Mál 19 2020

Mál 19/2020

Ár 2021, fimmtudaginn 25. febrúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2020:

A ehf.

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 31. ágúst 2020 erindi C lögmanns fyrir hönd kæranda, A ehf., þar sem kvartað er yfir því að kærði B lögmaður, hafi í störfum sínum brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 7. september 2020 og barst hún þann 1. október sama ár. Var lögmanni kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 7. október 2020. Viðbótarathugasemdir kæranda í málinu bárust til nefndarinnar þann 3. nóvember 2020 og voru þær kynntar kærða með bréfi þann 5. sama mánaðar. Loks bárust frekari athugasemdir vegna málsins frá kærða þann 30. nóvember 2020 og var kærandi upplýstir um það efni með bréfi dags. 8. desember sama ár. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt málsgögnum var D ehf. tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms x. apríl 20xx í máli nr. G-xx/20xx. Var kærði skipaður skiptastjóri í þrotabúinu sama dag. Fyrir liggur að kærði beindi boðunarbréfi til fyrrum fyrirsvarsmanns þrotaaðila þann x. apríl 2020 vegna skýrslugjafar sem fyrirhuguð var þann x. sama mánaðar. Þá mun kærði hafa gefið út innköllun vegna skiptanna sem birt var hið fyrra sinn í Lögbirtingablaði þann x. apríl 2020.

Kærði hefur upplýst fyrir nefndinni að eftir eignaleit í kjölfar skipunar hans sem skiptastjóra hafi komið í ljós fasteign sem tilheyrði þrotabúinu að F í Reykjavík. Aðrar eignir hafi ekki fundist að frátöldum lítilsháttar fjármunum í viðskiptabanka búsins.

Fyrir liggur að kærði móttók tölvubréf frá Héraðsdómi vegna búsins þann x. apríl 20xx þar sem upplýst var um að fyrirsvarsmaður þrotaaðila hefði í hyggju að leggja fram endurupptökubeiðni og að af þeim sökum væri óskað eftir að kærði myndi halda að sér höndum á meðan það ferli væri í gangi. Staðfesti kærði sama dag að hann myndi bíða með frekari aðgerðir í þágu búsins „fram í næstu viku“ og að hann teldi varhugavert að bíða mikið lengur með hagsmuni búsins.

Lögmaður kæranda upplýsti í tölvubréfi til kærða, dags. 28. apríl 2020, að hann færi með hagsmunagæslu í þágu fyrrum fyrirsvarsmanns þrotaaðila sem hefði í hyggju að leggja fram beiðni um endurupptöku málsins í héraði. Lýsti lögmaðurinn því að mikilvægt væri af þeim sökum að innköllun yrði ekki gefin út. Í svari kærða þann sama dag kom fram að innköllun hefði verið gefin út.

Í kjölfar fyrirspurnar kærða upplýsti fyrrum fyrirsvarsmaður þrotaaðila um þann 30. apríl 2020 að hann kannaðist ekki við boðun skiptastjóra og að hann kæmist ekki þann dag til skýrslugjafar. Kveðst kærði hafa ákveðið að bíða með nýja boðun til skýrslugjafar í ljósi fyrri samskipta um fyrirhugaða kröfugerð um endurupptöku málsins fyrir dómi.

Kærði hefur lýst því í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni að þrotabúinu hafi borist kauptilboð í fyrrgreinda fasteign þann x. maí 2020 og að af þeim sökum hafi hann óskað samdægurs fregna frá Héraðsdómi um stöðu málsins þar. Kom fram í svari dómsins þann 11. sama mánaðar að ekkert hefði gerst í málinu og að endurupptökubeiðni hefði ekki borist. Þá hefur verið upplýst fyrir nefndinni að ekki hafi komið til slíkrar endurupptökubeiðni á síðari stigum.

Á meðal málsgagna er að finna tölvubréf sem kærði beindi til G hf. þann 11. maí 2020, en tilgreindur banki mun hafa verið veðhafi viðkomandi fasteignar. Kom fram í tölvubréfinu að borist hefði tilboð í fasteignina, sem væri eina eign þrotabúsins, að fjárhæð 130.000.000 króna sem þýddi að lögveðskröfur og áhvílandi veðskuldir fengjust greiddar að fullu. Hins vegar myndi tilboðsverð ekki duga fyrir öllum almennum kröfum sem lýst hefði verið á því stigi. Kvaðst kærði ekki hafa samþykkt tilboðið og að hann vildi leita afstöðu bankans sem veðhafa eignarinnar fyrst en tilboðið gilti til kl. 23:00 hinn 14. maí 2020. Í svari bankans til kærða, dags. 13. maí 2020, kom fram að tilboðsverð væri talsverð lækkun frá kauptilboði sem bankanum hefði verið kynnt í októbermánuði 2019. Þá var því lýst að bankinn gerði ekki athugasemd við sölu að því gefnu að allar áhvílandi kröfur hans yrðu greiddar. Þyrfti skiptastjóri sjálfur, þ.e. kærði, að meta hvort tilboðsverðið væri ásættanlegt söluverð.

Kærði lýsir því að hann hafi samþykkt kauptilboðið degi síðar fyrir hönd þrotabúsins, þ.e. 14. maí 2020, og að gengið hafi verið frá kaupsamningi þann x. júní sama ár.

Lögmaður kæranda beindi tölvubréfi til kærða vegna þrotabúsins þann 12. júní 2020 en upplýst hefur verið að aðilar hafi jafnframt rætt saman í síma fyrr þann dag. Í tölvubréfi lögmanns kæranda kom fram að fasteignin að F í Reykjavík væri eign kæranda, að grundvöllur eignarhaldsins væri kaupsamningur frá x. desember 2016 og að kröfu á grundvelli 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. yrði lýst. Vakti lögmaðurinn jafnframt athygli á að upplýsingar um sölu fasteignarinnar hefðu komið fram í fyrri ársreikningi og skattframtölum þrotaaðila. Áskildi lögmaðurinn sér rétt fyrir hönd kæranda til þess að krefjast bóta á tjóni sem hann yrði fyrir, til að mynda ef eignin hefði verið seld undir markaðsvirði hennar. Þá gerði lögmaðurinn athugasemdir við að sala eignarinnar hefði farið fram án þess að skýrsla hefði verið tekin af þrotamanni, óskað hefði verið eftir bókhaldi búsins og á meðan kærði, sem skiptastjóri, hefði verið upplýstur um fyrirhugaða endurupptökubeiðni. Af þessum sökum væri farið fram á að kærði, sem skiptastjóri, héldi að sér höndum og/eða félli frá sölunni þangað til afstaða til sértökukröfu kæranda lægi fyrir.

Í svari kærða til lögmanns kæranda, dags. 17. júní 2020, kom fram að búið væri að undirrita kaupsamning um fasteign búsins. Auk þess hefði veðhafi ekki kannast við þá sölu fasteignarinnar sem kærandi lýsti.

Í svörum lögmanns kæranda til kærða, dags. 18., 23. og 25. júní 2020, voru ítrekaðar fyrri gagnabeiðnir, þar á meðal um að afhent yrði afrit af undirrituðu kauptilboði, upplýsingar um söluþóknun lögmannsstofu kærða, afrit af boðun fyrirsvarsmanns í skýrslutöku eftir fyrri afboðun og afrit af samskiptum kærða við Héraðsdóm vegna málefna búsins.

Þann 23. júní 2020 sendi kærði kröfuskrá þrotabúsins í tölvubréfi til umboðsmanna kröfuhafa, þar á meðal til lögmanns kæranda. Var meðal annars gerð grein fyrir sértökukröfu kæranda í kröfuskrá og að kærði hefði hafnað þeirri kröfu þar sem fylgigögn styddu ekki kröfuna á grundvelli 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991. Mótmælti lögmaður kæranda þeirri afstöðu með tölvubréfi til kærða þennan sama dag, þ.e. þann 23. júní 2020

Með tölvubréfi, dags. 29. júní 2020, var fyrrum fyrirsvarsmaður þrotaaðila boðaður á ný til skýrslugjafar hjá kærða vegna málefna búsins þann 10. júlí 2020. Þann sama dag var óskað eftir af hálfu kærða að fyrrum bókari þrotaðila myndi afhenda bókhald aðilans án tafar.

Fyrir liggur að skiptafundur var haldinn í þrotabúinu þann x. júní 2020. Meðal málsgagna er að finna fundargerðardrög frá þeim fundi, sem kærði sendi til lögmanna kröfuhafa þann sama dag með ósk um yfirferð og athugasemdir ef einhverjar væru. Svo sem í drögunum greinir mótmælti lögmaður kæranda afstöðu kærða, sem skiptastjóra, um höfnun fyrrgreindrar sértökukröfu auk þess sem hann gerði ýmsar athugasemdir við störf kærða á fundinum og krafðist tiltekinna gagna. Þá mun hafa verið ákveðið á fundinum að honum yrði ekki slitið heldur frestað í því skyni að veita kærða færi á að leggja fram umbeðin gögn og til að atkvæðagreiðsla gæti farið fram um nánar tilgreind málefni búsins.

Af fyrirliggjandi tölvubréfasamskiptum frá 30. júní til 2. júlí 2020 verður ráðið að lögmenn ýmissa kröfuhafa, þar á meðal kæranda, hafi gert verulegar athugasemdir við fundargerðardrög kærða  jafnframt því sem krafa hafi verið gerð um að kærði boðaði til framhaldsfundar vegna skiptanna sem haldinn skyldi innan viku frá fyrri fundi. Ítrekaði lögmaður kæranda jafnframt í tölvubréfi til kærða þann síðastgreinda dag, sem lögmenn nánar tilgreindra kröfuhafa fengu jafnframt afrit af, beiðni um afhendingu þeirra gagna sem rætt hafði verið um á skiptafundinum og að uppfærð fundargerð yrði send. Í svari kærða þann sama dag kom fram að gögin yrðu send og að hann væri að vinna í því að finna tíma sem gengi upp sem fyrst en að hann gæti ekki lofað því að það næðist í „næstu viku en það yrði þá í síðasta lagi í vikunni þar á eftir.

Í áframhaldandi tölvubréfasamskiptum kærða og lögmanna kröfuhafa þann 2. júlí 2020 kom fram af hálfu lögmanns kæranda, sem jafnframt annaðist hagsmunagæslu í þágu fyrrum fyrirsvarsmanns þrotaaðila, að fyrirsvarsmaðurinn gæti hliðrað til í dagskránni hjá sér og frestað boðaðri skýrslutöku til þess að koma mætti fyrir framhalds skiptafundi á þeim tíma. Kvaðst kærði hins vegar ekki vilja fresta skýrslunni meira en orðið hefði. Ítrekuðu lögmenn annarra tilgreindra kröfuhafa fyrri gagna- og upplýsingabeiðni úr hendi kærða, sem skiptastjóra, í tölvubréfum dagana 2. og 8. júlí 2020.

Á meðal málsgagna er jafnframt að finna tölvubréf sem lögmaður veðhafans sendi til lögmanns kæranda og fleiri aðila um málefni búsins. Var þar tiltekið að veðhafinn hefði hvorki verið boðaður á né verið viðstaddur veðhafafund vegna þrotabúsins. Kærði, sem skiptastjóri, hefði hins vegar sent veðhafanum upplýsingar um tilboð í fasteignina þann x. maí 2020 og óskað eftir afstöðu til sölunnar.

Þann x. júlí 2020 beindi lögmaður kæranda skriflegum aðfinnslum til Héraðsdóms eftir ákvæði 76. gr. laga nr. 21/1991 vegna starfa kærða sem skiptastjóra viðkomandi þrotabús. Var kærði upplýstur um það efni í tölvubréfi þann sama dag. Af efni hinna skriflegu aðfinnslna verður ráðið að þær lúti að sömu atriðum og þáttum og kvörtun í máli þessu er reist á.

Fyrir liggur að skýrsla var tekin af fyrrum fyrirsvarsmanni þrotaaðila á skrifstofu kærða, sem skiptastjóra, í samræmi við boðun þann x. júlí 2020.

Kærði hefur vísað til þess að á þessu stigi hafi hann talið nauðsynlegt að fá skorið úr viðurkenningu krafna áður en lengra yrði haldið svo ljóst væri hverjir væru raunverulegir kröfuhafar búsins. Hafi það verið mat kærða að ekki væri réttlætanlegt eða sanngjarnt gagnvart öðrum kröfuhöfum, að aðili eins og kærandi, gæti látið skiptin til sín taka með afdrifaríkum hætti án þess að leyst væri úr því hvort viðkomandi ætti raunverulega kröfu í búið. Jafnframt því hafi kærði talið rétt að hinkra með framhaldsfund þar til búið væri að leysa úr aðfinnslum fyrir dómi.

Á meðal málsgagna fyrir nefndinni er að finna tvö verðmöt, dags. 20. apríl og 28. ágúst 2020, sem kærði aflaði um áætlað söluverð viðkomandi fasteignar búsins. Var tiltekið í hinu fyrra verðmati að áætlað söluverð væri að fjárhæð 140.000.000 króna en í hinu síðara verðmati var áætlað söluverð að fjárhæð 145.000.000 króna.

Með úrskurði Héraðsdóms x. október 2020 í máli nr. x-xxxx/202x var kærða vikið úr starfi skiptastjóra í þrotabúinu, en til sóknar í málinu var meðal annars kærandi. Sá úrskurður var hins vegar felldur úr gildi með úrskurði Landsréttar x. janúar 202x í máli nr. xxx/20xx en í samandregnum forsendum hans var meðal annars eftirfarandi tiltekið:

Eins og áður greinir hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að sóknaraðila hafi borið að kynna sér betur byggingarrétt sem þinglýst hafði verið á stærstu eign búsins, fasteignina að F, en þó hafa ekki verið leiddar líkur að því að það hefði haft umtalsverð áhrif á söluverð eignarinnar. Einnig hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili hefði mátt gera sér grein fyrir því að hann þyrfti að hafa sölugögn vegna sölu fasteignarinnar tilbúin til afhendingar á skiptafundinum x. júní 20xx og að honum hafi borið að halda ágreiningsfund um umdeildar kröfur í búið eins fljótt og honum var unnt. Á hinn bóginn verður ekki talið eins og atvikum máls þessa er háttað að framferði sóknaraðila hafi verið slíkt að efni hafi staðið til að víkja honum fyrirvaralaust úr starfi skiptastjóra. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Líkt og áður greinir hafði kærandi áður beint kvörtun í máli þessu til nefndarinnar, þ.e. þann 31. ágúst 2020.

II.

Kærandi krefst þess fyrir nefndinni að kærða verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærandi vísar til þess að kvörtun taki til starfa kærða sem skiptastjóra þrotabús D ehf. sem tekið hafi verið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms þann x. apríl 20xx.

Kærandi kveðst hafa lýst sértökukröfu í fasteignina að F í Reykjavík sem að forminu til hafi verið skráð eign ofangreinds þrotabús. Áður en til kröfulýsingar hafi komið hafi lögmaður kæranda upplýst kærða um að umrædd fasteign væri ekki í eigu þrotabúsins, heldur kæranda, og vísað til gagna þar að lútandi. Kærði, sem skiptastjóri, hafi hins vegar selt fasteignina til þriðja aðila fyrir 130.000.000 króna. Hafi það verið gert þrátt fyrir að sami þriðji aðili hefði áður skuldbundið sig til að kaupa fasteignina fyrir 200.000.000 króna, sbr. kauptilboð dags. x október 2019, en fjármögnun hafi ekki fengist fyrir þeim viðskiptum.

Kærandi lýsir því að hinn kærði skiptastjóri hafi valdið sér tjóni við sölu fasteignarinnar til viðkomandi þriðja aðila, sem hafi verið grandsamur um eignarrétt kæranda, á verði sem hafi verið tugum milljóna undir markaðsverði eignarinnar.

Kærandi vísar til þess að hann hafi ítrekað óskað eftir gögnum frá kærða um sölu fasteignarinnar. Hafi kærði upplýst að hin umbeðnu gögn yrðu lögð fram á skiptafundi auk þess sem ákvörðun um sölu fasteignarinnar hafi verið tekin á veðhafafundi með eina veðhafa eignarinnar.

Bent er á að á skiptafundi þann x. júní 2020 hafi kærði gert grein fyrir rekstri búsins í samræmi við lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Á þeim fundi hafi ekki legið frammi gögn er vörðuðu sölu fasteignarinnar. Hins vegar hafi kærði lýst hvernig söluferlinu hefði verið háttað, þar með talið að ákvörðun um sölu eignarinnar og söluþóknun hafi verið tekin á veðhafafundi þar sem rituð hafi verið fundargerð og að ákvörðun söluverðs hefði byggst á verðmati H lögmanns og fasteignasala sem og starfsmanna J. Þá hafi lækkun söluverðs ráðist af yfirvofandi nauðungarsölu og ástandi fasteignarinnar, þar á meðal þakjárni. Jafnframt því hefði ekki verið tekið tillit til byggingarréttar við söluna.

Vísað er til þess að kærði hafi ekki talið ástæðu til að leggja fram umbeðin gögn þrátt fyrir kröfu skiptafundar. Vegna þeirrar afstöðu hafi kröfuhafar tekið ákvörðun um að kosið yrði um að fresta skiptafundi og gefa skiptatjóra tækifæri á að leggja fram umbeðin gögn og boða strax í kjölfar til framhaldsfundar. Við framlagningu kvörtunar í máli þessu hafi skiptastjóri hvorki boðað til framhaldsfundar né lagt fram umbeðin gögn þrátt fyrir ítrekanir allra kröfuhafa sem sótt hafi fundinn. Auk þess hafi kærði ekki boðað til fundar til þess að jafna ágreining um afstöðu hans til sértökukröfu kæranda.

Kærandi vísar til þess að fyrir liggi fullyrðing stærsta veðhafa þrotabúsins um að veðhafafundur hafi ekki verið haldinn vegna sölu fasteignarinnar og að söluþóknun hafi ekki verið borin undir veðhafann. Auk þess hafi veðhafinn lagt fram gögn sem sýni að kærða hafi verið bent á að söluverð eignarinnar hafi verið of lágt. Með hliðsjón af því byggir kærandi á að kærði hafi ítrekað veitt kröfuhöfum rangar upplýsingar um sölu fasteignarinnar og hvernig ákvörðun um söluþóknun hafi átt sér stað.

Kærandi kveðst jafnframt gera athugasemdir við að kærði, sem skiptastjóri, hafi neitað að leggja fram umbeðin gögn vegna sölu fasteignarinnar, að fasteignin hafi verið seld tugmilljónum undir markaðsverði, að ekki hafi verið orðið við skýrri og ítrekaðri kröfu kröfuhafa um að boða til framhalds skiptafundar, að ekki hafi verið orðið við kröfu um úrbætur á drögum fundargerðar skiptafundar eftir athugasemdir kröfuhafa og að kröfuhöfum hafi verið veittar rangar upplýsingar um hinn ætlaða veðhafafund og ætlaða aðkomu Mikluborgar að verðmati fasteignarinnar.

Kærandi vísar til þess að gerðar hafi verið aðfinnslur við störf kærða sem skiptastjóra með bréfi til Héraðsdóms, dags. x. júlí 20xx.

Kærandi byggir á að framangreind háttsemi kærða stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, enda hafi kærði verið staðinn að því að greina kröfuhöfum búsins rangt frá um málefni sem vörðuðu kröfuhafa þess með beinum hætti og leiddi til fjárhagslegs ávinnings kærða, sem skiptastjóra, með beinum eða óbeinum hætti í gegnum undirliggjandi söluþóknun. Sú háttsemi kærða, sem skiptastjóra, að neita kröfuhöfum aðgangi að gögnum varðandi söluna og greina þeim rangt frá geri háttsemi kærða enn alvarlegri enda sé aðgangur að gögnum búsins forsenda þess að kröfuhafar geti gætt hagsmuna sinna og veitt skiptastjóra aðhald. Samkvæmt því sé gerð krafa um að kærða verði gert að sæta agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Í viðbótarathugasemdum sínum til nefndarinnar vísaði kærandi til þess að Héraðsdómur hefði kveðið upp úrskurð í máli nr. Æ-xxxx/202x þann x. september 20xx þar sem kærða hafi verið vikið úr starfi skiptastjóra viðkomandi þrotabús. Byggir kærandi á að tilgreindur úrskurður styðji kvörtunarefni í máli þessu og kröfur kæranda í því.

III.

Kærði krefst þess aðallega að kvörtuninni verði vísað frá en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Þá krefst kærði málskostnaðar úr hendi kæranda og að úrskurður nefndarinnar verði aðfararhæfur.

Varðandi aðalkröfu um frávísun vísar kærði til þess að ágreiningur málsins heyri ekki undir valdsvið nefndarinnar. Þannig hafi öll þau atvik sem kærandi byggi á átt sér stað undir skiptum á þrotabúi D ehf. sem kærði hafi verið skiptastjóri í. Við þau störf hafi kærði verið opinber sýslunarmaður, sbr. 3. mgr. 77. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt því séu störf skiptastjóra ekki lögmannsstörf í venjulegum skilningi enda komi skiptastjóri ekki fram sem lögmaður tiltekins umbjóðanda gagnvart tilteknum gagnaðila, líkt og siðareglur lögmanna bjóði. Af því leiði að meint háttsemi kærða verði ekki heimfærð undir þau ákvæði siðareglnanna sem varða réttindi og skyldur lögmanns gagvart umbjóðanda eða gagnaðila.

Kærði bendir á að víða í lögum nr. 21/1991 sé kveðið á um sérstaka málsmeðferð ágreingsefna undir búskiptum og hvernig úr þeim eigi að leysa. Kveði lögin einnig á um lögbundið eftirlit dómstóla með störfum skiptastjóra. Sé þannig sérstaklega fjallað um aðfinnslur kröfuhafa um störf skiptastjóra og meðferð þeirra í 76. gr. laganna. Hafi löggjafinn ákveðið þann farveg sem ágreiningur kröfuhafa um störf skiptastjóra eiga að fara í. Sé það á valdi dómara að leysa úr slíkum ágreiningi eða aðfinnslum. Hafi kærandi þegar nýtt sér úrræði 76. gr. laga nr. 21/1991 með því að beina aðfinnslum í garð kærða, sem skiptastjóra, til Héraðsdóms. Séu þær aðfinnslur nákvæmlega þær sömu og kvörtun í máli þessu taki til.

Kærði byggir einnig á að rök tengd mannréttindum og réttlátri málsmeðferð standi því í vegi að einstaklingur sé borinn sömu sökunum tvisvar sinum eða fyrir tveimur úrskurðaraðilum á sama tíma. Þannig standist það ekki skoðun að kærði sé settur í þá íþyngjandi stöðu að svara til saka fyrir nákvæmlega sömu ásakanir fyrir tveimur úrskurðaraðilum, þ.e. héraðsdómi og úrskurðarnefnd lögmanna, vegna starfa sinna sem skiptastjóri. Slíkt myndi þar að auki leiða til þeirrar ósanngjörnu og óréttlátu niðurstöðu að hægt væri að beita kærða viðurlögum oftar en einu sinni fyrir sömu háttsemi. Stangist slíkt á við réttarvernd stjórnarskrárinnar og Manréttindasáttmála Evrópu.

Kærði byggir jafnframt á að kvörtun kæranda sé það óskýr að ekki verði úr henni leyst. Í kvörtuninni sé þannig engin gangskör gerð að því að heimfæra hina meintu háttsemi kærða og málsatvik undir ákvæði siðareglna lögmanna. Hvergi sé í kvörtun vísað til tiltekins ákvæðis siðareglna lögmanna og sé því ómögulegt fyrir kærða að átta sig á því gegn hvaða ákvæðum hann á að hafa brotið. Komi það beinlínis niður á vörnum kærða sem geti ekki getið í eyðurnar hvað þetta varðar. Auk þess verði siðareglum lögmanna ekki beitt um störf skiptastjóra að öllu leyti, líkt og áður greinir.

Varðandi efnisþátt málsins hafnar kærði í fyrsta lagi staðhæfingum kæranda um að hann hafi gefið kröfuhöfum rangar upplýsingar. Vísar kærði annars vegar um það efni til þess að það sé hreinn tilbúningur að hann hafi lýst því yfir á skiptafundi að ákvörðun um sölu fasteignar búsins og söluþóknun fasteignasala hafi verið tekin á veðhafafundi. Hið rétta sé að kauptilboð hafi verið borið undir veðhafa eignarinnar sem hafi ekki gert athugasemdir við söluna. Hins vegar vísar kærði til þess að hann hafi átt samtal við starfsmann fasteignasölunnar J um verðmat fasteignarinnar og hafi viðkomandi upplýst um að eignin væri ofmetin. Séu fullyrðingar kæranda um annað efni því orð gegn orði.

Í öðru lagi vísar kærði til þess að hann hafi aldrei neitað að halda framhaldsskiptafund. Aftur á móti hafi kærði ekki getað orðið við þeirri ósk að boða til hans innan viku frá fyrsta fundi eins og krafa hafi verið gerð um. Hafi það helgast af önnum og sumarleyfum enda fyrsti skiptifundur haldinn þann x. júní 20xx. Aðeins níu dögum seinna, eða þann x. júlí 20xx, hafi verið búið að senda aðfinnslur til Héraðsdóms. Í ljósi þeirra hafi kærði, sem skiptastjóri, metið að réttast væri að fá afstöðu dómara til aðfinnslnanna áður en boðað yrði til framhaldsfundar. Bendir kærði einnig á að ekki verði séð hvernig boðun til skiptafundar undir búskiptum samkvæmt lögum nr. 21/1991 geti átt undir valdsvið nefndarinnar.

Kærði vísar til þess í þriðja lagi að slíkt hið sama eigi við um meinta synjun hans um að afhenda gögn. Hafi kærði þannig aldrei hafnað þeirri beiðni. Afhending hafi dregist sökum sumarleyfa og annarra anna. Mörg af þeim gögnum sem óskað hafi verið eftir hafi jafnframt verið aðgengileg lögmönnum, svo sem kaupsamningur o.fl. Þá hafi öll umbeðin gögn verið lögð fram í fyrrgreindu aðfinnslumáli fyrir héraðsdómi.

Í fjórða lagi kveðst kærði ekki getað annað en lýst furðu sinni yfir þeirri aðfinnslu er lýtur að úrbótum á drögum að fundargerð skiptafundar. Þannig hafi viðkomandi fundi ekki verið slitið heldur frestað og því ekki um það að ræða að fundargerð hafi verið lokið, þaðan af síður að kröfuhafar hafi átt rétt til þess að krefjast þess að tiltekin drög að fundargerð ættu að liggja fyrir. Jafnframt því sé hvergi í lögum nr. 21/1991 áskilið að kröfuhafar þurfi að samþykkja fundagerð eða eigi ótvíræðan rétt til þess að breyta fundargerðum. Þá verði ómögulega séð undir hvaða ákvæði siðareglna lögmanna eigi að heimafæra þessa meintu háttsemi.

Varðandi boðun til ágreiningsfundar vísar kærði í fimmta lagi til þess að að hann hafi rætt við lögmann kæranda þann 25. september sl. þar sem sammælst hafi verið um að bera þann ágreining undir dóm. Byggir kærði jfnramt á því að það falli utan valdsviðs nefndarinnar að fjalla um með hvaða hætti skiptastjóri boði til ágreiningsfundar undir búskiptum.

Í sjötta lagi hafnar kærði því að viðkomandi fasteign hafi verið seld undir markaðsvirði. Þvert á móti hafi eignin verið seld á raunvirði miðað við aðstæður í heild, hið minnsta á ásættanlegu verði. Bendir kærði í því samhengi á að eignin hafi verið auglýst til sölu í tvö ár en án árangurs. Við sölu fasteignarinnar hafi legið fyrir verðmat fasteignasala á fasteigninni. Þá hafi söluþóknun fasteignasala, 2,5%, verið gangverð í fasteignaviðskiptum með atvinnu- og iðnaðarhúsnæði og því eðlilegt.

Um þetta efni vísar kærði jafnframt til þess að nauðungarsölubeiðni hafi legið fyrir við upphaf skiptanna og hafi kærði því aðeins getað varist henni í sex mánuði samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991. Hafi kærði ekki getað treyst því að fá annað tilboð í eignina á þeim tíma, miðað við fyrri sölutilraunir. Í ofanálag hafi verið mikið óvissuástand í þjóðfélaginu vegna Covid-19 faraldursins. Hafi kærði, sem skiptastjóri, því metið stöðuna sem svo að best væri að grípa gæsina meðan hún gæfist og fá töluverða fjármuni inn í búið.

Samkvæmt öllu framangreindu beri að hafna öllum kröfum kæranda í málinu.

Niðurstaða

                                                                          I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Líkt og áður er rakið hefur kærandi krafist þess fyrir nefndinni að kærða verði gert að sæta agaviðurlögum fyrir háttsemi hans í störfum sem skiptastjóri þrotabús D ehf. Kærði hefur hins vegar aðallega krafist þess að kvörtuninni verði vísað frá nefndinni en til vara að kröfum kæranda verði hafnað.

Í 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna er kveðið á um að ef í máli er réttarágreiningur, sem ekki fellur undir valdsvið nefndarinnar, vísi hún málinu frá.

Skiptastjórar í þrotabúum eru skipaðir af héraðsdómi, sbr. 75. gr. laga nr. 21/1991. Það er ekki skilyrði að þeir séu starfandi lögmenn, sbr. 2. mgr. greinarinnar.

Í 76. gr. laga nr. 21/1991 kemur fram að þeim sem á kröfu á hendur búinu sé meðan á gjaldþrotaskiptum stendur heimilt að bera upp skriflegar aðfinnslur um störf skiptastjóra við héraðsdómara sem hefur skipað hann. Komi slíkar aðfinnslur fram eða berist héraðsdómara með öðrum hætti vitneskja um að framferði skiptastjóra í starfi kunni að vera aðfinnsluvert skal hann kveðja skiptastjóra og þann sem kann að hafa haft uppi aðfinnslur á sinn fund til að tjá sig um málefnið. Í 2. mgr. 76. gr. laganna er svo fjallað um úrræði héraðsdómara, telji hann aðfinnslurnar á rökum reistar.

Fyrir liggur að kærandi bar upp skriflegar aðfinnslur um störf kærða við Héraðsdóms þann x. júlí 20xx á grundvelli 1. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991. Af efni hinna skriflegu aðfinnslna verður ráðið að þær hafa lotið að nákvæmlega sömu atvikum og þáttum og kvörtunarefni kæranda í máli þessu samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 eru reist á. Hlutu hinar skriflegu aðfinnslur kæranda gagnvart kærða efnislega meðferð fyrir Héraðsdómi, sbr. úrskurð dómsins x. október 20xx í máli nr. Æ-xxxx/20xx, og Landsrétti, sbr. úrskurð réttarins x. janúar 20xx í máli nr. xxx/20xx, svo sem nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan.

Að mati nefndarinnar verður ekki annað ráðið af orðalagi framangreindra ákvæða laga nr. 21/1991 en að löggjafinn marki þar ákveðnum ágreiningsmálum og álitaefnum, er varða meðal annars ágreining um störf skiptastjóra, þann farveg að fela skuli hlutaðeigandi héraðsdómstóli, og eftir atvikum æðri dómi, úrlausn þeirra, sbr. til hliðsjónar úrskurði nefndarinnar 4. september í máli nr. x/20xx og x. október 20xx í máli nr. x/20xx. Samkvæmt því geti ekki komið til greina að um störf skiptastjóra sé jafnframt fjallað á öðrum vettvangi, jafnvel þótt um sé að ræða starfandi lögmenn.

Í samræmi við framangreint verður að mati nefndarinnar að telja að kvörtunarefni kæranda, sem áður er lýst og með tilliti til þess hvernig þau eru sett fram í kvörtun, lúti að þáttum sem varði beint starfsskyldur kærða sem skiptastjóra sem afmarkaðar eru í lögum nr. 21/1991. Fær það að mati nefndarinnar stoð í samanburði kvörtunarefna í málinu annars vegar og hinum skriflegu aðfinnslum gagnvart kærða sem kærandi bar undir Héraðsdóm þann x. júlí 20xx hins vegar. Samkvæmt því og að teknu tilliti til fyrrgreindra heimilda laga nr. 21/1991, sbr. einkum 76. gr. laganna, fellur ágreiningsefnið utan valdsviðs nefndarinnar. Verður því að vísa málinu frá nefndinni.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Kristinn Bjarnason

Valborg Þ. Snævarr

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson