Mál 14 2020

Mál 14/2020

Ár 2020, fimmtudaginn 12. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2020:

A

gegn

B

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 4. júní 2020 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi í störfum sínum sem fyrirsvarsmaður C ehf., brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum innheimtulaga nr. 95/2008, sbr. einnig 1. mgr. 26. gr. og 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi, dags. 15. júní 2020. Greinargerð kærða barst til nefndarinnar þann 3. júlí 2020 og var hún send kæranda til athugasemda með bréfi, dags. 6. sama mánaðar. Hinn 4. ágúst 2020 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærða þann 12. sama mánaðar. Svar kærða barst þann 31. ágúst 2020 og var það sent til kæranda með bréfi dags. 1. september sama ár þar sem tekið var fram að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Ekki kom til frekari athugasemda af hálfu málsaðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt málsgögnum mun kærandi hafa verið í viðskiptasambandi við D hf. á árinu 2019 þar sem hann hafði meðal annars nánar tilgreinda yfirdráttarheimild á reikningi nr. x.

Þann 2. mars 2019 beindi bankinn innheimtuviðvörun til kæranda vegna yfirdráttarskuldar á fyrrgreindum reikningi. Var vísað til þess að um tilkynningu væri að ræða vegna óheimils yfirdráttar frá 31. janúar 2019, að yfirdráttarskuld reikningsins væri að fjárhæð 169.586 krónur og að þar af væru 14.586 krónur umfram heimild. Var í viðvöruninni óskað eftir að gerð yrðu skil hið fyrsta svo komast mætti hjá frekari innheimtuaðgerðum sem hefðu óhjákvæmilega í för með sér aukinn kostnað fyrir kæranda og gæti leitt til málshöfðunar. Jafnframt var því lýst að viðvörunargjald, að fjárhæð 950 krónur, hefði verið lagt á skuldina samkvæmt verðskrá bankans. Þá var tiltekið að yrði skuldin ógreidd 21 degi eftir fyrstu vanskil yrði skuldin sett í milliinnheimtu.

Kærandi mun ekki hafa komið umræddri kröfu í skil í kjölfar fyrrgreindrar innheimtuviðvörunar og var milliinnheimtubréf vegna hennar sent til kæranda frá innheimtuaðilanum F ehf. þann 10. apríl 2019. Var í bréfinu vísað til yfirdráttar viðkomandi reiknings, að vanskil hefðu verið frá 31. janúar 2019 og að vanskilafjárhæð væri 25.029 krónur auk innheimtuþóknunar að fjárhæð 3.700 krónur eða alls 28.729 krónur. Þá var því lýst í bréfinu að yrði krafan ekki greidd innan 10 daga frá dagsetningu bréfsins myndi gjaldið hækka frekar.

F ehf. sendi kæranda lokaaðvörun vegna kröfunnar þann 30. apríl 2019. Var vísað til sama efnis og gert hafði verið í fyrra milliinnheimtubréfi en innheimtuþóknun hafði þó hækkað í 7.400 krónur og var því samtals til greiðslu 32.429 krónur. Þá var tiltekið í niðurlagi bréfsins að um síðustu aðvörun væri að ræða og að ef henni yrði ekki sinnt innan 10 daga yrði reikningnum lokað og krafan send lögmanni til innheimtu, án frekari frests eða aðvörunar. Var jafnframt vakin athygli á að um leið og lögfræðileg innheimta hæfist bættist verulegur kostnaður við kröfuna.

Yfirdráttarskuld kæranda gagnvart D hf. mun enn hafa verið í vanskilum um mánaðamót maí og júní 2019. Samkvæmt málsgögnum mun yfirdráttarheimild reikningsins hafa verið felld niður þann 3. júní 2019, skuld samkvæmt reikningnum gjaldfelld og hann eyðilagður og C ehf., sem kærði er í fyrirsvari fyrir, falið að annast löginnheimtu kröfunnar.

Þann 5. júní 2019 var loks sent innheimtubréf frá C ehf. til kæranda vegna kröfunnar og um það efni vísað til yfirdráttar á fyrrgreindum tékkareikningi sem tilgreindur var með gjalddaga þann 31. maí 2019. Í innheimtubréfinu var tiltekið að höfuðstóll kröfunnar væri að fjárhæð 186.124 krónur, dráttarvextir til 5. júní 2019 að fjárhæð 243 krónur, innheimtuþóknun að fjárhæð 39.850 krónur og kostnaður vegna upplýsingaöflunar að fjárhæð 1.488 krónur. Samkvæmt því var kærandi alls krafinn um 227.705 krónur vegna skuldarinnar. Var í bréfinu skorað á kæranda að semja um eða greiða kröfuna innan 7 daga frá dagsetningu bréfsins en að öðrum kosti yrði krafan innheimt með atbeina dómstóla og/eða sýslumanns eftir ákvæðum réttarfarslaga, en slíkt hefði verulega aukinn kostnað í för með sér fyrir kæranda.

Af málsgögnum verðir ráðið að C ehf. hafi veitt kæranda upplýsingar um stöðu skuldarinnar í tölvubréfi þann 6. júní 2019. Fyrir liggur að kærandi gerði upp skuldina að fullu næsta dag, 7. júní 2019, með greiðslu til innheimtuaðilans að fjárhæð 227.773 krónur, en þar af nam innheimtukostnaður 41.345 krónum.

Með tölvubréfi kæranda til C ehf., dags. 4. júlí 2019, gerði aðilinn athugasemdir við fyrrgreinda innheimtuhætti og lýsti því viðhorfi sínu að brotið hafi verið gegn 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 þar sem engin innheimtuviðvörun hefði verið send vegna kröfunnar og að samkvæmt 11. gr. sömu laga hefði aðeins átt að krefja hann um kostnað vegna slíkrar viðvörunar. Samkvæmt því skoraði kærandi á C ehf. að endurgreiða innheimtukostnað vegna málsins að frádregnum lögbundnum kostnaði vegna innheimtuviðvörunar.

Í svörum C ehf. við erindi kæranda þann 9. júlí 2019 kom fram að innheimtuviðvörun hefði verið send þann 2. mars 2019 og að ekki hefði verið við henni brugðist. Hefðu milliinnheimtubréf þess vegna verið send dagana 10. og 30. apríl 2019 en í hinu síðargreinda bréfi hafi verið tiltekið að um lokaaðvörun væri að ræða og að ef henni yrði ekki sinnt yrði reikningnum lokað og krafan sendi lögmanni til innheimtu, án frekari frests eða aðvörunar. Reikningnum hafi loks verið lokað þann 31. maí 2019 og krafan send í lögfræðiinnheimtu. Við innheimtuna hafi verið farið að innheimtulögum nr. 95/2008. Samkvæmt því væri ekki unnt að fallast á kröfu kæranda um endurgreiðslu á innheimtukostnaði.

Undir rekstri málsins aflaði nefndin almennra viðskiptasmála D hf. sem í gildi voru frá og með 15. maí 2019 en frá 15. mars sama ár gagnvart þeim viðskiptavinum sem staðfest höfðu skilmálana frá og með þeim degi. Í grein 4.7 í skilmálunum er fjallað um útvexti, innstæðulausar úttektir, ósamþykktan yfirdrátt og rangar eða óheimilar greiðslur en þar segir nánar tiltekið:

„Viðskiptavinur skuldbindur sig til að fylgjast með stöðu reiknings og er óheimilt að draga á reikninginn fjárhæð sem er umfram innstæðu eða heimilan yfirdrátt. Viðskiptavinur skuldbindur sig til að greiða vexti og kostnað af yfirdráttarheimild samkvæmt vaxtatöflu og verðskrá bankans á hverjum tíma nema um annað hafi verið samið. Vextir reiknast af notaðri yfirdráttarheimild við lok hvers dags og eru reiknaðir frá upphafi hvers mánaðar til loka hans. Skuldavextir eru skuldfærðir mánaðarlega hafi ekki verið um annað samið. Hið sama á við um annan kostnað af yfirdráttarheimild. Dragi viðskiptavinur á reikning umfram innstæðu eða samþykkta yfirdráttarheimild (t.d með innstæðulausri debetkortafærslu) eða yfirdráttarheimild fellur niður skal viðskiptavinur greiða gjald fyrir innstæðulausar úttektir samkvæmt verðskrá bankans hverju sinni. Gjald samkvæmt ofangreindu reiknast af hverri innstæðulausri úttekt. Ósamþykktur yfirdráttur er gjaldkræfur samdægurs og ber dráttarvexti frá færsludegi (þ.e. þeim degi sem greiðsla er færð til bókar í kerfum bankans) og til greiðsludags. Greiði viðskiptavinur inn á reikninginn eftir að hafa dregið á reikninginn umfram innstæðu eða yfirdráttarheimild áskilur bankinn sér rétt til að ráðstafa greiðslunni fyrst til greiðslu á dráttarvöxtum, því næst til greiðslu á kostnaði vegna óheimils yfirdráttar, þ.m.t. innheimtugjalda og lögmannsþóknunar, og að lokum til greiðslu á skuld samkvæmt yfirdrætti. Séu vanskil á reikningi ekki gerð upp áskilur bankinn sér rétt til að gjaldfella skuldina, fyrirvaralaust og án uppsagnar, og leita fullnustu kröfunnar með löginnheimtu. Bankanum er heimilt að fela þriðja aðila að annast innheimtu kröfunnar fyrir sína hönd. Um gjald fyrir milliinnheimtu fer eftir verðskrá bankans eða gjaldskrá viðkomandi ytri innheimtuaðila og um gjald fyrir löginnheimtu fer eftir verðskrá viðkomandi innheimtuaðila.“

Ágreiningur í málinu lýtur að tilgreindri innheimtu lögmannsstofu kærða á hendur kæranda og þeirri innheimtuþóknun sem lögmannsstofan áskildi sér úr hendi kæranda í þágu síns umbjóðanda.

Líkt og áður greinir beindi kærandi kvörtun í máli þessu til nefndarinnar þann 4. júní 2020.

II.

Skilja verður málatilbúnað kæranda með þeim hætti að þess sé krafist að kærða verði gert að sæta agaviðurlögum fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Jafnframt því krefst kærandi þess að C ehf. verði gert að endurgreiða ætlaðan ofgreiddan innheimtukostnað að fjárhæð 40.395 krónur vegna lýstra brota á innheimtulögum nr. 95/2008. Þá krefst kærandi málskostnaðar úr hendi kærða vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Í kvörtun kæranda er því lýst að hún lúti að ætluðum brotum kærða, sem fyrirsvarsmanns C ehf., gegn innheimtulögum nr. 95/2008, sbr. einkum 7. gr. tilgreindra laga.

Kærandi vísar til þess að þann 5. júní 2019 hafi C ehf., sem kærði sé í fyrirsvari fyrir, sent innheimtubréf til sín þar sem tilkynnt hafi verið um að félaginu hafi verið falið að innheimta kröfu samkvæmt úrræðum réttarfarslaga. Hafi komið fram í bréfinu að krafan væri frá D hf. og að gjalddagi hennar hefði verið 31. maí 2019.

Kærandi vísar til 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 þar sem fram kemur að eftir gjalddaga kröfu skuli kröfuhafi eða innheimtuaðili senda skuldara eina skriflega viðvörun þess efnis að vænta megi frekari innheimtuaðgerða verði krafa eigi greidd innan 10 daga frá sendingu viðvörunar, en veita megi þó lengri frest til greiðslu.

Kærandi bendir á að skýrt komi fram í ákvæðinu að senda skuli innheimtuviðvörun eftir gjalddaga og gefa að lágmarki 10 daga frest. Ljóst sé að ekki hafi verið send innheimtuviðvörun enda innheimtubréfið dagsett fimm dögum eftir gjalddaga viðkomandi kröfu.

Kærandi vísar aukinheldur til 11. gr. innheimtulaga þar sem fram kemur að ef brotið hafi verið gegn 7. gr., þannig að innheimtuviðvörun hafi ekki þjónað tilgangi sínum, verði skuldari aðeins krafinn um kostnað vegna viðvörunarinnar.

Vísað er til þess að kærandi hafi greitt kröfuna þann 7. júní 2019 eða sjö dögum eftir gjalddaga hennar sem lýst hafi verið í innheimtubréfinu. Hafi greiðslan verið að heildarfjárhæð 227.773 krónur en hún hafi sundurliðast í höfuðstól að fjárhæð 186.124 krónur, dráttarvexti að fjárhæð 304 krónur og innheimtukostnað að fjárhæð 41.345 krónur.

Kærandi byggir á að C ehf. hafi brotið gegn innheimtulögum nr. 95/2008 enda hafi kæranda aðeins borið að greiða kostnað vegna innheimtuviðvörunar. Hafi kærandi skorað á C ehf. að endurgreiða innheimtukostnað þann 4. júlí 2019 en þeirri kröfu hafi verið hafnað af innheimtuaðilanum.

Samkvæmt því krefst kærandi endurgreiðslu á innheimtuþóknun að fjárhæð 41.345 krónur að frádregnum 950 krónum í samræmi við reglugerð nr. 37/2009 sem kveði á um hámarkskostnað innheimtuviðvörunar.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er vísað til þess að hann geti tekið undir með kærða að gjalddagi kröfunnar hafi verið ranglega tilgreindur í innheimtubréfi sem 31. maí 2019. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá útibússtjóra D hf. komi fram að heimild á yfirdrættinum hafi verið felld niður þann 3. júní 2019 og krafan send í innheimtu. Samkvæmt því hafi gjalddagi kröfunnar verið 3. júní 2019 en ekki 31. maí sama ár líkt og ranglega greini í hinu umþrætta innheimtubréfi.

Kærandi vísar til þess að ekki sé einstakur gjalddagi í tilviki yfirdráttarheimilda heldur falli slík krafa ekki í gjalddaga fyrr en hún rennur út eða henni sagt upp með lögmætum hætti. Bent er á að í fyrirliggjandi gögnum komi fram hvað heimildin hafi verið há hverju sinni. Þannig hafi staða reikningsins þann 4. mars 2019, eða tveimur dögum eftir sendingu innheimtuviðvörunar, verið -169.586 krónur en heimild yfirdráttarins kr. 155.000. Samkvæmt því hafi 14.586 krónur verið í vanskilum á tilgreindum degi. Þegar ítrekun var send þann 10. apríl 2019 hafi heimildin staðið í 150.000 krónum og vanskil því verið 25.029 krónur að viðbættri innheimtuþóknun. Loks hafi verið gerð krafa um greiðslu að fjárhæð 32.429 krónur í lokaaðvörun þann 30. apríl 2019 en þá hafi yfirdráttarheimildin staðið í 145.000 krónum.

Kærandi byggir á að yfirdráttarheimildin hafi runnið út þann 3. júní 2019. Hljóti gjalddagi yfirdráttarheimildar að vera þann dag sem hún falli úr gildi, en eftir þann dag byrji dráttarvextir fyrst að reiknast. Ítrekari kærandi að engin innheimtuviðvörun hafi verið send eftir gjalddaga líkt og krafa er gerð til í 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008. Þá beri að túlka allan vafa skuldara í hag enda séu innheimtuaðgerðir og innheimtukostnaður íþyngjandi réttarúrræði gegn skuldara. Beri því að túlka allar heimildir þröngt og skuldara í hag séu vafaatriði uppi. Þá kveðst kærandi ósammála málatilbúnaði kærða um að einhverju máli skipti að um „breytilega“ skuld sé að ræða.

Vísað er til þess að það sé kæranda óviðkomandi þótt taka þurfi upp uppgjör við D hf. vegna lögbrota kærða. Þá geti kærandi ekki betur séð en að ekki þurfi að taka upp uppgjörið enda fullnægjandi að kærði skili til baka ólögmætum kostnaði beint til kæranda. Þá sé lögmaður aðili að málum á grundvelli innheimtulaga nr. 95/2008 en ekki kröfuhafi enda hafi kröfuhafi ekki brotið gegn lögum. Ekki sé hægt að komast hjá lagaskyldu á þeim grunni sem kærði byggi.

Varðandi aðild kærða og C ehf. að málinu vísar kærandi aukinheldur til 2. mgr. 15. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 og lögskýringargagna hvað það ákvæði varðar.

Í samræmi við allt framangreind byggir kærandi á að kærði hafi brotið gegn 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008. Beri kærða því að skila kæranda ólögmætum kostnaði og fá viðeigandi meðferð hjá nefndinni fyrir að fara ekki að lögum við innheimtustörf.

III.

Skilja verður málatilbúnað kærða fyrir nefndinni með þeim hætti að þess sé aðallega krafist að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að kröfum kæranda verði hafnað. 

Kærði vísar til þess að honum hafi verið falið að innheimta skuld vegna yfirdráttar kæranda á reikningi nr. x hjá D hf. Hafi krafan komið til innheimtu þann 5. júní 2019 og innheimtubréf sent sama dag. Í innheimtubréfinu hafi ranglega verið sagt að gjalddagi hefði verið 31. maí 2019, en þar hafi í reynd verið að tiltaka upphafsdag útreiknings dráttarvaxta í innheimtukerfi kærða, þar sem skuldin á reikningnum hafi verið vaxtareiknuð til þess dags og vextir höfuðstólsfærðir í samræmi við skilmála umbjóðanda kærða um reikninginn. Þá hafi í innheimtubréfinu verið áskilin greiðsla innheimtuþóknunar, í samræmi við auglýsingu nr. 450/2013 og 3. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, umbjóðanda kærða til handa, vegna kostnaðar af vanskilunum, auk kostnaðar við öflun upplýsinga úr opinberum skrám.

Vísað er til þess að vegna skuldarinnar hafi verið send innheimtuviðvörun frá umbjóðanda kærða þann 2. mars 2019 og tvö milliinnheimtubréf frá F ehf. dagana 10. og 30. apríl 2019. Hafi milliinnheimtubréfin lotið að þeim hluta skuldar kæranda sem hafi verið óheimill yfirdráttur en skuld á yfirdráttarreikningi sé eðli máls samkvæmt breytileg. Þá hafi kærandi kosið að sinna ekki greiðslutilmælum frá umbjóðanda kærða og F ehf.

Í samræmi við framangreint byggir kærði á að ljóst sé að kæranda hafi verið tilkynnt um skuldina og hann varaður við kostnaði sem kynni að hljótast af vanskilum og hugsanlegum innheimtuaðgerðum á grundvelli réttarfarslaga. Þá hafi sömuleiðis verið tiltekið í síðara milliinnheimtubréfinu, dags. 30. apríl 2019, að brygðist kærandi ekki við yrði reikningnum lokað og krafan fengin lögmanni til innheimtu án frekari viðvörunar.

Vísað er til þess að bréf kærða frá 5. júní 2019 hafi verið liður í löginnheimtu og helgast af 1. mgr. 36. gr. siðareglna lögmanna, sbr. einnig niðurlagsákvæði 2. mgr. 1. gr. auglýsingar nr. 450/2013 og niðurlagsákvæði 1. mgr. 24. gr. a. laga nr. 77/1998.

Kærði telur einsýnt að nægilegt sé í þeim tilfellum þegar um „breytilega“ skuld sé að ræða, að send sé ein innheimtuviðvörun vegna byrjaðra vanskila. Þannig sé nægilegt að senda eina innheimtuviðvörun vegna hins óheimila yfirdráttar, til að innheimta alla skuldina, eins og nægilegt sé að senda eina innheimtuviðvörun vegna einstakra gjalddaga lánssamninga og skuldabréfa, til að innheimta alla skuldina, sé innheimtuviðvörun ekki svarað með greiðslu eða samningum um vanskil. Sama eigi við um aðrar skuldir með afborgunum, svo sem fasteignagjöld, áskriftir og hvers konar reglubundnar greiðslur og iðgjöld.

Kærði bendir á að skylda til að senda innheimtuviðvörun vegna einstakra gjalddaga væri eingöngu til þess fallin að auka tilkostnað þeirra sem lagaákvæðið á að vernda. Þannig hafi nefndin áður úrskurðað að lögmanni beri að safna slíkum skuldum á milli sömu aðila saman fyrir innheimtu samkvæmt úrræðum réttarfarslaga, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 7/2006. Þá sé sá háttur að gefa skuldara kost á því, á fyrri stigum, að greiða einungis þann hluta skuldarinnar sem sé umfram heimild eða gjaldfallinn, honum bersýnilega til hagsbóta, en skylda til að senda sérstaka innheimtviðvörun vegna einstakra gjalddaga myndi verulega takmarka möguleika kröfuhafa til að haga innheimtu með því móti. Þvert á móti megi ætla að slík skylda yrði til þess að kröfuhafar teldu sig knúna til að krefjast greiðslu heildarskuldarinnar strax á fyrstu stigum innheimtunnar.

Vísað er til þess að kærandi hafi greitt skuldina til kærða þann 7. júní 2019, án nokkurs fyrirvara. Hafi kærði gert upp við D hf. í beinu framhaldi. Er á það bent að ef fallist yrði á kröfu kærandi þyrfti kærði því að greiða umkrafða fjárhæð til kæranda og taka upp uppgjör við umbjóðanda sinn liðlega ári síðar.

Kærði byggir á að allt framangreint sýni ljóslega að rétt hafi verið staðið að málum af hans hálfu. Varðandi kröfugerð kæranda um endurgreiðslu fjármuna bendir kærði einnig á að ekkert samningssamband sé á milli kæranda og kærða og falli kvörtun því utan 26. gr. laga nr. 77/1998. Auk þess séu engar heimildir í 27. gr. laganna til að kveða í úrskurðarorði á um skyldu lögmanns til endurgreiðslu fjár til gagnaðila umbjóðanda síns. Samkvæmt því sé krafa kæranda í raun fjárkrafa á hendur D hf. en ekki kærða enda hafi innheimtuþóknun verið bætur til bankans þar sem kærandi hafði ekki sinnt greiðslutilmælum og var í vanskilum við bankann. Hafi bankanum við þær aðstæður verið rétt að leita sér aðstoðar lögmanns við löginnheimtu skuldarinnar. Það uppgjör hafi farið fram á milli kærða og bankans. Eigi krafa kæranda um endurgreiðslu því ekki undir nefndina heldur almenna dómstóla.

Í viðbótarathugasemdum kærða er í fyrsta lagi ítrekað að kæranda hafi verið send innheimtviðvörun þann 2. mars 2019 vegna ádráttar á yfirdráttarreikningi umfram heimild. Í því bréfi hafi kæranda verið bent á að ef hann greiddi ekki skuldina mætti hann eiga von á frekari innheimtuaðgerðum og eftir atvikum málshöfðun. Í kjölfar þeirrar viðvörunar hafi kæranda svo verið sendar tvær áminningar í milliinnheimtu þar sem sérstaklega hafi verið tiltekið að 10 dögum síðar yrði krafan send lögmanni til innheimtu og reikningnum lokað. Þar sem enn hafi ekki verið brugðist við hafi krafan verið fengin kærða til innheimtu eftir ákvæðum réttarfarslaga þann 3. júní 2019 og heildarskuldin felld í gjalddaga, sbr. tilkynningu 5. sama mánaðar.

Vísar kærði til þess að í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því sem varð að innheimtulögum nr. 95/2008 hafi verið tiltekið að tilgangurinn með lögbundinni skyldu til að senda innheimtuviðvörun sé að skuldara gefist kostur á að greiða skuld sína innan stutts frests, áður en gripið sé til fekari innheimtuaðgerða. Eins og málið liggi fyrir sé ljóst að kærandi hafi fengið ítrekuð tækifæri til að gera skuldina upp. Það hafi kærandi ekki gert fyrr en krafan hefði verið komin í löginnheimtu hjá kærða með auknum tilkostnaði. Þá sé ljóst að kærandi geri ekki ágreining um að hann hafi verið í vanskilum við umbjóðanda kærða vegna þessa tiltekna tékkareiknings þegar innheimtuviðvörun var send þann 2. mars 2019. Sá háttur að innheimta einungis þann hluta skuldarinnar sem fallinn hafi verið í gjalddaga og fresta því að gjaldfella heildarskuldina þar til á síðari stigum geti varla rýrt rétt umbjóðanda kærða til að fá bættan kostnað sem orðið hafi af vanefndinni.

Í öðru lagi kveðst kærði mótmæla því sérstaklega að innheimtuviðvörunin hafi ekki þjónað tilgangi sínum svo 11. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 eigi við. Er á það bent að innheimtuviðvörun hafi verið send kæranda á lögheimili hans og að hún hafi innihaldið allar upplýsingar sem 2. mgr. 7. gr. laganna kveði á um. Hafi kærandi augljóslega átt þann kost að greiða samkvæmt innheimtuviðvöruninni, en kosið að gera ekki. Samkvæmt því lúti málatilbúnaður kæranda að því að ekki hafi verið gengið harðar fram í innheimtunni og skuldin gjaldfelld strax við fyrstu vanskil, en kærði telur að hagur hans hefði varla orðið bættari við það.

Í þriðja lagi vísar kærði til þess að nauðsynlegt sé að hafa í huga að kostnaður sem leggst við gjaldfallna kröfu við löginnheimtu sé í eðli sínu skaðabætur, ætlaðar þeim sem hefur verið vanefnt við. Af þeim sökum sé ljóst að eina fjárkrafan sem kærandi geti átt sé á hendur umbjóðanda kærða, en slíkur ágreiningur falli ekki undir valdsvið nefndarinnar. Þá gildi einu þótt nefndin fari með almennt eftirlit með störfum lögmanni, en kærandi hafi ekki krafist annars en að kærða verði gert að greiða honum tiltekna fjárhæð.

Að endingu vísar kærði til þess að öll málsmeðferð hafi verið í samræmi við ákvæði innheimtulaga nr. 95/2008 og laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Niðurstaða

I.

Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um formhlið málsins vegna þeirrar kröfu kæranda að C ehf. verði gert að endurgreiða ætlaðan ofgreiddan innheimtukostnað að fjárhæð 40.935 krónur vegna lýstra brota á innheimtulögum nr. 95/2008.

Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna skal nefndin vísa frá máli ef það lýtur að réttarágreiningi sem ekki fellur undir valdsvið hennar.

Um fyrrgreinda fjárkröfu kæranda er til þess að líta að úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt lögum nr. 77/1998 um lögmenn en valdsvið nefndarinnar er afmarkað í V. kafla laganna. Nánar tiltekið er valdsvið nefndarinnar annars vegar bundið við ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Hins vegar getur sá sem telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna lagt kvörtun á hendur lögmanninum fyrir nefndina, sbr. 27. gr. laganna. Um hlutverk nefndarinnar er jafnframt fjallað í 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna en þar segir:

„Hlutverk úrskurðarnefndar lögmanna er:

  1. að fjalla um ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um þóknun lögmannsins, þ.e. rétt hans til endurgjalds fyrir störf sín og um fjárhæð endurgjaldsins, enda sé ágreiningnum skotið til nefndarinnar af öðrum hvorum málsaðila eða báðum;
  2. að fjalla um kvörtun á hendur lögmanni frá aðila vegna háttsemi, sem kann að stríða gegn lögum eða siðareglum LMFÍ;
  3. að fjalla um erindi sem stjórn LMFÍ sendir nefndinni skv. 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna.

Í samræmi við þær heimildir sem hér hafa verið raktar fellur það utan valdsviðs nefndarinnar að fjalla um þá kröfu kæranda að kærða og/eða C ehf. verði gert að endurgreiða honum ætlaðan ofgreiddan innheimtukostnað, að fjárhæð 40.935 krónur, vegna þeirra ætluðu brota sem lýst er í kvörtun, enda verður ekki talið að slíkt samningssamband sé eða hafi verið á milli kærða og/eða C ehf. annars vegar og kæranda hins vegar sem 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 er afmörkuð við, sbr. til hliðsjónar úrskurði nefndarinnar frá 5. maí 2020 í málum nr. 26/2019 og 29/2019. Þegar af þeirri ástæðu verður að vísa tilgreindri kröfu kæranda á hendur kærða frá nefndinni með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.

Samkvæmt því koma til efnisúrlausnar í málinu málsástæður kæranda sem lúta að ætluðum brotum kærða á innheimtulögum nr. 95/2008 og sú afleidda krafa sem í þeim felst um að kærða verði gert að sæta agaviðurlögum fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.                    

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

III.

Ágreiningslaust er í málinu að kærandi var í vanskilum með yfirdráttarskuld á tékkareikningi sínum nr. x hjá D hf. frá 31. janúar 2019. Fyrir liggur jafnframt, svo sem nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan, að kæranda var send innheimtuviðvörun frá bankanum vegna vanskilanna þann 2. mars 2019 auk þess sem hann móttók milliinnheimtubréf, dags. 10. og 30. apríl 2019, frá innheimtuaðilanum F ehf. vegna kröfunnar. Þar sem kærandi mun ekki hafa brugðist við þeim erindum var yfirdráttarheimild reikningsins felld niður í byrjun júnímánaðar 2019 af hálfu bankans, heildarskuld samkvæmt reikningnum gjaldfelld og hann eyðilagður og C ehf., sem kærði er í fyrirsvari fyrir, falið að annast löginnheimtu kröfunnar. Í tilefni löginnheimtu kröfunnar var kæranda sent innheimtubréf frá C ehf. þann 5. júní 2019, en efni þess er nánar rakið í málsatvikalýsingu að framan sem og eftirfarandi uppgjöri vegna kröfunnar sem fram fór með greiðslu kæranda þann 7. sama mánaðar.

Málatilbúnaður kæranda fyrir nefndinni er reistur á því að umræddar innheimtuaðgerðir kærða og C ehf. og gjaldtaka vegna þeirra hafi verið andstæðar innheimtulögum nr. 95/2008, einkum þar sem innheimtuviðvörun hafi ekki verið send eftir gjaldfellingu heildarskuldar á viðkomandi tékkareikningi. Þar sem innheimtuviðvörun hafi ekki verið send hafi hún ekki þjónað tilgangi sínum og hafi kæranda því aðeins borið að greiða kostnað vegna slíkrar viðvörunar en ekki innheimtukostnað að öðru leyti, sbr. 7. og 11. gr. innheimtulaga nr. 95/2008.

Kærði hefur á hinn bóginn borið því við fyrir nefndinni að hinar umþrættu innheimtuaðgerðir í málinu hafi verið grundvallaðar á réttarfarslögum og að upphaf þeirra hafi markast við sendingu innheimtubréfs þann 5. júní 2019 sem líta verði til sem tilkynningar sem samýmst hafi góðum lögmannsháttum í skilningi 1. mgr. 24. gr. a. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Verði þá að líta til þess að kæranda hafi áður verið send frum- og milliinnheimtubréf vegna þess hluta kröfunnar sem verið hafi umfram heimildir, en að þær innheimtutilraunir hafi reynst árangurslausar. Jafnframt því hafi innheimtuaðgerðir gagnvart kæranda samrýmst gildandi skilmálum D hf. á viðkomandi tíma. Samkvæmt því hafi verið um löginnheimtu að ræða sem farið hafi samkvæmt 24. gr. a. laga nr. 77/1998 um lögmenn en ekki innheimtulögum nr. 95/2008, sbr. einnig 3. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 gilda lögin um frum- og milliinnheimtu gjaldfallinna peningakrafna fyrir aðra eða vegna eigin starfsemi. Með fruminnheimtu er átt við innheimtuviðvörun samkvæmt 7. gr., með milliinnheimtu er átt við innheimtuaðgerðir sem hefjast eftir að skuldari hefur fengið slíka viðvörun en með löginnheimtu er átt við innheimtumeðferð á grundvelli 24. gr. a. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 95/2008.

Í 1. mgr. 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 er tiltekið að eftir gjalddaga kröfu skuli kröfuhafi eða innheimtuaðili senda skuldara eina skriflega viðvörun þess efnis að vænta megi frekari innheimtuaðgerða verði krafa eigi greidd innan 10 daga frá sendingu viðvörunar, en veita megi lengri frest til greiðslu. Þá er tiltekið í 2. mgr. 7. gr. hvað skuli koma fram í slíkri innheimtviðvörun.

Við mat á því sakarefni sem hér um ræðir er nauðsynlegt að mati nefndarinnar að gera greinarmun á þeim hluta hinnar umþrættu innheimtukröfu sem laut að ósamþykktum yfirdrætti annars vegar og hins vegar þeim hluta sem var innan heimildar samkvæmt samningi kæranda og viðkomandi kröfuhafa. Fær sú aðgreining að mati nefnarinnar fulla stoð í gildandi skilmálum D hf. á þeim tíma sem um ræðir, sbr. nánar grein 4.7 í almennum viðskiptaskilmálum D hf. frá 15. mars 2019 sem gerð er grein fyrir í málsatvikalýsingu að framan. Að mati nefndarinnar verður þó að skoða heimild í skilmálunum til fullnustu kröfu með löginnheimtu að undangenginni fyrirvaralausri gjaldfellingu skuldarinnar með hliðsjón af fyrrgreindu lagaboði 1. mgr. 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008, þ.e. að eftir slíka gjaldfellingu skuli kröfuhafi eða innheimtuaðili senda skuldara eina skriflega viðvörun þess efnis að vænta megi frekari innheimtuaðgerða vegna hinnar gjaldfelldu skuldar.

Fyrir liggur að hið umþrætta innheimtubréf sem lögmannsstofa kærða beindi til kæranda þann 5. júní 2019 var sent við upphaf ætlaðrar löginnheimtu kröfunnar á grundvelli 24. gr. a. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Á þeim tíma hafði frum- og milliinnheimta vegna kröfunnar verið takmörkuð við þann þátt hennar sem laut að ósamþykktum yfirdrætti, svo sem skýrlega verður ráðið af viðkomandi bréfum frá 2. mars, 10. og 30. apríl 2019 en efni þeirra er nánar rakið í málsatvikalýsingu að framan. Samkvæmt því höfðu innheimtutilraunir við frum- og milliinnheimtu kröfunnar í engu lotið að þeim hluta yfirdráttarins sem taldist innan samþykktrar yfirdráttarheimildar á grundvelli lögskipta kæranda og viðkomandi kröfuhafa, ólíkt því sem gert var í hinu umþrætta innheimtubréfi lögmannsstofu kærða frá 5. júní 2019.

Að mati nefndarinnar lá ótvíræð stoð til grundvallar löginnheimtuaðgerðum gagnvart kæranda, með tilheyrandi kostnaði, vegna þess hluta kröfunnar sem varðaði ósamþykktan yfirdrátt, sbr. fyrri frum- og milliinnheimtuaðgerðir gagnvart kæranda sem reynst höfðu árangurslausar.

Á hinn bóginn er til þess að líta að samkvæmt málsgögnum og málatilbúnaði kærða fyrir nefndinni var sá hluti innheimtukröfunnar sem laut að samþykktum yfirdrætti ekki gjaldfelldur, í samræmi við heimild í almennum viðskiptaskilmálum kröfuhafa, fyrr en í byrjun júní 2019 eða skömmu áður en hið umþrætta innheimtubréf lögmannsstofu kærða var sent til kæranda. Í ljósi þess hvernig frum- og milliinnheimtu hafði verið háttað gagnvart kæranda, efni almennra viðskiptaskilmála kröfuhafa og því að engar innheimtuaðgerðir höfðu átt sér stað vegna hinnar samþykktu yfirdráttarheimildar er til gjaldfellingar hennar kom verður að áliti nefndarinnar að telja að kærða hafi verið óheimilt að hefja löginnheimtu vegna þess hluta kröfunnar, líkt og gert var með innheimtubréfi lögmannsstofu hans þann 5. júní 2019, og að sú háttsemi hans hafi brotið í bága við 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008. Að mati nefndarinnar telst sú háttsemi kærða aðfinnsluverð, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu kæranda, A, um að C ehf. verði gert að endurgreiða kæranda ofgreiddan innheimtukostnað að fjárhæð 40.395 krónur, er vísað frá nefndinni.

Sú háttsemi kærða, B lögmanns, að hefja löginnheimtu með tilheyrandi innheimtuþóknun gagnvart kæranda, A, þann 5. júní 2019 vegna samþykktrar yfirdráttarheimildar án þess að gæta þess áður að innheimtuviðvörun samkvæmt 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 hefði verið send til kæranda, er aðfinnsluverð.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Valborg Þ. Snævarr

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson