalaust fengið árangurstengda þóknun frá fyrrgreindu fyrirtæki en ekki greiðslu samkvæmt tímagjaldi. Auk þess sé sú fjárhæð eða þær skýringar sem fram komi á fyrirliggjandi reikningi í málinu til kærenda ekki á ábyrgð kærða.

Kærði bendir á að framkvæmdastjóri Fyrirtækjasölunnar ehf. hafi upplýst lögmann kærenda um að tilgreint félag væri réttur aðila til að kvarta yfir ef óánægja væri uppi vegna reikninga þess og greiðslur samkvæmt þeim. Hafi framkvæmdastjórinn boðist til að hitta kærendur og fara með þeim yfir málið ef athugasemdur væru gerðar við útgefna reikninga eða greiðslur. Hafi kærendur og lögmaður þeirra virt það boð að vettugi.

Kærði mótmælir sem haldlausum fullyrðingum kærenda um að ítrekað hafi verið beðið um reikning frá kærða. Þá sé ávirðingum um að kærði stundi lögmannsstörf í gegnum annað félag en G ehf. vísað á bug enda séu þær fráleitar og rangar. Hafi kærði ekki á nokkurn hátt brotið gegn siðareglum lögmanna eða valdið kærendum tjóni. Er vísað til þess að tilraun kærenda til að fella H ehf. undir vald og ábyrgðarsvið kærða eigi sér enga stoð, þ.e. hvorki í lögum eða reglum né almennri skynsemi. Auk þess sé H ehf. eini aðilinn sem með réttu geti kvartað til nefndarinnar vegna málsins enda kærendur ekki umbjóðendur kærða.

Bendir kærði á að það hafi ekki verið fyrr en við skoðun á því hvort stefna ætti M að kærandi B hafi óskað eftir áætlun um kostnað, þ.e. áður en öll vinna yrði hafin við málið. Engin slík vinna hafi hins vegar farið af stað heldur hafi verkefni kærða lokið við lok samskipta við fjölmiðla og stéttarfélög. Þannig hafi lögmannsstörf aldrei hafist, enda ekkert umboð undirritað.

Því er lýst að á meðan kærði sinnti nær daglegri krísustjórnun fyrir kærendur hafi komið fram verulega skaðlegar upplýsingar fyrir kærendur, kæmust þær í fjölmiðla. Hafi því verið afar vandasamt verk að „vera á tánum“ á meðan á verkefninu stæði. Fjölmörg atriði, sem nánar er lýst í viðbótarathugasemdum kærða, hefðu þannig sýnt að starfsemi kærenda væri ekki lögum samkvæmt og að þau yrðu verulega skaðleg ef þau myndu rata í fjölmiðla. Kveðst kærði hafa gert kæranda B skýrt grein fyrir því áliti og að kærði myndi hvorki taka að sér að höfða mál gegn M né taka að sér önnur lögmannsstörf því tengdu enda væru verulegar líkur á að málið myndi tapast og að í kjölfarið yrðu fjölmiðlar upplýstir um hvernig staðan væri í raun og veru. Samkvæmt því hafi verið kappkostað að halda öllum tilgreindum upplýsingum frá fjölmiðlum.

Kærði telur ljóst af efni tölvubréfs kæranda B til sín, dags. x. október 201x, að kærendum hafi verið ljóst að engin lögmannsstörf væru hafin. Þá hafi kærendum verið ljóst að kærði hafi ekki tekið að sér nein lögmannsstörf í þeirra þágu eftir tölvubréfið. Kveðst kærði hins vegar hafa ritað umboð og boðist til að hitta kæranda B til að ræða kosti og galla þess að farið yrði í dómsmál. Kærandinn hafi hins vegar hvorki mætt til fundar né ritað undir umboð. Jafnframt því hafi kærendum verið ljóst að kærði væri ekki að sinna lögmannsstörfum þrátt fyrir að hann hefði kynnt sig sem lögmann í samskiptum við þá sem málið hafi varðað heldur hafi verið um lið í krísustjórnun að ræða.

Að endingu vísar kærði til þess að H ehf. og kærendur hafi um langt skeið átt í réttarsambandi þrátt fyrir fullyrðingar lögmanns kærenda um hið gagnstæða. Kærði hafi aldrei fengið neinar greiðslur frá kærendum aukinheldur sem útilokað sé fyrir þá að sanna að kærði hafi falið einhverjum öðrum að senda reikninga fyrir sína hönd. Þá sé það kærða óviðkomandi hvenær, hvort og þá hversu háar greiðslur kærendur hafi greitt til H ehf. Hafi kærði auk þess enga greiðslu fengið frá kærendum í gengum aðra aðila. Síðast en ekki síst endurspegli yfirlit um tímafjölda kærða vegna verkefna sem snúið hafi að kærendum engan vegin þá upphæð sem fram komi á fyrirliggjandi reikningi í málinu.

Kærði bendir á að skráning hans á heimasíðu H ehf. undir „starfsmenn“ sé tilkomin vegna verkefna sem tengist sölu-, leigu- og sérfræðistörfum öðrum en lögmannsstörfum. Þá hafi kærði starfað fyrir tilgreint félag löngu áður en hann hafi hafið störf sem lögmaður. Samkvæmt öllu framangreindu sé ljóst að réttarágreiningur málsins falli utan valdsviðs nefndarinnar, þar sem um sé að ræða réttarsamband milli H ehf. og kærenda. Sé ljóst í því samhengi að hvorki kærði né félög á hans vegum hafi átt í beinu sambandi við kærendur. Þurfi kærendur því að koma kröfu sinni í viðeigandi farveg, til dæmis til dómstóla.

Niðurstaða

I.

Rétt þykir að fjalla fyrst um frávísunarkröfu kærða í málinu.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna tekur nefndin afstöðu til sönnunargildis framkominna yfirlýsinga og gagna, sem þýðingu hafa fyrir úrslit málsins. Ef í máli eru sönnunaratriði, sem örðugt er að leysa úr undir rekstri málsins, eða mál er að öðru leyti ekki nægilega upplýst, getur nefndin vísað máli frá, sbr. 2. mgr. 10. gr. reglnanna. Þá er kveðið á um í 3. mgr. 10. gr. reglnanna að ef í máli sé réttarágreiningur, sem ekki fellur undir valdsvið nefndarinnar, vísi hún málinu frá.

Um frávísunarkröfu sína fyrir nefndinni hefur kærði einkum vísað til þess að aðildarskortur sé til varnar í málinu. Þannig hafi ekkert réttarsamband verið á milli málsaðila heldur hafi kærendur þvert á móti átt í lögskiptum við H ehf. sem veitt hafi kærendum ýmsa ráðgjöf um árabil. Hafi kærði hvorki stjórnunar- né eignatengsl við H ehf. Þá geti engu breytt í því samhengi þótt kærði hafi sinnt einstökum verkefnum í þágu H ehf. vegna skjólstæðinga hins síðargreinda, þar á meðal kærenda. Verði í því tilliti að líta til þess að kærði annist lögmannsstörf sín í gegnum einkahlutafélagið G ehf. sem sé að öllu leyti í hans eigu og undir hans stjórn. Þá lúti verk sem hann hafi annast og sinnt í þágu H ehf. að öðrum störfum en lögmannsstörfum þar sem kærði sé einnig viðskiptafræðingur og með löggildingu til sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa.

Um þetta efni er þess að gæta að skýrlega verður ráðið af málsgögnum að kærði veitti kærendum, þ.e. kæranda B vegna kæranda A ehf., ýmsa ráðgjöf og þjónustu á árunum 201x og 201x. Þá liggur fyrir að mati nefndarinnar að sú þjónusta var meðal annars af lögfræðilegum toga, svo sem einnig er ágreiningslaust í málinu. Má um það efni líta til aðkomu og ráðgjafar kærða að málefnum kærenda í kjölfar bréfs L, dags. 2. september 201x, annars vegar og fréttar M um hið ætlaða ...... sem birt var þann x. ágúst 201x hins vegar. Samkvæmt því verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að kærði hafi í ýmsu tilliti haft aðkomu að málefnum kærenda í þeirra þágu á grundvelli sérþekkingar hans sem lögmanns.

Að mati nefndarinnar fær framangreint ótvírætt stoð í fyrirliggjandi tímaskýrslum vegna starfa kærða í þágu kæranda A ehf. á tímabilinu frá júní 201x til nóvember sama árs. Þótt tímaskýrslurnar hafi tilgreint H ehf. sem verksala gagnvart kæranda A ehf. þá taka þær sannanlega til þeirra starfa sem kærði, „C hdl.“ eins og það var fært í skýrslurnar, sinnti í þágu hins síðargreinda félags á viðkomandi tímabili. Þá var í öllum tilvikum tiltekið að um væri að ræða tímaskýrslur vegna lögfræðivinnu og annarra sérfræðistarfa kærða. Í samræmi við það þá var tiltekið í tímaskýrslunum að áskilið tímagjald vegna lögmannsstarfa kærða í þágu kærandans væri að fjárhæð 19.800 krónur auk virðisaukaskatts en tímagjald vegna annarra starfa 16.800 krónur auk virðisaukaskatts. Fær það jafnframt að öllu leyti samrýmst reikningi þeim sem H ehf. gaf út á hendur kæranda A ehf. þann 12. nóvember 201x en hluti reikningsins tók annars vegar til fyrirtækjaráðgjafar kærða í þágu kærandans á árinu 201x, eða alls 138,75 klukkustunda, og hins vegar til lögfræðiráðgjafar, alls 240,25 klukkustunda, vegna sama árs. Liggur fyrir að tímafjöldi samkvæmt reikningnum vegna ráðgjafar kærða í þágu kærandans var að öllu leyti í samræmi við áðurgreindar tímaskýrslur vegna starfa á árinu 201x.

Slíkt hið sama verður ráðið af efni annarra málsgagna að mati nefndarinnar en þau bera með sér að kærði hafi almennt komið fram sem lögmaður gagnvart bæði kærendum, þ.e. í samskiptum og við ráðgjöf og veitingu annarrar þjónustu, sem og gagnvart öðrum aðilum sem kærði átti í samskiptum við í þágu kærenda á áðurgreindu tímabili. Notaðist kærði þannig jafnan við netfang sitt á lögmannsstofu þeirri sem hann rekur sem og bréfsefni þess í þeim samskiptum sem hér um ræðir og lutu að hagsmunum kærenda.

Að mati nefndarinnar getur engu breytt í þessu samhengi þótt kærandi A ehf. hafi innt greiðslur af hendi vegna hinnar veittu þjónustu til H ehf. og að reikningur vegna starfans hafi verið gefinn út á hendur kærandanum af því félagi. Hvað það varðar verður jafnframt að líta til þess kærði kom fram á vefsíðu H ehf. sem starfsmaður félagsins þar sem hann var titlaður sem lögmaður og löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Samkvæmt því máttu kærendur ætla að kærða hefði verið heimilt að rækja meðal annars lögmannsstörf í þeirra þágu sem starfsmaður H ehf. og þar með að beint réttarsamband væri á milli málsaðila.

Um allt framangreint og við mat á því hvort skilyrði séu til að vísa málinu frá nefndinni á þeim grunni sem kærði hefur krafist verður jafnframt að mati nefndarinnar að líta til þess að samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn ber lögmanni sjálfum að starfa á skrifstofu sinni. Þá er öðrum en lögmönnum óheimilt að reka félag um skrifstofu lögmanns eða eiga hlut í því, sbr. 4. mgr. 19. gr. laganna. Auk þess er kveðið á um í 4. mgr. 38. gr. siðareglna lögmanna að lögmaður skuli sérstaklega gæta þess, að óheimilt sé að stunda lögmannsstörf nema á skrifstofu, sem rekin sé af lögmanni, sbr. 19. gr. laga nr. 77/1998, nema undanþága hafi verði veitt samkvæmt 12. gr. laganna. Að áliti nefndarinnar færa tilgreindar heimildir laga nr. 77/1998 og siðareglna lögmanna stoð undir að réttarsamband hafi verið á milli málsaðila vegna þeirra lögmannsstarfa sem kærði annaðist í þágu kærenda og að þær hafi því tekið til lögskipta aðila.

Að fenginni þeirri niðurstöðu þá liggur fyrir að kvörtun kærenda í málinu lýtur annars vegar að endurgjaldi kærða og fjárhæð þess og hins vegar að ætluðu broti aðilans, sem lögmanns, gegn 10., 12. og 15. gr. siðareglna lögmanna. Heyrir slíkur ágreiningur undir valdsvið nefndarinnar eins og það er afmarkað í 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Í samræmi við framangreint fellur umkvörtunarefni kærenda á hendur kærða, sem lögmanni, undir valdsvið nefndarinnar. Samkvæmt því eru ekki skilyrði til að vísa málinu frá nefndinni á þeim grunni sem málatilbúnaður kærða er reistur á.

II.

Líkt og áður er rakið er kvörtun kærenda á hendur kærða reist á 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 er kveðið á um að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Þá kemur fram í 1. mgr. 27. gr. laganna að sá sem telji lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna geti sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna. Í báðum tilvikum er tiltekið að nefndin vísi kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá.

Ofangreind ákvæði eru afdráttarlaus um skyldu nefndarinnar til að vísa ágreiningsmálum um endurgjald og kvörtunum á grundvelli 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 frá ef þær berast meira en ári eftir að kostur var á að koma slíku málum á framfæri.

Um tilgreindar heimildir er til þess að líta að J, framkvæmdastjóri og eigandi Fyrirtækjasölunnar ehf., sendi tölvubréf til kæranda Rositu þann 20. desember 201x með tímaskýrslum vegna starfa hans og kærða í þágu kæranda A ehf. á tímabilinu frá apríl- til desembermánaðar 201x, svo sem nánar greinir í málsatvikalýsingu að framan. Meðal málsgagna eru tilgreindar tímaskýrslur að því marki sem þær lúta að störfum kærða í þágu kæranda A ehf. á tímabilinu frá júní – nóvember 201x. Líkt og áður er rakið kom þar fram að þær lytu að lögfræðivinnu og öðrum sérfræðistörfum kærða í þágu viðkomandi kæranda. Þá var þar tiltekið hvert áskilið tímagjald væri vegna lögmannsstarfa kærða annars vegar og annarra starfa hans hins vegar í þágu kærandans, hversu mörgum vinnustundum hefði verið varið til einstakra verkþátta sem sérstaklega var lýst í skýrslunum og hvert áskilið heildarendurgjald vegna hvers mánaðar væri. Samkvæmt því verður ekki annað ráðið af málsgögnum að mati nefndarinnar en að kærendur hafi þá þegar þann 20. desember 201x haft fullnægjandi upplýsingar undir höndum um umfang starfa kærða á árinu 201x og áskilið endurgjald vegna þeirra.

Af málsgögnum verður ráðið að kærendur hafi hvorki hreyft andmælum gagnvart kærða né H ehf. í kjölfar móttöku á umræddum tímaskýrslum þann 20. desember 201x. Þvert á móti lutu viðbrögð kærenda að því einu að greiða hið áskilda endurgjald samkvæmt tímaskýrslunum, þar á meðal vegna starfa kærða, til H ehf. en um það efni liggja fyrir millifærslukvittanir kæranda A ehf. frá 1. og 12. febrúar 2018 og 23. apríl 2018 að heildarfjárhæð 11.830.530 krónur. Í kjölfar þeirra greiðslna, eða þann 12. nóvember 2018, gaf H ehf. loks út reikning nr. 377 á hendur kæranda A ehf. að fyrrgreindri fjárhæð, svo sem greinir í málsatvikalýsingu að framan. Var sá reikningur, að því leyti sem hann tók til starfa kærða í þágu kæranda A ehf., að öllu leyti í samræmi við það áskilda endurgjald sem komið hafði fram í áðurgreindum tímaskýrslum og kærendur höfðu móttekið þann 20. desember 2017.

Í samræmi við framangreint verður að áliti nefndarinnar, vegna ágreinings um endurgjald annars vegar og kvörtunar kærenda vegna ætlaðra brota kærða gegn 10. og 15. gr. siðareglna lögmanna hins vegar, ekki miðað við annað tímamark en móttöku kæranda B fyrir hönd kæranda A ehf. á fyrrgreindum tímaskýrslum kærða þann 20. desember 2017, sem áður er lýst, við mat á því hvenær kærendur áttu þess kost að koma erindum að þessu leyti á framfæri í skilningi 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Verður að mati nefndarinnar að ætla að kærendur hafi þá þegar haft tök á að kynna sér efni skýrslanna og þar með forsendur að baki hinu áskilda endurgjaldi vegna starfa kærða í þágu kæranda A ehf., þ. á m. þeirra sem tóku til lögfræðilegra þátta, og átt þann kost að koma ágreiningsmáli um endurgjald og kvörtun á framfæri. Geti engu breytt í því samhengi þótt kærandanum hafi verið veittur gjaldfrestur vegna hins áskilda endurgjalds samkvæmt tímaskýrslunum.

Á sama grundvelli verður ekki talið að til skoðunar geti komið í málinu ætlaðar fyrri greiðslur kæranda A ehf. til H ehf. dagana 27. febrúar, 12. apríl og 21. desember 201x, að heildarfjárhæð 4.541.599 krónur. Verður þá jafnframt til þess litið hvað það efni varðar að ekkert liggur fyrir um í málsgögnum að þær greiðslur hafi tekið til starfa kærða í þágu kærenda.

Kvörtun kærenda í máli þessu var móttekin af úrskurðarnefnd lögmanna þann 6. mars 2019 en þá þegar voru tímafrestir samkvæmt ofangreindum heimildum liðnir. Í ljósi þeirra fortakslausu tímafresta sem kveðið er á um í 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. áður lýstra málsmeðferðarreglna fyrir nefndinni, er óhjákvæmilegt að vísa kvörtun kærenda að því leyti sem hér hefur verið rakið frá úrskurðarnefnd lögmanna með þeim hætti sem greinir í úrskurðarorði.

 III.

Líkt og fyrr er rakið getur sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni, sem tekur að sér verkefni, að reka það áfram með hæfilegum hraða. Skal hann tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist. Í þessum þætti krefst kærandi þess að kærði verði áminntur vegna ætlaðra brota gegn 12. gr. siðareglna lögmanna þar sem hann hafi ekki rekið mál kærenda með hæfilegum hraða.

Að mati nefndarinnar er ekki annað fram komið í málinu en að kærði hafi rekið þau verkefni áfram með hæfilegum hraða sem hann sannanlega tók að sér í þágu kærenda. Eins og málið liggur fyrir nefndinni þarf þó að taka afstöðu til þess hvort kærði hafi tekið að sér að höfða mál fyrir hönd kærenda á hendur M vegna fréttaumfjöllunar fjölmiðilsins frá x. ágúst 201x en um það er ágreiningur á milli aðila. Byggja kærendur þannig á að kærða hafi verið falið það verk á meðan kærði byggir á að til slíks hafi ekki komið.

Um þetta efni liggur annars vegar fyrir fréttatilkynning kærða vegna málefna F, dags. x. september 201x. Var tiltekið í fréttatilkynningunni, sem kærði gaf út fyrir hönd kærenda, að kærandi B hefði ákveðið að leita réttar síns vegna umfjöllunar M um málefni veitingastaðarins og að aðilinn hefði leitað til kærða og falið honum að undirbúa stefnu vegna málsins. Kærði hefur um þetta efni vísað til þess að umrædd fréttatilkynning hafi verið birt sem liður í krísustjórnun til að slá á neikvæða fjölmiðlaumfjöllun, sem hann hafi annast fyrir hönd kærenda, en að á þeim tíma hafi hvorki legið fyrir ákvörðun um málshöfðun né að kærði hafi tekið slíkt verk að sér gagnvart kærendum. Þá hafi ýmis atriði er tengst hafi rekstri veitingastaðarins bent til þess að óskynsamlegt væri að höfða slíkt mál og að kærði hafi vakið athygli kæranda B á því efni.

Hins vegar liggur fyrir í málsgögnum tölvubréf sem kærandi B sendi til kærða þann x. október 201x vegna málsins, eða rúmlega mánuði eftir birtingu fyrrgreindrar fréttatilkynningar. Í tölvubréfinu, sem nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan, ítrekaði kærandinn vilja sinn til að höfða mál gegn M vegna viðkomandi fjölmiðlaumfjöllunar en tiltók þó að áður en vinna við slíka málshöfðun myndi hefjast þyrfti að liggja fyrir áætlaður lögmannskostnaður vegna reksturs málsins þar sem nauðsynlegt væri fyrir kærandann að gera plön hvað það varðaði og þá að teknu tilliti til líklegrar niðurstöðu dómstóla.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að hvorki var hafinn undirbúningur að slíkri málshöfðun sem hér um ræðir þann 27. október 2017 né verður leitt af málsgögnum að kærði hafi tekið slíkt verkefni að sér í þágu kærenda. Í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni hefur kærði vísað til þess að í framhaldi tölvubréfsins hafi hann ritað umboð og boðist til að hitta kæranda B til að ræða kosti og galla slíkrar málshöfðunar. Hvorki hafi hins vegar komið til slíks fundar milli málsaðila né til þess að umboð hefði verið undirritað.

Gegn andmælum kærða um þetta efni og með hliðsjón af atvikum öllum og málsgögnum verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á í málinu að kærði hafi tekið að sér það verkefni, í skilningi 1. mgr. 12. gr. siðareglna lögmanna, að höfða mál á hendur M í þágu kærenda vegna umfjöllunar fjölmiðilsins frá x. ágúst 201x. Þegar af þeirri ástæðu eru ekki skilyrði til að telja að kærði hafi gert á hlut kærenda með háttsemi sem stríði gegn 12. gr. siðareglna lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu kærenda, A ehf. og B, um að kærða, C lögmanni, verði gert að endurgreiða þeim 11.372.129 krónur vegna ofgreiddrar þóknunar, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, er vísað frá nefndinni.

Kröfu kærenda um að lögmannsþóknun kærða sæti lækkun og að til endurgreiðslu komi, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998, er vísað frá nefndinni.

Kröfu kærenda um að kærði verði áminntur fyrir ætluð brot gegn 10. og 15. gr. siðareglna lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998, er vísað frá nefndinni.

Kærði hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kærenda með háttsemi sem stríðir gegn 12. gr. siðareglna lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr lögmaður, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Kristinn Bjarnason lögmaður

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson