Mál 11 2020

Mál 11/2020

Ár 2020, föstudaginn 4. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2020:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 28. apríl 2020 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi brotið trúnaðarskyldu í lögmannsstörfum sínum gagnvart kæranda og með því brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunar kæranda og barst hún þann 22. maí 2020. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi þann 25. sama mánaðar. Hinn 12. júní 2020 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærða þann 18. sama mánaðar. Loks bárust frekari athugasemdir frá kærða þann 7. júlí 2020 og voru þær sendar til kæranda með bréfi sama dag þar sem jafnframt var tiltekið að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt málatilbúnaði aðila liggur fyrir að kærði annast hagsmunagæslu í þágu Sveitarfélagsins C í tveimur dómsmálum sem einkahlutafélag sem kærandi er í fyrirsvari fyrir hefur höfðað á hendur sveitarfélaginu.

Kærandi mun hafa undirgengist meðferð vegna veikinda á sjúkrastofnunum snemma árs 2020, en á þeim tíma voru áðurgreind dómsmál til meðferðar hjá héraðsdómi. Ágreiningslaust er að kærði fékk í störfum sínum sem lögmaður viðkomandi sveitarfélags upplýsingar um þau veikindi kæranda. Ágreiningur í málinu lýtur hins vegar að því hvort kærði hafi látið óviðkomandi aðilum þær upplýsingar í té og þá hvort kærði hafi með þeirri ætluðu háttsemi gert á hlut kæranda í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Um málsatvik vísast að öðru leyti til málatilbúnaðar aðila fyrir nefndinni sem gerð er grein fyrir í köflum II. og III. hér að neðan.

 

II.

Kærandi krefst þess fyrir nefndinni að kærða verði veitt áminning fyrir háttsemi sína.

Í kvörtun kæranda er því lýst að hún lúti að vinnubrögðum kærða varðandi meðferð trúnaðarupplýsinga.

Kærandi vísar til þess að kærði hafi verið lögmaður Sveitarfélagsins C í málum sem fyrirtæki kæranda reki gegn því sem og í málum sem sveitarfélagið reki gegn kæranda og viðkomandi fyrirtæki. Er því lýst að kærandi hafi undirgengist meðferð á Sjúkrahúsinu D þann 9. febrúar 2020 og í kjölfar þess farið í framhaldsmeðferð. Á þeim tíma hafi lögmaður kæranda þurft að vera í samskiptum við kærða vegna sáttaumleitana. Lýsir kærandi því að til að liðka fyrir málum hafi hann heimilað lögmanni sínum að upplýsa kærða um ástæðu fjarveru kæranda þar sem jafnframt hafi verið lögð áhersla á að trúnaðar yrði gætt um upplýsingarnar.

Kærandi vísar til þess að eftir útskrift hafi hann heyrt sögur út í bæ þess efnis að kærði hafi að tilefnislausu í samtölum við óviðkomandi fólk upplýst um veru kæranda á meðferðarheimilum. Lýsir kærandi því að sú háttsemi kærða sé á engan hátt sæmandi fyrir lögmann, allra síst þar sem kærði vinni fyrir opinberan aðila. Jafnframt því hafi kærði verið beðinn um að halda upplýsingunum í trúnaði enda um viðkvæmar upplýsingar að ræða.

Í viðbótarathugasemdum kæranda til nefndarinnar er vísað til þess að upplýsingar um veikindi og meðferð kæranda hafa verið kynntar annars vegar af eiginkonu hans fyrir fjármálastjóra og bæjarstjóra viðkomandi sveitarfélags og hins vegar fyrir kærða af lögmanni kæranda. Hafi verið um að ræða persónulegar og viðkvæmar upplýsingar um einkamálefni kæranda, sem sjálfgefið sé að sveitarfélag og lögmaður eigi að gæta trúnaðar um. Hafi engum á C verið kunnugt um þetta nema fjölskyldu kæranda, bæjar- og fjármálastjóra og kærða. Þá hafi sérstaklega verið áréttað af hálfu eiginkonu og lögmanns kæranda að fara skyldi með upplýsingarnar sem trúnaðarmál.

Kærandi vísar til þess að upplýsingarnar hafi hins vegar spurst til almennings í bænum þar sem jafnframt hafi komið fram að þær væru frá kærða komnar. Varðandi málarekstur sveitarfélagsins gagnvart kæranda og hans fyrirtækjum bendir kærandi á að önnur lögfræðistofa annist innheimtumál fyrir sveitarfélagið en að kærði sjái um rekstur allra annarra mála.

Byggt er á að mjög mikilvægt sé að lögmenn starfi í trúmennsku og samviskusemi og virði siðareglur lögmanna, þar á meðal um trúnað. Er því lýst að það hafi verið ærin ástæða fyrir kvörtun í málinu enda hafi kæranda verið misboðið að kærði virti ekki þær siðareglur sem lögmenn almennt temji sér. Sé það miður að kærði kjósi að neita því að hafa sagt óviðkomandi frá aðstæðum kæranda. Hafi ótilgreindur aðili staðfest þetta efni við kæranda og að kærði hefði haft ánægju af því að veita viðkomandi upplýsingar um hagi kæranda.

III.

Kærði krefst þess aðallega í málinu að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Til vara krefst kærði þess að nefndin beiti ekki viðurlögum í málinu.

Kærði kveðst mótmæla fullyrðingu kæranda um að hann hafi í samtölum við óviðkomandi fólk upplýst það um veru kæranda á meðferðarheimilum. Sé sú staðhæfing beinlínis röng og ósönn. Er vísað til þess að kærði hafi fyrst heyrt af veikindum kæranda frá bæjarstjóra Sveitarfélagsins C þann 11. febrúar 2020. Hafi bæjarstjórinn fengið þær upplýsingar frá kjörnum fulltrúa sem hafi fengið þær frá sameiginlegum vini hans og kæranda. Í samtalinu hafi bæjarstjórinn spurt kærða hvort hann hefði heyrt af málinu og hvaða áhrif það hefði á dómsmál sem fyrirtæki kæranda hefði höfðað á hendur sveitarfélaginu. Kærði kveðst í framhaldinu hafa hringt í lögmann kæranda og spurst fyrir um þetta efni. Hafi lögmaður kæranda staðfest að upplýsingarnar væru réttar.

Kærði vísar til þess að sama dag eða daginn eftir hafi eiginkona kæranda upplýst fjármálastjóra sveitarfélagsins um hagi kæranda að þessu leyti. Er því lýst að kærði hafi næstu daga á eftir verið í samskiptum við lögmann kæranda og annan tilgreindan lögmann sem annist innheimtustörf fyrir sveitarfélagið vegna málefna kæranda og eiginkonu hans. Þá hafi kærði verið í samskiptum við fjármálastjórann og lögmann þann er annist innheimtu sveitarfélagsins í byrjun mars vegna viðkomandi málefna. Að öðru leyti hafi kærði ekki rætt aðstæður kæranda við óviðkomandi.

Kærði kveðst gera athugasemd við rökstuðning kæranda fyrir kvörtun. Vísar kærði til þess að það sé rangt sem komi fram í kvörtun um að hann sé lögmaður viðkomandi sveitarfélags í málum sem það reki gegn kæranda og fyrirtæki hans. Gæti kærði þannig ekki hagsmuna sveitarfélagsins í málum sem sveitarfélagið reki gegn kæranda og fyrirtæki hans og hafi aldrei gert. Jafnframt því sé kærða ókunnugt um dómsmál eða önnur mál sem sveitarfélagið hafi höfðað eða sótt á hendur kæranda og/eða fyrirtæki hans frá því að hann hóf hagsmunagæslu í þágu sveitarfélagsins á árinu 2013.

Kærði vísar hins vegar til þess að hann gæti hagsmuna sveitarfélagsins í máli nr. E-x sem þingfest hafi verið í héraðsdómi þann x. nóvember 201x. Sé stefnandi í málinu félag sem kærandi sé í fyrirsvari fyrir en sveitarfélagið til varnar. Jafnframt því gæti kærði hagsmuna sveitarfélagsins í máli nr. xx/20xx sem rekið sé fyrir héraðsdómi á milli sömu aðila en sveitarfélagið sé þar jafnframt til varnar.

Kærði vísar til þess að hann hafi sem lögmaður lagt sig fram um að rækja af trúmennsku og samviskusemi öll þau störf sem honum hafi verið falin sem lögmanni. Þá hafi kærði lagt sig fram um að virða þær skyldur sem hvíla á lögmönnum samkvæmt lögum nr. 77/1998 um lögmenn og siðareglum lögmanna. Hafi kvörtunin komið kærða í opna skjöldu enda hafi hann alltaf lagt sérstaka áhersla á að láta ekki óviðkomandi í té upplýsingar sem fengnar væru í lögmannsstörfum. Sé hér um að ræða fyrsta og eina skiptið sem fundið sé að störfum kærða með þessum hætti.

Í viðbótarathugasemdum kærða er ítrekað að fjórum manneskjum á C hafi verið kunnugt um veikindi kæranda áður en kærði fékk vitneskju um þau. Ítrekar kærði að eftir símtal við lögmann kæranda hafi hann hringt í lögmann sem sjái um innheimtur fyrir sveitarfélagið. Hafi kærði haft heimild lögmanns kæranda til að upplýsa viðkomandi lögmann um veikindin svo hægt væri að koma til móts við kæranda og eiginkonu hans á þessum erfiðu tímum. Hafi sveitarfélagið staðið við bakið á þeim eins mikið og mögulegt hafi verið á þessum tíma. Þá hafi það verið fyrir tilstuðlan kærða að öllum innheimtuaðgerðum gegn þeim hjónum hafi verið frestað á meðan kærandi var inniliggjandi á sjúkrastofnun.

Kærði kveðst mótmæla orðum kæranda um að hann hafi haft sýnilega ánægju af því að upplýsa um veikindin. Vísar kærði í fyrsta lagi til þess að hann hafi ekki upplýst óviðkomandi um veikindi kæranda. Í öðru lagi hafi kærandi ekki, hvorki fyrr né síðar, haft ánægju af veikindum annarra. Í þriðja lagi sé það mjög óviðeigandi að vísa í orð ónafngreinds manns. Kveður kærði nokkuð ljóst að kærandi setji fram þessa staðhæfingu gegn betri vitund.

Að endingu tekur kærði undir að það sé sjálfgefið að lögmaður gæti trúnaðar um öll þau málefni sem hann öðlast vitneskju um í starfi sínu. Hafi kærði í störfum sínum einmitt lagt sig fram um að virða trúnaðarskylduna í hvívetna. Séu fullyrðingar kæranda um hið gagnstæða rangar og ósannar.

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn ber lögmaður þagnarskyldu um hvaðeina sem honum er trúað fyrir í starfi sínu. Er aukinheldur tiltekið í 1. mgr. 6. gr. siðareglna lögmanna að upplýsingum, sem lögmaður fær í starfi, skuli haldið frá óviðkomandi, þótt lögboðin þagnarskyldi banni ekki.

Í V. kafla siðareglna lögmanna er mælt fyrir um skyldur lögmanns við gagnaðila. Er þar tiltekið í 34. gr. að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjóstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.

Líkt og fyrr greinir lýtur ágreiningur málsins að því hvort kærði hafi gert á hlut kæranda með ætluðu broti á þeirri trúnaðarskyldu lögmanna sem mælt er fyrir um í lögum nr. 77/1998 og siðareglum lögmanna.

Um þetta efni hefur kærandi á því byggt fyrir nefndinni að kærði hafi að tilefnislausu í samtölum við óviðkomandi fólk upplýst um veikindi og meðferð sem kærandi hafi undirgengist snemma árs 2020. Hafi kærði fengið þær upplýsingar í gegnum lögmannsstörf sín en hann annist hagsmunagæslu í þágu gagnaðila kæranda og fyrirtækja á hans vegum. Hafi verið um viðkvæmar trúnaðarupplýsingar að ræða um hagi kæranda sem ekki hafi átt erindi við óviðkomandi aðila, líkt og kærði hafi sérstaklega verið beðinn um að gæta.

Kærði hefur á hinn bóginn hafnað tilgreindum málatilbúnaði kæranda sem röngum og ósönnuðum enda hafi hann ekki upplýst nokkurn óviðkomandi um veikindi kæranda og þá meðferð sem hann hafi sótt sér.

Líkt og hér hefur verið rakið er ágreiningur á milli aðila um þau atvik sem kvörtun lýtur að. Engra gagna nýtur við fyrir nefndinni annarra en greinargerða og athugasemda málsaðila. Samkvæmt því stendur orð gegn orði og verður því ekki fullyrt að mati nefndarinnar, með hliðsjón af málatilbúnaði aðila einum og sér, að kærði hafi gert á hlut kæranda með þeim hætti sem hinn síðargreindi reisir kvörtun sína á. Verður jafnframt ekki framhjá því litið að fleiri aðilar innan sveitarfélagsins höfðu upplýsingar um þá hagi kæranda sem hér um ræðir og kærða er gefið að sök í málinu að hafa upplýst óviðkomandi um, líkt og ágreiningslaust er.

Þegar af framangreindum ástæðum verður ekki talið að mati nefndarinnar að leitt hafi verið í ljós í málinu að kærði hafi gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Af þeim sökum er ekki unnt að fallast á kröfur kæranda í máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason lögmaður, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Valborg Þ. Snævarr lögmaður

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

________________________

Sölvi Davíðsson